139. löggjafarþing — 63. fundur
 25. janúar 2011.
um fundarstjórn.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:03]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í gærkvöldi var haldinn fundur í fjárlaganefnd þar sem farið var yfir samtal seðlabankastjóra Íslands og bankastjóra Englandsbanka. Á þeim fundi óskaði seðlabankastjóri Íslands, sem þar mætti, eftir fullum trúnaði nefndarinnar um þær upplýsingar sem þar voru lagðar fram.

Í framhaldi af þessum fundi hafa síðan vaknað umræður meðal fjárlaganefndarmanna í fjölmiðlum og þetta mál vekur mig til mikillar umhugsunar um það hvernig farið er með trúnaðarupplýsingar sem lagðar eru fyrir þingið. Ég spyr: Eru til einhverjar reglur, skráðar eða óskráðar, um meðferð trúnaðarupplýsinga? Þetta minnir á það að þegar við byrjuðum umræðuna um Icesave var fullur trúnaður og svo mikill um gögn málsins að allt var lokað af í herbergi og til að komast þangað inn þurfti að opna talnalás og lesa gögn undir öryggisvörslu. Sem betur fer var honum létt af en í ljósi umræðunnar vil ég upplýsa að ég hef óskað eftir því að fjárlaganefnd fari fram á að trúnaði af þessu samtali verði (Forseti hringir.) aflétt þannig að menn losni undan þeirri pressu sem verið hefur á þeim allt frá því að fundi lauk í gærkvöldi.



[14:04]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess vegna fyrirspurnar hv. þingmanns að til eru reglur um trúnaðarupplýsingar en þær byggja ekki allar á lögum. Aftur á móti er gert ráð fyrir því í frumvarpi sem er nú til umfjöllunar um breytingar á þingsköpum Alþingis. Þar er tekið á lagasetningu um trúnaðarupplýsingar til þingmanna.



[14:05]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eftir að frumvarp ríkisstjórnarinnar um Icesave-málið svokallaða var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum meiri hluta atkvæða voru hafðar uppi miklar heitstrengingar af hálfu ríkisstjórnarinnar um að eftir að þingið fengi málið aftur til umfjöllunar yrði tryggt að allir alþingismenn hefðu aðgang að þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu. Nú liggur fyrir að þetta samtal milli seðlabankastjóranna tveggja hefur verið birt í fjárlaganefnd. Það er mjög mikilvægt að aðrir þingmenn hafi aðgang að samtalinu, og þjóðin öll, sérstaklega í ljósi þess að einstakir þingmenn eru nú farnir að túlka innihald samtalsins og við hinir, þ.e. þeir sem þurfa á endanum að taka afstöðu til málsins (Forseti hringir.) sem hér er til meðferðar, höfum ekki haft aðgang að því og getum ekki lagt mat á það hvort þessar túlkanir eru réttar. Í ljósi þessa óska ég eftir að (Forseti hringir.) þetta samtal verði birt opinberlega.



[14:06]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi þessarar umræðu get ég tekið undir að mér finnst eðlilegt að þetta samtal verði birt og að það verði gert þingmönnum aðgengilegt. Það er mjög erfitt þegar mál eru kynnt þannig í nefnd að það er óskað eftir fullum trúnaði og svo fara einstakir þingmenn, þar á meðal hv. varaformaður fjárlaganefndar, að túlka hlutina með sínu nefi og setja aðra í þá stöðu að þurfa hugsanlega að brjóta trúnað ef þeir ætla að mótmæla þeirri túlkun sem sett er fram. Þá held ég að eina leiðin til að hreinsa andrúmsloftið í þessu efni sé að gera þetta opinbert fyrir þingmenn þannig að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um hvað sagt var og geti lagt sjálfstætt mat á það hvaða merkingu samtalið hafði. (Forseti hringir.)

Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort reglur um trúnað ættu ekki við um alla þingmenn, þar á meðal hv. varaformenn nefnda.



[14:08]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að þetta samtal verði gert þingmönnum, og helst allri þjóðinni, opinbert. Ef það er ekki talið við hæfi að gera öllum þetta opinbert óska ég eftir að við fáum í það minnsta aðgang að þessu samtali. Það gengur ekki að þeir sem fá að sjá gögnin eigi að hafa um þau trúnað en túlki þau svo út og suður í fjölmiðlum. Ég fer vinsamlegast fram á það, frú forseti, að þetta verði birt.



[14:08]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Við förum dálítið hring eftir hring þegar kemur að þessu blessaða Icesave-máli og þeim gögnum og upplýsingum sem koma fram vegna þess. Eftir að hafa lesið fyrir hádegi í dag í vefritinu Smugunni túlkun hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar, á því hvernig hann lítur á það samtal sem farið var fram með í trúnaði í gær er afskaplega óþægilegt fyrir aðra þingmenn sem þurfa að taka afstöðu í því máli sem fyrir liggur. Ef það er svo þegar hv. fjárlaganefnd fær upplýsingar í trúnaði að einstakir þingmenn í henni kjósa að fara fram á völlinn og lýsa skoðunum sínum á hvað í því felst veldur það mikilli tortryggni í brjósti annarra þingmanna sem þurfa að leggja hlutlaust mat á málið.

Þegar svo er komið, virðulegi forseti, verð ég að fara fram á það við forseta að hann beiti sér fyrir því að bragarbót verði gerð á. Mér finnst auðvitað rétt (Forseti hringir.) að hv. þm. Björn Valur Gíslason skýri frá því af hverju hann kýs að koma svona fram.



[14:10]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Nú er þetta mál á forræði fjárlaganefndar og mun forseti ræða við formann hennar um málið síðar í dag.



