139. löggjafarþing — 34. fundur
 24. nóvember 2010.
dómstólar, 1. umræða.
stjfrv., 246. mál (fjölgun dómara). — Þskj. 277.

[16:39]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Í frumvarpinu er lagt til að dómurum við Hæstarétt Íslands verði fjölgað um þrjá og héraðsdómurum verði fjölgað um fimm. Þessi fjölgun er tímabundin að því leyti að gert er ráð fyrir að dómarar í Hæstarétti verði samtals 12 frá 1. janúar 2011 en eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í embætti hæstaréttardómara sem losna fyrr en þess gerist þörf þar til dómarar í Hæstarétti verða aftur níu að tölu.

Á sama hátt er gert ráð fyrir að dómarar í héraði verði 48 frá 1. mars 2011 en eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í embætti héraðsdómara sem losna fyrr en þess gerist þörf þar til dómarar í héraði verða aftur 38. Dómarar í héraði eru nú 43 en þeim var fjölgað tímabundið um fimm með lagabreytingu í árslok 2009.

Í samvinnu dómsmálaráðuneytisins, Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélagsins og Dómarafélagsins hefur verið unnið að því að meta hvernig best væri að takast á við aukinn málafjölda hjá dómstólum. Hafa margir bent á að styrkja þurfi dómstólana enn frekar en gert hefur verið til að takast á við þann málaþunga sem hvílir á dómstólunum. Sú fjölgun dómara sem hér er lögð til byggist á tillögum sem fram hafa komið í þessari samvinnu, annars vegar frá Hæstarétti og hins vegar frá dómstólaráði.

Komið hefur fram hjá dómstólaráði að sú fjölgun dómara sem hér er lögð til muni ekki duga til að ráða við það álag sem fyrirsjáanlegt er að verði á héraðsdómstólunum á komandi árum og nauðsynlegt geti verið að fjölga þeim um fimm til viðbótar. Fyrirsjáanlegt er að ágreiningsmál frá slitastjórnum vegna krafna í þrotabú, einkum þrotabú fjármálafyrirtækja, muni verða umfangsmikil en slík mál eru jafnframt þung í vinnslu. Hafa Héraðsdómi Reykjavíkur borist um 530 slík mál frá því í byrjun þessa árs og er 500 þeirra enn ólokið. Gert er ráð fyrir að málin berist Hæstarétti á árinu 2011 eða í byrjun árs 2012, en málaþunginn sem nú hvílir á Hæstarétti er þegar mjög mikill. Þá bætist við að í landsdómi sitja fimm hæstaréttardómarar svo ljóst er að fjölgun hæstaréttardómara þarf að koma til hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.



[16:43]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir er til komið vegna hvatningar bæði frá þeim sem starfa innan dómskerfisins eða eiga við það samskipti og eins úr þinginu. Bent hefur verið á í umræðum undanfarin tvö ár að þær miklu hamfarir sem gengið hafa yfir íslenskt efnahagslíf á undanförnum missirum leiði til fjölgunar dómsmála, ágreiningsmála fyrir rétti, bæði einkaréttarlegs eðlis og eins sakamála, og er óþarfi að fara mörgum orðum um það.

Fjölgunin er að einhverju leyti þegar farin að birtast en hins vegar er hætt við að málafjöldinn eigi enn eftir að fara vaxandi, einkum þegar embætti sérstaks saksóknara fer að skila frá sér fleiri niðurstöðum því að þar eru auðvitað mörg stór mál til rannsóknar og gera má ráð fyrir að í einhverjum þeirra, kannski mörgum, verði ákært sem mun leiða til þess að dómskerfið þarf að fást við mál sem geta verið mjög umfangsmikil og erfið, sakamálalegs eðlis, auk þeirra fjöldamörgu einkamála sem fjármálahrunið kallar á þar sem mjög miklir og ríkir hagsmunir eru fyrir hendi.

Ég held því að það sé rétt mat hjá hæstv. dómsmálaráðherra að nauðsynlegt sé að bregðast við með einhverjum hætti. Hér er farin sú leið sem reyndar hefur oft verið nefnd í umræðum á þingi, að fjölga dómurum tímabundið. Fyrirkomulagið er nokkuð sem við þurfum ekki að fara mörgum orðum um í þessari umræðu, hægt er að taka það til skoðunar í allsherjarnefnd sem mun væntanlega fá málið til afgreiðslu.

