139. löggjafarþing — 53. fundur
 18. desember 2010.
kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, 2. umræða.
stjfrv., 301. mál (sérregla um félagsaðild). — Þskj. 354, nál. 504, brtt. 571.

[01:12]
Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar í 301. máli. Tilefni frumvarps þessa er frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem miðar að því að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, 256. mál, sem varð að lögum fyrr í dag. Til grundvallar því frumvarpi liggur viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga frá 13. mars 2009. Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar felast tvenns konar breytingar:

Í fyrsta lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast 1. janúar 2011 starfsmenn sveitarfélaga í stofnunum eða einingum í málaflokki fatlaðra skuli eiga þess kost að vera áfram í því stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð þeirra við sveitarfélögin. Frumvarpið felur í sér svokallað sólarlagsákvæði enda er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem koma til starfa í einingum eða stofnunum fyrir fatlaða hjá sveitarfélögunum eftir framangreint tímamark skuli vera félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi.

Í öðru lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fái aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga en þeir sem óska þess fái þó að halda aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem eiga aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga halda þeirri aðild, svo og þeir starfsmenn sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en á bak við þetta meirihlutaálit eru eftirtaldir þingmenn: Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, Álfheiður Ingadóttir varaformaður, sá sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Birkir Jón Jónsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Róbert Marshall.



[01:14]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þegar málefni fatlaðra voru flutt eða til stóð að flytja þau yfir til sveitarfélaganna, sem mjög margir voru hlynntir og töldu betra fyrir fatlað fólk að vera í nærsamfélagi í sínu sveitarfélagi en eiga við fjarlægt ríki, þá komu í ljós ákveðnir hnökrar á þeirri yfirfærslu. Engar fréttir bárust af því af hverju þetta tafðist, svo kom í ljós að það voru stéttarfélögin sem töfðu flutning á málefnum þessa viðkvæma hóps, fatlaðs fólks, til sveitarfélaganna. Þetta gekk í einhverja mánuði, maður frétti alltaf eitthvað undan og ofan af því, en það var ekki fyrr en núna undir lokin að stéttarfélögin gáfu sig og fundu lausn sín á milli. Þetta var eiginlega barátta stéttarfélaganna um sálirnar sem þau eiga. Ef við metum það svo að yfirfærslan hafi verið 10 milljarðar kr., afskaplega lauslegt mat, og 70% sé launakostnaður, það er yfirleitt þannig, og 1% sé borgað í stéttarfélag, sem er yfirleitt, þá er þetta spurning um 70 millj. kr. sem stéttarfélögin slógust um. Lausnin fólst í því, eins og kom fram áðan, að þeir sem voru eða eru félagar í stéttarfélagi almannaþjónustu og gerðust starfsmenn stéttarfélags í stofnunum eða einingum í málaflokki fatlaðra áttu þess kost að vera áfram í því stéttarfélagi sem færi þá með samningsumboð þeirra við sveitarfélögin, þ.e. fengu að vera áfram í gamla stéttarfélaginu sínu þar sem þeir höfðu verið skyldaðir til að vera með lögum. Þeir gátu líka valið að vera í stéttarfélagi sveitarfélaganna en allir nýir starfsmenn færu þangað inn. En þangað er líka skylda að greiða samkvæmt lögum.

Nú ætla ég, frú forseti, að upplýsa þingheim og almenning um hvernig þessum málum er háttað.

Í 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna, laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, stendur — nú vil ég biðja hv. þingheim að hlusta mjög grannt eftir því hvað ég segi, með leyfi forseta:

„Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra“ — ætti að tilheyra — „gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar.“

Hvað segir þessi grein, frú forseti? Opinber starfsmaður sem lögin ná til — þetta fjallar jú um kjarasamning opinberra starfsmanna — er skyldaður til að greiða í stéttarfélag sem hann ætti að tilheyra. Nú skulum við gefa okkur að hann vilji ekki vera í því félagi. Það er félagafrelsi samkvæmt stjórnarskránni, frú forseti. Þá þarf hann samt að greiða. Það er mjög alvarlegt mannréttindabrot. Fyrir þá hv. þingmenn sem hafa áhuga á mannréttindum er þetta áhugavert og einnig ef mannréttindaráðherrann væri hér til að hlýða á þetta. Það vill svo til að hann er fyrrverandi formaður BSRB sem er alveg sérstaklega skemmtilegt í þessu dæmi.

Nýlega hefur fallið dómur hjá Mannréttindadómstól Evrópu um að iðnaðarmálagjaldið brjóti mannréttindi. Iðnaðarmálagjaldið er lagt á öll iðnfyrirtæki, 0,08% af veltu fyrirtækisins, og það rennur til Samtaka iðnaðarins. Þetta var dæmt ólöglegt vegna þess að það bryti í bága við stjórnarskrá að skylda menn til að greiða til félags. Þarna er upphæðin ákveðin, 0,08%, þannig að skattlagningin er nokkuð tær. Skatturinn rennur reyndar til einkafyrirtækis eða félagasamtaka sem eru ekki ríki eða sveitarfélag. Það er ekki beint góð regla.

