139. löggjafarþing — 43. fundur
 7. desember 2010.
mannvirki, 2. umræða.
stjfrv., 78. mál (heildarlög). — Þskj. 82, nál. 349, brtt. 350.

[15:56]
Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Eins og fram hefur komið mæli ég fyrir nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um mannvirki, sem er 78. mál þingsins. Frumvarpinu er ásamt skipulagslögum, sem nú hafa númerið 123/2010, og voru samþykkt í september, ætlað að koma í stað núgildandi skipulags- og byggingarlaga og mannvirkjafrumvarpið var á síðasta þingi lagt fram samhliða skipulagslagafrumvarpinu og reyndar brunavarnabreytingafrumvarpi sem líka er á dagskrá í dag. Þessi þrjú frumvörp frá síðasta þingi tengjast þannig að ekki er hægt að slíta þau í sundur.

Sams konar frumvörp höfðu áður verið lögð fram á 133. og 135. þingi og raunar nær saga þessarar lagabreytingar átta ár aftur í tímann því að hún var hafin árið 2002 og það væri töluverður áfangi fyrir þingið og fyrir framþróun í þessum málaflokki ef okkur tækist að koma þessi verki af fyrir jól. Raunar var álit manna það, þegar við á síðasta þingi ræddum þetta mál við gesti og ráðgjafa, að ef þetta gæti ekki orðið á þessu ári eða á einhverjum slíkum tíma væri rökréttara að hefja verkið upp á nýtt og það gæti þá tekið önnur átta ár. Þannig má þetta ekki ganga þó að um erfiða hluti sé að tefla og tæknilega flókin mál víða á þessum vettvangi.

Skipulagslögin frá í september taka sem sé gildi 1. janúar 2011, um næstu áramót, og þá skorti nefndina tíma og svigrúm til að ljúka umfjöllun um hin frumvörpin tvö og tók þann kostinn að reyna að ná skipulagsfrumvarpinu, gera það að lögum og þingið samsinnti því. Þau frumvörp tvö sem eftir voru voru endurflutt nánast óbreytt núna snemma haustþings og hafa eðli málsins samkvæmt verið rædd samhliða í umhverfisnefnd. Nefndin ákvað að nýta umsagnirnar frá því í fyrra en gaf þeim þó kost á að senda inn nýjar umsagnir eða eins konar viðbótarumsagnir sem höfðu gert það í fyrra. Einhver mistök kunna að hafa orðið við þetta verk, sem ég bið forláts á fyrir okkar hönd, en að mestu gekk þetta svona. Flestar umsagnirnar sem bárust nú voru nokkurn veginn samhljóða því sem var á síðasta þingi.

Umfjöllunin fyrir 2. umr. bar nokkurn keim af þessu þannig að nefndin bauð ekki til sín gestafjöld, ákvað að geyma það til 3. umr. en studdist við munnlegar umsagnir og álit þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar í september á síðasta þingi.

Í þessu frumvarpi um mannvirki eru lögð til ýmis nýmæli, eins og segir í nefndaráliti, til að mynda að greint verði milli skipulagsmála og byggingarmála eins og gert er ráð fyrir í skipulagslögunum, ábyrgð aðila verði skýrð, reglur verði settar um rannsóknir um tjón á mannvirkjum og að sett verði á fót ný stofnun sem hafi eftirlit með framkvæmd laganna auk ýmissa annarra verkefna, þar á meðal núverandi verkefna Brunamálastofnunar sem lögð verður niður. Um er að ræða tvær stofnanir fyrir annars vegar Skipulagsstofnun og hins vegar Brunamálastofnun, sem skipti verkefnum sínum með öðrum hætti og verði að lokum að annars vegar Skipulagsstofnun og hins vegar því sem í frumvarpinu er kallað Byggingarstofnun en nefndin leggur til að kallað verði Mannvirkjastofnun í samræmi við heiti frumvarpsins þó að fullu samræmi verði nú ekki náð í þetta. Kannski verður það seint því að annars vegar er Mannvirkjastofnun og hins vegar eru byggingarfulltrúar í sveitarfélögum og byggingarnefndir þar sem sveitarfélögin kjósa að hafa slíkar nefndir í gangi.

Það er einmitt meðal annarra breytinga sem lagðar eru til að stjórnsýsla sveitarfélaga geti verið þannig að sveitarfélag kjósi ekki byggingarnefnd ef það kýs að gera það ekki en verkefni byggingarnefndarinnar í sveitarfélagi færist til byggingarfulltrúa. Þarna eru líka breytingar á ákvæðum um úttektir þar sem m.a. er kveðið á um öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun, breytingar á ákvæðum um eftirlit og þvingunarúrræði og auk þess er kveðið á um faggildingu byggingarfulltrúa.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið urðu til nokkrar breytingartillögur í sérstöku þingskjali sem er kannski meira að vöxtum en innihaldi vegna þess að við kusum að samræma þessa texta og gera málfarsleiðréttingar eða hleypa þeim í ákveðna andlitslyftingu þannig að málfar væri nokkuð samræmt á þeim og þá skárra en það var, en þetta er auðvitað eðli málsins samkvæmt samsafn úr ýmsum textum, gömlum og nýjum. Þau efnisatriði sem mesta umfjöllun fengu voru þessi nýja stofnun sem fyrirhugað er að setja á fót og málin kringum hana, verkefni hennar, heimildir hennar og staðsetning, staða byggingarnefnda og víðtækara hlutverk byggingarfulltrúa, löggilding og réttindi starfsstétta og rafrænt gagnasafn stofnunarinnar.

