139. löggjafarþing — 50. fundur
 16. desember 2010.
gjaldþrotaskipti, 3. umræða.
stjfrv., 108. mál (fyrningarfrestur). — Þskj. 537.

[21:20]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka í örstuttu máli það sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðum við 2. umr. um þetta mál. Í fyrsta lagi sögðum við að við styddum það markmið frumvarpsins að stytta þann frest sem tæki til fyrningar krafna sem ekki fengjust greiddar við gjaldþrotaskipti einstaklinga. Hvar sem við höfum komið að þessu máli, frá því að það kom fyrst inn í þingið, höfum við lýst yfir stuðningi við það meginmarkmið. Eins og fram kemur í nefndaráliti okkar höfðum við hins vegar áhyggjur af því að frumvarpið eins og það er nú mótað nái ekki tilgangi sínum, að minnsta kosti ekki svo að það nýtist stórum hópi fólks og að hugsanlega hafi verið vaktar of miklar væntingar í þessu máli, væntingar umfram það sem innstæða er fyrir.

Við höfum ekki lagst gegn þessu máli, hvorki innan nefndar né í afgreiðslu mála í þinginu, en við höfum hins vegar ekki stutt það vegna þess að við teljum að það sé ekki til þess fallið að öllu leyti að ná þeim háleitu markmiðum sem ráða má af umræðum um það. Ég ætla ekki að fara ítarlega í rökstuðning um það heldur vísa fyrst og fremst til þess nefndarálits sem liggur fyrir frá mér og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Afstaða okkar mun því verða sú hin sama og við 2. umr., við munum sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.



[21:22]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma upp undir þessum lið. Ég var með sérnefndarálit í þessu máli þar sem ég fór yfir þær efasemdir mínar að í ljósi dóms Hæstaréttar, sem féll fyrr í haust, varðandi það að ekki væri hægt að rjúfa samning með eftirásettum lögum — ég lít fyrst og fremst svo á að ég sé að vinna löggjöfinni gagn með því að benda á bresti í þeim lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi frá hruni.

Löggjafinn verður að vera sterkur, löggjafinn verður að taka til sín þær athugasemdir sem komu fram í nefndunum og ég tel það mikla sóun, bæði á opinberu fé og einkafé, að verið sé að vísa lögum, frumvörpum sem eru samþykkt sem lög frá Alþingi, til dómstóla til úrlausnar og túlkunar. Það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir alla aðila að hér séu sett skýr lög sem almenningur og þeir sem eiga að fara eftir lögunum skilja og að við setjum skýrar reglur. Svo hefur ekki verið og með þeim vinnubrögðum sem tíðkast hafa undanfarið ár er íslenska löggjöfin að þróa sig í átt til engilsaxnesks réttar þar sem dómstólunum er raunverulega falið að móta lögin eftir þeim málum sem upp koma.

Ég er mjög ósátt við hvernig þróunin er hér á landi og það er svo að Hæstiréttur er æðsti dómstóll landsins. Við trúum og treystum dómstólunum, við verðum að gera það eftir það sem gengið hefur á þjóðfélaginu eftir haustið 2008. Við verðum að treysta því að dómstólarnir dæmi rétt og það er því þingmanna, sem sitja á löggjafarsamkomunni hverju sinni, að lesa sér til í dómum Hæstaréttar sem hafa fordæmisgildi og bregðast við lagasetningu á þann hátt til að fyrirbyggja mistök og þá réttaróvissu sem skapast þegar verið er að setja óskýr lög. Þessi lög eru dæmi um óskýrleika vegna þess að verið er að umbylta fyrningu í gjaldþrotamálum, sem er mjög þarft verkefni. Ég hef mikla samúð með þessu verkefni, en á lagatæknilegum rökum tel ég ófært að það nái fram að ganga í reynd. Þrátt fyrir að þetta frumvarp verði jafnvel samþykkt og verði gert að lögum kemur til með að reyna strax á dómstólana þegar fer að reyna á þetta úrlausnarefni.

Því miður er löggjafinn, þ.e. framkvæmdarvaldið, að koma fram með þetta frumvarp, af því að þetta er stjórnarfrumvarp, til að skapa óraunhæfar væntingar. Það er enn verið að grípa til þess ráðs að milda höggið sem varð af hruninu, vekja óraunhæfar væntingar hjá fólki því að að mínu mati er það mjög vafasamt að þetta standist stjórnarskrá.

