139. löggjafarþing — 46. fundur
 13. desember 2010.
sameining lífeyrissjóða.
fsp. SER, 241. mál. — Þskj. 272.

[12:28]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Málefni lífeyrissjóðanna hafa mjög verið til umræðu á undanliðnum vikum og mánuðum, ekki síst eftir að efnahagshrunið reið yfir landsmenn. Mjög hefur verið deilt á íslenska lífeyrissjóði eftir það gríðarlega áfall sem þjóðin varð fyrir. Það hefur ekki einungis verið deilt um hvernig sjóðirnir hafa ávaxtað sitt pund heldur hefur og verið deilt á ýmsa umsýslu þessara lífeyrissjóða, innra starf þeirra, launagreiðslur til forsvarsmanna og þá yfirbyggingu sem þar hefur verið við lýði. Auk þess þarf varla að taka fram að mjög hefur verið deilt á lífeyrissjóðina fyrir ákveðinn lýðræðishalla, ef svo má segja, enda alkunna að fáir hafa mætt á aðalfundi þessara félaga og sjóða. Allar ákvarðanir hafa þar af leiðandi verið teknar af tiltölulega fáum miðað við þann gríðarlega fjölda sem á mikið undir þessum sjóðum sem að mínu viti eru fyrst og síðast félagslegir og á að reka sem slíka en ekki eins og einkareknar viðskiptastofnanir eins og sumir vilja vera láta að sé einmitt tilfellið.

Eins hefur það verið mjög í umræðunni á undanliðnum vikum hvort fækka beri þessum lífeyrissjóðum. Í fyrirspurninni sem hér er sett fram er spurningin einfaldlega í þá veru hvort fækka eigi þeim niður í einn. Margir telja það óvarlegt enda öll eggin þá í einni körfu og það beri að dreifa ábyrgðinni. Spurningin hlýtur samt sem áður að vera sú hvort þeim beri að fækka að mun, jafnvel niður í 2–3, til að auka hagræði og fækka þeim silkihúfum sem lífeyrissjóðakerfið hefur getið af sér á undanförnum árum.

Hér er vitaskuld mikið í húfi og margir landsmenn, ef ekki allir, horfa til þessara sjóða sem sinna sjóða þrátt fyrir að þeir séu kannski reknir í skjóli fámennra stjórna og aðalfunda sem lítil sem engin þátttaka er í. Ég ber því þá spurningu fram til svars af hálfu fjármálaráðherra hvort hann telji að það eigi að fækka þessum sjóðum og hvort ríkisvaldið sé yfir höfuð í einhverjum færum til að aðhafast eitthvað í þeim efnum.



[12:31]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Lífeyrissjóðirnir eru að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafnir og þeir hafa auðvitað fengið sinn skammt af henni. Þeir urðu fyrir þó nokkru höggi í hruninu en þess ber þó að geta sem vel er, sem betur fer stendur kerfið eftir án verulegrar löskunar og hefur langleiðina náð þeim styrk sem það hafði fyrir hrunið, á nálægt 120% af vergri landsframleiðslu í hreinum eignum til greiðslu lífeyris. Það var okkur Íslendingum mikil gæfa að við rötuðum inn á það spor á sínum tíma að byggja upp lífeyri í söfnunarkerfi, og enginn minnsti vafi á því í mínum huga hvað sem segja má svo um starfshætti og fyrirkomulag lífeyrissjóða.

Staða málsins núna er sú að það er að störfum nefnd sem var skipuð á öndverðu þessu ári. Þar eiga sæti öll helstu samtök launamanna, auk fulltrúa frá sveitarfélögum, efnahags- og viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Hlutverk þessarar nefndar er að fara yfir lífeyrisfyrirkomulagið á mjög breiðum grunni, ræða kosti og galla núverandi fyrirkomulags, safna saman öllum hugmyndum og setja fram valkosti og tillögur um framtíðarsýn. Þarna er mikið undir, þar á meðal og ekki síst sambúð kerfanna, almenna kerfisins og opinbera kerfisins. Við þekkjum þann núning, svo kurteislega sé að því vikið sem þar er og hefur verið á milli. Ég tel ekki tímabært að draga upp persónulegar skoðanir mínar á nákvæmlega hvernig þessu eigi að linna, en það er þó í mínum huga alveg ljóst að framtíðin hlýtur að eiga að bera það í sér að réttindin verði sem jöfnust, þó ekki þannig að réttur manna til að semja sérstaklega um kjör tengd þessu sé af þeim tekinn en einhvers konar samræmdari grunnréttindi allra en nú er sem og að kerfin verði sjálfbær. Það hljóta að vera meginleiðarljósin sem við förum í. Rekstrarkostnaðurinn og fjöldi eininga skiptir þá að sjálfsögðu máli en ég er ekki tilbúinn til að lýsa því yfir á þessu stigi að það sé endilega skynsamlegt að setja stefnuna á einn lífeyrissjóð allra landsmanna. Það gæti aldrei orðið að veruleika fyrr en mjög margt hefði gerst á undan, samanber núverandi stöðu kerfanna, auk þess sem í einhverjum mæli er þetta í höndum þeirra sem í hlut eiga. Lífeyrissjóðunum hefur fækkað umtalsvert og það hefur fækkað mjög litlum sjóðum sem ég held að sé tvímælalaust til bóta, bæði vegna þess að þær einingar eru að breyttu breytanda óhagkvæmar í rekstri og þar er kannski áhættudreifingin minni en hægt er að gera í stærri og öflugri sjóðum.

