139. löggjafarþing — 32. fundur
 22. nóvember 2010.
veiðikortasjóður.
fsp. GÞÞ, 124. mál. — Þskj. 135.

[18:04]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru mörg málin sem heyra undir Alþingi og að mörgu að hyggja. Sum mál eru ekki jafnáberandi og önnur en það er hins vegar afskaplega mikilvægt að við rækjum eftirlitshlutverk okkar á öllum sviðum og ekki síst þegar kemur að umhverfismálum.

Í ansi langan tíma hefur verið til nokkuð sem heitir veiðikortasjóður og ekki ætla ég að rekja neitt sögu sjóðsins hér, en um hann hafa verið miklar umræður, sérstaklega í ákveðnum hópi manna, meðal veiðimanna sem hafa með málefnalegum hætti komið þeim sjónarmiðum á framfæri að það mætti vera skýrari og betri stjórnsýsla í kringum þann ágæta sjóð. Ég vildi þess vegna, með leyfi virðulegs forseta, spyrja hæstv. umhverfisráðherra, átta spurninga í tengslum við þann sjóð. Spurningarnar eru þess eðlis að þær skýra sig nokkuð sjálfar:

1. Af hverju fjármagnar veiðikortasjóður vöktun rjúpu en Náttúrufræðistofnun vöktun annarra dýrastofna?

2. Hversu miklu fé hefur verið úthlutað til rjúpnarannsókna úr veiðikortasjóði frá árinu 1995? Hvers vegna hefur ekki verið úthlutað fé til gæsarannsókna?

3. Er til sundurliðun á kostnaði við rjúpnarannsóknir samkvæmt bókhaldslyklum? Hversu mikill er hluti dagpeninga, aksturs o.s.frv.? Er vinna sérfræðinga innan húss við rjúpnarannsóknir gjaldfærð sem útseld vinna?

4. Hvað ræður úthlutunum úr veiðikortasjóði?

5. Hefur verið haft samráð við veiðimenn eða Umhverfisstofnun um úthlutanir úr sjóðnum?

6. Hefur Náttúrufræðistofnun sótt formlega um styrki úr sjóðnum frá árinu 2006?

7. Hyggst ráðherra nýta sér tillögur nefndar frá 2001 um úthlutunarreglur veiðikortasjóðs?

8. Er til stofnskrá fyrir veiðikortasjóð?

Þetta eru þær spurningar sem brunnið hafa á mörgum sem hafa hagsmuna að gæta. Þetta eru yfirgripsmiklar spurningar en ég treysti hæstv. ráðherra til að fara vel yfir þær og við munum síðan ræða þær í framhaldinu. Svo höfum við auðvitað tækifæri til að fylgja málinu eftir, virðulegi forseti.



[18:07]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á þessu máli sem hefur verið eitt af því sem ég hef verið að vinna að tiltektum í síðan ég tók sæti í umhverfisráðuneytinu. Þarna eru tilteknar athugasemdir sem komið hafa árvisst til ráðuneytisins, eins og þingmaðurinn vék lauslega að í ræðu sinni.

Ef ég fer í gegnum spurningarnar eina af annarri er það svo að Náttúrufræðistofnun fjármagnar vöktun fuglastofna, þar á meðal rjúpu, af fjárheimildum sínum fyrst og fremst. En í ljósi mikillar fækkunar í rjúpnastofninum á tímabili, mikilvægi hans sem veiðistofns og umræðu um veiðistjórn var ákveðið að efla rjúpnarannsóknir og hefur verið veitt fé til þeirra úr veiðikortasjóði. Ekki er óeðlilegt að veiðikortasjóður veiti fé til rannsókna á rjúpu eða öðrum stofnum þar sem þeirra er sérstaklega talin þörf á hverjum tíma og samræmist það vel hinni svokölluðu nytjagreiðslureglu, þ.e. að þeir sem nytja tiltekna náttúruauðlind standi undir kostnaði við að tryggja sjálfbæra nýtingu hennar.

