139. löggjafarþing — 24. fundur
 10. nóvember 2010.
uppsögn af hálfu atvinnurekanda, fyrri umræða.
þáltill. LMós o.fl., 47. mál. — Þskj. 48.

[15:14]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Flutningsmenn og -konur eru Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Þráinn Bertelsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Jórunn Einarsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Mörður Árnason, Eygló Harðardóttir og Þór Saari.

Tillaga sama efnis var áður flutt á fjórum löggjafarþingum af Bryndísi Hlöðversdóttur, þáverandi þingmanni. Ástæða þess að ég mæli fyrir henni nú er sú að í rannsóknum mínum á íslenskum vinnumarkaði í evrópsku samhengi hef ég oftar en einu sinni staðnæmst við þá staðreynd að réttur launafólks hér á landi er lakari en almennt gerist á Evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að framkvæmd uppsagna. Samþykkt nr. 158 tryggir launafólki lágmarksstarfsöryggi og hefur efni samþykktarinnar víða verið viðurkennt sem lágmarksréttur launafólks við uppsagnir. Nú hafa alls 35 ríki fullgilt samþykktina, þar af tvö annars staðar á Norðurlöndum, í Noregi og Danmörku er byggt á sambærilegum reglum og þeim sem samþykktin byggist á.

Virðulegi forseti. Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158 nær m.a. ekki til ákveðinna flokka launafólks þó að gert sé ráð fyrir að hún eigi við um alla sem starfa á vinnumarkaði, þar með talda opinbera starfsmenn. Þeir flokkar launafólks sem eru undanskildir eru þeir sem hafa verið ráðnir tímabundið í vinnu eða ráðnir til reynslu eða þjálfunar um tíma. Einnig má undanskilja þá sem ráðnir eru tilfallandi um skamman tíma. Aðilar vinnumarkaðarins geta jafnframt heimilað að undanskilja tiltekna flokka launafólks ef ráðningarkjör þeirra og starfsskilyrði lúta sérstakri skipan.

Meginefni samþykktarinnar má skipta í þrjá þætti. Sá fyrsti felst í því að atvinnurekanda er gert skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef eftir því er óskað. Annar þátturinn felur í sér að starfsmanni skal ekki sagt upp nema til þess sé gild ástæða og eru ástæðurnar tilgreindar, ástæður sem viðkoma hæfni, hegðun starfsmanns eða rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins, stofnunarinnar eða þjónustunnar. Í 5. gr. samþykktarinnar er nánar skilgreint hvað skuli ekki teljast gild ástæða uppsagnar en þar eru talin upp atriði eins og aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi þess, að gegna stöðu trúnaðarmanns launafólks, að hafa borið fram kæru eða tekið þátt í málssókn gegn atvinnurekanda, svo eitthvað sé nefnt.

Þriðji þátturinn í þessari samþykkt er að kveðið er á um tiltekið málsmeðferðarkerfi. Það er eitt af því sem vantar á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega í einkageiranum. Starfsmaður sem er sagt upp á rétt á ákveðinni málsmeðferð. Starfsmanninum skal gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar, hann skal eiga rétt á að vísa uppsögninni til hlutlauss aðila og hann á rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar. Einnig er heimilt að kveða á um að hann eigi rétt á endurráðningu. Ljóst er að þessir þrír þættir samþykktarinnar mundu gjörbreyta stöðu íslensks launafólks til hins betra ef þeir yrðu teknir upp í íslensk lög.

Virðulegi forseti. Aðilar vinnumarkaðarins hafa af skiljanlegum ástæðum mjög ólíka afstöðu til samþykktarinnar. Í minnisblaði frá félagsmálaráðherra frá 2005 kemur fram að Alþýðusamband Íslands telji málið fyrst og fremst snúast um rétt starfsmanna til að fá upplýsingar um ástæður uppsagnar og hvort þær byggi á málefnalegum ástæðum. Það fjalli ekki um rétt atvinnurekanda til að segja upp starfsmanni. Fullgilding hafi því hverfandi áhrif á sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði og leggur Alþýðusamband Íslands til að ILO-samþykktin verði fullgilt og kallar eftir afstöðu stjórnvalda til þess.

Samtök atvinnulífsins telja hins vegar að samþykktin feli í sér bann við uppsögnum af hálfu atvinnurekanda nema hann geti sýnt fram á að ástæða uppsagnarinnar sé samdráttur í rekstri eða að fyrir henni séu gildar ástæður sem varða hæfni eða háttsemi starfsmanns. Fullgilding drægi því verulega úr sveigjanleika í íslensku atvinnulífi og úr vilja fyrirtækja til nýráðninga. Samtök atvinnulífsins eru þar af leiðandi andvíg fullgildingu samþykktarinnar.

Félagsmálaráðuneytið brást við framangreindri niðurstöðu með því að fela Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst að semja tillögu að leiðbeiningarreglum um uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158. Niðurstaða Rannsóknasetursins er sú að ekki sé unnt að setja fram leiðbeiningarreglur um þetta efni nema að til komi pólitísk stefnumörkun og nákvæmari tilsögn um það eftir hvaða fyrirkomulagi sé rétt að vinna reglurnar.

