139. löggjafarþing — 25. fundur
 11. nóvember 2010.
þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, fyrri umræða.
þáltill. VigH o.fl., 88. mál. — Þskj. 93.

[14:08]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Flutningsmenn ásamt mér eru Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, Pétur H. Blöndal, Árni Johnsen og Birgir Þórarinsson. Lagt er til í þingsályktunartillögunni að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram þann 27. nóvember nk.

Ágæti forseti. Í dag er 11. nóvember og kosningar til stjórnlagaþings fara fram eftir 16 daga. Því er ljóst að þau tímamörk sem tilgreind eru í þingsályktunartillögunni eru útrunnin. Ég lagði ríka áherslu á að málið kæmist á dagskrá hér fyrir þinghlé sem nú er nýafstaðið en sú tillaga fékk ekki brautargengi hjá forsætisnefnd og forseta Alþingis. Því mun ég í næstu viku leggja fram breytingartillögu um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ekki seinna en 28. maí 2011, að þetta tímamarkaákvæði verði lengt um sex mánuði.

Um leið og þingsályktunartillagan var lögð fram kom fram sú gagnrýni að það væri ekki æskilegt að blanda saman þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og kosningunni til stjórnlagaþings. Það má vel vera að sú gagnrýni hafi verið réttmæt en við flutningsmenn lögðum á það áherslu að þarna ætti að samnýta kosningadag og þar með spara ríkissjóði 250 millj. kr. Samkvæmt síðustu upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu kostaði eina þjóðaratkvæðagreiðslan sem nú þegar hefur farið fram, þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave, 250 millj. kr.

Það má alveg skoða það í framtíðinni, þar sem ekki er fyrirsjáanlegt að það verði kosningar á þessu sex mánaða tímabili sem við höfum þetta svigrúm til, hvort ekki mætti kjósa rafrænt. Það eru öll tæki og tól til staðar til að gera það og mundi það þá lækka kostnaðinn verulega ef það er kostnaðurinn sem stendur í fólki en minnt er á að íslenska ríkið ætlar að leggja a.m.k. 1 milljarð kr. til þessara aðlögunarviðræðna. Þegar upp er staðið er þessi kostnaður því kannski ekki svo mikill miðað við það sem þjóðin fær út úr þessari tillögu, að tjá hug sinn áður en lengra er haldið. Eins og fram hefur komið er hér um að ræða aðlögunarviðræður en ekki umsóknarferli þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra mótmælti því einu sinni enn hér í fyrirspurnatíma fyrr í dag, hann sagði að við ættum í viðræðum en ekki aðlögun. Þrátt fyrir það viðurkenndi hæstv. utanríkisráðherra að við tækjum í hverri einustu viku upp EES-reglugerðir og breyttum hér lögum í átt að því að uppfylla EES-samninginn. Því miður er það akkúrat þáttur í því að bæta hér lagaumhverfi og þáttur í þessum aðlögunarviðræðum.

Það var gagnrýnt hér að ekki væri fullbúin spurning í þingsályktunartillögunni. Þá vil ég vísa í það að í 3. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna segir að það skuli fá umsögn landskjörstjórnar og að landskjörstjórn skuli kveða á um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar sem lögð er fyrir kjósendur. Á kjörseðli skal skýrt koma fram hver spurningin er sem kjósandi skal segja já eða nei við. Þá er jafnframt bent á að það kemur tillaga um þetta þegar þingsályktunartillagan kemur hér til síðari umræðu.

Þá langar mig aðeins til að grípa hér niður í greinargerðina. Þessi tillaga til þingsályktunar gengur fyrst og fremst út á það að þjóðin fái að tjá hug sinn til þess aðlögunarferlis sem Ísland er í að Evrópusambandinu og að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið.

Hinn 16. júlí í fyrra ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Atkvæði féllu þannig að 33 þingmenn sögðu já, 28 sögðu nei og 2 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Það kom skýrt fram í atkvæðaskýringum sumra þingmanna sem samþykktu tillöguna að efasemdir og jafnvel bein andstaða væri við að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Því náðist hér í gegn í fyrra naumur og mjög ósannfærandi meiri hluti, enda lá fyrir þinginu þingskjal með eftirfarandi breytingartillögu á þingsályktunartillögunni frá því í fyrrasumar, með leyfi forseta:

„Í stað 1. málsl. efnisgreinarinnar komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Þarna var mikill vilji fyrir því hjá ákveðnum þingmönnum að fyrst skyldi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin vildi fara í þessa vegferð. Hefði þjóðin sagt já við þeirri tillögu átti að fara af stað með viðræðurnar. Þessi atkvæðagreiðsla fór svo að 30 þingmenn sögðu já, 32 sögðu nei og einn þingmaður greiddi ekki atkvæði. Það er því ljóst af þessu að hér á Alþingi er mjög tæpur meiri hluti fyrir þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er að fara með þjóðina í og er það, svo sem margoft hefur komið fram, að annar ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, er á móti því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í stefnuskrá þeirra kemur líka skýrt fram að þeir telji hagsmunum Íslands betur borgið fyrir utan Evrópusambandið.

Það er nokkuð undarlegt að standa í þessum sporum því að Evrópusambandið er vant því að þær ríkisstjórnir sem sækja um aðild að sambandinu séu samstiga í málinu og hafi þjóðina með sér, hafi þjóðarvilja að baki umsókninni. En svo er svo sannarlega ekki hvað varðar okkur Íslendinga.

Þessi umsókn er alfarið á ábyrgð Samfylkingarinnar, þetta tel ég vera gjaldið sem Vinstri grænir þurftu að greiða fyrir það að fá að sitja í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Það var lífsspursmál fyrir Samfylkinguna að fá þetta mál á dagskrá því að eins og flestir vita er aðeins eitt mál á dagskrá hennar, það að komast inn í Evrópuklúbbinn, að við Íslendingar förum inn í Evrópusambandið.

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að við Íslendingar stöndum þétt saman að þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Hér hefur ríkt kyrrstaða síðustu 24 mánuði og sú ríkisstjórn sem situr hefur ekki náð því (Gripið fram í.) að koma málum áfram, skapa hér atvinnutækifæri eða hjálpa heimilunum. Ríkisstjórnin virðist ekki ráða við að sinna bæði innanríkismálum, þeim málum sem eru brýnust, og svo að vera með þessa umsókn því að eins og fréttist innan úr ráðuneytunum eru þau nánast á hliðinni vegna þessarar umsóknar. Mikil hagræðingarkrafa er sett á hendur ríkinu, ekki má fjölga starfsfólki þannig að það starfsfólk sem vinnur í ráðuneytunum vinnur þessa vinnu samhliða skyldustörfum sínum. Það hefur komið fram í samtölum við fulltrúa ráðuneytanna úti á nefndasviði að það er mikið vinnuálag og nánast ekki tími til að sinna öðru en þessu sem liggur hér fyrir.

Þess vegna er mikilvægt að við rjúfum þá kyrrstöðu sem við stöndum frammi fyrir og leyfum þjóðinni að ráða hvort þessu verður haldið áfram, hvort það sé þess virði að eyða a.m.k. 1 þús. millj. kr. af íslensku ríkisfé í þessa umsókn. Evrópusambandið ætlar að leggja til 4 milljarða kr., 4 þús. millj. kr., inn í þetta ferli, líklega til þess að kynna kosti sambandsins fyrir hinni fávísu þjóð, eins og Evrópusambandið kýs að kalla það, fávísu þjóð, Íslendingum, því að það kom fram í máli sendiráðsaðilans hér í fréttum fyrir helgi að allir þessir peningar ættu að fara til kynningarmála til þess að fræða Íslendinga um hvað Evrópusambandið raunverulega væri.

Frú forseti. Mér finnst það hálfgerð lítilsvirðing við íslensku þjóðina því að íslenska þjóðin er kannski jafnvel best til þess fallin að mynda sér skoðun um þetta mál. Þessi mál hafa verið á borði Íslendinga allt frá því að EES-samningurinn var tekinn upp árið 1994. Þessu máli hefur verið haldið volgu síðan þannig að Íslendingar vita nokk hvað er í boði. Ég minni þingmenn á að það er Ísland sem krefst þess að aðlagast Evrópusambandinu en Evrópusambandið er ekki að krefjast þess að Ísland aðlagist því. Það er nefnilega ekkert annað í boði, það eru 27 ríki þarna inni og við vitum öll hvernig umsóknarferli gengur fyrir sig, það eru engir pakkar, það eru engar slaufur, það er ekkert glimmer. Við vitum nákvæmlega hvað Evrópusambandið er og hvað það stendur fyrir.

Þessi tillaga hér er sáttatilraun til að skapa þjóðarsátt (Gripið fram í.) til þess að Íslendingar fái að velja. Auðvitað er það svo að staða íslenskra heimila er bágborin og auðvitað eigum við að setja innanríkismál í forgang þegar ástandið er með þessum hætti.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er nefnilega viðurkennd aðferð til að leiða fram þjóðarvilja í mikilvægum málefnum, það er kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál því að svo virðist sem ríkisstjórnin ætli ekki að bakka út sjálf. Fyrir síðasta þing var lögð fram þingsályktunartillaga um að draga umsóknina til baka. Varð hún ekki útrædd, því miður, því að auðvitað eiga allar þingsályktunartillögur sem koma fram í þinginu að hljóta hér afgreiðslu og málefnalega umræðu í nefndum. Sú tillaga var ekki útrædd og hef ég verið að spyrjast fyrir um hvort það eigi að leggja þá þingsályktunartillögu fram aftur. Ég hef ekki fengið svör við því.

Því er þessi tillaga hér um þjóðaratkvæðagreiðslu nú sem halda á í síðasta lagi 28. maí árið 2011 sáttatilraun til þess að sætta þjóðina, sætta stjórnvöld, að allir gangi hér í takt en ekki hver í sína áttina. Í raun og veru skiptir engu máli hvernig skoðanakannanir falla nú eða koma til með að falla í framtíðinni, það skiptir ekki máli fyrir mig því að það er alveg sama hvernig þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fer. Segi þjóðin já við því að halda áfram hefur ríkisstjórnin fengið fullt umboð til að halda þessari vegferð áfram og getur þá bent á röksemdir fyrir því að hér þurfi að leggja í mikla vinnu. Segi þjóðin nei er þetta mál út af borðinu og þá getur þessi auma ríkisstjórn kannski farið að sinna þeim innanríkismálum sem hún var kosin til með þeim litla meiri hluta sem hún hefur í þinginu. Ég hef stundum sagt að ríkisstjórnin hafi meiri hluta í þinginu á sunnudögum, svo tæpur er hann.

Hér er komið sáttatilboð frá fulltrúum allra flokka nema Samfylkingarinnar í þá átt að hjálpa ríkisstjórninni á fætur í þessu máli til að fólk geti líka farið að segja sannleikann en ekki hálfsannleikann þegar þetta mál ber á góma.

Það er nefnilega svo að allir stjórnmálaflokkar tala fyrir auknu lýðræði og beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunartöku, sér í lagi þegar um stór deilumál er að ræða. Því er þetta ekta mál til að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu því að þetta á ekki að vera nokkuð sem er sett inn í stefnuskrár flokkanna og reynir svo kannski aldrei á.

Þetta mál fer héðan úr þinginu inn í hv. utanríkismálanefnd, vonandi til þess að það fái þar skjóta afgreiðslu því að ekkert er mikilvægara en að þetta mál komi hér til afgreiðslu. Það er þá þingmanna að hafna þeirri sáttatillögu sem hér er lögð fyrir. Ég skora á hv. utanríkismálanefnd að vinna þetta mál hratt og vel því að það er til hagsbóta fyrir þjóðina að málið fái hér brautargengi og það yrði þá gengið til kosninga eigi síðar en 28. maí 2011.



[14:23]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér er flutt er með ólíkindum, ekki vegna þess að sjónarmiðið sem á bak við hana liggur sé ekki fullkomlega heiðarlegt og lögmætt. Það eru margir sem eru einfaldlega á móti því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu og það er bara heiðarlegt sjónarmið. Mér finnst hins vegar dapurlegt hversu illa er haldið á þeim málstað í þinginu af hálfu þeirra sem telja sig málsvara andstöðunnar.

Hér leggur hv. þingmaður fram frumvarp sem er í reynd þrefalt brot á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hún sjálf tók virkan þátt í að semja. Það eitt út af fyrir sig sýnir hvernig á þessum málum er haldið. Þetta er náttúrlega svo vitlaus tillaga miðað við hvað þingið hefur samþykkt að út yfir tekur.

Hitt er svo annað mál að ég styð að þetta komi á dagskrá. Ég tel að það sé þarft að svona tillaga komi og verði felld í þinginu og hún verður felld. Ég tel að þeir sem hugsanlega voru með efasemdir gagnvart þessu ferli telji margir að það sé rétt að ferlið haldi eigi að síður áfram. Í öllu falli hefur hver þingmaður sem vill leyfi til að leggja fram tillögu jafnvel þó hún sé brot á þeim lögum sem viðkomandi þingmenn eru nýbúnir að samþykkja.

Það er eitt sem vakti athygli mína. Hv. þingmaður kynnti þessa tillögu með grein í Morgunblaðinu á sínum tíma. Aðalrökin í grein hv. þingmanns voru þau að skoðanakannanir sýndu að fólkið vildi að aðildarviðræðunum yrði kippt til baka. Um þetta fjallaði öll greinin. Hv. þingmaður er stundum seinheppin. Þennan sama dag birti Morgunblaðið skoðanakönnun sem sagði frá því að mikill meiri hluti þjóðarinnar, eða 62%, vildi að haldið yrði áfram með umsóknina. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju var hún ekki heiðarleg og sagði frá (Forseti hringir.) þessu líka í tölu sinni? Í grein sinni þegar hún var að kynna þetta voru skoðanakannanirnar aðalatriðið en nú skipta þær allt í einu engu máli. (Forseti hringir.) Getur það verið?



[14:26]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur í ræðustól talar hann svo ruglingslega að maður veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja að svara því sem kemur út úr honum. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um þrjá lagaágallar á þessari þingsályktunartillögu, kallar hana fyrir það fyrsta frumvarp. Hæstv. utanríkisráðherra kýs að fara í tæknilegu hliðina en ekki þá efnislegu. Ég vil bara minna hæstv. utanríkisráðherra á að hann fór sjálfur fyrir því að brjóta hina helgu stjórnarskrá Íslands með því að fara af stað með Evrópusambandsumsóknina alla leið til Svíþjóðar og síðan til Brussel. Það er ekkert ákvæði í stjórnarskrá Íslendinga sem leyfir það fullveldisafsal sem hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hafa stefnt þjóðinni í. Hann ætti kannski að minnast þess.

Varðandi það sem hér er lagt til. Ég boðaði breytingartillögur. Í fyrsta lagi á þjóðaratkvæðagreiðslan að fara fram í síðasta lagi 28. maí 2011. Hæstv. utanríkisráðherra er líklega að vísa í ákvæði sem stendur í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu, að líða skuli a.m.k. þrír mánuðir þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram frá því að þingsályktunartillaga um slíkt er samþykkt í þinginu. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að lesa dagskrá þingsins því að næsta mál á dagskrá er tillaga að breytingum á þeim lögum og hvet ég ráðherrann til að hlusta á framsöguræðu mína í því máli.

Varðandi skoðanakannanir veit ég að hæstv. utanríkisráðherra er að fara á taugum þessa dagana vegna þess að Samfylkingin mælist svo lág í skoðanakönnunum. Framsóknarflokkurinn hagar sér ekki eftir skoðanakönnunum. Framsóknarflokkurinn hagar sér eins og stjórnmálaflokkur en lætur ekki (Forseti hringir.) einhverjar skoðanakannanir sem gerðar eru viku eftir viku raska ró sinni með neitt þó að þær hafi mikil áhrif á Samfylkinguna og hæstv. utanríkisráðherra.



[14:28]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnmál eru alltaf langhlaup. Það gildir um Evrópusambandið og aðild að því eins og allt annað. Sennilega hefur enginn þingmaður í þessum sölum jafnmikla reynslu af því að horfast í augu við skoðanakannanir, erfiðar og góðar, og sá sem hér stendur sem hefur horft upp á 11% fyrir sinn flokk og allt upp í 45%. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það sem málið snýst um er þetta: Þjóðin verður að lokum spurð um vilja sinn til að ganga í Evrópusambandið. Þá mun hún hafa allar upplýsingar fyrir framan sig, samning, og á þeim grunni getur hún tekið upplýsta afstöðu þegar að því kemur.

Það er sjálfsagt að hv. þingmaður leggi fram þessa tillögu. Ég er á móti tillögunni og mun greiða atkvæði gegn henni eins og ég tel að meiri hluti þingsins muni gera þegar hún kemur til atkvæða. Það sem ég var að benda á var að hv. þingmaður tók þátt í að samþykkja og vinna lög sem eru þess eðlis að sérstök áhersla er lögð á að mál fari ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu nema að lokinni ákveðinni meðgöngu hjá þjóðinni, með öðrum orðum er í þeim lögum sem hv. þingmaður tók þátt í að vinna lögð áhersla á að menn rasi ekki um ráð fram heldur leyfi umræðu meðal þjóðarinnar áður en mál eru sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. En lagafrumvarpið sem liggur fyrir er svo flausturslega unnið að samþykkja þarf önnur lög til að það sé sjálft tækt til samþykktar. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum og ég hef aldrei orðið vitni að slíkum vinnubrögðum áður.

Spurning mín var þessi: Hvernig stendur á því að þegar málið var kynnt var það skýrt út með því að þjóðin vildi að umsóknin yrði tekið til baka en þegar fram koma aðrar kannanir sem sýna að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill halda áfram þá skyndilega skipta skoðanakannanir ekki nokkru máli hjá hv. flutningsmönnum? Svona rekur sig hvað á annars horn. (Forseti hringir.)



[14:30]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er tæpast svaravert. Málflutningur hæstv. utanríkisráðherra sýnir hvað ráðherrann er kominn út í horn með mál sitt. Hér kemur hann upp talandi um skoðanakannanir eins og þetta mál byggi á einhverjum skoðanakönnunum. (Gripið fram í.) Ég hélt að ég hefði farið yfir það með ráðherranum í fyrra andsvari mínu að málið snerist ekki um skoðanakannanir. (Gripið fram í.) Þetta mál snýst um rétt þjóðarinnar til að segja skoðun sína á því hvort eigi að halda áfram með aðlögunarferlið eða ekki. Hæstv. utanríkisráðherra má eyða þeim tíma sem hann vill í ræðustól og tala um skoðanakannanir en skoðanakannanir bíta ekki á Framsóknarflokkinn og ekki mig persónulega en það gera þær svo sannarlega á Samfylkinguna. Ég get glatt hæstv. utanríkisráðherra með því að Samfylkingin mældist með 9% fylgi í útvarpskönnun Bylgjunnar í gær, 9% fylgi. Það er komið undir rauðvínsfylgið, frú forseti, enda er hæstv utanríkisráðherra mjög ómótt yfir þessu öllu saman.

Ég hvatti ráðherrann til að vera í salnum þegar ég flyt rök mín fyrir næsta máli sem eru lagabreytingar að lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu og ætla ég ekki flytja þá ræðu í andsvari. En það er ekkert sem skiptir máli úr því að forseti þingsins hleypti þessu máli ekki af stað fyrr, ekki fyrr en utankjörfundaratkvæðagreiðslan til stjórnlagaþings var byrjuð. Þetta er orðið of seint, það er búið að framlengja þennan dag til 28. maí 2011. Nú höfum við sex mánuði, frú forseti, til að upplýsa þjóðina eins og utanríkisráðherra fór fram á um þetta mál. ESB-umræðan er þroskuð á Íslandi og hæstv. utanríkisráðherra gerir lítið úr íslensku þjóðinni með því að segja að hún sé ekki tilbúin hvenær sem er til að takast á við málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.