Þá er fyrst að nefna að nefndinni barst mikill fjöldi ábendinga og athugasemda frá fagfélögum og stofnunum og einstökum mönnum sem starfa á þessu sviði um atriði sem eru tengd ákvæðum um starfsréttindi og löggildingu einstakra fagstétta. Nefndin ákvað að hreyfa ekki við þessum ákvæðum í frumvarpinu eftir nokkra skoðun en telur að eitt næstu skrefa í endurskoðunarstarfi á þessu sviði hljóti að vera að undirbúa lagabreytingar um starfsréttindi og löggildingu í samráði við fagstéttirnar og hvetur umhverfisráðherra í nefndaráliti sínu til að hraða því verki sem verða má. Ég hygg að þetta eigi eftir að vekja óánægju ýmissa stétta því að það er þannig að ef stéttabaráttan, svo notað sé orð sem við létum út úr okkur í gamni í nefndinni, fær ekki að vindast fram eins og hin sögulega nauðsyn knýr á um — þannig að ég tali í svona vúlgarmarxískum hugtökum — þá er það sú stétt sem fyrir er, ráðandi stétt, sem heldur áfram að vera ráðandi og það er ekki endilega æskilegt, hvorki í hinni sögulegu framvindu né í þróun verkaskiptingar milli fagstétta af þessu tagi. Við erum sem sé ekki að mæla með að þetta haldi áfram að vera svona heldur að segja að það hefði verið of mikið verk fyrir okkur að þessu sinni að líta á þetta og það er eðlilegt að umhverfisráðherra beiti sér fyrir breytingum í þessu efni.

Helstu breytingar sem nefndin leggur til eru, eins og nefnt er, að hin nýja stofnun verði nefnd Mannvirkjastofnun og það eru líka breytingartillögur á ýmsum hugtakaskýringum á sínum stað í frumvarpinu. Einna umfangsmest er kannski sú að við leggjum til að sá sem í frumvarpinu er nefndur samræmingaraðili og jafngildir byggingarstjóra við hönnun verksins — að það nafn verði ekki samþykkt heldur verði hann kallaður hönnunarstjóri þannig að hinir jafnsettu menn í þessu séu annars vegar hönnunarstjóri og hins vegar byggingarstjóri. Nokkur önnur hugtök eru skýrð með öðrum hætti og einu sleppt eins og sjá má í nefndaráliti og breytingartillögum.

Þá er að geta þess að um menntun og reynslu forstjóra Mannvirkjastofnunar í 6. gr. frumvarpsins leggur nefndin til að orðalag verði hliðstætt ákvæðum um forstjóra Skipulagsstofnunar í nýju lögunum. Þetta er ekki mikil efnisbreyting en við teljum þó að á sama hátt og nokkurt svigrúm er gefið um fagsvið og menntun forstjóra Skipulagsstofnunar sé eðlilegt að eins verði með forstjóra Mannvirkjastofnunar.

Nefndin leggur líka til breytingar á 6. gr. og 8. gr. þess efnis, og það er kannski meiri efnisbreyting, að starfsmönnum Mannvirkjastofnunar verði óheimilt að starfa við hönnun mannvirkja og jafnframt að byggingarfulltrúa sé undantekningarlaust óheimilt að sinna starfi sem gæti komið til afgreiðslu í umdæmi hans. Nefndin bendir á að í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem eiga við starfsfólk nýju stofnunarinnar er að finna sambærilegt ákvæði.

Nefndin ræddi skipulagsmörk sveitarfélaga í tengslum við hin nýsettu skipulagslög. Skipulagsafstaða til hafsins miðast við sveitarfélagsmörk sem aftur miðast við netlög og nefndin leggur til að 9. gr. frumvarps til mannvirkjalaga verði breytt til samræmis við skipulagslögin þannig að séu mannvirki á hafi eigi fjær ytri mörkum netlaga en eina sjómílu, skuli Mannvirkjastofnun leita umsagnar næsta sveitarfélags, eins eða fleiri eftir atvikum, þau geta þannig lagað legið jafnnærri, við umfjöllun um byggingarleyfisumsókn.

Nefndin ræddi líka gildistíma og ábyrgðartryggingu þeirra aðila sem bera ábyrgð við byggingu mannvirkja og í 23. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu hönnuða til að hafa ábyrgðartryggingu en ekki áskilið að slík trygging skuli gilda í tiltekinn tíma frá verklokum. Nefndin telur mikilvægt að slíkar reglur verði settar en telur reglugerð henta betur til þess en lögin sjálf, þannig að minnst sé á nokkrar athugasemdir sem fram komu í umsögnunum.

