139. löggjafarþing — 37. fundur
 29. nóvember 2010.
staðbundnir fjölmiðlar.
fsp. BJJ, 225. mál. — Þskj. 256.

[16:50]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er ekki langt síðan ég átti orðaskipti við hæstv. menntamálaráðherra um framfærslu námsmanna. En síðan hafa þær skemmtilegu fréttir borist okkur þingmönnum að hæstv. ráðherra sé barnshafandi og vildi ég lýsa yfir mikilli ánægju með það og óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju, enda einn minn uppáhaldsráðherra eins og ég hef oft sagt úr ræðustól þingsins.

Ég vona að þessi inngangur fari það vel í ráðherrann að hún muni bregðast vel við málaleitan minni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því að skipaður verði starfshópur sem taki út stöðu staðbundinna fjölmiðla og leggi fram tillögur að bættu rekstrarumhverfi þeirra. Ég spyr í ljósi þess að við nokkrir þingmenn höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að Alþingi álykti að fela hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu eigi síðar en 1. mars 2011. Nú er það svo að gangur þingsins getur verið hægari en menn hafa þolinmæði til en hæstv. ráðherra hefur sýnt í máli sem hún tók frumkvæði að, að hægt er að skipa nefnd sem þessa eða starfshóp með tiltölulega stuttum fyrirvara og góðum vilja. Þess vegna nefni ég þetta hér.

Nú þarf ekki að fara í grafgötur með það hvert mikilvægi staðbundinna fjölmiðla er á landsbyggðinni. Fjölmörg héraðsfréttablöð vítt og breitt um landið sinna mjög mikilvægu hlutverki er snertir sjálfsmynd viðkomandi byggðarlaga. Við höfum líka fylgst með þeirri þróun að sveitarfélögin hafa verið að stækka til muna vítt og breitt um landið og eiga mögulega eftir að stækka. Þar með eykst hlutverk staðbundinna fjölmiðla enn frekar í kjölfarið vegna þess að menn gagnrýna sameiningu sveitarfélaga, m.a. út frá þeim punkti að lýðræðið, nærlýðræðið, minnki fyrir vikið.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á að tilmæli eru frá Evrópuráðinu um að ríki hugi að því hvort ástæða sé til að veita prentmiðlum og útvarpsmiðlum sérstakan fjárstuðning, einkum svæðisbundnum miðlum. Af framansögðu tel ég mikilvægt að hæstv. ráðherra taki vel í þessa málaleitan okkar nokkurra þingmanna sem leggjum þetta til. Það er líka ljóst í ljósi efnahagsaðstæðna og rekstrarumhverfis fjölmiðla á landsbyggðinni að aldrei hefur verið eins mikilvægt og nú að skoða starfsumhverfi þeirra og reyna að bæta það. Ég vil líka minna á að starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni hefur skerst allverulega. Þess vegna hefur gildi staðbundinna miðla aukist til mikilla muna á undangengnum árum.

Að loknum þessum inngangi og fyrirspurn vil ég því góðfúslega óska eftir því að hæstv. ráðherra taki vel í viðleitni okkar þingmanna um að skoða sérstaklega stöðu þeirra mikilvægu miðla sem starfa á landsbyggðinni.



[16:53]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar óskir. Það er áhugavert að hún er komin upp í pontu þingsins, þessi blessaða ólétta.

En ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurninguna. Ég vil fyrst segja að það er auðvitað ljóst að fjölbreytt fjölmiðlaflóra og þar með taldir staðbundnir fjölmiðlar er mjög nauðsynleg í hverju lýðræðisríki, bæði til að vera vettvangur umræðu en líka til að fólk fái aðgang að upplýsingum svo það geti mótað sér skoðanir. Það er mjög mikilvægt að fjölmiðlar búi við þannig umhverfi að þeir geti rækt starfsemi sína.

Það liggur líka fyrir að efnahagshrunið hefur gert það að verkum að fjölmiðlar búa við verri kjör, meðal annars vegna minnkandi auglýsingatekna. Slíkt ástand er auðvitað alvarlegt í sjálfu sér því að kröfur almennings lúta m.a. að því að fjölmiðlar gegni hlutverki sínu sem fjórða valdið og upplýsi um atburði, málefni líðandi stundar, miðli fréttaskýringum og fletti ofan af málum. Því má segja að um leið og kröfur á fjölmiðlana hafa aukist þá hefur rekstrarumhverfi þeirra versnað.