[14:33]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér athyglisverða þingsályktunartillögu. Við erum að ræða hvort þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um hvort við eigum að halda áfram umsóknarferlinu eða aðildarferlinu, eftir því hvað menn vilja kalla það, að Evrópusambandinu, hvort Ísland eigi að halda áfram á þeirri vegferð.

Ég er lýðræðissinni, ég vil að þjóðin ráði. Ég kaus með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu í júní árið 2009 þegar við greiddum atkvæði um þessa aðildarumsókn. Ég get tekið undir margt í máli flutningsmanns og ég hefði viljað og kosið að þjóðin hefði verið betur upplýst um hvað fólst í þessu aðildar-, umsóknar- eða aðlögunarferli, eftir því hvað við köllum það, áður en sú atkvæðagreiðsla fór fram. Sú fræðsla, miðað við hvað þetta gekk allt hratt í gegn, hefði þurft að fara fram fyrir kosningarnar 2009 og að vissu leyti finnst mér að þjóðinni hafi verið seld einhver hugmynd um ESB sem töfralausn á öllum okkar vanda.

Ég styð málið hins vegar ekki — það er ekki skoðun Hreyfingarinnar, Hreyfingin hefur enga sérstaka stefnu í Evrópumálum — það er mín persónulega skoðun. Hvernig sem að þessu var staðið er málið í ákveðnu lýðræðislegu ferli. Alþingi Íslendinga ákvað að ríkisstjórnin skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég tel ekki rétt að hringla með það. Ég held að við eigum að klára þetta ferli, við eigum að nýta tímann sem í það fer þannig að það nýtist okkur og sé sem best fyrir þjóðina og landið og það er vel hægt.

Bent hefur verið á að ferlinu fylgi ákveðin aðlögun. Ég held að við eigum að líta á þessa svokölluðu aðlögun, sjá hvað í henni felst og beita á hana gagnrýninni hugsun, aðlaga okkur að því sem hentar okkar samfélagi. Annað eigum við að láta bíða og þá getur aðildin sjálf beðið í einhvern ákveðinn tíma. Ef þjóðin í lokin ákveður að við eigum að ganga inn og eitthvað er ógert þá getum við gert það eftir það. Ef það þýðir að við göngum ekki í Evrópusambandið fyrr en tveim, þrem árum síðar, ef þjóðin vill ganga inn, þá er það bara svo. En mér finnst ekkert að því að byrja á að aðlaga eða laga okkar stjórnkerfi eða ráðast í verkefni sem eru til hagsbóta fyrir Ísland og Íslendinga og íslenska stjórnsýslu. Við þurfum að gera þetta með gagnrýninni hugsun, við þurfum að skoða þetta vel og ákveða hvað af þessu hentar okkur og hvort umræddir styrkir sem hafa mikið verið ræddir, svokallaðir IPA-styrkir, henti í þessu verkefni og hvernig við getum nýtt þá sem best fyrir land og þjóð.

Ég er einnig á móti því að kosið sé um þetta mál á sama tíma og kosið er til stjórnlagaþings. Fyrir mér er og á þetta stjórnlagaþing að vera heilagt. Það á að fá alla þá athygli sem það þarf í lok mánaðarins þegar kosningar til þess fara fram og því vil ég ekki að aðrar kosningar fari fram samhliða þeim.



[14:37]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það eru nokkur atriði sem ég hef athugasemdir við.

Í fyrsta lagi sagði hún að þjóðin mundi gefa álit sitt á umsókninni þegar það væri búið. Þetta er ekki rétt og ég vil biðja hv. þingmann að lesa 48. gr. stjórnarskrárinnar sem hún og hæstv. utanríkisráðherra hafa bæði svarið eið að. Í þeirri grein stendur, með leyfi frú forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Hvað segir þetta? Það segir það að ef kjósendur þeirra samþykkja eitthvað í þjóðaratkvæðagreiðslu þá eru þeir ekki bundnir af því. Hv. þingmenn eru ekki bundnir af því. Og ef kjósendur þeirra segja eitthvað annað eru þeir heldur ekki bundnir af því. Þeir eiga bara að fara eftir sinni eigin sannfæringu nákvæmlega eins og gerðist hér þegar kosið var um þá þingsályktun sem Alþingi illu heilli samþykkti, að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Svo gerist það að þetta eru engar aðildarviðræður. Margir sem samþykktu þetta lýstu því hér yfir í ræðustól, ég man eftir því og get talið þá upp, að þeir ætluðu að kíkja í pokann, ef svo má segja, og sjá hvað kæmi út úr viðræðunum. En nú erum við ekkert í svoleiðis viðræðum, Evrópusambandið segir að við séum að aðlagast Evrópusambandinu en ekki að semja um eitt eða neitt. Ég vil því benda hv. þingmanni á 48. gr. stjórnarskrárinnar sem við öll höfum svarið eið að og biðja hana og ég ætla að biðja alla um það að tala ekki um að þjóðin taki ákvörðun um hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki.



[14:39]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Hvað varðar seinna atriðið er ég sammála. Það var lagt af stað í þennan leiðangur að vissu leyti á fölskum forsendum.

Hvað varðar fyrra atriðið sem hann nefndi, um stjórnarskrána, þá er ég sammála því að það þarf að breyta stjórnarskránni og það verk er fyrir höndum. Þjóðaratkvæðagreiðslur verða að vera bindandi, finnst mér, og sannfæring mín liggur þar að vilji þjóðarinnar sem hún sýnir væntanlega í þjóðaratkvæðagreiðslunni skiptir meira máli en mín persónulega skoðun. Þess vegna mun ég þegar kemur að því, ef ég sit í þessum stól sem við vitum auðvitað ekkert um, ýta á já- eða nei-takkann eftir atvikum, eftir ráðgjöf þjóðarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég vona sannarlega að það viðhorf sé ríkjandi meðal þingmanna.



[14:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög alvarlegur hlutur. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi svarið eið að þeirri stjórnarskrá sem er í gildi og engri annarri. Þetta stendur í stjórnarskránni og við höfum svarið eið að henni. Það er ekkert sem segir það að henni verði nokkurn tíma breytt. Við getum ekki svarið eið að væntanlegri stjórnarskrá. Ég ætla að vona að hv. þingmaður endurskoði afstöðu sína, að fara að tilmælum kjósenda sinna þegar hún á að fara eftir sannfæringu sinni. Hún á að vera sannfærð um að Íslandi vegni vel í Evrópusambandinu og þá greiðir hún atkvæði með því ef hún hefur þá sannfæringu. Reyndar er Evrópusambandið eins og hraðlest, það er eins og að hoppa upp á hraðlest því að hún breytist mjög hratt. Eftir 50 ár verður þetta orðið mjög stöðugt og fast ríki eða þá að það hefur gliðnað í sundur. Ég spái því. Ef það verður mjög öflugt og sterkt ríki og algerlega pikkfast þá hefur Ísland ekkert þar um hluti að segja. Það er svona svipað og Grímsey á Íslandi gagnvart íslenska ríkinu. Grímsey hefur ekki mikið að segja, hún er ekki daglega til umræðu, ég vil bara benda á það. Við erum að hoppa á lest sem er á fleygiferð og þeir þingmenn sem taka ákvörðun um það verða að fara að þeirri stjórnarskrá sem þeir hafa svarið eið að.



[14:42]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Nú verð ég, forseti, eiginlega að skýra mál mitt betur því að ég er hrædd um að þingmaðurinn hafi misskilið það sem ég var að segja. Þótt ég lýsti þeirri skoðun minni að við þyrftum að breyta því í stjórnarskrá að þjóðin gæti greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og það yrði bindandi fyrir þingið, þýðir það ekki að ég fari ekki að núgildandi stjórnarskrá. Sannfæring mín liggur einfaldlega í því að við þjóðaratkvæðagreiðslur eigi þjóðin að ráða og því mun ég fylgja leiðsögn þjóðarinnar þegar kemur að því að staðfesta þær.



[14:43]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í umræðuna. Ég ítreka að það stendur ekki til að fara með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu inn á stjórnlagaþingskosninguna, tíminn hefur hlaupið frá okkur. Því er lagt til að þessi kosning fari fram í síðasta lagi 28. maí 2011, við höfum rúman tíma.

Þingmanninum var tíðrætt um að hún sé lýðræðissinni. Ég er það líka. Þess vegna legg ég þessa tillögu fram, að mynda þjóðarsátt um það hvort þjóðin fylgi framkvæmdarvaldinu í þessu máli og fái að segja álit sitt á því í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hv. þingmaður talar um að hún vilji ekki hringla með ferlið. Ég vil benda hv. þingmönnum að það er ríkisstjórnin sem er að hringla með ferlið. Það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem hringlar með þetta ferli. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu Vinstri grænna að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Samfylkingin leggur alla áherslu á að fara inn í sambandið og svo sitjum við uppi með þessa ríkisstjórn, tvíhöfða þurs þar sem annar fer áfram en hinn aftur á bak (Gripið fram í.) eftir því hvernig litið er á þau mál.

Sem dæmi má nefna að þann 24. ágúst sl. lét hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hafa eftir sér á blaðamannafundi að það væri alveg á hreinu að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu væri alls ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Talandi um traust á alþjóðavettvangi þá er það ríkisstjórnin sem hringlar með ferlið, ekki hinir óbreyttu þingmenn á Íslandi hvað þá heldur aðrir Íslendingar. Því spyr ég þingmanninn: Er hún ánægð með hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum og telur hún að það sé vænlegt að koma þessari umsókn eitthvað áfram m.a. vegna þess (Forseti hringir.) að í ríkisstjórninni sitja tveir hrunráðherrar sem skemma ímynd Íslands út á við meira en nokkuð annað?



[14:45]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég get alveg tekið undir að það hringlar mikið í ríkisstjórninni en mér finnst hún samt ekki hafa hringlað neitt sérstaklega mikið í þessu máli miðað við mörg önnur mál. Ég er ekkert sérstaklega ánægð með þessa ríkisstjórn, eins og hefur komið fram bæði á þessum vettvangi og öðrum, en mér finnst hún kannski einna skást í þessu máli, ég verð bara að segja það.



[14:46]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að skoðanir þingmannsins á ríkisstjórninni endurspegli ekki skoðun allra þingmanna þegar talað er um að ríkisstjórnin hafi staðið sig skást í þessu máli. Auðvitað vitum við öll að þessi ríkisstjórn er vitavonlaus, er verklaus og kemur engu í verk, en ríkisstjórnin hefur alls ekki haldið vel á þessu máli gagnvart erlendum aðilum.

Við vitum líka eins og t.d. með EFTA-þróunarstyrkinn að það er verið að lögleiða þessar greiðslur, það er til að uppfylla það markmið að Ísland verði hæft umsóknarríki. Utanríkisráðherra dembir inn í þingið EES-reglugerðum og tilskipunum til þess að við verðum hæf sem umsóknarríki og svo er alltaf sagt að þetta sé bara EES að kenna.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti á það í gær að verið væri að skoða Króatíu nú um stundir, hvaða lög og reglugerðir Króatar þyrftu að setja í þjóðþingi sínu til að vera hæfir sem umsóknarríki. Það vill svo til að það eru nánast sömu lög og reglugerðir sem við erum að taka upp í gegnum EES-réttinn en kosið er að líta svo á að þetta heiti eitthvað annað hér á landi, því að hæstv. utanríkisráðherra skýlir sér sífellt á bak við það að við séum aðilar að því. Hægt og rólega er því verið að stíga þessi skref.

Þar sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir er mikill lýðræðissinni eins og hún kom inn á í ræðu sinni, vil ég spyrja hana að því: Kemur hún ekki örugglega til með að segja já við þessari þingsályktunartillögu þegar hún kemur til atkvæðagreiðslu í þinginu þannig að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og Alþingi stoppi ekki það réttlætismál að þjóðin fái að segja sitt álit á aðildarferlinu?



[14:48]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég verð að hryggja þingmanninn Vigdísi Hauksdóttur með því að ég mun segja nei ef þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu hér. Eins og við vitum öll eru skoðanir þjóðarinnar í þessu sem öðru núna mjög óstöðugar. Það er mikil ólga í þjóðfélaginu. Við höfum séð að skoðanakannanir sveiflast frá mánuði til mánaðar frá því að fylgi sé mjög mikið við þessa umsókn og aðildarferli allt saman í það að vera mjög lítið. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan var stofnað til þessa með lýðræðislegum hætti þótt gagnrýna megi ýmislegt og mér finnst að það ferli eigi að halda áfram og klárast.

Þingmaðurinn sagði í ræðu sinni áðan að ríkisstjórnin hefði bara meiri hluta á sunnudögum. Ég held að meiri hluti sé fyrir því í þinginu alla daga vikunnar að halda þessu ferli áfram, hvað sem fólk vill gera, hvort það vill persónulega sjálft ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það eru náttúrlega ýmsar leiðir til þess. Margir eru hreinlega að flytja þangað og við skulum vona að ekki komi til þess að fleiri Íslendingar geri það en þegar hafa farið en það gæti alveg orðið ef ákveðinn hringlandaháttur hjá ríkisstjórninni í öðrum málum en þessu og framtaksleysi heldur áfram. En ég ítreka að mér finnst ríkisstjórnin hafa staðið sig ágætlega í þessu máli. Hins vegar finnst mér margt gagnrýnivert í því hvernig byrjað var á þessu ferli og ég mundi vilja meiri kynningu og betri upplýsingaflæði til almennings, t.d. í gegnum fjölmiðla því að það er ákveðin dulúð í þessu. Þetta er flókið ef fólk hefur ekki sett sig fyllilega inn í þetta og það ýtir undir tortryggni.



[14:50]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að tjá mig um tillöguna sem hér er til umfjöllunar og er flutt af sjö þingmönnum um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

Ég vil byrja á því að segja að það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að tillaga í þessa veru komi fram vegna þess að vissulega vitum við öll að umsóknarferlið gagnvart Evrópusambandinu er umdeilt í íslensku samfélagi og á Alþingi. Það er eðlilegt að tekist sé á um þessi mál.

Ég vil líka bregðast við gagnrýninni sem komið hefur fram frá 1. flutningsmanni málsins að það sé mikill hringlandaháttur varðandi málið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að við séu í allt öðru ferli en menn samþykktu á sínum tíma. Það má skilja það þannig að málið hafi tekið aðra stefnu en lagt var upp með. Ég er ekki sammála þessu. Ég held að því miður stafi þetta af því að menn hafi ekki lesið til hlítar lýsingarnar á skipulagi viðræðnanna eins og þeim er lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar á þskj. 249 á 137. löggjafarþingi. Þar er að finna ítarlega lýsingu á því hvernig aðildarviðræður við Evrópusambandið eru byggðar upp, hver er aðkoma framkvæmdarvaldsins, hlutverk þess, hver er aðkoma Alþingis, hagsmunaaðila o.s.frv. Lýst er rýnivinnunni sem núna er í gangi, hvernig formlegar viðræður fara af stað og allt yfir í það að lýsa staðfestingarferlinu í lokin. Þessu er ítarlega lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Hafi menn skoðað til þrautar þegar þeir greiddu atkvæði um málið sumarið 2009 þá á ekkert í ferlinu að koma á óvart vegna þess að það er í samræmi við lýsingarnar sem þar er að finna.

Ég get þó sagt að þar sem helst má finna frávik frá því er að ferlið hefur tekið heldur lengri tíma en menn, a.m.k. margir hverjir, gengu út frá sumarið 2009 þegar þetta var til umfjöllunar. Þannig voru t.d. margir þeirrar skoðunar að umsóknin yrði tekin fyrir á leiðtogafundi Evrópusambandsins í desember 2009. Það náðist ekki og þá voru menn með hugann við mars 2010 en það varð ekki fyrr en í júlí. Ferlið hefur tekið lengri tíma en eðli þess hefur ekkert breyst. Það er með nákvæmlega sama hætti og meiri hluti utanríkismálanefndar lýsir í nefndarálitinu. Svo geta menn verið ósáttir við að menn séu í þessu ferli. Það er ekki sanngjarnt að koma og segja að það sé með öðrum hætti vegna þess að það er eins og því er lýst í nefndarálitinu. Það er mergurinn málsins. Menn geta, eins og ég segi, haft ýmsar skoðanir á því hvort það hafi verið rétt að fara í það o.s.frv. Menn geta komið og sagt að það sé undarlegt að ríkisstjórnarflokkarnir og einstakir ráðherrar hafi ólíkar skoðanir á málinu og sagt að það komi Evrópusambandinu á óvart. Ég held að það komi Evrópusambandinu bara ekkert á óvart.

Það er heldur ekkert nýtt í þessu. Það hefur gerst m.a. þegar frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum, dæmi Svíþjóð og Noregur, sóttu um aðild að Evrópusambandinu á 10. áratugnum. Það voru ólíkar skoðanir í stjórnmálaflokkunum í ríkisstjórn. Þegar Noregur var í viðræðum við Evrópusambandið sat t.d. sjávarútvegsráðherra þar í landi sem var harður andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu. Hafa menn heyrt þetta áður? Það er bara nákvæmlega sama staða og hér. Það flæktist ekkert fyrir Evrópusambandinu að eiga í viðræðum við Noreg af þeim sökum, það gerði það alls ekki.

Ég get upplýst það að ég hef í starfi mínu sem formaður utanríkismálanefndar átt fjölmarga fundi með þingmönnum bæði í þjóðþingum aðildarríkja Evrópusambandsins, á Evrópuþinginu, forustumönnum innan Evrópusambandsins, ráðherrum og háttsettum embættismönnum innan Evrópusambandsins. Það er öllum ljóst að það eru ólíkar skoðanir hér á landi og stjórnarflokkarnir tveir hafa ólíka sýn á því hvort við eigum að fara í Evrópusambandið eða ekki. Það er skrifað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hvor flokkur um sig áskilji sér fullan rétt til að halda uppi sínum málflutningi og baráttu í samfélaginu í þessu máli. Það er heldur ekkert óeðlilegt við það í lýðræðissamfélagi eða hvað? Það var lagt upp með þetta mál þannig að það kæmi þingsályktunartillaga um ferlið og það yrði þingsins að taka ákvörðun. Það var gert og það var gert á lýðræðislegan hátt. Ég er meira og minna sammála viðhorfunum sem komu fram í máli hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur hvað þetta mál snertir. Afstaða mín er áþekk því sem hún lýsti hvað sig varðar.