Ég velti þó einu fyrir mér í tengslum við þetta mál sem væri gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst um í þessari umræðu. Það er hvort komið hafi til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu eða af hans hálfu að fara í undirbúning og jafnvel efna til svokallaðs millidómstigs í þessum málum, þ.e. dómstigs sem væri á milli héraðsdóms og Hæstaréttar og væri þá áfrýjunardómstóll sem hægt væri að áfrýja málum til eftir meðferð á fyrsta dómstigi. Það er hugsanlegt að það mundi að einhverju leyti styðja við eða kæmi jafnvel í staðinn fyrir þær breytingar sem lagðar eru til. Með því að hafa áfrýjunardómstól á millidómstigi væri trúlega miklu minni þörf fyrir þá breytingu er varðar Hæstarétt sem hér er lögð til.

Ég vildi varpa þessu inn í umræðuna vegna þess að það er auðvitað tengt því sem um er rætt. Ég hygg hins vegar að millidómstig mundi ekki breyta miklu um þörfina á að bregðast við á héraðsdómstiginu hvað varðar fjölgun dómara, hvort sem hún er tímabundin eða ekki. En það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti komið inn á málið í þessari umræðu og farið um það nokkrum orðum.



[16:47]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að halda að ég væri í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra en ég fer í staðinn í ræðu úr því að ég bað um orðið.

Ég er svo sannarlega sammála efni frumvarpsins um að hér þurfi að fjölga dómurum og hef talað fyrir því að núverandi ríkisstjórn þurfi að forgangsraða í ríkisfjármálum og leggja áherslu á það sem skiptir máli nú rúmum 24 mánuðum eftir hrunið, þeir eru að verða 25. Það þarf að forgangsraða í hvað á að leggja fjármagn, ríkisfé, og kem ég að því á eftir.

Í þessu frumvarpi er lagt til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað tímabundið um þrjá frá og með næstu áramótum. Er það mikið fagnaðarefni því að álagið á Hæstarétt hefur aldrei verið eins og nú. Jafnframt er lagt til að dómurum við héraðsdóm verði tímabundið fjölgað um fimm frá 1. mars 2011. Það er einnig fagnaðarefni að fram kemur í frumvarpinu að sú fjölgun í héraðsdómstólum verði aðallega í Reykjavík og er það líklega vegna eðlis þeirra mála sem urðu í kjölfar hrunsins.

Nú ætla ég að koma inn á það sem mér finnst vera aðalmálið í þessu frumvarpi því að mér hefur verið tíðrætt um að ríkisstjórnin þurfi að forgangsraða. Ég hef nefnt löggæsluna, ég hef nefnt dómstólana, ég hef nefnt Landhelgisgæsluna að ógleymdri aðstoð við heimilin og fyrirtækin í landinu og þeim verkum sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og þarf að koma sér í, auk þess að forgangsraða. Sú undarlega staðreynd kemur frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í frumvarpinu að til að vega upp á móti þeim útgjaldaauka sem samþykkt þessa frumvarps hefur í för með sér, þ.e. að fjölga dómurum sem verður útgjaldaauki fyrir ríkið upp á 128 milljónir á næsta ári og árlegur kostnaðarauki eftir það 145,5 milljónir, komi ríkissjóður ekki að þeim útgjaldaauka á nokkurn hátt. Til að vega upp á móti þessum útgjaldaauka, frú forseti, er ráðgert að hækka dómsmálagjöld. Ríkisstjórnin leggur til í þessu frumvarpi að þau gjöld eigi að taka í gegnum dómstólana af þeim sem þurfa að höfða mál og af þeim sem verja sín mál.

Ég minni hæstv. dómsmálaráðherra á að honum ber að fara eftir stjórnarskrá eins og öðrum. Í stjórnarskránni er skýrt kveðið á um að allir eigi að fá úrlausn sinna mála fyrir óháðum dómstólum án tillits til efnahags. Mér finnst framkvæmdarvaldið vera komið út á hálan ís með því að leggja til fjölgun dómara (Dómsmrh.: Já.) og taka svo af þeim sem þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Ég vil að hæstv. dómsmálaráðherra fari yfir þá staðreynd í þessu frumvarpi. Hvernig í ósköpunum stendur á því að leggja á þennan kostnaðarauka á þá aðila sem sækja rétt sinn og verja sig þegar skýrt er kveðið á um að allir skuli njóti þess að fara með mál sín fyrir óháða dómstóla óháð efnahag? Ég óska eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra komi inn á þetta á eftir.



