139. löggjafarþing — 22. fundur
 8. nóvember 2010.
um fundarstjórn.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:33]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Miklar umræður hafa verið í þinginu um ákvörðun sjávarútvegsráðherra varðandi úthafsrækjuveiðar og farið hafa fram utandagskrárumræður um það málefni. Bornar hafa verið fram óundirbúnar fyrirspurnir gagnvart hæstv. sjávarútvegsráðherra en hann hefur í engu svarað þeim alvarlegu ásökunum sem á hann eru bornar í þessum efnum. Hann hefur í engu svarað því lögfræðiáliti sem rökstyður mjög glöggt að hann sé að brjóta lög með þeirri ákvörðun sinni og embættismenn ráðuneytisins komu að því á fundi sjávarútvegsnefndar að svör mundu liggja fyrir innan skamms.

Af því tilefni lagði ég fram skriflega fyrirspurn til hæstv. ráðherra þann 18. október og það er eftir öðru í þessu máli að hann hefur ekki fylgt þingsköpum um að gefa þau svör sem óskað er eftir að hann gefi í þessu máli. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að hún gangi eftir því við ráðherra að hann komi fram af virðingu við þingið í þessu máli. Hann hefur sýnt algera vanvirðingu gagnvart þingi og þingmönnum og slík vinnubrögð geta ekki gengið til lengdar.



[15:35]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar og bið virðulegan forseta um að ítreka það við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gefa svör hvað varðar úthafsrækjuna. Um daginn var utandagskrárumræða sem ég tók þátt í og beindi að lokum einni spurningu til ráðherrans vegna þess að allar aðrar spurningar sem spurt hefur verið í þessu máli svara sér meira og minna sjálfar. Hún snerist um það að veiðarnar og sú aðferðafræði sem ráðherra og ráðuneyti notar hafa verið taldar ólöglegar og eru það mjög líklega. Því spurði ég hæstv. ráðherra hvenær ráðuneyti og ráðherra hygðust láta af lögbrotum og gefa út kvóta. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað og ég ítreka við hæstv. forseta að leita eftir svörum hjá hæstv. ráðherra.



[15:36]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Herra forseti. Ég árétta ábendingu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál. Hæstv. ráðherra svarar ekki eðlilegum spurningum. Uppi eru miklar efasemdir um að hæstv. ráðherra hafi farið að lögum. Hæstv. ráðherra hefur undir höndum lögfræðiálit í þá veru. Við sem sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis höfum hvað eftir annað óskað eftir því að fá viðbrögð ráðuneytisins við þessu. Okkur hefur verið sagt að þeirra viðbragða sé að vænta innan skamms en það bólar ekkert á þeim enn þá.

Ég vil síðan vekja athygli á því að ákvörðun hæstv. ráðherra hafði í för með sér tjón fyrir ríkið upp á 700 millj. kr. Ákvörðun hæstv. ráðherra skaðar starfsemi Byggðastofnunar sem því nemur. Byggðastofnun er fyrir vikið hálflömuð. Hún er komin niður fyrir lögbundið lágmark í eigin fé, það veldur því að stofnunin er hálflömuð. Það er því mjög (Forseti hringir.) alvarlegur hlutur sem hæstv. ráðherra verður að taka alvarlega og svara þingmönnum þegar hann er spurður.



[15:37]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra er á mælendaskrá um fundarstjórn forseta.



[15:37]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var kvartað undan því að ráðherrar svari ekki Alþingi. Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra skriflega og ég fékk svar sem átti ekki við þá spurningu sem ég spurði. Þegar ég spurði hversu há ríkisábyrgðin væri, þ.e. á Icesave í krónum á gengi undirskriftardags, var mér sagt að það væru 104 milljarðar en þar var meðtalið það sem Landsbankinn greiðir hugsanlega í þessu efni. En skuldabréfið sem skrifað var undir var 693 milljarðar.

Síðan spurði ég að því af hverju það hefði ekki verið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Svarið við því er eiginlega út í hött. Ég óska eftir því að forseti kanni þessar fyrirspurnir (Forseti hringir.) og svör, þau eru skrifleg, og athugi hvort ekki sé hægt að fá réttara svar.



[15:39]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmenn gera hér að umtalsefni ákvörðun ráðherra um að taka rækju út úr kvóta á nýbyrjuðu fiskveiðaári. Ákvörðunin hefur verið skýrð og rökstudd. Við höfum átt um það umræður á Alþingi utan dagskrár.

Hitt er hins vegar alveg hárrétt að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur lagt fram fyrirspurn um mál þessu tengt og beðið um skriflegt svar. Mér þykir leitt að henni hafi ekki verið svarað enn en svarið mun koma alveg á næstunni, mjög fljótlega.

Varðandi efnislega umræðu um hvort það hafi skaðað Byggðastofnun að hún hafi veitt veð í óveiddum rækjukvóta o.s.frv., hef ég áður rætt þau mál á þingi og hef engu við þau að bæta.



