139. löggjafarþing — 40. fundur
 30. nóvember 2010.
umræður utan dagskrár.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:38]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2011 kemur fram að ekki eru áætlaðar greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda. Á yfirstandandi ári voru greiðslur skornar niður um 147 millj. kr. og nú er gengið alla leið og 0 kr. áætlaðar á þennan fjárlagalið. Það er niðurskurður um 178 millj. kr. sem skiptast þannig að tæplega 64 millj. kr. eru mótframlag til sauðfjárbænda en rúmlega 113 millj. kr. til kúabænda. Á tveimur árum er þannig skorið niður um 325 millj. kr. til Lífeyrissjóðs bænda. Það er gert án þess að um það hafi verið tekin yfirveguð umræða, hvorki hér innan þings né við hagsmunaaðila. Með öðrum orðum hefur framkvæmdarvaldið tekið einhliða ákvörðun sem kemur einungis fram í fjárlögum um að hætta að greiða mótframlag atvinnurekenda til Lífeyrissjóðs bænda.

Með fjáraukalögum sem runnu í gegnum þing í gær var samþykkt að setja 294 millj. kr. vegna ársins 2010 þannig að það dekkar hluta af þeim niðurskurði sem var farið í á þessu ári en engu að síður er niðurskurður næsta árs þá 100%.

Nú má spyrja sig af hverju ríkið hafi verið að greiða til lífeyrissjóðsins, hvort það sé ekki óeðlilegt og hvort því sé ekki sjálfhætt. Sjálfur gæti ég vel fallist á að einfalda greiðslukerfið og leggja af greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda. Þá verðum við að skoða söguna. Allt frá 1971, þ.e. frá stofnun Lífeyrissjóðs bænda, hefur ríkisvaldið greitt mótframlag bænda í sjóðinn. Greiðslurnar hafa ekki verið nein ölmusa. Þar hafa samningar m.a. snúist um hækkun á olíugjöldum og blandast inn í búvörusamninga. Það hafa komið margvíslegar tilslakanir og eftirgjafir af hálfu Bændasamtakanna, sem sagt hafa greiðslurnar verið samningsbundnar. Nú bregður hins vegar svo við að hæstv. fjármálaráðherra sker greiðslur þessar niður einhliða án samninga við bændur eða lífeyrissjóð þeirra. Ég vil því leggja tvær spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

Ef leggja á niður framlög sem hafa verið samningsbundin frá 1971, er þá ekki eðlilegt að slík stefnumörkun og umræða sé tekin fyrst og síðan komi ákvörðunin fram í fjárlögum í stað þess eins og nú að órædd niðurstaðan komi fram óundirbúin í fjárlagafrumvarpi 2010 og nú 2011?

Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða undirritaðar skuldbindingar við Lífeyrissjóð bænda og Bændasamtökin, finnst hæstv. ráðherra þá ekki eðlilegt að virða samkomulag sem hefur verið virkt frá 1971 og að eðlilegast hefði verið að hefja viðræður við lífeyrissjóðinn og Bændasamtökin áður en slík ákvörðun var tekin?

Hvað þýðir þetta fyrir lífeyrissjóðinn og bændur? Þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á sjóðinn og lífeyrisréttindi þurfa ekki að skerðast, enda er hann vel rekinn og með varfærna fjárfestingarstefnu eins og fram hefur komið hjá stjórnendum sjóðsins og fór sér því ekki eins óðslega og margur annar í þenslunni. Sjóðurinn er meðalstór á íslenskan mælikvarða með um 3 þús. greiðandi sjóðfélaga og á yfir 23 milljarða kr. í eignir. Hins vegar hefur þessi einhliða ákvörðun ríkisvaldsins gríðarleg áhrif á kjör bænda þar sem 8% mótframlagið verður þá greitt af þeim og við það bætast 0,7% vegna tryggingagjalds. Þetta þýðir í raun að kjaraskerðing bænda á næsta ári er 8,7% af völdum einnar ákvörðunar sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Einhverjir gætu sagt að þetta væri eðlilegt framlag bænda til niðurskurðar, en þá gleymist að á vordögum 2009 gerðu bændur og ríkið með sér samning þar sem bændur tóku á sig verulegar skerðingar vegna búvörusamninga.