Í VIII. kafla frumvarpsins, um eftirlit með mannvirkjagerð, er m.a. kveðið á um úttektir sem gera skal á mannvirkjum. Nefndinni voru kynnt sjónarmið um að mikilvægt væri að lögbinda fokheldisúttekt, sem lengi hefur verið einn helsti áfangi við byggingar á Íslandi, enda fæli fokheldisvottorð einhvers konar í sér skýra stöðu um lánshæfi byggingar. Brunatryggingar sé fyrst krafist við fokheldisstig og álagning fasteignagjalda miðuð við fokheldisstig.

Nefndin telur þrátt fyrir þessi rök óþarft að lögbinda einhvers konar fokheldisúttekt enda á slík úttekt misvel við margvísleg mannvirki og ekki er rétt að beina mönnum endilega í þá átt að einhvers konar fokheldisáfangi skapi nauðsynleg tímamót í byggingum. Nefndin bendir líka á að þótt ekki sé kveðið á um fokheldisúttekt í lögunum er ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert í byggingarreglugerð þar sem þörf er talin á og þá einungis þar sem þörf er talin á.

Þá er að segja frá því að samkomulag varð í nefndinni um það, bæði hvað varðar þetta frumvarp og brunavarnafrumvarpið, að við mundum að vísu taka afstöðu í einum þremur álitamálum, sem við höfðum varla tíma til fyrir gerð nefndarálits til 2. umr. að fjalla nægilega djúpt um, en mundum geyma okkur frekari umfjöllun til tímans eftir 2. umr. og þá fyrir 3. umr. Önnur umræða frestaðist nokkuð frá því sem fyrirhugað var og við höfðum því hafið þessa umfjöllun okkar en gerðum grein fyrir niðurstöðum hennar við 3. umr. sem m.a. veldur því að ég kýs að gera ekki að sérstöku umræðuefni það álitamál sem einkum varðar mannvirkjafrumvarpið, sem er það hvar opinberu markaðseftirliti með rafföngum er best fyrir komið, hvort það á að vera eins og nú er að Brunamálastofnun sé að helmingi til, eða Mannvirkjastofnun þá í framtíðinni, með slíkt markaðseftirlit og Neytendastofa að helmingi til, eða hvort þetta á allt að færast til Mannvirkjastofnunar því að hitt er varla gerlegt. Um þetta erum við að fjalla og getum ekki sagt neinar sérstakar fréttir af því enn þá en sem betur fer eru þrjár umræður um hvert frumvarp á þinginu og menn geta þá einbeitt sér að þessu máli í 3. umr. um mannvirkjalagafrumvarpið. Við hyggjumst því kalla aftur breytingartillögur okkar í þessu efni, sem er liður 56 í breytingartillögunum, þegar kemur að atkvæðagreiðslu um mannvirkjalagafrumvarpið.

Ég hef farið nokkuð fljótt yfir sögu en bendi hv. þingmönnum á að nefndarálitið liggur frammi eins og það er og breytingartillögurnar líka. Það þarf þó að gera grein fyrir því að við gerum sérstakar tillögur um breytingar á skipulagslögum og það er aðallega vegna þess að í ljós komu nokkrir lagatæknilegir hnökrar á þeim þegar frumvarpið var unnið í september og var gert knálega en sem betur fer hefur það ekki tekið gildi þannig að hægt er að breyta því án þess að neitt rugl verði á.

Þetta eru, hygg ég, fjórar breytingar. Fyrsta breytingin varðar nafn hinnar nýju stofnunar, sem einu sinni kemur fyrir í skipulagslögunum, og yrði þá Mannvirkjastofnun. Önnur breytingartillagan er hugsuð til að auðvelda smávægilegar breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins til samræmis við aðalskipulag sveitarfélaga frá gildistöku laganna til fyrstu þingsályktunar um landskipulagsstefnu árið 2012. Hin þriðja er borin fram vegna þess að lagagreinar voru ekki samhljóða og er um staðfestingu umhverfisráðherra á svæðisskipulagi eins og menn sjá í breytingartillögunum. Síðan leggjum við til að það verði fastsett í lögunum hvernig lagaskilum verður háttað þannig að um það verði engar deilur og þá er miðað við að öll þau mál sem nú eru komin til Skipulagsstofnunar eða ráðuneytisins til skoðunar eða staðfestingar fari að gömlum lögum þannig að ekki þurfi að senda þau aftur í nýtt ferli samkvæmt nýjum lögum. Það má deila um það hvort þessi breyting sé þörf en það er öruggara að hafa þetta svona þannig að engin vandræði skapist af.

Nefndin öll ber þetta fram, tveir nefndarmanna, Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara. Aðrir eru Mörður Árnason, Ólína Þorvarðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir en Kristján Þór Júlíusson var fjarverandi vegna anna við fjárlagagerð við afgreiðslu málsins.