[16:51]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þeir sem til máls hafa tekið taka undir meginsjónarmið frumvarpsins eða nauðsyn þessara breytinga, fjölgun héraðsdómara og hæstaréttardómara.

Hv. þm. Birgir Ármannsson vék að umræðu sem fram hefur farið um millidómstig og hvaða áform séu uppi þar að lútandi. Þá er þess að geta að í haust var efnt til málþings þar sem heita má að öll félög lögmanna, lögfræðinga, dómara og annarra aðila sem koma að laga- og dómskerfinu í landinu sammæltust um að við ættum að vinna að millidómstigi. Það er reyndar í samræmi við hugmyndir sem hafa lengi verið uppi í kerfinu og í skýrslu sem kom fram haustið 2008 þar sem þeim hugmyndum var rækilega hreyft. Þau félög sem ég vísaði til hafa haft samband við dómsmálaráðuneytið og þar höfum við tekið undir samstarfshugmyndir þeirra. Á næstu dögum verður erindi látið ganga þar sem óskað er eftir því að þessi félög tilnefni fulltrúa í nefnd sem hefji undirbúning að millidómstigi. Að sjálfsögðu höfum við þann fyrirvara á að vita hvað slíkt kostar. Þetta er mannréttindamál, það snertir mannréttindi að einstaklingar geti skotið máli sínu fyrir tvö dómstig. Allt of mörg mál hafa ekki komist til Hæstaréttar. Málum hafa verið settar skorður, ákveðnar girðingar. Ef sektir eða dómar eru undir tilteknu marki hefur verið heimild fyrir því að vísa málum frá Hæstarétti og þau því ekki komið fyrir fleiri dómstig. Það er nokkuð sem brýtur gegn hugmyndum manna um eðlilegt réttarfar.

Staðreyndin er sú að allar líkur eru á því að með fjölgun dómstiga verði aukinn tilkostnaður þótt ýmislegt hagræði vinnist eins og að færri mál hafni hjá Hæstarétti fyrir vikið. Ég sannfærðist af máli lögmanna á málstefnunni í haust og þeim skýrslum sem fyrir liggja að við fengjum betra og markvissara dómskerfi en það kynni að verða kostnaðarsamara. Þetta munum við fela sérfræðinganefndinni með fulltrúum fyrrgreindra aðila til að setjast yfir á næstu vikum og leggja tillögur fyrir dómsmálaráðuneytið.

Varðandi tilkostnaðinn er það alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að ráðning fleiri hæstaréttardómara og héraðsdómara kostar talsvert. Það er vikið að þeim kostnaði í greinargerð sem fylgir frumvarpinu en jafnframt er þess getið að álagning dómsmálagjalda eigi að vega upp á móti þeim kostnaði. Þá er spurningin: Er þar með vegið að mannréttindum? Við hyggjum að svo sé ekki enda verður búið þannig um hnútana að tekjulágum verði hlíft. Talað er um stefnufjárhæðir þar sem dómsgjöld ráðast af umfangi mála og í sumum tilvikum hafa gjaldþrotamál í stórum fjármálafyrirtækjum verið nánast gjaldfrí en horfið yrði frá þeirri stefnu. Hugmyndin er ekki sú að leggja gjöld á þá sem enga peninga hafa heldur horft til stóru málanna þar sem verið er að véla um mjög háar upphæðir og sett í forgang að fá slíkar kröfur í ríkissjóð til að fjármagna réttarkerfið.



[16:57]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem verið er að ræða er sprottið af því mikla álagi sem núna er á dómstólum í landinu. Það fer ekki á milli mála að brýn þörf er á að fjölga dómurum. Gert er ráð fyrir að dómurum í Hæstarétti sem nú eru níu verði tímabundið fjölgað í tólf. Þó að það sé ekki beinlínis í greinargerð með frumvarpinu má ætla af því sem á undan er sagt að það sé gert til að mæta því mikla álagi sem er fyrir séð og þegar viðvarandi á Hæstarétti.

