139. löggjafarþing — 40. fundur
 30. nóvember 2010.
greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl., 3. umræða.
frv. fél.- og trn., 152. mál (framkvæmd og virkni greiðsluaðlögunar). — Þskj. 362, frhnál. 366.

[15:07]
Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga og fleiri lögum.

Nefndin ákvað að kalla málið inn til nefndar milli 2. og 3. umr. til að ræða möguleg áhrif hæstaréttardóms um ábyrgðir á frumvarpið. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Áslaugu Árnadóttur lögfræðing, sem einnig kom fyrir hönd þess ráðuneytis, fulltrúa frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, fulltrúa frá umboðsmanni skuldara auk umboðsmanns skuldara sjálfs.

Nefndin ræddi frumvarpið og stöðu greiðsluaðlögunar í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 274/2010 þar sem Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Suðurlands um að kröfuréttur á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og að þau réttindi yrðu ekki skert án bóta með afturvirkri löggjöf. Staðfesti Hæstiréttur að 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sbr. 12. gr. laganna, þar sem kveðið er á um með afturvirkum hætti að niðurfelling kröfu á hendur skuldara hafi sömu áhrif til niðurfellingar fyrir ábyrgðarmann, væri andstæð stjórnarskrá og yrði því ekki beitt um ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanna á greiðslum samkvæmt skuldabréfi. Ábyrgðarmönnum bæri því að greiða umkrafða fjárhæð.

Nefndin bendir á að dómur Hæstaréttar hefur ekki bein áhrif á greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010 sem tóku gildi 1. ágúst 2010 og ekki á fyrirliggjandi frumvarp. Dómurinn hefur fyrst og fremst áhrif á nauðasamninga til greiðsluaðlögunar sem gerðir voru fyrir gildistöku þeirra laga og þar sem er í nauðasamningi kveðið á um niðurfellingu krafna sem tryggðar eru með sjálfskuldarábyrgð. Samkvæmt upplýsingum á vef dómstólaráðs höfðu 31. júlí 2010 546 slíkir nauðasamningar til greiðsluaðlögunar verið samþykktir en ekki liggur fyrir hversu hátt hlutfall þeirra verður fyrir áhrifum af dómi Hæstaréttar. Það skal tekið fram hér að fulltrúar frá umboðsmanni skuldara sögðu að það væri mjög algengt að um ábyrgðarmenn væri að ræða í þeim málum sem koma til kasta umboðsmanns skuldara vegna greiðsluaðlögunar þannig að það sé brýnt að finna viðunandi lausn á stöðu ábyrgðarmanna þegar kemur að greiðsluaðlögun.

Eftir gildistöku laga nr. 101/2010 er ávallt reynt að ná fram samningi um greiðsluaðlögun og ekki kemur til nauðasamnings nema samningaleiðin sé reynd til þrautar. Ekkert er því til fyrirstöðu að í slíkum samningi sé samið við kröfuhafa hvernig fara skuli með ábyrgðir og leggur nefndin ríka áherslu á að umsjónarmenn um greiðsluaðlögun gæti að því að semja um slíkt við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Nefndin telur mikilvægt að meðferð kröfuhafa á sjálfskuldarábyrgðum og ábyrgðarmönnum sé samræmd og verði ekki til þess að fjölga þeim sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Því beinir nefndin því til ráðuneyta sem fara með framkvæmd laga er varða skuldavanda heimilanna að leita eftir samkomulagi við helstu aðila, svo sem banka, sparisjóði, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð, þar sem samið verði um samræmda meðferð sjálfskuldarábyrgða sem jafnframt tryggi að fleiri einstaklingar lendi ekki í greiðsluerfiðleikum. Nauðsynlegt er að tryggja virkni greiðsluaðlögunar og annarra skuldavandaúrræða sem og að kröfuhafar grípi ekki til aðgerða sem fjölgi þeim sem þurfa á slíkum úrræðum að halda.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálit þetta rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir



[15:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er lagt fram til þess að sníða ákveðna galla af lögunum um greiðsluaðlögun sem fram koma við framkvæmdina, enda höfum við þingmenn sem sitjum í félags- og tryggingamálanefnd haldið því á lofti frá því að við byrjuðum að breyta þessum lögum og betrumbæta þau að öll sú vinna hafi verið unnin í miklum flýti. Þess vegna var ljóst að það þyrfti að fylgjast vel með framkvæmdinni og því með hvaða hætti þyrfti að bæta löggjöfina. Hér er einn liður í því.