Ég vil segja frá því að þessari yfirferð lokinni að við rannsökuðum sérstaklega athugasemd frá Samorku sem varðaði það að hætt væri við því að þegar virkjanir væru með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, orðnar byggingarleyfisskyldar yrði reynt að gera þær að andlagi fasteignagjalda. Þessi athugasemd er þess eðlis að okkur þótti rétt að athuga hana en þykjumst vera búin að ganga úr skugga um að þetta séu óþarfar áhyggjur. Virkjanir eru ekki undanþegnar fasteignaskatti vegna þess að þær hafi ekki byggingarleyfi eins og nú er háttað heldur vegna þess að um þær gildir liður 3 og 4 í 26. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, það er í V. kafla um fasteignamat og framkvæmd þess. Það er að vísu nokkuð fornlegt orðalag þykir okkur í upphafi 21. aldar en þar eru í 3. og 4. lið eftirtaldar eignir undanþegnar fasteignamati, sem er forsenda þess að lagt sé á fasteignagjald: Rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstofnunum og spennistöðvum, og vatnsveitur, þar á meðal brunnar, geymar og dælubúnaður.

Þetta orðalag á kannski illa við Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun en samt eru það þessir liðir sem eru lagastoðin fyrir því að virkjanir séu undanþegnar fasteignaskatti og yrðu það áfram þannig að það kemur ekki við þeim lögum sem við nú erum að breyta eða samþykkja heldur lögunum um skráningu og mat fasteigna og fyrr en þeim verður breytt helst þetta stand.

Ég vil nota tækifærið núna, þó að það ætti kannski frekar að gera það við seinna frumvarpið, og segja: Þó að við séum í miðju kafi við þetta verk þá vil ég samt þakka mjög gott samstarf í nefndinni. Menn hafa staðið við það fyrirheit frá því í september að einhenda sér í þessi mál og auka þar með, að ég tel, virðingu og heiður þingsins og vinna landi og þjóð gagn eins og við eigum að vera að gera. En lokaþakkir mínar vil ég þó hinkra með þangað til reynir á nefndarmenn fyrir 3. umr.



[16:17]Útbýting:

[16:17]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var út af fyrir sig skynsamlegt hjá hv. formanni umhverfisnefndar að hafa þann fyrirvara á þökkum sínum að umfjöllun um málið sé ekki lokið. Ég tek hins vegar undir það með honum að þetta mál var tekið til mjög gagngerðrar skoðunar í umhverfisnefnd bæði í sumar og eins í haust og margir þættir þess hafa fengið mjög ítarlega skoðun og er það líklega lokaáfangi í talsvert löngu ferli, eins og gerð var grein fyrir við 1. umr., vegna þess að lagasetning um skipulags- og byggingarmál hefur verið í bígerð árum saman. Nú sér fyrir endann á ákveðnum áfanga í þeim efnum og er það gott. Hins vegar er það svo, eins og hv. formaður umhverfisnefndar gerði grein fyrir áðan, að ákveðnir þættir málsins eiga enn eftir að fá frekari skoðun í umhverfisnefnd áður en til 3. umr. kemur. Ætla ég, eins og hv. formaður umhverfisnefndar, ekki að fara nákvæmlega út í þá þætti þó að ég nefni aðeins eitt, tvö eða kannski þrjú atriði í því sambandi á eftir án þess að fara út í nákvæman rökstuðning fyrir málinu.

Þarna er um viðamikinn lagabálk að ræða og breytingartillögur umhverfisnefndar, sem voru afgreiddar í ágætri sátt, eru 15 blaðsíður í þingskjölum þannig að þarna er um að ræða mjög viðamiklar breytingar á löngu frumvarpi. Væri hægt að hafa langt mál um suma þessara þátta en hins vegar er rétt að geta þess að afar mörg atriði sem varða mannvirkjalögin eða væntanleg mannvirkjalög eru fyrst og fremst tæknileg útfærsluatriði og í sjálfu sér ekki pólitísk álitamál eða ágreiningsmál. Það heyrir tiltölulega til undantekninga ef um slík atriði er að ræða. Í aðdraganda málsins hefur töluverð vinna verið unnin við að leysa úr og reyna að sætta mismunandi sjónarmið í þeim efnum, bæði á vinnslustigi í ráðuneyti og eins í umhverfisnefnd, þó að vissulega séu ákveðin álitaefni sem ekki hefur verið skorið úr um enn þá en mun að öllum líkindum koma í hlut okkar þingmanna að taka afstöðu til áður en þessari umfjöllun er lokið.

Það var svo við afgreiðslu málsins í hv. umhverfisnefnd að ég ritaði undir nefndarálit með fyrirvara og vildi kannski skýra það með örfáum orðum hvers vegna ég geri það. Ég tek það fram eins og ég gerði áðan að ég er í meginatriðum sáttur við nefndarálitið og þær breytingartillögur sem lagðar eru til og stend að þeim eins og aðrir nefndarmenn, en hins vegar eru ákveðnir þættir varðandi þetta mál sem ég set enn þá almennan fyrirvara við. Þar stendur kannski helst í mér enn sá kostnaður sem fylgja mun uppbyggingu Mannvirkjastofnunar, sem væntanlega mun hljóta það nafn eða Byggingarstofnunar eins og hún er stundum nefnd, þessarar væntanlegu stofnunar sem mun hafa með yfirumsjón að gera í sambandi við byggingarmálin eða mannvirkjamálin. Það hefur út af fyrir sig ekki breyst í meðförum nefndarinnar að enn er gert ráð fyrir því að tilkoma þeirrar stofnunar sem leiðir af samþykkt þessa frumvarps mun leiða til 100 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins. Þetta nefndi ég í 1. umr. og ég játa það að þetta atriði þvælist enn þá fyrir mér.