Það er líka fjallað um þessa tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluleið og það kom fram tillaga um hana eins og hv. 1. flutningsmaður rakti í máli sínu. Ég sagði eftirfarandi þegar ég mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar í júlí 2009, með leyfi frú forseta:

„Í störfum nefndarinnar kom töluvert til umræðu hvort halda skyldi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þá fyrri um hvort farið skyldi í aðildarviðræður við Evrópusambandið og þá síðari um hvort samþykkja skyldi hugsanlegan aðildarsamning. Það er niðurstaða meiri hlutans að ekki skuli ráðast í slíka tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að mikilvægt er að leiða til lykta þá umræðu sem farið hefur hátt í þjóðfélaginu undanfarin ár um hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan vébanda Evrópusambandsins og hvað hugsanlegur aðildarsamningur fæli í sér. Þar sem aðildarsamningur verður að lokum ávallt borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu telur meiri hlutinn ekki nauðsynlegt að efna fyrir fram til sérstakra kosninga um afstöðu þjóðarinnar til aðildarviðræðna enda liggja fyrir skýrar vísbendingar um að meiri hluti þjóðarinnar sé þess sinnis að ráðast eigi í aðildarviðræður á þessu stigi burt séð frá afstöðunni til sjálfrar aðildarinnar.“

Ég tel ekkert athugavert við að menn telji rétt að láta á þetta reyna og taka afstöðu til aðildarsamnings. Stór hluti þjóðarinnar vill taka afstöðu til málsins á efnislegum forsendum þegar það liggur þannig fyrir. Margir hafa hins vegar þegar mótað sér afstöðu og það er allt í fína lagi með það. Margir vilja af prinsippástæðum fara inn í Evrópusambandið, aðrir vilja af prinsippástæðum alls ekki fara þar inn. Það er ekkert athugavert við það að þessi sjónarmið séu uppi og ég ætla að þau séu bæði til í öllum stjórnmálaflokkum því það eru þau svo sannarlega. Ég tel að ferlið sé nákvæmlega með þeim hætti sem eðlilegt er.

Ég vil aðeins í lokin, frú forseti, minnast á það sem hv. þm. Pétur Blöndal rakti í andsvari sínu við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Það er hvort það sé ekki sannfæring þingmanna sem eigi að ráða að lokum en ekki leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég er sama sinnis og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir að þessu leyti. Það stendur réttilega í stjórnarskránni, eins og þingmaðurinn gat um, að þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni. Mín sannfæring er sú að það eigi að leggja málið í dóm kjósenda þegar tillaga að samningi liggur fyrir og þjóðin eigi að ráða málinu til lykta. Ég hef sagt fyrir mína parta og ég hygg að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi sagt að þjóðin mun að sjálfsögðu ráða niðurstöðunni í þessu máli. Ef þjóðin segir nei við aðild að Evrópusambandinu þá finnst mér að allir þingmenn, líka þeir sem vilja fara þar inn, eigi að virða þá niðurstöðu og öndvert. Það er mín sannfæring í málinu og ég ætla að fylgja þeirri sannfæringu, ég ætla að leyfa mér það. Ég hef mjög sterka sannfæringu fyrir því að í stóru máli af þessum toga eigi þjóðin að fá að ráða. Ég er líka þeirrar skoðunar að þjóðin hefði t.d. átt að fá að kjósa um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma. Það vildu ekki allir. Ég er þeirrar skoðunar að í stórmálum af þessum toga eigi þjóðin að ráða niðurstöðunni, afstöðu sinni og framtíð og hún gerir það í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar upp er staðið. Ég styð ekki þá hugsun sem felst í tillögunni til þingsályktunar en það kemur mér ekki á óvart að hún komi fram. Mér finnst ekkert óeðlilegt að hún komi fram vegna þess að þessi sjónarmið eru sannarlega til í samfélaginu og eiga að sjálfsögðu rétt á að heyrast og fá umfjöllun, fá eðlilega og sanngjarna umfjöllun. Að sjálfsögðu verður það þá gert á vettvangi utanríkismálanefndar komi málið þangað, það verður þá tekið þar til umfjöllunar og síðan mun utanríkismálanefnd væntanlega vinna úr því.



[15:00]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir að taka þátt í þessum umræðum. Ég er samt nokkuð undrandi yfir orðum hans í ræðunni. Er það virkilega skoðun þingmannsins að Alþingi hafi samþykkt 16. júlí 2009 að fara í aðlögunarviðræður? Er það það sem þingmaðurinn meinar með því að lesa upp úr greinargerðinni? Allan tímann var látið líta út fyrir þingi og þjóð að um umsókn væri að ræða.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kemur fram og kvartar yfir því hversu seint ferlið gengur. Var einhvern tíma búið að lofa Íslendingum því að þetta ferli mundi taka skamman tíma? Það var hæstv. utanríkisráðherra sem belgdi sig hér út trekk í trekk í fyrrasumar yfir því að hann hefði svo góð sambönd þar inni að ferlið mundi verða mjög snöggt, enda átti náttúrlega að fara með okkur á hraðferð þangað inn og það átti að blekkja íslensku þjóðina með því að fara þar inn.

Mig langar til að benda hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, í kjölfarið á að hann margítrekar í ræðu sinni að þjóðin eigi að ráða. Ég og flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu erum að leggja hana fram til þess að þjóðin fái að ráða. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson verður að gæta samræmis í málflutningi sínum. Þessi þingsályktunartillaga gengur fyrst og fremst út á þjóðarsátt á þeim erfiðu tímum sem við göngum núna í gegnum sem þjóð, að þjóðin fái að ráða því hvort eigi að eyða meiri tíma, orku og peningum í þetta aðlögunarferli og að þjóðin fái að ráða því hvort farið verði að huga að innanríkismálum og hjálpa heimilum og fjölskyldum og síðast en ekki síst koma atvinnulífinu af stað.



[15:03]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi alls ekkert hlustað á ræðuna mína.

Ég var að sjálfsögðu ekki að tala um að ég væri þeirrar skoðunar að í gagni væru aðlögunarviðræður, þingmaðurinn sagði: Vegna þess að hann les upp úr nefndarálitinu eða framsöguræðu með frumvarpinu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að hér séu í gangi aðlögunarviðræður, alls ekki. Ég tel að hér séu í gangi umsóknarviðræður eins og Alþingi samþykkti að skyldu fara fram. Ég tel að Alþingi — og ríkisstjórnin er að sjálfsögðu bundin af samþykktum Alþingis — hafi samþykkt að fara í þessar viðræður og ríkisstjórnin eigi að gera það á þann hátt sem mestur sómi sé að og eigi að sjálfsögðu að gæta hagsmuna Íslands. Alþingi og þær þingnefndir og þeir þingmenn sem koma að þessum málum, t.d. utanríkismálanefnd, eiga líka að virða þann vilja og þá samþykkt Alþingis, burt séð frá hvaða skoðun menn kunna síðan að hafa á málinu. Ég hef notað hvert tækifæri sem ég hef fengið til þess að koma skoðunum mínum og flokks míns á framfæri og það geta félagar mínir í utanríkismálanefnd vitnað um sem hafa oft verið með mér á fundum með fulltrúum Evrópusambandsins.

Þingmaðurinn segir að ég kvarti yfir því að ferlið gangi seint. Ég var ekkert að kvarta yfir því, alls ekki. Ég sagði að það sem hefði gerst væri að ferlið hefði tekið lengri tíma en margir hefðu gert ráð fyrir en það væri að grunni til algjörlega eins og nefndarálit utanríkismálanefndar lýsti því. Það væri algjörlega eins þó að það kynni að hafa tekið lengri tíma, ekki kvartaði ég yfir því nema síður væri.

Í þriðja lagi nefnir þingmaðurinn að ég hafi talað um að þjóðin fái að ráða og það sé undarlegt að ég vilji þá ekki styðja þessa tillögu. Ég tel að þjóðin eigi að fá að ráða því hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Ég tel að það sé best gert með því að það liggi þá fyrir nákvæmur samningur um hvað felist í aðild Íslands að Evrópusambandinu og þjóðin kjósi um það á efnislegum forsendum. Það tel ég vera mikilvægt. Ég tel ekki að atkvæðagreiðsla um hvort fara eigi í ferlið eða ekki — fyrir utan að Alþingi felldi tillögu þar að lútandi — sé ígildi þess að (Forseti hringir.) þjóðin ráði því hvort hún fari í Evrópusambandið eða ekki.



[15:05]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að hann sé óþreytandi við að bera út skoðun hans eigin flokks. Ég vil minna á að í síðustu kosningum hét flokkur vinstri grænna, flokkur ræðumanns, því að Ísland mundi ekki ganga inn í Evrópusambandið og hlaut nokkurn kosningasigur fyrir, en hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talar algjörlega í öndverða átt við það.

Mig langar að benda á að það kom fljótlega í ljós eftir að þessi umsókn var send að aðeins ein leið væri inn í Evrópusambandið og það væri leið aðlögunar. Um það geta menn lesið á vef sambandsins og hvet ég hv. þingmann til að kynna sér þau mál því að ég veit að hv. þingmaður veit að við erum í aðlögunarferli en ekki umsóknarferli.

Það var líka eitt enn, þingviljinn. Evrópusambandið fer fram á að æskilegt sé að þingviljinn sé ótvíræður og einnig að ótvíræður vilji sé hjá viðkomandi ríkisstjórn til að sækja um. Hann er ekki til staðar (Forseti hringir.) enda er maður kannski ekki hissa á því að fulltrúar Evrópusambandsins séu orðnir frekar þreyttir á núverandi ríkisstjórn eins og við öll.



[15:06]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki, þingmaðurinn hefur kannski spurt forustu Evrópusambandsins hvort hún sé orðin þreytt á ríkisstjórninni, en ég vek athygli á því að í skjali sem kom frá Evrópusambandinu fyrir nokkrum dögum stendur að stjórnmálaástandið á Íslandi sé stöðugt og ríkisstjórnin hafi góð tök á málum. Það finnst mér vera nokkuð góð umsögn (VigH: Og trúirðu því?) um störf ríkisstjórnarinnar. Að sjálfsögðu trúi ég því.

Varðandi kosningastefnu eða málflutning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í síðustu kosningum bendi ég bara á að á landsfundi flokksins í mars 2009 var gerð samþykkt er lýtur að Evrópusambandsmálum. Þar voru þrjú atriði tilgreind: Í fyrsta lagi að flokkurinn ítrekaði að hann teldi hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan, í öðru lagi að það ætti að fara fram opin og lýðræðisleg umræða um ESB-málin í samfélaginu og í þriðja lagi að þjóðin ætti að ráða þessu máli til lykta.

Hvarvetna þar sem ég kom í kosningabaráttunni, sem var allvíða í mínu kjördæmi hér í Reykjavík, lét ég nákvæmlega þessa skoðun í ljós, þetta væri það sem ég vildi beita mér fyrir. Það er sannfæring mín að það sé best gert með því að þjóðin ráði því til lykta (Forseti hringir.) með því að hafa í höndunum samning sem ótvírætt segir hvað fylgi aðild og hvað ekki.



[15:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann — ég þakka honum fyrir ágæta ræðu — í fyrsta lagi hvort hann hafi trú á fjármagni og áróðri, að fjármagn geti breytt skoðunum fólks nógu mikið og hvort eitthvað hafi verið rætt í utanríkismálanefnd um þá styrki sem Evrópusambandið er að veita til Íslands til að breyta skoðunum Íslendinga á Evrópusambandinu og segja Íslendingum hvað það sé óskaplega gott.

Svo langar mig í öðru lag til að spyrja hv. þingmann: Hver er hans sannfæring, vill hann sjá Ísland í Evrópusambandinu eftir tíu ár? Hefur hann sem einstaklingur þá sannfæringu að Ísland eigi að vera í Evrópusambandinu? Getur verið að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu breyti þeirri sannfæringu? Þá allt í einu hugsi hann: Ja, ég sem Íslendingur vil hafa Ísland í Evrópusambandinu um alla framtíð. Getur verið að sannfæringin breytist eftir niðurstöðu kosninga? Ég vil fá svar við því.

Svo minni ég á að þegar þetta kemur til umræðu eftir kosningar og búið er að kjósa nýtt þing og svoleiðis gæti aftur farið í gang svokölluð kattasmölun sem er alveg sérstakt nafn á því hugtaki þegar menn greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni til að viðhalda ríkisstjórn.



[15:09]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú væri fróðlegt að vita hvort einhverjar reglur eru í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem lúta að kattasmölun. Mér er ekki kunnugt um það en áhugavert gæti verið að grennslast fyrir um það.

Þingmaðurinn spyr um fjármagn og hvort ég telji að það geti haft áhrif á afstöðu manna og hvort þau mál hafi verið rædd á vettvangi utanríkismálanefndar. Já, þau hafa verið rædd á vettvangi utanríkismálanefndar en ekki til neinnar niðurstöðu í sjálfu sér en þau hafa komið til umfjöllunar og munu áreiðanlega verða þar áfram til umfjöllunar.

Að sjálfsögðu getur fjármagn, auglýsingar og áróður haft áhrif á afstöðu manna, vitaskuld getur það það, á báða vegu. Þeir sem hafa yfir miklu fjármagni að ráða geta að sjálfsögðu haft nokkuð upp úr því að dæla fjármagni inn á markvissan hátt og náð einhverjum árangri í því að fá stuðning. En það getur líka haft þveröfug áhrif, við þekkjum líka dæmi um að menn gangi svo fram af þjóðinni að það hafi öfug áhrif þannig að hvort tveggja kemur til álita.

Við höfum rætt upplýsingamálin í utanríkismálanefnd. Fjallað er um þau í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Núna er að störfum sérstakur starfshópur á vegum nefndarinnar um upplýsingamálin og ég vænti þess að mjög fljótlega, jafnvel strax á næsta fundi, verði hugmyndir hans um hvernig staðið verði að hlutlausri upplýsingamiðlun á vettvangi Alþingis kynntar og hvernig fjárhagslegum stuðningi við félagasamtök sem vilja leita eftir fjárframlögum í kynningarstarfsemi sína verði háttað. Ég geng því út frá að það verði áfram til umræðu.

Síðan spyr þingmaðurinn um sannfæringuna og hvort úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu geti breytt sannfæringu. Ja, eins og ég sagði áðan: Mín sannfæring er sú að þjóðin eigi að ráða því á endanum þegar upp er staðið hvort við förum inn í Evrópusambandið eða ekki, það er mín sannfæring. (Forseti hringir.) Og ég vil fara að vilja þjóðarinnar þegar hann liggur fyrir á grundvelli þess samnings sem þá verður borinn undir þjóðina.



[15:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann sem formann utanríkismálanefndar hvort það sé ekki eðlilegt að bæði sjónarmiðin fái jafnmikla peninga, að Heimssýn fái þá jafnmikið og allt hitt batteríið sem vinnur að inngöngu.

Í öðru lagi vil ég benda honum á að ég hitti forritara um daginn sem er atvinnulaus en hann sér allt í einu mikla möguleika í því að fá starf og vinna sem forritari við að koma öllum þeim kerfum á sem Evrópusambandið er að vinna að. Ég hugsa að það hafi nú dálítið áhrif á hann því að hann veit jú hver borgar.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann af því að hann viðurkenndi eða samþykkti að miklir peningar gætu haft áhrif, hafa þá miklir peningar áhrif á sannfæringu hans?



[15:13]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn spurði mig reyndar líka að því áðan hver sannfæring mín væri í þessu máli. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan og ég byggi það á mati á okkar eigin hagsmunum. Ég tel að þar vegi mjög þungt auðlindamálin, sjávarútvegsmálin ekki síst, margvíslegir þættir landbúnaðarmála og byggðamála. Ég horfi líka á ýmsa aðra málaflokka sem ég tel reyndar að séu betur komnir innan Evrópusambandsins í dag en hjá okkur og nefni þá sérstaklega umhverfismál og náttúruverndarmál.

Það hefur mótað afstöðu mína til Evrópusambandsins alla tíð að ég hef talið að ríkari hagsmunir væru fyrir okkur utan Evrópusambandsins en innan. Sú sannfæring mín hefur ekki breyst. Ég vil engu að síður að við göngum ferlið sem Alþingi ákvað að setja af stað til enda og fáum niðurstöðuna í hendur þannig að þjóðin kjósi um hana. Afstaða manna til aðildar að Evrópusambandinu getur ráðist af mismunandi þáttum. Sumir láta sjávarútvegsmálin ráða, einhverjir landbúnaðarmálin, enn aðrir umhverfismálin eða gjaldmiðilsmálin (Forseti hringir.) og sumir bara prinsippmálin yfirleitt, hvort þeir vilji vera þarna inni eða ekki. Hver og einn verður að fá að taka afstöðu (Forseti hringir.) á eigin forsendum.



[15:14]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Afstaða mín og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í þessu máli er ágætt dæmi um þá ólíku sýn sem er á málinu innan raða Vinstri grænna eða ferlið sem nú er í gangi.

Mig langaði að beina tveimur spurningum til hv. þingmanns, einkum þar sem hann er formaður utanríkismálanefndar. Nú er talað um að ekki sé aðlögun í gangi. Hæstv. utanríkisráðherra hefur líka gert það en í gögnum, m.a. í nýlegri framvinduskýrslu, kemur fram að lýst er þungum áhyggjum yfir því hversu hægt gangi að vinna að því að koma upp greiðslustofnun í landbúnaði og fleiri þáttum. Í framvinduskýrslu Króatíu, sem einnig er að finna á vef Evrópusambandsins, er þáttunum lýst sem hv. þingmaður talar um að Ísland þurfi ekki að gera. Því er lýst hvernig Króatíu gengur að uppfylla þessi skilyrði og kemur skýrt fram að það verður að vera búið að því áður en samningaferlinu lýkur.

Mig langaði að beina því til hv. þingmanns hvort honum sé kunnugt um að Íslendingar séu í öðru ferli en Króatar og þá hvar upplýsingar og ákvarðanir um slíkt sé að finna.

Hin spurningin sem mig langaði að beina til hv. þingmanns er hvort hann telji eðlilegt að Evrópusambandið setji hundruð milljóna í áróðursstarf og hvort honum sé kunnugt um hvaða upplýsingasöfnun Evrópusambandið hafi verið með og er lýst m.a. í Morgunblaðinu og víðar. Hvaða upplýsingasöfnun er Evrópusambandið að vinna hér á landi og veit hv. þingmaður hvort upplýsingarnar og gögnin sem þar liggja fyrir séu opinber og hvort mögulegt sé að nálgast þau?



[15:16]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi aðlögunina sem hér er talað um þá lét ég þá skoðun koma fram í stuttri umræðu utan dagskrár í gær að það væri skoðun mín, byggð á samtölum og upplýsingum sem ég hef fengið frá Evrópusambandinu, að engar kröfur séu gerðar um að við lögum okkar löggjöf, reglur eða stofnanir að því sem á við — (Gripið fram í.) hv. þingmaður, ég er að lýsa viðhorfum og viðbrögðum sem ég hef fengið á fundum sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur ekki setið og ég frábið mér svona vitleysisleg frammíköll, frú forseti. Í samtölum sem ég hef átt hefur ítrekað komið fram að ekki séu gerðar kröfur um að við aðlögum okkar löggjöf, reglur og stofnanakerfi að því sem gerist innan Evrópusambandsins áður en þjóðin tekur ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sagði í gær að skilaboðin frá Evrópusambandinu væru misvísandi að því leyti að mér væri kunnugt um að aðrir hefðu fengið aðrar upplýsingar og þetta væri nauðsynlegt að fá á hreint. Ég vonast til þess að menn geti verið sammála um að það sé mikilvægt að við vitum nákvæmlega hvað við erum að tala um í þessu efni.

Hvað Króatíu snertir þá er það þannig að eftir stækkun Evrópusambandsins, þegar 10 ríki bættust við og mörg Austur-Evrópuríki, þá upplifði Evrópusambandið mikla erfiðleika við aðlögun ríkjanna vegna þess hve mörg ríki komu inn í einu og þau höfðu ekki stofnanauppbyggingu og innviði eins og þekktust á Vesturlöndum. Þau höfðu t.d. ekkert sveitarstjórnarstig mörg hver og flest þurfti að byggja upp frá grunni. Þess vegna voru þessar reglur settar.

Það hefur hins vegar ítrekað komið fram að það gildir nokkuð annað um Ísland vegna þess að við höfum þegar, í gegnum EES-samninginn og Schengen-samkomulagið, innleitt verulegan hluta af löggjöf Evrópusambandsins og þess vegna mundi annað verklag hljóta að eiga við í okkar tilfelli en hvað Króatíu snertir.



