139. löggjafarþing — 33. fundur
 23. nóvember 2010.
vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 197. mál (skattlagning samkvæmt útblæstri bifreiða). — Þskj. 214.

[14:44]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti, fundarstjóri. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti, lögum um bifreiðagjald og lögum um olíugjald. Það er á þskj. 214, 197. mál þessa þings. Með frumvarpinu er lögð til kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja og eldsneytis að því er varðar viðmið eða andlag skattlagningarinnar. Verði frumvarpið að lögum verður skattlagning ökutækja framvegis miðuð við koltvísýringslosun þeirra. Um er að ræða mikilvæga aðgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með því að gera íslenska bílaflotann umhverfisvænni, hvetja til notkunar ökutækja sem ekki ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og undanskilja endurvinnanlega orkugjafa eldsneytisskattlagningu.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að í stað þess að vörugjald af ökutækjum taki mið af sprengirými aflvélar verði skattlagningin tengd beint við skráða koltvísýringslosun viðkomandi ökutækis, mælda í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Þetta er orðið auðvelt í framkvæmd vegna þess að slíkar upplýsingar eru handhægar og aðgengilegar um allar nýrri bifreiðar. Tillögurnar gera þannig ráð fyrir að skattlagningin fari úr 0% fyrir ökutæki sem losa minna en 80 grömm af koltvísýringi á ekinn kílómetra og upp í 65% fyrir ökutæki sem losa meira en 250 grömm á ekinn kílómetra. Tillögurnar eru útfærðar þannig að tekjur ríkissjóðs haldast óbreyttar miðað við spár um meðaltalslosun ökutækja næstu ár. Jafnframt er lagt til að ökutæki sem knúin eru metani fái allt að 750 þús. kr. afslátt af vörugjöldum, þ.e. allar minni bifreiðar og ódýrari bifreiðar sem nota það eldsneyti verða þá í raun undanþegnar vörugjöldum en þau leggjast í einhverjum mæli á allra dýrustu tækin sem flutt eru inn og nota þann orkugjafa.

Í öðru lagi er lagt til að bifreiðagjald af ökutækjum taki líka mið af skráðri koltvísýringslosun ökutækis, aftur mælda í grömmum á hvern ekinn kílómetra, og að gjaldið verði 120 kr. fyrir hvert gramm af koltvísýringslosun umfram 80 grömm en þó þannig að lágmarksgjald sé ætíð 5 þús. kr. Lagt er til að ökutæki sem knúin eru metani greiði sama lágmarksgjald og þær bifreiðar sem eru í 80 gramma flokknum og þar undir.

Breyting á bifreiðagjaldinu samkvæmt þessu frumvarpi felur í sér að tekjur ríkissjóðs af þeim gjaldstofni gætu hækkað um 200 millj. kr. milli ára miðað við það sem óbreytt gjald hefði skilað. Það er í góðum takti við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011.

Þá er í frumvarpinu einnig að finna tillögur um að endurnýjanleg íblöndunarefni af lífrænum uppruna sem blandað er við gjaldskylt eldsneyti verði undanþegin skattlagningu en svo er ekki í dag. Þetta ætti að geta hraðað þeirri þróun að menn nýti þá möguleika sem eru til íblöndunar á efnum af lífrænum uppruna. Áhugasamir aðilar um þróun á því sviði hafa bent á að það hamli henni að skattalega hafi ekki verið gerður greinarmunur þar á fram að þessu.

Í frumvarpinu eru auk þessara nokkrar minni háttar breytingar sem skipta minna máli í þessu sambandi og snúa fyrst og fremst að aðlögun laganna að ofangreindu. Á undanförnum dögum hefur umræðan snúist um hvort þetta frumvarp hafi sérstaklega íþyngjandi áhrif á landsbyggðina eða strjálbýlið umfram bifreiðarekstur annars staðar í landinu. Um það vil ég í fyrsta lagi segja að breytingarnar eru að sjálfsögðu hlutlausar í þeim skilningi að þær hafa hverfandi áhrif á rekstrarkostnað núverandi bílaflota eins og hann er samansettur. Það er eingöngu bifreiðagjaldsþátturinn sem þar kemur við sögu og vegur ekki þungt. Vissulega dregur þetta upp annað landslag þegar að því kemur að menn endurnýja bílaflotann og flytja hann inn í landið, enda er megintilgangurinn að hvetja til þess að endurnýjun í bílaflota landsmanna verði sem mest á umhverfisforsendum. Þetta ætti því beinlínis að ryðja brautina fyrir umhverfisvæna orkugjafa og sparneytna bíla eftir því sem kostur er. Allir standa að sjálfsögðu jafnt að vígi í þeim skilningi að menn geta tekið ákvarðanir í ljósi þess skattumhverfis sem hér verður. Vissulega er þó rétt að telji menn sig aðstæðnanna vegna þurfa að kaupa mjög stóra og eyðslufreka bíla er þetta íþyngjandi gagnvart því. Þá er að mörgu að hyggja, þar á meðal og ekki síst því að valkostirnir verða miklu fleiri en áður, þegar keyptir eru sparneytnir bílar jafnvel þótt þeir séu býsna stórir og öflugir.

Loksins er þróunin sem bifreiðaframleiðendur, kannski sérstaklega annars staðar en í Bandaríkjunum, hafa lagt mikið í á undangengnum árum farin að skila sér í því að í boði eru öflug sparneytin tæki. Það hefur t.d. þau áhrif að margir meðalstórir bílar, fjórhjóladrifsbílar, jeppar og jepplingar, lækka í verði. Það gildir um mörg þau ökutæki sem eru nú með 30% skattlagningu, þau lækka, margir bílar í þeim flokki lækka um 5%. Stór hluti þeirra bifreiða sem nú eru með 45% skattlagningu lækkar, mjög margir meðalstórir jeppar lækka um 10%. Má nefna gagnmerk ökutæki eins og Kia Sorrento og Hondu CR, Volvo XC60, Huyndai Santa Fe, Lexus og Land Rover Freelander. Ekki er síst ánægjulegt að rifja upp kynni við gamla góða Land Roverinn. Annars ætla ég nú ekki að fara að auglýsa einstakar bílategundir en þetta er bara nefnt til dæmis um að menn standa frammi fyrir fjölmörgum valkostum, í hverjum eru alveg eins möguleikar á því að endurnýja meðalstór ökutæki, þar með talin fjórhjóladrifin og þar með talda jeppa sem henta ágætlega til aksturs á vegum við vetraraðstæður. Hægt verður að fá bíl þar sem lækkun hefur orðið en ekki hækkun. Í þriðja lagi stendur auðvitað stór hluti ökutækjaflotans í stað. Mjög margir meðalstórir og stærri meðalstórir bílar koma út úr þessu á sléttu. Það eru fyrst og fremst nokkrar mjög stórar tegundir og eyðslufrekar, eða öllu heldur sem losa mikið, sem taka á sig hækkun.

Auðvitað verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við ætlum að þróa bílaflotann okkar í þessa átt og beita til þess skattalegum hvötum af þessu tagi hefur það áhrif. Öðruvísi er það ekki hægt. Ég minni á að þegar breytingar voru gerðar á bæði olíugjaldi og þungaskatti á miðju ári 2009 var reynt að mæta hagsmunum landsbyggðarinnar sérstaklega. Munurinn á milli skattlagningar á almenna flotanum og þessum stóru tækjum var aukinn gagngert til þess m.a. að koma í veg fyrir að þær hækkanir sem þá voru á bensín- og olíugjöldum og þungaskatti bitnuðu á flutningskostnaði langra flutningaleiða.

Önnur lönd þar sem er strjálbýli, ekki síður en hér á landi, hafa farið þessar leiðir og mér telst svo til að líklega 17 af um það bil 25 Vestur-Evrópulöndum hafi tekið upp skattlagningu sem með einhverjum hætti tekur mið af koltvísýringslosun ökutækis. Aðferðirnar eru vissulega dálítið mismunandi og kannski ekki auðveldar til samanburðar en með einum eða öðrum hætti á þetta það allt sammerkt að losun koldíoxíðs eða gróðurhúsalofttegunda er tekin sem einhvers konar andlag skattlagningar. Það má t.d. vísa bæði til Finnlands og Noregs í þeim efnum, þar hafa menn farið svipaðar leiðir og við ætlum að fara þannig að við erum ekki að finna upp hjólið.

Þetta er að sjálfsögðu veigamikill liður í því að framfylgja og hrinda í framkvæmd breytingum sem við þurfum að ráðast í á ýmsum sviðum ef við ætlum okkur að mæta þeim metnaðarfullu markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem við höfum lofast til að gera, samanber áætlun þar um. Það má segja að hér sjái stað eins af fyrstu stóru skrefunum í því að gera þær breytingar, t.d. í skattalegum efnum, sem eru nauðsynlegar að þessu leyti. Nema hvað við göngum mjög langt í því í raun og veru að hvetja til þess að umferðin þróist yfir í vistvæna orkugjafa með algeru skattfrelsi á slíkri umferð að heita má, þ.e. hún er undanþegin með öllu þeim tekjustofnum sem almennt standa undir kostnaði við umferðina, vegakerfið og uppbyggingu þess o.s.frv. Að sjálfsögðu er okkur öllum ljóst að til lengri tíma litið mun sú þróun ekki geta gengið óheft eða óbreytt. Smátt og smátt verður sá vaxandi hluti umferðarinnar sem vonandi nýtir sér á komandi árum umhverfisvæna orkugjafa að leggja eitthvað af mörkum til uppbyggingar samgöngukerfisins. En á meðan við hrindum þeirri þróun af stað og komum henni vel á veg er tvímælalaust réttlætanlegt og nauðsynlegt að stuðla að henni með þessum hætti. Þegar batnandi tímar fara í hönd og endurnýjun bifreiðaflotans fer af stað í auknum mæli á nýjan leik er mjög mikilvægt að þetta umhverfi liggi fyrir, menn viti að hverju þeir ganga og þróuninni sé stýrt eftir því sem kostur er í þessa átt.

Ég vil svo nefna varðandi þann bifreiðaflota sem til staðar er í landinu að meira er í vændum í þeim efnum. Ég vonast sömuleiðis til að geta kynnt skref sem gengur í sömu átt í frumvarpi sem kemur inn á borð þingmanna innan fárra daga og tengist möguleikum á að breyta að hluta til núverandi bílaflota í umhverfisvæna orkugjafa.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að mál þetta gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar ef ég veit rétt. Ég held að það hljóti að eiga að lenda þar, blessað málið.



[14:56]
Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna mjög þessari áherslubreytingu á skattlagningu bifreiðanotkunar. Ég held að það sé mjög brýnt að við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda af bílaflotanum og löngu orðið tímabært að við stígum skref eins og þessi í þeim efnum. Ég er þó með spurningar hvað þetta varðar sem eiginlega lúta að því hvort ekki væri rétt að stíga lengra. Þá er ég kannski einkum og sér í lagi að hugsa um niðurfellingu að nokkru leyti á vörugjöldum af t.d. metangasbifreiðum en þar er þak á niðurfellingunni 750 þús. kr. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig var sú tala fengin? Með því að hafa þá tölu hærri mundi það ekki hvetja til enn frekari notkunar á metangasi á Íslandi þar sem stærri bílar fengju meiri afslátt? Til dæmis ef við ykjum þetta þak um helming væru það ekki verulega góð kaup að kaupa þá frekar stóra metangasdrifna bifreið en ekki? Kemur til greina að hækka þetta þak þannig að við tökum inn stærri metangasdrifna bíla? Og þá er spurning í framhaldi af þessari: Af hverju var 750 þús. kr. þakið valið? Hvaða rök búa að baki því?



[14:58]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki nein heilög tala eða nákvæm vísindi á bak við hana en í grunninn, ef ég veit rökin rétt, er það í fyrsta lagi þannig að þetta nægir öllum ódýrari og meðaldýrum bílum. Það eru fyrst og fremst mjög stór ökutæki sem þetta mundi þá hafa áhrif á. Það er líka rétt að hafa í huga að metanbílarnir nota gjarnan annað eldsneyti með, þeir eru flestir byggðir þannig að þeir eru ræstir á bensíni eða öðrum orkugjafa og nota það jöfnum höndum. Það er kannski að einhverju leyti sjónarmið að setja því skorður hversu langt er gengið í þessa átt.

Í þriðja lagi er ekkert launungarmál að menn horfa svolítið á flotann sem er til staðar í landinu. Menn hafa reynt að taka visst mið af því þegar þetta er útfært hver áhrifin af þessum skattalegu aðgerðum eru gagnvart innflutningi nýrra bíla versus sá floti sem er til staðar í landinu, þar á meðal í því samhengi að við viljum gjarnan að sú þróun fari af stað að honum verði breytt í einhverjum mæli yfir í það að vera knúinn umhverfisvænum orkugjöfum.

Loks er það þannig að það er fullt samkomulag um það milli fjármálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis þess vegna að ætlunin með þessum breytingum er ekki að ákveða það fyrir fram eða stýra því sérstaklega hvaða tegundir umhverfisvænna orkugjafa þróunin mun innleiða. Á þessu stigi málsins a.m.k. ber ekki að skilja það svo að þessar ívilnanir eða þetta þak á metan hafi nokkuð með það að gera hvort þróunin sé líkleg til að verða eða eigi að verða yfir í raforku eða rafknúna bíla, metanbíla eða vetnisbíla þess vegna eða hvað það er. Eins og ég skil þetta er vilji allra að það sé haft sem hlutlausast og almennt sé hvatt til þess að þróunin sé í þessa átt og (Forseti hringir.) hún fari síðan í þá farvegi sem henta og þróunin stýrir þeim í.



[15:00]
Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að það er full ástæða til að vera ekki að beina þróuninni að ofan í einhverja eina ákveðna átt hvað varðar umhverfisvæna orkugjafa, heldur leyfa þróuninni að gerast. Það er náttúrlega talsvert að gerast í metangasi og sérstaklega í framleiðslu á metangasi á innlendum vettvangi þannig að það er kannski svolítið nærtækt að spyrja sérstaklega út í það en afsláttur á vörugjöldum gildir náttúrlega líka um rafknúnar bifreiðar og vetnisknúnar.

Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér með stærri bílana sem geta verið metandrifnir líka er sú að náttúrufarið hér á landi er auðvitað þannig að við erum svolítið drifin í það að þurfa að kaupa stóra bíla, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég held að það ætti að vera sjónarmið sem nefndin ætti að taka til umfjöllunar að reyna að búa svo um hnútana að frumvarpið hvetji til og gefi tilefni til metanvæðingar á landsbyggðinni þar sem (Forseti hringir.) full þörf er á stórum bílum og þá þurfi kannski að hækka þakið. Það verði einnig skoðað hvernig hægt er að hvetja til víðtækara dreifikerfis á umhverfisvænum orkugjöfum. Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hvernig hann sér það fyrir sér.



[15:02]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þróunin yfir í metan sem orkugjafa er mjög spennandi fyrir okkur. Þar getum við verið sjálfum okkur næg um eldsneyti í þó nokkrum mæli og erum það nú þegar. Ef ég man rétt dugar framleiðslan í Reykjavík, hvað heitir hann nú staðurinn við Gufunes, nei, Álfsnes, fyrir 4 þúsund bíla flota eða eitthvað svoleiðis. Ég held að ég hafi einhvern tímann heyrt þá tölu.

Akureyringar eru að fara af stað og olíufélögin eru að taka við sér með dreifingarstöðvar. Það er auðvitað mjög mikilvægt að skapa eftirspurnina, að stækka flotann sem aftur verður undirstaðan fyrir fleiri dreifistöðvar o.s.frv. Að sjálfsögðu eru möguleikar landsbyggðarinnar þarna til staðar. Jafnvel gætu bændur framleitt sitt eigið metangas í verulegum mæli úr haughúsum og þess vegna notað stærri bíla. Mér finnst alveg rök fyrir því að skoða það allt. Sem stendur er sá floti náttúrlega að langmestu leyti knúinn með dísli. Ef menn vilja sérstaklega taka tillit til þess held ég að menn ættu að hafa aðeins sjónir á hlutföllunum milli verðlagningar í bensíngjaldi (Forseti hringir.) og olíugjaldi.



[15:03]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í mörg horn að líta í þessu máli. Ég held að það sé kannski ekki alveg hægt að afgreiða þetta án þess að fara vel yfir hvaða áhrif þetta hefur. Eins og hæstv. fjármálaráðherra þekkir betur en flestir er landið stórt og veður eru með ýmsu móti. Þrátt fyrir að við höfum haft þá stefnu lengi að skattleggja miklu meira stærri og orkufrekari ökutæki og ágæt sátt verið um það er það samt svo, og hæstv. ráðherra þekkir það vel, að m.a. af öryggisástæðum hafa menn verið að nota stærri bíla og oft hefur munað litlu að illa færi ef menn hefðu ekki verið á ekki öruggum ökutækjum. Ég ætlaði hins vegar ekki að ræða það núna, við höfum nægan tíma til að fara yfir þetta mál.

Ég tek undir það að markmiðin eru í grunninn góð með frumvarpinu en ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í athugasemdir sem Samtök fatlaðra hafa komið með í sambandi við staflið m í 2. gr. frumvarpsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.“

Samtökin hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta muni hafa fyrir fatlaða sem eiga bíl og þetta muni stórauka kostnaðinn fyrir þá ef þetta fer óbreytt í gegnum þingið eins og þetta er núna.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnist um (Forseti hringir.) athugasemdir þessara samtaka.



[15:05]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú verð ég bara að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma til að skoða það sérstaklega. Ég verð bara að játa það að ég hef ekki forsendur til þess að meta hvort það sé ástæða til að óttast að þetta verði sérstaklega íþyngjandi fyrir þá, væntanlega vegna þess að sérútbúnir bílar væru stærri og eyðslufrekari eða losuðu meira. Að öðru leyti ætti það ekki að hafa áhrif. Þetta hefur engin áhrif á það fyrirkomulag sem í gildi er varðandi styrkina sem menn fá til að endurnýja sína bíla o.s.frv. Þetta er þá bara spurning um hvort breytingin er hlutlaus eða ekki hlutlaus að breyttu breytanda gagnvart þeim sem í hlut eiga. Sé það svo að þetta mundi leiða til einhverrar sérstakrar íþyngingar vegna samsetningar þess bílaflota sem fatlaðir þurfa að nota, sérútbúinna og þá kannski stærri bíla, treysti ég hv. þingnefnd til að skoða það. Ég hef ekki forsendur til að meta það á þessu stigi.