Frú forseti. Þingmenn Framsóknarflokksins eru ekki samstiga mér í þessu máli. Það er að sjálfsögðu hið besta mál að fólk tjái hug sinn af sannfæringu. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni á morgun hvernig sú atkvæðagreiðsla fer en ég kem til með að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls eins og ég gerði eftir 2. umr.



[21:26]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma upp vegna þeirra orða sem fallið hafa um þetta mál til að útskýra hlið stjórnarmeirihlutans í þessu máli og í rauninni þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni og Vigdísi Hauksdóttur fyrir þeirra innlegg í málið.

Það komu fram tvö minnihlutaálit í málinu, bæði málefnaleg og vel unnin. Engu að síður er þetta mál sem ég hef góða sannfæringu fyrir eftir þá vinnu sem við höfum farið í gegnum í allsherjarnefnd. Þetta er það mál sem einna mestur tími hefur farið í nú í haust í störfum nefndarinnar enda er það gríðarlega mikilvægt og líka að vandað sé til verka.

Þarna er verið að fjalla um styttingu á svokölluðum fyrningarfresti kröfuréttinda úr því sem verið hefur ýmist 4, 10 eða 20 ár niður í tveggja ára tímabil. Þeir geta rofið þá fyrningu sem telja sig hafa sérstaka hagsmuni og geta sýnt fram á það fyrir dómi. Töluvert var um það fjallað fyrir nefndinni hvort ástæða væri til að skilgreina það nánar hverjir þeir væru en niðurstaðan er sú að fela dómstólum að gera það.

Jafnframt var mikið rætt um það í nefndinni hvort ástæða væri til að hafa svonefnt sólarlagsákvæði í þessum lögum þannig að þau giltu um ákveðið tímabil til þess að taka utan um það ástand sem skapast hefur í kjölfar hrunsins. Það er rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði áðan í ræðu sinni að þetta er ein af þeim leiðum sem stjórnarmeirihlutinn er að reyna að fara til að milda höggið af hruninu sem hér varð 2008. Þetta hlýtur að vera eins og áður fyrr neyðarúrræði eða neyðarleið því að við gjaldþrot missir fólk að sjálfsögðu allt sitt. Það er fjöldi einstaklinga sem hefur farið í gegnum gjaldþrot sem hefur síðan átt í erfiðleikum með að rísa á fætur að nýju. Þetta hefur að mörgu leyti búið til það sem kallað hefur verið svart hagkerfi. Við erum að bregðast við þeim kalda veruleika með þessari aðgerð en þó þannig að í lögunum er innbyggt ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun þeirra að loknu fjögurra ára tímabili. Ég tel mjög mikilvægt að innbyggt sé í lögin tækifæri til að grípa inn í ef einhver óæskileg þróun á sér stað í kjölfar þessara breytinga. En fyrst og síðast vil ég taka það fram og ítreka að þetta er ein af þeim leiðum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn er að reyna að fara til að milda höggið sem varð af því mikla hruni sem gekk yfir landið á haustmánuðum ársins 2008.



[21:29]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt örstutt andsvar við ræðu hv. þm. Róberts Marshalls. Það er mesti misskilningur að sú leið sem farin er í þessu frumvarpi minnki hið svokallaða svarta hagkerfi. Breytingin er sett inn í gjaldþrotalög en ekki lög um fyrningu. Fyrningarfresturinn er nú samkvæmt lögunum 4, 10 og 20 ár og er algengasti tíminn á þeim kröfum sem snúa að heimilum 4 ár. Þau lög eru í fullu gildi þrátt fyrir að þetta lagaákvæði komi hér inn og taki gildi. Eins og fram kom fyrir allsherjarnefnd stoppa kröfuhafar iðulega við árangurslaust fjárnám þannig að ekki kemur til gjaldþrotaskipta. Það eru ekki nema rúmlega 100 aðilar á ári sem fara alla leið í gjaldþrot þannig að ég vara við því að þetta mun vekja væntingar og hefur ekkert með hið svokallaða svarta hagkerfi að gera vegna þess að gjaldþrotatíminn líður eftir sem áður.

Það sem gerist hins vegar í árangurslausu fjárnámi er að kröfuhafar hætta að sækja viðkomandi skuldara og láta málið niður falla þrátt fyrir að fyrningarfresturinn tikki áfram í fjögur ár. Samkvæmt þessu þarf dómsúrskurð.

Fram kom í allsherjarnefnd að það er mjög sjaldgæft að það reyni á að kröfur séu endurvaktar. Það er þá helst í þeim örfáu undantekningartilfellum að fólki tæmist arfur eða eitthvað slíkt. Þetta er athugasemd við ræðu formanns allsherjarnefndar en ekki bein fyrirspurn. Ég vildi koma því að að mér finnst hv. formaður ekki alveg vera á réttu róli varðandi það sem frumvarpið á að ná til. (Forseti hringir.) Frumvarpið vekur í raun upp væntingar sem ekki er hægt að standa undir.