[15:19]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að gæta orða sinna.



[15:19]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á fundum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með embættismönnum úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, þeir eru hátt á annan tuginn sem taka þátt í starfinu, hefur ítrekað komið fram af hálfu embættismanna sem komu frá Evrópusambandinu að viðræðuferlið muni stranda ef Ísland neiti til að mynda í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, sérstaklega landbúnaðarmálum, að taka þátt í þessari aðlögun. Það hefur komið fram í ræðum Stefans Füles að það er mikilvægt að ríki sýni fram á þetta. Ég hlýt að spyrja aftur að því hvort það sé ekki hægt að fá staðfest frá Evrópusambandinu svart á hvítu eða jafnvel frá ráðherraráði að Íslendingar þurfi ekki að gera neitt þessu líkt í aðlögun eða öðru. Það er greinilegt að hæstv. utanríkisráðherra og þeir sem aðhyllast ferlið eru á annarri skoðun en Evrópusambandið á því hvaða ferli er í gangi.

Að lokum langar mig að ítreka spurningu mína sem snýr að upplýsingaöflun sem Evrópusambandið vinnur í hér á landi. Hvort hv. þingmanni sé kunnugt um hvaða upplýsingaöflun þetta sé, hvort þetta séu opinberar upplýsingar, hverjir hafi unnið þetta og hver kostnaðinn sé. Það er eðlilegt að allir hafi aðgang að upplýsingunum þannig að gegnsæi og lýðræði sé tryggt.



[15:20]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get engu svarað fyrir Evrópusambandið um þá upplýsingaþjónustu sem þeir kunna að vera með hér á landi og veit ekkert um það hvaða upplýsingar þar eru á ferðinni. Ég held að við getum hins vegar sameinast um það, við hv. þingmaður að það hlýtur að vera hægt að fá þær upplýsingar inn t.d. á vettvangi þingnefnda ef óskað verður eftir því.

Aðeins varðandi formlegar samningaviðræður og fyrirkomulag þeirra þá vísa ég, og það rökstyður það sem ég sagði með Króatíu og gömlu Austur-Evrópuríkin, til bls. 7 í nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 249 frá 2009 þar sem er fjallað um þetta. Þar er rakið hvernig breyting hefur orðið á stækkunarviðræðunum og það er fjallað um að það gefi sem minnst af frestum til að uppfylla skilyrði áður en köflum er lokað en síðan segir: „Slíkt er að sjálfsögðu óháð þeim aðlögunartíma og undanþágum sem kann að semjast um.“

Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði. Það eru þættir sem við ætlum okkur að semja um við Evrópusambandið að því er varðar (Forseti hringir.) sjávarútveginn og landbúnaðinn svo dæmi sé tekið. Þess vegna ættum við ekki að undirgangast það að þurfa að aðlaga eitthvað slíkt áður en þjóðin tekur ákvörðun um það hvort hún fer þarna inn eða ekki.



[15:22]Útbýting:

[15:23]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem fjallar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og aðildarviðræðuferli að Evrópusambandinu. Það hafa verið nokkrar umræður um þetta og sitt sýnist hverjum hvort í gangi sé aðlögun eða aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það er eðlilegt að margir í mínum flokki studdu að sótt væri um aðild og reyndar menn í öðrum flokkum studdu að sótt væri um aðild að Evrópusambandinu. Síðan færu fram einfaldar samningaviðræður, samningadrög kæmu á borðið og fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðu samninganna. Kæmist þjóðin að því að við skyldum ganga í Evrópusambandið mundum við byrja á því að aðlaga okkur að regluverkinu sem biði okkar. Kæmist þjóðin hins vegar að því að það skyldi ekki gert þá yrði það ekki gert.

Það skýtur skökku við að ferlið hefur jafnt og þétt breyst úr því að vera aðildarviðræðuferli yfir í að vera aðlögunarferli. Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Til að mynda er þegar farið að gera kröfur um að byrja á því að breyta stjórnsýslu í landbúnaði. Við þurfum að fara að undirbúa að setja upp svokallaða greiðslustofnun vegna þess að greiðslukerfi landbúnaðarins í Evrópu er miklu flóknara og viðameira heldur en kerfið sem við búum við hér á landi sem hefur verið leyst með nokkrum einstaklingum. Greiðslustofnunin í Svíþjóð er um 600–700 manna vinnustaður. Við þurfum að byrja strax að vinna að landupplýsingakerfi vegna þess að greiðslur Evrópusambandsins byggja á ákveðnum landupplýsingum og öðru slíku. Við þurfum að setja upp markaðseftirlit og fleira í þeim dúr. Þetta þarf allt — eða réttara sagt það sem fram hefur komið á fundum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hjá Evrópusambandinu, nú síðast í framvinduskýrslu, er að þessi verkefni verða að fara í gang. Hins vegar hafa hæstv. utanríkisráðherra og fleiri haldið því fram að þetta þurfi ekki að gerast.

Mig langar að koma að framvinduskýrslu Íslands. Þegar ég fór að skoða hana rakst ég á framvinduskýrslu Króatíu sem er í sama ferli og Íslendingar. Í framvinduskýrslu Króatíu voru sett skilyrði fyrir því að hefja viðræður um ákveðna kafla og skilyrði fyrir því að loka viðræðum um ákveðna kafla. Það er ljóst að Króatía þarf að koma sér upp slíkri greiðslustofnun í landbúnaði áður en samningaviðræðum verður lokað í kaflanum um landbúnaðarmál. Við hljótum því að spyrja okkur hvort Ísland sé í öðrum viðræðum en Króatía, öðrum viðræðum en Tyrkland, öðrum viðræðum en önnur ríki sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu undanfarin ár. Það verður fróðlegt, þegar skilyrðin birtast, að sjá hvað hv. þingmenn sem haldið hafa öðru fram segja þá.

Til aðlögunarinnar eru einnig boðnir styrkir, svokallaðir IPA-styrkir. Það eru 4 milljarðar sem Evrópusambandið hyggst setja í styrki sem hugsaðir eru til að aðlaga íslenskt regluverk og íslenskt samfélag að Evrópusambandinu á meðan á ferlinu stendur. Þetta er gert með mótframlögum af hálfu íslenska ríkisins, 10–15%, sem leggja á fram annaðhvort með fjármagni, vinnuframlagi eða öðru. Það liggur ljóst fyrir að Evrópusambandið lítur svo á að við séum í aðlögunarferli. Það eru engin gögn sem benda til annars og í framvinduskýrslu Íslands lýstu þeir miklum áhyggjum yfir tvennu á Íslandi. Annars vegar því hversu aðlögun gengi hægt í ákveðnum málaflokkum landbúnaðar og sjávarútvegs og breytingu á stjórnsýslu þar. Hins vegar afstöðu Íslendinga til ferlisins sem er í gangi og Evrópusambandsins. Ég ætla að koma inn á það á eftir.

Ég hef verið í töluverðu sambandi við Norðmenn, m.a. þá sem muna aftur til 8. áratugarins og tóku þátt þegar Noregur sótti um ESB-aðild og 1994. Menn sem ég þekki þar hafa kafað ofan í ferlið á nýjan leik eftir að Íslendingar sóttu um aðild. Þeir hafa komast að því að ferlið er mun ítarlegra og dýpra en það var þegar þeir sóttu um aðild. Ferlinu var breytt eftir að Noregur felldi það 1994 og fært í þá átt, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á í sinni ræðu, að ríkið uppfylli lög og reglugerðir Evrópusambandsins meðan á viðræðuferlinu stendur. Það var gert í tvennum tilgangi. Norðmenn vilja meina að það hafi verið gert til að þeir fengju ekki fleiri nei eins og var í Noregi. Það er ekkert kappsmál hjá Evrópusambandinu að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóð gangi í Evrópusambandið. Það er ekkert eðlilegt að þjóðir sæki um aðild að Evrópusambandinu nema hugur fylgi máli. Hitt hafi verið vegna þess að ríki í Austur-Evrópu hafi þurft að gera þetta á lengri tíma eins og réttilega var bent á. Það er ljóst að ferlið sem Evrópusambandið býður upp á í dag er á þá leið að við eigum jafnt og þétt, með stuðningi Evrópusambandsins bæði fjárhagslegum og mannafla, að aðlaga okkur að Evrópusambandinu. Köflum verður ekki lokað áður en það gerist, þeir verða jafnvel ekki opnaðir áður og það mun skýrast þegar líður fram á næsta ár. Þetta er þvert á það sem var kynnt. Þó að þetta standi í nefndaráliti með óljósu orðalagi þá er það algerlega á skjön við það sem haldið var fram í umræðunni um málið.

Það var fjallað um málið með þeim hætti að hér ætti að fara í einfaldar aðildarviðræður. Síðan færi fram kosning meðal þjóðarinnar og eftir það yrði ráðist í aðlögunina. En í staðinn verða skilyrði sett áður en kaflar verða opnaðir. Við erum byrjuð að sjá skilyrðin koma áður en þeim köflum verður lokað. Við þurfum að uppfylla sem mest af þessum reglum og breytingum áður en það gerist. Síðan þegar samningurinn, nota bene, er tilbúinn þá erum við búin að aðlaga okkur. Hann mun verða borinn undir öll aðildarríkin og síðan þarf íslenska ríkisstjórninni að fullgilda hann. Svona er ferlið og að því loknu mun þjóðin segja sitt.

Við sjáum öll sem viljum sjá að ferlið er komið í algert öngstræti. Ég er ekki mótfallinn því að þjóðin fái að segja sitt í þessu máli. Ég er fylgjandi því að þjóðin fái að segja sitt en það verður þá að vera tryggt að ekki verði ráðist í nokkrar breytingar á íslensku regluverki og fengið verði upp á borðið hvaða undanþágum Íslendingar eiga von á og hverjum ekki og síðan geti þjóðin sagt sitt. Það er búið að snúa þessu öllu á hvolf.

Síðan er annar þáttur. Þessir IPA-styrkir eru ætlaðir til aðlögunar. Hinn þátturinn eða svokallaðir Taiex-styrkir sem greint var m.a. frá í blöðunum í gær. Styrkirnir eru ætlaðir til að bæta ímynd Evrópusambandsins á Íslandi. Það er eitt af því sem Evrópusambandið hafði miklar áhyggjur af í framvinduskýrslu sinni sem birt var nýverið. Það hlýtur að valda mönnum áhyggjum að Evrópusambandið ætlar á næstu tveimur árum að setja 155 milljónir í áróðursherferð. Mig langar, með leyfi frú forseta, að lesa það sem haft er eftir Timo Summa, formanni sendinefndar ESB á Íslandi, og er eitt af verkefnunum sem unnið er að núna:

„Við lítum á mismunandi hópa og hver afstaða borgarbúa eða fólks á landsbyggðinni er til aðildar.“ Þeir eru sem sagt í gagnasöfn með skoðanakönnunum og eru að borga fólki fyrir að koma suður o.fl. „Við viljum vita þetta svo við getum undirbúið kynningargögn í samræmi við það. Við viljum vita hvar eyður eru í þekkingunni og reyna í framhaldinu að leysa það.“

Þetta er loðið orðalag. Hitt er það sem Norðmennirnir bentu á og tengist þessu beint. Þeir hafa kynnt sér íslenska ferlið og eru í samstarfi við fleiri. Þetta er Nei-hreyfing ESB-andstæðnga í Noregi sem er 30 þúsund manna hreyfing með marga sérfræðinga innan sinna raða. Þeir segja að það sé mikill munur á því hvernig Evrópusambandið skipuleggur sig hér á landi miðað við það sem var í Noregi. Það er ljóst að þeir ætla að setja meira fjármagn í baráttuna og hún verði í líkingu við það sem var í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni um Lissabon-sáttmálann á Írlandi þar sem Evrópusambandið keypti heilsíðuauglýsingar í miklu magni og beitti fjármunum óspart í þeirri baráttu. Ég held að hvort sem það verður þessi þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu sem væri réttast að samþykkja eða einhver önnur leið, að því fyrr sem menn átta sig á að málið er komið í öngstræti þeim mun betra. Þá fyrst er hægt að vinna sig út úr þessu. (Forseti hringir.) Þá er hægt að finna lausnir og leiðir hvernig við getum á lýðræðislegan hátt ráðið málið til lykta hér á landi.



[15:33]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Daða Einarssyni fyrir afar innihaldsríka ræðu. Ég deili svo sannarlega áhyggjum þingmannsins af fjármagninu sem streymir til landsins, um 4 milljarðar, sem eiga að fara í kynningarmál, upplýsingar og stjórnsýslu, boðsferðir og hitt og þetta sem til fellur til þess eins að landsmenn fái glýju í augun. Nóg um það.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því þar sem hann fór yfir samanburðinn við Króatíu í ræðu sinni, mjög málefnalegur: Hvernig stendur á því að hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar geta ekki viðurkennt það fyrir þingi og þjóð að um aðlögun að Evrópusambandinu sé að ræða? Hvers vegna þráast þeir við að viðurkenna þá staðreynd fyrir okkur? Eins og fram hefur komið hefur Evrópusambandið sjálft gefið það út að um aðildarviðræður sé að ræða og engar aðrar undankomuleiðir þaðan frá, það hefur margoft komið fram.

Mig langar líka aðeins að spyrja þingmanninn út í auðlindamál okkar. Hvaða skoðun hefur hv. þm. Ásmundur Daði Einarsson á þeim orðum sendiherra Frakklands á norðurslóðum og fleiri háttsettra aðila í Evrópusambandinu að Evrópusambandið þurfi á Íslandi að halda til að færa því lykilinn að norðurskautinu og þeim auðlindum sem liggja fyrir norðan Ísland, t.d. með opnun siglingaleiðarinnar þegar hún opnast yfir norðurpólinn?



[15:35]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi afstöðu utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar: Þeir verða að svara þessu sjálfir en í það minnsta er nokkuð ljóst að menn leggja ólíkan skilning í þetta, annars vegar embættismenn hjá Evrópusambandinu og Stefan Füle, stækkunarstjóri sjálfur, og hins vegar íslensk stjórnvöld eða formaður utanríkismálanefndar og hæstv. utanríkisráðherra. Ég kann ekki skýringar á því nema kannski þær helstar að ég er ekki viss um að Evrópusambandið muni bjóða upp á neitt annað ferli í þessum efnum. Eðlilegast væri að láta reyna á þau erfiðu mál sem við teljum okkur þurfa undanþágur í, og eru skilgreind í nefndaráliti utanríkismálanefndar, og síðan færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það held ég að sé ekki fjarri því sem margir héldu að væri að fara í gang. Það ferli sem nú er komið í gang er með allt öðrum hætti.

Hvað varðar veru sérlegs sendiherra ESB á norðurslóðum, sem var hér nýverið, held ég að það liggi ljóst fyrir að áhugi Evrópusambandsins á Íslandi snýr ekki hvað síst að því að styrkja stöðu sína hér á norðurslóðum. Ég hef verið í ágætu sambandi við einn Evrópuþingmann sem hefur haldið því sama fram. Hann fullyrðir við mig, þessi ágæti þingmaður, heitir Søren Søndergård og er Dani, að ljóst sé að Evrópusambandið muni ekki láta það gerast að Ísland segi nei. Þeir þurfi að styrkja stöðu sína á norðurslóðum, þeir þurfi að komast nær norðurslóðum, hér sé mikil orka, lega landsins skipti máli og fleira í þeim dúr.

Þetta kemur reyndar heim og saman við það sem kemur fram í skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, um öryggismál á norðurhöfum, þar sem hann telur gríðarlega mikilvægt að menn fari að ræða um norðurslóðamálin því að á norðurslóðum sé framtíðarorkuforði Evrópusambandsins. Við skulum ekki gleyma því, (Forseti hringir.) við Íslendingar, að jafnvel þó að við glímum við ákveðna erfiðleika erum við auðlindarík þjóð og við eigum gríðarlega mikla möguleika, hvort sem við lítum í austur eða vestur.



[15:38]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að biðja þingmanninn afsökunar, ég rangnefndi hann áðan. Ég veit auðvitað að hv. þm. heitir Ásmundur Einar Daðason en ekki því nafni sem ég sagði hér. Þetta vill oft skolast til og vonast ég til að þingmaðurinn fyrirgefi mér það.

Ég þakka kærlega fyrir svarið því að við deilum þessari sýn sameiginlega á norðurskautið og norðurpólinn og auðlindirnar sem liggja þar og að sjálfsögðu okkar eigin auðlindir.

Á heimasíðu Evrópusambandsins kemur fram að það er aðeins ein leið inn í Evrópusambandið og það er leið aðlögunar. Aðlögunarleiðin felur í sér að umsóknarríkin lagi sig jafnt og þétt að lögum og regluverki Evrópusambandsins í aðdraganda þess að viðkomandi þjóð gengur í sambandið. Það eru hvorki meira né minna en 90 þúsund blaðsíður sem þetta regluverk hljóðar upp á og um þetta geta allir lesið á heimasíðu sambandsins.

Jafnframt segir þar að það sé álit Evrópusambandsins að ekki sé hægt að semja sig frá aðlöguninni. Því spyr ég enn á ný: Finnst þingmanninum það ekki alveg ótrúlegt að sá málflutningur skuli viðhafður hér á Íslandi að þetta séu bara einhvers konar samræður sem eiga sér stað, samræður sem séu alls ekki skuldbindandi fyrir íslensk stjórnvöld, samræður sem feli ekki í sér aðlögun, og jafnvel er fullyrt að ekki þurfi einu sinni að breyta lögum til að við verðum fullgild í þessum aðlögunarviðræðum? Samt erum við hér með fyrir þinginu í hverri einustu viku margar EES-reglugerðir sem við þurfum að innleiða í íslenskan rétt og svo er verið að tala um að við séum ekki í aðlögunarferli. Hvernig stendur á því að verið er að rugla svona með íslensku þjóðina? (Forseti hringir.) Þess vegna er svo mikilvægt að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.



[15:40]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að Evrópusambandið sjálft segir að það sé bara ein leið inn í Evrópusambandið, það sé leið aðlögunar og þetta liggur alls staðar ljóst fyrir.

Mig langar aðeins að koma inn á orð hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur þegar hún talaði um óstöðugt ástand í íslensku samfélagi. Ég held að í ljósi þess að við erum komin í slíkar ógöngur með þessa umsókn, sem er orðin að aðlögun, sé gríðarlega mikilvægt að taka málið upp úr þessum förum, annaðhvort að menn setjist niður og fari að ræða þetta eins og það er, finni á því lausnir, eða fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem væri auðvitað heppilegast. Því fyrr sem menn komast upp úr þessum farvegi, að verja eitthvað, tala gegn Evrópusambandinu, þeim mun fyrr er hægt að ná lendingu í þessu máli og sætta menn hér innan dyra og utan.

Við erum að glíma við gríðarlega stór og mikil verkefni á öllum sviðum. Það er mjög mikilvægt að við eyðum þessu sem tengist Evrópusambandinu þannig að hægt sé að einbeita sér að öðrum verkefnum. Væri farin sú leið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og komist þjóðin að því að við eigum að fara alla leið með allri þeirri aðlögun sem því tengist, setja upp greiðslustofnun, ríkisstofnanir, umbylta öllu, þá gerum við það. En komist þjóðin að því að við eigum ekki að gera það þá hættum við því.

Ég skil ekki af hverju menn eru svona hræddir við að hleypa þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi létta þeirri spennu sem væri á þessu máli, það mundi létta þeirri spennu sem væri á þjóðinni. Ég furða mig á því en vonast jafnframt til þess að menn sjái ljósið í þessum efnum.