Auðvitað eru mjög margir að velta fyrir sér sinni útkomu úr þessum breytingum. Það gildir um landsbyggðina eða bændur, það gildir um þá sem hafa rekið bílaleigur, það gildir sjálfsagt um hópa eins og þessa, en það er náttúrlega erfitt að mæta því þannig að þetta hafi engin áhrif gagnvart einum eða neinum, enda mundu menn þá væntanlega missa marks með breytingarnar í heild sinni. Þetta er að mínu mati minni breyting en menn halda í byrjun, sérstaklega ef litið er aðeins lengra aftur í tímann og skoðað hvernig þessi gjaldflokkun var hér aðeins lengra til baka, þetta mjög óveruleg breyting miðað við það sem þá var við lýði um langt, langt árabil. Því var nokkuð breytt eins og kunnugt er og kannski höfum við síðustu árin einmitt ekki gert það sem almennt er þróunin, að hafa nægilegan skattalegan mun á milli sparneytinna og minna sparneytinna bíla. (Forseti hringir.) Það er því miður þannig. Við höfum kannski haft það hlutfallslega ódýrara en skynsamlegt er að fjárfesta í dýrum og eyðslufrekum ökutækjum.



[15:08]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að það er ekkert ódýrt við það að eiga bíl, það er dýrt, það er bara spurning hversu dýrt. Ef einstaklingar eiga stóra bíla sem þeir þurfa á að halda einhverra hluta vegna kemur það svo sannarlega við budduna, ekki bara í innkaupsverðinu heldur líka í eldsneyti, tryggingum, bifreiðagjöldum og öðru slíku. Ég á hins vegar mjög lítinn bíl þannig að þetta snýr ekki að mér en það er auðvitað fullkomið aukaatriði. Ég held hins vegar að við verðum að tala um þá hluti eins og þeir eru að það er dýrt að eiga bíl á Íslandi.

Ég met það svo, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra taki vel í þau málefnalegu sjónarmið sem komu frá Sjálfsbjörg. Ég treysti því að vilji sé fyrir því að skoða þetta vel í hv. þingnefnd þannig að við förum ekki að setja sérstakar álögur á það fólk sem sannarlega þarf ekki á því að halda. Ég mun beita mér fyrir því eins mikið og ég get að komið verði (Forseti hringir.) í veg fyrir það.



[15:09]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fer nú eftir því hvernig á það er litið að það sé ekkert ódýrt við það að eiga bíl. Auðvitað kostar það alltaf sitt. Má ég þá leyfa mér að minna á að það er náttúrlega ótrúleg breyting sem orðin er á fáum árum á akkúrat þessum þætti, hvað í boði eru núna miklu, miklu sparneytnari bílar sem skila sama afli og eru nákvæmlega jafngóðir til aksturs og aðrir og kannski helmingi eyðslufrekari bílar voru fyrir nokkrum árum. Ef við tökum bara eyðsluna á mörgum nýjustu og sparneytnustu dísilbílunum sem fara kannski niður í 5 lítra á hundraðið og berum þá saman við bíla af svipaðri stærð sem fyrir ekkert mörgum árum eyddu að meðaltali 10 lítrum. Það munar nú um minna en þetta, bæði í kostnaði og auðvitað í umhverfisáhrifum. Ætli það sé ekki þannig að það kosti um eða jafnvel innan við helming að fylla á metantank sama orkumagn og af bensíni? (GÞÞ: Það kostar að breyta bílnum.) Já, ef menn kaupa inn nýja metanbíla er þetta staðan (Forseti hringir.) að rekstrarkostnaður bílsins hvað eldsneyti varðar fer kannski niður um helming. Það eru möguleikar á því í dag að endurnýja bíla þannig að menn fái alveg jafngóðan bíl (Forseti hringir.) með helmingi minni eyðslu en áður var.



[15:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér um koldíoxíðlosun bifreiða og aðgerðir til að minnka hana er alls góðs vert að því gefnu að kenningin um hitun jarðar sé rétt og við verðum víst að treysta því.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um áhrif þessa frumvarps á verð notaðra bifreiða. Ég hef grun um að margar stærri bifreiðar sem við eigum í flotanum og eyða miklu muni hrynja í verði og auka enn frekar á vandamál þeirra heimila sem hafa tekið lán til að kaupa þær bifreiðar og eru í vandræðum með afborganir.

Nú er það svo að öldrun bifreiðaflotans er þekkt, það er eiginlega sáralítið flutt inn nema til bílaleigufyrirtækja. Einstaklingar flytja varla inn bifreiðar. Spurningin er sú hvort ráðuneytinu hafi dottið í hug að lækka jafnvel vörugjald almennt til að minnka þann þröskuld sem er inn í landið við að flytja inn bifreiðar sem menga miklu minna. Það er staðreynd, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, að það hefur orðið mikil þróun. Sá gamli bílafloti sem við sitjum uppi með vegna þessa þröskuldar við innflutning er bæði óhagkvæmur og dýr í rekstri, kostar mikið viðhald og mengar óhemjumikið. Ég tel að vegna þess að svo lítið er flutt inn og ríkissjóður hefur hvort sem er engar tekjur af því, væri ráð að boða það núna að vörugjöld yrðu lækkuð t.d. um 10% á ári þangað til þau hyrfu eftir 10 ár og kostnaðurinn eða tekjufall ríkissjóðs yrði flutt yfir á bensínverðið og olíuverðið. Í staðinn fyrir að hafa einhver sérstök skilyrði fyrir metanbifreiðar mætti niðurgreiða metan svo og lífdísil sem líka hefur sömu áhrif.



[15:13]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að í raun og veru sé þetta meira og minna allt innifalið í þessu frumvarpi sem hv. þingmaður spyr um og nefnir auðvitað réttilega. Hann telur frumvarpið alls góðs maklegt að því tilskildu að kenningin um gróðurhúsaáhrifin sé rétt, sem ég held nú að sé og held að sé að verða svo yfirgnæfandi sannað að lítið þýði að þræta um það lengur. Ekki þarf annað en hoppa yfir til Grænlands til að sjá alveg stórfelldar breytingar sem hlýnun jarðar hefur í för með sér þar.

Varðandi núverandi flota hefur þetta í sjálfu sér ekki áhrif á hann nema í þeim takmarkaða mæli sem nemur bifreiðagjöldunum árlega. Þegar kemur að því að endurnýjun vex í bílaflotanum hefur það vissulega áhrif á söluverð þeirra bíla sem fyrir eru, það er öllum ljóst. Hér er verið að lækka þröskuldinn og auðvelda endurnýjun bílaflotans í sparneytnari og umhverfisvænni átt. Það er ekkert launungarmál að í þessu er fólgin stýring í þá veru, enda er það meginmarkmiðið að bifreiðaflotinn endurnýist í rétta átt út frá umhverfislegum sjónarmiðum.

Ég held að það þurfi varla frekari hvata varðandi t.d. metanið en þann að það er undanþegið skattlagningu. Íblöndunarefnin verða það sömuleiðis með þessu frumvarpi, þannig að ef menn blanda 10–15% í dísil af lífrænu eldsneyti er sá hlutinn undanþeginn skattlagningu. Það hefur ekki verið svo eins og ég fór yfir í framsögu minni. Í frumvarpinu er verið að reyna að ná utan um þessa hluti meira og minna í heild sinni, að ég tel, sem hv. þingmaður ræddi hér.



[15:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Verð notaðra bifreiða fer töluvert mikið eftir því verði sem þær mundu kosta nýjar á götuna. Ef við ætlum að hækka skattlagningu í hæsta flokknum úr 45 upp í 65, sem þýðir að þær verða miklu dýrari í innflutningi en jafnframt óhagkvæmari í rekstri, þá er spurning hvaða áhrif það hefur á markaðinn til hækkunar eða lækkunar. Ég var einmitt að spyrja um hvort ráðuneytið hefði kannað hvaða áhrif þetta hefði á markaðinn.

Varðandi metan og bíódísil er gert ráð fyrir því hér að hafa 750 þús. kr. mörk. Þau mörk væru óþörf ef metanið yrði hreinlega niðurgreitt á móti og bíódísillinn sömuleiðis. Ef talið er að það sé svo mikið atriði að ná niður koldíoxíðmengun held ég að það yrði skynsamlegra en að vera með einhver mörk sem enginn getur rökstutt eitt eða neitt.



[15:16]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi notaða flotann, annaðhvort misskil ég eitthvað eða ég ímynda mér að þetta komi þannig út að einmitt þeir bílar sem hækka í innkaupum vegna breytinganna ættu þá að halda betur uppi verði sambærilegra notaðra bíla sem eru í landinu, þannig að þeir sem eiga stærri bílana í dag ættu ekki að þurfa að kvíða því. Það eru frekar hinir, sem eiga minni eða meðalstóra bíla og lenda í samkeppni við það að innflutningur á slíkum bílum sem losa minna er nú gerður ódýrari, sem ættu að hafa áhyggjur af verði síns bílaflota.

Ég held reyndar að þær áhyggjur séu óþarfar að verulegu leyti einfaldlega vegna þess að það stórdró úr bílainnflutningi hér og hann hefur haldist svo lítill í tvö ár að það ætti ekki að vera ástæða til að ætla að það verði erfitt að fá sanngjarnt verð fyrir þann notaða bílaflota sem til staðar er í landinu.

Varðandi skattalegu skýringuna þá kemur hún úr báðum áttum. Það er bæði verið að gera þessa bíla ódýrari í innkaupum og að hluta til (Forseti hringir.) ódýrari í rekstri. Þannig að þeim tækjum er beint úr báðum áttum til að reyna að stuðla að réttri þróun.



[15:17]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um bifreiðagjald. Ég lýsi í fyrsta lagi yfir stuðningi mínum við það og þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur boðað til að minnka útblástur og mengun af bílaflota landsmanna. Það er göfugt markmið en það er spurning hvaða leiðir við viljum fara að því.

Þetta frumvarp leggur til, verði það að lögum, að vörugjöld af þeim bílum sem eyða meiru en minni bílar muni hækka en aftur á móti muni vörugjöld lækka á smábílum. Nú er það svo eins og fram hefur komið í þessari umræðu að við búum á Íslandi en ekki í Mið-Evrópu og hér eru veður válynd. Við búum í dreifbýlu landi og hæstv. fjármálaráðherra ætti að vera kunnugt að á mörgum stöðum er nauðsynlegt fyrir fólk að vera á vel búnum bílum öryggisins vegna og jafnvel vinnutengt líka til að komast á milli staða. Gallarnir við þetta frumvarp eru að vel búnir bílar, svo sem Toyota RAV4 jepplingur eða bara Subaru Legacy, sá ágæti bíll, munu hækka verulega í verði verði frumvarpið að lögum. Áhrif þess bitna væntanlega einkum á því fólki sem býr í hinum dreifðari byggðum. Það er fólk í Suðurkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, fólk sem getur ekki notað almenningssamgöngur til að stunda vinnu heldur þarf á bifreiðum sem þessum að halda.

Nú væri ágætt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugmynd um eða geti veitt upplýsingar um hvort þetta atriði hafi komið upp í ráðuneytinu í þeirri frumvarpssmíð sem hann kynnir núna. Mér finnst með öllu óásættanlegt að þriðjungur landsmanna, fólk sem kýs að búa fyrir utan suðvesturhorn landsins, skuli lenda í því að tilfærslur á kostnaðaraukanum bitni sérstaklega á honum. Ákveðnar tilfærslur eru innan kerfisins og ef þetta verður samþykkt og gert að lögum er þetta sérstakur landsbyggðarskattur. Til framtíðar litið ræðum við um að verð á fjórhjóladrifsbílum, jepplingum, jeppum og fólksbílum, hækki og mun það þýða að fólk, sérstaklega á landsbyggðinni, þurfi að verja meiri fjármunum til að endurnýja bíla sína en fólk sem býr á suðvesturhorni landsins og getur notað litla sparneytna bíla til að komast á milli staða.

Mér finnst að við þurfum að huga að jafnræði í þessum málum. Ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hafa menn ekki skoðað hvort hægt sé með einhverjum öðrum hætti að bæta þriðjungi landsmanna það upp, ef þetta frumvarp verður að lögum, að hann þurfi að greiða hærra verð í þessu formi fyrir bíla sína en efni standa nú til? Við fengum Bílgreinasambandið á fund í efnahags- og skattanefnd á dögunum og mig minnir, ég segi það nú án allrar ábyrgðar, að þar hafi komið fram að hlutfall fjórhjóladrifsbíla, sem sagt jepplinga og þar upp úr, sé um 50% á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu um 40%. Hér er verulegur munur á samsetningu bílaflotans og er það því til rökstuðnings að þetta frumvarp lendi miklu harðar og verr á íbúum landsbyggðarinnar en íbúum á suðvesturhorni landsins. Þetta mál verður tekið fyrir í efnahags- og skattanefnd í framhaldinu og ég vonast til að fulltrúar allra flokka horfi til þessara sjónarmiða. Ég er ekki að tala fyrir neinum sérhagsmunum, ég er að tala fyrir hagsmunum þriðjungs þjóðarinnar. Mér finnst ekkert réttlæti í því að þriðjungur þjóðarinnar sökum aðstæðna skuli með þessu frumvarpi neyðast til að eyða miklu hærri fjárhæð en fólk á suðvesturhorni landsins til að fjárfesta í bifreiðum.

Við skulum setja þetta í annað og víðara samhengi vegna þess að ég tel að við þurfum að horfa vítt yfir sviðið. Hver er aðstaða fólks á landsbyggðinni þegar kemur að grundvallarþáttum eins og bifreiðum? Tökum annað dæmi: Húshitun. Nú hefur ríkisstjórnin boðað að minnka eigi niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Venjulegt heimili á landsbyggðinni borgar nú um 450 þús. kr. á ári í húshitun hafi það ekki aðgang að heitu vatni. Við erum að tala um 13.000 heimili þar sem 36.000 manns búa. Á svæði Orkuveitu Reykjavíkur er reikningurinn vegna húshitunar rúmar 200 þús. kr. Það er sem sagt tvisvar sinnum dýrara að greiða reikninga vegna húshitunar á landsbyggðinni en á suðvesturhorni landsins. Halda menn virkilega að menn sættu sig við það á höfuðborgarsvæðinu að heimili í Árbæ greiddi 450 þús. kr. til að hita upp hús sitt þegar heimili í Breiðholti þyrfti einungis að borga 230–240 þús. kr.? Ég held ekki. Við búum á tímum þar sem við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Við viljum væntanlega, sama hvar í flokki við stöndum, veita fólki jöfn tækifæri óháð búsetu. Það er ekki gert með þessu frumvarpi, það er verið að auka á misvægið.

Eðli málsins samkvæmt, þegar mikil ófærð er og erfiðar samgöngur vítt og breitt um landið, verða stærri bílar miklu dýrari í notkun fyrir utan að eyða meiru. Hvað er ríkisstjórnin að leggja til með fjárlagafrumvarpinu og frumvarpinu sem hún flutti í fyrra? Jú, hækkun á verði á eldsneyti. Það þýðir einfaldlega fyrir hinar dreifðu byggðir að reikningur heimilanna vegna kaupa á bensíni og dísilolíu hækkar stórlega á milli ára, sem er enn ein mismununin vegna þess sem ég benti á áðan að fólk á þessum svæðum hefur ekki aðgang að almenningssamgöngum eins og fólk á suðvesturhorni landsins. Hvar er þá jafnræðið, frú forseti?

Við skulum ræða annan þátt sem er flutningskostnaður sem hefur hækkað markvisst ár eftir ár. Nú er svo komið að ætli fólk austur á landi að kaupa sér ísskáp þá kostar eiginlega meira að ferja ísskápinn austur en kaupa hann. Við erum enn á leiðinni í öfuga átt, allir þessir kostnaðarliðir eru að hækka. Þeir hækka og hækka og hækka. Þeir lenda í vísitölunni og hækka þar með lánin. Við erum því endalaust að elta skottið á okkur hvað þetta varðar. Hlutfallslega koma þessar breytingar miklu verr út fyrir hinar dreifðu byggðir en höfuðborgarsvæðið. Það er þess vegna eðlileg spurning til hæstv. ráðherra hvort hann hafi á einhverju stigi málsins leitt hugann að því að nauðsynlegt væri að taka tillit til landsbyggðarinnar í því frumvarpi sem við ræðum.

Nú er hægt að fara fleiri en eina leið til að minnka útblástur. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eða viljum gera, til að mynda önnur norræn ríki og lönd víðs vegar í Evrópu, hafa þau lönd farið þá leið að skattleggja dísilolíu minna en bensín. Í fyrsta lagi er það gert vegna þess að dísilknúnir bílar eyða vanalega minna en bensínknúnir og síðan er dísilolían umhverfisvænni en bensínið. Það er tvöfaldur ávinningur sem því fylgir. Það væri hægt að minnka útblástur með því að breyta skatthlutföllunum þannig að dísilolían yrði hagkvæmari í innkaupum en bensínið. Nú er þetta að jafnaði á pari. Ef menn færu út í þá breytingu mundi kaupmynstur landans breytast og menn mundu frekar kaupa dísilknúna bíla en bensínknúna. Vægi slíkrar breytingar mundi ekki mismuna eins landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Önnur spurning mín til hæstv. ráðherra er því hvort menn hafi skoðað að fara þá leið.

Í umræðum í nefndinni var sumum nefndarmönnum gjarnt að minnast á að nú væri dálítið mikið af Range Roverum sem keyrðu um götur höfuðborgarsvæðisins og hvort það væri stefna okkar sem töluðum fyrir þessum sjónarmiðum að ekki mætti hækka gjöld á þá. Við erum ekki að tala um að fólk á landsbyggðinni aki um á Range Roverum. Þetta eru ekki útrásarvíkingar. Það fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum eru bændur sem stunda landbúnað og þeim dugar einfaldlega ekki að vera á litlum Toyota Yaris-bílum nema rétt yfir sumarmánuðina. Reyndar efast ég orðið um að þeir smábílar henti vel til þess að keyra dreifbýlisvegina. Viðhald á þeim vegum (SKK: Ekki Steingrímsfjarðarheiði.) er orðið svo lítið að þeir eru eins og þvottabretti og þótt reynt sé að gera þá að einhverju leyti upp á vorin þarf ekki nema einn eða tvo rigningardaga til að þeir verði að sömu þvottabrettunum aftur. Menn keyra ekki á sparneytnum smábíl um slíka vegi.