Á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis á vori 2009 er haft eftir þáverandi ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og núverandi hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það er mat Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að með þessu samkomulagi sé stigið mikilvægt skref í átt til þjóðarsáttar um nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þá erfiðu tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum.“

Jafnframt kemur fram í fréttatilkynningunni að með þessu sýni bændur að þeir geri sér glögga grein fyrir alvarlegri stöðu þjóðarbúsins og axli ábyrgð með því að færa umtalsverða fórn næstu tvö, þrjú árin.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Finnst honum ekki nóg að gert? Telur hann að hjá bændum séu fundin hin breiðu bök og að hægt sé að sækja meiri og meiri tekjur í ríkiskassann með því að skerða kjör þeirra? (Gripið fram í.) Er hæstv. fjármálaráðherra að rjúfa þjóðarsátt við bændur?

Í áðurnefndum samningi var ákvæði þar sem samningsaðilar voru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu bænda í samvinnu við viðskiptabanka til að leita lausna á að bæta stöðu greinanna í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin og atvinnugreinarnar búa við. Jafnframt voru samningsaðilar sammála um að hefja endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í þeim tilgangi að treysta stöðu landbúnaðarins.

Lokaspurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi:

Er þessari vinnu lokið og varð niðurstaðan sú að hægt væri að skerða kjör bænda um 8,7% til viðbótar þeim skerðingum sem þeir hafa tekið á sig, annars vegar með samningum við ríkisvaldið og hins vegar eins og aðrir þegnar þessa lands vegna verulegra hækkana á aðföngum, sköttum og fjármagnskostnaði?



[14:43]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að fara yfir forsögu þessa máls eins og málshefjandi hefur reyndar gert. Þetta byggir á fyrirkomulagi sem komst á á sínum tíma en hefur hins vegar aldrei byggt á lagaskyldu ríkisins. Það hefur heldur aldrei verið um það samið sérstaklega. Mótframlög til Lífeyrissjóðs bænda sem ríkið hefur greitt hafa hvorki verið í búvörusamningnum né búnaðarlagasamningnum og hvílir þar engin lagaskylda á ríkinu, heldur hefur þetta verið fyrirkomulag sem hefur framlengst á grundvelli hefða, getum við sagt, eða þess sem á komst og ræðst þá af ákvörðunum fjárlaga hverju sinni. Þessi staða er mönnum væntanlega ljós og verður ekki á móti henni mælt.

Ríkið hefur líka stutt Lífeyrissjóð bænda með öðrum hætti, t.d. þegar söluandvirði eigna Lánasjóðs landbúnaðarins voru að stórum hluta til látin renna inn í lífeyrissjóðinn á árinu 2005. Þá munu um 2.630 millj. kr. hafa farið inn í lífeyrissjóðinn til að mynda honum eigið fé.

Það var alveg ljóst að landbúnaðurinn og stjórnkerfi og stjórnsýsla og rekstur í kringum landbúnað gæti ekki orðið ónæmt fyrir þeim erfiðleikum og þeim niðurskurði sem almennt gengur yfir í samfélaginu. Þegar ég gerði bændum ljóst í trúnaði í vor hvers væri að vænta í fjárlagafrumvarpinu og átti við þá samráð um það, þannig að ég mótmæli því nú að ekki hafi verið haft samráð við bændur um þessa hluti eftir því sem hægt var, kom í ljós og eftir umfjöllun í stjórn Bændasamtakanna að bændur lögðu höfuðáherslu á eitt atriði, að verja búvörusamninginn sem gengið var frá á útmánuðum 2009. Þeir settu í forgang að ekki yrði hróflað við honum og þeim mikilvæga grundvelli framleiðslunnar sem hann tryggir með fjárframlögum sínum. Þá var stefnan tekin á það að bera niður í öðrum kostnaðarsömum liðum þar sem ríkið er með útgjöld á sviði landbúnaðarmála í samræmi við þessa forgangsröðun eða þessa ósk bænda. Niðurstaðan varð samkomulag sem tókst um breytingar á búnaðarlagasamningi þar sem þau framlög eru verulega tekin niður og birtist í minni rekstrarframlögum til Bændasamtakanna, í mun minni greiðslum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Þá var þeim jafnframt tilkynnt hver yrði meðferð mála varðandi Lífeyrissjóð bænda, að ekki yrði gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingum frá ríkinu inn í greiðslu mótframlaga í fjárlögum ársins 2011.