Nú er það svo að 100 millj. kr. geta verið bæði lítill peningur og mikill peningur eftir því hvernig á málið er litið og í samhengi ríkisfjármálanna er auðvitað ekki um að ræða mjög háa fjárhæð, sérstaklega ekki þegar horft er til ýmissa annarra ákvarðana sem verið er að taka á hinu háa Alþingi. Engu að síður er þarna um að ræða 100 millj. kr. til nýrrar eða alla vega verulega breyttrar stofnunar á tímum þar sem við þurfum að ganga mjög hart fram í að skera niður kostnað hjá ýmsum öðrum stofnunum sem gegna ekki veigaminna hlutverki en þessi nýja stofnun. Ætla ég þó ekki að gera lítið úr hlutverki hennar eða verkefnum hennar en þarna er samt sem áður um að ræða aukin útgjöld til nýrra verkefna á sama tíma og blóðugur niðurskurður fer fram sums staðar annars staðar og ekki í ómerkari stofnunum en þarna er um að ræða. Þetta er enn í mínum huga töluvert umhugsunaratriði og áhyggjuefni í samhengi ríkisfjármálanna.

Annað atriði sem ég vildi nefna sem auðvitað átti þátt í því að ég undirritaði nefndarálitið með fyrirvara var það að ég ásamt reyndar öðrum nefndarmönnum taldi mikilvægt að tiltekin álitamál fengju nánari meðferð milli 2. og 3. umr. Um það er gott samkomulag og það má segja að umhverfisnefnd hafi aðeins verið að vinna í haginn í þeim efnum, þó að 2. umr. fari fyrst fram í dag. Ákveðin álitaefni hafa verið rædd milli funda ef svo má segja og nefndin hefur nýtt tímann ágætlega í þeim efnum. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það en formaður vék auðvitað að álitaefninu varðandi það hvar markaðseftirlit með tilteknum vöruflokkum rafmagnsvara ætti heima. Þarna er um að ræða ákveðna verkaskiptingu eða spurningu um ákveðna verkaskiptingu milli núverandi Brunamálastofnunar, sem verður við breytinguna Mannvirkjastofnun, annars vegar og Neytendastofu hins vegar. Í nefndaráliti okkar frá því fyrir tveimur vikum gerum við ráð fyrir því að verkefnið í heild flytjist til Mannvirkjastofnunar og það mun væntanlega koma frekari umfjöllun um þetta atriði í 3. umr. þannig að ég ætla ekki að fjalla nánar um það. Hins vegar hefur umhverfisnefnd hlýtt á sjónarmið þeirra stofnana sem í hlut eiga í þessu efni og heyrt í rauninni bæði rök með og á móti þessari breytingu þannig að þegar við komum til 3. umr. verður umhverfisnefnd töluvert betur í stakk búin til þess að fjalla um og rökstyðja niðurstöðu varðandi þetta álitamál. En þarna er auðvitað um að ræða ákveðna togstreitu milli stofnana, jafnvel milli ráðuneyta vil ég leyfa mér að segja eins og við sjáum dæmi um víðar. Frá sjónarhóli þingmanns er í sjálfu sér um að ræða um ákveðna framkvæmdaþætti sem við sem þingmenn viljum að séu í góðu lagi og höfum kannski ekki endilega heitar meiningar um hvar eigi að vera vistaðir, en í þessu tilviki höfum við það verkefni að taka af skarið í ákveðnu álitaefni og getum auðvitað ekki vikist undan því þegar það kemur til okkar kasta. Sama á auðvitað við um ákveðin álitamál sem munu koma til umræðu eða geta komið til umræðu varðandi frumvarp til laga um brunavarnir sem verður til umræðu á eftir. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta.

Hv. formaður umhverfisnefndar nefndi eitt atriði sem vakti náttúrlega spurningar og það var um breytinguna sem varðar byggingarleyfi fyrir virkjanir. Vonandi eru komnar fram skýringar sem duga í þeim efnum. Þarna er verið að tala um byggingarleyfi vegna mannvirkja sem tengjast virkjunum og þrátt fyrir að slík mannvirki séu tekin þarna inn í er hugmyndin ekki sú að þarna verði um að ræða nýja álagningu fasteignagjalda eins og kom fram í máli hv. formanns. Það er mikilvægt að halda því til haga. Ég held að það megi alveg líta svo á að komi einhvern tíma til þess að fasteignagjöld verði lögð á í tilvikum af þessu tagi verður það alveg örugglega sjálfstæð ákvörðun sem mun með einhverjum hætti koma til kasta Alþingis. Það er ekki um það að ræða í þessu sambandi.