Lífeyrissjóðirnir eru sjálfir með sín mál til skoðunar. Þeir skipuðu nefnd til að rannsaka sig og sína starfshætti og ég held að það sé líka gott að fá þær niðurstöður fram, hvað lífeyrissjóðirnir sjálfir og forsvarsmenn þeirra telja að betur megi fara og hugmyndir um reglur, áhættudreifingu, stjórnarfyrirkomulag og þess vegna hvernig farið er með laun, þóknanir og annað slíkt. Líka er vert að sjá hvaða viðhorf menn hafa til rekstursins, fjölda og stærðar eininga. Að sjálfsögðu getur löggjafinn stýrt þessu á vissan hátt með skilyrðum og reglum sem lífeyrissjóðum er gert að fara eftir. Ef menn hefðu þá sannfæringu að það ætti að færa þetta saman í miklu færri og miklu stærri sjóði er út af fyrir sig væntanlega hægt að gera það með reglusetningu sem sjálfkrafa kallar á sameiningu en þá er orðið stutt í að sú sameining sé lögþvinguð. Við þekkjum þessa umræðu líka í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og gjarnan hefur það verið viðhorf mitt og minna að við höfum frekar kosið að slíkt gerðist á frjálsum grunni, ákvarðanir sem menn tækju sjálfir, en það þyrfti að vera lögþvingað án þess að slíkt sé endilega útilokað. Einfaldlega er við því að búast að þá verði betra andrúmsloft og menn áhugasamari og viljugri í þær breytingar ef þeir komast sjálfir að niðurstöðu um að það sé skynsamlegt að gera.

Allra síðast verður svo ekki fram hjá því horft að það væri gríðarlega mikil samþjöppun á fjármálalegu valdi og um leið áhættu ef allur lífeyrissparnaður landsmanna væri kominn í einn sjóð. Ég held að maður sæi það seint fyrir sér öðruvísi en að gríðarlega vel yrði þá vandað til verka í sambandi við áhættustýringu, áhættudreifingu og varnir, stjórnunarfyrirkomulag þar og annað í þeim dúr ef við legðum svo mikið undir að færa saman í einn lífeyrissjóð allan framtíðarlífeyrissparnað landsmanna. Þá þyrftu menn að vanda (Forseti hringir.) sig mjög vel.



[12:36]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við skuldavanda heimilanna var aðeins komið inn á málefni lífeyrissjóðanna og þar virtist koma fram viljayfirlýsing um að fara í þá endurskoðun sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum lífeyrissjóðina á Íslandi, sérstaklega stöðu opinberu lífeyrissjóðanna. Ég hef heyrt að það séu 500 milljarðar kr. sem vanti nú inn í B-deildina og skuldir sveitarfélaganna eru gífurlegar líka vegna lífeyrisskuldbindinga. Ég hef heyrt að menn tali um að það sé svo mikilvægt að jafna réttindin þannig að ekki sé verið að færa réttindi opinberra starfsmanna niður á við, heldur færist frekar allir upp á við. Það þarf einmitt að ræða málið, ekki bara í nefndum úti í bæ heldur á þingi líka, hvernig við sjáum fyrir okkur að gera það.

Ég bendi líka á það frumvarp sem ég hef lagt fram og er 1. flutningsmaður að, (Forseti hringir.) og hef í hyggju að leggja aftur fram á þessu löggjafarþingi, þar sem einmitt er talað um beina kosningu stjórnarmanna í lífeyrissjóðina.



[12:38]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka innlegg hv. þm. Eyglóar Harðardóttur í þessa umræðu og tek undir með henni hvað varðar beina kosningu í stjórnir lífeyrissjóðanna. Það þarf að beita þessa sjóði sem eru mjög mikilvægir í þjóðfélagi okkar ríku aðhaldi eins og aðrar fjármálastofnanir í landinu, ef hægt er að kalla lífeyrissjóðina slíku nafni.