Þingsályktunartillagan er í raun viðbrögð okkar flutningsmanna við þessari niðurstöðu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa þó reynt að semja um málsmeðferð uppsagna í anda þessarar samþykktar. Við kjarasamninga í febrúar 2008 gerðu SA og ASÍ bókun þess efnis að sátt hefði náðst milli aðila vinnumarkaðarins um fyrirkomulag uppsagna á vinnumarkaði. Samkvæmt þessari bókun á starfsmaður rétt á viðtali við vinnuveitanda sinn um ástæður uppsagnar, óski hann þess.

Ástandið á vinnumarkaði, frú forseti, er mjög breytt síðan þessi bókun var gerð og alltaf að koma fram fréttir um að óeðlilega hafi verið staðið að uppsögnum. Flutningsmenn tillögunnar telja þess vegna mikilvægara en áður að standa vörð um réttindi launafólks. Jafnframt telja flutningsmenn nauðsynlegt að tryggja að reglur sem gilda á vinnumarkaði séu sambærilegar þeim sem eru í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og að Íslendingar séu ekki eftirbátar nágrannaríkja á þessu sviði. Flutningsmenn telja auk þess mikilvægt að vinna að því að innleiða tillögur Rannsóknasetursins um að pólitísk afstaða verði tekin til þess hvernig innleiða eigi samþykktina.

Frú forseti. Eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins, og ég er formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, gerði nýlega athugasemd við að við værum ekki búin að innleiða samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158.

Að lokum vil ég geta þess að undir liðnum um störf þingsins hér fyrst í dag var einmitt rætt um uppsögn fréttamanns á RÚV. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tók það efni upp og sagðist hafa fengið þær upplýsingar að viðkomandi starfsmaður, sem hafði verið sagt upp, hefði ekki fengið tækifæri til málsvarnar heldur aðeins verið upplýstur um ástæðu uppsagnarinnar. Er það mjög í anda þeirrar stöðu sem flestir á vinnumarkaði búa við. Samkvæmt þessari bókun sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu 2008 eiga allir sem eru á vinnumarkaði rétt á að fá ástæðu uppsagnar en ekki er búið að móta reglur um það í hvers konar ferli mótmæli viðkomandi einstaklings fara ef starfsmaðurinn er ósáttur við þá ástæðu sem gefin er fyrir uppsögninni.

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áhyggjur af því að verið væri að segja upp starfsmanni án þess að hann fengi tækifæri til málsvarnar og vænti ég því þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji þessa þingsályktunartillögu með okkur flutningsmönnum. Til að tengja þingsályktunartillöguna enn meira við það sem er að gerast fyrir utan veggi Alþingis kom nýlega líka frétt á svipan.is um það að starfsmenn Orkuveitunnar hefðu verið ósáttir við það hvernig staðið var að uppsögnum 70 starfsmanna núna fyrir mánaðamótin. Það er því ærin ástæða til að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu sem allra fyrst.



[15:25]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er full ástæða til þess að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur, 1. flutningsmanni þessarar tillögu, fyrir það frumkvæði sem hún hefur sýnt í að taka þessa tillögu upp og flytja hana hér. Ég er einn af flutningsmönnum, eða kannski öllu heldur flutningskörlum, þessarar tillögu þannig að tekið sé upp málfar hv. 1. flutningsmanns. Það kemur þess vegna ekki á óvart að ég skuli standa hér upp henni til stuðnings. Ég geri það m.a. vegna þess að samflokksmaður minn núverandi, og þó einkum fyrrverandi því að við vorum hér saman á þingi, Bryndís Hlöðversdóttir, upphafsmaður málsins, flutti málið fyrst á 120. þingi, eins og fram kemur hér í greinargerðinni, sem er þingið frá 1995 til 1996, en það er einmitt fyrsta reglulega þing eftir kosningarnar 1995 þegar Bryndís Hlöðversdóttir var fyrst kjörin, þá á lista Alþýðubandalagsins, og flutti hana fjórum sinnum, síðast á 130. löggjafarþingi sem var þingið frá 2003 til 2004, sem ég hygg að sé þingið áður en hún hætti störfum eða þar áður. Hún fylgdi þessu máli hér eftir, eða réttara sagt reyndi að þrýsta á um að þetta yrði samþykkt, allan sinn þingtíma (VigH: Rétt.) og á heiður skilinn fyrir það. Það varð aldrei af því að það yrði samþykkt þótt við séum í raun og veru skuldbundin, kannski ekki að lögum eða þjóðarétti en siðferðilega, að taka undir sem siðmenntuð og frjálslynd lýðræðisstjórn.

Í öðru lagi er rétt að nefna þau efnisatriði sem flutningsmaður fór í gegnum, hvað þetta mundi færa okkur á íslenskum vinnumarkaði. Það yrði þá að veruleika að atvinnurekandanum yrði skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef óskað væri eftir því. Honum væri skylt að segja starfsmanni ekki upp nema hafa til þess gilda ástæðu, ekki geðþóttaástæður eða óljósar eða einhvern óljósan vilja sem kemur fram í eftiráskýringum. Atvinnurekendum er líka skylt að koma upp tilteknu málsmeðferðarkerfi sem starfsmenn eigi rétt á við uppsögn eins og stendur hér í greinargerðinni, þeim gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar, vísa uppsögninni til hlutlauss aðila o.s.frv. eftir atvikum. Þetta þarf auðvitað að útfæra í íslenskum lögum og ekki síst í þeim reglum sem aðilar vinnumarkaðarins koma upp sín á milli sem eru oft ítarlegri og kannski traustari en þau lög sem sett eru um þetta á Alþingi þótt þetta þurfi auðvitað einna helst að hanga saman.