[15:42]Útbýting:

[15:42]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns fyrir þessu erindi, Vigdísar Hauksdóttur, fóru á síðasta ári fram tvær atkvæðagreiðslur um þjóðaratkvæði í þinginu. Ein var um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarumsóknar Evrópusambandsins, þ.e. að fyrst yrði kosið um hvort fara ætti í aðildarviðræðurnar og síðan eftir að aðildarviðræðum væri lokið. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu í þinginu. Önnur tillaga var hins vegar samþykkt í þinginu, um að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það ferli er nú í gangi, það ferli gengur vel. Þeir einu sem eru í öngstræti eða vandræðum í þeim efnum eru þeir sem voru á móti í atkvæðagreiðslunni um tillöguna um að óska eftir aðildarviðræðum.

Ég ætla ekki að fara inn í ruglið þeirra um aðild eða aðlögun. Það er einn útúrdúrinn sem andstæðingar þess að Ísland sækist eftir því að vera í félagsskap evrópskra þjóða hafa komið sér upp. Ég kannast hins vegar ekki við það að einhver sem mælti fyrir því að við færum þessa leið hafi sagt í þessum ræðustóli eða annars staðar að um einfaldar samningaviðræður yrði að ræða. Samningaviðræður við Evrópusambandið geta aldrei verið einfaldar. Það er mjög flókið ferli. Það er mjög flókið fyrir þá sem semja fyrir hönd Íslands hvað við eigum að setja fram og hvað þjóðin gæti hugsanlega sætt sig við.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem við erum aðilar að er ástæðan fyrir því sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi áðan, að hér koma inn nánast vikulega eða a.m.k. mánaðarlega alls konar gerðir frá Evrópusambandinu og þar hefur Ísland aðlagað lög sín og reglur að Evrópusambandinu. Það er alveg hárrétt. En að einhver hafi einhvern tíma haldið því fram í þessum ræðustól að samningaviðræður við Evrópusambandið um sjávarútveg, landbúnað, eitt tollasvæði, um byggðakjarna, yrðu einfaldar — ég veit ekki hvaða fólk hefur gert það.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi haldið vel á málunum. Ég sé það sem kemur út úr framgangsskýrslunni sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti á dögunum. Mér sýnist þeir telja að málið gangi vel, það gangi áfram í þeim farvegi sem þeir áttu von á. Ég get tekið undir það sem hefur komið fram áður að fram til þessa hefur þetta kannski tekið lengri tíma en sum okkar áttu von á. Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan héldu margir að ráðherraráðið mundi samþykkja að hefja aðildarviðræður við okkur hálfu ári áður en raun varð á. Það er þá bara svoleiðis.

Ég vil líka taka vara við því að fólk ætli að halda öllu í stöðnun í þau eitt, tvö eða þrjú ár sem við eigum eftir þangað til samningarnir liggja fyrir. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom mjög vel inn á það atriði að mínu mati. Við hljótum að halda áfram að breyta þeim lögum og reglum sem við teljum til bóta. Þótt við séum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið ætlum við ekki að sitja bara kyrr og gera ekki neitt þangað til niðurstaða kemur. Við vitum það hins vegar að ástæðan fyrir því að við erum að semja er sú að við ætlum ekki að ganga að öllum reglum og lögum Evrópusambandsins eins og þau eru í dag. Þess vegna erum við í samningaviðræðum. Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þessar umræður á köflum nánast óskiljanlegar.

Ég vildi bara koma upp til að það væri alveg ljóst að ég veit að ríkisstjórnin hefur fullt umboð þingsins til að halda áfram samningaviðræðunum. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir telji að þegar samningur liggur fyrir þá eigi að bera hann undir þjóðaratkvæði. Svo ekki þurfi að spyrja mig að því, þá er sannfæring mín að öllum þeim sem greiða atkvæði í þessum sal beri að fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar.



[15:49]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður deilum ekki skoðunum í þessu máli en ég verð þó að segja að ég dáist að því oft og tíðum þegar hún fjallar um þessi mál, hvað hún gerir það af mikilli sannfæringu fyrir hugsjónum sínum.

Hún segir að það sem snýr að aðlöguninni og öðru því um líku sé rugl. Í umræðunni hefur verið vitnað til ummæla frá Evrópusambandinu, og til reynslu Króata í þessu efni. Ég vil benda hv. þingmanni á að ég held að hópur þeirra sem telur að hér sé um aðlögun að ræða fari vaxandi. Ég nefni til að mynda að á nýafstöðnu málefnaþingi Vinstri grænna, sem er einn samstarfsflokkanna og var gríðarlega mikilvægt að margir úr þeim flokki studdu ESB-umsóknina, kom fram í öllum þeim erindum sem þar voru haldin að um skýra aðlögun væri að ræða. Nefna má áskorun 100 flokksmanna, varaþingmanna, formanna svæðisfélaga og fleiri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að baklandið fyrir umsókninni sé að bresta innan ríkisstjórnarinnar og jafnvel fyrir utan hana og hvort hún sé ekki tilbúin til að setjast niður og skoða málið á nýjan leik.



[15:50]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég hef engar áhyggjur af því að baklandið sé að bresta fyrir þessu. Ég finn fyrir því að margir eru mun áhugasamari um þetta efni nú en var áður. Það getur vel verið að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason verði var við eitthvað annað en það er af því að hann er í Vinstri grænum, ekki ég. Ég tel að við séum ekki í neinum ógöngum. Ég tel að við séum á góðri leið. Ég ætla að halda mig við framgangsskýrslu um íslensku samningaleiðina en ekki þá frá Króatíu.



[15:51]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins að þessu aftur. Það eru margir sem telja að um aðlögun sé að ræða. Komið hefur fram að við erum að ganga í gegnum sama ferli og Króatía. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að vitna í framvinduskýrslu Króatíu sem er komin lengra í ferlinu.

Önnur spurning sem mig langar að beina til hv. þingmanns er þessi: Er hún ekki tilbúin til að landa þessu máli, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram? Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega af hverju hún sé hrædd við að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla á þessum tímapunkti. Væri það ekki bara ágætislausn miðað við hvernig málin standa, að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ef þjóðin kæmist að því að halda skyldi áfram væri það gert en segði þjóðin nei væri það ekki gert. Af hverju hræðist hv. þingmaður svona að bera málið undir þjóðina á sama tíma og sýnt er fram á að um aðlögun er að ræða á mjög mörgum sviðum?



[15:52]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hræðist ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ég er bara andvíg því að hún fari fram, það er mjög einfalt. (Gripið fram í.) Það er svo að ríkisstjórnin hefur umboð Alþingis, umboð okkar sem sitjum hér, til að halda áfram umsóknaraðildarferlinu og það er nóg fyrir mig. Ég hef stundum sagt það í gríni að árið 1992 eða 1993, þegar Norðmenn greiddu atkvæði um aðildarsamning sinn, þá hafi þeir kosið fyrir okkur. Af máli hv. þingmanns að dæma heyrist mér að Norðmenn séu enn þá mjög öflugir í afskiptum sínum af Evrópuumræðunni á Íslandi.



[15:53]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur margoft lýst þeirri skoðun sinni að hann sé sannfærður um að Íslandi sé vel borgið í Evrópusambandinu. Það er sannfæring hv. þingmanns. Nú skulum við gefa okkur að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem ég segi að sé ekkert að marka, fari á þann veg að 55% verði á móti því að ganga í Evrópusambandið og 45% verði með því. Ætlar hv. þingmaður þá að segja mér að sannfæring hans breytist, að þá sé allt í einu ekki gott að ganga í Evrópusambandið?



[15:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft, ég veit ekki hvað oft, lýst því yfir að ég muni fara eftir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem verður um samning Íslands við Evrópusambandið. Það er sannfæring mín að ég eigi að fara eftir því sem ég hef lofað fólki.



[15:55]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvers vegna telur hv. þingmaður að í 48. gr. stjórnarskrárinnar standi:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Að þessari grein, sem og allri stjórnarskránni, hefur hv. þingmaður svarið eið. Hann á ekki að fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hann á að fara eftir sinni eigin sannfæringu. Hún er eftir því sem ég best veit og síðast vissi að Ísland ætti heima í Evrópusambandinu.



[15:55]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta útúrsnúning á orðum mínum og ekki svara vert.



[15:55]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð merkilegt ef þingmaður telur það ekki svara vert þegar spurningu sem varðar stjórnarskrána er beint til hans en við höfum öllsömul skrifað undir eið að stjórnarskránni. Ég ætla þó ekki að fjalla meira um það.

Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir. Hún vísaði í orð sem ég lét falla í ræðu áðan. Jú, svo sannarlega er verið að innleiða reglugerðir og tilskipanir frá Evrópusambandinu en það er notað sem yfirskin. Ég nefni t.d. landnýtingaráætlun, vatnatilskipun, rammaáætlun og breytingu á EES-samningnum sem gerir að verkum að við erum orðin bundin af lögum að borga inn í styrkjakerfi Evrópusambandsins. Landnýtingaráætlunin var t.d. til þess gerð að Evrópusambandið gæti aflað sér landsupplýsinga og kortlagt Ísland fyrir styrkjakerfi landbúnaðarins. Ég ætla að spyrja: Styður þingmaðurinn ekki þessa þingsályktunartillögu að þjóðin fái að segja skoðun sína?



[15:57]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé búin að segja það fjórum sinnum að ég styð ekki tillöguna.



[15:58]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur meiri hluta á sunnudögum eins og ég sagði í ræðu í dag, og meiri hlutinn er svo tæpur í þinginu að hann er brothættur eins og egg. Ákveðnir aðilar innan ríkisstjórnarflokkanna og þá sérstaklega Samfylkingarinnar vilja bara lýðræði á hátíðisdögum. Allir tala frjálslega um að þeir vilji senda mál til umsagnar hjá þjóðinni. Þjóðin eigi að hafa síðasta orðið í málum, þjóðin eigi að koma meira að málum með því að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslum. En svo þegar kemur að máli sem svo sannarlega á erindi til þjóðarinnar og okkar allra til að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkisstjórnin er búin að koma okkur í, þá vill Samfylkingin ekki fleyta þessum rétti til þjóðarinnar með því að taka þátt í umræðum á Alþingi og samþykkja þingsályktunartillöguna og leyfa þjóðinni að ákveða hvort haldið verður áfram eða ekki.



[15:59]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á því að ég neiti að taka þátt í umræðu. Ég er að taka þátt í umræðu um tillöguna. Það vill svo til að ég er ekki sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og ég held að það sé réttur minn í þessum sal að vera ekki alltaf sammála henni.

Ég veit ekki hvaða kyrrstaða það er sem hún segir að ríkisstjórnin sé í og ég átta mig ekki á hvað sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hún mælir fyrir af miklum krafti ætti að leysa. En það er bara minn vandi.



[15:59]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur telur hún að ríkisstjórnin hafi skýrt umboð til þess að fylgja þessu máli eftir. Mig langar því að beina þeirri spurningu til hennar: Hvað ef Alþingi dregur það umboð til baka? Ég lít svo á að þeir sem veittu umboðið geti dregið það til baka. Ég held að það umboð sem ríkisstjórninni var veitt sé afar tæpt. Eins og kemur skýrt fram í þingsályktunartillögunni lýstu mjög margir því yfir að þeir væru því andsnúnir en í krafti þess að þeir vildu hér vinstri stjórn létu þeir tilleiðast.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er hún reiðubúin að beita sér fyrir því að málið fari í gegnum nefndir Alþingis og komi hér til síðari umr. þannig að við getum greitt um það atkvæði á lýðræðislegan hátt (Forseti hringir.) jafnvel þó að ég viti að hún muni segja nei við þeirri tillögu?



[16:00]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að ef Alþingi breytir fyrri ákvörðun sinni þá breytist það og ríkisstjórnin hlýtur að fara eftir því sem Alþingi ákveður. Ég mun ekki þvælast fyrir þessari tillögu neins staðar í nefndum þingsins.



[16:01]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það eina sem verið er að leggja til hér er að tillagan komi til atkvæðagreiðslu á Alþingi vegna þess að það eru miklar efasemdir um það, ekki bara á Alþingi heldur víðs vegar í samfélaginu, hvort ríkisstjórnin hafi nægilega skýrt umboð til að leiða þessar viðræður. Þess vegna er ég mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður ætli a.m.k. ekki að standa í vegi fyrir því. Það sem ég óttast er að málið komi ekki til endanlegrar afgreiðslu, málið verði svæft í nefnd eins og tillaga hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um að draga þessa Evrópusambandsumsókn einfaldlega til baka. Við verðum alltaf, og ég held að það sé krafa um það í þjóðfélaginu, að leyfa lýðræðinu að ráða og hluti af því er að meiri hlutinn beiti ekki minni hlutann því ofbeldi að svæfa mál í nefndum.



[16:02]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það sé alveg ljóst að ég er andvíg þessari tillögu og mun náttúrlega alls staðar þar sem hún kemur fram skýra frá því. Ég mun aldrei greiða þessari tillögu atkvæði mitt, það er alveg ljóst. Kannski verð ég í minni hluta í einhverri nefnd og segi nei, kannski verð ég í meiri hluta í einhverri nefnd og segi nei. Ég mun alltaf segja nei. (HöskÞ: Þú munt stoppa þetta í nefnd?) Ég mun ekkert stoppa þetta í nefnd. Ef það er stopp í nefnd við að ég segi nei, að ég er ósammála tillögunni, þá … (Gripið fram í.)

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, það er náttúrlega eitt að segja að meiri hlutinn megi ekki kúga minni hlutann en minni hlutinn má heldur ekki kúga meiri hlutann. Ég vona að þingmanninum sé það ljóst.



[16:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið nokkuð góð og málefnaleg umræða og það ber að þakka, reyndar kom margt sérkennilegt fram sem ég mun koma inn á á eftir.

Hér er lagt til að þjóðin segi álit sitt á því hvort halda eigi áfram því ferli sem við erum komin í sem samkvæmt utanríkisráðuneytinu, ég fletti þar upp, er aðildarferli. Þingmönnum var selt á sínum tíma og margir vitnuðu í það að þetta væru viðræður og svo ætluðu menn að sjá hvað út úr þeim viðræðum kæmi, svona kíkja í pokann til að sjá hvort það væri nógu mikið nammi í honum og ef það væri gott ætluðu þeir að greiða atkvæði með því. Þeir greiddu ekki atkvæði um það eins og stendur hér á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, ef ég má lesa það, með leyfi frú forseta:

„Almennt ferli við umsókn að Evrópusambandinu. Formlegt upphaf. Aðildarferlið hefst formlega með því að ríki sem óskar aðildar sendir aðildarumsókn til ráðherraráðs ESB.“

Þetta stendur þarna. Þetta eru ekki viðræður, þetta er aðildarferli. Ég hygg að mjög margir þingmenn sem lýstu því yfir að þeir vildu fyrst kíkja á hvað viðræðurnar gæfu og síðan þegar kominn væri einhver fallegur samningur, að það mætti veiða þorsk o.s.frv. í 20 ár eða hvað það nú er, ætti að bera það undir þjóðina. Það er ekki þannig. Við erum að aðlagast aðild að Evrópusambandinu, við erum að aðlagast Evrópusambandinu.

Umsóknin, ég ætla að lesa hana, frú forseti. Þessi umsókn er fjórar línur og það vill svo til að ég óskaði eftir íslenskri þýðingu á henni og ég fékk það svar, frú forseti, að það sé ekki til þýðing á þessu bréfi. Ég settist því niður með mína enskukunnáttu, og ég ber ekki ábyrgð á því að ég verð víst að halda mál mitt hér á íslensku en ég ætla að byrja á því að lesa þetta litla bréf á ensku, framburðurinn, menn verða afsaka hann bara fyrir fram. Þetta er skrifað í Reykjavík 16. júlí 2009:

„Mr. President.

The Government of Iceland has the honour to present hereby, in conformity with Article 49 of the Treaty of European Union, the application of the Republic of Iceland for membership of the European Union.

Please accept, Mr. President, the assurances of our highest consideration.“

Þetta er ekki til á íslensku, frú forseti, en fyrir þá Íslendinga sem eru ekki sleipir í ensku reyndi ég að þýða þetta með minni enskukunnáttu:

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands er heiður að því að leggja hér fram, í samræmi við 49. gr. grunnsáttmála Evrópusambandsins, umsókn lýðveldisins Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég fullvissa yður, herra forseti, um okkar einlægu virðingu.

Meira er það ekki. Ef öll 27 ríkin segðu já værum við orðnir aðilar, Íslendingar, það er svo einfalt. Hér er ekki vitnað í mjög veigamikla þingsályktun sem Alþingi samþykkti í mörgum liðum þar sem átti að hafa samráð við utanríkismálanefnd og ég veit ekki hvað og hvað, það er ekki vitnað í það. Það er ekki beðið um viðræður heldur, enda eru þetta ekki viðræður, þetta heitir aðildarferli.

Það er heldur ekki vitnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda vita náttúrlega þeir sem til þekkja að hún hefur ekkert að segja. Ekki heldur í stjórnarskrárbreytingu því að þetta gengur ekki í gegn nema stjórnarskránni sé breytt. Fólkið úti í Brussel sem les þessa makalausu aðildarbeiðni veit kannski ekkert af þessu öllu saman. Þetta er um aðildina og nú hefur þjóðin loksins fengið íslenska þýðingu á þessu því að hún liggur hvergi fyrir.

Vinstri grænir greiddu margir atkvæði hérna með afskaplega hangandi hendi og merkilegust er náttúrlega ræða hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, það er ræða sem menn eiga að lesa svona einu sinni á dag sér til skemmtunar. Hún sagði: Ég er á móti Evrópusambandinu, þetta er hernaðarbandalag o.s.frv., ég er á móti, á móti, á móti. Ég segi já.

Þetta var vegna þess að menn voru að bjarga ríkisstjórninni, ekki vegna sannfæringar sinnar, ég er sannfærður um það. Um þetta hefur síðan orðið til hugtakið „kattasmölun“, það er komið ákveðið hugtak yfir þetta fyrirbæri þegar menn greiða atkvæði til að bjarga ríkisstjórn en ekki út af málefninu sjálfu og það hefur verið nokkuð oft.

Það er dálítið miður, frú forseti, því að Vinstri grænir unnu kosningarnar vegna þess að þeir vildu ekki ganga í Evrópusambandið og þeir vildu ekki eiga samband við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þeir voru á móti Icesave. Þeir unnu kosningarnar á þessum grundvelli. Svo er allt svikið en áfram halda þeir samt.

Ég ræddi áðan um áróður. Hér kemur inn í landið mjög mikið af peningum. Þeir eiga að fara í það að kynna fyrir Íslendingum hve Evrópusambandið er yndislegt og gott og allt svoleiðis og svo auk þess styrkir til alls konar vísindarannsókna og annars slíks, bara hrein vinna fyrir fólk, atvinna, sem er mikils virði í dag. Ég gat um það líka að þessir peningar geta leitt til þess að menn fái vinnu og verði ánægðir því að fólk metur oft þann sem borgar grautinn þess.

Hér kom líka fram að sumir eru sammála því að peningar hafi áhrif á skoðun fólks að einhverju leyti, með áróðri er hægt að breyta skoðunum fólks. Það þýðir að peningar, mikið fjármagn breytir skoðun þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og breytir þannig sannfæringu þingmanna, ekki satt? Þeir eru margir búnir að lýsa því yfir að þeir muni fara að vilja þjóðaratkvæðagreiðslunnar þannig að sannfæringin dinglar eftir peningunum sem settir eru inn í dæmið. Það er ótrúlegt að sannfæringin skuli vera sú því að ég les það út úr 48. gr. stjórnarskrárinnar að þetta sé þvert á hana, að þingmenn megi ekki fara að boðum kjósenda sinna.

