139. löggjafarþing — 22. fundur
 8. nóvember 2010.
njósnir í þágu USA í höfuðborgum Norðurlanda.

[15:28]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í síðustu viku var upplýst að bandarísk stjórnvöld hafa í a.m.k. 10 ár rekið sérstakar og leynilegar njósnasveitir í 200 löndum, þar á meðal í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Sveitirnar hafa aðstöðu í allra næsta nágrenni bandarísku sendiráðanna, í þeim eru 15–20 manns sem fylgjast með öllu sem fram fer og þeim sem leið eiga um, ljósmynda og veita eftirför einstaklingum sem þeim finnast grunsamlegir og gætu að þeirra mati ógnað hagsmunum eða eignum Bandaríkjamanna.

Njósnasveitirnar safna upplýsingum 24 tíma í sólarhring allan ársins hring og skrá upplýsingarnar sem þær safna í bandarískan gagnagrunn sem nefnist SIMAS og er samtengdur um heim allan. Um þennan gagnagrunn má lesa á heimasíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins og þar kemur fram hvernig upplýsingar eru varðveittar og hvernig með þær er farið.

Þegar tilvist starfsemi af þessu tagi er staðfest í Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi liggur beinast við að álykta sem svo að hún fari einnig fram hér á landi. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hvort hann hafi kynnt sér það sem fram hefur komið um þessa leynilegu njósnastarfsemi á undanförnum dögum í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, hvort hann hafi kannað sérstaklega hvort viðlíka starfsemi fer fram í nágrenni bandaríska sendiráðsins á Laufásvegi eða í Þingholtsstræti, þ.e. hvort íslenskir ríkisborgarar séu vaktaðir og skráðir í gagnagrunninn SIMAS. Ef svo er, hvort það sé gert með vitund íslenskra stjórnvalda eða jafnvel með leyfi þeirra, og þá með hvaða lagaheimild. En viti ráðherrann ekki um slíka starfsemi hér spyr ég hvort hann muni hafa frumkvæði að því að rannsaka hvort njósnað er um og haft eftirlit með íslenskum ríkisborgurum með sama hætti og á Norðurlöndunum og hvort hann muni gefa þinginu skýrslu um rannsókn sína á því á sama hátt og starfsbræður hans á hinum Norðurlöndunum hyggjast gera.



[15:30]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Já, mér er kunnugt um fréttir frá Norðurlöndunum þess efnis að Bandaríkjamenn hafi haldið úti sveitum manna til að fylgjast með ferðum fólks við sendiráðin og komið upp gagnagrunnum af því tilefni. Það hefur komið fyrir þingin erlendis. Ég hef leitað upplýsinga innan dómsmálaráðuneytisins um þessi mál en vek athygli á að samskipti sendiráða, þar á meðal hins bandaríska við íslensk stjórnvöld, fara í gegnum utanríkisráðuneytið. Hvað varðar aðkomu íslenskra lögregluyfirvalda, sem spurt er um, hef ég leitað eftir upplýsingum, eins og ég segi, í íslenska dómsmálaráðuneytinu.

Ég hef átt fund með ríkislögreglustjóra um þetta efni og farið þess á leit við hann að hann geri mér grein fyrir því hvort eitthvað sambærilegt hafi átt sér stað og ásakanir eru uppi um á Norðurlöndunum að gerst hafi þar. Ég mun verða við beiðni hv. þingmanns um að flytja þinginu skýrslu um það efni þegar upplýsingar liggja fyrir.



[15:31]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég ætlaði mér fyrst að beina þessum fyrirspurnum til hæstv. utanríkisráðherra en að athuguðu máli heyrir málið auðvitað beint til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Ég fagna því að hæstv. ráðherra mun láta kanna málið og leggja niðurstöður þess fyrir þingið.

Ég geri ekki lítið úr því að bandarísk sendiráð eru hættusvæði vegna stríðsrekstrar Bandaríkjamanna víða um heim fyrr og nú. Þess vegna þarf að tryggja bandarískum sendiráðum sérstaka vernd og öryggi, jafnvel umfram önnur sendiráð. En, frú forseti, slík trygging má aldrei vera á kostnað mannréttinda eða persónufrelsis almennra borgara eða þeirra sem eru svo óheppnir að búa í næsta nágrenni sendiráðsins sem er í miðju íbúðahverfi í Reykjavík.