139. löggjafarþing — 22. fundur
 8. nóvember 2010.
umræður utan dagskrár.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[15:48]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem nokkuð hefur verið í umræðunni og hefur á sér margar hliðar. Ég ætla að reyna að einangra umræðuna nokkuð en áskil mér allan rétt til að fylgja málinu enn frekar eftir og mun gera það.

Við þekkjum það að hér samþykktu ríkisstjórnarflokkarnir að setja af stað stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins. Þegar menn lögðu í þá vegferð var gert ráð fyrir að Bankasýslan ætti að halda utan um meirihlutaeign ríkisins í þrem bönkum en niðurstaðan varð sú að hún heldur fyrst og fremst utan um eignarhlut í einum banka, Landsbankanum. Röksemdirnar voru einfaldlega þær að þetta væri mjög mikilvægt til að halda faglegum vinnubrögðum og til að ráðherra hefði ekki bein áhrif á daglegan rekstur bankanna. Við getum þá kannski gagnályktað sem svo að ef það er ekki sérstök stofnun utan um eignarhluti ríkisins muni hæstv. ráðherra hafa bein afskipti af viðkomandi stofnun. Látum það liggja milli hluta, það er áhugaverð umræða ein og sér, en til að fylgja því eftir að faglegum vinnubrögðum yrði beitt voru sett sérstök lög, eðli málsins samkvæmt, um stofnunina og hvorki meira né minna ein eigendastefna ríkisins sem kvað m.a. á um að settar yrðu sérstakar verklagsreglur sem hver og einn banki skyldi fara eftir.

Í markmiðslýsingu laganna segir, með leyfi forseta, að tryggja eigi „gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings“. Þar segir líka að Bankasýslan eigi að hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu ríkisins eins og hún er á hverjum tíma.

Sömuleiðis segir, með leyfi forseta:

„Ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið.“

Nú er alveg ljóst að reglurnar voru brotnar í Vestia-málinu. Eignirnar sem um er að ræða, sem voru seldar úr Landsbankanum, voru ekki auglýstar til sölu. Það var ekki farið eftir verklagsreglum sem voru á heimasíðunni, heldur var henni í rauninni lokað eða verklagsreglurnar fjarlægðar meðan á þessum viðskiptum stóð.

Það hefur komið fram í hv. viðskiptanefnd að starfsmönnum Bankasýslunnar var fullkunnugt um að það ætti að gera þetta og forstöðumaðurinn þrætti ekki í viðtölum við fjölmiðla fyrir það að verklagsreglur hefðu verið virtar að vettugi en taldi að vegna þess að um væri að ræða lífeyrissjóðina væri það í lagi. Það stendur hins vegar hvergi í lögunum að það sé í lagi að fara á skjön við lögin og brjóta verklagsreglur ef um lífeyrissjóði er að ræða.

Síðan gerist það að Landsbankinn mun eignast 30% í Framtakssjóðnum sem ekki hefur farið mikið fyrir í umræðunni. Viðskiptin fóru þannig fram að Framtakssjóðurinn setti 19,5 milljarða kr. í tiltekin fyrirtæki úr Vestia-pakkanum, þ.e. Icelandic Group, Teymi, Vodafone, Skýrr, EJS, HugAx og Húsasmiðjuna, og Landsbankinn skuldbatt sig til þess að setja allt að 1,5 milljarða kr. að auki í Plastprent og Húsasmiðjuna. Framtakssjóðurinn keypti þetta á 19,5 milljarða kr. en Landsbankinn lét þessi fyrirtæki og 1,5 milljarða kr. að auki.

Á sama tíma kaupir Landsbankinn hlut í Framtakssjóðnum fyrir 18 milljarða kr. Þetta minnir nokkuð á viðskipti sem við sáum hér á því tímabili sem við viljum helst ekki vita af.

Virðulegi forseti. Kaupin áttu að ganga í gegn í byrjun október en hafa ekki enn gengið í gegn. Hæstv. ráðherra hefur reynt að segja í viðtölum við fjölmiðla að hann megi ekki hafa nein afskipti af málum, megi ekki hafa afskipti af því þegar stofnun sem undir hæstv. ráðherra heyrir brýtur verklagsreglur eða samþykkir það og það er farið á skjön við lögin, með þeim rökum að hann megi ekki hafa dagleg afskipti af stofnuninni.