Það er mín skoðun að við séum hins vegar ekki búin og það sé mikilvægt að nefndin starfi áfram að því verkefni að fylgjast vel með. Atriði sem þarf m.a. að skoða er sú framkvæmd sem umboðsmaður skuldara fer nú með. Eftir því sem málunum fjölgar sem fara þar í gegn lærum við meira og sjáum betur hverju þarf að breyta í þessari löggjöf. Auðvitað er ekki til fyrirmyndar að haga málum með þessum hætti, en hins vegar tókum við þá afstöðu í nefndinni í sumar að það þyrfti að hafa hraðar hendur, gera sitt besta og bæta þá frekar í þegar fram í sækti og reynslan kenndi okkur hvað þyrfti að laga.

Á fundinum í dag fórum við yfir, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á, það hvaða áhrif dómur Hæstaréttar hefði á þessa löggjöf. Niðurstaðan liggur fyrir í nefndarálitinu. Það er mikilvægt að taka það mál upp þrátt fyrir að við leggjum hér ekki til breytingar á því frumvarpi sem við ræðum. Það er mjög mikilvægt að vel sé farið yfir hæstaréttardóminn og teknar þá upp nauðsynlegar breytingar í kjölfar hans.

Eina færa leiðin sem við sjáum út úr þessu gagnvart greiðsluaðlöguninni sjálfri, þar sem dómur Hæstaréttar kveður mjög skýrt á um að ekki sé hægt að taka ábyrgðarmennina sjálfkrafa út úr menginu, er sú að menn semji sín á milli, þ.e. að kröfuhafarnir, skuldarinn og þá ábyrgðarmennirnir semji um það við greiðsluaðlögunina með hvaða hætti ábyrgðirnar eiga að gilda og þá væntanlega að tekið sé tillit til félagslegra aðstæðna og þær felldar niður ef skuldarinn sjálfur fer í greiðsluaðlögun. Þetta er það besta sem hægt er að gera í stöðunni eins og hún er í dag.

Ég vona einfaldlega að þetta frumvarp, verði það að lögum seinna í dag, verði til bóta enda mikilvægt eins og fram kom í fyrri umræðu um það að það verði að lögum fyrir mánaðamót vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það er mikilvægt og þess vegna styð ég þetta mál og mun veita því samþykki við atkvæðagreiðsluna þegar hún fer fram.



[15:15]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leggja örfá orð í belg vegna þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar eftir að hv. nefnd tók málið til meðferðar milli 2. og 3. umr. Ég vil nota tækifærið og þakka nefndinni og hv. þingmanni, formanni nefndarinnar, fyrir að taka málið til efnislegrar umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Ég vakti athygli á því í andsvari við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur við 2. umr. málsins að Hæstiréttur hefði fellt dóm í máli ábyrgðarmanna sem varðaði stöðu þeirra ábyrgðarmanna sem gengið hefðu í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldbindingum aðalskuldara og réttarstöðu kröfuhafa gagnvart þeim út frá ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ég velti því fyrir mér hvort sá dómur hefði einhver áhrif á ákvæði þessa frumvarps og hvort taka þyrfti tillit til dómanna við meðferð þessa máls. Það hefur nefndin nú gert. Eftir því sem mér heyrðist á hv. þingmanni þegar hún fór yfir framhaldsnefndarálit nefndarinnar sem allir hv. nefndarmenn skrifa undir, hefur sá dómur ekki áhrif á efnisatriði þessa máls. Ég þakka fyrir þá yfirferð. Eftir stendur hins vegar að menn þurfa að komast að einhverri niðurstöðu um stöðu þeirra ábyrgðarmanna sem leitað hafa greiðsluaðlögunar. Eftir því sem mér skildist á ræðu hv. þingmanns hafa hv. nefndarmenn komist að þeirri niðurstöðu að það vandamál verði helst leyst með samkomulagi við fjármálastofnanir. Það er von mín eins og annarra að slíkt samkomulag náist þannig að núverandi fyrirkomulag leiði ekki til þess að fleiri lendi í súpunni en ástæða er til. Þá á ég við skuldavanda og greiðsluvanda. Nú veit ég svo sem ekki hversu fús fjármálafyrirtækin eru til að ganga til samninga, en við skulum vona að viðhorfin innan fjármálafyrirtækjanna séu þannig að menn sjái sér hag í því og sjái þá nauðsyn sem þjóðfélagið hefur af því að ekki sé gengið að ábyrgðarmönnum skuldbindinga vegna skulda þeirra sem leitað hafa eftir greiðsluaðlögun, þannig að menn fái fullnustu krafna sinna bakdyramegin, ef svo má segja.

