139. löggjafarþing — 46. fundur
 13. desember 2010.
verðbréfaviðskipti bankanna.

[10:51]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Samkvæmt heimildum hafa umtalsverð verðbréfaviðskipti átt sér stað milli Lánamála ríkisins annars vegar og Arion banka og Íslandsbanka hins vegar, verðbréfaviðskipti sem virðast með ábyrgð ríkisins en eru samt utan efnahagsreiknings ríkissjóðs og nema að upphæð vel yfir 100 milljörðum kr. Viðskiptablað Morgunblaðsins nefnir upphæðina 141 milljarð en mínar heimildir eru upp á 145 milljarða.

Viðskiptin eru með þeim hætti að fjármálaráðuneytið, í gegnum Lánamál ríkisins, afhendir viðkomandi bönkum verðbréf gegn tryggingu í þrotabúum SPRON annars vegar og Straums – Burðaráss hins vegar. Bankarnir leggja svo bréfin inn í Seðlabankann og fá í staðinn laust fé. Seðlabankinn hafnaði hins vegar þessum tryggingum og fjármálaráðuneytið hefur því gengist í fulla ábyrgð fyrir því að bera alla fjárhagslega ábyrgð á verðbréfaviðskiptunum fyrir hönd bankanna ef eitthvað vantar upp á settar tryggingar. Bankarnir hafa þegar nýtt sér þessar heimildir og ábyrgð ríkisins virðist vera orðin virk þó að hennar sé hvergi getið í lögum. Því vil ég spyrja ráðherrann fjögurra spurninga:

1. Er þetta rétt og með hvaða heimild er þetta þá framkvæmt?

2. Hvers vegna eru bankarnir að nýta sér þessa heimild ef lausafjárstaða er eins góð og hún virðist vera samkvæmt níu mánaða uppgjöri og er heimildin til þeirra algerlega opin?

3. Er um að ræða nýja útgáfu af svokölluðum ástarbréfaskiptum þar sem ríkið, þ.e. fjármálaráðuneytið og þar með skattgreiðendur, eru nú í beinni ábyrgð á gjörningnum?

4. Þar sem þetta ferli virðist vera vel komið af stað og vel það og býður heim mikilli áhættu, hvaða tryggingu getur fjármálaráðherra gefið sparifjáreigendum, fjárfestum og skattgreiðendum um að hér muni ekki ríða yfir annað stóráfall í fjármálageiranum með tilheyrandi kostnaði?



[10:53]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þingmanni er kunnugt og þingmönnum þá var sú yfirlýsing gefin út strax haustið 2008 að allar innstæður í íslenskum bönkum, sparisjóðum og fjármálafyrirtækjum, þ.e. öll innlán, yrðu tryggðar og við þá yfirlýsingu hefur verið staðið. Það var gert þegar stóru bankarnir féllu og það hefur verið gert þegar minni fjármálastofnanir hafa komist í þrot í kjölfarið. Þá var þetta gert á grundvelli neyðarlaganna þannig að innstæðurnar eru færðar, annaðhvort yfir í nýja banka eða yfir til annars aðila, og eignir eftir því sem þær eru til staðar í búunum á móti. Það er alveg ljóst að í sumum tilvikum eru áhöld um hvort eignirnar nægi á móti skuldbindingunum og ríkið verður þá að taka þá áhættu sem því er samfara. Hún er vonandi ekki mikil í þessum tilvikum. Það er kannski fyrst og fremst ein innlánsstofnun sem hefur komist í þrot þar sem nokkuð ljóst er að svo illa var komið að eignirnar í heild sinni dugðu ekki á móti innlánum. Þá er alveg ljóst að myndast getur mismunur sem fyrst og fremst kemur fram í aukinni þörf fyrir eigið fé til að hin nýja stofnun, eða sá sem við innlánunum tók, verði ekki fyrir skakkaföllum af þeim sökum.

Umfang þessara mála er að sjálfsögðu allt annað og miklu minna en átti við þegar stóru bankarnir féllu og sem betur fer yfirleitt nægilegar eignir á móti til að tryggja innstæðurnar. En þegar um það er samið í einstökum tilvikum, eins og þeim tveim sem hv. þingmaður nefndi, að þriðja aðila er falin umsýsla innstæðnanna er ekki við því að búast að hann geri það öðruvísi en honum sé veitt skaðleysi eða að það sé tryggt að því fylgi ekki bein töp. Og þá leiðir það einfaldlega af yfirlýsingunni um að tryggja allar innstæður sem ríkið hefur gefið, bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn, að það er þá ríkið sem verður að standa þar á bak við. Framtíðin ein getur skorið úr því nákvæmlega hvernig þetta uppgjör verður en við gerum ekki ráð fyrir að þarna verði um nein umtalsverð töp að ræða.



[10:55]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Þetta mál er enn galopið og gríðarlegar fjárhæðir í spilinu, 140 milljarðar kr. sem að hluta til eða jafnvel stórum hluta geta fallið á ríkissjóð ef eignir þrotabúa SPRON og Straums – Burðráss duga ekki til. Það er vísað í neyðarlögin varðandi þetta og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er í mörg ár hægt að vísa í neyðarlögin til að velta auknum ábyrgðum yfir á skattgreiðendur? Minnisstætt mál er um Sjóvá sem ríkið setti 12 milljarða í fyrir ekki mjög löngu og eru nú sennilega að stórum hluta tapaðir.

Í fjárlagafrumvarpinu er 75 milljarða kr. útgjaldaliður vaxta af skuldum ríkissjóðs sem að mestu leyti eru til komnar vegna ábyrgðar ríkisins á föllnu bankakerfi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hve lengi ætlum við að halda áfram á þessari braut?



[10:57]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Því er ég að vísa í neyðarlögin að þau gerðu auðvitað þá grundvallarbreytingu að gera innstæður að forgangskröfum og það þýðir aftur að hægt er að taka allar þær eignir sem til staðar eru eftir því sem þörf er til að tryggja þær innstæður þegar atburðir af þessu tagi gerast.

Það er alveg hárrétt, og við erum sammála um það þingmenn, að enginn hefur gaman af því að borga 73 milljarða kr. í vexti á næsta ári. Ég vakti athygli á því undir lok langrar atkvæðaskýringar að það væri gott að menn hefðu þessa tölu alltaf í huga þegar þeir eru að tjá sig um aðra þætti, svo sem eins og aukin útgjöld umfram tekjur, því að það er þá ávísun á það að þessi tala hækki, þessi 73 milljarða kr. vaxtakostnaðartala sem áætluð er á næsta ári. Vonandi erum við öll sammála um að það er ekki síst hún sem við þurfum að ná niður.

Ég tel að það sé að vinnast þannig úr þessum hlutum að strax í upphafi næsta árs og vonandi að mestu leyti fyrir áramót klárist þessi fjárhagslega endurskipulagning í fjármálakerfinu. Við vonumst til þess að samningar um síðustu sparisjóðina verði í höfn fyrir áramót og það verði þá fyrst og fremst eftirstöðvar, einhverjar minni háttar, sem ganga inn á nýju ári og þá er heilmikið unnið ef við erum komin í gegnum þá risavöxnu aðgerð að endurreisa svo til allt bankakerfið í landinu.