Ég las upp úr lögunum áðan ákvæði um að hann megi koma með fyrirmæli og því er kannski eðlilegt að menn spyrji hvort ekki sé eðlilegt að hæstv. ráðherra komi með fyrirmæli til stofnunarinnar um að hún fari eftir lögum um hana.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra sjö spurninga:

1. Vissi ráðherra af kaupum Framtakssjóðsins áður en þau fóru fram?

2. Samþykkti ráðherra að verklagsreglum væri ekki fylgt eftir eða gerði ekki athugasemdir við það?

3. Er ráðherra sáttur við að ekki hefur verið farið eftir verklagsreglum við söluna?

4. Samþykkti ráðherra eða gerði ekki athugasemdir við að Landsbankinn keypti sig inn í Framtakssjóðinn?

5. Finnst ráðherra eðlilegt að Bankasýslan, sem heyrir undir hann, fari á skjön (Forseti hringir.) við lög sem um hana gilda og samþykki að Landsbankinn fari ekki eftir verklagsreglum?

6. Er ráðherra meðvitaður um að stofnunin hafi brotið fleiri lög og verklagsreglur?

7. Nú (Forseti hringir.) er enn hægt að fara eftir verklagsreglum og lögum í þessu tilviki, mun ráðherra beita sér fyrir því að stofnunin geri það?



[15:53]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að fara yfir þetta mál. Það var þannig að 20. ágúst sl. tilkynntu Landsbankinn og Framtakssjóður Íslands að þeir hygðust taka upp samstarf um viðskipti sem fólu í sér sölu Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestia til Framtakssjóðsins samhliða fjárfestingu Landsbankans í Framtakssjóðnum. Þarna áttu í hlut sjö félög sem fylgdu Vestia inn í Framtakssjóðinn en hjá þeim vinna samtals um 6 þús. manns. Félögin eru Icelandic sem áður hét SH og er alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með samtals um 30 dótturfélög og starfsemi í 14 löndum, Teymi sem er eignarhaldsfélag á sviði fjarskipta og upplýsingatækni og á eftirfarandi félög: Vodafone, Skýrr, EJS og HugAx, þriðja er Húsasmiðjan sem er blóma- og byggingarvöruverslun með 16 verslanir um allt land og það fjórða er Plastprent sem er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu plastumbúða og plastfilma.

Þetta gerist þannig að endurgjaldið fyrir eignarhald Framtakssjóðsins fyrir Vestia er 19,5 milljarðar kr., eins og málshefjandi benti réttilega á, en um leið skuldbatt Landsbankinn sig til að eignast 30% hlut í sjóðnum. Kostgæfnisathugun vegna þessara kaupa fer nú fram og það er ástæða þess að þau eru ekki endanlega um garð gengin.

Þegar rætt er um eigendastefnu ríkisins í sambandi við þessi viðskipti er m.a. rétt að hafa í huga eftirfarandi atriði, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og kemur fram fyrir hönd ríkisins á aðal- og hluthafafundum. Stjórn og starfsfólk Bankasýslu ríkisins eiga hvorki að taka þátt í daglegum rekstri fyrirtækjanna né hafa áhrif á ákvarðanir þeirra utan hefðbundinna samskiptaleiða sem tengjast félagsformi hvers fyrirtækis …“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Fjármálafyrirtæki skulu koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja, úrlausn skuldavanda einstaklinga, sölu eigna o.fl. Mikilvægt er að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir og birtir á heimasíðum fyrirtækjanna. Við þetta ættu fjármálafyrirtæki að hafa til hliðsjónar álit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008 …“

Viðskiptin með Vestia samræmast þeim meginmarkmiðum eigendastefnu ríkisins að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálamarkaðar, enda hætta á hagsmunaárekstrum til staðar innan bankans á meðan atvinnufyrirtæki eru í beinni eigu hans. Þá samrýmast viðskiptin þeim undirmarkmiðum eigendastefnunnar að fjármálafyrirtæki sem ríkið fer með eignarhlut í skuli haga starfsemi sinni þannig að rekstur þeirra sé skilvirkur og að markvisst sé unnið að endurskipulagningu þess rekstrar. Í eigendastefnunni er ekki fjallað um sölu eigna fjármálafyrirtækjanna með beinum hætti, en þó skal nefna að eigendastefnan gerir ráð fyrir því að fjármálafyrirtækin komi sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni.