Ég ætla að nefna eitt atriði sem ég hugsaði svolítið um meðan við vorum með þetta mál til umfjöllunar í nefndinni en ég er ekki með breytingartillögu um en tel enn þá umhugsunarefni. Það varðar ábyrgð eigenda og ábyrgðarröð og slíka þætti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eigendaábyrgð á mannvirkjum sé afar víðtæk, m.a. meðan bygging er á byggingarstigi, og nú kann að vera sjónarmið að þeir sérfróðu aðilar eða fagmenn sem taka að sér tiltekna verkþætti í sambandi við byggingar eigi að bera ábyrgð á sínum verkum og að þeir sem hugsanlega verða fyrir einhverju tjóni eigi ekki að þurfa að fara í eigandann heldur geti farið beint og sótt bætur til þeirra sem bera ábyrgð á tilteknum þáttum. Þarna er um að ræða spurningu um hvort verið sé að setja inn óþarflega flókna uppsetningu á ábyrgðarröðinni og ég vil halda því opnu að skoða þetta mál betur þó að ég sé eins og ég sagði áðan ekki með breytingartillögu á þessu stigi.

Vissulega er það svo að verði eigandi dæmdur ábyrgur fyrir einhverju tjóni vegna mistaka eða vanrækslu sem rekja má til þeirra fagmanna eða fyrirtækja sem vinna verk fyrir hann þá á hann auðvitað endurkröfu á hendur þeim og þeir eru væntanlega tryggðir og þess háttar, en það er svona spurning hvort þarna sé verið að lengja í ferlinu í framkvæmd. Ég tek fram að ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort ég vil leggja fram einhverjar breytingar í þessu sambandi en þetta finnst mér enn nokkurt umhugsunarefni.

Önnur atriði ætla ég ekki að nefna í þessari umræðu, ég tel að þau komi til skoðunar þegar málið kemur til 3. umr. og álitamál sem við höfum vikið að hafa verið rædd betur í nefndinni. Ég tek undir með hv. formanni umhverfisnefndar að það var samstaða um það í nefndinni að fara ekki út í það að höggva á ákveðna hnúta sem virðast vera í sambandi við menntunarmál stétta eða starfsreynslumál stétta sem snerta síðan aftur heimildir til starfa eða ákveðinna verkefna. Við erum ekki að fara inn í þá umræðu þó að mjög margir faghópar og stéttarfélög hafi greinilega mikinn áhuga á að fá fram einhverjar breytingar í því sambandi. Við förum ekki út í það og ég tek undir með hv. formanni umhverfisnefndar að það er þá verkefni sem þarf að ráðast í síðar og er hægt að líta á sem sjálfstætt viðfangsefni sem ekki þarf að hanga saman við afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu.

Það er samt eitt atriði sem rétt er að geta um en með sama hætti hef ég ekki séð tilefni til að gera neinar breytingartillögur í því sambandi. Það er umhugsunarefni sem leitaði á mig kannski fyrst og fremst eftir að við höfðum afgreitt út nefndarálitið og það varðar það að við í umhverfisnefnd erum auðvitað að hengja breytingar á öðrum lagabálkum við þetta frumvarp. Það varðar skipulagslögin, það varðar lögin um rafmagnsöryggismál og það er alltaf álitamál að hve miklu leyti þingnefndir eiga að fara út í það að gera breytingartillögur við önnur lög en þau sem beinlínis er verið að fjalla um í því frumvarpi sem er til umfjöllunar hverju sinni. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. Mér finnst hins vegar ekki tilefni til þess á því stigi sem málið er nú í umfjöllun okkar í þinginu að gera neina breytingu í þessum efnum. Við vissum af þessu þegar við gengum út í þetta þó að áhyggjur mínar af þessu formsatriði hafi kannski aukist eftir að við höfðum skilað þessu af okkur. Ég er því ekki með breytingartillögu í þessum efnum. Hins vegar er ástæða fyrir þingnefndir almennt að sýna varkárni í sambandi við hvaða lagabreytingar aðrar þær gera tillögur um við afgreiðslu frumvarpa úr nefndum vegna þess að sum mál, jafnvel þó að einhver tengsl kunni að vera milli málanna, eru einfaldlega þannig að þau þarf að skoða sérstaklega frá upphafi. Það getur verið varasamt, og þá er ég ekki endilega að hugsa um það sem er að gerast í þessu máli heldur kannski hluti sem maður hefur séð gerast í öðrum frumvörpum eða í meðferð annarra frumvarpa, þegar raunverulegar breytingar, jafnvel róttækar efnisbreytingar, hafa komið inn í umfjöllun um mál á síðustu stigum þess, á síðustu stigum umfjöllunar í þinginu, og þar með ekki fengið eðlilega málsmeðferð frá upphafi til enda með þremur umræðum o.s.frv. sem þingsköp almennt gera ráð fyrir. Ég held að í þessu tilviki sé engin ástæða fyrir okkur til að hafa áhyggjur af þessum þætti einfaldlega út af efni þeirra breytinga sem verið er að leggja til. Hins vegar vildi ég vekja athygli á þessu sjónarmiði við umræðuna til að árétta þá afstöðu mína að þingnefndir almennt verði að gæta sín í þessum efnum vegna þess að við vitum að af hálfu framkvæmdarvaldsins, af hálfu ráðuneyta er mjög oft tilhneiging til að nýta ferðina eins og oft er sagt, til að koma málum einhverja léttari leið í gegnum þingið með því að skella þeim inn sem breytingartillögum við þingmál á síðari stigum. En þingmenn verða auðvitað að hafa í huga að þingsköpin gera ráð fyrir tilteknum málsmeðferðarreglum til að tryggja að málin fái vandaða umfjöllun frá upphafi til enda með þremur umræðum og nefndarstörfum á milli eftir því sem tilefni er til og frávik frá þeirri reglu eru alltaf varasöm. Menn eiga einfaldlega að fara gætilega í þeim efnum.



