139. löggjafarþing — 63. fundur
 25. janúar 2011.
kjarasamningar og endurskoðun fiskveiðistefnu.

[14:30]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra vegna ítrekaðra ummæla forsvarsmanns Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálms Egilssonar, um að samtökin muni ekki ganga til kjarasamninga að þessu sinni nema framtíðarskipan fiskveiðistjórnarkerfisins liggi fyrir klárt og kvitt. Ummælin hafa vakið furðu og hneykslan margra enda eru útgerðarfyrirtæki landsins ekki nema lítill hluti atvinnurekenda í landinu, nálægt 7%. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig það megi vera ef ríflega 2 þús. atvinnurekendur eiga að fara í hörð verkfallsátök til að sýna 190 kvótaeigendum samstöðu. Það stingur líka í eyru ef fámennur hagsmunahópur stórskuldugra atvinnurekenda á að setja stjórnvöldum afarkosti með þessum hætti og lýsir sig reiðubúinn til að taka kjarasamninga í landinu í gíslingu.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvernig þetta mál horfi við honum, hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að ljá þessum hótunum eyra, en sömuleiðis hvort ráðherrann telji ekki að fiskveiðistjórnarmálin muni skýrast það vel á allra næstu vikum að þessi umræða verði óþörf í reynd.



[14:32]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að auðvitað er mikilvægt að viðræður um gerð kjarasamninga gangi áfallalaust fyrir sig og þess vegna eru það vonbrigði ef mál af þessu tagi tefja þar fyrir eða draga úr líkum á því að góð heildarsamstaða geti orðið um meginlínur í framlengingu eða endurnýjun kjarasamninga. Ég vil hins vegar segja alveg skýrt að ég skil algjörlega afstöðu Alþýðusambands Íslands sem ekki vildi sætta sig við að halda áfram í þessum farvegi ef sú krafa Samtaka atvinnulífsins stæði óhögguð að eitt af skilyrðum þess að samningar yrðu gerðir af þeirra hálfu væri einhver tiltekin niðurstaða eða lausn í algjörlega óskyldu viðfangsefni, sem er endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Ég tel mjög óheppilegt að blanda slíkum hlutum þannig saman. Það er bersýnilega ósanngjarnt gagnvart öðrum samningsaðilum og í sjálfu sér ríkinu líka, ef menn ætla því aðkomu að lausn kjarasamninga, að þvinga inn í það óskylt viðfangsefni í þeim skilningi a.m.k. að framtíðartilhögun mála varðandi lög um stjórn fiskveiða á ekki að vera á uppboðsmarkaði í tengslum við framlengingu einna tiltekinna kjarasamninga. Við erum að tala um úrlausn vonandi á mjög langvinnu og stóru og erfiðu deilumáli í samfélaginu sem er að ná niðurstöðu og setja einhverja sátt með þjóðinni og öðrum um fyrirkomulag þessara mála.

Það er svo allt annar handleggur, og á að fara eftir eðlilegum samskiptaleiðum, hvernig menn eiga samráð um slíka niðurstöðu, hvort sem er á undirbúningsstigi eða þegar slíkt mál er komið til þingsins. Þannig tel ég að það eigi að vera.

Við höfum þar af leiðandi, eða ríkisstjórnin hefur ekki tekið undir neinar óskir um það að vinnan hvað varðar undirbúning að frumvarpi til breytinga á fiskveiðistjórnarlögunum, sem er í gangi í kjölfar niðurstöðu sáttanefndar, verði tekin með beinum hætti inn í þessar kjarasamningaviðræður. Við höfum því í raun sömu afstöðu til þess máls og Alþýðusamband Íslands. (Forseti hringir.)

Að lokum svara ég játandi að vonir mínar og okkar standa til þess að niðurstöður geti legið fyrir sem fyrst og útfærsla þannig að málið komist til þingsins.