139. löggjafarþing — 25. fundur
 11. nóvember 2010.
framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, 1. umræða.
frv. VigH, 99. mál (styttra tímamark). — Þskj. 105.

[17:25]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Ég vil taka það fram hér í upphafi að þetta frumvarp er alveg sjálfstætt og stendur áfram þrátt fyrir að búið sé að breyta ákvæðinu um kosningadag í þjóðaratkvæðagreiðslutillögunni sem var til umræðu hér áðan.

Hæstv. utanríkisráðherra eyddi mikilli orku og tíma í fjölmiðlum þegar þetta mál var lagt fram því að hann taldi að ég væri svo gleymin. Ráðherrann sem fer hér fram með þingsályktunartillögur og lagafrumvarp sem raunverulega fara á móti öðrum lögum, eins og t.d. umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sem stangast á við stjórnarskrá vegna þess að ekki er fullveldisafsal í stjórnarskránni. Hæstv. utanríkisráðherra verður að fara að athuga að hann er ekki einn í heiminum. Þó að maður gleymi ákveðnum hlut er ekki hægt að benda á einhverja sök í því sambandi eins og gert var í fjölmiðlum undir forustu Samfylkingarinnar á þeim tíma sem ég lagði tillöguna fram.

Nú ætla ég að fara yfir frumvarpið. Ég legg til, í 1. gr. frumvarpsins, að 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna breytist þannig að við bætist svohljóðandi lagagrein:

„Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. ef almennar kosningar eru boðaðar innan þriggja mánaða frá samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna er ég að rýmka til fyrir því að stytta megi tímann varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru ákveðnar og hafa ekki stoð í stjórnarskrá ef kosningar innan þessara þriggja mánaða. Við skulum hafa það á hreinu að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem getið er um í stjórnarskrá eiga að fara fram innan tveggja mánaða. Þær sem ekki er getið um í stjórnarskrá skulu fara fram innan þriggja mánaða.

Þegar ég fór að skoða þetta ákvæði með tímamörk þjóðaratkvæðagreiðslna eftir að hitt málið mitt var lagt fram um daginn, þjóðaratkvæðagreiðslutillagan um að þjóðin fái að kjósa um Evrópusambandsaðildarferlið, fór ég að velta því fyrir mér að auðvitað eru þrír mánuðir allt of lítið. Þessi lög eru túlkuð með þeim hætti að það skuli vera a.m.k. þrír mánuðir.

Nú ætla ég að rökstyðja mál mitt.

Í 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, segir, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið.“

Þarna er ákvæði um það að rjúfi forseti þing og boði til nýrra kosninga skuli þær fara fram innan sex vikna frá því boðað var til kosninga. Þarna kemur þetta nýja ákvæði inn í framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna í frumvarpinu sem hér liggur fyrir og ég er að ræða. Segjum sem svo að forseti mundi rjúfa Alþingi á morgun vegna þess að ríkisstjórnin hefði sprungið. Þá þarf að kjósa til Alþingis innan sex vikna og þá gæti þjóðaratkvæðagreiðslan, sem við vorum að ræða áðan, rúmast innan þeirra kosninga. Þá væri hægt að taka þá þjóðaratkvæðagreiðslu og kjósa um málið samhliða þingkosningum. Fyrst og fremst er verið að hliðra til þannig að komi fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu er hægt að setja hana inn í þær kosningar sem eru boðaðar, og þarna erum við að tala um sex vikur. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi hliðrun verði gerð á 4. gr. að það verði boðið upp á þetta.

Það þarf kannski ekki mikið meira að ræða þetta, þetta er nokkuð skýrt. Ég legg áherslu á að með þessu er ég ekki að gera lítið úr því að auðvitað þurfa Íslendingar og þjóðin öll að kynna sér mjög vel mál sem koma til þjóðaratkvæðagreiðslu. En því er nú þannig háttað að séu mál umdeild er meiri ástæða til að vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég minni t.d. á Icesave-samningana sem fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnarflokkarnir höfðu þjóðina síður en svo á bak við sig. Það var merkileg upplifun á íslensku lýðræði þegar þessu var vísað til þjóðarinnar á þann hátt að málið féll 98:2 ríkisstjórninni í óhag.