[14:10]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að taka málið upp á þeim vettvangi sem hæstv. forseti nefndi. Þetta er í sjálfu sér einfalt mál og snýst um að þingmenn allir sitji við sama borð þegar kemur að mikilvægum upplýsingum um þetta stóra mál, Icesave-málið. Efnis þess vegna skiptir auðvitað máli fyrir okkur að við fáum upplýst hvort bankastjóri Englandsbanka hefur verið annarrar skoðunar um það hvernig kröfugerð ætti að vera á hendur íslenska ríkinu en bresk stjórnvöld og sú samninganefnd sem fór fram fyrir þeirra hönd gagnvart okkur. Ég veit að hæstv. forseti vill gæta hagsmuna allra þingmanna og hlýtur að tryggja að við sitjum öll við saman borð þannig að ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi um það síðar á þessum þingfundi (Forseti hringir.) hvernig með þetta mál verður farið.



[14:11]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni komu fulltrúar Seðlabankans hingað í gær og ræddu við okkur um samtal það sem átti sér stað milli Davíðs Oddssonar og Mervyns Kings. Í kjölfarið var ákveðið að algjör trúnaður yrði á þeim upplýsingum sem þar komu fram. Fjölmargir blaðamenn höfðu samband við mig og ég neitaði að tjá mig vegna þess að ég vissi vel að ef ég ræddi við þá yrði hægt að lesa í orð mín um innihald samningsins.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Oddný Harðardóttir, ákvað hins vegar að tjá sig um málið, og einnig varaformaður nefndarinnar á bloggi sínu. Það er mjög augljóslega hægt að lesa út afstöðu þeirra til þess sem kom fram. Við þetta er ekki hægt að una og ég hef því tjáð fjölmiðlum að ég hafi aðra skoðun á málinu en þar hafi komið (Forseti hringir.) en ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að Alþingi og fjárlaganefnd birti þetta (Forseti hringir.) samtal svo almenningur og fjölmiðlar í landinu geti metið það sjálfir hvort það sem þar kemur fram (Forseti hringir.) skipti sköpum um afstöðu manna til Icesave-málsins. Ég tel svo vera.



[14:13]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið var fundur í gærkvöldi hjá fjárlaganefnd þar sem nefndarmenn fengu að rýna trúnaðargögn. Nefndarmenn gengust inn á þau skilyrði að þeir mundu halda trúnað á því sem fram kom í innihaldi skjalanna. Þrátt fyrir fullyrðingar annarra fullyrði ég að ég hef haldið þann trúnað. Ég hef ekki tjáð mig um innihald þessara trúnaðarskjala eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hélt fram áðan.

Hins vegar munum við ræða málið og fara yfir það aftur á fundi nefndarinnar í fyrramálið eins og nefndarmenn hafa ákveðið í samskiptum sínum í morgun. Meðan aðilar málsins hafa ekki samþykkt að létta af skjölunum trúnaði höldum við trúnaði á þeim.



[14:14]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil að það sé rétt eftir mér haft úr ræðustól Alþingis. Það sem ég átti við er að þegar hv. formaður fjárlaganefndar kemur fram í fjölmiðlum og fullyrðir að ekkert í þessum bréfum snerti Icesave-samningana, sem er rangt að mínu viti, er hún að tjá sig um innihald samtalsins. Ég sagði aldrei að hún hefði vísað orðrétt í samtölin, en það er mjög augljóslega hægt að geta sér til og lesa úr afstöðunni.

Einnig kom fram í þessu fjölmiðlaviðtali að fjárlaganefnd ætlaði ekki að aðhafast meira. Ég gekk út af fundi nefndarinnar í gær þess fullviss að það ætti að reyna að fá aflétt trúnaðinum af hluta af þessu samtali. Síðan les ég í Fréttablaðinu í morgun að fjárlaganefnd ætli ekki að aðhafast í málinu og að samtalið hafi ekki snúist um Icesave á nokkurn skapaðan hátt. Þetta gagnrýni ég, (Forseti hringir.) frú forseti.



[14:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan munum við ræða þessi mál í fjárlaganefnd í fyrramálið. Svo það sé algjörlega á hreinu var ég spurð að því af fjölmiðlamanni hvort ég teldi innihald samtalsins hafa afgerandi áhrif á afgreiðslu nefndarinnar á samningnum. Ég sagði nei við því. Ég var ekki spurð að því sem hv. þingmaður heldur fram.



[14:16]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hv. formanni fjárlaganefndar er mætavel kunnugt um afstöðu mína í málinu. Ég vil að öll gögn verði birt nú þegar og það eru ýmsir fleiri innan fjárlaganefndar sem vilja það. Við sjálfstæðismenn höfum farið fram á það að fundur verði í nefndinni á morgun. Hann verður og þar sem sérstaklega verður tekið á þessu máli.

Þegar við fórum út af fundinum í gær var ég eindregið þeirrar skoðunar að við ættum að birta þetta strax af því að ég tel að almenningur eigi rétt á því að kynna sér efni samtalsins á milli Mervyns Kings og fyrrverandi seðlabankastjóra. Þá dró ég sérstaklega fram að menn mundu ekki tjá sig við fjölmiðla á einn eða neinn hátt, þ.e. ekki efnislega um innihald samtalsins. Það gerðu hins vegar formaður og varaformaður fjárlaganefndar en við öll hin sem fengum símtöl frá fjölmiðlum sögðum: Nei, við munum ekki tjá okkur um þetta, hvorki já né nei.

Ég tel ríka ástæðu til að allir þeir þingmenn sem hér eru inni og munu síðar taka afstöðu til Icesave-málsins (Forseti hringir.) eigi sama rétt og við fjárlaganefndarmenn til að kynna sér efni og (Forseti hringir.) innihald samtalsins.