Í fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra í gær, þegar ég innti hann eftir þjónustu Vegagerðarinnar yfir vetrarmánuði er snertir snjómokstur, kom fram að ekki ætti að skera enn frekar þar niður, sem er fagnaðarefni, en hins vegar er 7,7% aðhaldskrafa á þeim lið sem er viðhald á vegum yfir sumar sem vetur. Þar af leiðandi verður enn harkalegri niðurskurður á viðhaldi vega, t.d. á sumrin, og er nú ástandið erfitt nú þegar. Ég sé það einfaldlega ekki ganga upp, frú forseti, að bændur til sveita og fólk í dreifbýli keyri um sveitir landsins í framtíðinni á þessum pínulitlu bílum eins og ástand vega er. Menn þurfa einfaldlega að vera á vel búnum og öruggum bílum, svo ekki sé talað um öryggisþáttinn í því máli, að stærri vel búnir bílar eru öruggari en smábílar. Það gerist víst enn og mun gerast um alla framtíð að slys verða, kannski sérstaklega þegar ástand og viðhald þjóðveganna er orðið eins slæmt og raun ber vitni, og er þá betra fyrir fólk að vera frekar á traustari bílum en smærri.

Heilt yfir, frú forseti, vil ég lýsa yfir stuðningi við megintilganginn með frumvarpinu, að minnka útblástur, og við í Framsóknarflokknum tökum heilshugar undir það. Ég get hins vegar ekki fallist á að auka á mismun í samfélaginu er varðar búsetuskilyrði fólks ofan á allt annað sem ég hef nefnt hér að framan. Það er einfaldlega ekki mönnum bjóðandi. Hæstv. fjármálaráðherra ætti að hafa ágætan skilning á aðstæðum til sveita og þeim kjördæmum sem hafa engan snertiflöt við suðvesturhorn landsins, þ.e. höfuðborgarsvæðið. Fólk þarf einfaldlega að vera á betur útbúnum bílum. Ef við setjum það í samhengi við harkalegan niðurskurð í velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni hefði maður haldið að það væri brýnt fyrir fólk sem þar býr að hafa aðgengi að vel búnum bílum, þ.e. ef mönnum er alvara með að skera þá þjónustu svo mikið niður.

Á heildina litið hvet ég hæstv. ráðherra til að hugsa sinn gang þegar kemur að þessu frumvarpi. Við skulum finna leiðir til þess að minnka útblástur og gera landið umhverfisvænna. En við getum ekki lokað augunum fyrir því að við búum í dreifbýlu landi þar sem veður eru válynd og skorið hefur verið niður í snjómokstri ár eftir ár. Í því ljósi verður fólk einfaldlega að geta haft aðgengi að vel búnum bílum. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er ljóst að til framtíðar litið mun verð á slíkum bifreiðum stórhækka. (TÞH: Heyr, heyr.) Það er ekki ásættanlegt. Ég heyri hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson kallar „heyr, heyr“ sem er ný hefð í þinginu, þegar mönnum líkar við ræður þingmanna eru þeir farnir að heyrast um salinn. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að hafa það eftir sem hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði.

En án allra gamanmála ræðum við mjög alvarlegt frumvarp. Við þurfum að svara stórum spurningum. Eins og hæstv. ráðherra heyrir í ræðu minni erum við tilbúin til samráðs um að minnka útblástur, við erum ekki sammála um leiðir, en ég leyfi mér að binda vonir við (Forseti hringir.) að á vettvangi nefndarinnar finnum við ásættanlega lausn. Því miður er þetta ekki lausnin.



[15:32]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil sjónarmið hv. þingmanns og áhyggjur. Ég held að þessi skarpa aðgreining hans í landsbyggð og höfuðborgarsvæði og þéttbýli hins vegar liggi ekki alveg svona. Það er ekki eins mikið áhyggjuefni og hv. þingmaður telur. Það er í fyrsta lagi vegna þess, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að það er heilmikið framboð af brúklegum fjórhóladrifsbílum, jeppum, jepplingum og meðalstórum jeppum, sem ýmist lækka við þessar breytingar eða standa í stað í innkaupum. Áhrifin á rekstrarkostnað núverandi bílaflota eru óveruleg. Það eru fyrst og fremst stærstu og eyðslufrekustu bílarnir sem taka þetta á sig í innkaupum. Það er talsverður floti af þeim hér eins og kunnugt er.

Við eigum að sameinast um að gera landsbyggðinni kleift — það þarf stuðning til að taka að fullu þátt í þróuninni í átt að umhverfisvænum orkugjafa eins og í metanvæðingu. Það getur vel verið að það þurfi að grípa til einhverra ráðstafana til þess að hún verði ekki alveg út undan í þeirri þróun.

Varðandi flutningskostnaðinn er það að sjálfsögðu tilfinnanlegt sem hv. þingmaður nefnir. Við þekkjum öll þá þróun, hún er ekki bara tilkomin vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar og vantar mikið upp á það eins og hv. þingmaður veit vel. Það má gagnrýna okkur fyrir að hafa ekki, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, reynt að snúa þróuninni við, t.d. með því að taka upp strandsiglingar eða annað í þeim dúr. Þó höfum við sannarlega gert þar hluti sem ganga í rétta átt. Ég minni á að í breytingunum 2009 hækkuðum við olíugjaldið aðeins um helming af því sem bensíngjaldið var hækkað og náðum að færa verðið á dísillítranum niður að því sem bensínið er. Þróunin hafði snúist við frá því sem upphaflega var áætlað með innleiðingu gjaldanna og dísillítrinn var orðinn mörgum krónum dýrari en bensínið. Við hlífðum sömuleiðis þungaskattinum við þeirri hækkun að verulegu leyti. Þá voru aðgerðirnar markvisst útfærðar til þess að hafa sem minnst íþyngjandi áhrif á landsbyggðina og flutningskostnaðinn.



[15:35]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki klára að svara spurningu minni hversu vel hann hefði skoðað það þegar hann samdi frumvarpið í ráðuneytinu að breyta skattlagningunni á milli dísilolíu og bensínlítra. Í öðru lagi vil ég leiðrétta hæstv. ráðherra þegar kemur að hækkunum á ákveðnum bílum. Við getum tekið jeppling eins og Toyota Rav4, hann mun samkvæmt þessu frumvarpi hækka um 130 þúsund. Honda CRV sem er líka jepplingur mun hækka um 288 þúsund. Subaru Legacy mun hækka um 175 þúsund. Þetta eru engir risabílar og eru nauðsynlegir í mörgum byggðarlögum. Ég man að á dögunum hríðaði í fjóra eða fimm daga á Akureyri og það var þó nokkur ófærð innanbæjar. Ég vil fullyrða að hefðu Akureyringar verið á smábílum hefði enginn bíll verið á ferðinni í bænum þessa þrjá eða fjóra daga. Hæstv. ráðherra á að þekkja vel til aðstæðna í þessum byggðarlögum. Það er óumdeilt að verð á nauðsynlegum bílum, vel búnum, mun hækka verði þetta að veruleika.

Ég saknaði þess hjá hæstv. ráðherra þegar ég bar saman til að mynda raforkuverðið þar sem menn hafa lækkað niðurgreiðslur til kaldra svæða. Raforkuverðsreikningar á 13.000 heimilum hafa hækkað meira en raforkuverð á öðrum stöðum. Þar eykst mismunurinn meira. Það er líka búið að hækka bensín og olíuverð. Á landsbyggðinni keyra menn á bílum sem eyða hlutfallslega meira bensíni vegna ófærðar og eru á traustari bílum. Þar er enn verið að auka ójöfnuðinn. Verða menn ekki að skoða heildarsamhengið þegar kemur að þessum málaflokki og minnka misvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins?



[15:37]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýr fyrst og fremst að endurnýjun bílaflotans, breytingarnar sem hafa áhrif. Við megum ekki dæma þetta út frá núverandi samsetningu hans. Spurningin er hvaða aðstæðum standa menn frammi fyrir þegar þeir þurfa að ráðast í að endurnýja núverandi bílaflota, það gildir jafnt um landsbyggðina sem höfuðborgina. Það er augljóst að menn eiga kost á góðum fjórhjóladrifsbílum til vetraraksturs sem ýmist lækka eða standa í stað í þessari skattlagningu. Það er auðvelt að sýna fram á það. Ég á langan lista yfir það hvernig þetta kemur út fyrir einstakar tegundir. Þetta hefur verið rækilega skoðað í undirbúningi þessa máls. Það hefur verið mikið legið yfir þessum þætti af því við erum okkur meðvituð um það í fjármálaráðuneytinu, m.a. húsbóndinn, að það er til landsbyggð á Íslandi. Þó mér þyki vænt um áminningarnar þarf ekki að segja mér það kvölds og morgna að það sé til strjálbýli á Íslandi, ég þekki eitthvað inn á það sjálfur.

Ef við skoðum stöðu bænda og veltir henni fyrir sér, þá kemur t.d. í ljós að sú þróun hefur víða átt sér stað að vinnutækin eru vaskbílar, pallbílar og aðrir slíkir en fjölskyldubílarnir eru minni og sparneytnari, kannski litlir og meðalstórir fjórhjóladrifsbílar. Ef þetta væri greint svoleiðis, og ekki bara nota hlutföllin fjórhjóladrifsbílar versus þeir sem eru eindrifa því þau segja ekki alla söguna, þá er ég ekki viss um að munurinn sé skýr á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þegar þetta er skoðað. Að sjálfsögðu er gagnlegt að hv. nefnd fari rækilega yfir þetta. Ef hún finnur eitthvað betra út úr þessu en margra mánaða yfirlega þeirra sem unnið hafa að undirbúningi frumvarpsins, þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að fara ofan í það.

Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að legið var yfir þessum hlutum. Varðandi raforkuverðið — já, að sjálfsögðu væri gott að hafa meiri peninga til að niðurgreiða hærra raforkuverð á köldum svæðum. En framsóknarmenn ættu að kannast við hvað ýtti verðinu upp. Það er innleiðing orkutilskipunar Evrópusambandsins. Ég veit að ég þarf ekki að fræða framsóknarmenn um það hvernig það gekk fyrir sig.



[15:39]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess síðasta sem hæstv. ráðherra vék að varðandi tilskipanir Evrópusambandsins þá ætti hæstv. ráðherra að vera kunnugt um það þar sem hann studdi aðildarumsókn að Evrópusambandinu í þeim efnum.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að niðurgreiðslur vegna húshitunar á köldum svæðum, ef þær hefðu fylgt verðlagi frá árinu 2005 til dagsins í dag, ættu að vera einn og hálfur milljarður. Í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar er upphæðin um 970 milljónir. Hæstv. ráðherra getur ekki kennt einhverjum tilskipunum um að raforkuverð á þessum svæðum hafi hækkað svo mikið sem raun ber vitni, heldur er það stefnumótun og áhersla ríkisstjórnarinnar þegar kemur að reikningum 36.000 Íslendinga eða 13.000 heimila. Tölurnar tala sínu máli.

Ég vil að lokum segja það, ég ætla ekkert að karpa, að ég hef reynt í ræðu minni að sjá heildarsamhengið hvað landsbyggðin er að borga í flutningsgjöld, hvað hún er að borga í olíukostnað umfram þéttbýlissvæðið, hvað við borgum í hærri raforkukostnað og núna hærri kostnað vegna bílaflotans, því við erum að tala um horfur til framtíðar. Einhvern tímann mun reikningurinn skella á landsbyggðinni hvað þessi mál varðar.

Ég vil að lokum, af því að fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra er hér á forsetastóli, ítreka það að við framsóknarmenn erum sammála um að við eigum að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. (Fjmrh.: Heyr, heyr.) Heyr, heyr, segir núna hæstv. fjármálaráðherra. Ég man aldrei eftir því að hann hafi sett svoleiðis slagorð við mínar ræður, en einhvern tímann er allt fyrst. Við styðjum það svo sannarlega, en það er spurning hvaða leiðir við eigum að fara að því markmiði. Við erum ekki endilega sammála um það, en við verðum að sjá til á vettvangi nefndarinnar hvort við náum samstöðu í þeim efnum.



[15:41]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á vörugjaldi af ökutækjum. Verið er að gera ansi viðamikla kerfisbreytingu. Við í efnahags- og skattanefnd fengum kynningu á frumvarpinu í síðustu viku. Hún var um margt mjög skemmtileg. Ég mun ekki vera með langa ræðu um þetta mál. Ég mun fyrst og fremst benda á helstu ágallana sem ég tel vera á því.

Um er að ræða kerfisbreytingu sem alla jafna væri til mikilla bóta en er það samt ekki vegna umgjarðarinnar sem er um málið eins og það er lagt fram í þinginu. Ég tel mig vera umhverfissinna og mundi fagna því ef hægt væri að ná niður losun gróðurhúsalofttegunda að einhverju marki. Við sjáum það fjölmarga daga ársins á höfuðborgarsvæðinu hvað Íslendingar anda að sér menguðu og óheilnæmu lofti, núna þessa daga og undanfarna viku. Þetta ástand þarf ekki að vera eins og það er ef til staðar væri stefnumörkun stjórnvalda. Ekki endilega þeirra sem eru við völd í dag heldur undanfarin ár.

Menn hafa kosið að fara þá leið að viðhalda einkabílisma. Þeir hafna leiðinni sem almenningssamgöngur bjóða upp á á einhverjum reiknikúnstarreglum um að almenningssamgöngur skili ekki hagnaði. Hvergi nokkurs staðar í heiminum skila almenningssamgöngur hagnaði. Það er ekki markmiðið með almenningssamgöngum. Markmiðið er að ná fram umferðarlegri hagkvæmni, minni mengun og þjóðhagslegum sparnaði. Það hefur ekki verið gæfa okkar Íslendinga að feta þá leið.

Hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda gengur frumvarpið ekki nógu langt í því vegna þessa hefðbundna karps sem væntanlega hefur verið um frumvarpið áður en það var lagt fram. Það gerir það að verkum að hvorki eru meira né minna en 29 undanþáguflokkar í frumvarpinu, voru 30. Að sögn var 30. flokkurinn tekinn út vegna þess að hann innihélt tvo líkbíla. Ég veit ekki hvort það er rétt en að lesa undanþágulistann segir manni að sérhagsmunaaðilar á Íslandi hafa gríðarleg ítök. Þeir sem menga mest og keyra mest fá undanþágu; bílaleigubílar, leigubílar, vöruflutningabílar, stærstu bílarnir, mengunarmestu bílarnir og þeir sem keyra mest. Það væri auðveldlega hægt að jafna þessa byrði og henda þessum undanþágulista út. Ég er búinn að merkja við slökkvibifreiðar, sjúkrabifreiðar, björgunarsveitarbíla og sitthvað þess háttar sem mætti áfram vera þarna inni. Það væri einfaldlega hægt að lækka gjöldin til mikilla muna og koma til móts við sjónarmiðin sem eru vissulega réttmæt að á sumum svæðum landsins þarf fólk að vera á betur útbúnum bílum en í Reykjavík.

Þetta frumvarp mun þar af leiðandi ekki hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að þeir sem menga mest hafa enga peningalega hvata til þess að draga úr menguninni. Þeir sem keyra mest hafa ekki peningalega hvata til að draga úr menguninni miðað við framsetninguna á frumvarpinu. Þetta lítur út eins og verið sé með blekkingar í gangi frekar en stefnu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er verið að færa til skattheimtu undir þeim formerkjum að verið sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hugmyndin virðist fyrst og fremst vera sú að færa til skattheimtuna.

Þetta er ekkert ósvipaður leikur og var viðhafður í fyrravetur þegar fram kom frumvarp um svokallaða auðlindaskatta. Þegar grannt var skoðað var þetta einfaldlega neysluskattur á notkun almennings á heitu og köldu vatni og rafmagni. Það var ekki verið að skattleggja auðlindarentuna þar sem auðlindin er nýtt. Vegna sérhagsmuna var fallið frá þeirri leið og skattinum velt yfir á neytendur. Þannig að hér er farið í sömu fótspor. Ég hefði ekki vænst þess að nálgunin við brýn umhverfismál frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði yrði að fara þessa leið. Ég hefði vænst þess að meiri sannfæring væri á bak við græna hlutann í nafni framboðsins, ekki síst þar sem um er að ræða frumvarp frá formanni flokksins.

Það má lækka gjöldin umtalsvert með því að fækka undanþágum, sérstaklega í þeim flokkum sem mikið eru notaðir. Þar á ég ekki síst við bílaleigubíla. Ísland er hagkvæmt ferðamannaland heim að sækja. Það er engin ástæða til þess að hlífa erlendum ferðamönnum við að greiða kostnað af því að menga andrúmsloftið á Íslandi. Ég skil ekki röksemdafærsluna á bak við þetta, nema hún skýri sig með því einfalda gamaldags ráði að menn hafi bankað á dyr fjármálaráðuneytisins og beðið um hjálp.

Það sem ég sé í frumvarpinu er skortur á stefnumótun og ákveðni stjórnvalda til þess að vilja fylgja einhverri stefnu í umhverfismálum. Einnig sé ég skort á stefnumótun og ákveðni til þess að nýta aðra orkugjafa, svo sem metan. Hér er og hefur verið sýnt fram á af hálfu metanáhugamanna að það er athyglisverður orkugjafi. Þessi orkuskipti sem talað er um gætu minnkað mengun í andrúmslofti umtalsvert og sparað þjóðinni stórfé í erlendum gjaldmiðli. Hér vantar frekari stefnumótun og ákveðni. Í framhaldi af frumvarpinu langar mig að kalla eftir því að ríkisstjórnin setji sér markmið í þessum málum en komi ekki fram með alls konar frumvörp sem í rauninni þykjast vera að taka á umhverfismálum en gera það ekki þegar upp er staðið.



[15:49]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýði með athygli á ræðu hv. þm. Þórs Saaris. Það verður þó að taka fram að það sem hann segir um undanþágur á aðeins við um vörugjöldin og ekki bifreiðagjöldin þar sem ekki er um slíkar undanþágur að ræða. Það verður að reikna frumvarpinu það í hag að svoleiðis er það og ekki taka bara hina neikvæðu sýn á frumvarp sem mér þykir á margan hátt mjög merkilegt og valda ákveðnum tímamótum þó að það sé að sjálfsögðu ekki nákvæmlega eins og maður helst vildi hafa það á þeim tímum sem um er að ræða. Um vörugjaldið er það að segja að það er nokkuð gegnholaður skattur, óvinsæll af ýmsum ástæðum og réttilega svo. Ég hef heyrt skattfróða menn tala um það sem markmið að leggja vörugjaldið niður vegna þess að það hafi óþægileg og óheppileg áhrif á viðskipti, og skattheimtan eigi að fara fram með öðrum hætti.