[21:32]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek bara athugasemdum hv. þingmanns. Við erum ekki sammála um málið þó að það sé í sjálfu sér ekki mikið sem ber á milli. Eins og ég sagði áðan í minni stuttu ræðu fannst mér minnihlutaálit hv. þingmanns að mörgu leyti vel unnið og málefnalegt fyrir sína parta.

Ég tel að það úrræði sem nú er gripið til eða leitt í lög sé alger neyðarleið. Það er ósk mín að sem fæstir, að sjálfsögðu, þurfi að nýta sér þann stutta fyrningarfrest sem hér um ræðir þannig að ef bölbænir stjórnarandstöðunnar, ef ég má nota það orð, rætast í þessum efnum, þ.e. að þetta úrræði gagnist afar fáum hlýtur það að vera fagnaðarefni, það er gott að sem fæstir þurfi að fara þessa leið.

Í það minnsta er þetta eitt úrræði af mörgum tugum úrræða sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa gripið til til að bregðast við, eftir fremsta megni og með ýmsum hætti, þeim áföllum sem heimilin og skuldugir einstaklingar urðu fyrir í landinu í kjölfar hrunsins 2008.



[21:33]
Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemdir við orð formanns allsherjarnefndar, hv. þm. Róberts Marshalls. Ég er alls ekki að fara með bölbænir heldur lít ég bjartsýn fram á nýtt ár og næstu áratugi.

Úr því að þingmaðurinn kom örstutt inn á það sem ég sagði varðandi hverjir það eru sem nýta úrræðið, vorum við vöruð við því í allsherjarnefnd að það væru þeir sem spilað hefðu tæpast fyrir hrun sem nýttist þetta ákvæði því að krafa um gjaldþrotaskipti hefur einungis verið gerð á rétt rúmlega 100 aðilum. Því miður nýtist þetta frumvarp, verði það að lögum, kannski helst þeim sem fá milljarðana afskrifaða, eins og svo oft áður, hversu ósanngjarnt sem það kann að vera því að enginn er sáttur við það sem gerðist á haustdögum 2008. Eins og þingmaðurinn veit hefur enginn flokkur verið eins áfram um að koma heimilum og skuldugum fjölskyldum til hjálpar og Framsóknarflokkurinn, við stöndum að sjálfsögðu við bakið á þessum aðilum hér eftir sem hingað til. En við erum kannski ekki svo til í að rétta þeim hjálparhönd sem spiluðu óvarlega og komu þjóðinni raunverulega á hliðina, það fólk er gjaldþrota hvort sem er.

Það voru einmitt þau varnaðarorð sem Samfylkingin hafði yfir okkur framsóknarmönnum í síðustu kosningabaráttu, að með flatri 20% niðurfellingu skulda fengju allir hluta skulda sinna felldan niður, líka þeir sem spiluðu óvarlega. Það var málflutningurinn hjá Samfylkingunni fyrir síðustu kosningar. En það er ágætt að hafa skoðanaskipti í þinginu, til þess er þessi ræðustóll. Við hv. þm. Róbert Marshall erum ekki sammála í þessu máli og vil ég aðallega koma áleiðis lagaskilareglunni, að ný lög geta ekki yfirtekið og verið rétthærri en gömul.



[21:35]
Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú leið sem farin er í lagaskilum í þessu frumvarpi er sú að þau ná yfir þá fyrningarfresti sem þegar eru í gangi. Ef þeir eru lengri en tvö ár styttast þeir niður í tvö ár og ef þeir eru skemmri haldast þeir óbreyttir. Það er lending sem m.a. réttarfarsnefnd gat fallist á að stæðist réttarvenju réttarríkisins, svo notað sé það sívinsæla hugtak.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni, þetta er ein af fjölmörgum leiðum sem við förum til að reyna að ná utan um það fólk sem varð fyrir áföllum í kjölfar hrunsins. Auðvitað kann að vera að það gagnist fólki sem hefur hagað sér eins og apakettir, en þeir eru íslenskir apakettir og við þurfum að taka utan um þá alveg eins og alla aðra. Það er ekki hægt að undanskilja neitt fólk á Íslandi (Forseti hringir.) lagasetningu jafnvel þó að það hafi hagað sér eins og apakettir.



