139. löggjafarþing — 65. fundur
 26. janúar 2011.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
frv. EKG o.fl., 164. mál (endurgreiðsla skatts af refa- og minkaveiðum). — Þskj. 180.

[14:58]
Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum Auk mín eru allmargir flutningsmenn eins og fram kemur á þskj. 180.

Frumvarpið felur í sem skemmstum orðum í sér að opnuð er heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt til sveitarfélaga vegna kostnaðar við eyðingu á ref og mink. Ef til vill má segja að í hinu stóra samhengi hlutanna teljist þetta ekki eitt af hinum stóru málum í þjóðfélaginu og sannarlega er það svo en þegar málin eru skoðuð dálítið þrengra og út frá sjónarhóli þeirra sveitarfélaga sem mega við búa er þetta býsna stórt mál. Ég held að það sé samdóma álit okkar þingmanna víðast hvar sem þekkjum til á landsbyggðinni og höfum starfað þar og átt samskipti til að mynda við sveitarstjórnarmenn að þetta mál liggur mjög þungt á þeim mörgum. Í mörgum sveitarfélögum er þessi kostnaðarliður, þ.e. veiðar á ref og mink, býsna þungbær fyrir buddu viðkomandi sveitarfélaga.

Landmikil sveitarfélög, sem í mjög mörgum tilvikum eru einmitt líka fámenn, hafa orðið að reiða fram miklar upphæðir á síðustu árum vegna veiða á ref og mink og greiða af því virðisaukaskatt til ríkisins. Í raun og veru er þetta samt sem áður einhvers konar samfélagslegt verkefni. Refur og minkur eru vágestir í náttúrunni og hafa sums staðar mjög slæm áhrif á lífríkið. Fuglalíf hefur látið undan á ýmsum stöðum og einnig eru mörg dæmi um að bændur hafi orðið fyrir tjóni við það að þessi dýr hafi lagst á búpening. Af þessu heyrðum við t.d. allmargar sögur í haust úr leitum að bændur urðu varir við að lömb og kindur hefðu orðið fyrir ágangi refa, m.a. voru okkur mörgum þingmönnum ef ekki öllum sendar ljótar myndir af þessu sem ég hygg að hafi vakið marga til umhugsunar. Það er því ekkert óeðlilegt heldur þvert á móti eðlilegt að ríkisvaldið komi að þessu verkefni með sveitarfélögum m.a. til að jafna þann mikla kostnað sem leggst annars með ósanngjörnum hætti á fámenn og landmikil sveitarfélög.

Það er líka svo að gert hefur verið ráð fyrir að ríkisvaldið kæmi að þessum málum með beinum fjárframlögum og þannig hefur það verið í gegnum tíðina. En þegar málin eru skoðuð kemur í ljós að þróunin hefur verið sú að heldur hefur dregið úr kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við veiðar á ref og mink og það er mat m.a. þeirra sem hafa stundað veiðarnar að þetta hafi valdið því að gætt hafi meiri ágangs þessara dýra með samsvarandi tjón í náttúrunni og fyrir bændur. Þetta er bersýnilega slæm þróun sem við þurfum einhvern veginn að bregðast við.

Ég lagði á sínum tíma fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um veiðar á ref og mink. Þar kemur mjög glöggt fram að dregið hefur úr fjárveitingum til veiða á ref og mink á undanförnum árum. Svar hæstv. ráðherra nær yfir fimm ára tímabil, 2005–2009. Hæst var fjárveitingin á árinu 2005, 45 millj. kr. á verðlagi ársins 2009 en 33 og 35 millj. kr. árin 2008 og 2009 á sama verðlagi. Með öðrum orðum, þessi fjárveiting hefur dregist saman ár frá ári.

