139. löggjafarþing — 61. fundur
 19. janúar 2011.
um fundarstjórn.

afskipti af máli níumenninganna.

[14:32]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur komið ábending og ósk frá einum hv. þingmanni um að forseti Alþingis skipti sér af málflutningi gagnvart þeim sem réðust inn í Alþingi á sínum tíma. (Gripið fram í: Þeir réðust ekki inn í Alþingi. Horfðu á myndbandið.) Ég ætla ekki að spyrja forseta hvernig hann bregðist við því. Ég vil spyrja forseta hvort hann hafi gert einhverja athugasemd eða lagt fram fyrirspurn um Kastljóssþátt í síðustu viku sem endaði á því að þar var kynnt að ákveðin söngkona, íslensk, og dætur hennar mundu ljúka Kastljósinu á því að flytja söng til styrktar níumenningunum. Það er sérkennilegt að Ríkisútvarpið blandi sér þannig í málflutning (Forseti hringir.) fyrir dómstólum …

(Forseti (ÁRJ): Fundarstjórn forseta.)

… og ég vil spyrja forseta um þetta.



[14:33]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef á tilfinningunni að það kraumi svolítið í salnum hér og að menn vilji taka til máls vegna þeirra mála sem eru núna í dómsölum. Ég skora á þingmenn að virða þrískiptingu valdsins. Við erum löggjafinn. Við eigum ekki að hafa áhrif á dómstóla. Þingið er ekki ákærandi í þessu máli, það er ríkissaksóknarinn sem tók málið til dómstóla, ekki þingið og ekki þingmenn. Auðvitað eigum við ekki að sitja undir því þegar þetta er sagt. Því miður hafa einstakir hv. þingmenn, sem ég ætla ekki að nafngreina hér, látið þau orð falla að þingið beri ábyrgð á þessari kæru. Það er ekki rétt.

Við eigum ekki að falla í þá freistni að reyna að hafa áhrif á dómstólana. Við erum löggjafinn. Ég skora á þingmenn að láta þetta mál kyrrt liggja (Forseti hringir.) og leyfa dómstólunum að fara í gegnum málið án nokkurs þrýstings.