Til þess hins vegar að auðvelda lífeyrissjóðnum og bændum að laga sig að þessum breytingum var lagt til hér við Alþingi, hvað Alþingi hefur á fallist það ég best veit, að lífeyrissjóðnum yrði veitt einskiptisgreiðsla upp á tæpar 300 millj. kr. sem væri ígildi um tveggja ára hálfs mótframlags eða eins árs fulls mótframlags eins og það hefur verið að undanförnu. Til marks um það að þetta var allt gert í tengslum við þá niðurstöðu sem varð um málefni landbúnaðarins í heild er að þegar gengið var frá búnaðarlagasamningi á haustdögum milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármálaráðherra og Bændasamtakanna fylgdi með bókun fjármálaráðherra um málefni Lífeyrissjóðs bænda þar sem þetta kemur fram, þ.e. að reiknað sé með að ríkið hætti þátttöku greiðslna í sjóðinn, en til að auðvelda Lífeyrissjóði bænda og sjóðfélögum umbreytinguna komi eingreiðsla til lífeyrissjóðsins upp á 294 millj. kr. sem sjóðurinn geti nýtt til að auðvelda sjóðfélögum aðlögun að breyttu fyrirkomulagi og þannig að sjóðurinn leggi síðan sínar áætlanir um að verða sjálfbær til frambúðar.

Þetta skýrir samhengi málsins. Þetta leiddi af þeirri ósk og þeirri forgangsröðun Bændasamtakanna sjálfra að verja búvörusamninginn. Við það verður staðið og fjárveitingar í samræmi við það í fjárlögum næsta árs. Þá er rétt að menn hafi í huga að búvörusamningurinn er verðtryggður og að hluta skerðinga frá fyrri tíð verður skilað til baka upp að vissu þaki. Það mun skila þeim mun meiru til baka sem verðbólga er lægri. Sú útfærsla þýðir að núna í ljósi mjög lágrar verðbólguspár fyrir næsta ár kemur meira af skerðingu frá árinu 2009 til baka en ella hefði orðið miðað við hærri verðbólgu. Það kemur bændum að sjálfsögðu til góða. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þarna fannst sú leið sem var talin skást til að bændur og landbúnaðarútgjöld tækju að sínu leyti á sig a.m.k. verulegan hluta aðlögunar sem aðrir geirar gera en þó á þann hátt sem menn töldu best fyrir greinina, að tryggja framleiðslugrundvöllinn og kjör (Forseti hringir.) bænda í gegnum það með því að hrófla ekki við búvörusamningnum.



[14:49]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa okkur um sjónarmið sín í sambandi við málið. Það sem kemur mjög glögglega fram í ræðu hæstv. ráðherra er að hér er um að ræða skýra og afdráttarlausa stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar um að hætt skuli að greiða það mótframlag sem greitt hefur verið í 40 ár í Lífeyrissjóð bænda. Það mun hafa gríðarlega mikil áhrif á kjör bænda. Þegar menn semja um þessa hluti á vettvangi verðlagsnefndar búvöru og eins þegar menn hafa gert búvörusamninga er ljóst að þeir hafa haft í huga þær greiðslur sem komið hafa frá hinu opinbera inn í Lífeyrissjóð bænda. Það hefur því haft áhrif á samningsniðurstöðuna á þeim tíma í gegnum tíðina.

Nú er hins vegar orðið ljóst að hæstv. ríkisstjórn telur sérstaka ástæðu til að hverfa frá þessum greiðslum. Þetta eru mjög miklar greiðslur. Ég vakti athygli á því strax við 1. umr. fjárlaga í byrjun októbermánaðar og spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þessi mál. Hann staðfesti að svo væri. Hann vakti athygli á því að til þess að standa undir nokkurn veginn óbreyttu fyrirkomulagi án þess að það hefði áhrif á kjör bænda þyrfti verðlagið að hækka um 2%.