Bankasýslan var upplýst um að til stæði þetta samstarf Landsbankans og Framtakssjóðsins daginn áður en það var tilkynnt. Bankasýslan tók hins vegar ekki þátt í þeirri ákvörðun á nokkurn hátt eða nefndum viðskiptum. Stjórnin fór yfir þetta eftir á á fundi og taldi í meginatriðum að þessir atburðir væru jákvæðir og þjónuðu því markmiði að endurskipulagning þessara fyrirtækja færi fram. Stjórnin lítur svo á að um sé að ræða ákvörðun um samvinnu öflugra aðila á viðskiptum á markaði með óskráð hlutabréf og að þeirri samvinnu verði ekki jafnað við sölu á einstökum fyrirtækjum, enda ekki um það að ræða að fara í einhvers konar útboð þegar aðilar ganga til samstarfs um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja með þessum hætti.

Spurningar 2–7 eru allar byggðar á forsendu sem fyrirspyrjandi gefur sér fyrir fram, að þarna hafi lög og verklagsreglur verið brotin. Því hafna ég.

1. Vissi ráðherra af kaupum Framtakssjóðsins áður en þau fóru fram?

Nei, enda ekki ástæða til og hefði ekki verið rétt, hvorki af Landsbankanum né Framtakssjóðnum, að tilkynna mér það. Hitt er annað að mér var óformlega kynnt af hálfu Framtakssjóðsins nokkrum vikum áður að hugmyndir hefðu komið upp um samstarf þessara aðila. Annað vissi ég ekki af þessu máli.

2. Samþykkti ráðherra að verklagsreglum væri ekki fylgt eftir eða gerði ekki athugasemdir við það?

Að sjálfsögðu ekki, svarið er þar með nei, enda telur Landsbankinn sig engar verklagsreglur hafa brotið og stjórn Bankasýslunnar er sammála því.

Það svarar að sjálfsögðu spurningunum sem á eftir koma. Þeir aðilar sem að þessu koma gangast ekki við því, kannast ekki við það að verklagsreglur og þaðan af síður lög hafi verið brotin. Þar af leiðandi ber að svara öllum spurningum hv. þingmanns — sem gefur sér þá forsendu — með einföldu neii. Bankasýslan hefur ekkert slíkt samþykkt, mér er ekki kunnugt um að Bankasýslan hafi í störfum sínum brotið nein lög eða neinar reglur og þar af leiðandi er einfalt að svara þessum spurningum.



[15:59]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa utandagskrárumræðu við hæstv. fjármálaráðherra. Um þetta efni hefur verið rætt áður í þingsal þar sem ég var með svipaðar hugleiðingar og hv. fyrirspyrjandi er með nú til fjármálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki vilja kynna sér þau mál sem að þessu liggja því að það má segja að svör hans hér í dag séu nánast samhljóða því sem hann svaraði á fyrra þingi.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta samkomulag á milli þessara aðila, Landsbankans annars vegar og Vestia hins vegar, sé nokkurs konar samvinna um óskráð hlutabréf þar sem aðilar hafa gengið til samstarfs um að koma þeim fyrirtækjum sem um ræðir á fætur vil ég benda á að þetta minnir óneitanlega á þau vinnubrögð sem leiddu hér til hruns heillar þjóðar. Hvers vegna í ósköpunum er þetta með þessum hætti, að Landsbankinn sem er að meiri hluta í eigu ríkisins skuli taka þá áhættufjárfestingu sem þarna liggur að baki? Skuldir fyrirtækjanna sem Framtakssjóðurinn yfirtók í Vestia eru um 60 milljarðar kr. Framtakssjóðurinn keypti á tæpa 20 milljarða kr. þannig að þarna eru lífeyrissjóðirnir, sem á góðum stundum eru kallaðir lífeyrissjóðir landsmanna og eru lífeyrissjóðir landsmanna, að taka geipilega mikla áhættu.

