139. löggjafarþing — 33. fundur
 23. nóvember 2010.
um fundarstjórn.

orð þingmanna í umræðum um störf þingsins.

[14:35]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér var áðan um einhvern samning við Árbót í Norðausturkjördæmi og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson las um upp úr Fréttablaðinu áðan, þeirrar umræðu sem var í gær um málið og síðan þeirrar umræðu sem nú er komin um að þingmenn Norðausturkjördæmis hafi beitt sér í málinu er ekki hægt að skilja þá umræðu öðruvísi en að um alla þingmenn kjördæmisins sé að ræða. Þess vegna vil ég taka skýrt fram fyrir mína hönd og annarra þingmanna Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi að það sem sagt var frá í Fréttablaðinu í gær kom okkur jafnmikið á óvart og öllum öðrum. Við beittum okkur ekki fyrir þeirri lausn sem þar er sett fram. Við könnumst ekkert við það mál. Hins vegar könnumst við við það, og það er rétt, að þetta var einu sinni tekið upp á fundi allra þingmanna Norðausturkjördæmis sem erindi að norðan en ekkert um úrlausn eða hvað ætti að gera við það. Menn lýstu bara áhyggjum yfir að verið væri að loka þessu meðferðarheimili. Punktur. Vegna þess sem sagt var frá í Fréttablaðinu í gær, virðulegi forseti, um að þingmenn alls kjördæmisins hafi beitt sér fyrir því vil ég taka skýrt fram að við könnumst ekkert við það og tókum ekki þátt í því.



[14:36]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur var verulega misboðið hér við það sem hún kallaði dylgjur frá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem eftir því sem ég gat heyrt talaði þó um skólameistara úti á landi. Það er greinilega eitthvað viðkvæmt. Ég vil gera athugasemd við það að hv. þingmaður sem ber sig aumlega við ásakanir um dylgjur komi sjálf, þegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er fjarstödd vegna starfa á vegum þingsins erlendis og er ekki hér til að bera hönd fyrir höfuð sér, og dylgi um einhver meint samtöl og meint bréf, meinta samninga sem áttu að hafa verið gerðir í hennar embættistíð. Ég bið hv. þingmann um að taka þetta samtal við hv. þingmann þegar hún kemur til baka.



[14:37]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er athyglisverð umræða hér um dylgjur, um hvaða þingmenn séu að dylgja í garð hvaða þingmanna sem sumir eru fjarstaddir. Ég tel, frú forseti, ekki sæmandi fyrir Alþingi að menn komi upp í ræðustól í alheilögum vandlætingartón í öðru orðinu um að breyta þurfi vinnubrögðum á þinginu en dylgi svo í hinu orðinu um félaga sína sem ekki eru hér.

Ég tel að hæstv. forseti ætti að beita sér fyrir því að kynna þessum hv. þingmönnum þá skýrslu sem þingmannanefndin skilaði í haust um m.a. bætta starfshætti í þinginu, kynna þeim hina sameiginlegu þingsályktunartillögu sem samþykkt var 63:0 vegna þess að hún er greinilega fallin ofan í skúffu og í gleymskunnar dá. Ég bið jafnframt hæstv. forseta um að hvetja menn til að tileinka sér í verki þau vinnubrögð sem þar er talað um, ekki bara flagga slíkum (Forseti hringir.) vinnubrögðum á hátíðarstundum og gleyma þeim svo jafnóðum.



[14:38]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég frábið mér ásakanir um að ég fari með dylgjur á hendur nafngreindum fjarstöddum þingmönnum. Ég er ekki upphafsmaður þess máls. Það var hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem vísaði í samninga sem ég taldi mig hafa ástæðu til að bregðast við. (Gripið fram í: Nafnið þitt var …) Aftur á móti var nafn hæstv. menntamálaráðherra aldrei nefnt í fyrri ræðu minni þegar ég talaði um það stjórnsýsluhneyksli sem átti sér stað í samskiptum menntamálaráðuneytisins og Menntaskólans Hraðbrautar. Fyrir því liggur álitsgerð sem ég get vísað í sem er skriflegt gagn sem liggur fyrir þinginu en ekki einhverjar óopinberar upplýsingar sem menn vísa í í dylgjutóni til að reyna að klekkja á þingmönnum en átta sig ekki á því að þau vopn snúast í höndum þeirra sem þannig fara með og geta snúist að þeirra eigin flokkssystkinum ef grannt er skoðað.