Það er svo í þessum efnum að Einbjörn togar í Tvíbjörn og Tvíbjörn í Þríbjörn og ef einu er breytt breytist annað og ef réttindi eru aukin á einum stað getur það komið þannig út að viðbrögðin komi óvænt fram á öðrum stað. Maður getur t.d. hugsað sér, og það er ein mótbáran gegn þessu máli, að eftir því sem launasamningur verður fastari og skilvirkari, þeim mun meiri tilhneiging verði til þess að taka upp verktöku á þeim stöðum og þeim svæðum á vinnumarkaðnum þar sem þetta kemur til greina. Auðvitað þarf að fylgjast með því og hafa á því augun. Það var m.a. einn af sjúkdómunum hér á vinnumarkaði og í samfélaginu áratuginn eða áratugina fyrir hrun að verktaka jókst feikilega og helst átti hver maður að vera sitt eigið fyrirtæki sem átti þátt í þeim ósköpum sem við erum núna að bjarga okkur úr.

Aðalröksemdin gegn þessari breytingu og fullgildingu á þessari samþykkt ILO hefur þó verið sú að hún kunni að draga úr sveigjanleika á vinnumarkaðnum. Því er ágætlega svarað í greinargerðinni og Alþýðusambandið hefur fyrir hönd launafólks svarað því vel.

Auðvitað er rétt, eins og ég sagði áðan, að stífar og stirðar reglur um samningssamband launamanns og atvinnurekanda geta átt þátt í því að minnka sveigjanleika sem við teljum æskilegan og er eitt af því sem íslenskur vinnumarkaður hefur haft fram yfir grannlöndin, mörg Evrópulandanna, sem m.a. hefur komið fram í því að svört vinna er þó ekki meiri en hún er á Íslandi. Þó að okkur þyki nóg um er hægt að nefna dæmi um það í öðrum Evrópulöndum að svört vinna er mjög mikil við hliðina á vinnumarkaði sem þykir vera stífur og stirður og mjög fullkominn í ytra útliti en hefur hrakið menn yfir í svarta vinnu, sem einmitt getur fylgt miklu atvinnuleysi. Klassíska dæmið er auðvitað Spánn að þessu leyti, eða var a.m.k. fyrir nokkrum árum þegar ég var að grauta í þessum efnum.

Þetta er rétt. Þá er líka að skoða vinnumarkaðinn hér. Hvers vegna er hann sveigjanlegur? Er það vegna þess að við séum svo óskaplega frjálslynd eða óskaplega losaraleg í þessum samningum milli atvinnurekenda og launamanna eða verkalýðs? Nei, það er ekki svo. Við höfum mjög gamla og trausta sögu verkalýðsbaráttu. Atvinnurekendur og launafólk hafa borið gæfu til þess að vinna saman um áratugaskeið án verulegra átaka og hafa getað náð ýmsum framfaraáföngum sín á milli. Það hefur líka endurspeglast í djörfung Alþingis og ríkisvaldsins sem er þriðji aðilinn í því „korpóratíska“ samstarfi sem svo heitir á fræðimáli og er í þessu tilviki ekki niðrunaryrði heldur er það það sem hefur skapað sveigjanleikann á íslenskum vinnumarkaði miklu frekar, í fyrsta lagi hinn almenni hreyfanleiki í íslensku samfélagi, það að ekki eru hér fastar afskorðaðar stéttir, í marxískum skilningi en líka í hinum almenna skilningi, fagstéttir eða vinnustéttir. Það er afleiðing af Íslandssögunni eins og hún hefur gengið að undanförnu. Það eru auðvitað líka þau viðhorf í samfélaginu, meðal launamanna og meðal atvinnurekenda, sem má kannski rekja til vinnusemi og sjálfsbjargarviðleitni gamalla tíma, að allir eigi að geta gert allt og engum sé neins konar neyð í því eða hnekkir að því að vinna þau störf sem fyrir liggja, samanber Stephan G. Stephansson sem orti á sínum tíma:

Löngum var ég læknir minn

lögfræðingur, prestur

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Hann lærði þetta í Skagafirðinum og fór með það til Alberta í Kanada og annarra slóða í Vesturheimi og vann samkvæmt þessari reglu. Hann minnist þó ekki á sig fyrir það sem hann varð frægastur fyrir, sem var auðvitað það að hann varð einhver helsti bókmenntamaður í þeirri álfu um sinn tíma og er enn einn af höfuðsnillingum í íslenskum bókmenntum og skáldskap.

Í þriðja lagi er svo auðvitað það að við höfum hér búið að töluvert víðtækri og víðfeðmri menntun launamanna. Á Íslandi hafa iðnaðarmenn og aðrar fagstéttir ekki með þeim hætti sem hefur gerst í öðrum löndum tekið upp gildishugmyndir og ýmiss konar útilokunaraðferðir þótt á því hafi nokkuð borið sem ég tel að vísu eðlilegt en heldur leiðinlegt og við höfum ýmis vond dæmi um.

Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og fullgilding okkar á henni á ekki að þurfa að leiða til þess að hér dragi úr þessum sveigjanleika. Hún á þvert á móti að geta leitt til þess að atvinnurekendur og launamenn geti minnkað tortryggni og aukið trúnað milli atvinnurekenda og launamanna.