Hér skal einnig minnt á að öll þessi fyrirtæki eru á samkeppnismarkaði og því í bullandi samkeppni við þá sem greiða í lífeyrissjóðina og þeir samkeppnisaðilar að þessum fyrirtækjum eru raunverulega að reka fyrirtækin fyrir lífeyrissjóði þeirra starfsmanna sem vinna hjá samkeppnisaðilunum.

Frú forseti. Ég ætlaði að koma inn á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er vitað (Forseti hringir.) að hann kemur inn á þetta samkomulag því að (Forseti hringir.) Vestia mátti ekki eiga þessi fyrirtæki um óákveðinn tíma. Sú umræða verður að bíða betri tíma.



[16:01]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mitt mat að hér hafi verið vikið frá verklagsreglum Landsbankans um opið og gagnsætt söluferli. Svo virðist sem stjórnendur Landsbankans telji að verklagsreglurnar eigi einungis við ef bankinn selur frá sér dótturdótturfyrirtæki en ekki dótturfyrirtæki. Vestia hefði átt að fara í söluferli. Allt það ferli sem nú er í gangi hefði getað verið fyrir opnum tjöldum.

Ég fagna því hins vegar að fyrirtækið sé komið undan eignarhaldi Landsbankans, þ.e. út frá samkeppnissjónarmiðum, hugsanlegum hagsmunaárekstrum og rekstrarstöðu bankans, en það sjónarmið hefur verið uppi í umræðunni hvort lífeyrissjóðirnir eigi að fjárfesta í einkafyrirtækjum á markaði. Mín skoðun er sú að það sé gríðarlegur hagur af því ef við nýtum fjárfestingargetu lífeyrissjóðanna til að styrkja atvinnulíf okkar. Það er miklu betra fyrir þá að við höldum uppi atvinnustigi í landinu og það er margvíslegur þjóðhagslegur ávinningur af því að styrkja atvinnulífið. En gætum að því að í lögum um Framtakssjóðinn segir að hlutverk hans sé m.a. að taka þátt í að móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs.

Fyrst lífeyrissjóðirnir eru að fjárfesta í atvinnulífinu og réttlæta veru sína í fyrirtækjunum út frá heildarhagsmunum íslensks atvinnulífs eiga þeir ekki að fjárfesta í þjónustu- og samkeppnisfyrirtækjum heldur eftirláta einkaaðilum að gera slíkt. Lífeyrissjóðirnir eiga að ganga alla leið, vera trúir þessari stefnu sinni og fjárfesta í þeim atvinnugreinum sem eru vaxtargreinar íslensks atvinnulífs. Það eru fyrirtækin sem eru í hugverkaiðnaði, útflutningi og alþjóðlegri samkeppni, eru að færa verðmæti inn í landið og stækka kökuna. Ég set spurningarmerki við að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í símafyrirtæki, tölvufyrirtæki, plastfyrirtæki eða byggingarvöruverslun með fullri virðingu fyrir þeim fyrirtækjum. Þau eru í innlendum samkeppnisrekstri.

Lífeyrissjóðirnir eiga að taka þátt í að móta með okkur þá framtíð sem við viljum öll sjá í íslensku atvinnulífi, þ.e. að styrkja og efla fyrirtækin sem skapa verðmæti til útflutnings, í orkufyrirtækjum og tengdri þjónustu, gagnaverum og öðrum sprotum þar sem samkeppnisforskot fyrirtækjanna byggir á hugviti og verðmætasköpun inn í landið. Þá getum við haldið ungu, vel menntuðu fólki hér í landinu og það er fjárfestingarstefna sem kemur lífeyrissjóðunum vel.



