139. löggjafarþing — 42. fundur
 6. desember 2010.
úthlutun sæta á stjórnlagaþing.

[15:35]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um þarsíðustu helgi fóru fram kosningar til stjórnlagaþings og voru sett sérlög um kosningar til þess. Í 14. gr. laganna í 2. tölulið er sætishlutur útskýrður, með leyfi forseta:

„Ákvarða skal sætishlut listans með þeim hætti að deila tölu gildra atkvæða með 26.“ — Talan 26 er fundin út frá því að 25 sæti eru í boði plús 1 vegna reiknireglna. Gild atkvæði voru 82.500, kjörsókn um 37%, afar dræm, þannig að sætishlutur er 3.167 samkvæmt þessari reiknireglu.

Um 14. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er lagt til að í persónukjöri til stjórnlagaþings verði beitt svonefndri forgangsröðunaraðferð. […] Ferli þess að raða frambjóðendum til stjórnlagaþings í sæti samkvæmt úrslitum persónukjörsins er lýst í átta töluliðum.“ — Og nú ætla ég að lesa það sem segir um 2. tölulið, með leyfi forseta:

„Í 2. tölulið er svonefndur sætishlutur skilgreindur. Sætishlutur segir til um það atkvæðamagn sem frambjóðandi þarf að ná til að ná kjöri. Við útreikning á sætishlut er beitt svonefndri Droops-aðferð […] Hugsunin að baki sætishlut Droops er sú að aldrei geti fleiri frambjóðendur komist í senn yfir þennan þröskuld en svarar til tölu þingsæta.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Nú komust einungis ellefu frambjóðendur yfir þennan sætishluta, upp á 3.167. Hefur hæstv. forsætisráðherra gert sér grein fyrir því að gefin hafa verið út kjörbréf til 14 aðila sem ekki náðu þessum (Forseti hringir.) sætishlut samkvæmt lögunum?



[15:37]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér er greinilega ekkert óviðkomandi. Það er nú landskjörstjórn sem hefur þetta með höndum og ef það eru einhver vafaatriði eða álitamál er það hennar að úrskurða í því efni. Ég veit ekki betur en að hún hafi gefið út kjörbréf þannig að það hlýtur að hafa verið rétt og eðlilega að öllu þessu staðið. Enda veit ég ekki betur og sýnist að hún sé mjög vel mönnuð og kunni vel til verka. Ég er þess vegna alveg klár á því að hún kunni að lesa í öll lög sem um þetta hafa verið sett og telji að ekkert hafi verið að, enda hafa, eins og ég sagði, verið gefin út kjörbréf.



[15:38]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til að landskjörstjórn kom á fund allsherjarnefndar í morgun að beiðni þeirrar sem hér stendur til að fara yfir þessi mál. Ekki vildi betur til en svo að landskjörstjórn fékk allt of lítinn tíma og var að lokum vísað út frá allsherjarnefnd vegna þess að aðrir gesti áttu að koma fyrir nefndina. Sem varð síðan ekki.

Þetta mál liggur hér í mikilli óvissu vegna þess að fulltrúar landskjörstjórnar tóku undir þennan málflutning, að um þennan sætishlut væri að ræða. Málið er því kannski ekki lengur hjá landskjörstjórn vegna þess að landskjörstjórn virðist hafa sést yfir þetta atriði. Málið liggur því e.t.v. hjá Hæstarétti því að þegar landskjörstjórn hefur skilað kjörbréfum er um eina leið að ræða til að fá mál á hreint, það er að kæra málið til Hæstaréttar.