Til viðbótar við þetta, eins og ég nefndi áðan, innheimtir ríkið virðisaukaskatt af veiðum á ref og mink og innheimtur virðisaukaskattur hefur verið, á verðlagi ársins 2009, í kringum 11 millj. kr. Hins vegar er athyglisvert þegar við skoðum þetta í lengra samhengi að virðisaukaskatturinn sem ríkið hefur fengið hefur hækkað sem hlutfall af fjárveitingum til málaflokksins á þessu tímabili. Þannig var virðisaukaskatturinn sem hlutfall af fjárveitingunni 24% árið 2005 en 33% árið 2009. Nettókostnaður ríkisins af veiðum á ref og mink var þannig 34 millj. kr. árið 2005 en 23 millj. 2009. Þetta gefur til kynna að sveitarfélögin hafi þrátt fyrir að dregið hafi úr fjárveitingum til veiða á ref og mink reynt að halda hlut sínum eins og þau hafa mögulega getað þótt það hafi valdið þeim miklum kostnaði. Það er hins vegar ekki nóg að gert að mati sveitarstjórnarmanna og þeirra sem hafa stundað þessar veiðar og bænda sérstaklega og þá er okkur nokkur vandi á höndum. Við getum auðvitað hugsað málið þannig að eðlilegt sé að halda áfram innheimtu á virðisaukaskatti af refa- og minkaveiðum og halda síðan í við þetta með fjárveitingum frá ríkissjóði en reynslan sýnir okkur einfaldlega að það er ekki mjög líklegt til árangurs. Tölurnar sem ég gerði hér að umtalsefni, sem sýna að fjárveitingar til þessa málaflokks drógust saman úr 45 millj. kr. 2005 í 35 millj. kr. 2009, segja auðvitað þá sögu að það hallar frekar á sveitarfélögin í þessum efnum.

Sú umræða hefur líka verið uppi að óeðlilegt sé að ríkið komi að einhverju leyti að því að styðja við veiðar á ref, að skoða beri þau mál allt öðruvísi en varðandi minkinn. Ég er ekki sammála þessu. Eins og komið hefur fram er refurinn líka vágestur í náttúrunni þó að hann sé landnemi hér, það eru dæmi sem við þekkjum, og bændur hafa talað um að þessa hafi gætt meira í haust en oft áður og rekja það m.a. til breytts tíðarfars sem hafi gert það að verkum að það sé meira um dýrin en áður.

Mjög hefur verið kallað eftir því að þessum málum verði komið í fastari skorður. Fámennari og landmeiri sveitarfélögin hafa sérstaklega kallað eftir því og eins og ég nefndi áðan er þetta verulegur útgjaldapóstur í rekstri margra þeirra. Samþykktir mjög margra sveitarfélaga og samtaka þeirra eru í þessa átt og þá má nefna að búnaðarþing árið 2010, þ.e. síðasta búnaðarþing, hvatti m.a. stjórnvöld til þess að endurgreiða sveitarfélögum að fullu virðisaukaskatt vegna þessara veiða.

Það er einmitt sú leið sem við flutningsmenn þessa máls leggjum til að farin verði til að tryggja það a.m.k. að einhverju leyti að sveitarfélögin verði ekki fyrir þessum mikla kostnaðarauka og því er lagt til að þessi leið verði farin.

Í svari hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn minni sem ég gerði aðeins að umtalsefni kemur fram að markmið með veiðum á ref og mink séu ólík, rétt eins og ég sagði áðan, og það er síðan rakið með hvaða hætti staðið hefur verið að veiðum á minknum. En ég ætla aðeins að vekja athygli á þeim hluta svarsins sem lýtur að refaveiðunum vegna þess að ég tel að þar séu á margan hátt ágætisrök fyrir því máli sem hér er verið að flytja. Með leyfi virðulegs forseta segir svo í svari hæstv. ráðherra:

