139. löggjafarþing — 35. fundur
 25. nóvember 2010.
setning neyðarlaga til varnar almannahag, fyrri umræða.
þáltill. MT o.fl., 96. mál. — Þskj. 102.

[18:08]
Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um setningu neyðarlaga til varnar almannahag. Flutningsmenn auk þess sem hér stendur eru þingmennirnir Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir.

Tillagan gengur út á það að setja saman í eitt skjal allt það sem flutningsmenn telja að þurfi að gera á Íslandi til að leiðrétta það óréttlæti sem okkur finnst íslenskt samfélag hafa orðið fyrir við hrunið og gera Ísland aftur að bærilegu samfélagi.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela efnahags- og skattanefnd að undirbúa frumvarp til neyðarlaga til bjargar heimilum í landinu.

Í frumvarpinu skulu vera ákvæði um að höfuðstóll húsnæðislána heimila verði tafarlaust leiðréttur með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun bankakerfisins, til 31. desember 2007, og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það. Vísitala til verðtryggingar verði færð aftur til 1. janúar 2008 og lánið uppreiknað miðað við efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, allt að 4%. Samningsvextir gildi. Mælt verði fyrir um að hægt verði að fresta afborgunum húsnæðislána um allt að tvö ár með lengingu lánstíma sem nemur því. Þá verði kveðið á um að skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána og annarra lána sem kölluð hafa verið erlend lán eða myntkörfulán verði leiðrétt í samræmi við leiðréttingu verðtryggðra íbúðalána. Hið sama gildi um óverðtryggð íbúðalán. Í kjölfarið verði stefnt að því að afnema verðtryggingu í þrepum og skal miðað við að hún verði afnumin með öllu fyrir árslok 2011. Þó verði ríkissjóði heimilt að gefa út verðtryggð skuldabréf að lágmarki til 25 ára.

Kveðið verði á um það í frumvarpinu að kröfur fyrnist að hámarki að tveimur árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta og að ekki verði hægt að halda kröfum við lengur en sem þeim tíma nemur.

Að beiðni gerðarþola verði nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði frestað til 1. júní 2011 og allar nauðungarsölur sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra krafna látnar ganga til baka.

Þá verði óheimilt samkvæmt frumvarpinu að láta bera nokkurn mann úr íbúð sinni nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags á að viðkomanda sé tryggt viðunandi húsnæði og lágmarksframfærsla samkvæmt nýjum opinberum og samræmdum framfærsluviðmiðum. Skilgreina skal opinber og samræmd lágmarksframfærsluviðmið fyrir 31. desember 2010.

Hinn 6. október 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þessir fyrstu dagar í október líða núlifandi Íslendingum seint úr minni. Þessi lög, sem oftast eru kölluð neyðarlögin, fólu í sér m.a. að við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði væri fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Þessum heimildum var beitt til bjargar íslenska fjármálakerfinu. Þetta var ríkissjóði dýrkeypt og þjóðin situr uppi með tapið af þeirri aðgerð.

Í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins breyttust aðstæður íslenskra heimila mjög til hins verra. Mestum vanda hafa stökkbreytt lán vegna húsnæðiskaupa valdið en bæði verðtryggð og gengistryggð lán hafa hækkað gífurlega frá því í janúar 2008. Orsök vandans er að finna í hruni á gengi krónunnar, verðbólgu og háum vöxtum en auk þess glíma mörg heimili við atvinnuleysi og tekjuskerðingu.

Samkvæmt skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er eiginfjárstaða stórs hluta íslenskra heimila neikvæð en ætla má að þær tölur séu vanáætlaðar þar sem enn er frost á fasteignamarkaði og verðfall á eignum fyrirsjáanlegt. Þeir sem eru í mestum vanda er fólk sem keypt hefur þak yfir höfuðið á síðustu tíu árum, ýmist fyrstu íbúð eða stækkað við sig. Ljóst er að fjölmörg heimili munu ekki geta staðið undir þeim byrðum sem á þau voru lagðar og ljóst að til almennra aðgerða verður að grípa.

Þá hafa tekjur margra skerst verulega þar sem atvinnuleysi hefur aukist mikið, auk þess sem vinnuhlutfall margra er skert en einnig er dulið atvinnuleysi töluvert, margir stunda nú nám eða hafa flust úr landi. Staða þeirra er sýnu verst og ljóst að bregðast verður við þeirri stöðu með frystingu afborgana lána þar til úr hefur ræst.

Gjaldþrotaréttur á Íslandi er bæði gamaldags og flókinn og þjónar hvorki hagsmunum almennings né ríkisins en kröfuhafar geta haldið kröfum sínum við út í hið óendanlega. Það veldur því að þeir sem gerðir hafa verið gjaldþrota eiga erfitt með að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Allar tekjur fara til kröfuhafa. Það veldur því að skuldarinn sér sér þann leik vænstan annaðhvort að flytja úr landi eða stunda svarta atvinnustarfsemi. Hvorugt er til hagsbóta fyrir samfélagið þar sem ríkissjóður verður af framtíðarskattgreiðslum þess einstaklings. Auk þess bætist gífurlegt álag á einstaklinginn og hans nánustu sem oft veldur heilsubresti og félagslegum vandamálum sem kosta ríkissjóð einnig fé.