Að lokum fagna ég eins og flutningsmaður því að nú er allt útlit fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komi til liðs við þessa tillögu í fimmta sinn sem hún er flutt. Hingað til hefur það ekki verið. Gott dæmi um það er einmitt varðstaða góðra og traustra sjálfstæðismanna — einn þeirra situr hér fyrir framan mig til hægri handar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem einmitt ætlar að tala hér á eftir og lýsa stuðningi við tillöguna — varðstaða þeirra um launamenn, einkum þann sem sagt var upp á Ríkisútvarpinu í gær, og ég tek heils hugar undir og fagna mjög að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og félagar hans 15 í Sjálfstæðisflokknum skuli nú gengnir til liðs við okkur sem hér tökum þátt í baráttu launamanna fyrir betri kjörum og traustari skilmálum í kringum sína vinnu, landinu og þjóðinni til gagns.



[15:36]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur jafnframt fyrir það frumkvæði að leggja þessa tillögu aftur fram. Ég er einn af meðflutningsmönnunum, konunum, á málinu og tel þetta mjög gott mál og skipta miklu máli, ekki hvað síst núna þegar við sjáum að mjög mikið hefur verið um uppsagnir starfsmanna, að tryggja betur réttindi þeirra við uppsagnir.

Það sem líka gerði það að verkum að ég taldi ástæðu til að vera meðflutningsmaður að tillögunni er að það kemur mjög skýrt fram í henni að það eru ákveðnar undanþágur varðandi samþykktina sem gera það að verkum að það er hægt að tryggja þennan sveigjanleika sem við höfum lagt svo mikla áherslu á á íslenskum vinnumarkaði, t.d. hvað varðar tímabundnar ráðningar, þ.e. þá sem eru ráðnir tilfallandi um skamman tíma. Það er líka hægt að taka undan ákveðna flokka launafólks ef ráðningarkjör þeirra og starfsskilyrði lúta sérstakri skipan sem tryggir þeim ekki síðri vernd en framkvæmd þessara reglna.

Ég vil líka leggja sérstaklega áherslu á það sem kom fram í framsögu hv. þm. Lilju Mósesdóttur, þótt það sé komið inn í samþykktir í kjarasamningum milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins að upplýsa þurfi um ástæður uppsagnar er ekki sagt hvaða ástæður séu í lagi, heldur vegna hvaða þátta megi ekki segja starfsmanni upp. Það tryggir að allar ástæður til að segja starfsmönnum upp eru í raun í lagi. Ég held að það þurfi að skerpa svolítið á því. Öryggistrúnaðarmanni var nýlega sagt upp eins og við vitum. Þótt það hefði verið möguleiki að segja öðrum starfsmönnum upp vegna samdráttar var samt sem áður þessum starfsmanni sagt upp. Ekki hvað síst skiptir það máli sem kemur fram í samþykktunum um málsmeðferðarkerfið. Þegar starfsmaður er búinn að fá ástæðuna fyrir því að honum er sagt upp er honum tryggð ákveðin málsmeðferð til þess að verja sig gegn athugasemdum og hann getur þá vísað uppsögninni til hlutlauss aðila og átt jafnvel rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar.

Í þessum samþykktum og mörgum öðrum er síðan stjórnvöldum boðinn ákveðinn sveigjanleiki varðandi það hvernig þeir útfæra samþykktina, koma með sína eigin pólitísku stefnumörkun varðandi uppsagnir launamanna og þurfa þá, ef þessi ályktun verður samþykkt, að gefa okkur hér í þinginu líka ákveðna tilsögn um það hvernig eigi að vinna þessar reglur. Það er það sem kom fram hjá Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála, að ekki er bara hægt að útbúa ákveðnar leiðbeiningarreglur, heldur þarf jafnvel í einhverjum tilvikum að breyta lögum. Það er það sem við leggjum hér til, að ríkisstjórnin vinni að því að leggja fram mál til þess að hægt sé að fullgilda þessa samþykkt. Ég tel það sérstaklega mikilvægt, eins og kemur fram í lokin, við núverandi aðstæður þar sem starfsöryggi fólks er mjög lítið og að mínu mati eru bara sjálfsögð mannréttindi að starfsmaður sem er sagt upp fái upplýsingar um ástæðuna. Fólk upplifir fátt erfiðara en einmitt uppsögn.



[15:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vinsældir mínar meðal þingmanna eru slíkar að þess var sérstaklega farið á leit við mig að ég mundi taka þátt í þessari umræðu og að sjálfsögðu verð ég við því þar sem ég hafði tök á að ræða þetta mikilvæga mál. Ég get ekki skilið annað en að hv. þingmenn hafi viljað ræða þetta í breiðu samhengi, ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að við höldum því sem við köllum sveigjanlegan vinnumarkað. Ef við gerum það ekki við þessar aðstæður sem eru núna, er alveg ljóst að við munum eiga erfitt með að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í í dag.