[14:40]
Mörður Árnason (Sf):

Fundarstjóri. (Forseti hringir.) Forseti, og fundarstjóri, háttvirtur, hæstvirtur og heiðraður. Það er sérkennilegt að þrátt fyrir heilt hrun, þrátt fyrir það traust til Alþingis sem við sjáum í skoðanakönnunum að er í brjóstum færri en eins af hverjum 10 Íslendingum, halda menn áfram að tala úr tryggu skjóli hinnar meintu samtryggingar með þeirri ræðu að ef fundið er að vinnubrögðum núverandi stjórnvalda og fyrrverandi stjórnvalda sprettur upp nýr þingmaður, en gamall í anda og reyndur í sínum störfum á vegum banka og útrásarvíkinga, og segir: Þú líka. Þú líka. Ef að því er fundið spretta upp aðrir tveir þingmenn og fara að skammast með dylgjum (Forseti hringir.) og steigurlæti. Þetta er þannig að menn ættu að fara heim og reyna að læra heima, hugsa sig um og koma svo aftur og reyna að hafa þvegið sér í framan (Forseti hringir.) áður en þeir koma í ræðustól með slíkan málflutning. (Gripið fram í.)



[14:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil jafnframt beina þeirri ósk minni til hæstv. forseta að kynna skýrslu þingmannanefndarinnar sérstaklega fyrir hv. þm. Merði Árnasyni sem veitir ekki af að fá smáskólun í því hvernig siðaðir menn haga sér í pontu. Ég veit ekki betur en að ég hafi farið í sund í morgun, nýþvegin í framan, er algerlega stolt af því hvernig ég haga málflutningi mínum í þinginu og þarf ekki að skammast mín fyrir það.

Hins vegar ætti hv. þm. Mörður Árnason að mínu viti, frú forseti, og hæstv. forseti kannski hjálpar honum við að læra það, að vita að menn eiga að sýna virðingu fyrir störfum hver annars. Menn eiga ekki að koma upp og ásaka menn um kjördæmapot eins og hv. þingmaður gerði undir liðnum um störf þingsins um athafnir hæstv. samgönguráðherra varðandi Landeyjahöfn. Hann kallaði það kjördæmapot. Ég skil ekki hvaðan sá málflutningur kom og ég held að sá ágæti þingmaður, sem jafnframt er formaður umhverfisnefndar, ætti að líta aðeins í eigin barm þegar hann talar um góða stjórnsýsluhætti, (Forseti hringir.) þegar hann sem formaður nefndarinnar kemur hér og skipar fyrir um það að umhverfismat skuli fara fram á einhverjum framkvæmdum. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til þess að þetta eldgos hafi farið í umhverfismat (Forseti hringir.) og hv. þingmaður þarf kannski að horfa á þessa atburði með annars konar gleraugum.



[14:42]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um það hvort okkar sé hreinna í framan en hins vegar leiðrétta þann misskilning sem greinilega hefur læðst inn hjá þingmanninum að ég hafi sakað núverandi hæstv. samgönguráðherra um kjördæmapot vegna hugsanlegs flutnings Markarfljótsósa. Samgönguráðherrann er ekki í því kjördæmi þannig að hann væri þá að pota fyrir annað kjördæmi ef um það væri að ræða. (Gripið fram í.) Ég held að þær hugmyndir séu alls ekki sprottnar af kjördæmapoti, (UBK: Þú sagðir …) heldur eru þær raunverulegar og settar fram til að gefa kost á að leysa þetta mikla vandamál sem við ræddum m.a. í gær, ég og hv. þingmaður.

Ég gerði ekki annað en að ítreka að samkvæmt landslögum og ummælum samgönguráðherrans er ekki hægt að setja slíka framkvæmd í gang, ef af verður, nema að undangengnu umhverfismati. Það er ósköp einfalt og ég var að leiðrétta þær fréttir sem hafa borist af öðru (Forseti hringir.) í dag.