Þjóðin treysti sér í þá kosningu enda hafði það mál verið mikið í umræðunni. Ég held að ekki sé hætta á því, þessi upplýsta þjóð sem við erum — við erum tölvuvædd, tölum fleiri tungumál, erum raunverulega upplýstasta þjóð sem um getur því við fylgjumst svo vel með, bæði erlendum og innlendum fjölmiðlum — að fjórar vikur eða sex vikur dugi ekki til að fólk geti myndað sér skoðun í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er málið alla vega ekki mikið rætt.

Ég ítreka að ekki er verið að gera lítið úr því að fólk þarf að sjálfsögðu að kynna sér málin vel en ég tel að hægt sé að gera það á styttri tíma en þeim þremur mánuðum sem eru í lögunum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Ég legg þetta hér fram og óska eftir því að málið fari að 1. umr. lokinni til allsherjarnefndar þar sem nefndin mun taka það til umræðu og afgreiðslu.



[17:31]
Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er lagt til að breyting verði gerð á 4. gr. laga um framkvæmd á þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis að víkja megi frá reglunni þar sem fram kemur að þrír mánuðir, hið skemmsta, þurfi að líða frá því að þingsályktunartillaga er samþykkt um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram þar til af henni getur orðið ef almennar kosningar eru boðaðar innan þessara þriggja mánaða.

Ég get vel tekið undir sjónarmiðin sem koma fram í greinargerðinni að þetta mundi fela í sér verulegan sparnað fyrir ríkissjóð. Ég vil þó spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvernig hún ætlast til að farið verði með mál sem ákveðið er að greiða þjóðaratkvæði um ef almennar kosningar eiga að fara fram nokkrum dögum eða viku síðar. Á Alþingi að geta ákveðið þjóðaratkvæðagreiðslu með svo skömmum fyrirvara? Ég spyr vegna þess að þetta kemur ekki fram í frumvarpinu.



[17:32]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki fram í frumvarpinu. Það sem þingmaðurinn vísar í er að e.t.v. er búið að rjúfa þing og kosningar standa til innan skamms. Í millitíðinni kemur fram tillaga um að það eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál til að samnýta kosningadaginn og það eru aðeins tveir eða þrír dagar upp á að hlaupa.

Ég held að allir sjái að það væri ekki gott því að tíminn er of stuttur. Það gæti verið ástæða til að miða við þetta sex vikna ákvæði sem bundið er í stjórnarskrá, það að 45 daga eigi að líða þar til kosningar fara fram. Það má alveg skoða það. En þetta með tvo til þrjá daga, það sjá allir að það gengur náttúrlega ekki.

Ég vil líka leggja áherslu á það að 4. gr. er meginregla laganna. Frumvarpið sem liggur fyrir segir að víkja megi frá ákvæðum 4. gr. í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef búið er að boða til kosninga þegar þjóðaratkvæðagreiðsla er ákveðin. Þriggja mánaða markið verður þar með rofið en þó á skynsamlegan hátt eins og þingmaðurinn bendir á.



[17:34]
Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir veitt svör. Ég vek athygli á því að sveitarstjórnarkosningar ættu líka að geta fallið þarna undir. Það er einungis talað um almennar kosningar í ákvæðinu þannig að þær ættu líka að geta fallið þarna undir.

Ég tel hyggilegt að við höfum skýrar línur eins og þingmaðurinn sagði að þyrfti að vera í þessum efnum. Hér er um almennt heimildarákvæði að ræða. Ég tel að það geti ekki verið opið í annan endann.



[17:35]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er undantekningarregla eins og ég sagði áðan. Sveitarstjórnarkosningar koma ekki á óvart því lögum samkvæmt fara kosningar til sveitarstjórnar fram á fjögurra ára fresti en kosningar til Alþingis geta verið rokkandi eins og kom fram árið 2009. Þá var kosið á óhefðbundnum tíma því forseti getur ákveðið að rjúfa þing eða forsætisráðherra ákveður að skila umboði sínu. Þannig að ég get ekki tekið undir það. Ákvæðið er inni og ég get alveg tekið undir með þingmanninum að hafa ákvæðið opið í annan endann, að það sé þá ekki einn eða tveir dagar, það yrði óskynsamlegt. Það er líka óskynsamlegt að hafa þetta matsatriði en lögin eru vel vörðuð af landskjörstjórn. Þau eru vel vörðuð af dómsmálaráðherra, þannig að allar þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa að fara í gegnum þessa aðila. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið skipuleggur þetta.