Ég skora á hv. þingmenn sem hafa svarið eið að stjórnarskrá Íslands eins og hún er núna að lesa þessa grein og bera hana saman við sannfæringu sína.

Eins og ég gat um áðan voru það villandi forsendur sem urðu til þess að menn greiddu atkvæði með þessu. Þetta er ekki það sem menn ætluðu, menn ætluðu ekki að fara í aðildarferli, menn ætluðu að fara í samningaviðræður og fá eitthvað gott út úr þeim, að mega veiða fisk í svo og svo mörg ár og allt það.

Ekki hefur verið nefnt hérna, en það kom fram í útvarpinu um daginn hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að í gildi eru íslensk lög nr. 62 frá 1978 sem eru lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi. Það er nefnilega þannig að Evrópusambandið er búið að stofna eins konar sendiráð á Íslandi og það er ákveðin evrópsk stofnun sem starfar hér á landi. Samkvæmt fyrrnefndum lögum er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu. Þar sem nú er komin netnotkun og allt slíkt er spurning hvort þessi starfsemi Evrópusambandsins á Íslandi með þessum gífurlegu fjárstyrkjum brjóti ekki þessi lög, að hafa áhrif á Ísland. Ég vil gjarnan að menn skoði það í utanríkismálanefnd hvort slíkt brjóti lög sem banna fjárhagslegan stuðning erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka eða blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi, að það verði kannað í hv. utanríkismálanefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, hvort það geti verið að þessi fjáraustur Evrópusambandsins á Íslandi með ákveðinni stofnun sem starfar í landinu sé brot á íslenskum lögum.



[16:12]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi mótmæla þeim skoðunum hv. þm. Péturs H. Blöndals að þjóðin muni láta undan og skipta um skoðun vegna þess að málefnið verði kynnt af hálfu Evrópusambandsins. Sú skoðun gerir lítið úr þessari ágætu þjóð að hún geti ekki tekið sínar sjálfstæðu ákvarðanir á sama hátt og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur getað gert í gegnum tíðina. Mig langar að spyrja hann um það sem segir í greinargerðinni:

„Naumur og ósannfærandi meiri hluti á Alþingi fyrir aðildarumsókninni gefur ríka ástæðu til að kanna hug þjóðarinnar til málsins.“

Ég greiddi atkvæði með þeim aðildarviðræðum sem nú fara fram og ég stend enn að því jái mínu. Ég tel hvorki að ég hafi verið ósannfærandi sem ein af meiri hluta þingmanna né heldur hafi atkvæði mitt verið naumt. En mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi þessa: Komi fram mál á Alþingi sem hann telur að þjóðin sé andsnúin, án þess að hún hafi verið spurð, og hér sé naumur meiri hluti fyrir slíku máli á þingi, eins og er hér í ýmsum málum, er hann þá tilbúinn — vegna þess að öll mál á Alþingi skipta þjóðina máli — að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál þar sem er naumur meiri hluti og jafnvel ósannfærandi meiri hluti og að þjóðin fái að taka ákvörðun í slíkum málum? Eða er það bara stundum þegar það hentar málefninu sem þjóðin á að fá að taka ákvörðun?



[16:14]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg á hreinu að hv. þingmaður greiddi atkvæði með sannfæringu sinni, ég er alveg fullviss um það og það fer ekkert á milli mála. Hv. þingmaður vill ganga í Evrópusambandið, vill að Ísland gangi inn og verði hluti af Evrópusambandinu. Það var ekki það sem ég átti við. Ég átti við ummæli margra hæstv. ráðherra í þessum viðræðum þar sem þeir lýstu því yfir í atkvæðaskýringunni að þeir væru á móti Evrópusambandsaðild, enda hafa margir ráðherrar sem greiddu atkvæði með aðildarviðræðunum lýst yfir að Ísland hafi ekkert að gera inn í Evrópusambandið og það finnst mér öldungis óskiljanlegt. Það var það sem ég átti við.

Varðandi hitt málið, hvort það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um öll mál. Þau eru nú mismunandi mikilvæg málin. Ég efast um að nokkurt mál sé mikilvægara en þetta þar sem stendur til að afsala sér fullveldi Íslands. Ég lít alla vega svo á, ég sé ekki miklu stærri mál, ég sé þau ekki. Við tökum afstöðu til fjölmargra mála, um skatta o.s.frv., og þá lætur maður minni hagsmuni víkja fyrir meiri hagsmunum oft og tíðum, samþykkir eitthvað sem maður er kannski á móti vegna þess að eitthvað annað kemur í staðinn. En þetta mál er svo stórkostlegt. Við Íslendingar háðum sjálfstæðisbaráttu í mörg, mörg ár áður en við fengum fullveldi. Ísland var ein fátækasta þjóðin í Evrópu, ekki ein, hún var fátækasta þjóðin í Evrópu vegna þess að nýlenduveldið — það var svo sem ágætt — Danir voru í Danmörku og höfðu lítinn áhuga á Íslandi. Þannig óttast ég að verði með Ísland þegar það er gengið inn í Evrópusambandið. Ekki kannski eins hastarlegt en ákvörðunin, valdið til ákvarðana er langt frá okkur. Það þekkja þeir á Ísafirði að þeir þurfa að fara til Reykjavíkur til að ná í allt, allar ákvarðanir. Sama mun gerast með Ísland, það þarf að fara til Brussel til að fá allar ákvarðanir og þær verða númer 38 í bunkanum.



[16:16]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er óvenjulegt með hv. þm. Pétur H. Blöndal að hann skuli ekki svara spurningum sem til hans er beint því að það gerði hann ekki. En mig langar að spyrja hann einnar spurningar af því að hann er ragur við þá fjármuni sem Evrópusambandið leggur hugsanlega inn til kynningar á Evrópusambandinu almennt: Á stóru skilti sem hangir uppi í Garðabæ eru íslenski fáninn og Evrópufáninn og þar undir stendur: Nei takk. — Veit hv. þingmaður hver greiðir fyrir það auglýsingaskilti?



[16:17]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Nei, frú forseti, ég veit það ekki. En ég hef áður í umræðunni lagt til að styrkjum sem koma til Íslands verði dreift jafnt á milli þeirra sem eru á móti aðild og hinna sem eru með þannig að jafnræði sé á milli þessa fjárausturs. Það er nefnilega þannig, og þá svara ég kannski spurningunni sem til mín var beint, að áróður getur haft áhrif, það er þekkt. Það verður básúnað út hve óskaplega gott sé að lifa í Evrópusambandinu og hve allt sé yndislegt þar. Þetta verður að síbylju (RR: Hvað með hinn áróðurinn?) — hann hefur svo miklu minni peninga og það er einmitt það sem ég á við, það verður kannski eitt skilti á móti hundrað. Og ekki bara það heldur eru heimsóknir til Evrópusambandsins fjármagnaðar af því sjálfu og heimsóknir til sveitarstjórna og öllum sagt í trúnaði við borðið hve gott sé að vera í Evrópusambandinu.



[16:18]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir sumt en ekki allt. En það var eitt sem hann sagði: „Með áróðri er hægt að breyta skoðunum fólks.“ Hann hefur áhyggjur af ójöfnu fjármagni til já- og nei-sjónarmiðanna. Ég er svolítið sammála þessu og því vil ég spyrja þingmanninn hvort hann sé þá ekki sammála mér um að það sé bæði ósanngjarnt og ólýðræðislegt hvernig fjármagni er úthlutað til stjórnmálaflokka á Íslandi.

Í fyrsta lagi finnst mér það vera allt of mikið fé, í öðru lagi er því úthlutað eftir þingstyrk eftir kosningar. Fjárstreymið úr ríkissjóði viðheldur stærð flokkanna og völdum þeirra og stærsti flokkurinn, sem hann tilheyrir, Sjálfstæðisflokkurinn, fær alltaf miklu meira fé en allir hinir. Þá spyr ég hvort þingmaðurinn vilji ekki hjálpa mér að breyta þessu.



[16:19]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að þarna er búið að búa til ákveðið kerfi sem getur viðhaldið því valdakerfi sem er í gangi og ég er alveg til í að skoða það. En stjórnmálabarátta kostar sitt og menn vilja ekki heldur að menn fái styrki. Þá er spurning: Hvað gerist þá? Eru það bara ríkir menn og þeir sem hafa efni á að vera á Alþingi sem geta fengið sæti? Menn eru í þeim vanda að stjórnmálabaráttan kostar sitt. Menn vilja ekki hafa styrki. Nú vilja menn ekki heldur hafa fé frá ríkinu og þá er það spurningin: Er Alþingi þá bara upptekið fyrir þá sem hafa efni á því að fara í gang með kosningabaráttu og áróður?

Ég er sannfærður um það, því miður, það er bara þekkt, að áróður hefur áhrif. Við þekkjum kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Þar eru gífurlegir fjármunir í spilinu. Þeir sem ekki hafa gífurlega fjármuni komast aldrei að. Ég óttast þennan mikla fjáraustur því að við erum ekki að tala um einhverja tugi milljóna, við erum að tala um þúsundir milljóna sem eru eitthvað sem við höfum aldrei nokkurn tíma séð hér á landi. Ekki bara það heldur erum við að tala um heimsóknir, fjármagnaðar heimsóknir, flug, hótel og skemmtilegheit — út að borða á kvöldin í Brussel eða einhvers staðar í Evrópusambandinu, þetta er fjármagnað af Evrópusambandinu. Svo heimsækja þeir sveitarstjórnir á Íslandi og bjóða þeim á veitingahús og spjalla við þá sem þar sitja í góðu tómi og sannfæra þá um hvað það sé ægilega gott að vera í Evrópusambandinu og hvað þetta er allt indælt. Það kostar allt fjármagn þannig að ég vil leggja til að þeir sem eru á móti aðild fái jafnmikla peninga.



[16:21]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni stuðning við þessar tillögur. Þær má líka lesa á vef Hreyfingarinnar, hreyfingin.is. Til að taka af allan vafa þá erum við ekki sérstaklega á móti því að ríkið styrki stjórnmálaflokka. Þótt við lifum ágætu lífi án nokkurra fjárframlaga frá ríkinu þá þarf að veita fé til stjórnmálaflokka en þeir eiga ekki að vera frá fyrirtækjum og þeir eiga að greiðast út með jafnari hætti. Það er hægt að spara mikið í rekstri stjórnmálaflokka með því t.d. að takmarka áróður, t.d. banna auglýsingar í sjónvarpi, því að það er bæði áhrifamesti auglýsingamiðillinn og dýrustu auglýsingarnar. Hvernig líst þingmanninum á það?



[16:22]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem vilja stunda lýðræði og hafa prófkjör eru ekki margir. Ég veit ekki til að Hreyfingin hafi haft slíkt. Það er bara sest niður á einhverri skrifstofu og pikkað út eitthvert fólk til að fara í framboð, það er nú allt lýðræðið. Ef menn eru með prófkjör þá kostar það heilmikið. Hver frambjóðandi þarf að kynna sig. Hann þarf að segja við kjósendur flokksins, eins og ég við 10 eða 15 þúsund kjósendur í Reykjavík, Sjálfstæðisflokksins: Hér er ég og ég ætla að gera þetta og þetta. Annars veit fólk ekki hvað það er að kjósa í prófkjörum. Þetta kostar allt og það er miklu dýrara að ná til þúsunda eða tugþúsunda kjósenda en ná til einhverra 200 manna eins og Vinstri grænir eða Hreyfingin sem nær til 5 manna sem sitja hinum megin við borðið. Þetta er dálítið vandamál. Ég vildi gjarnan ræða það almennt séð hvernig stjórnmálabaráttan verður fjármögnuð yfirleitt. En það heyrir ekki mikið undir það sem við erum að tala um hér, um Evrópusambandið, nema það að þar er heilmikill áróður í gangi.



[16:23]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Hann lýsti því hvað yrði gert við peningana sem frúin í Hamborg ætlar að gefa Íslendingum þegar aðlögunarferlið fer af stað — það kemur kannski úr svartholi fjármagnskerfis Evrópusambandsins. Endurskoðendur Evrópusambandsins hafa ekki treyst sér til að endurskoða reikninga sambandsins í 16 ár og þar er talað um svarthol því að þar hverfur svo mikið af fjármagni eitthvert út í loftið.

Þar sem Evrópusambandið gerir ráð fyrir að mikil eining sé á meðal umsóknarþjóða um að aðild að sambandinu sé æskileg og þingvilji sé ótvíræður, og fyrst og fremst vilji viðkomandi ríkisstjórnar að ganga í Evrópusambandið, þetta séu þær grunnforsendur sem Evrópusambandið setur sér, ætla ég að spyrja þingmanninn: Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, kveður upp úr um það á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu 24. ágúst sl. að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sé alls ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal það ekki einkennileg orð? Svo er verið að tala um að það sé hringlandaháttur í þinginu að lýðræðisleg þingsályktunartillaga sé komin fram, hvort við eigum að halda þessu áfram eða ekki, og verið sé að skemma fyrir Íslandi á alþjóðavettvangi með því að tillagan sé komin fram. Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal þessi málflutningur ekki alveg með ólíkindum í ljósi þess að þarna talar forustumaður annars ríkisstjórnarflokksins, formaður Vinstri grænna, og er þar að auki fjármálaráðherra og leiðir ríkisstjórnarsamstarfið fyrir sinn flokk?



[16:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var einmitt það sem ég var að benda á áðan og ég get svarað þessu mjög einfaldlega: Já, mér finnst þetta undarlegt. Þetta er mjög skrýtin staða. Ég veit ekki hvað fólkið úti í Brussel hugsar þegar það fær fréttir af þessu. Þetta er náttúrlega allt saman þýtt jafnóðum af þessar skrifstofu þeirra og ég held að þeir verða mjög hugsi yfir því.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra sem skrifaði undir þessa umsókn ásamt með hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur — þau skrifuðu ein undir þetta, bæði úr Samfylkingunni. Þegar verið var að afhenda þetta og farið var að tala um það að Íslendingar hefðu hugvit til að breyta reglum Evrópusambandsins þá var vísað kurteislega til þess að Ísland væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu en ekki öfugt, breytingar á reglum Evrópusambandsins væru ekki til umræðu.

Þetta er allt mjög undarlegt. Ég hugsa að menn séu mjög hikandi í Evrópusambandinu, hvernig þeir eigi að sjá þessi mál öll í einu skæru ljósi.



[16:26]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má jafnvel fullyrða að aðilar Evrópusambandsins séu það hikandi að þeim lítist ekki á stjórnmálaástandið hér á landi og þessa tvíhöfða ríkisstjórn sem við höfum því að annað höfuðið horfir fram en hitt aftur. Stjórnmálaástandinu að öðru leyti er ekki um að kenna nema ríkisstjórninni sem situr við völd.

Er það álit þingmannsins að Evrópusambandið láti það ganga yfir sig að ríkisstjórnin sé ósammála um þetta, að ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki á sama máli, í ljósi þess sem fram hefur komið, m.a. hjá sendiherra Frakka, sem er sendiherra fyrir norðurskautið, að það eru svo miklir hagsmunir í húfi fyrir Evrópusambandið að fá Íslendinga inn í sambandið til að eiga einhvern smáséns á því að geta verið þátttakendur meðal þátttakenda meðal ríkjanna sem liggja að norðurpólnum?



[16:28]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé þrennt sem Evrópusambandið er að sækjast eftir. Ísland er ein mesta matvælaframleiðsluþjóð í heimi á hvern íbúa. Það er engin þjóð í heimi sem framleiðir annað eins af matvælum og matvælaverð mun hækka í framtíðinni.

Ísland er mesti orkuframleiðandi í heimi á íbúa og orkubirgðir Íslands hafa eingöngu verið nýttar 30%. Það verður skortur á orku í framtíðinni. (VigH: … fossinum.) Svo kemur vatnið, ég gleymdi því það er þriðja atriðið. En fjórða atriðið, sem ég held að vegi þyngst, er bráðnun norðurheimskautsins og aðild að þeim samgönguleiðum sem þar myndast, að þær snerti Evrópusambandið og fari meira að segja í gegnum Evrópusambandið ef Ísland yrði aðili. Það held ég að vegi kannski langsamlega þyngst.



[16:29]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þessi tillaga til þingsályktunar sé komin fram og til umræðu þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela hæstv. ráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Af hverju segi ég að eðlilegt sé að tillagan komi fram? Jú, vegna þess að þegar lögð var fram tillaga um að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu, sigldu ýmsir þeir sem töluðu fyrir þeirri tillögu og báru hana fram, fyrst og fremst fulltrúar stjórnarflokkanna, undir fölsku flaggi að mínu mati. Þeir gáfu í skyn að viðræðurnar, sem mundu eiga sér stað í kjölfar þess að tillagan yrði samþykkt, yrðu samningaviðræður í venjulegum skilningi þess orðs þar sem tveir jafnsettir aðilar kæmu saman og mundu semja sig að niðurstöðu í málinu.

Eftir að tillagan var samþykkt og viðræðurnar hófust hefur komið í ljós að engar samningaviðræður eiga sér stað á milli Íslands og Evrópusambandsins heldur aðlögunarviðræður. Þetta eru viðræður um hversu langan tíma íslensk stjórnsýsla og íslenska lagasetningarvaldið, Alþingi, ætla að taka sér í að laga íslenska löggjöf og íslenska stjórnsýslu að reglum Evrópusambandsins og stofnanakerfi þess.

Nú er þetta, sem margir höfðu haldið fram, loksins runnið upp fyrir sumum þeim sem greiddu tillögunni atkvæði sitt á þingi. Stuðningsmenn tillögunnar sem rædd var og samþykkt eru farnir að átta sig á að ekki er allt sem sýnist í þessu. Þeir sem töluðu fyrir því að Ísland sækti um aðild að Evrópsambandinu fóru ekki rétt með. Samningaviðræðurnar eru ekki samningaviðræður heldur aðildarviðræður.

Við höfum orðið vör við það, bæði hér í þingsalnum og sömuleiðis í þjóðfélaginu að viðhorfin gagnvart aðildarferlinu eru gjörbreytt. Og ekki síst innan þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem stór hluti þingflokksins setur sig upp á móti aðlögunarferlinu.

Í því sambandi er mikilvægt að halda því til haga að árið 1995 urðu verulegar breytingar á þessum málum innan Evrópusambandsins. Þá lauk þeirri stækkunarlotu sem staðið hafði um nokkurt skeið og leiddi til að Svíþjóð, Austurríki og Finnland gengu í Evrópusambandið en Norðmenn höfnuðu aðildarsamningi. Þær atkvæðagreiðslur áttu sér stað í kjölfar samningaviðræðna í eðlilegum skilningi þess orðs. Árið 1995 var haldinn fundur á vegum Evrópusambandsins í Madrid, tel ég að ég muni rétt, þar sem aðlögunarferlið var tekið upp. Af hverju var það gert? Jú, vegna þess að hin nýfrjálsu ríki Austur-Evrópu, gömlu kommúnistaríkin, sóttu mjög fast að komast inn í Evrópusambandið og verða partur af Vestur-Evrópu, lagahefð hennar og réttarríki.

Þessi ríki voru á þeim tíma miklu vanþróaðri en þau lönd sem áður höfðu sótt um aðild að Evrópusambandinu, eins og Svíþjóð, Noregur, Austurríki og Finnland. Vegna þessa ákvað Evrópusambandið á fundinum í Madrid 1995 að breyta reglum sínum. Í stað þess að hefja samningaviðræður við þau lönd sem óskuðu eftir aðild að sambandinu var tekið upp aðlögunarferli. Það felur í sér að ríki þurfa að laga sig að löggjöf og stjórnsýslu Evrópusambandsins áður en þau ganga inn í sambandið. Þannig var þetta ekki áður fyrr þegar eiginlegar samningaviðræður áttu sér stað.