Ég vildi bara nota tækifærið í þessari stuttu ræðu til að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og nefndarmönnum öllum fyrir að taka málið til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og fyrir að gefa þessum atriðum gaum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi forsögu lagasetningarinnar um ábyrgðarmenn og þeirra ábendinga sem komu fram við meðferð þess máls á þinginu en ekki var tekið tillit til. Þar bera auðvitað margir ábyrgð, en ég held að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru þá eigi að vera okkur víti til varnaðar þegar farið verður yfir þann málaflokk sem frumvarpið varðar.



[15:19]
Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þakkir hans í garð nefndarinnar. Ég taldi rétt að koma upp og árétta að á fundi nefndarinnar fyrr í dag þar sem umboðsmaður skuldara og ýmsir aðrir komu, eins og ég taldi upp í nefndaráliti, kom fram að afstaða umboðsmanns skuldara var mjög skýr, að mikilvægt væri að ná heildarsamkomulagi. Það eru fáir eins vel að sér í greiðsluaðlögunarúrræðum og umboðsmaður skuldara og taldi hún að mjög erfitt væri að ná fram vernd fyrir ábyrgðarmenn með löggjöf eins og dómur Hæstaréttar hefur sýnt og að mjög mikilvægt væri að ná heildarsamkomulagi við kröfuhafa. Þess vegna ákvað nefndin að skrifa framhaldsnefndarálit þótt ekki sé um breytingar á frumvarpinu að ræða til að ítreka að löggjafinn er sama sinnis og að við teljum brýnt að samkomulag náist um þessi efni svo þau úrræði sem við erum að smíða lendi ekki í uppnámi. Við munum senda nefndarálitið til allra sem hlut eiga að máli til að sú afstaða löggjafans komi skýrt fram, að okkur er mikið í mun að aðilar komist að samkomulagi.



[15:21]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin í þá stöðu að ég veiti hv. þingmanni ekki andsvar heldur meðsvar vegna þess að ég er hjartanlega sammála henni um að auðvitað er mjög mikilvægt að eitthvert heildarsamkomulag náist milli þeirra sem að þessum málum koma og hagsmuni eiga, hvort sem það eru fjármálastofnanir eða skuldarar. Ég lýsi mig hjartanlega sammála þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsti og fram komu hjá umboðsmanni skuldara um mikilvægi þess að slíkt samkomulag skyldi nást.

Ég fagna því sömuleiðis að nefndin hafi séð ástæðu til að senda frá sér framhaldsnefndarálit til að árétta sjónarmið sín varðandi lausn þessara mála og hyggist koma þeim á framfæri við alla hlutaðeigandi.

Ég fæ ekki betur séð en að við séum meira og minna sammála um meginatriðin í þessu máli. Það er auðvitað þakkarvert og gleðilegt.



[15:22]
Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Það er þannig, hv. þingmaður, við segjum nánast öll það sama. Ég vil lýsa ánægju minni með þau vinnubrögð sem viðhöfð voru hjá nefndinni við það að taka málið aftur inn milli 2. og 3. umr. og skila framhaldsnefndaráliti. Ég tel að þau vinnubrögð mætti hafa til fyrirmyndar í öðrum nefndum.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan um að nefndin þyrfti að fylgja þessu eftir. Hv. formaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom líka inn á það áðan að þau fengu umboðsmann skuldara á sinn fund og fóru yfir málin. En ég tek undir það sem margir hafa bent á úr þessum ræðustól, ekki bara í þessu máli heldur líka öðrum, í ljósi þess hvernig ástandið er varðandi skuldavandamál heimilanna og annað, að mörg af þeim lögum og ýmislegt annað sem kemur frá þinginu er því miður unnið í miklum flýti. Þingið verður því að fylgja málum eftir á þann hátt sem það getur best og hafa eftirlit með því og bregðast fljótt við eins og gert var í þessu tilviki, þegar laga þarf og bæta.