„Markmið með veiðum á ref eru annars eðlis og miðast við að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum refa einkum á hlunnindum bænda. Refaveiðar eru á ábyrgð sveitarfélaganna en ríkinu er heimilt samkvæmt lögum að greiða allt að helmingi kostnaðar eftir því sem fjárlög veita svigrúm til. Þar sem refurinn er íslensk tegund er markmiðið með veiðunum fyrst og fremst að draga úr því tjóni sem hann veldur.“

Um það snýst málið. Það er enginn að tala um að útrýma íslenska refastofninum, það er einfaldlega verið að tala um að reyna að draga úr og helst að koma í veg fyrir það tjón sem hann veldur í lífríkinu þar sem við teljum að það sé óæskilegt. Það er kjarni þessa máls.

En aðalatriðið er þó það, virðulegi forseti, að þetta frumvarp er viðleitni í þá átt að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum og auðvitað að koma til móts við þau sjónarmið sem bændur hafa líka verið með í þessu sambandi. Þetta er talsverður útgjaldaliður í einstökum sveitarfélögum. Ég aflaði mér upplýsinga um það við undirbúning málsins og þar kemur þetta glöggt fram. Við sjáum það líka þegar farið er yfir lista sem ég hafði undir höndum frá umhverfisráðuneytinu um endurgreiðslurnar á virðisaukaskattinum að þetta er mjög áberandi. Það eru einmitt þessi fámennu landmiklu sveitarfélög sem greiða mesta virðisaukann sem segir okkur auðvitað allt um það hvernig þessi mál hafa verið að þróast. Og þó að þau hafi líka fengið greiðslur til baka frá ríkinu vegur það stöðugt minna, eins og ég sagði áðan, og athyglisvert er þegar við berum saman annars vegar kostnaðinn eða fjárveitingarnar frá ríkinu vegna veiða á ref og mink og hins vegar innheimtan virðisaukaskatt að það dregur sífellt saman með þessum tölum sem segir okkur að nettókostnaður ríkisins verður æ minni en nettókostnaður sveitarfélaganna stöðugt meiri.



[15:07]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er 1. flutningsmaður að. Ég er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi ásamt nokkrum öðrum.

Ég vil í upphafi máls míns segja að áður en málið var afgreitt fyrir rúmu ári, þ.e. við fjárlög ársins 2010, kom það þannig frá ráðuneytinu að það voru settar akkúrat 0 kr. í þetta framlag. Það var síðan hækkað í meðförum fjárlaganefndar og að því stóðu nefndarmenn í fjárlaganefnd þvert á flokka eins og stundum er sagt. Það var vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi málsins.

Það gerðist hins vegar aftur núna að ráðuneytið skar þennan fjárlagalið frá algerlega og því miður náðist ekki að gera breytingar á því við gerð fjárlaga fyrir árið 2011. Mig langar líka að rifja upp að við umræðu sem fór fram í árslok 2009 kom fram í máli hæstv. ráðherra að skipa ætti starfshóp til að fara yfir einmitt þessa hluti og hvernig mætti breyta þeim, en síðan er mér a.m.k. ekki kunnugt um að hann hafi skilað áliti. Það segir okkur, virðulegi forseti, að þó svo menn hafi ætlað sér að gera eitthvað, leggja drög að breyttum áherslum og fara yfir málið í heild og skila því til þingsins er það ekki gert. En eigi að síður er tekin sú afstaða núna að gera það.

Það kom berlega í ljós á fundi fjárlaganefndar í haust að það eru fámenn landstór sveitarfélög sem sinna þessu og verða að gera það vegna þess að þar eru bújarðir. Og það kom líka fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, og við sáum myndir af því í haust, hvernig refurinn getur farið með búfénað og annað og það er náttúrlega ekki gott, og þess vegna er það svo að sveitarfélög þar sem er kannski stundaður mikill landbúnaður sinna þessum verkefnum eins og þarf að sinna þeim.