Nú hafa gengistryggð lán verið dæmd ólögleg í Hæstarétti. Ljóst er að fjöldi heimila og fyrirtækja hefur misst eigur sínar og/eða verið gerður gjaldþrota vegna gengistryggðra lána sem hafa tvöfaldast eða jafnvel meira. Ekki er ljóst um hve mörg mál er að ræða en víst má telja að þau séu ansi mörg. Nauðsynlegt er að vinda ofan af þeirri flækju með því að ógilda fyrri úrskurði. Í svari dómsmála- og mannréttindaráðherra til þingmannsins Þórs Saaris um fjölda nauðungarsala og vörslusviptinga, þar með talið beinar aðfarargerðir, frá 6. október 2008 á grundvelli verðtryggðra lána sem bundin eru vísitölu neysluverðs, gengistryggðra lána og lána í erlendri mynt, segir að tölvukerfi sýslumannsembætta gefi ekki kost á að svara með svo ítarlegum hætti og að það væri of mikið verk að komast til botns í því. Þar sem þetta stóra verkefni er tímafrekt er nauðsynlegt að fresta öllum nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði til 1. júní 2011.

Almennar aðgerðir: Dregist hefur allt of lengi að bregðast við þeim algjöra forsendubresti sem varð við hrunið. Aðgerðir stjórnvalda hafa verið sértækar og miðast við að minnka það högg sem felst í gjaldþroti einstaklinga og bjarga þeim sem verst eru staddir. Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í eru allrar athygli verðar og eiga fyllilega rétt á sér. Þær taka þó ekki á þeim almenna vanda sem heimilin standa frammi fyrir að neinu gagni þótt frysting og lenging lána geri fleirum kleift að standa skil við hver mánaðamót. Öllum ætti þó að vera ljóst að slíkt gengur ekki til frambúðar og nú er svo komið að fjöldi fólks sem hefur verið að bíða eftir raunverulegum lausnum og náð að fleyta sér áfram, meðal annars með því að ganga á séreignarlífeyri og annan sparnað, er kominn í öngstræti.

Forsenda þess að sátt skapist í samfélaginu er almenn leiðrétting á skuldastöðu heimilanna. Venjulegir Íslendingar höfðu engar forsendur til að sjá fyrir það efnahagslega stórviðri sem gekk yfir landið. Auk þess höfðu margir fylgt ráðgjöf fjármálafyrirtækja sem í mörgum tilfellum mæltu með erlendri lántöku. Þá svíður mörgum að sjá skuldir svokallaðra útrásarvíkinga, kvótagreifa og annarra forkólfa í atvinnulífinu afskrifaðar á meðan stjórnvöld bera því við að ekki sé hægt að leiðrétta lán heimilanna. Réttlæti fæst ekki fyrr en forsendubresturinn hefur verið leiðréttur. Þannig verður fjöldagjaldþrotum afstýrt, flest heimili munu geta spjarað sig, almenn neysla eykst og með henni fara hjól atvinnulífsins aftur að snúast.

Þá er einnig rétt að bera slíka leiðréttingu saman við þá almennu aðgerð sem fólst í fyrri neyðarlögum þegar ríkið tryggði allar innstæður á Íslandi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að 9. maí 2008 hafði viðskiptaráðuneyti látið meta kostnað við mismunandi leiðir í tryggingu innstæðna landsmanna. Ljóst er að innstæður flestra innstæðueigenda, hvort heldur er fyrirtækja eða einstaklinga, hefðu verið tryggðar þótt ríkissjóður hefði aðeins ábyrgst 5 millj. kr. hjá hverjum í hverju fjármálafyrirtæki. Þess í stað ákváðu stjórnvöld að bæta allar innstæður á Íslandi og koma þannig fjármagnseigendum í skjól á meðan skuldurum er gert að greiða mun hærri upphæðir en þeir tóku að láni og þær jafnvel margfaldar.

Þá erum við komin að svigrúminu til leiðréttingar og hvert það er.

Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um það svigrúm sem fjármálafyrirtæki hafa til almennra leiðréttinga. — Ég held að rétt sé að taka það fram að tillagan er lögð hér fram í byrjun október og síðan þá hafa menn dundað sér við að reikna tveggja ára gamalt reikningsdæmi og komið hefur út skýrsla, en ég ætla engu að síður að halda mig við textann í greinargerðinni. — Viðskiptanefnd Alþingis hefur ítrekað kallað eftir þeim upplýsingum en án árangurs. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá október 2009 er fjallað um skuldir heimilanna. Úr skýringarmynd á bls. 21 má lesa að skuldir heimilanna hafi verið fluttar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með u.þ.b. 45% afslætti en engar tölur eru þó nefndar með umfjölluninni. 45% afslátturinn hefur verið til umræðu í marga mánuði — þegar þetta er lagt fram — en hefur þó hvorki verið staðfestur né neitað. Hinn 12. mars 2010 birti Morgunblaðið enn fremur frétt um uppgjör nýju bankanna og samkvæmt henni voru lán heimilanna færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju á hálfvirði. Svigrúm til almennra leiðréttinga ætti því að vera nægilegt en leiðrétta þarf gengistryggð lán um u.þ.b. 50% en verðtryggðu lánin um u.þ.b. 20%. Um 80% íslenskra íbúðalána eru verðtryggð. Þá hafa þær upplýsingar borist að Arion banki hafi fengið 60% afslátt á nafnvirði allra lána, Íslandsbanki 45% afslátt af bókfærðu verði allra lána og Landsbankinn 34% afslátt af nafnvirði lána heimilanna.

Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá endurskoðun sjóðsins í október 2010 er graf á bls. 45 sem sýnir að svokölluð ,,non-performing loans“ eða lán sem ekki hefur verið greitt af í 90 daga eða meira eru um 64% allra lána á Íslandi. Það þýðir að aðeins er verið að greiða af 37% lána.

Á sömu blaðsíðu er innheimtufjárhæð útistandandi lána einnig borin saman við bókfært virði þeirra. Í lok apríl 2010 er innheimtufjárhæðin 3.800 milljarðar kr. en bókfært virði einungis 1.600 milljarðar kr., þ.e. reiknað er með því að um 58% lánanna innheimtist ekki. Bankarnir hafa sem sagt bókfært 1.600 milljarða kr. sem standa þá að hluta undir eiginfjárhlutfalli þeirra að frádregnu því sem skal greiða þrotabúunum.

Svigrúm til leiðréttinga samkvæmt þessu er því 2.200 milljarðar en einungis brot af því þyrfti til þess að leiðrétta lán íslenskra heimila.

Í núverandi kerfi verðtryggingar vantar allan hvata fyrir fjármagnsstofnanir að halda verðbólgunni lágri. Nauðsynlegt er að afnema verðtrygginguna með öllu nema á sérstökum ríkisskuldabréfum til langs tíma.

Ljóst er að ríkisvaldið og lánastofnanir höfðu veður af hruninu um þó nokkurt skeið áður en það átti sér stað án þess að gera ráðstafanir til að takmarka tjón heimila vegna þess. Auk þess má ætla að hrunið sé beinlínis tilkomið vegna breytni eða skorts á aðgerðum stjórnmálamanna og fjármálafyrirtækja. Því er með öllu ólíðandi að heimili og fjölskyldur landsins verði að bera byrðar hrunsins að mestu leyti, auk þess að taka á sig tekjuskerðingu og skattahækkanir.

Þá má ekki gleyma því að íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á endurreisn bankakerfisins. Við þá endurreisn voru skuldir heimilanna færðar yfir í nýju bankana. Það hlýtur að vera hlutverk stjórnvalda að tryggja réttláta skiptingu þeirra afskrifta og að þær skili sér til heimilanna en ekki bara til þeirra sem áttu þátt í hruni hagkerfisins með beinum eða óbeinum hætti eins og ætla mætti af fréttum.

Með setningu neyðarlaganna hinna fyrri, laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, tók ríkisvaldið að sér að tryggja allar innstæður á reikningum á Íslandi þótt einungis væri gert ráð fyrir því að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tryggði innstæður upp að 20.877 evrum. Með því tók ríkissjóður á sig tap vegna bankahrunsins. Stjórnvöld hafa því með lagasetningu bætt þeim sem áttu fé á reikningum í bönkunum innstæður sínar að fullu en þeim sem skulduðu bönkunum er hins vegar gert að greiða lán sín til baka með öllum þeim kostnaði sem á þau er fallinn. Þegar ljóst er að bankarnir hafa verulegt svigrúm til leiðréttingar lána og að jafnvel hafi verið gert ráð fyrir leiðréttingu við yfirfærslu skuldanna er óskiljanlegt að heimilin í landinu fái ekki að njóta réttlætis.



[18:23]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mikið vildi ég óska þess að ríkisstjórnin hefði borið gæfu til að hlusta á þau varnaðarorð og tillögur sem hafa komið fram bæði innan sala þingsins sem og annars staðar í samfélaginu sem hefðu getað afstýrt svo mörgum persónulegum harmleikjum sem ég heyri af dag hvern. Ákallið um neyðarlög fyrir heimilin í landinu hefur endurómað um samfélagið allt um langa hríð og vona ég að þessi tillaga okkar um neyðarlög til bjargar heimilunum í landinu fái nauðsynlegan hljómgrunn hjá stjórnarliðum sem og öðrum þingmönnum.

Frú forseti. Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar brutust út þann 4. október sl. og brást ríkisstjórnin við á þann hátt að skipa nefnd til að reikna út mögulegar lausnir á bráðum skuldavanda heimilanna í landinu. Niðurstöður þeirrar vinnu virtust því miður vera í þá veru að reikna sig frá réttlætinu. Almennar aðgerðir virðast ekki hafa átt upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni vegna þrýstings frá skuggastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með dyggum stuðningi frá bönkum og lífeyrissjóðum.