Af því hér var vísað í umræðu frá því í dag sem ég var upphafsmaður að þar sem ég vísaði í uppsagnir fréttamanns RÚV. Því miður eru allar fréttir frá uppsögninni — við erum að tala um eitthvað sem ég held að misbjóði réttlætiskennd flestra ef ekki allra. Okkur veitir ekkert að því að fara yfir þessi mál í stóru samhengi, bæði hvað varðar opinbera starfsmenn, ég tala nú ekki um hjá ríkisfjölmiðlum sem ber höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla landsins sem er í sérstakri stöðu og hefur mikið sjálfstæði. Þegar ég sá fréttina af uppsögninni leiddi ég hugann að þeim fjölmörgu starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem eru ekki bara að skrásetja sögur heldur taka með beinum hætti þátt í stjórnmálum. Þeir tengjast þar af leiðandi stjórnmálamönnum og stjórnmálaöflum vegna þess að þeir eru skráðir í þau. Það verður að viðurkennast að manni fannst ekki vera mikið samræmi í því að taka þennan mann út. Yfirmenn vissu að hann var að skrásetja sögu fyrrverandi ráðherra, en þegar í ljós kom hvaða ráðherra var um að ræða var viðkomandi aðila sagt upp störfum.

Ég sá viðtal við formann Félags fréttamanna sem sagði að eftir að Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag væri staðan þannig, eins og skilja mátti af orðum formannsins, að það væri lítið hægt að gera ef mál eins og þessi kæmu upp. Formaður félagsins sagði að honum fyndist ömurlegt að sjá á eftir fréttamanninum.

Ef það er svo að það þurfi litlar sem engar ástæður til þess að segja upp starfsmönnum eða það er lítið samræmi, eins og lítur út fyrir í þessu tilfelli hjá opinberum hlutafélögum, held ég að það væri skynsamlegt að setjast yfir það. Alveg á sama hátt tel ég skynsamlegt að setjast yfir starfsmannamál hjá ríkinu. Ég tel mikilvægt að bæði stjórnendur og millistjórnendur dvelji ekki of lengi á hverjum stað. Ég held að það sé allt of mikið um að aðilar séu árum eða jafnvel áratugum saman í sama starfinu. Ég held að það sé gott fyrir starfsmann, ég tala nú ekki um fyrir viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og annað slíkt, að viðkomandi einstaklingar fái fleiri tækifæri þá séu meiri líkur á því að viðkomandi sé ánægður í starfi og kulni ekki. Slíkt hefur slæm áhrif á allt kerfið og er miklu alvarlegra held ég en menn átta sig á.

Á sama hátt held ég að áminningakerfið sé úr sér gengið ef það var einhvern tímann réttlætanlegt. Það er skynsamlegt að setjast yfir þá hluti.

Hv. þingmaður Lilja Mósesdóttir nefndi líka Orkuveitu Reykjavíkur sem er opinbert fyrirtæki. Það vakti athygli hvernig þar var gengið fram varðandi uppsagnir. Þar hefur tekist einstaklega illa til. Ég veit ekki hvort löggjafinn geti gert eitthvað í því til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Ég vil vekja athygli á því að fyrirtæki á Íslandi — það er ekkert svo mikið í umræðunni. Ég held að það séu 94%, virðulegi forseti, af fyrirtækjum á Íslandi sem eru lítil fyrirtæki, fyrirtæki með minna en 50 starfsmenn. Ef ég man rétt eru í kringum 90% sem eru með minni en 10. Það er í það minnsta gríðarlega hátt hlutfall. Hvað þýðir það? Það þýðir að íslenskt efnahagslíf samanstendur að langstærstum hluta af örfyrirtækjum.

Hvað þýðir það þegar fyrirtæki er með færri en 10, 20, 30 starfsmenn? Það þýðir það að oftar en ekki er framkvæmdastjórinn líka eigandi, einn aðaleigandi. Yfirstjórnin er alla jafna mjög fámenn. Það er lítill, svo maður sletti, með leyfi virðulegur forseti, infrastrúktúr í svona fyrirtækjum. Öll skriffinnska eða flókið lagaumhverfi kemur einstaklega illa niður á fyrirtækjum sem þessum. Þau bera afskapleg illa slíkar reglur og slíkt reglugerðarfargan sem oft fylgir atvinnustarfsemi í stærri löndum.

Ég held að það væri skynsamlegt að við skoðuðum sérstaklega hvers vegna, af því ég held að enginn deili um það, ekki í verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendur eða aðrir, vinnumarkaður okkar er sveigjanlegri en annars staðar. Af hverju gengur okkur betur hvað þetta varðar? Ég held að enginn deili um það. Það er nokkuð sem við getum sagt að sé betra hér en annars staðar.

Ég hef hvorki skoðað það né lesið rannsóknir eða skýrslur. Ég veit ekki hvort það sé til en ég hef hins vegar rætt við marga aðila sem reka fyrirtæki í öðrum löndum. Hér er t.d. vísað í Svíþjóð sem er búið að innleiða þetta. Ég veit ekki hvort það sé þess vegna eða út af einhverri annarri ástæðu en ég veit að litlir atvinnurekendur í Svíþjóð draga það í lengstu lög að fastráða starfsmenn. Þeir aðilar sem ég þekki og hafa rekið þar lítil og meðalstór fyrirtæki, draga það í lengstu lög að fastráða starfsmenn vegna þess að þeir telja að starfsmenn séu þá komnir með það sterka stöðu, ef þeir eru fastráðnir, að ekki sé nokkur leið að segja viðkomandi upp, jafnvel þó hann standi sig ekki í starfi. (Gripið fram í: … tvö ár.) Nú heyrði ég ekki hvað hv. þingmaður kallaði. (Gripið fram í: Getur bara gert það í tvö ár.) Já, hv. þingmaður kallar að viðkomandi þurfi bara að gera það í tvö ár. Þá ertu líka kominn með aðrar leiðir, verktaka og ýmislegt annað, semja við aðila í dótturfyrirtækjum og öðrum slíkum þáttum. Mér finnst þessi tvö ár ekkert stuttur tími. Ég mundi ætla að það væri betra. Mér sýnist almenna reglan á Íslandi vera að viðkomandi aðilar eru fastráðnir eftir tiltölulega skamman tíma. Ég held að það sé góð regla. Það þýðir að launamaðurinn fær meiri réttindi ef til uppsagnar kemur.