Ef við lítum til nágrannaríkja okkar þegar kemur að heildarstefnumótun um fjölmiðla þá held ég að við Íslendingar getum lært margt af þeim. Þar skiptir máli að hafa heildarstefnumótun um fjölmiðla sem er m.a. það sem reynt er að gera með fjölmiðlafrumvarpinu sem nú liggur fyrir. Ég held að það skipti máli að marka skýran ramma um alla fjölmiðla, óháð miðlunarleið og óháð stærð, þannig að blaðamenn og fjölmiðlarnir sjálfir búi allir við sömu rammalöggjöf.

Hv. þingmaður nefndi Ríkisútvarpið. Ég held að sterkt ríkisútvarp sé grundvallarþáttur í því að setja ákveðinn gæðastuðul fyrir faglega blaða- og fréttamennsku. Síðan held ég að væri mjög áhugavert langtímamarkmið að skoða hvort hægt sé að taka upp einhvers konar styrki til einkarekinna fjölmiðla. Það kerfi þekkjum við frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð en þar er ætlunin með slíkum styrkjum að stuðla að fjölbreytileika og margbreytileika á fjölmiðlamarkaði. Þar er mikilvægt að skoða sérstaklega staðbundna fjölmiðla því þeir eru iðulega vettvangur staðbundinna upplýsinga og samfélagslegrar umræðu á því svæði sem þeir starfa. Við sjáum að þessi umræða er mjög virk víða í nágrannaríkjum okkar.

Ég vil líka taka það fram að í þessum ríkjum er svolítið mismunandi fjölmiðlalöggjöf fyrir ólíka þætti fjölmiðlunar en þeim er ætlað að vega hverjir aðra upp og móta samanlagt ákveðna heildarstefnu. Þannig eiga til að mynda útvarpslöggjöf, lög um prentrétt, lög um ríkisfjölmiðla og um styrki til dagblaðaútgáfu og heimilda- og kvikmyndagerðar svo eitthvað sé nefnt, sameiginlega að stuðla að því markmiði að fjölbreytni ríki á fjölmiðlamarkaði. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við skoðum löggjöf okkar, að þar vinni hver löggjöfin með annarri og stuðli að því að allir íbúar samfélagsins fái aðgang að ólíkum fjölmiðlum og mismunandi dagskrá án tillits til búsetu og efnahags. Stuðla þarf að því að helst komi fram a.m.k. tvö ólík sjónarmið, bæði í staðbundnum fjölmiðlum og þeim sem ná til alls landsins til að stuðla að fjölbreytni og fjölræði. Ef við lítum á löggjöf nágrannaríkjanna þá miðar hún að því að stuðla að umhverfi þar sem einkareknir fjölmiðlar geta þrifist og dafnað en um leið eru þar sjálfstæðir og sterkir almannafjölmiðlar.

Við erum auðvitað fámenn þjóð en í raun er ótrúlegt að sjá hve gróskumikill fjölmiðlamarkaðurinn hefur verið hér í mörg ár. Það verður seint hægt að gera sömu kröfur til fjölbreytni á markaði hér á landi eins og finna má hjá milljónaþjóðum en ég held hins vegar að við getum líka litið til fámennari þjóða. Ég get nefnt Lúxemborg sem dæmi sem er mjög lítið land með svipaða íbúatölu og við. Þar eru sjö dagblöð og að mig minnir eru fimm þeirra ríkisstyrkt. Þar er litið á það sem eðlilegan hluta af samfélagslegum skyldum að styrkja þennan vettvang fjölmiðlunar.

Ég tek vel undir tillögu eða fyrirspurn hv. þingmanns. Ég þarf að kynna mér betur þingsályktunartillöguna og greinargerð sem liggur frammi með henni en ég held að þar sé vísað í svipuð rök og ég hef nefnt í svari mínu. Ég tel alveg sjálfsagt að skoða möguleika á að skipa starfshóp sem skoði og greini stöðu og rekstrarumhverfi staðbundinna miðla í nágrannaríkjum okkar og sambærilegum ríkjum getum við sagt, og geri tillögur um hvaða langtímastefnumótun við getum sett fram í þessum efnum.