Það er rétt, og síðan er hitt að undanþágurnar eru alltaf vondar í allri skattheimtu og allri skattkerfisskipan. Virðisaukaskattur er einn sjálfsagðasti skattur sem hægt er að leggja á, ég held að flestir séu sammála um það. Hann er hins vegar ákaflega hár hér á landi, svo hár að ágætur pistlahöfundur talaði um hann um daginn í Fréttablaðinu sem sérstakan lúxusskatt, það var spurning um virðisaukaskatt á smokka. Þá er auðvitað illa farið ef við erum komin með svo háan venjulegan skatt að talað er um hann sem lúxusskatt en eðlileg skattheimta sé undanþágurnar.

Við erum í blindgötu í þessu efni en verðum víst að sætta okkur við að vera það um einhverja hríð áfram þangað til við förum að síga upp á við í efnahagsmálum.



[15:51]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er greinilegt að hann er eins og margir, bæði hér á þingi og víðar, hugsi um hvert við stefnum í umhverfismálum burt séð frá þessu einstaka frumvarpi. Þó að fjölgun t.d. ferðamanna upp í 1 milljón á ári sé æskileg fyrir hagkerfið er hugtakið ferðamannamengun orðið mér ofarlega í huga. Það var ekki ætlun mín að gagnrýna þetta frumvarp eingöngu sem eitthvert vont mál, alls ekki. Ég skil mjög vel þá þörf hjá fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra að leita leiða til að fjármagna þann mikla halla sem hefur verið á ríkissjóði vegna hrunsins. Það þarf að leita allra góða leiða til að gera það. Við höfum aftur á móti bent á það í Hreyfingunni að það sé hægt að ná frekar í peninga til þess að rétta af þann halla með alvöruauðlindagjöldum, t.d. gjaldi á hvert þorskígildistonn sem úthlutað er eða hvert það megavatt sem unnið er úr jörðu á virkjunarstað, frekar en að velta því yfir á almenning í landinu. Það væru raunveruleg auðlindagjöld, og það væru raunveruleg auðlindagjöld eða losunargjöld að skattleggja losun þeirra sem menga mest. Það er raunverulegt auðlindagjald líka. Það er hægt að útfæra þessar leiðir betur og sanngjarnar að mínu mati sem ég tel að skipti máli, en ekki eingöngu fara leiðir eins og gert er hér með ótal undanþágum sem gera eftirlitið með þessu líka alveg stórkostlega götótt og erfitt.



[15:53]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Já, ég endurtek það að þessar undanþágur eru óbreyttar nema það er ein fallin, var það ekki, forseti, sem Þór Saari tók hér fram? Eru það ekki líkbílarnir? Önnur er heldur útvíkkuð, dráttarvélar utan lögbýla. Hæstv. ráðherra hefur með einhverjum hætti séð aumur á dráttarvélum sem ekki eru notaðar á lögbýlum og væri auðvitað fróðlegt að fá skýringu á því á sínum stað ef tími leyfir.

Höfuðatriðið fyrir utan almennar umræður um bifreiðagjald og álögur á almenning er að hér er verið að nota skattkerfið sem hvata á jákvæðar breytingar. Bílarnir eru til þess góður vettvangur vegna þess að þar er hægt að ná árangri á mjög skömmum tíma. Það er það mikil velta í bílaflotanum. Ég man ekki nákvæmlega tölurnar um hvernig hann endurnýjast, fyrir hrun held ég að það hafi verið þannig að helmingur bílaflotans endurnýjaðist á 10 árum, þannig að ef menn geta skapað hvata til þess að minnka mengun og útblástur í bílaflotanum geta menn náð árangri í því máli á tiltölulega skömmum tíma. Þetta er eitt af því sem hefur valdið okkur umhverfissinnum áhyggjum að við berjumst og berjumst í málum en kjörtímabilið er ekki sá tími sem þarf til þess að ná fram breytingum í umhverfismálum, heldur er það áratugur eða áratugir. En það gerist auðvitað.

Af þessum ástæðum hefur þetta frumvarp aðallega einn galla, það er allt of seint fram komið.



[15:55]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar. Ég tek undir þær heils hugar, frumvarpið er of seint fram komið. Það er hröð þróun í þessum losunarvænni bílvélum. Eins og fram hefur komið í máli fjármálaráðherra eru nú þegar til staðar mjög vistvænar bílvélar sem þrátt fyrir stærð menga miklu minna en þær gerðu fyrir kannski einu eða tveimur árum. Þróunin er í rétta átt og ég leyfi mér að vona að þetta sé e.t.v. fyrsta skrefið á þeirri vegferð sem væntanlega kemur einhvern tímann, að þeir sem menga mest og keyra mest muni borga mest, þ.e. það verði hér eins og kemur fram í sumum atriðum frumvarpsins, mæld losun á ekinn kílómetra. Þá erum við búin að ná því markmiði að hvetja fólk til að kaupa sparneytna bíla og líka til þess að keyra minna. Öðruvísi náum við ekki þeim tilgangi sem er mjög brýnn, að draga úr mengun í andrúmslofti.

Eins og ég nefndi áðan sjáum við, og ég sé það þar sem ég bý rétt fyrir utan Reykjavík, mjög marga daga á ári gula slikju sem hvílir yfir höfuðborginni og mér finnst hálfóhugnanlegt að þurfa að keyra inn í hana til að komast í vinnu. (Gripið fram í: Nohh.) Vonandi er þetta frumvarp fyrsta skrefið á þeirri leið að (Gripið fram í.) það verði gott útsýni áfram inn til Reykjavíkur eins og var fyrir nokkrum árum.



[15:57]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á lögum um vörugjöld af ökutækjum. Sú leið sem er valin hér til að reyna að hemja koltvísýringslosun er að leggja vörugjöld á bifreiðar. Það er reyndar til betri leið ef menn vilja ná til þeirra bíla sem eyða mest, reyna að minnka losun þeirra sem eru jafnframt þyngstu bílarnir o.s.frv., og það er með því einfaldlega að setja þetta inn í bensínverðið. Þá munu þeir sem eyða meira borga meira fyrir losunina. Það er útfærsla. Þetta er grófari aðferð til að nálgast þetta. Ég hefði haldið að hitt væri mun einfaldara.

En hvað um það. Eitt sem ég tel líka nokkurn galla á þessu er að hér er miðað við einhvers konar meðaltalslosun og þá er tekin einhver tala sem er 165 grömm af CO2 á kílómetra. Það er meðaltalslosun. Vörugjöldin á þeim bílum sem losa minna en það munu lækka. Hjá þeim sem losa meira munu vörugjöldin hækka. Við sjáum t.d. núna miðað við þessa tölu að á Avensis, sem ég held að sé Toyota, lækka vörugjöldin um 117 þús. kr., en hækka um 130 þús. kr. á RAV4 sem er örlítið stærri bíll, líkari jeppa og losar 72 grömmum meira á kílómetra. Það sem ég hef aðeins verið að spá í er að meðaltalslosunin, sem auðvitað mun minnka núna mjög hratt eftir því sem bílaflotinn tekur við nýju upplýsingunum sem berast í verðinu, lækkar og stöðugt ódýrari og veigaminni gerðir verða fyrir neðan þessi meðaltalsmörk. Annars getur ætlunin verið að þessi meðaltalslosun verði föst tala, 165 grömm, og þá verða væntanlega innan ekkert allt of margra ára allir bílar innan þessara marka vegna þess að það er mjög mikil þróun í gerð bílvéla og allar þjóðir eru að reyna að minnka CO2-losun.

Í frumvarpinu koma fram merkilegar upplýsingar. Þar er metið að losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum árið 2010 sé í kringum 800 þús. tonn, í kringum 500 þús. tonn árið 1990. Árið 2007, hið minnisstæða ár 2007, var losunin 950 þús. þannig að hún hefur minnkað um 150 þús. tonn á þremur árum. Það er vel.

Það er líka hægt að setja þetta í annað samhengi. CO2-mengun er ekki staðbundið vandamál, heldur alheimsvandamál. Það hefur að gera með það að sólargeislar festast inni í gufuhvolfinu sem hitar þá upp og hefur þau óæskilegu áhrif sem við köllum gróðurhúsaáhrif, ef ég þekki þessi vísindi rétt, en ég er ekki vísindamaður á þessu sviði þó að ég það sé á einhverju öðru. Berum þetta saman við hvernig væri hægt að ná miklu meiri árangri. Losunin núna er 800 þús. tonn. Í þessu samhengi er gaman að segja sögu af álveri sem átti að byggja á Bakka (Gripið fram í.) þar sem Alcoa var búið að ákveða að byggja. Þetta álver átti að losa í kringum 500 þús. tonn af CO2. Umhverfisráðherra þess tíma, Þórunn Sveinbjarnardóttir, setti þetta álver í sameiginlegt umhverfismat með Þeistareykjum þar sem orkuöflunarhluti verkefnisins er og það leiddi til þess að verkefnið tafðist og umhverfismatið verður ekki tilbúið, ekki á morgun heldur hinn, átti reyndar að tefjast um viku en nú eru að verða komin tvö og hálft ár. Í stað þess að reisa þetta álver á Bakka ákvað Alcoa að reisa álverið í Sádi-Arabíu. Það álver er knúið raforku sem er framleidd með gasbrennslu sem spúir út í loftið í kringum 500 þús. tonnum á ári af CO2. Þessi ákvörðun umhverfisráðherra gerði það fyrir umhverfismál í heiminum að CO2-losun jókst um 500 þús. tonn út af þessari ákvörðun. Ábyggilega meinti hún vel, en hugsaði kannski bara málið ekki alveg til enda.

Það sem ég vil segja er að við náum miklu meiri árangri í losun gróðurhúsalofttegunda með því að reisa álver á Íslandi en að baksa við að leggja vörugjöld á og annað slíkt. Við sjáum að eitt álver byggt á Íslandi mundi minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum um í kringum 5/8 af því sem heildarbílaflotinn mengar á Íslandi. Þetta er svona ef maður hugsar hlutina í samhengi. Það er ágætt að fara upp á torfþakið og skima út í heiminn þegar maður tekur ákvarðanir. Það er eitt.

Af því að hv. þm. Þór Saari talaði um undanþágur — stafrófið dugar varla til að telja upp allar undanþágurnar — er ein sem ég sakna, sú að fatlaðir einstaklingar skuli ekki fá meira ráðrúm en aðrir. Fyrir fatlað fólk, t.d. það sem er lamað fyrir neðan mitti, er náttúrlega ljóst að þessir litlu bílar eru mun verri en stærri bílar. Ég er ekki að segja að það eigi að fara um á Hummer en kannski RAV4 eða jafnvel litlum Land Cruiser. Fyrir fólk sem er í hjólastól og þarf að athafna sig er sanngirnismál að það komist í stærri bíla án þess að auka við kostnað eins og hér er gert ráð fyrir. Þá gæti einhver sagt: Er ekki bara best að fatlað fólk fari í lyftubíla sem eru sérhannaðir fyrir það? En þeir eru miklum mun dýrari og það mundi koma fram í því að ríkið þyrfti að veita fötluðum hærri styrki, bílastyrki og annað slíkt. Það er eins með þetta og að fara upp á þakið á torfkofanum, ef maður hugsar aðeins lengra er oft alveg undravert hvað maður getur verið sniðugur.

Ég ætlaði svo sem ekki að segja mikið meira um þetta en hvet flutningsmann til að huga að því að fljótlegasta leiðin til að ná niður CO2-mengun í heiminum sem við Íslendingar getum lagt til er að reisa álver og ég hvet hann eindregið til að fara út í að reyna að koma af stað álveri, klára það sem er í Helguvík og komast af stað því sem er á Bakka. (PHB: Það skapar líka atvinnu.) (Gripið fram í: … í þessu samhengi.)



[16:07]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Fyrir hönd þingsins þakka ég fyrir þessa góðu kennslustund í því hvernig á að minnka kolefnislosun í heiminum og bjarga móður jörð. Ég hef ekkert á móti því að ræða þetta við hv. þingmann en skil samt ekki alveg hvað það kemur því máli við sem við erum hér að fjalla um sem er þessi breyting á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og reyndar fleiri bílasköttum, í umhverfisvæna átt. Er það þannig að með byggingu álvera á Íslandi, þeirra tveggja sem núna eru í undirbúningi og kannski 3–4 í viðbót — þá værum við nokkurn veginn búin með alla þá orku sem til er í villtustu draumum þeirra sem hafa sömu stefnu og hv. þingmaður í þessu efni — stigjum við stór skref til þess að minnka kolefnislosun í heiminum? Er líklegt að álverin sem núna eru vissulega að rísa, það er rétt, í Sádi-Arabíu, Kúveit og í furstadæmum þarna nálægt sem taka við ódýrri orku — það er auðvitað aðalástæðan að orkan er ódýr — mundu hætta við ef hér kæmu Helguvík og Bakki og 3–4 önnur sem hv. þingmaður vill reisa? Er líklegt að Kínverjar mundu hætta við þá nokkra tugi álvera sem þeir eru með í undirbúningi í sínu heimalandi, ég fer nú ekki út fyrir það, ef þeir sæju fram á þessa gríðarlegu samkeppni frá Helguvík, Bakka og þeim 3–4 öðrum stöðum sem þingmaðurinn nefnir? Telur hann í raun og veru að svo sé eða er hann bara að leika sér að því að lengja þessa umræðu af einhverjum ástæðum?



[16:09]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftirspurn eftir áli eykst um u.þ.b. 6% á ári. Til að fullnægja þeirri þörf þarf að byggja eitt og hálft til tvö álver á ári. Ef við getum með umhverfisvænum hætti byggt tvö álver í viðbót, þ.e. í Helguvík og á Bakka, munum við fullnægja þeirri þörf heimsins í a.m.k. eitt ár. Milljón tonna minnkun á CO2 skiptir máli í þessu samhengi. Þingmaðurinn má alls ekki gera lítið úr því að milljón tonn af CO2 er mjög mikið og skiptir máli í þessu samhengi öllu saman. Það eru í kringum 170 álver í heiminum. Eins og ég segi eru byggð eitt og hálft til tvö ný álver á ári þannig að það er ekki alveg rétt hjá þingmanninum að tugir álvera séu í undirbúningi, það er bara alls ekki svo. Eins og ég segi eru byggð eitt og hálft til tvö álver á ári.

Samhengi hlutanna verður að vera algjörlega á hreinu. Þau álver sem eru t.d. knúin í Kína eru knúin á mun óhagkvæmari hátt hvað varðar CO2-útlosun en álver á Íslandi. Fram hjá því getur þingmaðurinn ekki horft. Það verður að horfa á hlutina í þessu stóra samhengi og það má ekki líta á það þannig að það sé bara verið að lengja umræðuna þegar svona skoðanir koma fram.



[16:11]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, ég held að þessi umræða sé ákaflega merkileg og þurfi að finna til hennar eitthvert rúm á þinginu. Að vísu er hún líklega óþörf eftir nokkur ár því að við erum að ganga inn í blessað Evrópusambandið. Jafnvel þó að það verði seinna en mig langar til erum við þegar á leið inn í viðskiptakerfi þess með kolefnislosunarheimildir einmitt hvað álverin varðar þannig að þá verða álverin í Evrópu, Evrópusambandinu og fylgiríkjum þess. Það verður sumsé einn pottur þannig að það fer út úr íslenska kerfinu og þá þarf ekkert að ræða þetta nema hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson getur gert það á alþjóðavettvangi.

Á hinn bóginn er það auðvitað aðdáunarverð fórnarafstaða af hálfu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, og Péturs Blöndals sem líka hefur rætt þetta svona, að bjóða fram íslensk verðmæti til að bæta þótt í litlu sé stöðuna í heiminum, hina afdrifaríku stöðu sem við erum í hér í byrjun 21. aldar, mannkynið allt, 7 milljarðar eða hvað það var síðast þegar við gáðum.

Þá er spurningin um önnur verðmæti á Íslandi sem ég vil gjarnan að þingmaðurinn svari. Við erum ekki nema rétt um 330 þús. og okkur fer fækkandi vegna efnahagsástands sem þingmaðurinn átti þátt í að búa til, en landið er hins vegar stórt og mundi rúma alveg örugglega 3, 4, 5 milljónir manna, jafnvel fleiri ef við tökum indverskan kvarða eða kínverskan. Er þá ekki rétt og skynsamlegt framhald á þessari nýju fórnarstefnu af hálfu Íslendinga að bjóða hingað til landsins og fjölga hér ríkisborgurum upp í t.d. 3,3 milljónir og bæta þar með þann vanda sem (Forseti hringir.) mannfjölgunin er víða á svæðum í heiminum?



[16:13]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér alvarlegt mál sem er mengun í heiminum og aukning gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna er kannski ekki viðeigandi að þingmaðurinn sé með þessi gamanmál sem hann er með hér. Það er ekkert annað en gamanmál að segja að við verðum komin í Evrópusambandið eftir stuttan tíma. Það er hins vegar alveg rétt að við verðum partur af hinu evrópska kerfi með sölu og kaupum á mengunarleyfum vegna EES-samningsins.

Hvað varðar spurninguna sem hv. þingmaður beindi beint til mín um þá miklu fórnfýsi sem við hv. þingmaður Pétur Blöndal virðumst sýna með því að virðast vera tilbúnir til að taka til okkar álverin er það alveg rétt að mikil fórnfýsi er falin í því. Þegar maður er kominn á það stig í tilveruna að maður fer að hugsa meira um aðra en sjálfan sig er maður kominn ansi langt. Hvað varðar mannfjölgun á Íslandi veit ég ekki hver talan er nákvæmlega sem ég mundi vilja sjá á Íslandi, hvort það eru 3,3 milljónir, en ég fullvissa þingmanninn um að í þeirri fullkomnun sem felst í því að fórna sér fyrir aðra væri ég tilbúinn til að fjölga Íslendingum allverulega með því að leyfa fólki að flytja hingað til lands.



