139. löggjafarþing — 46. fundur
 13. desember 2010.
eftirlit með loftgæðum.
fsp. UBK, 271. mál. — Þskj. 314.

[11:51]
Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit urðu miklar náttúruhamfarir á Suðurlandi sl. vor þegar Eyjafjallajökull gaus. Nú þegar gosi er lokið og viðbúnaðarstig hefur verið fært niður glímum við enn við afleiðingar þess. Eitt af því sem við er að eiga er loftmengun. Enn er umtalsvert öskufok suma daga sem gerir fólki á svæðinu lífið erfiðara og vekur spurningar varðandi heilsufar manna.

Það er mikilvægt að fylgjast vel með og mæla svifryk í lofti. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvernig eftirliti með loftgæðum á helsta áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli sé háttað og jafnframt hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á þessu eftirliti í kjölfar fyrri reynslu sem við þegar höfum haft af eldgosinu.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að ekki bara að vernda íbúana á svæðinu heldur einnig að skrásetja það sem þarna fer fram fyrir komandi kynslóðir. Nú vitum við að Eyjafjallajökull getur gosið og mun væntanlega gera það aftur í framtíðinni. Það sem heimamenn hafa gert til að reyna að læra af reynslu fyrri kynslóða er að lesa þær frásagnir sem til eru af fyrra gosi. Það er mikilvægt að við skrásetjum frásagnirnar nú.

Svifryksmælar hafa verið settir upp en hins vegar skortir á að slíkur mælir sé til staðar á helsta áhrifasvæðinu, þ.e. á því svæði sem varð fyrir mestri mengun á sínum tíma og á enn við afleiðingar hennar að stríða. Efnið kemur upp úr árfarvegunum og hreyfist um leið og vind hreyfir og mér skilst að síðast á föstudag fyrir rúmri viku hafi verið mjög slæmt skyggni á þessu svæði, þ.e. svæðinu við Svaðbælisá og þar um kring. Það er rétt að Umhverfisstofnun haldi vel utan um þessi mál og ég spyr því hæstv. ráðherra hvort til standi að hafa mæli á þessum slóðum undir Eyjafjöllum til að tryggja að menn viti hvað þar er að gerast og fylgjast með því hvort skaðleg áhrif á heilsufar manna séu hugsanleg.



[11:53]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það er auðvitað svo að öll úrvinnsla og eftirmál eldgossins í Eyjafjallajökli eru hvergi nærri komin á endastöð. Við þurfum að halda vöku okkar og engin endanleg niðurstaða er komin um hvernig best er að bregðast við. Við söfnum upplýsingum og þekkingu eins og málinu vindur fram og það er gríðarlega krefjandi og mikið álag á íbúa svæðisins af þeim sökum.

Við höfum, þ.e. Umhverfisstofnun, allt frá upphafi gossins í Eyjafjallajökli lagt áherslu á að mæla eftir fremsta megni styrk svifryksins á svæðum sem hafa orðið fyrir öskufalli í nágrenni jökulsins og einnig hefur stofnunin mælt tilteknar gastegundir á áhrifasvæðinu.

Staðan er þannig nú í kjölfar eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli sl. vor að ríkisstjórnin ákvað að tillögu ráðuneytisins að veita fé til Umhverfisstofnunar í því skyni að kaupa mælistöð til að vakta loftgæði á svæðinu. Um þessar mundir er svifryk mælt með þessari nýju mælistöð og er hún staðsett á Hvolsvelli eins og kom fram í máli þingmannsins. Mælistöðin er þar vegna þess að þar býr fleira fólk en undir Eyjafjöllum og þar er starfræktur bæði grunn- og leikskóli. Hins vegar er verið að endurskoða staðsetningu mælistöðvarinnar í ljósi fjölmargra ábendinga frá íbúum sem nú búa undir Eyjafjallajökli.

Strax og fréttir bárust af öskufalli í byggð ákvað Umhverfisstofnun að hefja mælingar á áhrifasvæði eldgossins en fyrstu mælistöðinni var komið fyrir tveimur dögum síðar. Einnig fór stofnunin í að útvega fleiri lánsstöðvar til mælinga. Stöð í eigu Umhverfisstofnunar sem staðsett er á Akureyri var fengin að láni til Víkur og Kirkjubæjarklausturs í apríl og var notuð til að mæla svifryk. Stöðvar frá umhverfissviði Reykjavíkur og önnur í eigu Kópavogsbæjar voru staðsettar annars vegar á Hvolsvelli og hins vegar á Heimalandi og voru notaðar frá apríl og fram í júlí til að mæla svifryk, köfnunarefnisoxíð, brennisteinsvetni og brennisteinsdíoxíð. Þá var nýja stöðin sem keypt var sett upp við Raufarfell í júlí og fram í ágúst. Síðan í september hefur sú stöð verið staðsett á Hvolsvelli og verið notuð til að mæla svifryk.

