139. löggjafarþing — 35. fundur
 25. nóvember 2010.
afbrigði um dagskrármál.

[11:16]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um það hvort samþykkja eigi að veita frumvarpi þessu afbrigði til að það megi fara á dagskrá, frumvarpi um flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál komi á dagskrá, en ég verð þó að koma upp til að lýsa óánægju minni og vanþóknun á þeim vinnubrögðum að taka þetta mál til umræðu þegar við eigum eftir 11 þingfundadaga til jóla og yfirfærsla á málefnum fatlaðra á að eiga sér stað 1. janúar. Það hlýtur að vekja upp spurningar og furðu að þetta frumvarp komi svo seint fram. Þarna er viðkvæmur málaflokkur sem snertir einstaklinga. Málið hefur verið í undirbúningi og ég held að hugmyndin hafi komið fyrst fram árið 1996. Nú er 25. nóvember 2010 og rúmur mánuður þar til yfirfærslan á að taka gildi. Jafnvel þótt þetta hafi verið unnið í ágætu samkomulagi ríkis og fulltrúa sveitarfélaga er það vanvirðing við hv. Alþingi að okkur þingmönnum gefist svo stuttur tími til að fara ofan í kjölinn á þessu frumvarpi og tryggja að hér verði vönduð lagasetning úr garði gerð sem við getum öll verið sammála um að sé nauðsynlegt.

Við munum greiða fyrir afbrigðunum en ég geri þessa athugasemd.



[11:18]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég mun samþykkja þetta að sjálfsögðu. Við munum liðka til fyrir því að þetta mál komi inn á þingið og fái eðlilega meðferð hér. Það er mjög mikilvægt að þetta mál komist áfram. Það er samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að þetta gangi eftir og því ekki eftir neinu að bíða að þingið fái að fjalla um þetta. Ég tek hins vegar undir orð hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, það er vitanlega mjög skrýtið hversu seint þetta mál kemur inn eftir allan þann undirbúning og þann tíma sem búið er að vinna og leggja í það.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:19]

Of skammt var liðið frá útbýtingu 2. dagskrármáls. — Afbrigði samþ. með 37 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ArndS,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BJJ,  BVG,  GStein,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  ÍR,  JBjarn,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MÁ,  OH,  ÓÞ,  PHB,  REÁ,  SER,  SII,  SIJ,  SKK,  SF,  SkH,  SJS,  SSv,  UBK,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
3 þm. (BirgJ,  MT,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
23 þm. (ÁÞS,  ÁsmD,  BÁ,  BjarnB,  BjörgvS,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  JóhS,  JónG,  JRG,  ÓGunn,  ÓN,  RR,  RM,  SDG,  TÞH,  VBj,  VigH,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÞrB) fjarstaddir.