[16:36]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér frumvarp til laga um mannvirki. Í raun er litlu við að bæta þar sem tveir hv. þingmenn í umhverfisnefnd hafa sagt á undan mér. Að meginstefinu til erum við mjög sammála um þær breytingartillögur sem lagðar eru fram á hvorki meira né minna en 15 blaðsíðum á þskj. 350.

Frumvarpið er mjög yfirgripsmikið og var lagt hér fram á haustþingi ásamt skipulagslögum til breytingar en varð ekki að lögum þannig að nú hefur umhverfisnefnd tekið höndum saman til að reyna að vanda þetta vegna þess að ný skipulagslög eiga að taka gildi 1. janúar 2011. Það hefur verið ágætissamstarf í nefndinni um málið enda er það yfirgripsmikið eins og ég segi. Að vísu má segja að það hafi kannski ekki verið nógu vel unnið til umhverfisnefndar sem sést á þessum fjölda breytingartillagna. Það vekur athygli mína líka að einstaklega margir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við frumvarpið. Það er gott því að þannig eiga góð frumvörp að verða til, aðilar sem hafa hagsmuni af þeim lögum sem verið er að setja á Alþingi eiga að geta komið að sjónarmiðum sínum. Er kannski ekki alltaf allt of mikið hlustað á þau.

Ég skrifa með fyrirvara undir nefndarálitið á þessu þingskjali, fyrst og fremst vegna þess að formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Mörður Árnason, hefur heitið því og ætlar að standa við það eins og ég heyrði í framsöguræðunni að taka þetta mál inn í umhverfisnefnd milli 2. og 3. umr. því að þá er enn tækifæri til að koma að breytingum.

Hér hefur komið fram að í meginatriðum er ég hlynnt þessu þó að ég gagnrýni þann kostnað sem hlýst á þessum niðurskurðartímum af því að stofna þá nýju stofnun sem lagt er til í breytingartillögunum að nefnd verði Mannvirkjastofnun í stað Byggingarstofnunar. Um starfsmannamál og annað milli stofnana þegar þessi nýja stofnun kemur til ætla ég ekki að fjalla, fólk getur lesið um það í þessu frumvarpi, en vissulega stingur í augu að samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins skuli það eiga að kosta um 100 millj. kr. aukalega.

Fleira ætla ég svo sem ekki að tala um í þessari umferð vegna þess að megnið af þeim athugasemdum sem ég hafði er þegar komið hér fram en geri það að lokaorðum mínum að enn er hægt að koma athugasemdum á framfæri til nefndarinnar séu enn þá einhverjir hnökrar á þessu. Þegar um svo mikinn lagatexta er að ræða sjá augu betur en auga.

Samband íslenskra sveitarfélaga kynnti á fundi umhverfisnefndar í dag að það væri nú þegar komið með athugasemdir um þær breytingartillögur sem liggja fyrir og því ber að fagna að aðilar fylgist með þessari lagasetningu.

Frú forseti. Ég læt þetta vera orð mín um þessa tillögu og hef gert grein fyrir því hvers vegna ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.



[16:40]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu um frumvarp til laga um mannvirki, m.a. til að færa fram þakkir til núverandi formanns umhverfisnefndar og fyrrverandi formanns umhverfisnefndar fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í verkið og þá verkstjórn sem hefur verið á því sem ég tel að hafi verið til fyrirmyndar. Út af þeirri umræðu sem hér hefur komið upp um að breytingartillögurnar séu ítarlegar og miklar er það að segja að að mjög stórum hluta til er um að ræða mjög góða og mikla textavinnu í frumvarpi sem var skrifað með fullmiklum kansellístíl, ef svo má að orði komast. Margt af því sem var í frumvarpinu hefur verið fært til betra máls og skiljanlegra, og það er vel.

Það hefur komið fram að margir aðilar hafi veitt nefndinni umsagnir en rétt er að benda á, eins og fram kemur í áliti nefndarinnar, að ekki komu sérlega margir fyrir nefndina í þessari umferð. Það skýrist vitanlega af því að í því starfi sem unnið var í fyrravor, síðsumars og í haust hafði mikill fjöldi umsagnaraðila haft tækifæri til að koma fyrir nefndina og viðra sjónarmið sín og ekki var talin ástæða til að það yrði allt endurtekið nú.

Það er líka mikilvægt að muna að þetta frumvarp hangir óhjákvæmilega saman við frumvarpið um skipulagslög og því er mikilvægt að klára þetta mál fyrir áramót sem og frumvarp til laga um brunavarnir sem verður rætt hér á eftir. Lagabálkurinn allur þarf að geta tekið gildi á sama tíma. Hér er verið að færa þessi mál öll til betri vegar, breytingin á skipulagslögunum færir til að mynda þau mál öll í nútímalegra horf. Þessi tvö lagafrumvörp sem við ræðum hér í dag styðja síðan við það.