Til langs tíma litið er engin sérstök ástæða til að rjúpnarannsóknir fái sérstaka meðferð í úthlutunum í veiðikortasjóði en aukin áhersla á rjúpnarannsóknir undanfarin ár hefur skilað sér í betri þekkingu á stofninum og líklega betri stjórn veiða úr honum.

Varðandi úthlutun úr sjóðnum hefur frá árinu 1995–2009 verið úthlutað um 115 millj. kr. af tekjum af sölu veiðikorta til rannsókna, vöktunar og kynningar á rjúpnastofninum. Á sama tíma hefur verið úthlutað til nokkurra verkefna sem tengjast rannsóknum og vöktun á gæsastofninum um 37 millj. kr.

Þingmaðurinn spyr um sundurliðun á kostnaði. Sundurliðunin er til staðar í bókhaldi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það sem bókað er á viðfang rjúpnarannsókna eru dagpeningar, yfirvinna og ýmis vörukaup, en föst laun bókfærast á sameiginlegt launaviðfang Náttúrufræðistofnunar Íslands og þar er ekki um útselda vinnutaxta að ræða heldur venjulegan launakostnað, þ.e. laun og launatengd gjöld. Akstur er hins vegar færður í akstursdagbók sem staðsett er í bifreiðum stofnunarinnar.

Við gerð áætlana um rannsóknir og umsóknir um fjármagn til þeirra hjá Náttúrufræðistofnun er ekki notaður taxti stofnunarinnar fyrir útselda vinnu heldur er miðað við beinan launakostnað. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlutfallslegur kostnaður vegna dagpeninga og aksturs við rjúpnarannsóknir verið um 30% af heildarkostnaði.

Hvað ræður úthlutunum? spyr þingmaðurinn. Fyrst og fremst er tekið mið af lögum og reglugerðum um verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en umhverfisráðuneytið hefur lagt áherslu á að veita styrki til rannsókna og vöktunar á þeim tegundum sem heimilt hefur verið að veiða, einkum þeim sem verið hafa í hættu er stofnar hafa minnkað eða þeim sem vinsælar eru meðal veiðimanna. Einnig hefur fjöldi umsókna og það fjármagn sem er til úthlutunar hverju sinni áhrif á úthlutanir styrkja úr sjóðnum.

Varðandi samráð við veiðimenn eða Umhverfisstofnun hefur við úthlutanir styrkja úr veiðikortasjóði verið farið eftir reglum og leiðbeiningum sem tilgreindar eru í lögum og reglugerðum um veiðikort en frá því að veiðikortakerfinu var komið á hefur ævinlega verið leitað til Umhverfisstofnunar um umsóknir um styrki til rannsókna og vöktunar af tekjum af sölu veiðikorta.

Á þriggja ára tímabili fyrir síðustu aldamót setti þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, á laggirnar þriggja manna hóp með aðkomu veiðimanna til að meta og gefa umsögn um umsóknir úr sjóðnum og á grundvelli nýsettra verklagsreglna hefur verið óskað eftir tilnefningum í fimm manna ráðgjafarnefnd sem á að starfa með Umhverfisstofnun að því að gefa umsóknir í veiðikortasjóðinn og er einn fulltrúi hópsins tilnefndur af Skotvís.

Varðandi formlega styrki Náttúrufræðistofnunar úr sjóðnum frá árinu 2006 gerir umhverfisráðuneytið kröfu um að sótt sé formlega um styrki í sjóðinn hverju sinni og á það einnig við um Náttúrufræðistofnun Íslands. Frá árinu 2007 hefur stofnunin sótt formlega um styrki úr sjóðnum árlega en árið 2006 var úthlutað styrk til rannsókna á rjúpu á grundvelli rannsóknaráætlunar stofnunarinnar fyrir rjúpnarannsóknir.

Fyrirspyrjandi spyr hvort ráðherra hyggist nýta sér tillögu nefndar frá 2001 um úthlutunarreglur. Búið er að setja nýjar verklagsreglur um úthlutanir úr veiðikortasjóði og voru tillögur og ábendingar um úthlutunarreglur fyrir veitingu styrkja til rannsókna og vöktunar af tekjum af sölu veiðikorta sem borist höfðu ráðuneytinu hafðar til hliðsjónar við samningu þeirra reglna.