Nú vitum við hins vegar að innan tíðar verður landsdómur kallaður saman. Þar eiga sæti fimm af reyndustu dómurum í Hæstarétti. Það mun augljóslega hafa verulega röskun í för með sér fyrir starfsemi Hæstaréttar. Ég sé ekki af gögnum þess máls sem liggur fyrir að brugðist sé við því ástandi með þessu frumvarpi, þvert á móti er eingöngu brugðist við fyrirsjáanlegu álagi á Hæstarétti sem er reyndar nú þegar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort þess megi vænta að innan tíðar komi hann með nýtt frumvarp sem feli í sér tímabundna heimild til að fjölga dómurum við Hæstarétt til að bregðast við því ástandi sem skapast þegar landsdómur kemur saman.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi mál séu rædd í samhengi. Ég geri mér grein fyrir því að mál landsdóms er annars eðlis en það er samt sem áður af sama toga í þeim skilningi að verið er að tala um þörfina á að styrkja stoðir Hæstaréttar. Maður hlýtur að óttast, ef ekki verður brugðist við með því að fjölga dómurum við Hæstarétt í kjölfar skipanar landsdóms, að allt fari í sama far aftur hjá Hæstarétti þrátt fyrir tímabundna fjölgun dómara um þrjá og álagið á dómstólnum muni verða svo mikið að ekki verði við neitt ráðið. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi í hyggju að leggja fram frumvarp sem feli í sér að fjölga (Forseti hringir.) enn frekar tímabundið dómurum við Hæstarétt í ljósi þeirra aðstæðna sem upp koma þegar landsdómur verður kallaður saman.



[16:59]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi fjölgun í Hæstarétti er m.a. viðbrögð við því að landsdómur kemur saman eins og ég gat um í ræðu minni og skýringum. Hvort álagið verður slíkt á dómstólana að enn þurfi að fjölga dómurum verður tíminn einfaldlega að leiða í ljós. Við erum að bregðast við óskum sem komið hafa frá dómskerfinu, frá þeim sem best þekkja til þar og hvað síðar verður get ég hreinlega ekki sagt um. En við erum að bregðast við mati manna núna.



[17:00]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kæmi mér afskaplega mikið á óvart ef fjölgun dómara í Hæstarétti um þrjá nægði til að bregðast við því mikla álagi sem annars vegar verður vegna þeirra mála sem eru yfirvofandi og öllum er ljóst að munu rata inn fyrir veggi Hæstaréttar innan tíðar og hins vegar þegar fimm af reyndustu dómurum Hæstaréttar verða önnum kafnir í kjölfar þess að landsdómur kemur saman. Ég held að það sé ekki ráð nema í sé tíma tekið af hæstv. ráðherra að skoða af mikilli alvöru að bregðast fljótlega við til að tryggja að vinnuálagið í Hæstarétt sæki ekki í sama farið aftur. Við verðum að búa vel að dómstólunum, sérstaklega á þessum háskalegum tímum, í ljósi þess að landsdómur kemur nú saman þar sem fimm af reyndustu dómurunum taka sæti.



[17:01]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson reynist sannspár en við byggjum þetta lagafrumvarp á tillögum Hæstaréttar, þær koma frá dómskerfinu. Hvað síðar verður vitum við hreinlega ekki. Fjöldinn allur af málum er í rannsókn núna, ýmislegt tengist fjármálahruninu og verður svo um hríð, og munu málin væntanlega koma fyrir dómstólana eftir því sem líður á komandi ár með vaxandi þunga. Föst stærð í þessu er náttúrlega landsdómur eins og hv. þingmaður nefnir en við förum fyrst og fremst að þeim tillögum sem okkur berast frá dómskerfinu. Við göngum ekki hraðar en svo að samræmi sé við þær tillögur.



[17:02]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða. Fram kom í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra að leggja ætti gjöld á einhverja, a.m.k. þá sem geta borgað, leggja gjöld á þá stóru. Þetta er mjög matskennt, engin mælistika kemur fram í frumvarpinu um hver er stór og hver er lítill. Ég vil minna á að svo virðist vera að fleiri þúsund milljónir hafi verið afskrifaðir hjá þeim sem höfðu mest umleikis fyrir hrun. Eru viðkomandi aðilar þá skilgreindur sem stórir eða eru viðkomandi skilgreindir sem litlir samkvæmt frumvarpinu? Erum við að tala um 10 milljónir eða 100 milljónir? Erum við að tala um milljarð eða 10 milljarða? Hvar eru mörkin?

Ég vil benda hæstv. dómsmálaráðherra á að sú matsregla sem kemur fram í frumvarpinu er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að allir skuli geta fengið úrskurð sinna mála fyrir óháðum dómstóli án tillits til efnahags. Það er skýrt brot á jafnræðisreglu að taka eigi þessi dómsmálagjöld af sumum en ekki öðrum.

