139. löggjafarþing — 35. fundur
 25. nóvember 2010.
stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO.

[11:02]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini þessari spurningu til hæstv. forsætisráðherra þar sem hún er leiðtogi ríkisstjórnarinnar og langar mig að ræða málefni NATO við hana.

Ástæða þess að ég kem í ræðustól er að við þingmenn og margir aðrir erum svolítið áttavilltir í því hver raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar er gagnvart NATO og því samstarfi sem við erum í þar. Því langar mig í fyrsta lagi að spyrja hvort það sé óbreytt viðhorf til þessa samstarfs, til NATO, en miðað við þær fréttir sem við höfum fengið er það svolítið ruglingslegt. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um það ekki síst vegna þess fundar sem hæstv. forsætisráðherra sótti ásamt fleirum nú fyrir skömmu.

Mig langar að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra varðandi sama mál: Er einhugur meðal allra NATO-ríkjanna um þá stefnu sem kynnt og mörkuð hefur verið í varnarmálum upp á síðkastið?

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar: Er íslenska ríkisstjórnin, og þar með íslenska ríkið, aðili að grundvallarstefnu NATO? Það er mjög mikilvægt að það komi fram í þinginu því að það hafa verið svolítið misvísandi upplýsingar eða fréttir af þeim fundi sem fram fór í Portúgal, að ég held, eða einhvers staðar þar suður frá. Því er mikilvægt (Forseti hringir.) að ráðherra upplýsi okkur um málið.



[11:04]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var mjög athyglisverður fundur sem ég og hæstv. utanríkisráðherra sátum með hinum NATO-þjóðunum. Þar var samþykkt ný grunnstefna sem allar NATO-þjóðirnar standa að og byggja á þremur megináherslum: Það eru sameiginlegar varnir, viðbrögð við fjölbreytilegum hættum og sameiginlegt öryggi. Það er athyglisvert sem þarna kom fram að verið er að draga úr áherslum á kjarnorkuvopn og jafnframt var áréttað aukið og náið samstarf við Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar og sérstök áhersla á samstarf og samvinnu við Rússa. Sérstakur fundur, NATO-Rússland, markaði þar tímamót að mínu viti. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins í afvopnunarmálum var áréttað og sérstaklega var bent á að bandalagið ætti að skapa aðstæður fyrir kjarnorkuvopnalausan heim.

Svarið er já, það er eining innan NATO, það var mjög góð eining á fundunum, bæði á NATO-Rússlandsfundinum, fundunum um grunnstefnuna og reyndar líka fundinum um Afganistan. Að því er Ísland varðar er óbreytt viðhorf til NATO þannig að á heildina litið er ég mjög ánægð með þann fund.

Varðandi það sem nokkuð hefur verið rætt, þ.e. um eldflaugavarnir, er töluverður munur á því sem samþykkt var þar og því sem var á borði NATO fyrir nokkrum árum. Þá voru Rússar mjög ósáttir við áætlanir varðandi eldflaugavarnir og töldu það ógna þeirra eigin öryggi. Ekki var gert ráð fyrir að kerfið næði endilega til allra ríkja bandalagsins. En um þá tillögu sem Obama hefur haft ákveðna forustu með, að byggja upp eldvarnakerfi fyrir landsvæði bandalagsríkjanna allra sem gæti varist langdrægum eldflaugum, (Forseti hringir.) varð góð samstaða á NATO-þinginu.



[11:06]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar. Ég fæ ekki annað séð en að það sé einhugur í ríkisstjórninni um þá stefnu sem mörkuð hefur verið innan NATO og á þessum fundi. Við höfum að sjálfsögðu ekki tekið aðra ákvörðun á Alþingi en að vera áfram innan þessa bandalags. Maður veit svo sem aldrei ævi sína alla í því efni.

Ég fagna áherslunni á kjarnorkuvopnalausan heim. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu hvort mögulegur kostnaður Íslands af hinni sameiginlegu nýju stefnu eða grundvallarstefnu hafi verið metinn, hvort einhver kostnaður falli á Ísland t.d. vegna stefnu eða hugmynda varðandi eldflaugavarnir, eða hvað það nú heitir. Eins er mjög forvitnilegt, frú forseti, að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) upplýsi um hvort málið hafi verið rætt í ríkisstjórninni áður en farið var til fundarins.



[11:07]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það verður enginn aukakostnaður fyrir Ísland vegna þessarar stefnu. Kostnaðurinn verður greiddur af Mannvirkjasjóði NATO eins og verið hefur og Ísland greiðir þar 0,0658% af framlagi til hans. Varðandi eldflaugavarnakerfið er gert er ráð fyrir að það verði byggt upp á 10 árum og að kostnaðurinn verði greiddur á 20 árum þannig að ekki á að falla til kostnaður þar.

Málið var rætt af utanríkisráðherra í utanríkismálanefnd eins og vera ber áður en við fórum til þessa fundar og þar kom ekki fram, að ég best veit, neinn ágreiningur um málið þannig að ég vona að það sé sæmileg sátt um málið.