[16:15]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með Steingrím J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, að komi einhvern tíma til þess að honum verði reistur minnisvarði fyrir störf sín í þágu þjóðarinnar í fjármálaráðuneytinu þá verður hans væntanlega minnst fyrir að vera sá fjármálaráðherra í sögunni sem hefur hækkað skatta mest, í lýðveldissögunni. (ÓGunn: Hvað með Geir H. Haarde?) Hvað með Geir H. Haarde er kallað fram í, nei, það er rangt hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, hann mun ekki fá þann stimpil heldur sá hæstv. fjármálaráðherra sem nú er vegna þess að honum hefur tekist að setja Íslandsmet í skattahækkunum hvort sem varðar tekjuskatta á einstaklinga, fyrirtæki, virðisaukaskatt eða hvaða aðra skattheimtu eða gjaldtöku sem nöfnum tjáir að nefna.

Síðastliðna viku voru miklar og heitar umræður um frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum, mikið frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram og mælti fyrir. Það frumvarp kvað á um að taka skyldi, ef ég man rétt, 8,7–9 milljarða kr. úr vösum skattgreiðenda, almennings og fyrirtækja, í formi hærri skatta og færa í ríkissjóð. Ég fylgdist með umræðunni. Maður veltir því auðvitað fyrir sér þegar maður fylgist með þeirri tillögugerð sem fram kemur frá fjármálaráðuneytinu um þessar mundir og þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu hvort þeir sem standa að tillöguflutningnum búi hugsanlega í öðru landi en við hin. Menn virðast ekki átta sig á því að hér varð efnahagshrun, kaupmáttur hefur rýrnað, fyrirtækin berjast í bökkum og það er ekki af neinu að taka, það er ekkert til skiptanna sem réttlætir eða gefur tilefni til að rökstyðja auknar skattheimtur.

Það má hæstv. fjármálaráðherra eiga að hann bregst hvorki aðdáendum sínum né röngum málstað og er enn við sama heygarðshornið. Nú eru það vörugjöldin og bifreiðagjöldin sem á að hækka samkvæmt því frumvarpi sem er til umfjöllunar. Það er reyndar gert undir því yfirskini að um sé að ræða mál sem snúist um umhverfisvernd og er skattahækkunin færð í þann búning og réttlætt með því að verið sé að tryggja umhverfisvænni akstur og minni útblástur. Það er út af fyrir sig ágætismarkmið sem ég get alveg tekið undir en ég hef miklar efasemdir um að leiðin sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til sé sú rétta. Maður veltir því líka fyrir sér við núverandi aðstæður hvort heimilin og atvinnurekstur í landinu geti staðið undir þeim hækkunum sem lagðar eru til.

Það er alveg ljóst af lestri frumvarpsins að eigendur stórra bíla í framtíðinni munu þurfa að greiða mun hærri vörugjöld af ökutækjum sínum en þeir gera nú. Ég tók eftir því að hæstv. fjármálaráðherra lét að því liggja að þessi hækkun næði einungis til allra stærstu bílanna en þegar menn skoða listann og fara yfir þær reiknireglur sem frumvarpið gengur út frá og mælt er fyrir um þá mundi ég túlka frumvarpið frekar á þann veg að hækkunin næði til flestra stórra og meðalstórra bifreiða, jafnvel meðalfjölskyldubifreiða. Ég get farið yfir það á eftir. (Fjmrh.: Þú hefur svo dýran smekk.) Nei, nei, ég hef ekki dýran smekk, hæstv. fjármálaráðherra. Minn fyrsti bíll var Volkswagen-bjalla sem ég gerði upp sjálfur og var stoltur af á sínum tíma eins og hæstv. fjármálaráðherra er stoltur af sinni Volvo-bifreið sem ég veit að er gömul og góð. Ég hef ekki dýran smekk. Hins vegar þurfa ýmsir á stærri bílum að halda. Þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni hafa talað um að fólk á landsbyggðinni búi við allt aðrar aðstæður en þeir sem búa í þéttbýli og þurfi því á stærri ökutækjum að halda.

Það er auðvitað tómt mál að tala um að íbúar í hinum dreifðari byggðum geti a.m.k. yfir vetrarmánuðina ferðast um svo vel sé á smærri bílum. Hæstv. ráðherra veit að menn ferðast ekki um fjallvegi landsins, eins og Steingrímsfjarðarheiði svo dæmi sé tekið, á Toyota Yaris eða um Vestfirðina eða Austfirðina yfir vetrartímann. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra veit það manna best. En með þeirri reglu sem lögð er til í þessu frumvarpi er líka verið að rukka menn sérstaklega fyrir að tryggja öryggi sitt. Vilji menn gera það þurfa þeir að borga meira. Það er einfaldlega þannig að öryggi manna í umferðinni er betur tryggt eftir því sem þeir eru á stærri og sterkari bílum. En sú leið sem hæstv. fjármálaráðherra ætlar að fara með þessu frumvarpi gengur út á að hegna þeim sem vilja gera öryggissjónarmiðum hátt undir höfði.

Það er auðvitað mjög margt í þessu frumvarpi sem þarfnast sérstakrar skoðunar og ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif verði það að lögum óbreytt, bæði fyrir atvinnustarfsemi í landinu en ekki síður fyrir einstaklinga. Ef menn rýna í ákvæði frumvarpsins er ljóst að það mun hafa ýmis hliðaráhrif á einstakar atvinnugreinar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að ég hygg og vona að ég muni rétt, að gert væri ráð fyrir að frumvarpið mundi auka tekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. samkvæmt áætlun með einhverjum skekkjumörkum. En það er allt eins víst að verði frumvarpið að lögum muni hliðaráhrifin leiða til þess að ríkið verði af tekjum sem það hefði annars orðið sér úti um vegna einstakra atvinnugreina. Mér hefur t.d. verið bent á að frumvarpið komi einstaklega illa við bílaleigur landsins. Ég aflaði mér upplýsinga um að 41% ferðamanna ferðuðust um á bílaleigubílum, þ.e. þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands. Það segir sig sjálft að hækki verðskrá bílaleiganna og þar með tilkostnaður ferðamanna er viðbúið að gistinóttum fækki, m.a. á landsbyggðinni. Í öllu falli mun sú hækkun sem frumvarpið mælir fyrir um skaða ferðaþjónustuna sem atvinnugrein beint með þeim dómínóáhrifum sem augljós eru og lesa má út úr frumvarpinu. Önnur dæmi um þessi áhrif eru fjölmörg.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér þegar ég las frumvarpið að það virtist mæla fyrir um að lægri tollar yrðu felldir út eða tollareglum af atvinnubílum og pallbílum yrði breytt. Þá á ég við smærri vinnubíla og pallbíla sem áður voru í 13% tollflokki en verða núna flokkaðir eftir CO 2 -gildi sem þýðir t.d. að pallbílar eins og t.d. Toyota Hilux fara í 65% tollflokk í staðinn fyrir 13%. Það er alveg ljóst að sú breyting mun hafa töluverð áhrif á sölu á þessum bílum. Það segir sig sjálft, ef tollurinn hækkar úr 13% í 65% mun það hafa veruleg áhrif á verð bifreiðanna en kaupendur að slíkum bifreiðum eru fyrst og fremst fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri. Það kann að vera að þetta sé misskilningur hjá mér en ég fæ ekki annað lesið út úr frumvarpinu. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að ráðast í slíkar hækkanir. Ég legg til að þingnefndin sem fær málið til umfjöllunar fari yfir þennan þátt eins og aðra.

Ég verð síðan að taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem gerði 1. gr. frumvarpsins að umræðuefni í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þar sem fjallað er um metanbíla. Menn þurfa að svara þeirri spurningu hvort þeir séu almennt sáttir við þau hámörk sem greinin kveður á um, þ.e. að á þá bíla leggist 750 þús. kr. hámark. Ég hef aflað mér upplýsinga um að t.d. venjulegur metan Volkswagen Passat bíll muni hækka í verði miðað við þessa breytingu. Eru það markmiðin sem stefnt er að með þessu frumvarpi? Er það ekki frekar þannig að menn vilji hvetja fólk til að velja umhverfisvænni fararkosti en það gerir nú? Mér sýnist frumvarpið hafa að einhverju leyti öfug áhrif.

Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp, virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin fari vel yfir málið, einstaka flokka bifreiða og hvaða áhrif frumvarpið hafi á þá og sömuleiðis þau hliðaráhrif sem það kann að hafa á einstakar atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustuna sem ég benti á og geri ráð fyrir að komi athugasemdir frá í tengslum við meðferð frumvarpsins í nefnd.



[16:29]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Ég vil í upphafi ræðu minnar lýsa því yfir að ég fagna mjög þeim áherslubreytingum sem verða þegar frumvarpið verður að lögum sem ég geri ráð fyrir að verði. Það er farið úr þeirri röngu hugmyndafræði að mínu viti, að skattleggja eða taka gjöld af bílum eftir þyngd þeirra en fara frekar yfir í losun sem er í rauninni miklu nútímalegra fyrirbæri. Að mínu viti er hér um mikið framfaraskref að ræða. Þetta er hvati til umhverfisvæns lífsstíls og mun væntanlega á ekki svo mjög löngum tíma, eins og raunar hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna á undan mér, leiða til þess að bifreiðafloti landsmanna mun breytast í umhverfisvænni bifreiðar.

Sú áhersla sem hér kemur líka fram til að mynda á innlenda orkugjafa, þ.e. hvatinn til að fjárfesta í bílum sem geta notað innlenda orkugjafa hvort heldur um er að ræða bíódísil sem er í farvatninu að framleiða á fáeinum stöðum eða metan og jafnvel aðra orkugjafa, er líka mjög jákvæð. Það sparar gjaldeyri og skiptir miklu máli upp á framtíðina að gera.

Þetta gerir það líka að verkum að væntanlega verða til að mynda tengiltvinnbílar, þegar þeir verða almennur valkostur á markaði, mun jákvæðari kostur fyrir fólk og hvati til þess að fólk skipti yfir í þá en þar eru á sama hátt að stærstum hluta til notaðir innlendir orkugjafar, þ.e. rafmagn.

Þetta er ekki síður jákvætt fyrir sveitarfélögin, þ.e. fyrir stærri þéttbýliskjarnana, stóru sveitarfélögin þar sem mengun er mjög mikil eins og hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna og hvatinn til að nota ekki koltvísýringsmengandi bifreiðar í þéttbýli er því afar mikilvægur. Ég hef hins vegar skilning á þeim sjónarmiðum sem komu til að mynda fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni áðan um notkun bifreiða á landsbyggðinni þar sem oft og tíðum er hreinlega þörf fyrir stærri og aflmeiri bifreiðar til að komast um, en það má benda á að hvatinn á þeim vettvangi til að láta breyta bifreiðum í metanbifreiðar ætti að vera nákvæmlega sá sami þegar við verðum búin að vinna úr þeim skorti sem í dag er á því að hægt sé að kaupa metan annars staðar en í Reykjavík. Það er í gangi, það er til að mynda í undirbúningi þingsályktunartillaga um það efni, um metanframleiðslu víðar en á höfuðborgarsvæðinu og er það vel.

Það eru nokkrir þættir í frumvarpinu sem ég hef kannski ekki áhyggjur af en vil vekja máls á. Að mínu viti eru fullmargar undanþágur í frumvarpinu, það mætti fækka þeim og það má kannski beina því til þeirrar nefndar sem fær frumvarpið til umfjöllunar að reyna með einhverju móti að draga úr þeim. Reynslan sýnir okkur að því fleiri undanþágur sem eru til staðar því líklegra er að fólk reyni að hoppa inn í þær holur, ef svo má segja, sem þar myndast og spara sér þannig gjöld og kostnað.

Í frumvarpinu er ekki talað mikið um almenningssamgöngur aðrar en hópferðabifreiðar. Það er kannski annar hvati sem við ættum að hafa með í öllum frumvörpum um koltvísýringslosun eða frumvörpum um samgöngur yfirleitt eða samgöngumáta. Við megum ekki gleyma því að það vantar tilfinnanlega öfluga hvata í skattkerfið til að hvetja fólk til að nota umhverfisvænni kosti eins og til að mynda almenningssamgöngur. Þar erum við langt á eftir nágrannaþjóðunum og þyrftum að taka okkur á. Niðurfelling á gjöldum til að mynda vegna almenningssamgangna og hópferðabifreiða í jafnvel enn meira mæli en gert er mundi væntanlega einnig virka hvetjandi á ferðaþjónustu og gæti þannig skipt mjög miklu máli.

Ég vil nefna vegna þess sem hefur komið fram í tali sumra hv. þingmanna, að hér sé um umframskattlagningu að ræða og hér sé verið að fara fram með stórfelldri mismunun o.s.frv., að við sem þjóð verðum að fara að átta okkur á því að við þurfum að fara að lifa á umhverfisvænni hátt. Við getum ekki endalaust hangið á þeirri mýtu, sem Íslendingar hafa lengi hangið á, að hér sé allt svo hreint og fínt, sem hefur í rauninni þegar grannt er skoðað kannski að stærstum hluta legið í því að við erum svo heppin að þeir orkugjafar sem við notum m.a. til húshitunar eru ekki mengandi í sjálfu sér og við erum svo heppin að búa fá í stóru landi. En hins vegar þegar skoðuð er einkaneysla fólks og mengun einkabíla á Íslandi þá er hún óvíða meiri á mann en einmitt hér. Þessu þurfum við að taka á.

Ég vil að lokum fagna þeim áherslum sem koma fram í þessu frumvarpi, þ.e. að reyna á skynsamlegan hátt að hvetja til þess smátt og smátt að Íslendingar skipti yfir í umhverfisvænni kosti í samgöngum og í því tilliti er frumvarpið mikil framför.



[16:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það kom fram í ræðu hans að hann hefði skilning á því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á, þ.e. að það væri ekki í raun sama hvort menn væru að tala um landsbyggðina eða höfuðborgarsvæðið. Ég hjó hins vegar líka eftir því, sem er alveg rétt og ég vil taka fram að ég er ekki á móti því, alls ekki, að við reynum að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og eigum að taka okkur á í því. Það er alveg ljóst, hvort sem um er að ræða bíla, fiskiskip eða annað. En þetta verður samt að vera raunhæft og þetta verður að vera sanngjarnt og framkvæmanlegt. Það er því ekki hægt að mínu viti, frú forseti, að segja að maður hafa skilning á því að það gildi kannski aðrir hlutir um landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið og vísa í það að brátt verði hægt að breyta bensín- eða dísilbílum í metanbíla. Það er því miður enn þá mjög langt í að það sé t.d. hægt, ef við tökum einhver dæmi, lengst úti á Langanesi eða í Norðurfirði á Ströndum eða jafnvel bara hreinlega úti á Skagatá. Þetta er ekki svona einfalt. Það eru stór svæði á landinu þar sem fólk býr sem hefur ekki um annan kost að velja en vera á bílum sem eyða meiru en smábílar.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sé enn þá þeirrar skoðunar að það geti verið eðlilegt að mismuna í rauninni landshlutum með þessum hætti þar sem hreinlega náttúrulegar aðstæður, íslenskt veðurfar og þetta land okkar, kalla á slíka mismunun. (Forseti hringir.) Þetta er ekki það sama að vera á Íslandi og í Belgíu eða eitthvað slíkt.



[16:39]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get í sjálfu sér tekið heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir að auðvitað er ekki líku saman að jafna að búa, eins og hann nefndi, til að mynda í Norðurfirði á Ströndum eða á Langanesi. Það má í sjálfu sér hugsa sér eða ég gæti alla vega hugsað mér einhvers konar aðlögunartíma meðan verið er að finna leiðir til að koma t.d. afurðum eins og bíódísli á þessa staði. Við vitum hins vegar að í dag eru framleiddir a.m.k. á tveimur stöðum á landinu umhverfisvænir orkugjafar sem er hægt að nota á dísilbíla óbreytta. Nú verð ég að upplýsa þá fáfræði mína að ég veit ekki nákvæmlega hversu auðvelt er að koma þeim afurðum í þessar dreifðu byggðir eða hversu auðvelt verður að koma því í verk. En eins og ég sagði áðan held ég að meginhugsunin í frumvarpinu, þ.e. að reyna að beina fólki í þessa kosti, sé afar mikilvæg og möguleikar landsbyggðarinnar á því að komast í þessa kosti og geta notað þá á sama hátt og aðrir muni aukast á næstu árum. Spurningin er þá kannski, eins og hv. þingmaður kemur inn á, hvort við getum með einhverju móti mildað breytingaferlið.



[16:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða þetta í stóra samhenginu. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það munu verða miklar breytingar á næstu árum og eru að verða sem betur fer. Það eru fleiri að gera sér grein fyrir því að hægt er að framleiða lífrænan dísil úr repju eins og menn tala um t.d. á Akureyri, gas á sorphaugum eða slíkt. Það er alveg ljóst að það mun verða þannig. Framtíðarsýn okkar Íslendinga á vitanlega að vera sú að reyna að vera sjálfum okkur nóg í þessu. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að við verðum farin að keyra alla vega hluta af fiskiskipaflotanum á umhverfisvænu eldsneyti o.s.frv.

Raunin er sú í dag að mjög stór hluti íbúa landsbyggðarinnar þarf yfir fjallvegi að fara til að sækja þjónustu, þjónustu hins opinbera jafnvel og slíkt. Ég tala nú ekki um ef þau ósköp ganga eftir sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpinu að íbúarnir þurfi að sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg. Sú staðreynd að við búum á Íslandi gerir það að verkum að það er mjög mismunandi í hvaða stöðu íbúar landsins eru. Það má vel hugsa sér að það geti gengið upp á ákveðnum stöðum í landinu, sérstaklega kannski á suðvesturhorninu, að reyna að ýta sem flestum í smábíla og litla bíla en ég fullyrði, frú forseti, að það gengur ekki víðast hvar í hinum dreifðu byggðum úti um land þar sem fólk kemst jafnvel varla út úr sínum húsagötum á veturna eða þarf að fara með börn í skóla úr sveitunum. Það er ólíku saman að jafna.