Enn hefur ríkisstjórnin ekki borið á borð lausnir sem taka á þeim víðtæka vanda sem stökkbreytt lán hafa skapað hérlendis. Við viljum því leggja grunn að leið sem vel ætti að vera hægt að fara án þess að hér fari allt á hliðina eins og margir virðast óttast. Það er löngu tímabært að hefja vinnu við að afnema verðtrygginguna og í einlægni trúi ég því ekki að aðrir þingmenn vilji ekki styðja við þá tillögu að óréttlætinu sem í verðtryggingunni felst verði aflétt. Ef ekki er hægt að afnema verðtryggingu húsnæðislána hlýtur að vera eðlileg krafa að laun verði verðtryggð.

Frú forseti. Mjög mikilvægt er að lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur fái framgang og því verði ekki haldið áfram í gíslingu í nefnd. Réttast væri að það yrði afgreitt og annað hvort samþykkir þingið það eða synjar því. Það er eðlilegur gangur mála í samfélaginu nema kannski á þessum vinnustað.

Kveðið er á um það í tillögunni að kröfur fyrnist að hámarki að tveimur árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta og að ekki verði hægt að halda kröfum við lengur en þeim tímaramma nemur. Þá leggjum við til að ef sá sem selja á íbúðarhúsnæði ofan af biðji um að nauðungarsölu verði frestað til 1. júní 2011, verði orðið við því tafarlaust. Jafnframt að allar nauðungarsölur sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra krafna verði látnar ganga til baka. Það á líka að vera óheimilt samkvæmt frumvarpinu að bera fólk út úr íbúð sinni nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags um að viðkomandi sé tryggt viðunandi húsnæði og tryggð lágmarksframfærsla samkvæmt nýjum opinberum og samræmdum framfærsluviðmiðum. Það er löngu tímabært að skilgreina opinber og samræmd lágmarksframfærsluviðmið og gerum við ráð fyrir því að það verði gert eigi síðar en 31. desember 2010.

Ég óska í einlægni að ríkisstjórnin og þingið skoði þessar tillögur að lausnum á bráðavanda heimilanna í landinu og brugðist verði við þeim án tafar. Ég óttast að upp úr sjóði enn á ný ef haldið verður áfram á sömu braut.

Frú forseti. Varla væri hægt að gefa þjóðinni betri fyrirheit en að leyfa henni að upplifa alvöru réttlæti á tímum þar sem margir hafa glatað svo miklu og sjá ekki fyrir endann á hörmungunum. Í ályktuninni felst von sem kemst nærri þeirri skjaldborg sem þjóðinni var lofað í aðdraganda kosninga.



[18:27]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um setningu neyðarlaga til varnar almannahag. Mig langar að tæpa á hugsanlegum efnahagslegum afleiðingum þess ef tillagan yrði samþykkt. Fyrst og fremst er rætt um að höfuðstóll húsnæðislána verði leiðréttur með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun bankakerfisins um áramótin 2007–2008. Þetta hefur verið ein af kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna m.a. og hefur verið mikið í umræðunni.

Á þeim tíma var m.a. rætt af fullri alvöru hvort aftengja ætti vísitölu neysluverðs tímabundið eða aftengja verðtrygginguna tímabundið til að fyrirsjáanleg hækkun hennar mundi ekki valda heimilunum miklum erfiðleikum. Frá þeirri leið var fallið m.a. að kröfu formanns Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnssonar. Það er sennilega einhver versti óleikur sem nokkurn tíma hefur verið gerður launþegum og launþegahreyfingunni á Íslandi þegar formaður ASÍ hafnaði því að fara þá leið. Því að hér sitjum við enn nærri tveimur árum síðar með heimilin og þúsundir manna í miklum erfiðleikum og þúsundir á vonarvöl vegna þess að menn ráða ekki lengur við skuldir sínar. Sýnt hefur verið fram á með hvaða hætti leiðrétting á höfuðstól lánanna geti gengið fram og hún þurfi ekki að lenda á skattgreiðendum né á þeim sem taka nú sem stendur út lífeyri hjá lífeyrissjóðunum.

Skipuð var heilmikil reiknimeistaranefnd af hálfu hæstv. forsætisráðherra sem skilaði af sér skýrslu sem hæstv. forsætisráðherra ætlar svo að byggja einhvers konar úrlausn á. En í þeirri skýrslu eru undanskildir 700 milljarðar af skuldum heimilanna þannig að niðurstaða hennar hlýtur alltaf að verða röng. Tekin eru inn þau lán sem eru sannanlega vegna íbúðarkaupa, um 1.300 milljarðar, en allar aðrar skuldir heimilanna eru skildar eftir og ekki teknar með. Það gefur einfaldlega ranga mynd af skuldastöðu heimilanna. Ef allar skuldir þeirra eru teknar með í reikninginn kemur í ljós að um eða yfir helmingur allra heimila á Íslandi á við umtalsverðan skuldavanda að etja og tugþúsundir heimila eiga jafnvel við greiðsluvanda að etja.