Ég þakka jafnframt hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var skeleggt að vanda. Þessi umræða heldur vitaskuld áfram í samfélaginu. Af því að ráðherra svaraði þessari spurningu nokkurn veginn til þrautar langar mig að beina máli mínu til hæstv. ráðherra svolítið um samfélagsábyrgð þessara sjóða eftir að efnahagshrunið reið yfir landsmenn. Mjög hefur verið reynt að fá þá til liðs við ríkisvaldið í framkvæmdum og nokkur árangur unnist að vísu en ekki þegar kemur að lagningu vega og gerð jarðganga, eins og dæmin sanna úr fjölmiðlum síðustu vikna. Þeir hafa ekki tekið vel í hugmyndir ríkisvaldsins. Þeim samningum og viðræðum hefur verið slitið eins og menn þekkja. Ég á erfitt með að átta mig á því af hverju lífeyrissjóðirnir slitu þessum viðræðum vegna þess að þarna er um mjög, að því er virðist, tryggan og traustan samning til framtíðar að ræða, vel yfir ávöxtunarkröfu þessara sjóða. Mig langar að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess gjörnings lífeyrissjóðanna að taka ekki þátt í uppbyggingu samfélagsins hvað þetta varðar og hafa þar í huga (Forseti hringir.) samfélagsábyrgð þeirra.



[12:40]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Vegna þess að hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og B-deildina held ég sem betur fer að það sem upp á vantar að B-deildin eigi fyrir skuldbindingum sé ekki 500 milljarðar kr. Ætli það sé ekki nær að vera um 340 milljarðar kr. sem eru bókfærðir. Þetta geta menn m.a. séð í tölum Hagstofunnar sem leggur þessa skuldbindingu yfirleitt ofan á skuldir ríkisins og þar af leiðandi (EyH: En …?) eru þær hærri en þær skuldir sem venjulega birtast mönnum í töflum, t.d. í fylgigögnum með fjárlagafrumvarpi. (EyH: En A-deildin?)

Varðandi A-deildina eru þar allt aðrar og miklu lægri fjárhæðir, einhverjir tugir milljarða króna kannski sem segja má að upp á vanti að hún standi undir því sem þegar er á fallið þar.

Í B-deildinni er auðvitað stórt framtíðarverkefni að undirbúa hvernig við tökumst á við þær skuldbindingar. Því miður drógu menn mjög úr inngreiðslum í sjóðinn upp úr árinu 2000. Menn fóru vel af stað og greiddu nokkuð inn á framtíðarskuldbindinguna í 2–3 ár en síðan lækkuðu þær greiðslur einmitt á þeim árum þegar afkoma ríkissjóðs var best sem var auðvitað mjög bagalegt. Á þeim árum hefði verið upplagt að greiða meira inn á þetta.

Engu að síður er þetta ekki stærra en svo, þótt stórt sé, að ef við gætum sem fyrst farið að leggja 7–9 milljarða kr. árlega inn á þetta mundi deildin ráða við skuldbindingar sínar. Hún gerir það án nokkurra framlaga fram til 2022–2024 en eftir það yrði hún auðvitað tóm og það ætlum við ekki að láta gerast, heldur hefja undirbúning að þessu sem fyrst.

Varðandi stjórnarkjör bið ég menn að hafa í huga hvernig lífeyrissjóðirnir urðu til í samningum aðila á vinnumarkaði. Það hefur síðan fylgt þeim í gegnum það stjórnarfyrirkomulag en ég tel koma vel til greina, og ég hef sagt það á fundi með landssamtökum lífeyrissjóða, að þeir skoði a.m.k. þann kost að veita í beinni kosningu einhverjum fulltrúum sjóðfélaga aðild að stjórnunum.

Varðandi samgönguframkvæmdir eru einfaldlega mikil vonbrigði að ekki skyldi nást saman um vaxtakjör. Það var enn óaðgengilegra fyrir ríkið að semja um fasta tiltölulega (Forseti hringir.) vexti sem við töldum of háa í ljósi þess að vextir eru á niðurleið. Við viljum láta þá lækka og það er mikið hagsmunamál fyrir alla, heimili, atvinnulíf og ríkissjóð sem skuldar, að vextirnir fari niður. (Forseti hringir.) Lífeyrissjóðirnir eiga auðvitað að sjá grand sitt í því að vera fullgildir þátttakendur í uppbyggingu samfélagsins. Það mun til lengri tíma litið þjóna þeirra hagsmunum best.