Við vitum öll að það eru engar forsendur fyrir slíkum hækkunum við þessar aðstæður núna, alla vega eru mjög erfiðar aðstæður til þess. Bændur hafa þegar tekið á sig heilmiklar skerðingar, bæði vegna búvörusaminganna og einnig vegna þess að þeir hafa haldið aftur af sér í hækkunum á verðlagi.

Það sem blasir við er eftirfarandi:

Verið er að framkvæma 9% sérstaka og varanlega skerðingu á kjörum bænda. Það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur, sama hvernig á málin er horft. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að reynt sé að verja búvörusamningana, en þeir hafa þegar verið skertir, það vitum við, en þessi tíðindi fela í sér 9% varanlega skerðingu á kjörum (Forseti hringir.) bænda. Það er mjög alvarlegur hlutur.



[14:51]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði málshefjanda og ráðherra fyrir að skýra málið ágætlega út fyrir okkur. Það kom fram nokkuð glöggt í máli hæstv. fjármálaráðherra að samráð var haft við bændur um breytinguna, það er vissulega ekki gleðileg breyting eftir áratuga hefð, en þarna var einfaldlega forgangsraðað þannig að valið var að tryggja rekstrargrunn greinarinnar. Forgangsröðunin varð að eiga sér stað og ég held að það hafi verið skynsamleg forgangsröðun. Þess má geta sérstaklega og undirstrika að búvörusamningarnir sem sá sem hér stendur studdi mjög að gerðir væru á sínum tíma, eru verðtryggðir þannig að þeir standa ágjafirnar býsna vel af sér miðað við margt annað. Við sjáum hvað það kostar að hafa ekki samráð í viðkvæmum málum á erfiðum tímum eins og gerðist með heilbrigðisstofnanirnar þar sem fara þurfti í tveggja mánaða samráð eftir á. En nú, eftir samráð, hefur náðst góð niðurstaða þar eða þokkaleg og viðunandi miðað við hvað lagt var upp með. Hæstv. ráðherra hefur skýrt það ágætlega út núna í dag að haft var samráð við bændur um þessa breytingu. Ákvörðun ráðuneytisins er byggð á forgangsröðun greinarinnar sjálfrar eftir samráð við hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans og það skiptir öllu máli upp á samkomulagið. Það hefði að sönnu verið ámælisvert ef tekin hefði verið einhliða ákvörðun í ráðuneyti eða ríkisstjórnum að fara þá leið án samráðs við greinina sjálfa eftir 40 ára samfellda sögu þessa fyrirkomulags.

Það gleður mig því að heyra að hæstv. ráðherra hafði samráð um breytinguna og að rekstrargrundvöllur greinarinnar er tryggður á viðkvæmum tímum þegar að sönnu (Forseti hringir.) hefur verið glímt við hækkun á verði og aðföngum og fleiri slíkum hlutum.



[14:53]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lauk ræðu sinni á því að segja að rekstrargrundvöllur landbúnaðarins væri tryggður. Er hægt að fullyrða það eftir allan þann niðurskurð sem við höfum horft upp á á síðustu árum? Eins og hefur reyndar verið bent á í ræðum var búið að semja um það við bændur að þeir hefðu gert sitt og því lýst hátíðlega yfir af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Hluti af því var að búvörusamningar voru ekki verðtryggðir. Í rauninni voru þar nánast brotin lög, jafnvel voru lög algjörlega brotin. Það var umdeilt á sínum tíma en menn þóttu alla vega ganga býsna langt. Svo leyfa þeir sér að ganga það langt núna að skerða kjör bænda um 9% til viðbótar. Það er búið að vera mjög undarlegt að fylgjast með því hvernig fulltrúar þessarar ríkisstjórnar hafa leyft sér að tala um bændur og samtök þeirra. Hver samfylkingarmaðurinn á eftir öðrum hefur komið upp sérstaklega til þess að hnýta í Bændasamtökin og fundið þeim allt til foráttu. Ég hélt sannast sagna að við þær aðstæður mundi samstarfsflokkurinn Vinstri grænir verja bændastéttina en það hefur nú verið eitthvað annað. Þar er sá flokkur enn eina ferðina kominn í einhvers konar verktöku fyrir Samfylkinguna. Samfylkingarmennirnir koma með einhverjar yfirlýsingar og láta sig svo hverfa. Hvar er til að mynda hæstv. forsætisráðherra sem ekki hefur sést í marga daga eða vikur? (Utanrrh.: Hún var hérna …) En hvað um það.