Þetta er mjög alvarlegt mál þegar ríkisstjórnin gengur fram með þessum hætti og vinnur á þessum nótum. Í hagfræðinni og líkanafræðinni er stundum sagt einfaldlega: Garbage in, garbage out. Þegar þú tekur svona rangar upplýsingar inn í útreikninga færðu einfaldlega ranga niðurstöðu.

Sú leiðrétting sem við höfum talað fyrir og er talað fyrir í þessu frumvarpi mun skila sér strax til einstaklinganna. Hún mun skila sér í því að einkaneysla þeirra mun örvast. Það er athyglisvert að í þjóðhagsspám sem hafa verið að koma út undanfarið er ekki gert ráð fyrir að hagvöxtur komi mikið frá fjárfestingu heldur fyrst og fremst frá einkaneyslu. Ef haldið verður áfram að þrengja að einkaneyslunni í samfélaginu með skattahækkunum t.d., eins og gert er ráð fyrir í núverandi fjárlagafrumvarpi, mun ekki verða sá hagvöxtur sem gert er ráð fyrir vegna þess að einkaneyslan mun einfaldlega standa í stað.

Slík leiðrétting mundi líka auka fólki bjartsýni, það mundi gefa því von um að sjá fram úr vandanum næstu ár og það þurfi ekki að vera nánast á horriminni ár eftir ár. Ég er sannfærður um að sú réttlætishugsun sem mundi birtast í slíkri leiðréttingu mundi gera það að verkum að fólk í stórum stíl mundi bretta upp ermarnar og segja: Ókei, nú erum við komin í gang aftur, nú skal ég láta til mín taka í samfélaginu.

Í framhaldinu þarf að sjálfsögðu að afnema verðtryggingu á lánum og verðtryggingu almennt. Þó er æskilegt að heimildir verði eftir fyrir ríkissjóð til að gefa út mjög löng verðtryggð skuldabréf til langtímafjárfestinga. Verðtryggingarumhverfið sem við höfum búið til er nú búið að setja samfélagið nánast á hausinn í annað skipti á 25 árum og ég á erfitt með að sjá fyrir mér nokkurt annað þjóðfélag sem mundi einfaldlega gera sjálfu sér þetta. Þetta gerum við samt hér á Íslandi og virðast ekki vera uppi nein áform um að gera hlutina öðruvísi. Og það er kannski það alvarlega. Þetta eru því mjög brýn atriði sem nefnd eru í þingsályktunartillögunni.

Afnám verðtryggingar mundi koma á miklu eðlilegra fjármálalífi og miklu eðlilegra efnahagslífi þar sem áhætta yrði einfaldlega eðlilegur þáttur af öllum viðskiptum, hvort sem um væri að ræða fasteignakaup eða lánastarfsemi. Eins og staðan er núna er áhættan öll lántakendamegin og það eru einfaldlega óeðlileg skilyrði fyrir fjármálakerfið og hagkerfið að búa við og óásættanleg skilyrði að sjálfsögðu fyrir neytendur.

Einhverjir munu án efa lenda illa í kreppunni sem nú ríður yfir og við gerum okkur ljóst að leiðrétting á höfuðstóli lána mun ekki hjálpa öllum. Margir eru einfaldlega í það miklum ógöngum að þeir munu tapa heimili sínu og húsnæði sínu og jafnvel verða gjaldþrota. Í þingsályktunartillögunni er gerð sú krafa að tryggt verði að það fólk fái húsnæði, fái helst að halda sínu húsnæði áfram og verði alls ekki borið út eða svipt húsnæði sínu nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags á að viðkomandi sé tryggt viðunandi húsnæði.

Hér er líka gert ráð fyrir ákveðinni lágmarksframfærslu. Það hefur háð Íslandi um langa tíð að hér hefur ekki verið til neitt opinbert framfærsluviðmið. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur verið með eitt, Tryggingastofnun hefur verið með eitt þannig að þetta er hingað og þangað um kerfið. Hér þarf að fara af stað alvöruvinna við að útbúa ákveðin lágmarksframfærsluviðmið sem taka mið annars vegar af algildum fátæktarmörkum og hins vegar af fátæktarmörkum sem að einhverju leyti eru afstæð, þ.e. taka mið af því sem aðrir hafa almennt í samfélaginu. Fólk getur þá búið sér til mynd af því hver efnahagur landsmanna er og hvar kreppir mest að og hvar mesta þörfin er. Þetta hefur ekki verið gert og ekki eru fyrirliggjandi neinar áætlanir um þetta nema maður heyrir óljósar fréttir af því einstaka sinnum að hin og þessi stofnun sé að útbúa einhvers konar framfærsluviðmið. Það vantar stefnu í þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra og háttsettur maður í ríkisstjórninni fylgist hér með af mikilli athygli og geri þá væntanlega ráð fyrir, úr því að vöntun er á öðrum stjórnarliðum í þingsalnum, að þessum tillögum verði komið á framfæri við ríkisstjórnina. Ef ég man rétt þá er ríkisstjórnarfundur í fyrramálið þannig að þetta mun væntanlega eiga greiða leið þangað inn.