Um það bil mánuði eftir að gosi lauk var mælistöðvum skilað til Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar sem höfðu lánað þær endurgjaldslaust. Unnin voru skemmdarverk á stöðinni sem Akureyrarbær lánaði til Víkur þann 4. september og var stöðin því flutt til Reykjavíkur til viðgerðar. Eftir viðgerð og prófanir var það metið svo að öskufok yrði minna þegar vetur gengi í garð, sérstaklega eftir fyrstu snjóa. Því var ákveðið að setja stöðina aftur upp á Akureyri a.m.k. í vetur. Rökin fyrir því voru að búast mætti við háum toppum svifryks á Akureyri í vetur en á gossvæðunum yrði öskufok trúlega minna vandamál þegar vetur gengi í garð.

Hv. þingmaður spyr hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar á eftirliti með loftgæðum í kjölfar reynslunnar af eldgosum. Því er til að svara að ekki eru fyrirhugaðar stórbreytingar á eftirlitinu í vetur en til skoðunar er að flytja mælinn á Akureyri aftur inn á áhrifasvæði eldgossins snemma í vor. Eins og fram hefur komið er staðsetning mælistöðvar á Hvolsvelli einnig til endurskoðunar í ljósi ábendinga frá íbúum undir Eyjafjallajökli. Ég vil árétta það sem kom fram í upphafi svars míns að það er auðvitað ekki til neitt sem heitir endanleg ákvörðun í þessum efnum heldur verður að bregðast við jafnharðan og vera í góðu sambandi við íbúa. Það hefur Umhverfisstofnun viljað gera og hefur samkvæmt mínum upplýsingum haldið fundi með íbúum í því skyni.



[11:57]
Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en mig langar að það komi skýrt fram að ég tel mjög mikilvægt að áfram verði fylgst með loftgæðum á Hvolsvelli vegna þess að þar finna menn enn fyrir áhrifum öskufoks. Ég tel því lausnina ekki vera að flytja þá stöð til heldur eigi að fá aðra stöð til að fylgjast með loftgæðum undir Eyjafjöllum. Ekki eru miklar vegalengdir þarna á milli og það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á hvað er þarna á seyði vegna þess að þarna fer svifryksmengunin langt upp yfir það sem gerist í þéttbýli. Allir hljóta að skilja að íbúar á höfuðborgarsvæðinu mundu ekki sætta sig við að hafa ekki upplýsingar um mengun eins og hún er á þessu svæði og ég tel að íbúar undir Eyjafjöllum sem og á Hvolsvelli og í Vík sem búa við þessar aðstæður eigi heldur ekki að þurfa að sætta sig við það, svo það sé skýrt tekið fram.

Mig langar jafnframt að beina þeirri fyrirspurn til ráðherra hvort skoðað hafi verið að setja í lög eða reglugerð einhverjar viðmiðanir um það hvenær svifryksmengun verður það mikil að ekki sé æskilegt að menn séu staddir á viðkomandi svæði. Stundum eru gefnar viðvaranir á höfuðborgarsvæðinu, heyri ég. Þær tölur sem um er að ræða á höfuðborgarsvæðinu eru langt fyrir neðan það sem menn hafa búið við fyrir austan. Ég tel að einn af lærdómunum sem við þurfum að fara vel yfir í kjölfar gossins sé hvort og þá með hvaða hætti setja eigi einhverjar heimildir til heilbrigðisyfirvalda eða þá Umhverfisstofnunar um að gefa út tilmæli um að menn skuli ekki vera á ferð á ákveðnum svæðum. Ég tel að þetta sé eitt af því sem við þurfum að ræða. Þetta er erfitt viðfangsefni. Menn vilja að sjálfsögðu fá að ráða sér sjálfir en hins vegar sáum við það þegar ástandið undir Eyjafjöllum hafði verið viðvarandi lengi og menn orðnir þreyttir að hugsanlegu hefðu þurft að vera til skýrari viðmiðanir.



[11:59]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég met það mikils að þingmaðurinn skuli taka þetta málefni upp vegna þess að hún talar af þekkingu á svæðinu og veit vel um hvað málið snýst.

Varðandi þau tól og tæki sem við höfum í lögum og reglugerðum þá mun ég skoða það í framhaldi af þessari umræðu með hvaða hætti við getum styrkt þann umbúnað sem við þó þegar höfum og efla það að gefnar verði út viðvaranir fyrir almenning. Eitt af því sem er mikilvægast þegar mengun, og ég tala ekki um svifryksmengun eða brennisteinsvetnismengun, er annars vegar er gagnsæi og upplýsingar til almennings. Aðgengi almennings að upplýsingum um magn í lofti hefur verið eflt mjög og gagnsæi mælanna sem eru uppi og sýnileiki mælitalna á netinu er líka að verða miklum mun öflugra. Umhverfisstofnun hefur áform um að styrkja það enn frekar þannig að ég mun eftir þessa umræðu kanna sérstaklega með hvaða hætti við getum styrkt regluverk okkar til að auka öryggi almennings í þessum efnum.