[15:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hvet forseta til að fylgja þessum málum eftir. Hér kom hæstv. ráðherra og er það vel. Hann lofaði þingheimi og hv. þm. Jóni Gunnarssyni að svara þeirri fyrirspurn sem hann átti að vera búinn að svara skriflega fyrir löngu. Ég vek athygli á því að hv. þm. Jón Gunnarsson er búinn að fylgja þessu máli eftir frá 2. september á þessu ári. Við sjáum að vísu enn þá grófari dæmi um að fyrirspurnum sé ekki svarað því að sama máli gegnir um mál sem ég tók sérstaklega undir sem snýr að vísu ekki að þessum hæstv. ráðherra heldur að hvorki meira né minna en að hæstv. forsætisráðherra. Fyrst kom fram fyrirspurn um mál sem ég tók upp og bað hæstv. forseta að hlutast til um 16. júní á þessu ári — 16. júní. Engin svör hafa enn fengist önnur en fullkominn útúrsnúningur.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki sæmandi og þingið verður að fara að standa plikt sína gagnvart framkvæmdarvaldinu og fá fram þau svör sem þingmenn biðja um.



[15:41]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmönnum sem sagt hafa að ráðherrar eigi að svara eins fljótt og þeim er auðið og greiðlega og eins skýrt og þeir geta.

Það liggur fyrir þinginu frumvarp sem mælt var fyrir í síðustu viku þar sem með einhverjum hætti á að hnýta það í lög. Mér finnst hins vegar að hv. þingmenn verði að hafa hóf á því hvernig þeir setja fram spurningar sínar. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom hér upp og vísaði til fyrirspurnar sem hann lagði fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um daginn og hann hefur ekki fengið svör við henni. Hvernig var sú fyrirspurn? Hún var svona eins og hann rakti hana: Hvenær hyggst hæstv. ráðherra láta af lögbrotum sínum? Er ætlast til þess í fullri alvöru að ráðherrar svari spurningu af þessu tagi? Telja menn virkilega að ráðherrar taki vísvitandi ákvarðanir sem brjóta lög? Að sjálfsögðu ekki.

Ég var hér sjálfur þegar utandagskrárumræðan við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór fram og hvað sem menn segja um ákvörðun hans rakti hann nákvæmlega við hvaða lagaákvæði sú ákvörðun studdist.



[15:43]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gefur út þá yfirlýsingu að hann muni svara innan skamms. Það er reyndar erfitt að geta í hvað það þýðir á hans bæ, hvað margir dagar eða vikur muni líða þar til hann virðir okkur þingmenn svars í þessum málum. Hann hefur ekki gert það í allri þeirri umræðu sem hann vitnaði sjálfur til í þessu máli.

Málið er sýnu alvarlegra fyrir þær sakir að hér er verið að ræða um mögulegt lögbrot. Hér er rökstutt lögfræðiálit sem segir að umræddur ráðherra brjóti með þessu lög og þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur upp og spyr að því hvort einhverjum detti það í hug að ráðherrar brjóti lög í þessari ríkisstjórn má benda á að hæstv. umhverfisráðherra (Gripið fram í.) hefur verið dæmd. (Utanrrh.: … Víst.) Hún bregst við því með því að vísa því til Hæstaréttar og hún situr enn. Það eru svona mál sem ríkisstjórnin í öllu sínu lýðræðishjali sýnir í vinnubrögðum sínum, virðulegi forseti. Það er ekkert annað en vanvirðing gagnvart þinginu.



[15:44]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hann hyggist svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hann eru lagðar. En ég vil þó ítreka vegna ræðu hæstv. utanríkisráðherra að það er ekki síður mikilvægt og jafnvel mun mikilvægara að hæstv. ráðherrar bregðist við ef grunur leikur á að um lögbrot sé að ræða, að þeir snúi þá af villu síns vegar, leiðrétti mál sín og fari að vinna að málunum þannig að ekki leiki vafi á lögmæti.

Hæstv. ráðherrar. Ekki aðeins hefur legið fyrir lögfræðiálit á lögmannsstofu úti í bæ heldur hefur einnig legið fyrir álit innan ráðuneytisins sem bendir til þess að bregðast hefði átt við með öðrum hætti. Þess vegna liggur verulega á að ráðherrann bregðist við, svari (Forseti hringir.) og rökstyðji mál sitt betur en hann hefur gert hingað til.



[15:45]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að greina okkur frá því að hann ætli að reyna að drífa sig í að svara núna innan skamms. Þetta var okkur reyndar líka sagt í byrjun september og nú er farið að líða nokkuð á nóvember. En við skulum láta gott heita í þessum efnum og bíða svarsins.

Aðeins út af þessum 700 millj. kr. sem ákvörðun hæstv. ráðherra kostaði Byggðastofnun. Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál og ekki hægt að vísa því frá sér af einhverri léttúð. Ég heyrði að hæstv. fjármálaráðherra var spurður um þetta í útvarpinu um daginn og þá sagði hann eitthvað á þessa leið: Ja, það verður eitthvað að láta undan sjálfu hruninu.

Ýmislegt hefur verið sagt um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en þetta er í fyrsta skipti sem mér er kunnugt um að hann sé talinn vera persónugervingur hrunsins.



[15:46]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér kemur í sjálfu sér á óvart að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson skuli velja að gera svo mjög að umtalsefni veðtöku í rækjukvóta. Ég var bara að benda á að að mínu mati eru margir alvarlegir hnökrar á núverandi fiskveiðilöggjöf og einn af þeim birtist okkur í þeirri stöðu að aflaheimildir voru t.d. farnar af stórum útgerðarstað eins og Flateyri. Fólkið sem býr þar er gjörsamlega (Gripið fram í.) varnarlaust gagnvart slíkum aðgerðum.

Þess vegna þótti rétt að bregðast við því eins og hægt var innan núgildandi laga. Ég bendi á að það er margt í lögum um stjórn fiskveiða sem þarf að endurskoða (Forseti hringir.) og að því er unnið.