Ég efast ekkert um að það sé einlægur vilji hv. þingmanna og allra, bæði flutningsmanna og annarra, að við viljum að hagur launamanna sé sem bestur. Við viljum að launamenn hafi sem best laun og sem best kjör, líka tryggt starfsöryggi. Við þurfum að líta til annarra landa og sjá hvaða mistök þau hafa gert og hvaða mistök við höfum gert. Við verðum að taka mið af því að hér erum við að langstærstum hluta með lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ég hef unnið víða á íslenskum vinnumarkaði og alltaf hefur maður unnið, sérstaklega þegar maður var yngri, hjá mjög litlum fyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Ég tel gott að við ræðum þetta mál. Ég held að það sé mikilvægt að fara yfir þetta út frá forsendunum sem ég nefndi. Ég hef áhyggjur af sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði. Ein af ástæðunum fyrir því að ég hef svona miklar efasemdir um inngöngu í Evrópusambandið er að ég veit að því fylgir ósveigjanlegri vinnumarkaður. Það er ein af ástæðunum fyrir því að atvinnuleysi er svona mikið í mörgum löndum Evrópusambandsins, sérstaklega meðal yngra fólks. Og atvinnuleysi, virðulegi forseti, er eitthvað sem við megum ekki sjá að verði eins mikið hér á Íslandi og það er núna. Við þurfum að minnka það. Við megum ekki sjá framtíðina á Íslandi með þeim hætti að hér sé mikið atvinnuleysi. Því miður er ein af ástæðum atvinnuleysis ósveigjanlegur vinnumarkaður. Þess vegna tel ég mikilvægt að við vörumst það sem mest við getum.



[15:50]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum áhugaverða þingsályktunartillögu um að setja reglur og samræma reglur um það hvernig eigi að standa að uppsögnum starfsmanna. Það var skondið að hlusta áðan bæði á framsögumann og hv. þingmann Mörð Árnason tala eins og Sjálfstæðisflokkurinn og allir þeir sem þar væru hefðu aldrei verið launafólk. Ég hef allan minn starfsaldur tilheyrt hópi launafólks. Ég hef líka staðið í þeim sporum að fá uppsögn sem var reyndar mjög sérstök. Hún var í formi skipulagsbreytinga. Ég var kölluð á fund þriggja æðstu manna fyrirtækisins áður en uppsagnarfrestur um nýja stöðu hafði runnið út og mér var tjáð að ég yrði ekki ráðin í hið nýja starf og mér gefið tækifæri á að draga umsókn mína til baka og stjórnendur fyrirtækisins mundu gera vel við mig, vegna þess að ég hefði unnið vel í fyrirtækinu sem um ræddi. Ég var þá skólastjóri í sveitarfélagi hér rétt utan Reykjavíkur. Þannig að ég þekki það á eigin skinni að vera sagt upp starfi. Fólk verður að glíma við það á þann hátt sem sá hinn sami telur skynsamlegast hverju sinni. Þetta var í sjálfu sér svolítið sérstök uppsögn þegar menn eru búnir að ákveða áður en umsóknarfrestur rennur út hver á að fá starfið og bjóða einum umsækjanda að draga umsókn sína til baka svo það komi fyrirtækinu ekki illa að þurfa ekki að ráða þann einstakling til starfsins. Þannig að ég þekki sjálf á eigin skinni hvað það er að vera launafólk eins og við heitum sem þiggjum laun hjá öðrum en sjálfum okkur. Ég hef líka staðið í þeim sporum að fá uppsagnarbréf.

Mér hefur aldrei liðið illa í hópi launafólks, en ég get alveg viðurkennt það að mér leið ekkert sérstaklega vel þegar ég fékk uppsagnarbréfið. Mér var heldur engin ástæða gefin fyrir því af hverju mér var sagt upp. Það voru jú skipulagsbreytingar, en þannig var það bara. Stundum verður maður að taka því. Ég tek það fram, allt í því ferli var löglegt þannig að ég er ekki að segja neitt annað. Það var allt löglegt í því ferli og ekkert við það að athuga. Þeir sem ákváðu að fara þessa leið með þeim hætti sem þeir fóru voru í sínum fulla rétti til þess. Svo það sé sagt til að taka af öll tvímæli.

Þess vegna hugsa ég þegar talað er um uppsögn: Hvernig á að framkvæma hana? Hvernig koma atvinnurekendur fram við fólk þegar þeir segja því upp störfum? Ég velti fyrir mér þessum svokölluðu viðtölum. Ég velti hins vegar fyrir mér því sem kallað er í frumvarpinu „ástæður uppsagnar“ og síðan „gildar ástæður uppsagnar“. Hver á að meta gildar ástæður uppsagnar? Launþeginn á rétt á því að fá upplýsingar um og rökstuðning fyrir væntanlegu uppsögninni. En hvað eru gildar ástæður uppsagnar og hverra er að meta það? Þetta er gildishlaðið orð, gildar ástæður. Hverra er að meta?