Það er hins vegar mismunandi meðal sveitarfélaga hvernig þessu er sinnt. Sum sinna þessu akkúrat ekki neitt sem þýðir þá að það eru aukið flæði refs á milli sveitarfélaga, þ.e. ef því er ekki sinnt að halda niðri viðkomu refs í einu sveitarfélagi færist hann á milli sveitarfélaga því að það eru engin landamæri hjá refnum.

Við vitum líka að nú er refur friðaður til að mynda á Vestfjörðum og margir halda því fram að sú friðun geri það að verkum að þegar orðin er ákveðin fjölgun á því svæði leiti hann inn í sveitarfélög sem standa næst, næstu nágrannasveitarfélög. Þó svo ég hafi ekki á móti því að refurinn sé hugsanlega friðaður á einhverjum svæðum verða menn samt að bregðast við fjölgun hans á öðrum svæðum í kring.

Mér finnst síðan dálítið sérkennilegt í ljósi þess þegar menn tala um náttúruvernd að það hefur áhrif á fuglalífið og náttúruna í heild ef refastofninn fær að stækka ótakmarkað. Það er enginn að tala um að eyða refastofninum, alls ekki, heldur að það þurfi að halda honum í skefjum og innan skynsamlegra marka. Það er heldur engin vernd í því eða meðferð á dýrum þegar verið er að skjóta dýr á víðavangi, jafnvel yfir grenjatímann því þá gerist það hugsanlega að yrðlingarnir svelta til dauða inni í grenjunum og að er ekki góð meðferð á dýrum. Þetta eru margþætt atriði sem menn verða að skoða og fara vel yfir.

Síðast en ekki síst, og markmiðið með þessu frumvarpi er, að fari fram sem horfir núna hefur ríkið beinar tekjur af eyðingu refs, þ.e. það fær greiddan virðisaukaskatt. Það sem verið er að leggja til hér er eingöngu það að ríkið greiði til baka virðisaukaskattinn sem það leggur á sveitarfélögin til að standa vörð um það að refnum fjölgi ekki of mikið. Við skulum heldur ekki gera lítið úr því að hjá fámennum sveitarfélögum, landstórum sveitarfélögum, er þetta oft og tíðum mikill kostnaður og há prósenta í kostnaði hjá viðkomandi sveitarfélögum. Það eru staðreyndir málsins og það hefur margoft komið fram. Þeir aðilar sem hafa sinnt þessum störfum og þekkja mjög vel til, og ég gerði athugasemdir við það í umræðunni þegar verið var að skipa nefnd til að fara yfir þetta og meta áhrif óheftrar fjölgunar refs, fengu að sjálfsögðu ekki aðgang að nefndinni því það eru aðrir sem eiga að sinna því. Það eru miklir náttúruverndarmenn sem yfirleitt gera þetta og þekkja aðstæður mjög vel og gera þetta ekki öðruvísi en með umhyggju fyrir náttúrunni í heild. Það sjá allir að ef þetta yrði til þess að refnum fjölgaði ótæpilega, og við þekkjum það á mörgum svæðum, leggst fuglalíf af og refurinn leggst bæði á búfénað og ég tala nú ekki um æðarvarp.

Eins og kom fram í ræðu hv. flutningsmanns málsins er þetta einungis lítið skref og viðleitni í því að ríkið hafi í það minnsta ekki beinar tekjur af því að refastofninum sé haldið í skefjum heldur er reiknað með því að verið sé að draga úr því tjóni sem óheft fjölgun refs hefur í för með sér. Mér finnst það ekki mikil náttúruvernd, eins og sumir hæstv. ráðherrar kenna sig mjög við, að leyfa refastofninum að stækka óheft. Það er ekki mikið borð fyrir báru í mörgum sveitarfélögum eins og við þekkjum því að ríkið hefur verið að færa tekjur frá sveitarfélögunum til sín, eins og með hækkun tryggingagjalds, og því væri þetta það minnsta sem ríkisvaldið gæti gert að koma til móts við það. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið verði samþykkt til að þó það skref verði stigið til baka og ríkið hagnist ekki á þessu með því að leggja virðisaukaskatt á sveitarfélög sem eru þó að reyna að vinna vinnuna sína og halda refastofninum í hæfilegri stærð.