[21:37]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og við þær breytingar sem fram koma frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Ég var einn af meðflutningsmönnum að bæði hinu svokallaða lyklafrumvarpi og frumvarpi um styttingu á fyrningarfresti kröfuréttinda sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir var 1. flutningsmaður að. Ég hafði alltaf séð fyrir mér að raunar væri þar tekið á sama vandamálinu, annars vegar væri möguleikinn á lyklafrumvarpi þannig að fólk þyrfti ekki að fara í gjaldþrot, og hins vegar væri hægt að stytta fyrningarfrestinn hjá þeim sem færu í gjaldþrot. Í því frumvarpi var fresturinn fjögur ár, sem hefur verið almenna reglan hvað fyrningarfrest varðar, en ég fagnaði því hins vegar mjög þegar hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp þar sem búið var að stytta þann tíma í tvö ár.

Þegar ég hef skoðað afstöðu og löggjöf hvað varðar gjaldþrot og greiðsluaðlögun annars vegar í Evrópu og hins vegar í Bandaríkjunum hef ég séð tvenns konar viðhorf gagnvart skuldurum. Í Bandaríkjunum sér maður það mjög í löggjöfinni að þeir vilja hafa gjaldþrotaskiptin eins skilvirk og hægt er og flýta fólki gegnum ferlið, bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum, með það í huga að einstaklingurinn geti farið að skila af sér sem fyrst til samfélagsins á nýjan leik. Í Evrópu höfum við verið svolítið lúterskari. Við höfum meira haft í huga að fólk megi ekki halda að það geti farið óvarlega í fjármálum og sé svo reddað með því að fara í gegnum gjaldþrot, heldur þurfi að einhverju leyti að refsa fólki fyrir að hafa farið óvarlega í fjármálum. Það hefur einkennt mjög löggjöfina á Íslandi hvað varðar skuldara og gjaldþrot.

Það geta verið mjög margar ástæður fyrir því að fólk lendir í fjárhagslegum erfiðleikum og margar af þeim ástæðum hafa ekkert með það að gera að fólkið sjálft hafði farið óvarlega í fjármálum eða ekki. Ef við tökum einstakling sem dæmi sem verið hefur í fyrirtækjarekstri á eigin kennitölu, getur verið að viðkomandi hafi veikst, það getur verið að maki viðkomandi veikist, sem gerir það að verkum að forsendur fyrir fjármálum þess heimilis bresta kannski á mjög stuttum tíma. Það getur orðið skilnaður og síðan getur það gerst sem við erum að takast á við á Íslandi, að alger forsendubrestur verður í fjármálakerfinu. Á Íslandi hafði það gríðarleg áhrif á stóran hluta íslenskra heimila þegar íslenska krónan féll og gjaldþrot varð í um 95% af íslenska bankakerfinu. Þar missti fólk sparnaðinn sinn, eignir í hlutabréfum og lán sem það hafði tekið og talið að það gæti staðið undir, tvöfölduðust. Það stóð jafnvel frammi fyrir því að missa vinnuna. Það er vandi sem við erum að takast á við.

Ég efast hins vegar ekki um að látið verði reyna á það fyrir dómstólum hvort þetta sé afturvirkt ákvæði eða ekki. Það er gott vegna þess að við verðum að fá það á hreint hvort það er í lagi þegar maður skrifar undir skuldabréf eða tekur á sig einhverjar skuldir, þegar maður er búinn að gefa eftir allar sínar eigur, bíllinn er farinn, húsið er farið, allar eignir, að sá sem maður skrifaði upp á fyrir eigi samt sem áður rétt á því sem maður aflar sér um ókomna tíð. Ef stjórnarskráin er þannig skrifuð á Íslandi, ef eignarréttarákvæðið er fastsett á Íslandi, er algerlega á hreinu í huga mínum að það þarf að breyta því í stjórnarskránni því að þannig getum við ekki komið fram við fólk.

Ég mun styðja þetta mál. Ég tel líka að þær breytingar sem meiri hluti allsherjarnefndar hefur gert séu til bóta og tel að þetta sé með betri málum, ef ekki þeim bestu, sem nú fara í gegnum þingið.



[21:41]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum er mjög gagnmerkt og gott nema það dugar allt of fáum. Við björgum kannski einhverjum hóp sem telur hundruð manna en vandamálið er hjá hópi sem er sennilega 10 eða 20 sinnum stærri, ef ekki 30–40 sinnum, og það er sá hópur sem lendir í árangurslausu fjárnámi. Hann fer undir yfirborðið líka og honum verður ekki bjargað með þessu. Ég ætla bara að koma því að.