Hér er líka rætt um að ef sá sem fær uppsögnina er ósáttur við hana, þykir hana hafa borið að með þeim hætti sem ekki sé réttur eða hann hafi ekki fengið ástæðu fyrir uppsögninni, þá á hann í sjálfu sér og væntanlega alltaf rétt á einhverju málsmeðferðarkerfi.

Mig langar að spyrja flutningsmenn tillagnanna: Hvers konar málsmeðferðarkerfi? Hver mun væntanlega setja upp þetta málsmeðferðarkerfi? Og svo kemur líka að aðili sem fær uppsögn á rétt á því að leita til hlutlauss aðila. Hver er þessi hlutlausi aðili og hvernig verður þessu háttað? Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158. Ég hef ekki lesið hana, aðeins gluggað í hana, þannig að ég hef velt þessu fyrir mér.

Ég velti líka fyrir mér hvort menn séu með þessu að stíga það gullna skref að samræma fyrir alla launþega í landinu, jafnt þá sem vinna á hinum almenna markaði og þá sem eru á hinum opinbera markaði. Erum við að stíga skrefið að fella úr gildi sérstök lög sem gilda um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Erum við eingöngu að velta fyrir okkur starfsfólki á hinum almenna markaði? Eða ætlum við með þessari tillögu að hafa kjark til að hafa ein lög um réttindi og skyldur alls launafólks í landinu en ekki tvöfalt kerfi í því á sama hátt og við erum með tvöfalt kerfi t.d. í lífeyrissjóðakerfinu, frú forseti?

Mér finnst þetta vera áhugavert og áskil mér allan rétt til að kynna mér betur og fara yfir verkefnið eða þingsályktunartillöguna áður en ég hér og nú lýsi yfir stuðningi eða andstöðu við. Mér finnst þetta skipta máli hverra er að meta hvað eru gildar ástæður uppsagnar. Hvers konar málsmeðferðarkerfi verður komið á laggirnar? Hver er hinn hlutlausi aðili? Erum við að leggja til eitt kerfi fyrir allt launafólk í landinu? Eða ætlum við að hafa í því tvöfalt kerfi, uppsagnarferli, annars vegar fyrir launamanninn á hinum almenna markaði og hins vegar fyrir launamanninn hjá hinu opinbera?

Ef við erum í alvöru að tala um að setja lög með þessum hætti vænti ég þess að því fylgi sá kjarkur að það gildi ein lög fyrir allt launafólk í landinu.

Ég bið menn líka um að velta fyrir sér, þó að ég hafi eins og ég sagði í upphafi sjálf verið í hópi launafólks alla tíð og staðið frammi fyrir uppsögn, að ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég þekki líka til laga þar sem eigendur versus leigjendur hafa þurft að takast á. Leigjandinn virðist næstum því hafa öðlast meiri rétt til búsetu í íbúð heldur en eigandi íbúðarinnar. Ef við erum að fara með þessu inn í eitthvert slíkt kerfi, erum við á villigötum. Þá verðum við líka að gæta okkar hvað það varðar. Vegna þess að réttur eins á aldrei að verða þannig að hann skerði rétt hins.

Ég vona að hv. flutningsmenn — ég verð að viðurkenna að mér leiðist alveg óskaplega, frú forseti, þetta menn og konur eða karlar og konur. Það er ágæt hefð í íslenskri tungu að tala um flutningsmenn og sum heiti eru karlkyns nafnorð þó kona gegni því. Þessi útþynning að einhenda sér í að gera allt kynlægt er óþolandi. Þess vegna spyr ég flutningsmenn, en hvorki -karla né -konur sem eru aðilar að þessari þingsályktunartillögu, og bið þá um að svara spurningunum sem ég hef varpað fram.



[16:00]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim sem tóku þátt í umræðunum um þessa þingsályktunartillögu fyrir ágætar umræður og líka stuðning við tillöguna þó kannski væri bara að hluta til.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði það að umtalsefni að ég hefði í ræðu minni fyrst og fremst minnst á opinber hlutafélög þegar ég var að tala um hvernig illa hefði verið staðið að uppsögnum. Það er alveg rétt. Ástæðan er kannski sú að það eru mjög fáir sem starfa fyrir einkafyrirtæki, alla vega fáir sem ég þekki til, sem eru tilbúnir að fara í fjölmiðla og kvarta yfir meðferð við uppsögn vegna þess að margir þeirra eru þeirrar skoðunar að það muni draga úr möguleikum þeirra á vinnumarkaði og þegja frekar en gera mál úr hlutunum til að fá örugglega gott atvinnutækifæri aftur. Það á kannski ekki jafnmikið við um þá sem hafa starfað í opinbera geiranum og ætla sér að halda áfram að starfa þar jafnvel eftir uppsögn.