[15:14]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, og ræðum það að bæta inn nýjum tölulið um þjónustu grenjaskyttna við refa- og minkaveiðar. Hugmyndin er vitanlega sú að ríkisvaldið komi meira en áður eða a.m.k. fari til baka að einhverju leyti inn í þátttöku sína í þessum mikilvæga lið í bæði vernd og viðhaldi á náttúru landsins sem og til að tryggja bændum, í rauninni leyfi ég mér að orða það þannig, frú forseti, öruggara lífsviðurværi á jörðum sínum. Það eru ótrúlegar sögur sem við heyrum af búfénaði sem lendir í blessuðum refnum. Við höfum séð myndir nýlega í blöðum af slíku og það var að sjálfsögðu ekki fallegt. Þar fyrir utan, svo maður fari nú, frú forseti, úr einu í annað, þá er minkur, eins og fram hefur komið, aðskotadýr í íslenskri náttúru.

Þetta er að sjálfsögðu samfélagslegt verkefni, frú forseti, því að það er samfélagslegt verkefni að tryggja að atvinnugreinar eins og landbúnaður geti vaxið og dafnað og búið við öryggi. Það er líka samfélagslegt verkefni að tryggja að náttúran sé með þeim hætti eins og við viljum hafa hana sem besta og fjölbreyttasta. Þess vegna hef ég, frú forseti, undrast friðun á refnum fyrir vestan, ég held að það hafi verið mistök því að eins og við vitum þýðir ekkert að segja við blessuð dýrin: Þið megið ekki fara þarna eða ekki gera þetta. Þau fara að sjálfsögðu þar sem æti er og slíkt, halda sig sum hver reyndar, sumar tegundir, nálægt ákveðnum stöðum en önnur flakka mikið á milli.

Þá hefur það gerst, frú forseti, að bændur hafa upplýst að slík fjölgun hafi orðið, sérstaklega á tófunni, að gömul greni sem dýr hafa ekki verið í mjög lengi, jafnvel hreinlega í byggð, eru aftur komin með íbúa í þau greni, sem segir okkur að það er mikil fjölgun. Við sem höfum talað í þessu máli í dag þekkjum það líka á ferðum okkar um kjördæmin að það er óneitanlega sérstakt að sjá mjög oft tófur á ferðinni hreinlega yfir veginn og við veginn. Það er eitthvað sem maður hefur ekki séð lengi.

Fyrir einhverjum kunna þetta að vera léttvægir hlutir að tala um eyðingu á ref og mink og einhverjum kann að finnast að önnur verkefni séu mikilvægari, sem eflaust má rökstyðja á vissan hátt. Þetta er engu að síður dæmi um verkefni sem okkur ber að sinna, þ.e. þetta er hluti af samfélagsskyldunni, hluti af því að hafa landið eins og við viljum í rauninni hafa það.

Það sem gerist þegar kostnaðarþátttaka sveitarfélaganna er orðin svona mikil og rekstur þeirra er, eins og margra annarra, mjög þungur þá freistast sveitarfélög vitanlega, sem er eðlilegt, til að draga úr kostnaði við þennan þátt starfseminnar eins og allan annan, sem gerir það þá um leið að verkum að minna er veitt og þá fjölgar dýrunum. Þetta er eins og spírall eða hringur sem verður að rjúfa.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það er mjög misjafnt hvernig þessu er sinnt. Það er að sjálfsögðu ákveðinn galli á stjórnun þessara veiða að mjög misjafnt er hvernig sveitarfélög sinna þessu. Þeim er það vitanlega í sjálfsvald sett. Sum sinna þessu mjög vel, setja í þetta töluvert mikla fjármuni, önnur sinna þessu frekar lítið eða illa. Það væri vitanlega skynsamlegast að einhvers konar samræmi væri í því hvernig þessu er sinnt og sjálfsagt þyrfti og þarf ríkisvaldið að koma að þessu með myndarlegri hætti. Það er mikilvægt að hemja útbreiðslu á þessum dýrum, bæði ref og mink, og það verður eingöngu gert með því að auka veiðarnar frá því sem nú er.