Frá þessum tíma hefur það verið alveg ljóst frá sjónarhóli Evrópusambandsins, sem er auðvitað höfundurinn að ferlinu öllu, að ferlið snýst fyrst og fremst um aðlögun, þ.e. hvernig löndin geti aðlagast kröfum sambandsins á sviði stjórnsýslu og lagasetninga og hversu hratt. Það eru ekki við Íslendingar sem ákveðum hvernig aðildarferlið að Evrópusambandinu er, það er Evrópusambandið sjálft.

Í ljósi þessa er mjög einkennilegt að hlusta á íslenskan ráðamann eins og hæstv. utanríkisráðherra lýsa því yfir í morgunútvarpi Rásar 2 þann 25. október síðastliðinn að engin aðlögun sé í gangi. Þetta apar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, upp eftir hæstv. utanríkisráðherra og segir að engin aðlögun sé í gangi. Ef hæstv. utanríkisráðherra og formaður utanríkismálanefndar eru þeirrar skoðunar að ekkert aðlögunarferli sé í gangi, legg ég til að þessum tveimur ágætu herramönnum verði flogið nú þegar til Brussel þar sem þeir geta tilkynnt Evrópusambandinu að Ísland sé ekki þátttakandi í aðlögunarviðræðum, því Evrópusambandið sjálft stendur í þeirri trú að slíkar aðlögunarviðræður séu í gangi.

Af hverju segi ég það? Vegna þess að Evrópusambandið sjálft er höfundurinn að aðlögunarferlinu og það kemur fram í öllum gögnum sem frá Evrópusambandinu koma að sæki ríki um aðild að Evrópusambandinu þurfi það að fara í slíka aðlögun. Þetta kemur t.d. fram í bæklingi sem ég er með hérna, Understanding Enlargement, sem Evrópusambandið gaf út. Formála ritar enginn annar en Olli Rehn, finnskur framsóknarmaður, sem var stækkunarstjóri Evrópusambandsins á árum áður. Í bæklingnum á bls. 9 segir, með leyfi forseta:

„First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading.“

Fyrst og fremst er mikilvægt að undirstrika að hugtakið samningaviðræður má misskilja. Svo er rakið í bæklingnum í hverju slíkar viðræður felast, þ.e. að um aðlögun sé að ræða. Hið sama má lesa af heimasíðu Evrópusambandsins þar sem ferlinu við inngöngu nýrra ríkja inn í sambandið er lýst. Þar segir, svo ég snari því nú á íslensku, að samningaviðræður eigi sér stað við hvert og eitt ríki og hraðinn ráðist af því hversu langan tíma hvert ríki þarf til að ráðast í úrbætur og aðlögun að Evrópurétti. Með leyfi forseta:

„Negotiations are conducted individually with each candidate country, and the pace depends on each country's pace of reforms and of alignment with the EU laws.“

Þetta er kjarni málsins. Hér er um aðlögunarviðræður að ræða en ekki eiginlegar samningaviðræður eins og við kjósum venjulega að tala um. Þetta er ástæðan fyrir því að tillagan er lögð fram, forsendur eru brostnar, sérstaklega hjá þeim sem greiddu tillögunni um að sækja um aðild að Evrópusambandinu atkvæði sitt. Þeir hafa áttað sig á að nú hafa forsendur gjörsamlega breyst. (Gripið fram í.) Gjörsamlega breyst.

Því er eðlilegt að mínu mati að þingið taki tillöguna til umfjöllunar og gefi þingmönnum tækifæri, nú þegar þetta liggur fyrir, að vega og meta hvort þingið eigi að breyta um stefnu (Forseti hringir.) varðandi Evrópusambandsmálin eða hvort rétt sé að senda hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson til Brussel til að tilkynna Evrópusambandinu að þær (Forseti hringir.) aðlögunarviðræður sem þeir telja sig vera í, séu ekki í gangi.



[16:39]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hvað hann tekur vel í þingsályktunartillöguna og lýsir því að hann sé sammála innihaldi hennar, enda eru forsendur brostnar og um aðlögunarferli að ræða.

Þess skal getið að aðlögunarferlið gengur út á það að þegar Ísland eða einhver þjóð hefur samþykkt aðlögunarferlið í þjóðaratkvæðagreiðslu, á það ríki að vera tilbúið fyrir Evrópusambandið frá degi eitt eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þá á það að vera búið að taka upp allar þær reglur og þau lög sem gilda þar. Það sem sagt var hér í umræðum í dag á milli hæstv. utanríkisráðherra og þingmanna um að það tæki þingið kannski tvö til þrjú ár eftir þjóðaratkvæðagreiðslu að aðlaga landið að lögum og reglugerðum, er því þvættingur. Það á sér nefnilega ekki stað. Ég held að tímabært sé orðið að skoða alvarlega hvað utanríkisráðherra er að fara og hvernig hann getur trekk í trekk haldið öðru fram en að um aðlögun sé að ræða. Enda kemur það fram á bls. 2 í þingsályktunartillögunni að Ísland verði að aðlaga sig að reglum og tilskipunum Evrópusambandsins. Þær telja nú hvorki meira né minna en 99.000 blaðsíður þannig að hér má heldur betur gefa í.

Mig langar að spyrja þingmanninn vegna þess að hann kom inn á aðlögunarferlið eða umsóknarferlið. Í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar kom t.d. fram að hann væri bara að tala við einhverja menn úti í Brussel sem segðu honum að þetta væri umsóknarferli og ekki aðlögunarmál. Þannig að ég spyr þingmanninn: Hver heldur hann að sé ástæðan fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar taka þessa afstöðu og velja að (Forseti hringir.) tala um að þetta sé umsókn en ekki aðlögun?



[16:42]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður nú eiginlega að bera þessa spurningu upp við hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson. Mér er það hulin ráðgáta hvernig þessir tveir ágætu herramenn geta haldið því fram að ekki séu aðlögunarviðræður í gangi og lýst því yfir í þinginu og opinberlega, þegar höfundur ferlisins, sjálft Evrópusambandið, lýsir því yfir í öllum sínum gögnum að ferlið snúist fyrst og fremst um aðlögun og ekkert annað. Þetta kemur fram í útgefnum bæklingum frá Evrópusambandinu og má lesa af heimasíðu sambandsins. Ég á erfitt með að átta mig á hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra og hv. þingmaður tala með þessum hætti. Þess vegna lagði ég til að ef þeir eru virkilega þeirrar skoðunar að engin aðlögun sé í gangi, þá hafi þeir samband við viðsemjanda sinn og tilkynni að Ísland sé ekki þátttakandi í aðlögunarviðræðum sem Evrópusambandið telur víst að það sé þátttakandi í og þessi misskilningur verði leiðréttur.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í viðræðunum nú og í allri þeirri vinnu sem á sér stað í ráðuneytunum og að sumu leyti hér á þingi er gert ráð fyrir að íslenska ríkið verði klárt frá fyrsta degi til að virka sem aðili að Evrópusambandinu, verði samningur þar um samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig var þetta ekki fyrir 1995. Það veit hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Þá voru samningaviðræðurnar allt öðruvísi, eins og við Norðmenn, Austurríkismenn, Svía og Finna. Þetta breyttist allt þegar nýfrjálsu ríkin, gömlu kommúnistalöndin, óskuðu eftir aðild að Evrópusambandinu. Þá þurfti að breyta ferlinu vegna þess að þau lönd voru svo vanþróuð að þau pössuðu ekki inn í stofnanastrúktúr eða lagastrúktúr Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Þetta gerir það að verkum að ferlið er orðið að aðlögunarferli en er ekki lengur samningaviðræður í venjulegum skilningi.



[16:44]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svar hans og yfirferð. Jú, það er rétt, þingsályktunartillagan er komin fram vegna þessa forsendubrests enda kemur það vel fram í greinargerðinni. Ég vil jafnframt benda á að þjóðaratkvæðagreiðsla er viðurkennd aðferð allra flokkanna. Að vísu tala flokkarnir um það á tyllidögum að hún sé besta lausnin til að fá niðurstöðu í mál en þegar kemur að svo afdrifaríku máli eins og að leggja undir þjóðaratkvæði hvort halda eigi aðlögunarferlinu áfram, fer flokksvélin að hiksta hjá vinstri lýðræðisflokkunum og þá hentar allt í einu ekki að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mjög skrýtið.

Lögð hefur verið fram breytingartillaga við þingsályktunartillöguna. Henni verður dreift í þinginu í næstu viku. Þar er nú gefinn sá tími sem þarf til að þjóðaratkvæðagreiðslan geti farið fram í síðasta lagi 28. maí 2011. Ég vil benda á að þingmenn, flokkarnir og landsmenn allir hafa því nægan tíma til að kynna sér þessi mál vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði í dag að þetta væri of skammur tími og Íslendingar ættu eftir að kynna sér málið. Ég benti honum á að Íslendingar hafi verið mjög meðvitaðir um Evrópumál allt frá árinu 1992 þegar það komst á skrið að við yrðum kannski aðilar að EES-samningnum sem varð svo raunin. Bankahrunið sem hér varð má jafnvel rekja til þess en það er önnur saga.

Mig langar að lokum að spyrja þingmanninn hvað honum finnst um hvernig ríkisstjórnin kemur klofin fram í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu 24. ágúst síðastliðinn að umsóknin væri alls ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Hvað finnst þingmanninum um að ríkisstjórnarflokkarnir komi fram eins og (Forseti hringir.) tvíhöfða þurs gagnvart Evrópusambandinu og skapi þessa óvissu og eru ekki (Forseti hringir.) tilbúnir til að standa saman að þessu?



[16:46]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að framganga ríkisstjórnarinnar í málinu skaði ekki bara ásýnd ríkisstjórnarinnar heldur ásýnd landsins. Það er auðvitað ekki boðlegt að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn tali með þessum hætti um mál sem þeir berjast fyrir og eru í samningaviðræðum vegna. Vandi ríkisstjórnarinnar er auðvitað sá að alla forustu skortir í Evrópumálinu. Það vita allir að ríkisstjórnin gengur ekki gegnheil fram í málinu. Það er það mikil andstaða við aðild Íslands að Evrópusambandinu innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Framganga ríkisstjórnarinnar í málinu, sérstaklega á alþjóðavettvangi, skaðar orðspor landsins og undirstrikar það sem margoft hefur komið fram og blasir í rauninni við öllum landsmönnum, að landið er stjórnlaust og engin verkstjórn er í gangi innan Stjórnarráðsins. Verkstjórnin sem var nú rómuð fyrir einhverju síðan og látið í veðri vaka að hæstv. forsætisráðherra, sem nú fer með verkstjórnarvaldið, væri sú eina sem gæti stýrt málum. Síðan hefur komið í ljós að svo er ekki.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hræðast að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, þingmenn sem hafa haldið innblásnar ræður um mikilvægi þess að fólkið fái að ráða og segja sinn hug. Þegar þeir eru sestir í ráðuneytin og tillögur koma um að blása til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál eins og Evrópusambandið, finna þeir því allt til foráttu. Það sýnir að (Forseti hringir.) í þessu máli eru þingmenn stjórnarflokkanna farnir að tala þvert gegn eigin sannfæringu, (Forseti hringir.) a.m.k. eins og hún var hér áður fyrr.



[16:49]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra fyrr í haust lagði ég áherslu á nokkur atriði. Ég lagði áherslu á að við mundum útrýma hinu svokallaða flokksræði sem ég tel vera eina af undirrót þess vanda sem Íslendingar glíma við. Ég tel líka að það sé hluti af því að Alþingi nýtur jafnlítillar virðingar og raun ber vitni, 7% þjóðarinnar treysta Alþingi sem er skelfileg niðurstaða. Ég lagði líka áherslu á að við mundum auka lýðræði á hvaða hátt sem er, talaði fyrir persónukjöri í þeim efnum. Benti í þriðja lagi á að við mundum leggja áherslu á rökræðuna frekar en kappræðuna í sölum Alþingis sem og í fjölmiðlum landsins þannig að fólk sem fylgdist með þyrfti ekki að velkjast í vafa um hverjar áherslur manna væru. Ég hefði mátt bæta við þessa ræðu að við, þingmenn og þingheimur, verðum að leggja fram tillögur og ályktanir á réttum forsendum. Það er meginástæða þess að ég styð ekki það aðildarferli sem nú er í gangi. Ég tel að það sé einfaldlega ekki á réttum forsendum.

Þegar greidd voru atkvæði um tillöguna, hvort við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, féllu atkvæði þannig að 33 þingmenn sögðu já, 28 sögðu nei en tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Í atkvæðaskýringum sumra þingmanna komu fram efasemdir og jafnvel bein andstaða við að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Síðan þegar við bætist að við erum ekki að sækja um aðild á jafnréttisgrundvelli, eins og gefið var í skyn, held ég að sanngjarnt sé og eðlilegt að við endurskoðum ákvörðunina, að Alþingi endurskoði fyrri ákvörðun sína og við samþykkjum hér að þjóðin segi hug sinn um hvort við eigum að halda þessum leik áfram.

Ég vona að þessi ágæta þingsályktunartillaga komist í gegnum nefndir og til síðari umr. og við fjöllum um hana hér að nýju og fáum að greiða um hana atkvæði. Ég spurði hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort hún væri reiðubúin að liðka til fyrir málinu og hvort hægt væri að klára það úr nefnd. Ég gat ekki skilið hana betur en hún segðist alltaf mundu greiða atkvæði gegn tillögunni, líka í nefnd. Ég skildi hv. þingmann þannig. Ég vil benda á að þegar málið kemst til umræðu í nefnd er ekki greitt atkvæði um málið sjálft, það er einfaldlega verið að greiða atkvæði um hvort málið sé tækt til þinglegrar meðferðar. Mér finnst þau ummæli skjóta skökku við vegna þess að hún lýsti því yfir áðan að ef meiri hluti þjóðarinnar segði nei mundi hún líka segja nei í sölum Alþingis, jafnvel þó að stjórnarskráin segi til um að hún skuli ávallt að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni.

Það er akkúrat þetta sem við glímum við, við glímum við tvískinnung, við glímum við ómálefnalega umræðu að mínu mati og við greiðum atkvæði eða ræðum hér að flokksræðinu verði kastað fyrir róða, hver og einn þingmaður fái að kjósa, meiri hlutinn fái að ráða, þannig að við getum sagt við þjóðina að á Alþingi gildi raunverulegt lýðræði. Ég held að það sé aðalatriðið.

Ég gerði mér vonir um þegar málið kæmi til umræðu að rökræðan yrði ráðandi, okkur mundi takast að komast upp úr hinum pólitísku hjólförum og við gætum rætt málin á jafnréttisgrundvelli þannig að öll sjónarmið fengju að njóta sín. Nú hefur Evrópusambandið hins vegar gefið út að það ætli að leggja háar fjárhæðir í beinan áróður fyrir því að Ísland gangi þar inn. Mér finnst þetta ósanngjarnt, virðulegi forseti. Mér finnst þetta afar ósanngjarnt og ég harma að stjórnarþingmenn, margir hverjir, sem hafa talað fyrir lýðræði skuli ekki koma fram og taka undir með okkur hinum sem leggjum til að þeir fjármunir sem ESB ætlar að leggja í áróðurinn fyrir inngöngu verði jafnframt nýttir í þá sem eru andsnúnir hugmyndinni og reiðubúnir að berjast fyrir því.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að Evrópusambandið skuli nú þegar greiða háar fjárhæðir til að kanna hug fólks, kalla fólk frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og krefjast þess að koma inn á heimili fólks í staðinn fyrir að gera könnunina í gegnum síma.

Þessi rökræða á sér líka aðra birtingarmynd. Nú hefur verið skýrt frá því hér að ESB líti sjálft svo á að Íslendingar séu í svokölluðu aðlögunarferli. Þetta kemur mjög skýrt fram í því efni sem Evrópusambandið hefur gefið frá sér, mjög skýrt. Engu að síður kemur hæstv. utanríkisráðherra í sífellu fram í fjölmiðlum gagnrýnislaust og fullyrðir að svo sé ekki. Samt stendur svart á hvítu að um sé að ræða aðlögunarferli. Evrópusambandið sjálft lítur svo á að um sé að ræða aðlögunarferli.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór ágætlega yfir það af hverju þessu var breytt innan Evrópusambandsins. Það var vegna þess að Austur-Evrópuþjóðirnar voru einfaldlega með það vanbúna stjórnsýslu að þær þurftu að laga sig að Evrópusambandinu. Þær breytingar urðu árið 1995. Það verður líka að taka fram að ein af ástæðunum fyrir því að Norðmenn vildu ekki ganga í Evrópusambandið var sú að þeir vildu ekki gjörbreyta stjórnsýslukerfinu hjá sér. Það lá fyrir á þeim tíma að ef Norðmenn gengju í Evrópusambandið þyrftu þeir að umbylta stjórnsýslu sinni. Þeir voru ekki í sömu stöðu og Austur-Evrópuþjóðirnar. Þeir þurftu í rauninni að færa stjórnsýslu sína niður á lægra plan, plan Evrópusambandsins. Evrópusambandið ætlaði heldur betur að bregðast við því og nú þarf þetta allt að gerast fyrir fram. Það er akkúrat það sem við stöndum frammi fyrir nú. Þess vegna erum við að ræða í sífellu hér í sölum Alþingis undarlegar breytingar á stjórnsýslunni, einhvers konar bandorma sem eru illa rökstuddir og í rauninni sér enginn hagkvæmnina í og alls kostar óvíst hvort henti hagsmunum Íslands.

Ég held að við þurfum á einn eða annan hátt að koma umræðunni á hærra plan. Við þurfum að leyfa báðum sjónarmiðunum eða öllum að njóta sín. Ég vil benda á að þeir sem voru fylgjandi aðild Norðmanna á sínum tíma voru það heiðarlegir í umræðunni að þeir voru reiðubúnir að viðurkenna að ef Norðmenn gengju í Evrópusambandið mundi það stórskaða landbúnaðinn og sjávarútveginn. Það var bara viðurkennt, það lá fyrir.

Ég held að við séum komin á þann stað núna að við ættum að gera slíkt hið sama, færa umræðuna á hærra plan og viðurkenna að ef Ísland gengur í Evrópusambandið bitnar það á landbúnaðinum og sjávarútveginum, (Gripið fram í.) grunnstoðum íslensks samfélags. Við þurfum líka að spyrja okkur: Hentar Íslendingum að taka upp evruna? Getur verið að evrunni fylgi atvinnuleysi? Það segja hagfræðingar úr Háskóla Íslands sem þó eru fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið. Atvinnuleysi! Það er akkúrat það sem ég óttast, virðulegi forseti. Ég óttast (Forseti hringir.) að við séum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið á (Forseti hringir.) fölskum og röngum forsendum til þess eins að hér verði mikið og (Forseti hringir.) viðvarandi atvinnuleysi.



[16:59]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja varðandi þessa tillögu að það sem ég sagði áðan er mín afstaða. Ég vona að ég sé ekki með tvískinnung eða neitt svoleiðis vegna þess að það leiðist mér. Ég vil alltaf hafa allt uppi á borðum og ekki vera með tvískinnung.