[16:03]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og get tekið undir margt sem hér hefur komið fram. Það er ljóst að Framtakssjóður Íslands undir stjórn lífeyrissjóðanna hefur keypt eignarhaldsfélagið Vestia. Vestia heldur utan um fyrirtæki sem Landsbankinn hefur fengið í fangið og það er ekki vegna þess að þau hafi verið sérstaklega stöndug. Þetta eru áhættufjárfestingar og að mínu mati er það algjörlega ólíðandi að stjórn sjóðanna sé að véla með lífeyri almennings með þessum hætti.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur telur að lífeyrissjóðirnir hafi tapað á bilinu 600–800 milljörðum kr. á áhættufjárfestingum í hruninu. Eign sjóðanna núna er því áætluð aðeins um 1.800 milljarðar kr. þótt sú tala fáist ekki staðfest.

Í umræðum um skuldavanda heimilanna hefur verið rætt um aðkomu lífeyrissjóðanna og stuðning þeirra við Íbúðalánasjóð. Til þess þyrfti um 4% af eignum sjóðanna. Það er hlægilega lág tala miðað við hvað sjóðirnir hafa þegar tapað miklu á áhættufjárfestingum og það er óþolandi að stjórnir sjóðanna, skipaðar fulltrúum atvinnulífsins, haldi áfram að nota fjármuni almennings í áhættufjárfestingar. Sú staðreynd að Samtök atvinnulífsins og aðrir atvinnurekendur eigi fulltrúa í sjóðum lífeyrissjóðanna hvetur að mínu mati til mun meiri áhættusækni en eðlilegt er.

Það að þetta gerist allt saman með blessun Bankasýslu ríkisins er í besta falli lélegur brandari.



[16:05]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að þingmönnum sé mikið niðri fyrir í þessari umræðu og að þeir gagnrýni harðlega þau viðskipti sem við ræðum hér. Raunar virðist hæstv. fjármálaráðherra nú vera sá eini sem eftir er sem enn treystir sér til að verja þessi viðskipti og lýsa því yfir að vandað hafi verið til verka, en það er auðvitað mjög margt gagnrýnisvert við viðskiptin.

Í fyrsta lagi er mjög ámælisvert að salan á Vestia skyldi ekki fara fram í gegnum opið tilboðsferli eins og verklags- og starfsreglur kváðu á um. Að þverbrjóta reglurnar er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að aðilar þessara viðskipta eru ríkisbanki og hálfopinber aðili, lífeyrissjóðirnir, fyrir utan það að viðskiptin áttu sér stað undir eftirliti Bankasýslunnar, sem er einnig opinber aðili. Þetta sýnir auðvitað að það er ekkert að marka tal ríkisstjórnarinnar um opin og gegnsæ og ný vinnubrögð þar sem allt væri uppi á borðinu. Og ég spyr: Var það ekki Steingrímur J. Sigfússon sem ætlaði að opna öll reykfylltu bakherbergin og lofta þar út? Mér sýnist að hæstv. fjármálaráðherra hafi þvert á móti skellt þeim í lás og sett slagbrand fyrir dyrnar. (Gripið fram í.) Allt þetta er auðvitað til merkis um að menn hafa ekkert lært.

Í annan stað er mjög ámælisvert eftir allt sem á undan er gengið að fjármunir lífeyrissjóðanna, sem eru fjöregg þjóðarinnar, séu nýttir í áhættufjárfestingar sem hæstv. ráðherra kallar núna samvinnuverkefni. Ég spyr: Hafa lífeyrissjóðir og lífeyrisþegar ekki þurft að þola næg áföll? Við skulum gera okkur grein fyrir því að samanlagt tap þessara félaga sem fylgdu með í kaupunum nam 884 milljörðum kr. á síðasta ári.

Í þriðja lagi munu þessi viðskipti skerða samkeppni á markaði. Maður hlýtur að spyrja: Hvar á þetta síðan að enda? Hvar mun Framtakssjóðurinn næst drepa niður fæti? (Forseti hringir.) Stendur t.d. til að Framtakssjóðurinn kaupi Haga, eins og sögusagnir hafa verið um, og að lífeyrissjóðirnir muni þar með hefja innreið sína á matvörumarkaðinn? (Forseti hringir.) Verða þá endurtekin þessi vinnubrögð sem við höfum verið að fjalla um hér?