Samfylkingarmenn koma með alls konar blammeringar en svo mæta vinstri grænir og vinna fyrir þá í verktöku að helstu áhugamálum þeirra. Eitt af þeim áhugamálum er því miður að þrengja stöðugt að bændastéttinni, enda hafa íslenskir jafnaðarmenn löngum haft horn í síðu íslensks landbúnaðar. Ég var að vonast til þess að það yrði einhver breyting þar á eftir að landbúnaðurinn sannaði heldur betur gildi sitt eftir efnahagskrísuna sem við lentum í.

Við skulum vona að ekki komi til þess að bændur, sem almennt eru mjög hógvær stétt sem (Forseti hringir.) lætur lítið fyrir sér fara, (Forseti hringir.) þurfi að taka upp aðferðir franskra starfsbræðra sinna og mæta hér (Forseti hringir.) við þinghúsið með lífrænan áburð eða aðrar vörur til þess að leggja áherslu á mál sitt.



[14:56]
Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkið hefur greitt mótframlag sem atvinnurekandi á móti bændum sem launþegum um langan tíma. Það fyrirkomulag hefur verið hluti af samskiptum ríkis og bænda og þeirri pólitísku stefnu sem fylgt hefur verið í málefnum landbúnaðarins þvert á flokka án þess þó að um það hafi verið samið eða lagaskylda hvílt á ríkinu. Aðkoma ríkisins hefur verið með þeim hætti að Fjársýsla ríkisins hefur innheimt iðgjöld og mótframlög af beingreiðslum bænda sem þeirra njóta. Þeir hafa því ekki þurft að senda sérstakar skilagreinar vegna mótframlagsins. Það fyrirkomulag á eingöngu við um þá bændur sem reikna sér laun. Lögaðilar, þar sem búrekstrarformi er þannig háttað að aðilar að búrekstrinum fá greidd laun mánaðarlega, hafa hins vegar skilað iðgjöldum og mótframlagi beint til sjóðsins.

Í frumvarpi til fjárlaga sem bíður afgreiðslu hér á Alþingi er gert ráð fyrir því að ríkið sem greitt hefur mótframlag sem atvinnurekandi, greiðir tæpar 300 milljónir sem eingreiðslu inn í Lífeyrissjóð bænda. Með þeim hætti lýkur aðkomu ríkissjóðs á þeim greiðslum og kemur ekki til frekara framlags af hálfu ríkisins í Lífeyrissjóð bænda. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram var haft samráð við bændur um lyktir þessa máls með framangreindum hætti. Það er þó ekki þar með sagt að full sátt sé um það af hálfu bænda og skiljanlegt að um það séu skiptar skoðanir. Það er ljóst að bændur taka með þessu á sig kjaraskerðingu sem nemur því framlagi sem ríkið hefur til þessa innt af hendi í lífeyrissjóðinn, þ.e. 8% mótframlag atvinnurekenda.

Ég vil að lokum benda á í þessu samhengi að í almennri umræðu og oft í umræðu um Evrópusambandið hafa ýmsir haldið því fram að bændur hafi notið sérstakrar verndar ríkisins varðandi kjör sín, þótt sú sem hér stendur hafi ekki tekið undir þau sjónarmið.



[14:58]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hér og segir að bændur geti ekki verið ónæmir fyrir þeim niðurskurði sem orðið hefur í kjölfar efnahagshrunsins. Það er nú ekki aldeilis svo að ekki hafi verið skert kjör til bænda. Það hafa sennilega fáar stéttir ef nokkrar tekið á sig aðrar eins skerðingar og bændastéttin hefur þurft að gera frá hruni. Það má nefna að framlög til Framleiðnisjóðs hafa nánast alveg verið felld niður. Framlög í búnaðarlagasamning hafa verið skert verulega. Lengi má telja dæmi um hvernig komið hefur verið fram við þessa stétt sem er annars mjög veikburða og á erfitt uppdráttar en sér okkur samt fyrir mikilvægri framleiðslu sem þjóðin getur ekki verið án og hana þarf að styrkja miklu meira en gert hefur verið.