Mín afstaða er þessi: Ég er á móti því að fara með þetta mál núna í þjóðaratkvæðagreiðslu, að hætta sem sagt við aðildarviðræðurnar eða umsóknarviðræðurnar eða aðlögunarviðræðurnar, hvað sem fólk vill kalla það ferli sem við erum í. Ég er á móti því að það verði stöðvað hvort heldur er með þjóðaratkvæðagreiðslu eða öðruvísi. Þess vegna mun ég ekki greiða þessari tillögu atkvæði, það er alveg ljóst. Ef hún verður tekin til umræðu í nefnd mun ég líka skýra frá því að ég sé á móti því og ég mun segja: Ég mæli með því við Alþingi að það samþykki ekki þessa tillögu.

Nú er ég ekki það þingreynd að ég viti hvað gerist í utanríkismálanefnd, ég geri nú samt sem áður ráð fyrir að þar sé meiri hlutinn á því — ég ætla ekki að tala fyrir annað fólk, ég ætla bara að segja hvað ég held að verði — að ekki eigi að fara þá leið sem hér er lögð til. Kannski er hægt að afgreiða málið úr nefndinni þar sem meiri hlutinn segir nei og minni hlutinn segir já og þá kemur það aftur í þingsal. En ég mun aldrei greiða þessari tillögu atkvæði, hvorki í nefnd né hér á þingi.

Svo vil ég segja annað, af því að ég hef sagt að ég ætli að fara eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, að ég er að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um samning við Evrópusambandið, um samning sem liggur fyrir. Það er ekki einhver önnur þjóðaratkvæðagreiðsla, það er sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem ég hef sagt (Forseti hringir.) að eigi að fara fram og ég muni fara eftir.



[17:02]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir komi fram og lýsi því yfir að hún muni segja nei við þingsályktunartillögunni verði hún borin upp til atkvæða. Það sem ég á hins vegar við og óttast er að málið verði svæft í nefnd, það muni ekki koma til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu í þinginu.

Þá langar mig að segja við hv. þingmann: Þegar greitt er atkvæði um hvort einstök mál komist úr nefnd er ekki verið að greiða atkvæði með tillögunum sjálfum. Ég hef margsinnis í stjórnarandstöðu tekið þátt í að klára mál úr nefnd, jafnvel þótt ég greiði svo atkvæði gegn þeim hér í þingsal. Af hverju geri ég það? Jú, vegna þess að í nefndinni er ég að segja að ég telji mál fullrætt þar, ég telji að þangað hafi verið fengnir allir hagsmunaaðilar, allir sem hafa sérfræðikunnáttu og ekki þurfi meira til. Þegar því er lokið er mér einfaldlega ekki stætt á að segja nei við að mál fari til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu á þinginu. Þess vegna segi ég að ég telji það vera tvískinnung, og ég á ekki við hv. þingmann frekar en annan þingmann, ef menn sem ætla að greiða atkvæði í þinginu tefji og stöðvi málið í nefnd. Það er verið að svæfa góð mál trekk í trekk í nefndum og koma í veg fyrir að lýðræðið fái að njóta sín.



[17:04]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að það eigi ekki að svæfa mál í nefnd og ég hef sagt það áður hér að ég muni ekki gera það. Ég mun hins vegar segja það í nefndaráliti að ég sé á því að ekki eigi að samþykkja þessa tillögu. Ég vona að það sé alveg ljóst og ég vona að hv. þingmanni þyki það ekki tvískinnungur. (Gripið fram í.)

Síðan vil ég aðeins nefna út af þessu aðildar-, aðlögunar- og umsóknarferli, hvaða nöfnum sem fólk vill kalla það, þá hefur aldrei verið neinn vafi á því þegar eitthvert ríki gengur í Evrópusambandið að það verður að uppfylla þær kröfur, lög og reglur, sem gilda í Evrópusambandinu. Samningaviðræður fara fram ef einhverju þarf að breyta til þess að menn fái tíma til að gera eitthvað eða ef eitthvað nýtt kemur inn eins og þegar Finnar fengu viðurkenndan landbúnað norðan við 62° frekar en 63°. Það er það sem samningaviðræðurnar ganga út á.

Þegar Ísland verður fullgildur aðili að Evrópusambandinu verðum við náttúrlega að uppfylla þær reglur sem þar eru í samræmi við þann samning sem gerður hefur verið. Ég er ekki tilbúin, hv. þingmaður, að segja fyrr en samningurinn liggur fyrir hvort sjávarútvegur eða landbúnaður verði betur settur utan en innan sambandsins. Þess vegna ætlum við að semja. Út á það gengur málið. Þess vegna ætlum við að kjósa þegar samningurinn liggur fyrir.



[17:06]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt hluti af þeim málflutningi að Íslendingar verði að kíkja í pakkann, að það sé svo spennandi að sjá hvað Íslendingum standi til boða að þeir verði einfaldlega að sækja um aðild og kíkja í pakkann eins og eitthvað stórkostlegt geti verið í þeim pakka.

Við vitum mætavel að í þessum viðræðum erum við í rauninni ekki að semja um hvernig við getum fengið meiri og óskoraðri rétt yfir sjávarútvegsauðlind okkar eða hvernig við getum fengið að stjórna landbúnaðinum meira og betur en við gerum í dag. Við erum bara að ræða hvernig Evrópusambandið kemst inn í þessar auðlindir. Það liggur fyrir að við erum að semja um að hve miklu leyti við erum reiðubúin að gefa eftir í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Ég vil ekki gefa neitt eftir, ekki neitt. Þess vegna vil ég að við ræðum þetta á þeim grunni að við munum þurfa, ef samningurinn verður að veruleika, að gefa eitthvað eftir af þessum tveim mikilvægustu grunnstoðum þjóðarinnar.

Það sem ég hefði hins vegar viljað fá meiri og betri umræðu um er af hverju menn vilja ganga í Evrópusambandið. Ég sé bara ein rök fyrir því, evruna. Evran, segja menn, við verðum að taka upp evruna. Ég held að núna liggi fyrir að krónan er að bjarga okkur í þeim hremmingum sem við erum að glíma við. Ég er hræddur um að ef við höfum ekki gjaldmiðil sem getur andað með hagkerfinu, er bara fastur, munum við fá varanlegt atvinnuleysi. Það er það sem ég óttast mest. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að efnahagslíf okkar heldur áfram að sveiflast. Efnahagslíf okkar í hinu litla landi fámennrar þjóðar (Forseti hringir.) mun halda áfram að sveiflast. Ef við getum ekki mætt því með krónunni okkar verður hér atvinnuleysi.



[17:08]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Fyrr í umræðunni í dag var minnst á það að þeir sem vildu þjóðaratkvæðagreiðslu nú hefðu einfaldlega orðið undir í atkvæðagreiðslu í þinginu síðastliðið sumar og þetta væri örvæntingarfull aðferð hjá ESB-andstæðingum til að klekkja á stefnu sem réttilega hefði verið samþykkt á Alþingi. Ég benti á það í fyrri ræðu minni að margir teldu að um aðlögun væri að ræða en ekki aðildarviðræður.

Af því að minnst var á þessa atkvæðagreiðslu fyrir einu og hálfu ári langar mig að ræða þá atkvæðagreiðslu. Ég veit að þar voru margir, eða einhverjir, sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið sem studdu það að sótt væri um aðild en þar var beitt þrýstingi. Það var beitt þrýstingi á báða bóga því að ég veit að margir, einhverjir, voru beittir þrýstingi að segja nei en sögðu hins vegar já hér í þingsal, þeir hinir sömu voru mjög sterkir einstaklingar.

Mig langar aðeins að rifja upp þessa atkvæðagreiðslu. Ég man eftir því, þegar ég ætlaði að taka þátt í að flytja breytingartillögu við Evrópusambandsumsóknina, um þjóðaratkvæðagreiðslu, að ég fékk þau skilaboð úr samstarfsflokki í ríkisstjórn að ef þetta yrði gert og ef þetta yrði samþykkt yrði ríkisstjórninni slitið, að ég væri með líf fyrstu vinstri stjórnarinnar í höndum mér. Þá var ég að koma inn nýr þingmaður og ég brást þannig við að ég fór út af þessu máli en studdi það hins vegar heils hugar og gekk hér úr þingsal. Þetta var ekki allt saman. Það var haldið áfram með sama hætti.

Daginn sem atkvæðagreiðslan var í þinginu var það enginn annar en hæstv. forsætisráðherra sem sat hér og kallaði hvern þingmann Vinstri grænna á fætur öðrum inn á teppið til sín og sagði þeim hinum sömu að ef þeir samþykktu það að fram færi tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla og það yrði samþykkt væri fyrsta vinstri stjórnin sprungin. Þá hlýtur maður að spyrja sig, þegar samið var um málið, að það færi inn í þingið, fengi lýðræðislega umfjöllun þar, hvort þetta sé mjög lýðræðislegt. SMS-sendingar áttu sér stað hér í þingsalnum meðan á atkvæðagreiðslunni stóð þar sem þingmenn Vinstri grænna voru látnir vita að ef málið yrði ekki samþykkt í þinginu væri fyrsta vinstri stjórnin fallin.

Þetta gekk meira að segja svo langt að einum hæstv. ráðherra, Jóni Bjarnasyni, sem hafði þegar ákveðið að styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og ætlaði ekki að styðja aðildarumsókn — og það hafði ekki gerst að ég held frá 1974 að ráðherra styddi ekki ríkisstjórnarmál — var tjáð, og hann getur ugglaust staðfest það sjálfur, að hann gæti átt á hættu að vera ekki lengur ráðherra í þessari ríkisstjórn, að ekki sé talað um ef atkvæði hans yrði til þess að þessi umsókn yrði ekki samþykkt.

Maður hlýtur því að velta því fyrir sér, þegar kemur tillaga eins og þessi, og menn tala um að ekki sé meiri hluti fyrir henni, hvort beita eigi sömu vinnubrögðum aftur. Maður hlýtur að velta því fyrir sér. Það yrði gríðarlega alvarlegt. Hins vegar hafa ákveðnir þættir breyst sem kann að verða í þá veru að menn muni greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni í þessu máli. Grasrót Vinstri grænna hefur risið upp á afturlappirnar. Það var málþing hér fyrir hálfum mánuði sem var algjör einstefna. Áskorun frá hundrað flokksmönnum, lykilfólki innan raða Vinstri grænna, formönnum svæðisfélaga, fyrrum alþingismönnum, varaþingmönnum, fyrrum ráðherrum, sveitarstjórnarfulltrúum, flokksráðsfulltrúum og fleirum.

Ég var á ágætum fundi fyrir ári í Noregi þar sem Kristín Halvorsen, formaður SV, fjallaði um málefni Evrópusambandsins. Hún sagði á þeim fundi — hún situr þar í ríkisstjórn með Senterpartiet, sem er systurflokkur Framsóknarflokksins, og Arbeiderpartiet, sem er systurflokkur Samfylkingarinnar — að það væri algerlega klárt af hennar hálfu að á þeim degi sem Arbeiderpartiet mundi gera kröfu um að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu væri þessi vinstri græna ríkisstjórn í Noregi fallin. Vegna þeirrar andstöðu sem nú er í grasrót Vinstri grænna kann að vera að slíkt andrúmsloft sé að myndast hér á landi. Ég vonast svo innilega til þess að menn láti þetta ekki (Forseti hringir.) þvælast fyrir sér með þessum hætti og tryggi að hver og einn þingmaður fái að greiða atkvæði (Forseti hringir.) án þess að eiga yfir höfði sér hótanir um stjórnarslit og annað því um líkt.



[17:13]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega athyglisverðu ræðu sem hefur, að mínu mati, varpað nýju ljósi á þá atburði sem urðu í fyrra sem leiddu til þess að við fórum í þá ólukkuvegferð að hefja aðildarumsókn og aðlögun að Evrópusambandslöggjöfinni eins og hefur náttúrlega ekkert farið á milli mála.

Það sem hér er verið að segja okkur er að þessi niðurstaða hafi ekki verið fengin með eðlilegum lýðræðislegum hætti heldur í skjóli hótana og kúgana. Það er það sem kemur fram af lýsingu hv. þingmanns að niðurstaðan var fengin með hótunum og kúgunum. Það er verið að ganga hér miklu lengra en maður hefur nokkru sinni séð. Þingmenn leiddir hér í bakherbergi, ég segi ekki að þau hafi verið reykfyllt, send skilaboð um það að þeir hefðu líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér, reynt að beita þá hörðu til að tryggja að þeir greiddu atkvæði gegn sinni eigin sannfæringu. (Gripið fram í: Bara eins og hjá Davíð.)

Því var haldið mjög fram að með þessari ákvörðun í fyrra væri verið að opna á lýðræðislega möguleika fólks, þar á meðal almennings í landinu, til að taka afstöðu til aðildarinnar að Evrópusambandinu. Nú sjáum við að það var ekkert svoleiðis sem bjó þar að baki. Það var einfaldlega verið að knýja fram og kúga fram niðurstöðu þvert á vilja þingmanna. Það blasir við að meiri hluti alþingismanna var í raun og veru á móti því að samþykkja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Það var hins vegar knúið fram með þessu ofbeldi, þessum hótunum, þvert á vilja hv. þingmanna. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi sem ég hlýt að vekja hér athygli á og undirstrika. Þetta eru vinnubrögð sem ekki er hægt að líða.



[17:16]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir þessa ágætu ræðu og fyrir að upplýsa þingheim um hvernig vinnubrögðum hefur verið beitt í þessu mikilvæga máli, einhverju mikilvægasta máli þjóðarinnar, einhverju stærsta skrefi sem þingheimur hefur stigið fyrr og síðar. Nú sjáum við það svart á hvítu að ákvörðunin var ekki tekin á réttum forsendum, hún var tekin á fölskum forsendum með ólýðræðislegum hætti.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur verið að kalla hér fram í og bent á og fullyrt að fyrri ríkisstjórnir hafi hugsanlega beitt einhvers konar kúgun. Ég vil í fyrsta lagi biðja hann að koma og segja þingheimi hvað hann á við. Ég vil líka taka fram að það er hópur þingmanna, hópur nýrra þingmanna, sem vill breyta þessu. Ég er ekki sannfærður um að meiri hluti sé fyrir því að taka upp lýðræðisleg vinnubrögð, og útrýma flokksræðinu, en ég ætla að vona og ég ætla að berjast fyrir því að það verði að veruleika. Ég er sannfærður um að það er bara þannig og aðeins þannig sem við munum auka virðingu Alþingis á ný. Við eigum ekki að koma hér, og ég bið samfylkingarmenn að gera það ekki, trekk í trekk og verja eigin gjörðir vegna þess að aðrir hafi hugsanlega verið verri í fortíðinni. Við verðum að breyta vinnubrögðum sama hvaðan þau hafa komið. Það er hlutverk nýrra þingmanna með nýja hugsun að gera það.



[17:18]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær miklu og góðu umræður sem hafa staðið hér um þessa þingsályktunartillögu, um þjóðaratkvæðagreiðslu um að aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins verði lokið, að þjóðin fái að velja um það. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram eigi síðar en 28. maí 2011.

Hér voru fluttar margar góðar ræður en þó stendur ein ræða upp úr, það er ræða hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem hann flutti áðan, seinni ræða þingmannsins. Þar upplýsir hann þing og þjóð um að niðurstaðan sem fékkst síðastliðið sumar, í atkvæðagreiðslunni um hvort leggja ætti inn umsókn að Evrópusambandinu, hafi verið þvinguð fram. Niðurstaða þeirrar kosningar var þvinguð fram af Samfylkingunni, hún beitti kúgunum. Ef þingmenn hlýddu ekki hæstv. forsætisráðherra væri fyrsta vinstri stjórnin fallin. Farið hefur fé betra. Þeir hefðu betur staðið á sannfæringu sinni, þingmenn Vinstri grænna, í fyrrasumar. Þá værum við kannski í öðrum sporum í dag, þá væri búið að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu, þá væri búið að koma atvinnulífinu af stað. Þessi ríkisstjórn er verklaus og hefur ekki komið neinu í verk frá því að hún tók við.

Þetta eru hótunarstjórnmál sem hæstv. forsætisráðherra hefur svo oft stundað. Hún hótaði meira að segja svo hressilega þegar hún var áður ráðherra að hún stofnaði nýjan flokk. Nú er engin hurð til að skella en nú skal þingmönnum samstarfsflokksins hótað. Ég spyr: Hafa fleiri mál farið í gegnum þingið á þessum forsendum, að þingmenn Vinstri grænna séu teknir einn og einn inn í herbergi og þeim hótað þar að lífi ríkisstjórnarinnar sé lokið ef þeir fari ekki í einu og öllu að vilja hæstv. forsætisráðherra og hennar flokks sem hefur það eitt á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Þetta er langtum víðtækara. Við vitum það öll að ef Samfylkingin hefði ekki náð þessu í gegn í fyrrasumar hefði nánast þurft að leggja flokkinn niður því að þetta er hans eina stefnumál.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er sú tillaga sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason var að vísa í, hina tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðslu sem sjálfstæðismenn lögðu fram í umræðunum í fyrrasumar. Það er í sambandi við þá tillögu sem hótunum var hvað mest beitt, að mér skilst, og svo líka í sjálfri atkvæðagreiðslunni. Þar segir með leyfi forseta:

„Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“ — Sú atkvæðagreiðsla átti að fara fram áður en ríkisstjórnin legði umsóknina inn.

Raunverulega er sú þingsályktunartillaga sem liggur nú fyrir þinginu, og ég er fyrsti flutningsmaður að, speglun á þeirri tillögu sem sjálfstæðismenn lögðu fram í fyrrasumar um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er orðið tímabært, í þeim forsendubresti sem þessi umsókn er nú komin í, þetta eru hreinar og klárar aðildarviðræður að Evrópusambandinu, að þjóðin fái að koma að málum og segja: „Hingað og ekki lengra“, eða þá: „Stígum skrefið alla leið“. Sérstaklega í ljósi þess að hér hefur verið upplýst að niðurstaðan frá í fyrrasumar var þvinguð fram, að ekki var raunverulegur meiri hluti fyrir þeirri tillögu að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu. Það er grafalvarlegt mál, frú forseti, að þjóðþing skuli þvingað til að taka svo afdrifaríka ákvörðun eins og fram kom þannig að niðurstaðan stenst ekki meiri hluta þingsins. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði okkur hér áðan að umsóknin var fallin í fyrrasumar. Hún var fallin í fyrrasumar og hugsið ykkur orkuna, peninginn og vinnuna sem lögð hefur verið í þessa tillögu sem var þvinguð fram á síðasta ári.

Frú forseti. Ég taldi að þessi tillaga færi nú til allsherjarnefndar en mér var tjáð í morgun af starfsmönnum þingsins að hún færi til utanríkismálanefndar þar sem þetta málefni snertir utanríkismál. Hef ég ekki neinar athugasemdir við það.

Ég ítreka það sem hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni varð tíðrætt um í ræðu sinni. Ég vona að hún fái þar málefnalega umræðu. Ég vonast til þess að kallaðir verði til sérfræðingar og þeir fengnir til að gefa álit sitt á þessari tillögu sem það vilja og óskað er eftir. Ég óska eftir því að þingsályktunartillagan fái síðan eðlilegan framgang í nefndinni og að henni verði hleypt af stað inn í síðari umr. Við þurfum, í ljósi nýjustu upplýsinga, á því að halda að gá í fyrsta lagi hvort þingmeirihluti sé fyrir þessari tillögu til að hleypa þessu máli áfram til þjóðarinnar.

Frú forseti. Oft var þörf en nú er nauðsyn að íslenska þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli.



[17:24]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Í ljósi orða hv. þingmanns vill forseti árétta að það eru þingmenn sjálfir sem bera ábyrgð á eigin orðum og eigin gjörðum og þar með atkvæðagreiðslu í þinginu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.