Ég vil að lokum, frú forseti, nefna að ég er afar ánægður með breytinguna á nafni þessarar stofnunar sem við ætlum að stofna, þ.e. að breyta henni í Mannvirkjastofnun en kalla hana ekki Byggingarstofnun. Ég tel fara mjög vel á þeirri breytingu. Í mínum huga er hugtakið mannvirki miklu víðtækara en hugtakið bygging og tekur væntanlega þá til fleiri mannanna verka, er ekki eins þröngt og fyrra hugtakið og að mörgu leyti góð breyting þess vegna.

Ég styð þetta frumvarp heils hugar, ítreka það sem hefur komið fram í máli hv. nefndarformanns og raunar annarra hv. þingmanna, það eru eftir nokkur atriði sem á eftir að hnýta endana á, skulum við segja, við 3. umr. Ég treysti verkstjórn hv. formanns sem og nefndarmönnum ágætlega til að klára það verk.



[16:44]Útbýting:

[16:45]
Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Ég vil þakka hv. þingmönnum umræðuna um nefndarálitið og frumvarpið eins og það er nú og ætla að stikla aðeins á stóru í þeim efnum sem menn hafa hér vakið. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Birgis Ármannssonar og Vigdísar Hauksdóttur um kostnaðinn. Við höfum að vísu ekki rætt hann mikið í nefndinni og lítum kannski svo á, samanber athugasemdir í greinargerð með frumvarpinu, að þetta sé það gjald sem þarf að greiða til að koma málunum á rekspöl. Þó er rétt að vekja athygli á því að dregið hefur mjög úr kostnaði sem gert er ráð fyrir við frumvarpið, frá frumvarpinu á síðasta þingi. Það skýrist af því að gert er ráð fyrir hægari uppbyggingu hinnar nýju stofnunar, Mannvirkjastofnunar — ef menn fallast á okkar tillögu um nafnið — en áður var fyrirhugað. Meira er í raun og veru ekki um það að segja. Öll frumvörp sem valda auknum útgjöldum án þess að nánast þurfi að slökkva elda eru auðvitað þannig að rétt er að grandskoða þau. Ég held þó að málið sé þannig vaxið að ef við hefðum sett kostnaðinn fyrir okkur hefðu þessir þrír lagabálkar tafist enn. Þess vegna verður að ganga í þetta mál.

Ég vil líka minnast aðeins á ábyrgð eigenda sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi. Þetta hefur aðeins staðið í mönnum. Ég held að það sé vegna þess að nú eru breyttir tímar, ég skýri það a.m.k. þannig fyrir sjálfum mér. Á mínum sokkabandsárum vorum við strákarnir kallaðir í naglhreinsun hjá frænda þegar þurfti að klára málin fyrir einhvern lánsáfanga og látnir vinna hér og þar, fjölskyldan safnaðist saman og hjálpaði til þegar einstaklingar, venjulegt fólk, var að byggja. Þannig var þetta um miðja síðustu öld og lengi frameftir og er kannski að vissu leyti enn þá þannig. Meginbreytingin er þó auðvitað sú að núna eru hús sjaldnast byggð þannig að lokaeigandinn sjái um bygginguna nema hann sé annaðhvort fagmaður eða ákaflega vel stæður. Hin almenna regla er sú að verktaki eða byggingarfyrirtæki byggir húsið og telst eigandi þess á meðan. Hann selur síðan íbúðina eða húsið þegar það hefur verið byggt. Þetta breytir auðvitað þeirri ábyrgð. Það verður líka að hafa í huga að ábyrgð eigenda byggist á því að hann geti reitt sig á þá tvo hjálparmenn sem raunverulega sjá um húsbygginguna, annars vegar byggingarstjórann og hins vegar hönnunarstjórann. Þetta getur hann vegna þess að kveðið er á um úttektir af ýmsu tagi, ekki síst lokaúttekt en einnig öryggisúttekt sem getur komið til áður við verkið. Hann á því að geta reitt sig á að þetta sé í lagi áður en hann tekst á hendur ábyrgðina sem honum er falin samkvæmt frumvarpinu.

Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að sýna á varkárni við að fara inn í aðra lagabálka. Sem betur fer er það þannig í þessu frumvarpi að eini lagabálkurinn sem farið er inn í, a.m.k. við lok 2. umr. ef allt fer sem horfir, eru þau lög sem nefndin vélaði um sjálf í september. Það má því segja að miðað við hættuna sem af þessu kann að stafa sé hún að þessu sinni í lágmarki.

Ég þakka þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni og það er rétt að ítreka það sem Ólafur Þór Gunnarsson hv. þingmaður sagði, að það er full ástæða til að gleyma ekki, í almennum þökkum okkar hvert til annars, farsælli forustu Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi formanns umhverfisnefndar, við breytingarnar í haust. Ég verð að segja að eftir að ég settist í umhverfisnefnd, var nýkominn á þingið aftur, og hafði litið yfir málin þá hafði ég satt að segja ekki nokkra trú á því að þetta gengi. En kjarkur Ólínu Þorvarðardóttur að vestan var slíkur að síðri menn þurftu að skipta um skoðun og taka þátt í framkvæmdunum sem hún hóf og við erum núna að komast að lokunum á.