Enn er höggvið í sama knérunn. Hér eru skert kjör þessarar láglaunastéttar um tæp 9% — tæp 9 %, virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki hægt að kalla samráð þegar hópi manna, þessari stétt, er stillt upp við vegg og henni settir afarkostir um að enn og aftur þurfi að skera niður. Það er ekkert annað en uppstilling, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur það í hendi sér þegar hún hyggst beita krafti sínum með þeim hætti.

Bændur geta ekki jafnað skerðinguna í afurðaverði við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag, það er alveg ljóst. Eðlilegast væri að skerðingin færi beint út í afurðaverðið og neytendur greiddu hana. Hvaða áhrif hefði það þá á verðbólgu, á afkomu heimilanna o.s.frv.? Það er hluti af miklu stærra dæmi sem verður að taka til greina og skoða þegar svona ákvarðanir eru teknar.

Ríkið er samningsaðili við aðrar stéttir í þessu landi í gegnum Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Þar eru lífeyrissjóðir sem njóta ríkisábyrgðar — ríkisábyrgðar. Þar hafa skuldbindingar ríkisins hækkað stórkostlega frá hruni. Hvað mundu þau samtök segja ef ríkisstjórnin hagaði sér með sama hætti og skerti þar greiðslur eða lækkuðu laun einhliða? Ríkisstjórnin treystir sér ekki í þann slag, virðulegi forseti.



[15:00]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég endaði ræðu mína áðan á að segja að grunnur greinarinnar væri að verulegu leyti tryggður með því að standa vörð um búvörusamninginn sem er verðtryggður og hlýtur að skipta bændur og búalið verulega miklu máli. Ég fagnaði því alveg sérstaklega af því að ég hef alltaf greitt atkvæði með gerð búvörusamninga þau átta ár sem ég hef verið á Alþingi og alltaf staðið mjög vörð um þessa grein. Búvörusamningarnir, framleiðslustyrkirnir, beingreiðslurnar til bænda ásamt ákveðinni tollvernd fyrir aðrar greinar eru að mörgu leyti grundvöllur greinarinnar. Á því fyrirkomulagi hvílir greinin. Þess vegna er mjög viðkvæmt að hrófla við undirstöðunni, sérstaklega á erfiðum tímum þegar aðföng og annað umhverfi bænda eins og annarra atvinnurekenda og heimili í landinu hafa orðið fyrir áföllum. Þess vegna fagnaði ég því að hæstv. ráðherra hefði haft samráð við greinina þegar kom til þess að þurfti að forgangsraða um hvernig málum skyldi komið fyrir við þessa fjárlagagerð. Það hefur verið valið að standa vörð um búvörusamningana. Þess vegna undraðist ég líka mjög ræðu hjá hv. þingmanni, formanni Framsóknarflokksins, sem eyddi held ég helmingnum af tíma sínum í að dylgja um að þingmenn Samfylkingar og jafnaðarmanna legðu megnið af tíma sínum í að hafa horn í síðu bænda og þrengja að stöðu þeirra. Þetta er fráleitur málflutningur. Ég hvet hv. þingmann til að fara í gegnum atkvæðagreiðslu síðustu 10 ára, til að nefna eitthvert tímabil, og sjá hvernig þingmenn jafnaðarmanna hafa greitt atkvæði þegar gerðir hafa verið búvörusamningar við bændur sem eru algjört grundvallaratriði til að standa vörð um þessa viðkvæmu og mikilvægu grein.



[15:02]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar. Þær staðfesta reyndar það sem ég sagði, að ekki væri lagaskylda fyrir því að standa við gerða samninga, en ég spurði hæstv. ráðherra hvort honum fyndist ekki eðlilegt engu að síður að virða slíka samninga sem hafa staðið í 40 ár og fara þá í samráð.