Ég bið ráðherra um að fara yfir það lið fyrir lið hvernig þessi regla er hugsuð. Að skilja eftir svona opinn tékka inn í framtíðina er fyrst og fremst skýrt brot á jafnræðisreglu. Í öðru lagi skýrt brot á því að þegar aðili fer með mál sitt fyrir dóm viti hann hvort hann þurfi að greiða þessa upphæð eða ekki. Dæmalaust að þetta skuli vera komið fram með þessum hætti hér.

Einnig vil ég minna hæstv. dómsmálaráðherra á að mikil vinna hefur verið unnin og mikil gögn eru til um það að taka upp forskrift að milliliðalausu dómskerfi þar sem frumvarp um það var nánast tilbúið í ráðuneyti hans rétt áður en bankarnir hrundu 2008. Ég bendi honum á að það er mjög gott innlegg í að taka upp þriðja dómstigið.



[17:05]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni varðandi þau gögn sem lágu fyrir haustið 2008 sem ég vísaði til í ræðu minni og hef alltaf haldið vel til haga, enda tel ég mjög mikilvægt að við byggjum breytingar á dómskerfinu á mjög ígrundaðri vinnu. Hún hefur farið fram og nánast allt þetta umhverfi er að sameinast um ákveðnar tillögur sem við erum síðan að stíga fyrstu skref til að hrinda í framkvæmd.

Varðandi dómsgjöldin er það ekki svo að þau séu matskennd eða háð duttlungavaldi. Það er kveðið á um þau í aukatekjufjárlögum ríkissjóðs, þar er fjallað um dómsgjöld en þau ráðast af stefnufjárhæðum og fara stighækkandi eftir upphæð þeirra. Það er ekkert matskennt, ekkert duttlungakennt og ekkert ójafnræði fólgið í því. Þetta eru skýrar reglur sem kveðið er á um þannig að þar er hlutlægt mat á ferðinni. Og hvað réttlætið snertir er þar verið að innheimta nokkuð í samræmi við umfang mála, fjárhagslegt umfang þeirra mála sem til umfjöllunar eru.



[17:06]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég fagna því að tekið sé tillit til þeirrar vinnu sem nú liggur fyrir, því að svo mátti skilja á framsöguræðu hæstv. dómsmálaráðherra að verið væri að skipa enn eina nefndina af þessari ríkisstjórn, verklausu ríkisstjórn, til að salta málin í. Það dugar mér ekki sem stendur hér í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Frumvarp vegna hækkunar gjaldanna er í undirbúningi og verður lagt fram fljótlega.“

Ég var að benda á þetta. Þetta er matskennt, það liggur ekki fyrir hér hvernig á að skipta þessum gæðum sem verið er að búa til þó að stefnufjárhæð sé skilgreind með einhverjum hætti. Svona lagað á að vera fylgiskjal með frumvörpum þannig að þingmenn viti um hvað þeir eru að ræða og fyrst og fremst hvað þeir eru að samþykkja.

Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til þess að vanda sína vinnu í dómsmálaráðuneytinu því að svona ambögur og svona misskilningur getur orðið að stórmáli. Ég minni jafnframt á að það að setja einhverja upphæð svona á (Forseti hringir.) er brot á jafnræðisreglu. Það sitja ekki allir við sama borð.



[17:07]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér eru engar ambögur á ferðinni og ekki hægt að misskilja margt tel ég vera. En eitt er náttúrlega ljóst að hér er byggt á áætlun sem ræðst af því hve mörg mál koma til kasta dómstólanna og fjárhæðirnar snúa að sjálfsögðu að því. Þetta hlýtur því að vera matskennt, þetta byggir að sjálfsögðu á áætlunum hvað þetta snertir.

Ég hef síðan gert grein fyrir því á hvaða forsendum gjöldin eru innheimt. Síðan fer þetta mál að sjálfsögðu til allsherjarnefndar Alþingis. Þar munu sérfræðingar koma inn og reiða fram svör við öllum þeim spurningum sem óskað er eftir. Ég hef gert hér grein fyrir því sem snýr að öllum frumforsendum, á hvaða forsendum þessi gjöld eru reiknuð og öllum grunnþáttum í þessu frumvarpi. Síðan er það allsherjarnefndar að fara ofan í einstaka (Forseti hringir.) liði þess.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.