139. löggjafarþing — 49. fundur
 15. desember 2010.
aðstoð við þurfandi.

[10:45]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Jólin eru allmörgum ansi þung byrði og ekki mikið til af fjármunum í lok mánaðarins en margir vilja halda áramótin gleðileg í faðmi fjölskyldu og vina og geta boðið börnum sínum og fjölskyldu upp á t.d. góðan mat. Það er hins vegar erfitt þegar bæturnar koma ekki fyrr en á miðnætti 31. desember. Mig langar því til að skora á hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að beita sér fyrir því að örorku- og atvinnuleysisbætur verði greiddar út þann 30. desember 2010 ef ekki hefur nú þegar verið tekin ákvörðun um að gera það. Mig langaði að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort þetta hafi verið kannað, hvort þetta sé möguleiki. Jafnframt langar mig að spyrja hann út í frétt sem ég sá í gærkvöldi um að þau samtök sem úthluta mat séu á móti matarkortum. Hver eru rökin sem honum voru færð fyrir því? Hefur verið lagt til að það yrðu örari matarúthlutanir þannig að fólk þyrfti ekki að standa í svona löngum röðum og er ekki hægt að samhæfa þetta hjálparstarf við aðgerðir ríkisins varðandi þessi mál?



[10:47]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við hv. fyrirspyrjandi deilum áhyggjum af því að fólk komist ekki gegnum jól og áramót á mannsæmandi hátt því að öll viljum við að fólk geti haldið upp á þennan tíma með fullri sæmd. Við reyndum að grípa inn í þetta með þeim hætti sem við mögulega gátum. Hinn svokallaði þriðji geiri fundaði með félags- og tryggingamálaráðuneytinu, það var ráðstefna í heilan dag þar sem einmitt var reynt að samhæfa aðgerðir og vinna markvisst að því að ná utan um hverjir það eru sem mynda biðraðir og hverjir þurfa á aðstoð að halda. Síðan var leitað ýmissa leiða með hvaða hætti væri hægt að samhæfa þetta. Því miður náðist ekki verulegur árangur í því. Það voru skiptar skoðanir innan þessara samtaka um með hvaða hætti væri rétt að fara í þetta og þá var m.a. skoðað hvort hægt væri að færa sig yfir í matarkort eða annað.

Það sem við gerðum hins vegar, sem var gríðarlega mikilvægt að mínu mati, var að við settum inn 280 millj. kr. til að greiða út desemberuppbætur á atvinnuleysisbætur sem hefur ekki verið gert síðustu fimm árin. Svo er mikill slagur við tímann um að ná að borga það út fyrir jól sem mér finnst skipta mjög miklu máli.

Varðandi 30. desember hefur þessi umræða komið upp. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki spurst fyrir um hvernig staðan er nákvæmlega á því núna en mun spyrja í framhaldi af þessari fyrirspurn hvort hægt sé að hnika því til.

Varðandi málið í heild hafa sveitarfélögin líka greitt út desemberuppbætur og ég minni á, sem mér finnst vera mjög mikilvægt að skili sér í umræðuna, að desemberuppbætur eru greiddar á nánast allar bætur í kerfinu, þ.e. örorkubætur og annað slíkt. Það er upphæð sem nemur um 733 millj. kr. í desembermánuði fyrir utan þessar 280 millj. kr. sem fara til atvinnuleysisbóta sem eru hrein og klár viðbót akkúrat núna. Það er verið að bregðast við þessu með margvíslegum hætti og hjálparsamtökin hafa auðvitað gegnt þar mikilvægu hlutverki. (Forseti hringir.) Það er okkar verkefni með nýju ári að gera þetta enn betur og samhæfa þetta í framtíðinni.



[10:49]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það gleður mig að heyra að verið sé að taka á þessu mikla vandamáli. Mig langar að ítreka þá áskorun mína að það verði í það minnsta tryggt að þeim sem þiggja örorkubætur verði greitt út 30. desember. Það er sá hópur sem á mjög erfitt og á hverjum einasta degi heyri ég sögur af fólki sem getur t.d. ekki farið í þessar biðraðir af því að það hefur ekki tök á að standa í svona löngum biðröðum eða treystir sér ekki út úr húsi af heilsufarsástæðum. Mig langar til að skora á ráðherra að eitthvað verði gert til að tryggja að fólk fái aðstoð. Ég hef heyrt svo skelfilegar sögur að maður á erfitt með að festa svefn á kvöldin.



[10:50]
félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að virka hálfaumingjalegt en það eina sem við getum gert eða beðið fólk sem er í þessari stöðu að gera er að leita til sveitarfélagsins síns. Það er sá vettvangur þar sem menn bera ábyrgð á því að tryggja að fólk geti haldið framfærslunni. (BirgJ: Þeim er vísað annað.) Hv. þingmaður segir að þeim sé vísað annað. Það er alveg hárrétt, það er líka mismunandi eftir sveitarfélögum og eftir því hver staðan er. Þau fylgja ákveðnum kvörðum. Þess vegna sagði ég að í sjálfu sér væri þetta aumt úrræði. Á sama hátt hefur sá sem hér stendur sem ráðherra engan úthlutunarpott til að taka á móti einstaklingum og veita þeim fé.

Það sem skiptir mestu máli er að við vinnum sameiginlega að því að finna út hverjir þetta eru. Í fjárlagatillögunum í dag kemur hækkun á verðtryggingu á örorkubætur. Það er verið að stíga skref í þessa átt. Það kemur reglugerð frá mér í mánuðinum um að framfærsla sveitarfélaganna verði hækkuð verulega eins og Reykjavíkurborg er þegar búin að ákveða og ég veit að Kópavogur (Forseti hringir.) er að vinna að. Það eru allir að leita leiða og við þurfum að ná samstöðu með hjálparsamtökunum. Vandamálið er til staðar og óviðunandi þannig að ég vona að við getum stigið skref í rétta átt í framhaldinu.