[15:24]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir allt sem hv. þingmaður sagði. Mér falla mjög vel þau sjónarmið sem þarna komu fram gagnvart því sem fram kom í máli mínu og sömuleiðis hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.

Það var eitt atriði sem hv. þm. Íris Róbertsdóttir nefndi sem er auðvitað hárrétt og tengist ekki beint þessari lagasetningu heldur lagasetningu um skuldavanda heimila og fyrirtækja almennt. Það er að þau frumvörp sem farið hafa í gegnum þingið hafa fengið býsna harðsoðna og hraðsoðna meðferð. Dæmin sanna að hér hafa orðið mistök, ekki bara vegna þess að dómstólar hafa talið ákvæði frumvarpanna og laganna brjóta í bága við grundvallarlögin, ákvæði stjórnarskrárinnar, heldur einnig vegna þess að ýmis atriði hafa fallið milli skips og bryggju og frumvörpin hafa ekki öll náð fram þeim markmiðum sem að var stefnt annars vegar. Hins vegar hafa ýmsir aðilar talið að með þeim lögum sem sett hafa verið varðandi skuldavanda fyrirtækja og heimila hafi verið brotin réttur á ýmsum hópum þessa samfélags.

Þess vegna hef ég lagt áherslu á og lagt fram frumvörp um að öll dómsmál í svokölluðum hrunmálum fái flýtimeðferð í dómskerfinu. Ég lagði það til, bæði í sumar og í upphafi þessa þings, að þeim málum verði hraðað í gegnum dómskerfið vegna mikilvægi þeirra, að þau fái niðurstöðu.

Því miður hefur það frumvarp ekki fengið framgang í þinginu. Ég vonast til að (Forseti hringir.) hv. formaður nefndarinnar muni taka undir þau sjónarmið mín að hrunmálin eigi að fá skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu (Forseti hringir.) þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar hafi ekki enn þá tekið undir slík sjónarmið.



[15:26]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum framhaldsnefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd sem kom saman í hádeginu í dag til að ræða dóm Hæstaréttar. Það er mjög brýnt að málið varðandi breytingar á lögunum fari í gegn vegna þess að segja má að námsmenn bíði eftir úrlausn mála sinna og miðað er við að það verði að lögum, helst í dag, þannig að um næstu mánaðamót sé hægt að greiða úr vanda þeirra.

Dóm Hæstaréttar þurfti hins vegar að ræða í nefndinni vegna þess að þessi mál komu öll mjög nálægt því sem hann dæmdi í, þ.e. um að lánsveð og ábyrgðir haldi og að ekki megi víkja frá þeim. Ég held að menn þurfi að taka það mjög alvarlega. Við höfum fengið nokkrum sinnum dóma frá Hæstarétti sem segja að lög séu andstæð stjórnarskrá. Við, hv. þingmenn sem höfum svarið stjórnarskránni eið, verðum að taka það mjög alvarlega þegar slík mistök verða því að auðvitað er um mistök að ræða. Ég nefni t.d. kvótamálið og öryrkjadóminn sem leiddi á sínum tíma til þess að menn gripu mjög hratt til ráðstafana til að laga og breyta lagasetningunni. Síðan kemur dómur um ábyrgðarmenn núna. Ég tel að Alþingi og nefndir þingsins þurfi að taka það mjög alvarlega af því að við erum löggjafinn, ekki framkvæmdarvaldið. Hv. nefndir þingsins sem málið varðar verða að taka þessi mál mjög föstum tökum. Ég legg til að þær kanni það í janúar, fái gesti og aðra slíka til að upplýsa sig og skoða hvernig hægt er að breyta lögunum þannig að þau standist stjórnarskrá. Ég tel mjög brýnt að það sé gert.

Hins vegar tel ég dálítið slæmt að Hæstiréttur sé ekki fullskipaður þegar hann tekur svona afdrifaríkar ákvarðanir. Ég hefði lagt til að hann væri fullskipaður þegar hann fer í hlutverk stjórnlagadómstóls, þ.e. dæmir um hvort lagasetning stenst stjórnarskrá, en það stendur ekkert um Hæstarétt í núverandi stjórnarskrá og það eru engin lög um að hann skuli vera fullskipaður í slíkum dæmum. Það er eitthvað sem við þyrftum að skoða.