[16:43]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held þegar allt kemur til alls að það sé afar stutt á milli sjónarmiða minna og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hvað þessi mál varðar. Við erum klárlega sammála um að þetta sé sú leið sem við eigum að stefna í. Það má kannski velta því fyrir sér eða hugsa sem svo að við yfirferð og endurskoðun á þeim undanþágum, sem mig minnir að hafi komið fram í umræðunni áðan að væru einhvers staðar á bilinu 20–30, mætti kannski skipta út einni eða tveimur undanþágum fyrir einhvers konar landsbyggðarundanþágu ef menn geta sýnt fram á að það sé hreinlega framkvæmanlegt. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það með hv. þingmanni, en meginhugsunin hlýtur að vera á þessa leið og ég treysti því að í meðförum væntanlega efnahags- og skattanefndar muni þessar athugasemdir hv. þingmanns og annarra þingmanna hvað þessi mál varðar koma til gagngerðrar skoðunar og fá þá umfjöllun sem skylt er að þær fái.



[16:45]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér hefur spunnist mikil og að mínu mati málefnaleg umræða um þetta frumvarp til laga um breyting á vörugjöldum á ökutækjum og lögum um bifreiðagjald sem mun síðar verða rætt sem gengur út á það að reyna að minnka koldíoxíðlosun bifreiðaumferðar á Íslandi.

Þetta er mikil kerfisbreyting vegna þess að koldíoxíðmengunin er eiginlega skattlögð þrefalt. Hún er skattlögð sérstaklega þegar bílar eru fluttir inn. Þá njóta þær bifreiðar velvildar sem menga lítið, síðan er það skattlagt með bifreiðagjöldunum á hverju ári og svo er það skattlagt í bensíninu og olíunni. Það hefur mikil áhrif á verð bíla og líka á landsbyggðina. Ég reikna með því að verð á þeim bifreiðum sem menga minnst muni lækka mikið eða sem nemur skattlagningunni um það leyti sem frumvarpið kemur fram. Hins vegar mun verð á dýrari bifreiðum jafnvel hækka en þó er spurning hvort menn séu tilbúnir að kaupa slíka bensínháka eða dísilháka eftir að búið er að hækka olíuverðið og bensínið sem sýnt er.

Mengunin er mikið meiri en bara koldíoxíðmengun. Menn tala bara um koldíoxíðmengun og hv. þm. Þór Saari talaði um að fara inn gult ský í Reykjavík. Það er ekki koldíoxíðmengun. Koldíoxíðmengun er í rauninni ekki mengun vegna þess að allar plöntur taka til sín koldíoxíð og af því að þegar við öndum búum við til koldíoxíð. Það er ákveðin hringrás á koldíoxíði í náttúrunni en það er ekki mengun. Það veldur hins vegar hitnun jarðar, að talið er, og þar af leiðandi berjast menn gegn því. En við erum með miklu fleira. Við erum með kolmonoxíð sem er baneitrað, síðan erum við með níturoxíð og níturdíoxíð og síðan kannski sem verra er, brennisteinsoxíð og brennisteinsvetni, svo erum við með rykmengun. Allt þetta hverfur ekki við þessa breytingu eina sér, menn þurfa að hafa það í huga.

Hér varð smáumræða um Kárahnjúkavirkjun eða um virkjanir yfirleitt. Ég fékk einu sinni svar frá hæstv. þáverandi umhverfisráðherra um að Kárahnjúkavirkjun hefði sparað mannkyninu sem svarar sexfaldri mengun af allri umferð á Íslandi. Ef það ál sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir á Reyðarfirði hefði verið framleitt í Kína með brennslu kola, olíu eða gass til að framleiða rafmagnið hefði það svarað til sexfaldrar mengunar íslenskrar bílaumferðar og það kemur þessu máli við, frú forseti, vegna þess að við ræðum frumvarp sem er flutt til að vinna gegn koldíoxíðmengun — já, koldíoxíðmengun er það víst kallað þó að það sé ekki mengun, sem getur valdið hitnun jarðar samkvæmt þeim kenningum sem eru í gangi. Það eru margar undanþágur á frumvarpinu sem hafa verið til staðar og þær eru alltaf slæmar.

Vandi okkar í dag er að við erum með mjög aldraðan bílaflota. Það hefur eiginlega ekkert verið flutt inn til einkanota af bifreiðum í tvö til þrjú ár eða síðan nokkru fyrir hrun. Hinn aldraði bílafloti er með gamaldags vélar og tæki og hann kostar viðhald. Vélarnar eru rangt stilltar o.s.frv. þannig að hann mengar mikið meira en nýlegur floti mundi gera. Ef menn ætluðu sér virkilega að vinna gegn koldíoxíðmengun ætti í rauninni að minnka viðnám eða auka flæði bifreiða inn í landið almennt vegna þess að yfirleitt eru nýrri bifreiðar betri í þessu skyni. Mér finnst að menn eigi að skoða það alveg sérstaklega núna þegar eiginlega ekkert er flutt inn og ríkissjóður hefur næstum engar tekjur af vörugjöldum, að byrja á því að lækka öll vörugjöld á bifreiðar um 20% í staðinn fyrir þessar tilfæringar og tilkynna jafnframt að það verði áframhaldandi lækkun, 20 eða 10% á ári, þannig að öll vörugjöld á bifreiðar verði horfin eftir ákveðinn árafjölda. Á sama tíma yrði tekjuþörf ríkissjóðs vegna þessarar lækkunar, sem yrði engin á næsta ári vegna þess að það er enginn innflutningur hvort sem er, bætt við olíugjaldið eða bensíngjaldið þannig að menn vissu fyrir fram að kostnaðurinn vegna bensíns og olíu mundi aukast enn meira. Þar af leiðandi mundi almenningur, af því að hann er svo skynsamur, kaupa sér bifreiðar frekar sem menga minna. Það þarf nefnilega ekki að skattleggja koldíoxíðatómið mörgum sinnum.

Ég vil að menn skattleggi kolefnisatómið sérstaklega, það verði bara horft á það. Það eru færri kolefnisatóm í hverjum lítra af dísli en í bensíni og því verði það skattlagt minna. Ég vil leggja bifreiðagjaldið algerlega af. Ég sé engan tilgang í því af hverju menn borga skatt aftur fyrir notkunina bara af því að þeir eiga bíl. Sumir eiga bara bíl og keyra hann ekki neitt og mér finnst ósanngjarnt að þeir borgi eitthvert gjald fyrir það frekar en fyrir að eiga mublur eða eitthvað annað. Það getur einhver viljað eiga flottan jeppa fyrir utan hjá sér til að geta sýnt vinum og vandamönnum og keyra hann ekki neitt af því að hann eyðir svo miklu. Svo kaupir hann einhvern ódýran bíl til þess að keyra. Það er ýmislegt í gangi.

Mér finnst að við vinnslu frumvarpsins eigi að skoða þessi mál mjög nákvæmlega þar sem það eru orðin allt að því viðurkennd sannindi að jörðin sé að hitna og sú hitnun stafi af koldíoxíðmenguninni eða -aukningunni. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta nákvæmlega og mundi vilja gera það í nefndinni. En ég skora jafnframt á hæstv. fjármálaráðherra að skoða það að byggja tvö eða þrjú álver til að skapa atvinnu og annað og fórna okkur Íslendingum fyrir mannkynið, eins og hér kom fram áðan. En auðvitað minnkar álver byggt á Íslandi þörf á álverum byggðum í Kína nema menn ætli að fara að banna notkun á áli. En það er allt önnur ella og menn ættu kannski að skoða það nákvæmlega hvort eigi að minnka notkun á áli í heiminum. Það vill svo til að ál er þó nokkuð umhverfisvænn málmur og léttir t.d. bifreiðar, minnkar notkun þeirra á orku og gerir mögulegt að fljúga um loftin blá í flugvélum. Svo er ál notað í umbúðir utan um karamellur og slíkt þannig að öll notum við ál.



[16:52]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þessi umræða, eins þörf og hún er, hefur farið nokkuð um víðan völl. Rætt hefur verið um húshitun á landsbyggðinni og mikið um ál í heiminum og það er kannski ekki rétt að skipta sér mjög af þeirri umræðu.

Erindi mitt hingað var að minnast á nokkra þætti þessa máls. Ég vil þó segja strax að ég tel það vera mjög merkilegt og kannski ekki hafa hlotið það lof sem það á skilið. Menn hafa mikið verið að tauta, eins og eðlilegt er í þessum efnum. Hver horfir á sjálfan sig og síðan á hina. Tæknilegu málin, sem má kalla, verða auðvitað könnuð í nefnd og það er algerlega eðlilegt að skoða líka þær byggðapólitísku röksemdir sem komið hafa fram og hæstv. ráðherra minntist á í framsöguræðu sinni og gerði grein fyrir.

Við verðum auðvitað að átta okkur á því líka að það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Ef meginhugsunin í þessu, að búa til hvata til að minnka mengun, rekst á við þau markmið að íþyngja ekki bíleigendum á landsbyggðinni verður markmiðunum ekki náð. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í því efni. Ég skal ekkert um það segja og bíð eftir niðurstöðunni af vinnu manna í nefndinni í þessu efni og umræðu í samfélaginu. En ég hef enga trú á því að gagnvart byggðunum sé verulegur munur á því hvort skattlagt er eftir stærð eða sprengirými annars vegar eða þyngd eða heildarmengun hins vegar. Ég held að það hljóti að vera bitamunur en ekki fjár.

Þetta er merkilegt frumvarp og það sem ég sagði um það áðan, að megingalli þess væri sá að það væri of seint fram komið, má ekki misskilja. Þá átti ég ekki við að hæstv. fjármálaráðherra væri seinn á ferð heldur að þetta frumvarp hefði betur komið fram fyrir fimm eða tíu árum, ég hafði ekki lengri tíma undir. Það þurfti auðvitað að fara fram ákveðið undirbúningsstarf og á sínum tíma fór fram nefndavinna sem ég hygg að hafi verið lokið um miðjan áratuginn sem nú er að hverfa í aldanna skaut. En þau prýðilegu störf í nefndunum sem fóru í gegnum þetta voru lítils metin og ekkert gert í málinu af einhverjum ástæðum. Kannski hafa viðkomandi stjórnmálamenn verið hræddir við m.a. byggðapartinn af málinu og ekki treyst sér til að vinna því stuðning.

Ég man líka eftir því í kosningabaráttu þegar það lið sem ég keppti með og geri enn lagði til umhverfisskatta. Þá var svar ýmissa annarra flokka við því það að hér ætti að fara að hækka bifreiðagjöld þannig að sú heildarstefnubreyting var afgreidd mjög billega í von um að geta æst menn til andstöðu á grundvelli skammtíma peningalegra hagsmuna.

Við skulum fagna því að menn eru orðnir sammála um að þetta beri að gera með einhverjum hætti og þá er það verkefni fram undan að reyna að gera það eins vel og hægt er.

Rétt er að minna á smátt mál en táknrænt í þessu af því að það hefur ekki komið fram í umræðunni, en það varðar pallbílana. Pallbílarnir voru einmitt tákn fyrir þá vitleysispólitík sem við leyfðum okkur að stunda hér á landi á tímanum fyrir 2007. Þá voru pallbílarnir settir í sérflokk í skattheimtu af því að sumir þeirra voru vissulega atvinnutæki og ekki var hægt að greina á milli þess hverjir þeirra væru atvinnutæki og hverjir ekki sem leiddi til mikillar þenslu í pallbílakaupum. Góðborgararnir voru flestir komnir á pallbíla sem þeir borguðu minna af en venjulega fólkið við hliðina. Það er afnumið með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, og er kominn tími til.

Það sem ég kom hér til að segja m.a. er að ég er ekki að öllu leyti ánægður með þá meðferð sem metanbílarnir fá í frumvarpinu. Afslátturinn á vörugjaldi sem metanbílar fá er ekki hærri en þessar 750 þús. kr. Ég skal ekki ræða þá upphæð mikið, hana þarf að ræða í nefndinni og er rétt að skoða þá gagnrýni sem komið hefur fram á upphæðina í umræðunni. En ég vek athygli á því að þar er aðeins átt við framleidda og skráða metanbíla, þ.e. þá sem hlotið hafa svokallaða gerðarvottun sem kemur með metanbílum sem renna út úr verksmiðju sinni sem slíkir. Um undanþágu frá bifreiðagjaldi er bæði talað um framleidda og skráða metanbíla en líka þá sem breytt hefur verið og fengið hafa um það vottorð frá skoðunarstofu. Það er 9. gr. en hin fyrri var 1. gr. Það er sérkennilegt misræmi og engin ástæða til að viðhalda því, það þýðir að menn geta ekki fengið vörugjaldið endurgreitt eða lækkað á bíl sem breytt hefur verið í metanbíl með tilteknum hætti. En það ætti í raun og veru að vera tæknilega auðvelt að fá vottorð um það frá skoðunarstofunni og síðan reynt að koma því í einhvers konar einfalt kerfi þannig að vörugjaldið verði lækkað í einhverju hlutfalli við áætlaðan notatíma af bílnum.

Ég spyr um þann sérstaka mun og vek athygli fjármálaráðherra, sem því miður er ekki viðstaddur í sæti sínu en þyrfti eiginlega að vera þar, á honum og jafnframt hvernig hann sé varinn. Ég sé ekki að það séu sannfærandi rök fyrir því í athugasemdum við frumvarpið, þetta er undarlegur munur.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á að líklega er til umræðu einhvern næstu daga frumvarp mitt og fleiri þingmanna um metanbifreiðir, um vörugjald af ökutækjum þar sem gert er ráð fyrir endurgreiðslu á breyttum bílum. Ég hvet til þess að það frumvarp verði tekið til athugunar í nefndinni þegar það er komið þangað, sem verður vonandi á næstunni. Þar er sem sagt gert ráð fyrir því að það verði sem ekki er í þessu frumvarpi fram tekið. Ég lýsi eftir því, forseti, að hæstv. fjármálaráðherra gangi í salinn og hlýði á orð ræðumanns sem hann beinir sérstaklega til hans og leyfi mér þess vegna að endurtaka þau, en það er þannig, forseti, hæstv. fjármálaráðherra til fróðleiks og undrunar, að gert er ráð fyrir því að metanbílar sem fara í sérstakan vörugjaldsflokk séu eingöngu framleiddir og skráðir sem slíkir, þ.e. frá verksmiðjunni. Bæði hinir framleiddu og skráðu metanbílar eru undanþegnir bifreiðagjaldi en einnig þeir sem breytt hefur verið í metanbíl, bílar upprunalegrar gerðar sem breytt hefur verið í metanbíl og fengið um það vottorð frá skoðunarstofu. Þetta er töluvert mikilvægt mál, ekki aðeins sem jafnréttis- og sanngirnismál heldur einnig sem atvinnumál vegna þess að það er, eins og bæði ég og hæstv. fjármálaráðherra vitum, töluverður hugur í mönnum í metanbílabreytingum og ekki vitlaust á okkar tímum að þær fari fram innan lands frekar en að eina leiðin til að ná í metanbíl á þeim kjörum sem ríkið hyggst bjóða áhugamönnum um það sé að fá þá að utan þannig að sú vinna fari fram þar.

Þetta er allt sem ég ætlaði að segja fyrir utan það að fagna þessu frumvarpi. Ég bendi á að þó að frumvarpið fari í sína nefnd er það auðvitað umhverfismál öðrum þræði og ég tel rétt að bjóða fram starfskrafta umhverfisnefndar við mat á því og vinnslu ef þörf þykir á.



[17:03]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við vissulega merkilegt mál. Ég verð í upphafi máls að segja að ég er hlynntur því og tel mikilvægt að við leitum leiða til að minnka losun, eins og markmiðið er með frumvarpinu. Það er mjög mikilvægt. Við eigum að leita allra leiða til að búa til hvata í samfélaginu til að það sé gert, hvort sem við ræðum um heimilin, einkabílinn, fiskiskipaflotann eða hvaðeina. Það er mikilvægt.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, frú forseti, hvernig frumvarpið eins og það lítur út við 1. umr., getur tekið breytingum. Ég tek undir það sem kom fram hjá nokkrum hv. þingmönnum að frumvarpið býður upp á mismunun milli þegna landsins. Það má jafnvel halda því fram að með frumvarpinu sé í sjálfu sér verið að verðlauna þá sem búa við þær aðstæður að geta ekið um á smáum, eyðslugrönnum litlum bílum sem er hvatinn í frumvarpinu að fólk kaupi í auknum mæli og noti. Það er vel hægt þar sem götur eru vel mokaðar, borið er á þær salt og sandur og þess háttar. Það er hreinlega óréttlát að þeim sem búa úti á landi sé refsað eins og ég vil meina að hin hliðin á frumvarpinu sé. Það er verið að verðlauna þéttbýlið að einhverju leyti en refsa hinum sem þurfa á fjórhjóladrifnum bílum að halda. Þeir eyða yfirleitt meiru og eru stærri og öruggari. Mér sýnist að þetta frumvarp muni leiða til þess.

Hér hefur verið minnst á ferðaþjónustuna. Ef ég skil frumvarpið rétt eru töluverðar líkur á því að kostnaður hennar muni aukast og mun hún þá væntanlega, eins og algengt er, reyna að velta því yfir á viðskiptavinina sem getur haft neikvæð áhrif á móti. Þessu vil ég koma á framfæri.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir umræðuna um metanökutækin sem hv. þm. Mörður Árnason og fleiri hafa tekið þátt í. Við þurfum að passa að hvatinn sé virkur. Það sem vekur athygli mína er að í fjölmörgum undanþágum frá reglunum þar sem rætt er um slökkvibifreiðar og ýmislegt er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt að séu undanþegnar eins og haffær ökutæki á hjólum fyrir láð og lög o.s.frv. en lögreglubifreiðar eru ekki taldar upp ef það hefur ekki farið fram hjá mér. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því. Af hverju og hvaða rök eru fyrir því að lögreglubifreiðar, sé það rétt hjá mér, eru ekki á þessum undanþágulista? Þessu tengt vil ég nefna að ég hef oft furðað mig á því af hverju lögreglan hefur ekki leyfi til að keyra á litaðri olíu. Auðvitað er verið að færa úr einum vasa í annan en við erum eins og við vitum með lögregluna, þessa stofnun sem Íslendingar treysta langbest, í spennitreyju út af fjármagni og slíku. Ég held að það væri mikilvægt ef hægt væri að auka möguleika þeirra og nota meira bifreiðarnar. Það er mikill kostnaður sem lögreglan hefur af bifreiðum. Dæmi er um að lögreglan sjái sér ekki fært að keyra bílana út af kostnaði. Leita þarf leiða til að lækka kostnaðinn, m.a með undanþágum sem þessum.

