139. löggjafarþing — 35. fundur
 25. nóvember 2010.
um fundarstjórn.

kosning til stjórnlagaþings – fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[11:09]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einmitt ræða fundarstjórn forseta og kosningar til stjórnlagaþings. Eins og kunnugt er hafa komið fram athugasemdir frá fulltrúum blindra varðandi fyrirkomulag kosninganna. Lögmaður nokkurra blindra einstaklinga hefur dregið í efa að kosningin eins og hún er fyrirhuguð sé lögleg. Hann hefur gert þá kröfu að fulltrúar kjörstjórnar fari ekki með blindum inn i kjörklefa.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag kemur fram að hæstv. dómsmálaráðherra vill leita lausnar til þess að koma til móts við sjónarmið þessa fólks og ég er honum hjartanlega sammála. Vandinn er sá að til að það sé hægt þarf að breyta lögum um kosningar til Alþingis. Í tilefni af því hef ég lagt fram frumvarp ásamt félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem reyndar var lagt fram á árunum 2005 og 2006, til að tryggja að sú framkvæmd sem ég og hæstv. ráðherra erum (Forseti hringir.) sammála um að skuli viðhöfð verði lögleg. Ég óska eftir því að hæstv. forseti breyti dagskrá fundarins og taki málið á dagskrá þannig að kippa megi þessu vandamáli í liðinn.



[11:10]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru þrjú grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga við aðkomu að kosningum: Í fyrsta lagi að sérhver einstaklingur kjósi sjálfur, hann geti ekki framselt kosningarrétt sinn. Í öðru lagi að sá sem ekki getur kosið sjálfur fái til þess aðstoð með aðkomu kjörstjórnar bæði til að veita aðstoðina og eins til að koma í veg fyrir að viðkomandi sé beittur nokkrum þrýstingi. Þriðja grundvallaratriðið er að virða mannréttindi. Þá hljótum við að hlusta á óskir og gagnrýni, ef henni er að skipta, frá samtökum fatlaðra, eins og við höfum fengið frá samtökum blindra hvað þetta snertir.

Við teljum að sú lausn sem við leggjum til samræmist núverandi lögum, en nú hefur verið dreift því frumvarpi sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefnir, til þess að styrkja lagagrunninn. Ég hef þegar komið frumvarpinu til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu og er það (Forseti hringir.) mat manna þar að það yrði til að styrkja lagagrunninn. Ég legg til, hæstv. forseti, að orðið verði við þessum tilmælum (Forseti hringir.) hv. þingmanns, að málinu verði komið á dagskrá, að allsherjarnefnd verði kölluð saman og fulltrúar dómsmálaráðuneytisins (Forseti hringir.) verði kallaðir til. Ég tel að þetta mál hljóti að fá skoðun og hugsanlega afgreiðslu í dag ef þurfa þykir.



[11:11]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil gera athugasemdir við fundarstjórn forseta áðan í þessum fyrirspurnatíma þar sem fulltrúi Hreyfingarinnar komst ekki að með fyrirspurn en aðrir flokkar voru með fleiri en einn fyrirspyrjanda. Ég held að við hljótum að gera ráð fyrir jafnræði hér.

Ég vil líka gera athugasemd við að í fyrirspurnatímum og umræðum um störf þingsins er það áberandi að sá tími byrjar yfirleitt á því að formaður Sjálfstæðisflokksins tekur til máls. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta „híerarkí“ hérna (Gripið fram í.) og eins að ráðherrar séu teknir fram fyrir þingmenn á mælendaskrá. (BirgJ: Heyr, heyr.)



[11:12]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Ég fylgdist með því undir liðnum um fundarstjórn forseta hvernig menn kvöddu sér hljóðs. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kvaddi sér fyrstur hljóðs, síðan hv. þm. Margrét Tryggvadóttir og þá hæstv. dómsmálaráðherra. En röðinni var breytt. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, sem var númer tvö í röðinni, var færð aftur fyrir hæstv. dómsmálaráðherra, sem er gjörsamlega á skjön við þennan umræðulið þar sem allir þingmenn eru jafnréttháir. Ég fer því fram á það við frú forseta að ekki sé farið í eitthvert manngreinarálit hér eftir einhverjum stöðum innan þingsins þegar kemur að röðun á mælendaskrá undir þessum lið. Hér eiga allir þingmenn að vera jafnréttháir. (BirgJ: Heyr, heyr.)



[11:13]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að ræða fundarstjórn forseta. Ég er mikill talsmaður þess að jafnræðis sé gætt milli allra flokka en ég hef bent á að okkur er í lófa lagið að breyta þingsköpum og lengja þann ræðutíma. Ég veit t.d. að hæstv. utanríkisráðherra er sammála mér í þeim efnum.

Mig langar líka til þess að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og því sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði áðan um að við þyrftum að tryggja að fatlaðir og blindir hafi jafnan rétt á við aðra þegar kemur að kosningu til stjórnlagaþings.

Það er eitt sem mig langar að vekja athygli á, í þessum kosningum er landið eitt kjördæmi. Það er raunveruleg hætta á því að landsbyggðin muni ekki eiga neina fulltrúa á stjórnlagaþinginu. Það tel ég að mjög alvarlegt og (Forseti hringir.) það er eitthvað sem gleymdist þegar lögin voru sett. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því og við megum ekki láta það gerast að landsbyggðin eigi ekki fulltrúa á stjórnlagaþinginu. (Gripið fram í.)



[11:15]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra kærlega fyrir undirtektirnar við þeirri málaleitan minni að koma þessu frumvarpi á dagskrá. Ég fagna því vegna þess að skoðanir okkar í þessu máli fara algjörlega saman. (Utanrrh.: Í mörgum …) Við viljum tryggja mannréttindi fólks við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings og eins og lögin eru núna úr garði gerð bera blindir og sömuleiðis hreyfihamlaðir og fatlaðir skarðan hlut frá borði í því efni.

Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir undirtektirnar. Ég held að þetta mál sé dæmi um það hvernig þingið getur unnið saman þvert á flokka ef vilji er fyrir hendi.