Ef lagaákvæðið, þessi breytingartillaga, er óskýrt að því leyti að þingmanninum finnst hún opin í annan endann, er sjálfsagt að gera athugasemd við það. En við getum ekki sett lög um allt. Þá væru hér þykkar lagabækur. Þetta verður tekið á skynsamlegan hátt og þá metið í hvert skipti. Ég ítreka enn og aftur að þetta er undantekningarákvæði sem notast aðeins ef þannig aðstæður koma upp, sérstaklega ef forseti rýfur þing.



[17:37]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningu til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Er það rétt skilið hjá mér að þingsályktunartillagan sem hér var flutt geti ekki gengið fram nema þessi breyting á lögunum gangi eftir? Er það ekki rétt skilið hjá mér? Ég vildi gjarnan fá það fram hjá hv. þingmanni.

Síðan er annað sem ég vil gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns á. Það er hvort þingmaðurinn hafi ekki áhyggjur af því að ef mikið verður um að verið sé að spyrða saman þjóðaratkvæðagreiðslum og almennum kosningum eða spyrða saman kosningum sem eru kannski af algjörlega ólíkum toga, um ólík málefni, annars vegar verið að kjósa fólk og hins vegar verið að kjósa um eitthvert heitt málefni sem jafnvel getur verið pólitískt, að það þynni ekki út fyrri kosningar. Einn mesti pirringur minn í gegnum tíðina hefur verið að ég hef aldrei upplifað að kjósa um stjórnarskrá lýðveldisins. Það hefur alltaf verið spyrt saman við aðrar þingkosningar. Ætlað samþykki mitt hefur ætíð verið tekið. Mér finnst þetta vont.

Ég vil fá að kjósa sérstaklega um mikilvæg málefni. Ég er ekkert hrifinn af því að verið sé að bæta því við aðrar kosningar til að mynda eins og Icesave-kosninguna, svo við tökum dæmi. (Gripið fram í.) Ég er ekki viss um að það hefði verið skynsamlegt að spyrða þeim saman við sveitarstjórnarkosningar.



[17:39]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja á stjórnarskránni þá ætla ég að upplýsa þingmanninn um að það er ekki hægt að breyta stjórnarskránni nema að kjósa um það samhliða alþingiskosningum, þannig að sá misskilningur er frá.

Þingmaðurinn spyr hvort þingsályktunartillagan sem var til umræðu áðan geti ekki gengið fram nema tillagan um breytingar á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslum nái fram að ganga. Ég vil segja við þingmanninn að það er komin fram breytingartillaga við tillöguna, að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli fara fram í síðasta lagi 28. maí 2011 þannig að svigrúmið er gott. Þetta eru um sex mánuðir þannig að frumvarpið sem liggur fyrir þinginu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og breytingar á þeim er ekki samspyrt málum sem rædd voru áðan. Þetta er sjálfstætt mál. Þetta er sjálfstætt frumvarp. Þetta er frumvarp sem er lagt fram vegna þess að rýmka þarf tímamörkin um þrjá mánuði sem getið er um í 3. gr.

Varðandi ótta þingmannsins að honum finnist óþægilegt og ósanngjarnt að spyrða saman kosningar eins og hann segir, vil ég benda á að í 3. mgr. 4. gr. um lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum þessum samhliða kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis eða forsetakjöri.“

Þarna stendur þetta í lögunum, meira að segja þó að forsetakjör sé persónukjör er lagt til í lögunum sem samþykkt voru í sumar að þjóðaratkvæðagreiðslur geti farið fram á sama tíma.