Síðan langar mig að nefna að hér stendur á bls. 5 í athugasemdum, með leyfi forseta: „Stjórnvöld geta með skattlagningu ráðið miklu um samsetningu og notkun bílaflotans.“ Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt. Það má eflaust færa rök fyrir því að stjórnvöld hafi á liðnum árum ekki gert þetta með nógu varfærnum hætti, hér hafi verið of mikið af stórum og eyðslufrekum bílum og þess háttar. Það má spyrja sig hvort hægt sé að reyna að ýta sem flestum út í smábíla sem vissulega eyða minna eða í mörgum tilfellum, ekki algilt þó, eyða minna en eru um leið óöruggari og ekki eins mikil praktík í þeim eins og stærri bílum. Vera má að þetta gangi ekki upp á endanum.

Síðan kemur fram í umsögn um frumvarpið hversu mikil skattagleði er í frumvarpinu. Ég er ekki búinn að átta mig á því enn þá því það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, frá fjárlagaskrifstofunni, að þetta hafi eiginlega engin áhrif á ríkissjóð þegar upp er staðið.

Eins og ég sagði áðan er mikilvægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, koltvísýrings. Við verðum að stíga þau skref sem við þurfum í því. En, frú forseti, ég tel að við verðum að skoða það í nefnd í umfjöllun um málið hvort eðlilegt sé að setja það fram með þessum hætti þar sem við vitum að fjöldi íbúa landsins býr við þær aðstæður að geta ekki nýtt sér kosti sem í frumvarpinu felast sem er að kaupa smábíla. Vegir eru jafnvel lítið mokaðir og lítið er um hálkuvarnir þar sem þarf að fara um fjallvegi og slíkt. Við erum að tala um svæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem yfir marga fjallvegi er að fara til að sækja þjónustu, koma börnum í skóla o.s.frv. Það er ekki hægt að segja við íbúa á þessum svæðum að þeir geti skipt úr fjórhjóladrifnum jepplingi yfir í lítinn fólksbíl, vegna þess að (MÁ: Breyta í metanbíla.) Já, breyta í metanbíla kallar hv. þm. Mörður Árnason fram í. Ég er algerlega sammála honum í því. Við þurfum að vinna í því að breyta bílunum í metanbíla en það þarf þá í fyrsta lagi að vera framkvæmanlegt. Það þarf líka að vera til metan til að setja á bílana á ýmsum stöðum. Einhvern veginn, frú forseti, svo ég taki langsótt dæmi, sé ég ekki fyrir mér stóra metanstöð, t.d. í Norðurfirði á Ströndum en ég útiloka ekki neitt í því. Þar hafa menn löngum verið sjálfbjarga og framsýnir.

Í fjárlagavinnunni förum við í gegnum töluverðar breytingar. Við erum að tala um húshitunarkostnað eins og nefnt hefur verið. Við erum að tala um sama hóp í þéttbýlinu sem við ætlum að auka mismuninn með húshitunarkostnað og líka auka mismuninn með hækkun á gjöldum eða þessari breytingu á bifreiðakostnaði, fyrir utan það sem nefnt hefur verið, t.d. flutningskostnað og annað.

Það er annað sem mig langar að nefna sem ég sé ekki í frumvarpinu. Það eru fatlaðir og eldri borgarar sem þurfa á fjórhjóladrifnum bílum að halda, bílum sem eyða meiru svo fólk komist leiðar sinnar. Þetta eru yfirleitt dýrari bílar. Þetta eru bílar eins og þeir sem nefndir voru; Toyota Rav4 og jafnvel Subaru Legacy. Þetta eru ekki bílar sem fólk kaupir sem hefur dýran smekk. Þetta eru einfaldlega praktískir bílar fyrir fjölskyldur og eldra fólk sem þarf á svona tækjum að halda.

Frú forseti. Það er ekki hægt að fara með málið í gegnum þingið nema það verði rækilega skoðað hvort hér geti verið um mismunun að ræða milli íbúa landsins. Fyrir utan það að ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga eins og það er sem ég hef vonir um að verði ekki, þá er verið að skerða ýmsa þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu sem fólk þarf að sækja um lengri veg. Þá er oft og tíðum yfir erfiða fjallvegi og slíkt að fara þá er fólki ekki boðið upp á að vera á litlum bílum.

Niðurstaða mín, frú forseti, er að mikilvægt er að við beitum okkur fyrir því að minnka mengun á landinu okkar fallega. Íslendingar hafa svo sannarlega gert það og reynt. Það er mikið verkefni eftir hvort sem það er í bílaflotanum, fiskiskipaflotanum eða öðrum. Við erum að læra meira. Það er víða að koma tækni og breytingar. Svo ég nefni sorp og betri nýtingu á eldsneyti en við verðum að taka þá staðreynd inn í jöfnuna að við búum á Íslandi. Þetta er sérstakt land. Það er ekki hægt að líkja aðstæðum hér við Belgíu eða Danmörk eða eitthvað slíkt. Við verðum að taka það inn í myndina.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en vona að málið fái skoðun út frá þessum jafnræðissjónarmiðum sem ég hef komið á framfæri.



[17:14]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara í örstutt andsvar við hv. þingmann. Ég vil segja fyrir það fyrsta að ég er mjög ánægður með frumvarp hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er gott skref í rétta átt eins og hv. þingmaður kom inn á um að minnka losun á koltvísýringi. Reynsla annarra þjóða er sú að til þess að minnka losun er langbest að beita hagrænum hvötum en ekki eins og við gerum að nýta skattsetningarhvatana. Hér er á ferð mikilvægt skref í rétta átt.

Að sjálfsögðu eru álitaefni í þessu máli. Við þurfum að skoða þau vandlega á vettvangi nefndarinnar bæði hvað snertir landsbyggðarvinkil sem hv. þingmaður nefnir og svo metanumræðuna sem aðrir þingmenn hafa rætt. Ég hlakka til að takast á við álitaefnin innan nefndarinnar. Við munum skoða þau en ég vil leggja áherslu á að þetta er gott skref. Við skulum taka þetta skref og sníða af agnúa ef einhverjir eru en sýnum hugrekki að klára málið sem allra fyrst.



[17:15]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er vænlegt að nota hagræna hvata og það má hugsa sér, t.d. í landbúnaði að þeir séu nýttir til að hvetja bændur til að búa til gas og aðrar afurðir úr afurðum sem koma frá búunum og eru ekki nýttar.

Ég ætla ekki, frú forseti, að útiloka að frumvarpið og hugsunin sem í því er nái fram að ganga með samþykki stórs hluta þingsins. En eins og það liggur núna fyrir finnst mér ákveðið óréttlæti í því og þá agnúa vona ég að nefndin taki fyrir og reyni að sníða af. Stefnubreytingin er ekki alslæm en það þarf hins vegar, eins og ég segi, að sníða agnúana af sem við höfum bent á. Þetta er eitt af þessum málum sem taka þarf tillit til aðstæðna sem eru á okkar ágæta landi.



[17:16]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem orðið hefur. Ég er ánægður með að allir ræðumenn, að ég tel, hafi lýst sig fylgjandi þeirri grundvallarkerfisbreytingu sem hér er á ferðinni eða a.m.k. þeim markmiðum sem menn ætla sér að ná, að reyna að þróa umferðina í umhverfisátt og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er rétt að halda því til haga svo því sé sómi sýndur að að stofni til eru þessar tillögur afrakstur nefndarstarfs sem sett var af stað í tíð forvera míns í embætti, Árna M. Mathiesens. Starfshópur á vegum hans skilaði áliti í maímánuði 2008 sem var held ég talsvert á lofti haldið, að þar væru boðaðir breyttir tímar í skattamálum á umferðina. Ætli ég leyfi mér ekki að segja að þær ágætu tillögur sem síðan hafa verið í skoðun séu með því betra sem ég fékk í arf frá forvera mínum. Var ákveðið að láta framkvæmdina bíða vegna þess hve mikið var færst í fang á árinu 2009, en nú er sem sagt verið að hrinda þessu í framkvæmd og búið að uppfæra tillögurnar lítillega. Reyndar er aðeins búið útvíkka hugmyndirnar hvað varðar að taka inn undir þetta alla þá vistvænu orkugjafa sem okkur sýnist að líklegt sé að Íslendingar muni nýta sér á næstu árum.

Mér fannst hv. þm. Þór Saari eiginlega tala um eitthvert annað frumvarp en hér er á ferðinni því að hann taldi ekki að tillögurnar mundu ná settum markmiðum og vera eitthvað allt annað. Ég segi alveg hiklaust að tillögurnar eru að mínu mati verulegt flagg í umhverfismálum, þær eru mikil kerfisbreyting og fylgja í kjölfar fleiri hugmynda sem hrundið hefur verið í framkvæmd þannig að á þessum tímum er að verða umtalsverð breyting, verði þetta að lögum, á því hvernig við nálgumst skattlagningarmál með hliðsjón af umhverfinu. Í fyrra innleiddum við kolefnisgjald á allt jarðefnaeldsneyti. Það er í sjálfu sér ótengt umferðinni sem slíkri eða hver notandinn er þannig að nú greiða allir sem nota fljótandi jarðefnaeldsneyti tiltekið kolefnisgjald sem er um helmingur af verði losunarheimilda innan ESB og er ætlunin að það fari í 75% á næsta ári. Þar með erum við að því leyti til komin með losunargjald á allt jarðefnaeldsneytið. Síðan erum við að stíga stórt skref í því að stuðla að tiltekinni þróun í umferðinni. Þarf að vinna að því á mörgum sviðum því að Íslendingar eiga auðvitað mikla möguleika á því að gera orkubúskap sinn með því allra sjálfbærasta sem um getur ef rétt er á málum haldið. Þar spila náttúrlega stærsta hlutverkið þeir möguleikar sem eru til þess að færa notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa eða orkumiðla úr okkar grænu orku. Þar er sannarlega mikið að vinna.

Gróðurhúsaáhrifin hefur borið svolítið á góma og álver og margt fleira í þessari ágætu umræðu. Ég held að því sé alveg til haga haldið að gróðurhúsaáhrifin séu staðfest vísindalega. Þeim fækkar mjög sem um það deila og ég tók eftir því mér til ánægju að fornvinur minn, Lomborg hinn danski, sem ég átti í dálitlu kappi og ritdeilum við á árum áður meðan hann var enn þeirrar trúar að þetta væri allt saman bull og vitleysa og það væru engin gróðurhúsaáhrif, hefur skipt um skoðun og batnandi mönnum er best að lifa. Maður sem gaf út bækur um málið, fór mikinn og var hampað af ýmsum sem vísindamanni á því sviði að menn ættu ekki að taka of mikið mark á þessu.

Gróðurhúsaáhrifin eru í eðli sínu þannig að þau snúast um orkuríka geisla sem koma inn í lofthjúpinn og ná til yfirborðs jarðar, orkuríkir stuttbylgjugeislar breytast þar í orkuminna form og af lengri bylgjulengd og leggja af stað upp aftur en lokast inni í lofthjúpnum alveg eins og sólargeislar lokast inni undir glerþaki í gróðurhúsi. Þess vegna er nafnið til komið. Ef menn vilja frekari útlistanir á því hversu auðvelt er að skilja þetta skulu þeir hugsa um muninn á hitastigi á yfirborði jarðar á nóttunni annars vegar þegar skýjað er og hins vegar heiðríkt. Það er nákvæmlega sama sem er á ferðinni. Þess vegna verður svona kalt á nóttunni þegar himinn er heiður að orkan á svo greiða leið upp aftur en um leið og skýjahulan leggst yfir fangar hún orkuna og geymir hana í neðstu lögunum í lofthjúpnum. Það er það sem þarna er á ferðinni. Gróðurhúsalofttegundirnar eru þarna mjög áhrifamiklar og þess vegna skiptir hlutfall koldíoxíðs og fleiri slíkra tegunda í lofthjúpnum sköpum um upphitun jarðarinnar af þessum ástæðum.

Auðvitað eru margar fleiri kenningar á ferðinni og hafa verið í gegnum tíðina. Um tíma trúðu margir á hinn merka fræðimann Milankovic sem setti fram svonefndar Milankovic-kenningar sem byggðu á öðrum hugmyndum, að það væri möndulhalli jarðar, nálægð við sól, sólgos og fleiri slíkir samverkandi þættir sem hefðu þessi áhrif á hitasveiflurnar. En smátt og smátt hafa menn horfið frá því að það gæti skýrt svona stórfelldar breytingar sem eru samfelldar og stefna í eina átt. Menn hafa mælt það mjög lengi og þessar breytingar falla alveg ótrúlega — mér liggur við að segja óhugnanlega — vel saman við hækkandi magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu eins og hlýnun jarðarinnar gerir.

Við Íslendingar eigum m.a. eina veðurathugunarstöð, í Stykkishólmi, sem er gagnmerk því að þar er til mjög löng sería af samfelldum hitamælingum sem ekki er verri en hver önnur til að bera saman við mælingar á efnum í lofthjúpnum. Ég læt þetta nægja um gróðurhúsaáhrifin. (Gripið fram í.) Ég læt það bara eftir mér að fara út í ýmsa sálma eins og aðrir ræðumenn hafa gert.

Varðandi álverin finnst mér það undarleg nálgun að það hljóti að eiga að verða framlag Íslands til að bæta loftbúskapinn að nota okkar grænu orku í álver vegna þess að það er væntanlega nákvæmlega sama í hvað hún er notuð hér á móti raforku einhvers staðar annars staðar í heiminum sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti. Það þarf að sjálfsögðu ekki að vera bræðsla á áli. Það má nákvæmlega eins vera framleiðsla á hreinkísil eða jarðvinnsla gagna og kæling á gagnaverum borið saman við að hið sama sé gert með raforku í öðrum löndum sem framleidd er með kolum, olíu, gasi eða öðru slíku.

Enn barnalegri er sá málflutningur þegar menn hafa í huga möguleika Íslands í þessum efnum. Þýðir að ræða það sem eitthvert framlag á heimsvísu til að draga úr loftmengun hvort hér eru byggð eitt, tvö eða þrjú álver í viðbót við þau 170 sem starfrækt eru og það 1–1,5 álver sem byggt er á ári? Hvert er svigrúmið? Hvað væri hægt að gera hér jafnvel þótt við vildum tappa næstum allri óbeislaðri orku á Íslandi í álver miðað við þann forða sem við göngum almennt út frá, 20–30 teravattstundum í viðbót? Við getum kannski þrjú byggt með því að sópa saman allri orkunni sem eftir er. Það eru ósköp einfaldlega ekki nema sárafáir möguleikar orðnir eftir í landinu á því og alls ekki á einu bretti að safna saman orku í eins stórar einingar og álverið fyrir austan. Þeir eru ekki til staðar. Það er fyrst og fremst einn slíkur kostur eftir, það er Jökulsá á Fjöllum sem getur á einu bretti nokkurn veginn skaffað raforku í fullvaxið álver, og mælir einhver hér inni með því að farið verði í hana? Nei.

Veruleikinn er sá að orkuforðinn er miklu takmarkaðri en okkur er tamt að telja. Sem betur fer eru menn farnir að nálgast það í því ljósi. Ég bendi t.d. á þá stefnumörkun og umræðu sem nú á sér stað innan stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, þar sem menn draga þá mynd mjög skýrt upp fyrir sér og segja: Orkuforðinn er takmarkaður. Hann verður væntanlega, að því marki sem hann verður virkjaður á komandi áratugum, innleiddur í smærri skrefum. Við verðum að horfast í augu við að það sem skiptir úr þessu æ meira máli fyrir Íslendinga er að ná sem mestri arðsemi út úr þeirri framleiðslu sem þegar er til staðar og auðvitað því sem bætist við að því marki sem sátt verður um það.

Þá kem ég aftur að þessu hér, við þurfum auðvitað að muna eftir því að við viljum skilja eftir þróunarmöguleika fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir að einhverju leyti. Við sem erum nú á dögum í einhverjum áhrifastöðum á þessum örfáu árum ætlum væntanlega ekki að ráða því nákvæmlega hvernig þetta verður allt saman nýtt til langrar framtíðar. Það er auðvitað valkostur að binda restina af orkuforðanum í 2–3 álver í viðbót, en hvað svo? Hvernig ætlum við þá t.d. að umbreyta einhverjum hluta þessarar orku yfir í vistvæna orkugjafa eða orkumiðla í þágu okkar sjálfra og samgangna á komandi árum og áratugum? Ég á mér þá draumsýn að allur íslenski flotinn verði kominn á vistvænt eldsneyti innan ekki margra ára og sú draumsýn er ekki ný. Þannig lagði Bragi Árnason upp með sínar vetnisvæðingarhugmyndir að vænlegasti aðilinn til að ryðja þá braut væri flotinn vegna þess að þar er bæði rúmmál og þyngd minna vandamál en í litlum farartækjum á landi. Kannski verður það metan, kannski verður það eitthvað annað. Hver veit?

Ég held að við eigum að muna eftir þessum hlutum og allt skiptir það máli þegar við glímum við það að leggja okkar af mörkum til að takast á við þá stórkostlegu vá sem steðjar að mannkyninu vegna gróðurhúsaáhrifanna. Við eigum stórkostlega möguleika í þeim efnum og eigum að nýta þá á öllum sviðum. Við eigum að sjálfsögðu alveg sömu möguleika í vindorku og sjávarfallaorku og aðrar þjóðir. En við eigum til viðbótar sem grunn í það jarðhita okkar og vatnsorku.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson talaði mikið um skattahækkanir, honum er það mjög tamt, en það á ekki sérstaklega við hér því að frumvarpið er alls ekki um það. Þetta er nokkurn veginn algerlega hlutlaus kerfisbreyting og er ekki sérstaklega ætluð til að afla ríkinu tekna og jafnvel þó að ríkið tapi einhverjum tekjum í þessu tilviki yrði ég manna glaðastur, það væri þá vegna þess að flotinn þróaðist hratt í rétta átt með því að innkaupin færðust meira og meira í umhverfisvænni bíla með lægri vörugjöldum og bifreiðagjöldum.

Það eru skattalækkanir í þessu frumvarpi og ef sú þróun vex hratt að lífræn íblöndunarefni komi t.d. í eldsneyti sem hér er verið að gera skattfrjáls tapar ríkið tekjum. Það gæti gerst á 1–2 árum að ríkið tapaði jafnmiklum tekjum og lítils háttar heildarhækkun í bifreiðagjöldum er ætlað að skila, upp á 200 millj. kr. Það má færa fyrir því góð rök að þetta sé hlutlaust og gæti jafnvel innan skamms þýtt að ríkið tapaði einhverjum tekjum en ég held að því væri þá vel varið vegna þess að það væri vegna þess að flotinn og samsetning hans hefði þróast í rétta átt tiltölulega hratt.