Þetta ákvæði í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna brýtur sennilega á mannréttindum stjórnarskrárinnar á þrennan máta, frú forseti. Í fyrsta lagi er það félagafrelsið. Fólk getur ekki valið sér félag, það verður að fara í ákveðið stéttarfélag hvort sem það vill eða ekki. Ef það gengur ekki í félagið þá nýtur það ekki allra þeirra réttinda sem stéttarfélagsgjaldið gefur né hefur þar áhrif. Í öðru lagi brýtur þetta jafnræðisregluna því að maður sem vill ekki gerast félagi í stéttarfélagi er ekki jafnsettur þeim sem vilja ganga í félagið, hann fær ekki sömu réttindi. Hann fær ekki sumarbústað, hann fær ekki þetta og hitt sem stéttarfélagið veitir félagsmönnum sínum þannig að það brýtur jafnræðisregluna. Hann er skyldugur til að borga í félag og hann fær ekki neitt fyrir það. Annar maður sem er jafnsettur honum og vinnur við hliðina á honum fær alls konar réttindi fyrir þetta sama gjald. Þetta brýtur því jafnræðisregluna. En þetta brýtur líka ákvæði stjórnarskrárinnar sem segir að skattar skulu lagðir á með lögum. Þetta gjald er ekki lagt á með lögum, frú forseti. Það er á félagsfundi í stéttarfélaginu sem ákvarðað er hve hátt félagsgjaldið á að vera. Það væri hægt að ákveða það á fundi þar sem sá maður sem ekki vill vera í félaginu ætti engan rétt. Á einum ákveðnum aðalfundi í stéttarfélaginu gæti verið ákveðið að félagsgjaldið þyrfti að vera 50% af launum vegna þess að það væru svo mörg verkefni hjá félaginu o.s.frv. og því væri tekin ákvörðun um að borga 50% af launum. Þá verður sá hinn sami að sæta því og næst þegar greidd væru laun yrði launadeild ríkisins að innheimta hjá manninum 50% af launum hans. Það er ekkert efra mark í þessum lögum þannig að þetta er alveg skelfilegt ákvæði, frú forseti.

Nú skulum við líka hugsa okkur fátækt fólk sem vinnur á leikskóla eða einhvers staðar í umönnunarstörfum á spítala, virkilega fátækt fólk, kannski með 180 þús. kr. í laun — frú forseti, það er til fólk sem er með undir 200 þús. kr. í laun hjá hinu opinbera, á spítölum, í umönnunarstéttum, í mjög erfiðri vinnu við að sjá um alzheimersjúklinga og ýmis erfið mál. Þetta fólk kynni einhvern tíma að segja: Heyrið, nú er verðbólgan orðin svo mikil, kjörin svo léleg og skattarnir svo háir hjá vinstri stjórninni að við ætlum að fara í kjarabaráttu og stofna stéttarfélag. Þannig var það í byrjun 19. aldar. Þá stofnuðu menn stéttarfélög og fóru í kjarabaráttu, það hét stéttabarátta, og menn fóru í verkfall. En núna, frú forseti, mega menn það ekki því að ríkið semur bara við eitt ákveðið stéttarfélag um kjör þeirra. Það stendur í þessari grein að ráðherra eða sveitarstjórn ákveði í hvaða stéttarfélag opinberir starfsmenn greiða og við hvaða stéttarfélag þeir ætla að semja. Samkvæmt lögum frá Alþingi Íslendinga er það svo. Það er náttúrlega ótrúlegt — ótrúlegt. Það er búið að eyðileggja möguleika þessa fólks til að berjast fyrir kjörum sínum. Það er svakalegt. Lagaákvæðið er búið að standa síðan 1976 og hefur alla tíð verið með þeim annmörkum sem ég hef getið um. Það féll dómur í félagsdómi 1998 um að þetta bryti ekki í bága við stjórnarskrá. Ég sé ekki hvaða heimild félagsdómur hefur til að kveða upp dóm um það. Málið hefur aldrei farið til Hæstaréttar.

Það er kannski rétt að benda á að iðnaðarmálagjaldið var samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu dæmt ólöglegt. Við hljótum að taka pínulítið mark á honum — alla vega þeir sem unna mannréttindum. Það getur verið að einhverjir þingmenn séu orðnir fráhverfir málinu af því að við erum að berjast við verkalýðsvaldið. Það getur vel verið að einhverjir þingmenn séu fráhverfir málinu af því að hagsmunirnir hinum megin eru svo sterkir. Ég hugsa að t.d. hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra mundi greiða atkvæði gegn þessu, ég er nærri viss um það, þó að það brjóti svo augljóslega mannréttindi og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi kveðið upp úrskurð. Það er ástæðan fyrir því að ég legg mikla áherslu á að þetta litla ákvæði verði tekið burt. Ég er búinn að flytja sjö sinnum um það tillögu til breytinga á lögum, frumvarpi, og málið hefur alltaf sofnað í nefnd. Þvílíkur er mannréttindaáhugi sumra þingmanna á Alþingi að þetta hefur ekki verið ofarlega á dagskrá.