Það er alveg rétt að það þarf að finna einhvers konar jafnvægi milli geðþóttaákvarðana atvinnurekenda og síðan of mikilla réttinda starfsmanna. Ég tel að við höfum ekki verið með mjög gott jafnvægi þarna, sérstaklega ekki þegar kemur að einkafyrirtækjum. Ég þekki sjálf, sem fyrrverandi starfsmaður einkafyrirtækja, fjölmörg dæmi um að starfsfólki hafi verið sagt upp jafnvel á ógeðfelldan hátt og verið neitað um ástæðu uppsagnar. Það var reyndar fyrir 2008, áður en þessi bókun kom við kjarasamninga ASÍ og SA. Mér er mjög minnisstætt þegar ég starfaði við háskóla sem telur sig vera einkafyrirtæki, að þar starfaði amerískur starfsmaður. Hann lenti í því að fá uppsögn eftir jólahlaðborð og vildi að sjálfsögðu fá að vita hver ástæðan væri. Honum var neitað um ástæðuna. Hann kom á fund okkar starfsmanna og sagðist ætla að fara í mál eins og allir gera í Bandaríkjunum við yfirmann við þennan háskóla. Því miður þurftum við að segja honum að hann mundi ekki finna neinn lögfræðing sem vildi taka málið að sér vegna þess að hann hefði engan rétt til að krefjast þess að fá ástæðu uppsagnarinnar. Ég man enn eftir svipbrigðunum á manninum þegar honum var sagt að í norrænu velferðarkerfi eins og því íslenska væru réttindi starfsfólks minni en í Bandaríkjunum.

Hvað varðar þær spurningar sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir varpaði fram vil ég ítreka að þetta er þingsályktunartillaga þar sem fram koma markmið um það hvernig standa eigi að uppsögnum. Það á í fyrsta lagi að skylda atvinnurekendur til að gefa upp ástæður. Þrenns konar ástæður geta legið til grundvallar uppsögn, í fyrsta lagi hæfni, í öðru lagi hegðun starfsmanns og í þriðja lagi rekstrarlegar ástæður.

Þriðji þátturinn er þá þessi málsmeðferð og hv. þingmaður spyr mikið út í þann þátt. Það er auðvitað ríkisstjórnarinnar að útfæra þessa málsmeðferð í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki okkar að útfæra í þingsályktunartillögu nákvæmlega hvernig standa eigi að hlutunum enda er það ekki markmiðið með þingsályktunartillögu.

Hvað varðar að samræma þau réttindi sem eru á íslenskum vinnumarkaði, bæði hjá þeim sem eru í opinbera geiranum og hinum sem eru í einkageiranum, þá mun samþykkt ILO-samþykktarinnar ekki tryggja það vegna þess að þetta eru lágmarksréttindi. Það ríkir samningsfrelsi þannig að ef aðilar vinnumarkaðarins, einhver stéttarfélög og atvinnurekendur þeirra hópa sem tilheyra stéttarfélögunum, komast að þeirri niðurstöðu að þeir vilji hafa betri réttindi en þessi samþykkt felur í sér þá er þeim það frjálst. Ég geri ráð fyrir því að það muni að einhverju leyti gerast eins og tilfellið er t.d. í Svíþjóð þar sem ég hef starfað og þekki vel til.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki vel í þingsályktunartillöguna og hraði vinnslu hennar. Það virðist vera mjög brýnt að uppsögnum og umkvörtunum vegna þeirra verði komið í eitthvert formlegt ferli sem bæði launafólk og atvinnurekendur geta sætt sig við.



[16:07]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir þessi svör. Mig langar engu að síður að spyrja hana hvort sá hv. þingmaður og aðrir flutningsmenn hafi engar hugmyndir um með hvaða hætti þeir vilji sjá þetta málsmeðferðarkerfi eða hvort þeir ætli eingöngu félagsmálanefnd, hv. þingmaður sagði nú ríkisstjórninni, að ákveða með hvaða hætti málsmeðferðin eigi að vera, eða hverjir það eigi að vera. Vart getur það verið framkvæmdarvaldið sem á að ákveða hvaða málsmeðferðarkerfi eigi að vera eða hvaða hlutlausi aðili það eigi að vera sem tekur að sér eða sinnir þessu verkefni.

Aftur langar mig að spyrja og þá um skoðun hv. þingmanns, hvort hún telji að hér eigi að ríkja tvenn lög, vegna þess að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru lög frá Alþingi. Það er ekki stéttarfélaganna að ákveða lögin, það er Alþingi sem hefur sett þau lög.

Ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort hún sé þá að segja að áfram eigi að gilda sérlög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og önnur sérlög um launþega á hinum frjálsa atvinnumarkaði.



[16:08]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hver þessi hlutlausi aðili ætti að vera. Ég gæti vel ímyndað mér að það yrði þá aðili þar sem sætu þrír fulltrúar, þ.e. fulltrúi starfsmannsins, atvinnurekandans og síðan hlutlaus aðili. Væntanlega mundi þessi hlutlausi aðili vera á vegum sáttasemjara en þetta er bara útfærsluatriði. Eins og stendur í þingsályktunartillögunni er ætlunin að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að fullgilda þessa samþykkt.

Ég geri ráð fyrir því, varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, að einhverjar ábendingar komi við umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar um hvort fara þurfi í breytingar á lögum um opinbera starfsmenn eða ekki og að þær ábendingar sem þar koma fram muni þá koma fram í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar og fylgja með þessari þingsályktunartillögu til ríkisstjórnarinnar sem Alþingi ætlar þá að fela að fullgilda þessa samþykkt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til fél.- og trn.