Ég er algerlega sammála því sem hv. þm. Mörður Árnason sagði um metanbíla. Ég er búinn að taka það fram, að ég held, að það sé mjög vænlegur kostur fyrir okkur að veðja á þá. Það gæti kannski orðið þróunin sem færi hraðast á næstu missirum og árum m.a. vegna þess að við vitum hvar vetnisvæðingaráformin miklu eru á vegi stödd, að það hefur minna gerst í þeim málum og orðið úr þeim en menn héldu um tíma þegar öll áherslan var á vetni. Það segir okkur aftur hversu varasamt það er að reyna að ákveða fyrir fram að einhver einn orkumiðill eða orkugjafi eigi að verða framtíðin frekar en annar. Við skulum leyfa þróuninni svolítið að sýna hvað er hentugast í þeim efnum (TÞH: Láta markaðinn ráða.) miðað við aðstæður okkar … (TÞH: Láta markaðinn ráða.) Tæknin á að ráða líka, hv. þingmaður, og aðstæður okkar og möguleikar. Við höfum gríðarlega möguleika til að framleiða metan, á öskuhaugunum, úr lífrænum úrgangi og jafnvel úr fjóshaugunum. Það eru bændur sem framleiða vetni úr fjóshaugunum sem þeir nota til kyndingar. Ég hef komið á slíkt bú í einu nágrannalandanna, alveg snilldarleg framleiðsla. En ég er líka sammála þeirri áherslu sem hv. þm. Mörður Árnason lagði á að stuðla þurfi að því að hægt sé að breyta núverandi bílaflota og við þurfum að gera það fýsilegt. Ég vona að ég geti sagt hv. þingmanni mjög góðar fréttir af því innan skamms, að það muni koma við sögu í einum af nokkrum bandormum sem ég hyggst flytja fyrir jólaleyfi og ætlað er að taka á því máli.

Varðandi það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið. Við verðum að hafa það í huga. Við erum að innleiða ákveðna kerfisbreytingu í ákveðnum tilgangi til að stýra hlutum í ákveðna átt og það hefur auðvitað sín áhrif. Ég held að þau séu miklu minni og verði alls ekki svona íþyngjandi fyrir landsbyggðina eins og margir hv. þingmenn hafa lagt áherslu á, (BJJ: Jú.) m.a. vegna þess að það hróflar ekkert við þeim bílaflota sem þar er í rekstri í dag. Ef eitthvað er gera þau hann tímabundið sennilega heldur verðmætari, sé það rétt að hann samanstandi af gríðarlega stórum (Forseti hringir.) og eyðslufrekum bílum eins og hv. þingmenn tala um, sem ég held að sé svolítið gömul og úrelt mynd. Það er ekki nema að hluta til upplifun mín af bílaflotanum á landsbyggðinni (Forseti hringir.) eins og hann er samansettur í dag.



[17:32]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð kennslustund í gróðurhúsaáhrifum sem við fengum áðan. Hæstv. fjármálaráðherra brá sér í búning vísindamannsins og útskýrði þetta fyrir okkur, sem er gott.

Það er ósamkvæmni í málflutningnum. Hæstv. ráðherra segir að það sé barnalegt að segja að það skipti einhverju máli í stóra samhenginu hvort við getum minnkað gróðurhúsalofttegundir í eitt ár sem næmi milljón tonnum. Á sama tíma talar hann um það sem stórkostlegt framlag til þróunar mannkyns að við náum kannski yfir nokkurra ára tímabil að minnka gróðurhúsalofttegundir um 100 þúsund tonn með því að innleiða þessi lög, en hvað um það.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um staðhæfinguna með orkuna. Það kemur fram í rammaáætlun II, sem fer í umræðu og vinnslu í þinginu, að á suðvesturhorninu séu sirka 1.500 megavött sem hægt er að virkja í sátt við náttúru sem er efnahagslega hagkvæmt. Jafnframt vitum við það, báðir þingmenn Norðausturkjördæmis, að talið er að Þeistareykir hafi inni um 400–600 megavött. Af tilraunum sem gerðar hafa verið í Vítismóum, þó svo þær hafi misheppnast að einhverju leyti, virðast vera miklir möguleikar hvað varðar djúpborun. Þar var boruð ein hola á svæði sem mest hefur gefið 12 megavött, hola sem gefur í kringum 27 (Forseti hringir.) megavött. Er hæstv. fjármálaráðherra ósammála því mati sem kemur fram í rammaáætlun II?



[17:34]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega að vekja athygli á þeirri staðreynd sem ekki verður hrakin að orkuforði Íslands er takmarkaður í alþjóðlegu samhengi. Menn hafa stundum dregið upp þá mynd að hér væru gríðarleg ósköp af orku að það hefði veruleg áhrif á heimsvísu hvernig henni verði ráðstafað. Veruleikinn er sá að orkuforðinn er takmarkaður. Heildarorkuframleiðslugeta á Íslandi, í grófum dráttum miðað við gömlu viðmiðanirnar, er u.þ.b. það sama og notað er í Hamborg, innan marka Hamborgarfylkis, það er allt og sumt. Það er heilmikið fyrir 320 þúsund manns en á heimsvísu er það ekkert mjög mikið. Stærðirnar, 15 teravött hér syðra og 5–10 fyrir norðan og nokkur í viðbót hér og þar. Já já, þetta eru engin ósköp. Við sjáum að það færi mjög fljótt ef byggð yrðu mörg, reyndar ekkert mörg því að þau gætu aldrei orðið nema 2–3 í viðbót, fullvaxin álver eins og verið er að byggja núna.

Það sem ég lagði áherslu á er að í þessum skilningi skiptir ekki máli í hvað okkar græna orka er notuð ef við lítum á það sem staðgöngu fyrir orku sem er framleidd með jarðefnaeldsneyti einhvers staðar annars staðar í heiminum. Þá kemur það út á eitt hvort hér sé brætt ál með orkunni eða framleiddur hreinkísill eða kæld niður gagnaver eða hvað það er. Auk þess leyfi ég mér að minna á mikilvægi þess að við skiljum eftir þróunarmöguleika og svigrúm fyrir okkur sjálf þannig að við göngum ekki í þetta eins og akkorð að klára þetta upp á örfáum árum.

Orkan er að verða verðmætari (Forseti hringir.) og við eigum gríðarleg tækifæri og gríðarlega möguleika ef við spilum rétt úr þeim málum á komandi árum og áratugum (Forseti hringir.) en við megum heldur ekki misstíga okkur.



[17:37]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er talið að hér séu ónýttar eitthvað í kringum 30 teravattstundir, 30 þúsund megavött. Ég er ekki talsmaður þess að við eyðum því öllu til álvera en ég hefði viljað sjá álver í Helguvík og ég hefði viljað sjá álver á Bakka. Ef þau fara í svipaða stærð og Fjarðarálsverkefnið, yrðu sem sagt stór álver, eru það í kringum 12 teravattstundir og þá er slatti eftir.

Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það er staðganga í þessu. Þegar við hugsum um framlag til orkuframleiðslu í heiminum gætum við alveg notað þessa grænu orku í að framleiða eitthvað annað. Í röksemdafærslunni gleymir hæstv. fjármálaráðherra því sem ég talaði um í ræðu minni, að hér hefði verið komið álver á Bakka ef þáverandi hæstv. umhverfisráðherra hefði ekki stöðvað framkvæmd með því að setja hana í tvöfalt umhverfismat. Við erum búin að missa a.m.k. tvö ár sem eru milljón tonn af CO 2 . Það er engin staðganga í því. Röksemdafærslan sem ég bar fram stenst fullkomlega.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi komið og skoðað, t.d. álverið á Reyðarfirði og séð hvaða starfsemi fer þar fram, hvernig hlutirnir virka þar allir saman og hversu gott vinnuumhverfið er fyrir fólk, hversu há meðallaun eru borguð og annað slíkt. (Forseti hringir.) Hefur ráðherra kynnt sér þetta og farið í álverið og skoðað það?



[17:39]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held í fyrsta lagi að það sé engin leið að halda því fram, eins og hv. þingmaður gerir, að það væri risið álver á Bakka ef ekki hefði verið úrskurðað sameiginlegt umhverfismat. (TÞH: Þeir segja það hjá Alcoa.) Það er engin leið að halda slíku fram. Ég held að menn ættu að hugleiða hvernig hefur gengið suður með sjó, hversu gáfulegt það er eða hversu traust það er að leggja upp upp á von og óvon að lítt könnuð eða ókönnuð jarðhitasvæði gefi það sem menn giska fyrir fram á að þau gætu mögulega gert og að menn ættu að læra af reynslunni í þeim efnum.

Ég fagna því hvernig menn eru farnir að ræða málin og nálgast þau, t.d. af hálfu Landsvirkjunar, sem er komin inn á það sem okkar bestu jarðvísindamenn og sérfræðingar á sviði nýtingar háhita hafa verið að predika undanfarin ár, að eina skynsamlega nálgunin er að taka slík svæði inn í áföngum, læra á þau og færa út þekkinguna eftir því sem vinnslu miðar og boranir gefa meiri upplýsingar.

Muna menn hvernig gekk með Kröflu í árdaga og hvernig hefur gengið á mörgum öðrum svæðum þar sem menn halda að sé hægt að fara inn og gera þetta með látum? Það er hægara sagt en gert. Sama gildir um djúpborunina sem hv. þingmaður nefndi og við erum báðir greinilega miklir áhugamenn um. Hún er spennandi en það er öllum ljóst sem eitthvað setja sig inn í málin eða þekkja til þeirra að það er sýnd veiði en ekki gefin hvernig það gengur. Það eru mörg óleyst tæknileg vandamál sem þar er við að glíma eins og t.d. þegar menn eru komnir niður í bráðna kviku allt í einu. Því ætluðu menn ekki að ná upp úr holunni heldur gríðarlegum hita undir þrýstingi. Það er lítið að gera með bráðna hraunkviku, (Gripið fram í.) hún verður ekki notuð sem rafmagn.

Varðandi það hvort ég hafi komið í álverið á Reyðarfirði. Ég hef ekki komið inn í það eftir að það var komið í fulla framleiðslu. Ég kom þar oft á byggingartíma og fylgdist með því. (Forseti hringir.) Þar var myndarlega að málum staðið. (Forseti hringir.) Ég kom þangað síðast til að skoða staðinn um það bil sem framleiðslan var að hefjast.



[17:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á erfitt með að skilja þessa álversumræðu. Það er gjarnan talað eins og þetta séu hin mestu skrímsli. Þetta eru vinnustaðir þar sem aðbúnaður er góður og borguð há laun. Í Reyðaráli eru, að mér skilst, 40% starfsmanna konur. Það er merkilegt að hæstv. fjármálaráðherra, þingmaður kjördæmisins, hafi ekki komið eftir að starfið komst í gang, það verður að segjast.

Það er ekki það sem ég ætlaði að spyrja um. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það yrði ekki bæði haldið og sleppt. Ef það er þannig, hæstv. ráðherra, segi ég frekar „sleppt“. Það er ekki hægt að ganga lengra í því að ýta undir mismunun á milli landsbyggðar og þéttbýlisins. Við skulum þá hreinlega og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra láti gera athugun á því hvernig bílaflotanum er skipt miðað við íbúafjölda, höfðatölu og þess háttar. Þá getum við fengið þetta á hreint.

Það er með ólíkindum að halda því fram að það verði verðmæti í gömlu bílunum úti á landi og gefa um leið í skyn að þar þurfi menn ekki að endurnýja bíla sína. Það er vitanlega ekki þannig. Það er mismunur á aðstæðum og það verður að taka tillit til þess.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni áðan varðandi lögregluna. Af hverju er hún ekki á undanþágulistanum, ef ég hef skilið þetta rétt í frumvarpinu, og er það vísvitandi eða gleymdist það? Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að lögreglan er ekki í undanþáguupptalningunni sem þarna er?

Í seinna andsvari mínu mun ég spyrja hann út í flotann.



[17:43]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vonast til þess að menn lendi ekki í útúrsnúningum í lokin á annars mjög málefnalegri og ágætri umræðu. Að sjálfsögðu var ég ekki að tala um það sem innlegg í málið að bílafloti landsbyggðarinnar, ef hann er í jafnríku mæli svona samansettur og þingmenn telja, innihaldi mun stærri og eyðslufrekari bíla. Það stendur einfaldlega í greinargerð frumvarpsins að skammtímaáhrifin, óveruleg sem þau væntanlega verða en einhver, á verðmæti núverandi bílaflota eru líkleg til þess að þau verðfelli minni og meðalstóru bílana en geri hina verðmætari. Það er staðan eins og hún er núna og það breytir að sjálfsögðu engu um það sem menn standa frammi fyrir gagnvart endurnýjun.

Þar bendi ég á, sem er staðreynd, að það er mikið framboð af ágætum fjórhjóladrifsbílum, jepplingum og meðalstórum jeppum sem eru afbragðsgóðir til aksturs á landsbyggðinni eins og annars staðar. Þeir eru býsna stór hluti hinna venjulegu fjölskyldubíla. Þeir ýmist lækka í verði eða haldast á óbreyttu verði, það er alveg ljóst. Svo er ekkert víst að allir telji sér henta nákvæmlega sú tegund eða sá bíll og þá er það eins og gengur.

Varðandi lögregluna er það einfaldlega þannig að bílar í eigu hins opinbera eru ekki með undanþágu. Aðeins þessi þröngu skilgreindu tilvik sem eru sjúkrabifreiðar og slökkvibifreiðar sem hér er talið upp. Þetta eru í grófum dráttum atvinnutækin og síðan einstöku tæki í sérhæfðri þjónustu. Almennt er bílafloti ríkis og sveitarfélaga sem slíkur ekkert meðhöndlaður öðruvísi en aðrir bílar í þessu samhengi.

Auðvitað má færa rök fyrir því að margir væru vel að því komnir að hafa ívilnanir en það á þá alltaf að vera i eina átt að það er ríkið sem gefur eftir tekjur. Í þessu tilviki borgar það sjálfu sér þannig að það er ekki stórhættulegt.



[17:45]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði einnig hæstv. ráðherra um fatlaða, hvort standi til, ég nefndi það alla vega í ræðu minni en ég man ekki hvort ég spurði hæstv. ráðherra að því, að fatlaðir sem gjarnan þurfa að nota þessar bifreiðar fái einhverjar undanþágur umfram það sem þarna kemur fram. Ég held að það sé mikilvægt að fá svör við því. Við vitum að eldri borgarar sækja einnig í bifreiðar sem þarna eru nefndar sem munu hækka í verði.

Varðandi flotann, það er mjög áhugavert. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að við reynum að gera fiskiskipaflotann umhverfisvænni, þ.e. að orkugjafar í fiskiskipaflotanum verði umhverfisvænni. Ég skil hins vegar ekki hvernig í ósköpunum hæstv. ráðherra ætlar að ná því fram meðan hann er með sjávarútveginn í algjöru uppnámi og óvissu út af stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málum. Það er mikilvægt að ríkið geti unnið með sjávarútveginum, t.d. að því að minnka útblástur frá fiskiskipum og reyna að ná fram betri nýtingu um boð og ýmislegt þess háttar.

Ég minnist þess að hafa verið upplýstur um það einhvern tíma að frystitogari gæti keyrt vélar sínar í þrjá til fjóra daga í hverjum túr af afskurði eða slíku sem annars er ekki nýttur. Ef það væri hvati fyrir sjávarútveginn að nýta slíkt, breyta skipum sínum, fara í fjárfestingar, væri áhugavert að stuðla að því. Frú forseti, eins og ríkisstjórnin hefur haldið á málum gagnvart sjávarútveginum er enginn hvati til fjárfestinga eða slíkra verkefna meðan óvissan er slík. Mig langar í lokin að hvetja hæstv. ráðherra til að eyða þessari óvissu.



[17:47]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Jæja, frú forseti, þá erum við komin í sjávarútveginn. Það hefur fátt verið okkur óviðkomandi í umræðunni.

Fyrst um bifreiðar fatlaðra er það þannig að bílar sem eru sérútbúnir og flokkaðir til flutninga á fötluðum í eigu ríkis og sveitarfélaga eða stofnana eða í eigu fatlaðra eru undanþegnir vörugjöldum samanber undanþágurnar sem hér eru listaðar upp í 2. gr. frumvarpsins, og segir hér sérstaklega í m-lið:

„Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum eða fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum“ o.s.frv. eru undanþegnir að þessu leytinu til vörugjöldum. (Gripið fram í.) Já.

Auðvitað kaupa fatlaðir bíla sem eru ekki sérstaklega útbúnir og uppfylla ekki þessi skilyrði. Þeir fá styrki til þess með tilteknum hætti að endurnýja bíla sína með nokkurra ára millibili. Ég geri ráð fyrir því að bilið sé breitt hvað varðar tegund, stærð og gerð bílanna.

Það er erfitt að nálgast þetta út frá því að tilteknir þjóðfélagshópar óháð búsetu, þó að auðvitað sé eitthvað til í því sem þar er sagt, kaupi sér svona bíla frekar en hina. Það er fullt af fólki í þéttbýlinu sem er með stóra og mikla bíla af því að það vill fara á hálendið o.s.frv. Öðrum finnst það sport. Það verður varla þverfótað fyrir risavöxnum trukkum á götum Reykjavíkur þannig að þeir eru sannarlega til staðar ekkert síður en annars staðar.

Varðandi flotann finnst mér að það megi ræða um umhverfismálin þar, burt séð frá afstöðu til stefnunnar til sjávarútvegs að öðru leyti eða fiskveiðistjórnarkerfinu. Það gengur nokkuð vel í sjávarútveginum í það heila, það viðurkenna það allir. Tekjustreymið er gott, afurðir góðar (Gripið fram í.) og þetta hefur gengið býsna vel. Gæti það hugsast að þar kæmu skuldir við sögu, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) að mörg sjávarútvegsfyrirtækin séu þunglestuð skuldum? Það hefur vissulega gengið hægt að vinna úr þeim málum. Ég er ekki viss um að þessi grýla um að (Forseti hringir.) hugsanlega verði gerðar breytingar í fiskveiðistjórnarkerfi lami alla. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ekki.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.