[16:08]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Margar spurningar vakna þegar skoðuð eru kaup Framtakssjóðs á eignarhaldsfélaginu Vestia, spurningar sem bæði taka á framkvæmd sölunnar og stefnunni varðandi endurreisn raunhagkerfisins. Ég velti m.a. fyrir mér hvort rétt sé að nota fé lífeyrissjóðanna í skammtímafjárfestingar í fyrirtækjum í erfiðum samkeppnisrekstri.

Markmið Framtakssjóðs er að fjárfesta í fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér svokallaðan vænlegan rekstrargrundvöll og er lágmarksfjárfesting 200 millj. kr. Ljóst er að sum fyrirtækin í Vestia eiga sér aðeins vænlegan rekstrargrundvöll ef önnur samkeppnisfyrirtæki verða keyrð í þrot. Með fjárfestingu sinni í Vestia, þar sem er að finna mörg stærstu félög landsins, skekkir Framtakssjóður samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ekki geta sótt sér aukið eigið fé í almannasjóði. Salan á Vestia sýnir hversu brýnt er að fjárfestingarsjóður verði stofnaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru fyrst og fremst í atvinnuskapandi rekstri. Önnur fyrirtæki í Vestia má skilgreina sem þjóðhagslega mikilvæg, en áhættusama fjárfestingu fyrir lífeyrissjóði.

Í fyrra samþykkti Alþingi lög um stofnun opinbers eignaumsýslufélags að sænskri fyrirmynd til að taka við þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum í erfiðum rekstri. Ég velti fyrir mér, frú forseti, hvers vegna sum félögin í Vestia fóru ekki inn í slíkt eignaumsýslufélag. Er ríkið nú þegar orðið of skuldsett til að taka við þeim og því nauðsynlegt að nýta lífeyrissjóðina með þessum hætti? Er það nýting á fjármagni lífeyrissjóðanna sem mun draga úr möguleikum þeirra til að taka á sig helminginn af verðbólguskotinu (Forseti hringir.) sem varð hér eftir bankahrunið?



[16:10]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það ríkir mikil tortryggni í þjóðfélaginu um starfsemi fjármálafyrirtækja og meðferð þeirra eigna sem stofnanirnar hafa yfirtekið. Það sjáum við svo greinilega í þessari umræðu og þeirri umfjöllun sem hefur verið í fjölmiðlum og samfélaginu um þetta tilboð lífeyrissjóðanna í eignir Vestia.

Það er mín skoðun að ef við ætlum að byggja þetta samfélag upp sé nauðsynlegt að allt endursöluferli þeirra eigna sem bankarnir hafa yfirtekið sé lýðræðislegt og gagnsætt. Allir verða að eiga jafna möguleika til þátttöku og sitja við sama borð við tilboðsgerð í þær eignir sem fjármálastofnanir ætla að selja á hverjum tíma.

Þess vegna get ég ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hann talar um að það sé mjög erfitt að skilja af hverju þessi stóra eign hafi ekki verið auglýst og sett í opið söluferli eins og hafi verið talað um og gefin fyrirheit um. Það er talað mikið um gagnsæi varðandi sölu á þeim fyrirtækjum sem bankarnir hafa yfirtekið, segir þingmaðurinn, og sérstaklega hvað varðar ríkisbankana. Það eru engin rök fyrir því að fara í ferlið svona. Bankinn hefði átt að gefa öðrum tækifæri til að bjóða í þessar eignir. Ef það hefði komið í ljós að sá eini sem hafði áhuga var Vestia hefði a.m.k. verið hægt að benda á að það hefði verið gert á opinn og gagnsæjan máta.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram þingsályktunartillögu um óháðan og gagnsæjan uppboðsmarkað fyrir eignir banka og fjármálastofnana sem hafa verið yfirteknar og vonumst til að fá að tala fyrir þeirri tillögu fljótlega. Við verðum að ná að eyða þessari tortryggni. Við höfum líka talað fyrir ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum og það er sama hugsunin þar á bak við, að við þurfum að tryggja gagnsæi þegar við erum að fara í gegnum afskriftir og endurskipulagningu fyrirtækja.