Hins vegar þegar kom í ljós að Alþingi hafði brotið lög á öryrkjum, sem dæmi, þá var rokið upp til handa og fóta, að sjálfsögðu, og lögin löguð. Þegar kom í ljós að Alþingi hafði brotið rétt á kvótaeigendum með kvótadóminum þá var rokið upp til handa og fóta til að breyta lögunum sem stönguðust á við stjórnarskrá. En að þessu máli snúa menn blinda auganu, hafa ekki mikinn áhuga á því en hafa þó margsinnis talað hátt og snjallt um mannréttindi, með réttu — við hv. þingmenn eigum að gæta mannréttinda, frú forseti.

Nú vill svo til að það er komin fram breytingartillaga og það vill svo til að ég er 1. flutningsmaður. Að þeirri breytingartillögu standa allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins af því að þeir eru mannréttindaunnendur. Í henni er lagt til að þessi ákveðna grein falli burt, verði bara þurrkuð út og opinberu stéttarfélögin verði að treysta á að fólk vilji greiða til þeirra. Af hverju ekki? Af hverju skyldi fólk ekki vilja greiða til opinberra stéttarfélaga? Af hverju skyldu kennarar ekki vilja borga í stéttarfélag kennara? Það hlýtur að vera. Ég hef ekki trú á neinu öðru þannig að í rauninni breytir þetta engu nema kannski fyrir einstaka sérvitringa og fólk sem ekki vill vera í félögum, vill kannski semja um kjör sín sjálft eða eitthvað slíkt. Ég hygg að það yrði eins og með iðnaðarmálagjaldið, ég hef ekki kannað það en ég hugsa að velflest fyrirtæki í iðnaði greiði áfram til Samtaka iðnaðarins, ég reikna með því. En þau þurfa auðvitað að hafa meira fyrir því að ná í félagsmenn, þau þurfa að gera eitthvað fyrir þá, þau þurfa að vera meira vakandi, vera meira á tánum til að fá félagsmenn. Ég held að það væri mjög hollt fyrir verkalýðshreyfinguna, þá opinberu. Ég veit að ASÍ er búið að vinna í átaki í um 10 ár við að laga aðildarkvöð sína eða aðildarskyldu þannig að hún brjóti ekki mannréttindi með sama hætti og hér er talað um.

Það var eitt sinn þannig að það var forgangur til vinnu hjá ASÍ og SA. Ég veit ekki hvort svo er enn þá, þ.e. að hægt sé að segja upp fólki sem ekki vill ganga í stéttarfélag. Atvinnurekandinn sagði því upp af því að hann var í SA. Hins vegar er ekkert sem bannar manni sem ekki er í stéttarfélagi að vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru í SA. Það má alveg sem betur fer, það er félagafrelsi í landinu. En um leið og opinberir starfsmenn ráða sig hjá ríkinu eru þeir skyldaðir til að greiða í eitt ákveðið stéttarfélag. Það er opinbert stéttarfélag sem hæstv. fjármálaráðherra hefur velvild á eða viðkomandi sveitarstjórn og menn skulu greiða þangað inn.

Í samræmi við þetta eru líka gerðar breytingar á frumvarpinu sem við ræðum, um aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þar er frelsi til að fara á milli A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og A-deildar Lífeyrissjóðs sveitarfélaga enda eiga þær að standa undir sér. Hins vegar fær fólk sem er í B-deildinni að vera þar áfram ævarandi. Það er eitt af vandamálunum sem við tökum líka fyrir — hver kom með breytingartillögu í öðrum bandormi sem við ræddum fyrr í dag eða í kvöld, ég man ekki hvort heldur var, það stendur ekki? Um það atriði komum við með breytingartillögu, þ.e. að inngreiðslur iðgjalda í B-deildina verði stöðvaðar til að þau 6 þús. manns sem enn þá greiða þangað inn séu ekki áfram að ávinna sér mjög dýr réttindi sem eru orðin skaðlega há fyrir ríkissjóð. Ríkissjóður skuldar B-deildinni um 400 milljarða kr. og ekkert af því er greitt, frú forseti. Það eru 3 millj. kr. á hvert einasta heimili í landinu.

Að þessu mæltu skora ég á hv. þingheim sem fær að greiða um þetta atkvæði í fyrramálið að greiða atkvæði í samræmi við mannréttindi og með virðingu og aðdáun á stjórnarskránni. Ég reikna með því að allir þingmenn muni samþykkja þá tillögu.