139. löggjafarþing — 47. fundur
 14. desember 2010.
úrvinnslugjald, 2. umræða.
stjfrv., 185. mál (hækkun gjalda). — Þskj. 202, nál. 493.

[13:54]
Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum. Svipað frumvarp kemur inn á hverju hausti og felst í því að verið er að stilla sjóðinn af miðað við stöðuna á ýmsum þáttum í starfsemi hans. Umhverfisnefnd hefur fengið á fund sinn menn frá sjóðnum og skoðað umsagnir sem hafa borist annars staðar frá.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til hækkunar, því miður allar, á fjárhag úrvinnslugjalds á eftirfarandi: Olíumálningu, blýsýrurafgeymum, pappa- og pappírsumbúðum, plastumbúðum og heyrúlluplasti, ísócyanötum, leysiefnum, halógeneruðum efnasamböndum, olíuvörum, framköllunarefnum og hjólbörðum. Þetta er gert til þess að draga úr þeim sjóðshalla sem hefur orðið í þessum flokkum.

Í nefndarálitinu segir að kostnaður af rekstri sjóðsins ráðist annars vegar af magni úrgangs sem þjónustuaðilar safna og ráðstafa og hins vegar upphæð þjónustugjalds sem greitt er til þeirra þegar staðfesting á ráðstöfun liggur fyrir. Nokkur tími getur liðið frá því að vara er sett á markað þangað til úrgangur af hennar völdum fellur til og getur sá tími verið frá nokkrum mánuðum upp í mörg ár. Óvissa í mati á úrgangi er meiri þegar hagsveiflur eru miklar eins og verið hefur hér á landi og okkur hefur gengið illa að draga úr. Við urðum reyndar fyrir mestu hagsveiflu í heimi fyrir tveimur árum og hún er ástæðan fyrir hækkununum. Þessar hækkanir eru töluverðar þegar allt er talið þó að þær séu litlar á hvern hlut, hverja vöru — þær eru partur af timburmönnunum eftir þetta mikla fyllirí sem íslenskt samfélag lenti á og endaði með ósköpum fyrir tveimur árum.

Sérstök mál. Eitt þeirra vil ég nefna, þ.e. umkvörtun í umsögn Bændasamtaka Íslands. Þar var bent á mikla hækkun úrvinnslugjalds á heyrúlluplasti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hækka það úr 5 kr. í 12 kr. á kíló. Í ljósi þeirra athugasemda aflaði nefndin sér upplýsinga um áætlaðan meðalkostnað á bú bæði fyrir og eftir þessa hækkun og komst að því að þótt hækkunin sé auðvitað talsverð, einkum í prósentum, er meðalkostnaðurinn reyndar ekki mjög mikill og er þó ekki verið að mæla með því að bændur þurfi að greiða meira í þessari vondu tíð en algjörlega er nauðsynlegt. Úrvinnslugjald bús sem notar t.d. 370 heyrúllur á ári og hefur þá plastnotkun sem nemur 407 kílóum hækkar úr 2.035 kr. í 4.885 kr. sem er mikið í prósentum en ekki nema um 2.500 kr. á heilu ári. Annað er eftir því. Við höfum því miður ekki séð okkur fært að verða við eða bregðast með einhverjum hætti við þessari umkvörtun. Við teljum að í ljósi þeirrar sveiflujöfnunar sem er nauðsynleg til að leiðrétta sjóðshalla sem hefur orðið í þessum vöruflokki sé hækkunin innan eðlilegra marka og hljótum að benda á að bændur njóta þess að heyrúlluplast er flokkað sem plastumbúðir en ekki plast sem þýðir að minna þarf að borga af því. Plastið er reyndar unnið innan lands. Við fengum ágæt tíðindi af því og skilin eru mjög góð á plastumbúðunum sem þýðir að bændur taka þátt í þessu af heilum hug og væntanlega minnkar gjaldið þegar frá líður.

Þetta er óþægileg hækkun, best að segja það bara eins og það er. Þeir sem skila efnislegu áliti taka það auðvitað fram, þar á meðal eru Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök iðnaðarins sem skila sameiginlegu áliti. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á síðustu tveimur árum hefur gengið á sjóðinn vegna aðstæðna á markaði. Það er í samræmi við rekstrarfyrirkomulag sjóðsins að stilla gjaldið af miðað við stöðu einstakra sjóða. Á sama tíma“ — segja umsegjendur — „er verið að vinna að sparnaði í útgjöldum. Stefnt er að því að ná sjóðum, sem eru með neikvæða stöðu, í jákvæða stöðu innan fárra ára.“