Er til stofnskrá fyrir veiðikortasjóð? spyr þingmaðurinn að lokum. Því er til að svara að ofangreindar verklagsreglur þjóna bæði sem stofnskrá fyrir sjóðinn og leiðbeining um meðferð umsókna um styrki í sjóðinn.

Ég vona að hér sé spurningum þingmannsins svarað.



[18:12]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og af því að það er alltaf verið að skamma okkur fyrir að skamma hvert annað hérna vil ég nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa sett þetta prýðilega fram. Svör hæstv. ráðherra er ágætisgrunnur til að ræða þetta mál.

Ég held hins vegar að þær spurningar sem lagðar eru fram komi ekki úr lausu lofti. Þær koma vegna þess að fólki hefur ekki fundist þetta vera nógu skýrt og ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna málið með þeim hætti að enginn velkist í vafa um hvað er á ferðinni. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hafa samráð við þá sem gerst þekkja til og þurfa að koma að þessum málum og þá er ég sérstaklega að vísa til veiðimanna. Mér líst vel á að í þessari fimm manna ráðgjafarnefnd sé a.m.k. einn frá Skotvís, það er gott skref. Besta leiðin til að koma á deilum er að hafa leynd yfir málum og mönnum er ekki ljóst hvað liggur til grundvallar ákvörðunum og öðru slíku, þá skapast tortryggni og fer oft gríðarleg orka í eitthvað að ástæðulausu.

Ég tel þetta vera góðan grunn. Við höfum ekki tækifæri til að ræða svör hæstv. ráðherra í neinum smáatriðum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau en hvet hana til að ganga lengra og sjá til þess að allt það sem snýr að þessum sjóði og sambærilegum sjóðum verði eins opið og — ég ætla helst ekki að nota orðið gagnsætt, það er orðið skammaryrði, en í það minnsta opið og skýrt (Forseti hringir.) þannig að allir séu meðvitaðir um hvað (Forseti hringir.) er á ferðinni. Ég áskil mér rétt og veit að hæstv. ráðherra vill fara betur yfir málið í náinni framtíð.



[18:14]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum enn. Ég vil leyfa mér að vitna í bréf sem mér barst á dögunum, nánar til tekið 15. nóvember, frá Skotveiðifélagi Íslands, en þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi sínum 15. nóvember var stjórn Skotvíss kynntar nýjar verklagsreglur fyrir veiðikortasjóð. Stjórnin lýsir ánægju með þessar nýju reglur og telur þær til mikilla bóta.

Stjórn félagsins vill með bréfi þessu þakka umhverfisráðherra fyrir hröð og örugg vinnubrögð og skilning hans á ábendingum Skotvíss um úrbætur á úthlutunarreglum sjóðsins.“

Ég hef lagt mikið upp úr því að verklagsreglurnar séu á netinu. Þær eru sýnilegar þar. Öll úthlutun er birt á netinu og eins forsendur fyrir þeim. Það hefur ekki verið gert fyrr en nú. Þarna er um opinbert fé að ræða og úthlutun þess þannig að það er einboðið að það ber að vera skýrt og gagnsætt. Félagið hefur lagt margt mjög gott til málanna. Samstarfið við skotveiðimenn hefur verið gríðarlega gott og upplýsandi og hefur fyrst og fremst orðið til þess, eins og fyrirspyrjandi nefnir, að eyða ákveðinni tortryggni sem var milli aðila í þessu máli og tel ég að við séum búin að koma því í gott lag.

Ég vænti þess að sjóðurinn muni nú nýtast enn betur en áður. Meðal annars er í þeim breytingum sem gerðar hafa verið á regluumhverfinu gert ráð fyrir því að annað hvert ár sé haldin ráðstefna um þau verkefni sem ráðstafað hefur verið í úr veiðikortasjóði þannig að þá ætti líka að gefast tækifæri fyrir vísindasamfélagið til að skiptast á skoðunum og upplýsingum um þennan mikilvæga málaflokk.