Fallið hafa fleiri dómar eins og t.d. gengistryggingardómurinn sem var afskaplega veigamikill og hafði gífurlega mikil áhrif úti um allt þjóðfélagið. Í slíku tilfelli hefði mér þótt betra að Hæstiréttur væri fullskipaður.

Svo hafa fallið dómar erlendis. Mannréttindadómstóll Evrópu felldi dóm um að iðnaðarmálagjaldið bryti mannréttindi. Það er fjöldinn allur af öðrum lögum sem eru algjörlega sambærileg, jafnvel verri. Ég er dálítið undrandi á því að menn taka þau mannréttindi öðrum tökum en önnur mannréttindi, að menn skuli ekki hafa tekið sér tak núna og farið í vinnu á hv. Alþingi, því að Alþingi er jú löggjafarvaldið, við að breyta lögum þannig að við skemmum ekki og meiðum ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Þar er um fjöldann allan af málum að ræða sem ég hef reyndar flutt um nokkuð mörg frumvörp nokkuð mörgum sinnum, eins og um búnaðargjald o.s.frv.

Ég fellst á þá niðurstöðu að nefndarálitið skori á aðila að koma saman. Ég tel mjög brýnt, og það er í allra þágu, að samkomulag sé gert milli aðila. Það er í einskis þágu að margir lendi á vergangi út af þessu. Ég treysti á að þeir aðilar sem að þessum málum koma, bankar og fjármálastofnanir og umboðsmaður skuldara og fleiri, vinni gott samkomulag sem nái til sem flestra aðila og leysi þann vanda sem kominn er upp. Hv. Alþingi þarf að samþykkja lög eða breytingar á lögum til að þau stangist ekki á við stjórnarskrá.



[15:31]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið nú þegar við ræðum við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun og þakka formanni nefndarinnar og nefndinni allri. Kannski var meginástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs, líkt og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði við 1. umr. eða 2. umr. málsins, sú að vekja sérstaka athygli á því hversu vel nefndin hefur unnið saman, hversu samhent hún hefur verið í málinu og komist vel frá því. Mættu í rauninni flestar eða alla vega margar nefndir þingsins taka það starf sér til fyrirmyndar.

Greiðsluaðlögun er afar mikilvægt úrræði. Það er mikilvægt að við klárum þetta mál í dag eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna. Við höfum heyrt frá umboðsmanni skuldara að mikilvægt sé að þeir einstaklingar sem þurfa á aðstoð að halda komi þangað inn. Þess vegna var mikilvægt, eins og komið hefur fram í máli þingmanna, að ræða þau atriði sem komu upp í kjölfar dóms Hæstaréttar um ábyrgðarmenn. Um það mál hafa aðrir þingmenn rætt og ég get tekið undir margt af þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið. Það sem þetta segir okkur hins vegar er hversu gamalt og í rauninni gallað og úrelt kerfið var, að telja til ábyrgðarmenn héðan og þaðan og alls staðar að úr fjölskyldum manna og oft og tíðum undirselja heilu fjölskyldurnar og jafnvel ættbálkana fyrir það eitt að einhver fjölskyldumeðlimur ætlaði að kaupa sér þak yfir höfuðið. Það er náttúrlega ófært fyrirkomulag og við þurfum að komast út úr því.

Nefndin tók á þessu máli á fundi sínum í dag, eins og fram kom. Ég tel að sú niðurstaða sem nefndin kemst að sé afar skynsamleg. Það þarf að ná sáttum og samkomulagi um þessi mál. Ég tel raunar að þrátt fyrir að um sé að ræða einhvers konar heildarsamkomulag, eins og hefur m.a. komið fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, verði í einhverjum tilvikum að semja sérstaklega um einstök mál og taka þá tillit til aðstæðna eins og fleiri þingmenn en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafa komið inn á.

Ég tel að umboðsmaður skuldara sé að vinna gott verk. Embættið þarf stuðning í þeirri lagasetningu sem við erum að ganga frá. Ég tel ekki að þetta sé smiðshöggið á þá lagasetningu, það þarf að fylgjast með því hvernig úrræðið virkar og tryggja að lagaumgjörðin sem er utan um þennan mikilvæga málaflokk sé nægilega traust og góð til þess að við getum notað embættið og úrræðin til að aðstoða fjölskyldur í vanda.