139. löggjafarþing — 51. fundur
 17. desember 2010.
gjaldþrotaskipti, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 108. mál (fyrningarfrestur). — Þskj. 537.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:16]

Frv.  samþ. með 43 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁRJ,  BirgJ,  BJJ,  BjörgvS,  BVG,  EyH,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JóhS,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  RM,  SDG,  SER,  SII,  SIJ,  SSS,  SF,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞSa,  ÞSveinb,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
16 þm. (ÁJ,  ÁsbÓ,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  GÞÞ,  HöskÞ,  JónG,  KÞJ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  SKK,  TÞH,  UBK,  VigH) greiddu ekki atkv.
4 þm. (JBjarn,  ÓÞ,  RR,  ÞKG) fjarstaddir.
7 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:10]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er verið að setja inn í gjaldþrotalögin sérreglu um fyrningarfrest. Í fyrsta lagi hefði þetta lagaákvæði átt að koma inn í fyrningarlögin. Hér er verið að setja afturvirk lög og rökstyð ég það á nefndaráliti sem liggur fyrir þinginu. Ég vísa jafnframt til nýfallins dóms Hæstaréttar þar sem skýrt er kveðið á um það ásamt því að vísa til annarrar gamallar réttarþróunar um að ekki er hægt að beita nýjum lögum á gamla samninga. Nýju lögin geta því miður ekki yfirtekið þau gömlu. Ég kem því til með að sitja hjá í atkvæðagreiðslu þessari.



[11:11]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Markmið þessa frumvarps eru góð og gild, nefnilega þau að aðstoða fólk sem hefur orðið gjaldþrota til að komast aftur upp á lappirnar. Hins vegar nær þetta frumvarp ekki þeim markmiðum sínum, það gagnast ekki venjulegu skuldugu fólki. Á Íslandi eru gerð 5 þús. árangurslaus fjárnám á hverju ári sem leiða til rúmlega 100 gjaldþrota, í flestum tilvikum vegna vanskila á virðisaukaskatti. Þó eru á þessu undantekningar hvað varðar gjaldþrot manna sem voru framarlega í viðskiptalífinu og íslensku útrásinni. Þeir munu hagnast vel á þessu frumvarpi og ganga skuldlausir frá borði eftir tvö ár frá skiptalokum. Hinn venjulegi maður situr áfram uppi með sitt árangurslausa fjárnám og verður ekki (Forseti hringir.) tekinn til gjaldþrotaskipta. Yfir honum munu skuldirnar hanga áfram þannig að með þessu frumvarpi er verið að lögfesta (Forseti hringir.) úrræði sem nýtast kannski helst þeim sem síst skyldi. Ég sit hjá.



[11:12]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.



[11:12]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna sérstaklega samþykkt þessa frumvarps sem er mikil réttarbót og nauðsynleg í kjölfar efnahagshruns á Íslandi. Þetta styrkir samningsstöðu skuldugs fólks gagnvart kröfuhöfum sínum og á almennt eftir að verða til góðs fólki sem á við mikinn vanda að stríða, ræður ekki við mál sín en getur núna fyrir vikið reist sig við að nýju.



[11:13]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að fara að samþykkja eitt helsta baráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna. Það hefur verið á listanum hjá þeim frá upphafi að stytta fyrningarfrest kröfuréttinda. Þetta er mikill gleðidagur að mínu mati, þetta er mikil réttarbót og ég mun segja já.



[11:14]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu máli og tel mikla réttarbót og mannréttindabót að þessu. Ég vek athygli hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra á klausu í nefndarálitinu um þær 250 þús. kr. sem gjaldþrota einstaklingar þurfa að reiða af hendi ef þeir óska eftir gjaldþroti. Þar segir nefndin:

„Telur meiri hlutinn að í samanburði við þá hagsmuni sem skuldari getur haft af gjaldþrotaskiptum geti sú fjárhæð ekki talist óyfirstíganleg, nema í þeim tilfellum sem bú er fyrirsjáanlega eignalaust eða mjög eignalítið og beinir meiri hlutinn því til ráðherra að láta kanna hvort unnt sé í slíkum tilfellum að mæta kostnaði við trygginguna.“

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að þegar þetta frumvarp verður að lögum verði búið að staðsetja vel í reglugerð ákvæði um að þessi upphæð geti lækkað eða jafnvel fallið niður hjá þeim sem hafa ekki efni á að greiða hana.



[11:15]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á Íslandi lifa sennilega um 20 þús. manns ákveðnu skuggalífi. Þeir eiga ekki kreditkort, þeir eiga ekki debetkort og þeir eru ekki í viðskiptum við banka. Þetta er fólk sem hefur lent í árangurslausu fjárnámi en ekki gjaldþroti og það svífur um neðan jarðar. Það má ekki vinna því að þá er gert fjárnám í laununum og það vinnur sem sagt svart. Þetta fólk er ekki þátttakendur í venjulegu lífi og kraftar þess og þekking fara forgörðum.

Þetta frumvarp nær alls ekki til þessa fólks. Þetta frumvarp gengur allt of skammt og auk þess vil ég benda á að maður sem vill fara í gjaldþrot á engar 250 þús. kr. (Gripið fram í: Rétt.) Ef hann ætti 250 þús. kr. væri búið að ná þeim af honum. Þetta frumvarp gengur allt of skammt og ég get ekki samþykkt það þó að það sé gott fyrir þennan litla hóp vegna þess að það byggir upp væntingar sem ekki er staðið við.



[11:16]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða eitt af fjölmörgum málum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa keyrt í gegn til að koma til móts við það fólk sem hefur orðið fyrir áfalli í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þetta er þjóðþrifamál, gott mál sem þingið á að styðja í gegn. Það eru þúsundir einstaklinga og fjölskyldna í samningaviðræðum við lánardrottna sína og það gerbreytir samningsstöðu þeirra að leiða þetta í lög. Þess vegna er þetta þjóðþrifamál.