Þetta er mikilvægt mál, það er alvarlegt ástand á Íslandi og það er að versna. Það er enn að hægja á hjólum atvinnulífsins, það er merkjanlegur umtalsverður samdráttur í verslun og þjónustu á seinni hluta ársins sem enn er ekki kominn fram í hagtölum. Þeir sem einfaldlega labba um í verslunarmiðstöðvum og reka þar sjoppur sínar hafa bent á að enn er að hægja umtalsvert á. Það er brýnt mál að hjól atvinnulífsins og efnahagslífsins komist aftur í gang.



[18:36]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hv. flutningsmanni og Hreyfingunni til hamingju með að hafa komið fram með þessa tillögu um það sem þau kalla neyðarlög til varnar almannahag. Það er farið ágætlega yfir þær aðgerðir sem Hreyfingin telur að geti gagnast heimilunum í landinu en ég sakna þess svolítið í þessum tillögum, sem eins og nafnið ber með sér eiga að beinast að því að bæta almannahag, að ekkert sé fjallað um ríkissjóð og hvernig bæta megi stöðu hans og að ekkert sé fjallað um fyrirtækin.

Allir sem hugsa málið vita að eitt helsta vandamál heimilanna í dag er hve ráðstöfunartekjur hafa minnkað gríðarlega mikið. Hjá sumum hafa ráðstöfunartekjur minnkað af því að fólk hefur misst vinnuna, hjá öðrum hafa þær minnkað vegna þess að það vinnur minni yfirvinnu, meðallaunin eru mun lægri, en hjá öllum hafa ráðstöfunartekjur minnkað vegna þess að skattar hafa hækkað, sem þýðir að í staðinn fyrir að fólk geti notað fjármuni sína í afborganir og lifibrauðið eru þeir notaðir til að fjármagna ríkissjóð. En hvað um það.

Hér eru beinar tillögur og gamlir kunningjar hvað varðar leiðréttingu á skuldum heimilanna, það er allt gott og vel. Það hefur reyndar komið fram að þetta gæti orðið erfitt í framkvæmd. Ég var mjög fylgjandi því að skorið yrði flatt af skuldum heimilanna meðan það var hægt án kostnaðar fyrir ríkissjóð eða lífeyrissjóðina. Sá gluggi lokaðist þegar skilið var á milli gömlu og nýju bankanna. Ein stærstu mistök sem núverandi ríkisstjórn gerði var að hafa þá að háði og spotti sem vildu færa þessar afskriftir yfir til heimilanna en því miður er það ekki hægt lengur.

Sú aðgerð að færa til baka vísitölu eða skera af 20% eða hvað sem það er, þetta verkar allt á sama hátt, mun lenda á Íbúðalánajóði og lífeyrissjóðunum að mestu leyti. Þeir sem fjármagna Íbúðalánasjóð eru ríkissjóður og þá er hægt að taka peningana af ríkissjóði eða einfaldlega af þeim sem fjármagna Íbúðalánasjóð að langmestu leyti, þ.e. lífeyrissjóðirnir.

Auðvitað væri hægt að fara aðeins lengra og segja: Lífeyrissjóðirnir eru að skila til baka hækkun eigna sem menn hafa orðið fyrir í kjölfar hrunsins, skila því til baka til almennings. En þá kemur það náttúrlega eins og við vitum öll niður á lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega og skapar annað vandamál sem þarf að leysa og ríkissjóður yrði að leysa í framtíðinni. Þetta eru rök sem hafa komið fram. Ég held aftur á móti að sú hugmynd að færa afskriftirnar sem bankarnir fengu yfir til almennings sé góðra gjalda verð og það er það sem menn hafa verið að gera og verður eflaust gert í framtíðinni. Ég skal ekki segja hvort allar afskriftirnar fara en alla vega mun mikið af afskriftunum fara og þeir eru ekki of góðir til að skila þeim afskriftum til almennings.

Önnur vandamál felast í því að fara þessa leið inn í lífeyrissjóðina og jafnvel til fjármagnseigenda ef við getum sagt sem svo. Allt er þetta háð einhvers konar eignarrétti og eignarréttur er tryggður í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að eignarréttur er einn af hornsteinum samfélagsins. (Gripið fram í.) Við getum lesið mjög vel í hinni merku bók eftir Hernando de Soto um það hvernig fer fyrir þjóðfélögum þegar eignarréttur er ekki skilgreindur á réttan hátt eða ekki virtur. Jafnframt höfum við séð hvernig ríkjum sem hafa afnumið eignarrétt að einhverju eða öllu leyti hefur farnast. Ég vil ganga svo langt að halda því fram að eignarréttur, vel skilgreindur og varinn eignarréttur sé ein af merkilegri uppgötvunum mannsins og sé algjörlega grunnurinn að þeirri þjóðfélagsgerð sem við búum við og gerði m.a. iðnbyltinguna mögulega o.s.frv.