[16:58]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um leið og ég tek undir árnaðaróskir hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar til hæstv. menntamálaráðherra vil ég lýsa þeirri skoðun minni að staðbundnir fjölmiðlar séu algerlega nauðsynlegir. Með ákveðnum hætti er það verkefni hins opinbera að sjá til þess að þeir séu til og þrífist hver á sínum stað. Þeir eru þáttur í verslun og viðskiptum, í lýðræði, í sögu og menningu og í sjálfsmynd þeirra staða sem þeir spretta úr. Það skiptir miklu máli og meira máli en ýmis önnur byggðatilvik að þeir séu á lífi. Þetta á ekki bara við fjölmiðla á landsbyggðinni heldur líka fjölmiðla sem sprottið hafa upp undanfarin ár í þéttbýlinu á Suðvesturlandi, t.d. í einstökum hverfum í Reykjavík. Þar eru merkilegir fjölmiðlar sem segja margt um sína byggð og eru henni mjög mikilvægir.

Sjálfur er ég áskrifandi að staðbundnum fjölmiðli (Forseti hringir.) frá Svarfaðardal, mjög merkur fjölmiðill, elsti fjölmiðillinn af þessu tagi núna, og þó ég hafi (Forseti hringir.) engin eiginleg tengsl við héraðið nýt ég þess að fræðast um ástandið á þeim slóðum.



[16:59]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. fyrirspyrjanda Birki Jóni Jónssyni fyrir að koma upp og vekja athygli á málefnum er tengjast staðbundnum fjölmiðlum sem eru ákaflega mikilvægir fyrir lýðræðislega vitund okkar, hvar í sveit sem þeir eru settir. Þetta eru að mínu viti mjög þróttmiklir miðlar.

Í fjölmiðlun er afskaplega mikilvægt að mínu viti að endurspegla þjóðfélagið eins og það er. Það gera staðbundnir fjölmiðlar í meira mæli en margir aðrir miðlar sem eru staðbundnir í Reykjavík. Ég vil nota tækifærið til að hrósa Ríkisútvarpinu sem hefur tekið sig á í málum er tengjast fréttum utan af landi. Það er vel en enn betur gera þessir þróttmiklu miðlar hringinn í kringum landið sem hér hafa verið til umfjöllunar. Þeir eiga að njóta stuðnings frá hinu opinbera í einhverjum mæli, alveg eins og við leggjum fé í Ríkisútvarpið. Þar vil ég sérstaklega horfa til auglýsinga og beina orðum mínum til hæstv. ráðherra að hún sjái til þess (Forseti hringir.) að þessir miðlar búi ekki við skarðari hlut en hinir stóru miðlar í Reykjavík hvað auglýsingar frá ríkinu snertir.



[17:00]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu að ég vil meina.

Þetta mál er svo sem ekki nýtt og svo ég rifji það upp þá var það flutt að mig minnir árið 2004. Þá var 1. flutningsmaður þeirrar þingsályktunartillögu hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem ég veit að hæstv. menntamálaráðherra þekkir vel. Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni í framhaldi af umræðunni taka vel í þetta enda erum við þó ekki að ganga lengra en að gera úttekt á stöðu staðbundinna miðla og framtíðarhorfum.

Ég vil minna á að þingmenn úr fleiri en einum flokki hafa komið hér að og miðað við þá umræðu sem nú hefur átt sér stað er nokkuð víðtækur stuðningur vil ég meina við að skoða stöðu þessara miðla. Við höfum heyrt það frá mörgum af þeim aðilum sem reyna að standa undir rekstri á þessum blöðum, ég er sérstaklega að tala um blöð hér, að hann hefur verið þyngri núna en oft áður. Hins vegar hefur mikilvægi þessara miðla sjaldan verið meira en dag. Ég hvet því hæstv. ráðherra eindregið enn og aftur að setja þennan starfshóp af stað vegna þess að þingsályktunartillagan sem ég hef vitnað hér í og er 1. flutningsmaður að hefur ekki enn komist á dagskrá þingsins. Hún mun vonandi gera það en á þá eftir að fara til nefndar og við vitum hversu ofboðslega langan tíma slíkt ferli tekur. Nú ríður á og reynir á frumkvæði hæstv. ráðherra að setja af stað hóp, sem vonandi sem flestir hagsmunaaðilar eiga sæti í, sem munu taka út stöðu þessara miðla. Þá gætum við vonandi fyrir mitt næsta ár tekið ákvörðun um framtíðarstefnumótun er snertir rekstrarumhverfi þessara miðla vegna þess að það er mjög mikilvægt eins og fram hefur komið í góðri umræðu.



[17:02]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég legg bara til fund með mér og hv. 1. flutningsmanni umræddrar þingsályktunartillögu í desember þannig að við getum reynt að setja starfshópinn af stað um áramótin.