Auðvitað verðum við sem þjóð, sama hvort við erum í efnahagsþrengingum eða ekki, að hugsa um sparnað fyrir ríkissjóð. Það er ekki hægt að deila um það að sameina kosningar með þessum hætti hefur gríðarlegan sparnað í för með sér fyrir þjóðarbúið. Ég treysti kjósendum fyrst og fremst þó þeir þyrftu að kjósa um fimm atriði í sömu kosningunum, þá eru íslenskir kjósendur færir um það.



[17:41]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin.

Ástæða þess að ég hef áhyggjur af því að spyrða saman kosningar eða gera það að meginreglu að hnýta saman mörgum atriðum í sömu kosningu, kemur m.a. til af reynslu sem nágrannaþjóðir okkar í vestri hafa af slíku. Reynslan þar er sú að slíkt leiðir til þess, ef verið er að kjósa um mörg atriði í einu, að kosningaþátttakan minnkar. Það er ekki gott fyrir lýðræðið. Það er þess vegna sem ég viðra áhyggjur mínar.

Í rauninni get ég tekið undir það sem hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu að kannski væri skynsamlegra að hafa almennu regluna sex vikur, en ekki þrjá mánuði eins og nú er.

Varðandi það að spyrða þessu saman við sveitarstjórnarkosningar, þá getur hæglega komið til að tillaga á Alþingi verði samþykkt innan tímarammans í nágrenni við sveitarstjórnarkosningar. Það þarf náttúrlega að vera. Hv. þingmaður upplýsti að það ætti að vera heimilt samkvæmt núgildandi lögum.

Ég vildi koma áhyggjum mínum á framfæri. Ég tel að ef um stórmál sé að ræða, þá eigum við að hafa það sem meginreglu að kjósa um þau, sérstaklega varðandi þetta atriði með stjórnarskrána. Auðvitað er mér eins og hv. þingmanni fullkunnugt um með hvaða hætti breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar á Alþingi. Ég held og ég trúi því að hv. þingmenn séu sammála mér að fáir Íslendingar telji sig hafa upplifað að þeir hafi kosið um breytingarnar á stjórnarskrá þó þeir hafi kosið tvisvar í röð til þings þar sem stjórnarskrárbreytingar voru undir.



[17:43]
Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit nú ekki hvort við eigum að kalla það sem ég segi núna andsvar eða ekki, þetta eru svona almennar vangaveltur hjá mér og þingmanninum. Ég þakka honum fyrir að taka þátt í umræðunni með þessum hætti.

Varðandi það að hafa tvær eða þrjár atkvæðagreiðslur í gangi á sama tíma, hvort það minnki kjörsókn eða ekki, þá hefur ekki reynt á það hér á landi sem nokkru nemi. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan, sem var þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave, heppnaðist einstaklega vel þrátt fyrir það að þessi vanhæfa ríkisstjórn hafi hvatt þjóðina til að sitja heima í kosningunum. Meira að segja minnir mig að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki einu sinni farið á kjörstað. Þannig að andi stjórnvalda — við erum enn þá lýðræðisríki. Stjórnvöld eru ekki farin að halda þegnum landsins í heljargreipum þó þau reyni oft á tíðum að deyfa hér allt og meira að segja kosningarréttinn sem er miður.

Varðandi það þegar málið er lagt fram, sem var til umræðu áðan, hvort það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu með ESB-aðlögunarferlið. Ég varð vör við að þarna vantaði inn ákvæði að þessir þrír mánuðir væru of langur tími frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu þar til hún getur farið fram. Það er forsendan fyrir því að ég legg frumvarpið fram. Eftir á að hyggja stendur frumvarpið eitt og sér og verður að koma sem breyting inn í lögin vegna ákvæðis í stjórnarskránni að forseti rjúfi þing.

Það er svo sem ekki meira um þetta að segja. Fólk hefur haft samband við mig og lýst skoðun sinni að hefði verið kosið um þá þingsályktunartillögu sem hér var rædd áðan, hefði kosningaþátttakan jafnvel orðið afar góð. Það sem fólk óttast núna í stjórnlagaþingskosningunni — það sem hrindir frá er að hún er flókin og erfið í framkvæmd. Fólk óttast (Forseti hringir.) að það verði léleg mæting. Ef væru spennandi mál (Forseti hringir.) í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það lyft kosningaþátttökunni upp í hæstu hæðir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.