Það þarf að tryggja öllum eignarrétt, það er alveg hárrétt, og dómstólar eiga að gera það. Við sáum það mjög greinilega núna með gengisdómnum svokallaða að það var ekki eingöngu passað upp á fjármagnseigendurna heldur líka skuldarana, með gengisdómnum sáum við að eignastaða þeirra var leiðrétt.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni þar sem vitnað er í lögin sem sett voru í október 2008, segir, með leyfi forseta: „… væri fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Þessum heimildum var beitt til bjargar íslenska fjármálakerfinu. Þetta var ríkissjóði dýrkeypt og þjóðin situr uppi með tapið af þeirri aðgerð.“

Þetta er gríðarlega algengur misskilningur, þetta er einhvers konar mýta sem er í gangi á Íslandi að ríkissjóður hafi þurft að bera einhverjar gríðarlegar byrðar út af bankakerfinu. Það er alls ekki rétt. Inn í bankakerfið fóru eiginlega engir fjármunir. (Gripið fram í: … Seðlabankanum?) Aftur á móti var fært til fjármagn innan ríkisins úr hægri vasanum í þann vinstri í Seðlabanka Íslands, en þetta ákvæði var ekki notað til að fjármagna það, alls ekki, og það eru ekki þessar gríðarlegu byrðar sem verið er að tala um. Þetta er skuldabréf til 20 ára á 2% vöxtum eða eitthvað svoleiðis sem mun hverfa í verðbólgu með tímanum. (Gripið fram í: Það er engin verðbólga hérna.) Þetta er því svona leiður misskilningur.

Hins vegar varð ríkissjóður fyrir gríðarlega miklu áfalli vegna þess að atvinnustarfsemin beið mikinn hnekki í þessu öllu saman sem leiddi til þess að skattstofnarnir skruppu saman en eyðslan var sú sama þannig að myndaðist mikið gat. Það gat þurfti að fjármagna og það eru þær skuldir sem við stöndum frammi fyrir, ekki eins og gefið er til kynna hér að hafi verið settar inn í bankakerfið.

Nú á ég bara örstuttan tíma eftir. Talandi um eignarrétt og að virða hann, eitt sem við Íslendingar gerðum við fall bankanna var að þrátt fyrir ákvæði 72. gr. brutum við eignarrétt á lánardrottnum með neyðarlögunum þegar við afskrifuðum í kringum 8 þúsund milljarða kr. og því hefur verið lýst sem sennilega einu réttu leiðinni. Menn tala stöðugt meira um það, nú seinast Paul Krugman, samfylkingarmaður og nóbelsverðlaunahafi. Flest ríki gerðu þetta þannig að þau veltu byrðunum yfir á skattgreiðendur, við veltum byrðunum yfir á lánardrottna. En þessi tillaga er gott framtak.



[18:47]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni málflutninginn. Það er rétt að fram komi varðandi þessa afstöðu að almenn leiðrétting á skuldum heimilanna muni verða gríðarlega kostnaðarsöm og lenda á skattgreiðendum. Það er eitthvað sem við erum búin að fara í gegnum ansi oft. Út úr því kemur með ýmsum tilfæringum að verði sá afsláttur t.d. sem lífeyrissjóðirnir fengu í hinum svokallaða Avens-díl reiknaður þeim til tekna líka muni þetta kannski kosta lífeyrissjóðina eitthvað á bilinu 70–75 milljarða. Það hefur líka verið reiknað út að hægt væri að trappa það tap lífeyrissjóðanna í ákveðnum áföngum þannig að núverandi lífeyrisþegar mundu ekki finna fyrir því og að lífeyrisþegar framtíðarinnar fyndu sennilega fyrir því í mjög litlum mæli ef einhverjum. Þar að auki beita menn fyrir sig þeirri afstöðu að vilja frekar eiga húsnæðið sem þeir búa í nú en þurfa hugsanlega að skerða lífeyri sinn eftir 20 eða 30 ár um eitthvað örlítið. Það er afstaða sem við verðum líka að taka tillit til því að húseignir fólks eru yfirleitt helsta fjárfesting þess og helsti lífeyrir inn í framtíðina þegar upp er staðið. Það er mjög mikilvægt að fólk geti, ef það er hægt, haldið húsnæði sínu. Þess vegna tel ég að þessi almenna leið, flata leið, sé það mikilvæg að það verði að skoða hana af alvöru.

Eins og ég tæpti á áðan og minni á er ríkisstjórnarfundur í fyrramálið. (Gripið fram í.)



[18:49]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarfundur í fyrramálið, verður ekki geimvarnaáætlun VG þar til umræðu? [Hlátur í þingsal.] Heldurðu að það verði skuldamálin, hv. þingmaður?