Síðan kemur þetta:

„Það er bagalegt að hækka eigi gjöldin á tímum samdráttar og bendir það til ágalla í kerfinu. Umsagnaraðilar“ — sem eru Samtök atvinnulífsins, verslunar og þjónustu og iðnaðarins — „styðja frumvarpið en samtökin munu skoða hvernig hægt er að stýra sjóðnum með jafnari innheimtu.“

Ég tek undir þetta fyrir hönd nefndarinnar. Umsögn fulltrúa þessara samtaka er mikilvæg því að þau eiga mann í stjórn Úrvinnslusjóðs ásamt Samtökum fiskvinnslustöðva og Landssambandi íslenskra útvegsmanna sem eiga einn fulltrúa og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem á einn, ég man ekki hvort það er eitthvað meira. Svo er einn frá ráðherra. Samtök atvinnulífsins eiga því mikinn þátt í stjórn þessa sjóðs og bera þar með ákveðna ábyrgð á þeirri bagalegu stöðu sem upp er komin.

Enginn hefur bent okkur á að neitt sé í raun og veru við þessu að gera nema bíta á jaxlinn og herða ólina. Þetta eru ekki beinar álögur á einn eða neinn í formi skatta heldur jafnar þetta sig út sjálft. Vera kann að stjórn sjóðsins og starfsmenn hans hafi verið fullglannalegir við ákvarðanir fyrir nokkrum árum sem við súpum nú seyðið af. Ég held þó að ekki sé ástæða til að ávíta þá harðlega fyrir það því að ástandið á þeim tíma var þannig að menn grunaði ekki hvernig fara mundi.



[14:01]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hv. formanns umhverfisnefndar að uppbygging sjóðsins og gjaldtökunnar leiðir til þess að við núverandi aðstæður virðist óumdeilanlega þörf á hækkunum á tilteknum gjaldaflokkum. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. formanns og umsagnaraðila sem hann vitnaði til að þarna er um að ræða óheppilegar hækkanir í ljósi þess að nú eru samdráttartímar. Um að ræða, samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins og sjóðsins, 316 milljónir sem bætast við gjaldtökuna á ári, hækkun á einstökum gjaldaflokkum verður veruleg í prósentum talið þó að rétt sé, eins og fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að ekki sé endilega um háar krónutölur að ræða. Hækkunin í einstökum tilvikum nam hæst, ef ég man rétt, 167% og í öðru tilviki 140%. Það leiðir auðvitað til þeirrar ályktunar, sem í sjálfu sér kom einnig fram hjá hv. formanni nefndarinnar, að taka þurfi uppbygginguna og skipulagið og fyrirkomulagið í þessum efnum til endurskoðunar, því að stökk af þessu tagi eru auðvitað óheppileg jafnvel þó að um sé að ræða tiltölulega lágar krónutölur á hverja einingu sem liggur til grundvallar gjaldtökunni.

Ég tel að það hefði út af fyrir sig verið heppilegra ef stjórn sjóðsins hefði getað lagt fram tillögur um einhverja aðlögun í þessu efni frekar en stökk af þessu tagi. Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði, að stjórn sjóðsins og stjórnendum er auðvitað vandi á höndum miðað við þær aðstæður sem þeir standa frammi fyrir í ljósi efnahagshrunsins og mikils hruns í innflutningi og sölu á tilteknum vöruflokkum sem hér um ræðir. Ég nefni hjólbarða sem dæmi, það hefur orðið gríðarlegur samdráttur bæði í innflutningi nýrra bíla og hjólbarða þannig að þar hefur orðið verulegur halli og í fleiri flokkum sem þar um ræðir. Enda þótt ekki sé um háar upphæðir að ræða hefði ég talið réttara að leita einhverra leiða til að jafna þetta út frekar en að taka það í einu höggi, sérstaklega í ljósi þess að samdráttur er víða í þjóðfélaginu og gjaldtaka eykst bæði í formi skatta og alls konar gjalda annarra.

Þetta vildi ég sagt hafa um málið, hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir að við þessi áramót höfum við ekki tækifæri til að fara út í þá kerfisbreytingu sem hugsanlega er þörf á í þessu sambandi. Að því borði þarf að kalla fjölmarga aðila sem í rauninni eru bakland sjóðsins, bæði viðkomandi hagsmunasamtök og eins þær stofnanir sem að þessum málum koma. Ef við förum yfir reynsluna síðustu árin sjáum við að þarna eru einhverjir veikleikar sem þarf að laga og ég vonast til að það verði gert þó að okkur hafi ekki auðnast að gera það í haust.