Síðan er önnur tillaga sem ég tel nauðsynlegt að skoða, hvort við eigum ekki að birta upplýsingar um (Forseti hringir.) afskriftir, um heildarskuldir, um verðmat á eignum eða rekstri og síðan skuldastöðuna eftir afskriftir, nákvæmlega eins og við leggjum fram upplýsingar um álagningarseðla einstaklinga og fyrirtækja. (Forseti hringir.) Það er spurning hvort við þurfum ekki að gera þetta líka til að eyða tortryggni.



[16:12]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér Bankasýslu ríkisins og þá sérstaklega aðkomu hennar að sölu Landsbanka Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia til Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna. Ég vil taka það fram strax að ég tel að í þessu tiltekna máli hafi allir þeir aðilar sem að málinu komu brugðist að einhverju leyti, Bankasýslan, Landsbankinn og forsvarsmenn Framtakssjóðsins. Ég mun rökstyðja það hér á eftir.

Fyrst vil ég þó árétta að ég tel að hugmyndin um Bankasýslu ríkisins sé í grunninn góð, að það séu ekki stjórnmálamenn sem fari með daglega umsýslu þeirra eignarhluta sem ríkið á í bönkunum heldur sé það falið sérstakri stofnun undir faglegri yfirstjórn sem sé ekki háð pólitískum afskiptum á hverjum tíma.

Lögin um Bankasýsluna eru skýr. Hlutverk hennar er að stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á fjármálamarkaði og tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi. Þetta segir í markmiðsgrein stofnunarinnar þar sem einnig er fjallað um það að Bankasýslan skuli fylgja eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma. Málsatvikin eru sömuleiðis skýr, stjórnendur Landsbankans vildu koma Vestia af sínum bókum, þeir höfðu frumkvæði að því að hafa samband við forsvarsmenn Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna og með þeim tókst samkomulag um kaup Framtakssjóðsins á þeim sjö samkeppnisfyrirtækjum sem heyrðu undir Vestia. Ekkert útboð, engum öðrum gefinn kostur á að kaupa, söluferlið harðlæst og ógegnsætt að stærstum hluta.

Þessi vinnubrögð stangast á við eigendastefnu ríkisins sem Bankasýslan á að fylgja. Þau eru ekki í góðu samræmi við markmiðsákvæði laganna og þau eru klárlega brot á sameiginlegum verklagsreglum bankanna um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja þar sem segir í gr. 8.3, með leyfi forseta:

„Stefnt skal að opnu og gagnsæju söluferli og jafnræðis meðal fjárfesta.“

Þetta er ámælisvert fyrir stjórnendur Landsbankans, Framtakssjóðsins og Bankasýslunnar því að þessir aðilar eiga allir að líta á það sem meginmarkmið sitt við endurreisn íslensks atvinnulífs að standa þannig að málum að byggð sé upp að nýju tiltrú almennings á fjármálamarkaðnum sem varð svo illa úti í bankahruninu.



[16:15]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa rætt málið og ég held að ég hafi verið sammála þeim öllum nokkurn veginn í flestu. Það er ótrúlegt, virðulegi forseti, að horfa hér á hæstv. ráðherra sýna þennan yfirgengilega hroka. Öllum eru ljós efnisatriði þessa máls, öllum ljóst að verklagsreglur voru brotnar, eins og hv. þm. Skúli Helgason fór ágætlega yfir.

Ég vek athygli á fréttum — ég ætla bara að lesa fyrirsagnirnar, virðulegi forseti:

„Lífeyrissjóðir kaupa eignir Landsbanka“, „Töldu ekki nauðsyn á opnu söluferli“, „Vildu ekki auglýsa eignasafn Vestiu“ og „Skilur ekki hvers vegna salan var ekki auglýst“.

Þetta voru fyrirsagnir frétta. Hér kemur hæstv. ráðherra og segir: Allt í plati, þetta er samvinna, ekki sala.

Allar þessar reglur, öll lögin, markmiðssetningin, allt saman skiptir bara engu máli, þetta er samvinna. Ég er búinn að fara aðeins yfir það og þetta er það sem ég ætla að nota á hv. Alþingi.