Hvað um það, þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Eins og með Avens-samninginn, það er hægt að nota afraksturinn af honum til þess að fjármagna einhvern hluta af niðurskurði. Við vorum fyrr í dag að ræða fjáraukalögin. Í ljós kom að hallinn á þessu ári er í stað þess að vera 100 milljarðar, eins og var lagt upp með í byrjun ársins, 58 milljarðar. Það eru gríðarlega gleðileg tíðindi. Það stafar af þessum Avens-samningi upp á 17–18 milljarða. Síðan fengu lífeyrissjóðirnir eitthvað, ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir fengu mikið, hvort það var svipuð upphæð eða aðeins hærri. En það er ekki nema dropi í hafið. Ég hef kannski ekki mestar áhyggjur af því sem er inni í lífeyrissjóðunum heldur hvernig eigi að takast á við Íbúðalánasjóð. Það er ljóst að þar þarf að fjármagna 120 milljarða. Það eru alveg til leiðir til þess. Við gætum gefið út skuldabréf til 40 ára á lágum vöxtum og fjármagnað þetta þannig. En spurningin er: Er það það réttasta sem við getum gert? Ég held ekki.

Aftur á móti á að taka allar afskriftirnar sem eru í bankakerfinu og færa þær yfir til almennings. Að mínu viti er verið að gera það og það verður væntanlega gert.



[18:51]
Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur verið um þessa ágætu tillögu okkar. Eins og ég sagði í máli mínu áðan hefur ýmislegt gerst síðan tillagan var lögð fram.

Þann 4. október þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína voru mikil mótmæli og þá hrökk eitthvað í gang og ríkisstjórnin fór að reikna út tveggja ára gamalt reikningsdæmi. (Gripið fram í.) Já. En óðagotið var náttúrlega slíkt að það gleymdist að taka 1/3 skulda heimilanna með í reikninginn á því dæmi. Niðurstöðum af þessari reiknivinnu og tillögum í kjölfar þeirra var lofað í næstu viku eða eftir helgi. Nú eru 52 vikur í árinu, það er vel þekkt staðreynd. Hins vegar er önnur staðreynd að það eru ekki sérstaklega margar vikur eftir af þessu ári. (Gripið fram í.) Við veltum fyrir okkur hvaða helgi eða hvaða vika þetta er sem er alltaf verið að tala um þegar við eigum að fá einhvern botn í þessi mál.

Við höfum reynt að vinna í þessum samráðshóp eins og hægt er. Fyrir viku sendum við, fulltrúar þinghóps Hreyfingarinnar og þingflokks Framsóknarflokksins, forsætisráðherra bréf þar sem við óskuðum eftir fundi með hinum svokallaða fimm ráðherra hópi. Því bréfi hefur ekki verið svarað nema með því sem forsætisráðherra sagði í fyrirspurnatíma að hún hefði fengið bréfið og ætlaði að hitta okkur á morgun eða um helgina. Við höfum ekkert heyrt neitt meira. (Gripið fram í.) Það er spurning hvort sú helgi verður á þessu ári, (Gripið fram í.) eða hvað? (Gripið fram í: … til að hitta utanríkisráðherra?) Já, það mundi kannski ganga betur að hitta utanríkisráðherra, hvað veit maður?

Oft á svona erfiðum tímum eins og við lifum óskar maður þess eiginlega að hafa tímavél. Mér varð hugsað til þess við ræðu þingmannsins Tryggva Þórs Herbertssonar, öll tækifærin sem við misstum af til að gera rétt og leiðrétta á meðan það var tiltölulega auðvelt en ráðamenn skorti hugrekki til þess að stíga skrefið. Það er þess vegna sem titillinn á þessari þingsályktunartillögu er um setningu neyðarlaga og kallast á við neyðarlögin sem voru sett hér 2008 vegna þess að við teljum vera neyð og að hún verði enn þá meiri ef þetta verði ekki gert.

Eins og Þór Saari þingmaður benti á hefur hér ríkt séreignarstefna í húsnæðismálum og það eru skiptar skoðanir um hana. Ekki eru allir sammála um að það sé rétta leiðin. Hins vegar er það sú leið sem langflestir hafa farið og í okkar verðbólguþjóðfélagi hefur það reynst svo að húsnæði er eiginlega eina fjárfestingin, íbúðarhúsnæði fólks, sem það getur treyst á að eiga þegar það er orðið gamalt. Það er lífeyrir fólks. Fólk hefur litið svo á að að miklu leyti sé lífeyrir þeirra til efri ára fólginn í húseign sem það getur selt og minnkað við sig þegar börnin eru farin að heiman og það hættir að vinna og tekjur rýrna. Ég vorkenni lífeyrissjóðunum ekkert að þurfa að taka þátt í þessari aðgerð. Í fyrsta lagi hafa þeir tapað mun meiru í hruninu á áhættufjárfestingum en nokkurn tíma er rætt um hér þó að þær tölur liggi ekki fyrir. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hefur talað um 25–30% tap. Hér erum við kannski að tala um 4% lækkun á eignum lífeyrissjóðanna. Ég get náttúrlega bara svarað fyrir mig persónulega og ég vil frekar halda húsinu mínu núna en fá 4% hærri lífeyri þegar ég er orðin gömul.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og skattn.