Hér hefur nokkuð verið talað um samráð. Það getur vel verið að menn hafi mismunandi skilning á samráði. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hélt hann trúnaðarfund með einhverjum í Bændahöllinni um það að til stæði að taka 9% niðurskurð á búvörusamninginn ef ekki fyndist önnur leið. Það varð auðvitað uppi ramakvein og menn hafa bæði sent bréf til ráðherra og farið á fund hæstv. ráðherra og eins til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þar fengum við bréf í hendur sem er undirritað annars vegar af framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins og hins vegar formanni Bændasamtaka Íslands 8. júlí þar sem þeir fara fram á viðræður. Bréfið er upp á eina fjóra liði þar sem þeir koma með tillögur að úrbótum — og þeir hafa ekki enn þá fengið svar. Það getur vel verið að samráðið sé fólgið í því að halda hótunarfundi um vorið og skila síðan afrakstri þess samráðs sem tillögum í fjárlagafrumvarpi svona undir jól. Ég hefði talið eðlilegra að gera það öðruvísi.

Í ágætri fyrirspurn hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um framfærslugrunn komu fram lágar tölur. Það eru sömu lágu tölurnar og bændur greiða laun af og er síðan reiknað endurgjald inn í Lífeyrissjóð bænda. Engu að síður telur hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin sig þess umkominn að skerða þessar tekjur um 9%. Ég spyr alla hæstv. ríkisstjórn hvort hún telji sig þess umkomna að lækka lægstu laun í landinu um 9% líka.



[15:04]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma fram af minni hálfu að bændur hafa tekið mjög ábyrgt á þessum málum nú eins og endranær og verður manni þá hugsað til þess lykilhlutverks sem Bændasamtökin og landbúnaðurinn léku í gerð þjóðarsáttarinnar á sínum tíma. Ég tel að samskipti við bændur hafi verið til fyrirmyndar. Að sjálfsögðu eru þeir ekki ánægðir með niðurskurð á samdráttartímum frekar en nokkur annar aðili, en ég tel að menn hafi gert sitt besta til að leita sameiginlegra leiða til að finna skástu leiðirnar sem í boði voru.

Sú bókun sem ég gerði um málefni Lífeyrissjóðs bænda er tengd við gerð búnaðarlagasamningsins sem undirritaður var 20. október sl. Hún er að sjálfsögðu einhliða, en hún var kynnt bændum fyrir fram og þeir vissu hvað í vændum væri, sem og lífeyrissjóðurinn. Ég átti fund með stjórn lífeyrissjóðsins síðsumars eftir að ég hafði fengið frá þeim nefnt bréf.

Ég held að ástæða sé til að rifja þá upp að búvörusamningurinn var skertur með ákvörðun í desember 2008 án þess að neinar lagaheimildir stæðu til þess. Ég gekk í það á útmánuðum að reyna að ná samkomulagi um hvernig það yrði gert þannig að það stæði ekki bara járn í járn. Það tókst sem betur fer og það er síðan það samkomulag sem nú er verið að standa við og efna. Það er bændum mjög hagstætt núna eins og ég segi vegna þess að útfærslan er þannig að þeim mun lægri sem verðbólgan er, þeim mun meira af skerðingunni frá fyrri tíð kemur til baka. Þess vegna tel ég líka að bændur hafi valið hárréttan kost í þessum efnum, að tryggja það sem mikilvægast er sem er þessi stóri grundvöllur framleiðslunnar þar sem langstærstu fjárhæðirnar eru á ferðinni, framlög úr ríkissjóði upp á 10–11 milljarða kr.

Það er rangt að halda því fram að það sé þegar orðin 9% skerðing á kjörum bænda af þessum sökum. Tæplega 300 millj. kr. eingreiðsla til lífeyrissjóðsins dugir t.d. til greiðslu 4% mótframlags í tvö ár ef út í það er farið. Ef lífeyrissjóðurinn velur að nota þá leið til aðlögunar er auðvitað stallurinn mun minni sem menn þurfa þar að ráðast á. Fyrirkomulagið var hins vegar mjög óhefðbundið. Menn hljóta að velta því fyrir sér hversu líklegt væri að það stæðist til frambúðar (Forseti hringir.) að ríkið greiddi mótframlög fyrir hönd tiltekinnar atvinnugreinar inn í lífeyrissjóð hennar. Þess vegna held ég að þessum samskiptum hefði hvort sem er þurft einhvern veginn að koma í farveg, áfram verða búvörusamningar og búnaðarlagasamningar við lýði (Forseti hringir.) þannig að þar geta menn stillt af þær fjárhæðir sem þeir telja á hverjum tíma að hægt sé að leggja til landbúnaðarins.