Meira að segja forstöðumaður Bankasýslunnar þrætti ekki fyrir það að verklagsreglur hefðu verið brotnar. Hæstv. ráðherra sem ræður því hvort stofnunin, Bankasýslan, sjái til þess að farið sé eftir verklagsreglum segir bara: Heyrðu, mér er bara nákvæmlega sama. Ég ræð þessu og þetta heitir samvinna í mínum huga. Þrátt fyrir að allir viti að hér var farið á skjön við allar reglur, farið gegn markmiðum laganna, skiptir það mig engu máli. Ég ræð og annað er fullkomið aukaatriði.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki einu sinni að fara yfir það að það hvarflaði ekki einu sinni að hæstv. ráðherra í hroka sínum að svara fyrirspurnunum. Ég ætla ekki að teygja (Forseti hringir.) það neitt. Þetta mál er ekki búið, við munum fylgja því eftir því að það er algjörlega ólíðandi (Forseti hringir.) alltaf, og sérstaklega núna, að hæstv. ráðherra komi fram við þingið og þjóðina eins og raun ber vitni.



[16:17]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það séu nokkur aðalatriði þessa máls sem sé ágætt að fara yfir. Ég vitna aftur til þess sem ég sagði, það er mikilvægt að menn hafi í huga að það er skýrt tekið fram í eigendastefnu ríkisins gagnvart fjármálafyrirtækjum, þar sem kemur að hlut Bankasýslunnar, að stjórn og starfsfólk Bankasýslunnar eiga hvorki að taka þátt í daglegum rekstri fyrirtækja né hafa áhrif á ákvarðanir þeirra. (Gripið fram í.) Enda kom jafnframt fram að Bankasýslan var fyrst upplýst um að af þessu samstarfi Landsbankans og Framtakssjóðsins kynni að verða daginn áður en tilkynnt var um þau. Það var hvorki borið undir Bankasýsluna né tók hún afstöðu til þess á nokkurn hátt fyrr en eftir á.

Í öðru lagi er mikilvægt að menn hafi í huga að eigendastefna ríkisins fjallar ekki um sölu einstakra eigna hjá fjármálafyrirtækjum, heldur um að þau skuli setja sér þar um verklagsreglur. Þær verklagsreglur telur Landsbankinn sig ekki hafa brotið.

Í þriðja lagi er kannski ástæða til að minna á að hér er mikið undir. Um 6 þús. starfsmenn eru hjá þessum fyrirtækjum og væntanlega eru hv. þingmenn ekki að tala á þeim nótum að þeir hefðu viljað að bankinn héldi á eignarhaldi þessara fyrirtækja um ókomna mánuði eða ár. Mér finnst lítið fara fyrir því að menn horfi á hina hlið mála sem er auðvitað sú og mikilvægi þess að þessi fyrirtæki séu endurskipulögð og síðan seld, skráð í Kauphöll, eins og væntanlega verður gert í þessu tilviki, eða komið með öðrum hætti út í lífið. Í því sambandi er rétt að það komi fram að Bankasýslan mun í ljósi eignarhalds Landsbankans nú á Framtakssjóðnum beina þeim tilmælum til sjóðsins að hann viðhafi verklagsreglurnar eins og bankinn ætti í hlut þegar að því kemur að þessi fyrirtæki verða skráð eða einhver einstök þeirra seld. Þá kemur að þeirri sölu þar sem slíkar verklagsreglur eiga að sjálfsögðu að vera í heiðri hafðar.

Ég tel, frú forseti, hér gerðan mikinn storm úr litlu (Forseti hringir.) og satt best að segja höfð uppi stór orð án mikilla innstæðna. Ég hefði haft trú á því að sjálfstæðismenn hefðu við aðrar aðstæður kannski (Forseti hringir.) fagnað því að einmitt hlutir af þessu tagi gerðust. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé eitthvað athugavert við það að lífeyrissjóðir leggi fram fjármagn til þátttöku (Forseti hringir.) í endurreisn íslenskra rekstrarfélaga, að styrkja fjárhag þeirra og koma þeim út í lífið. Ég er ekki svo þröngsýnn að ég vilji tala allt slíkt niður.