Ég vil þakka, hæstv. forseti, 1. flutningsmanni, hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni, fyrir að hafa frumkvæði að þessu því að það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum í tengslum við sveitina, við landbúnaðinn, við þá sem eru úti í náttúrunni og sjá hvernig fuglalífið hefur lagst af á stórum svæðum út af þessum vargi, að við því sé brugðist. Því er þetta frumvarp lagt fram varðandi þessar breytingar að ríkissjóður komi í það minnsta til baka með virðisaukaskattinn sem er tekinn af þessari starfsemi. Það kann að vera að meira þurfi að koma til en þetta er í það minnsta fyrsta skrefið. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er ekki lítið eða léttvægt mál, þetta er mál sem snertir marga og margir hagsmunaaðilar eru að málinu. Það er samfélagið allt í raun. Vitanlega eru hagsmunir manna misjafnir en þegar við hittum göngufólk sem gengur mikið um ákveðin svæði vestur á Ströndum eða norður í landi og það kvartar undan því að það sé hætt að heyra í mófuglinum en sjái mikið af tófu hlýtur eitthvert samhengi að vera þar á milli. Ég ítreka það líka að ekki síður skiptir máli að bændur geti verið öruggir með búfénað sinn.



[15:20]
Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þingmönnum Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góð orð í sambandi við þetta mál. Þeir eru báðir meðflutningsmenn að málinu og þekkja mjög vel þessar aðstæður eins og þeir gerðu mjög vel grein fyrir í góðu ræðum áðan.

Ég vil vekja athygli á því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði áðan að á sínum tíma þegar verið var að ræða þessi mál í fjárlaganefnd tókst býsna góð þverpólitísk samstaða um málið. Það segir okkur að það er mikill skilningur almennt í þinginu gagnvart málinu. Ef við lítum yfir þann hóp þingmanna sem standa að því er um að ræða ellefu manna hóp úr fjórum stjórnmálaflokkum. Ég held því að full ástæða sé til að ætla að um málið geti orðið prýðileg samstaða.

Ég ítreka að þetta er auðvitað ekki eitt af þeim stóru málum í hinu þjóðfélagslega samhengi nú um stundir. Þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem við þurfum engu að síður að hyggja að vegna þess að þau varða mikla hagsmuni á tilteknum svæðum, fyrir tiltekin sveitarfélög við tilteknar aðstæður. Við eigum ekki að gera lítið úr því, þvert á móti, þetta er gríðarlega mikið mál eins og við verðum svo mikið vör við, þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, þegar við förum um landið og hittum sveitarstjórnarmenn að máli að þetta hvílir býsna þungt á mörgum vegna þess að þetta hefur veruleg áhrif á fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga og möguleika þeirra til að takast á hendur aðra lögbundna þjónustu sem þeim er ætlað að sinna sem sveitarfélag á sínu svæði. Þetta hefur allt saman áhrif á búsetu manna vegna þess að þetta hefur áhrif á fjárhag sveitarfélaganna.

Það er líka alveg hárrétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á áðan þegar hann sagði að þessu er auðvitað misjafnlega sinnt og fyrir því eru ýmsar ástæður. Á einstöku svæðum, t.d. í friðlandinu norður á Ströndum, eru veiðar á ref og mink einfaldlega bannaðar.

Það eru svo sem ekki fyrstu afskipti mín af málum sem snúa að ref og mink það frumvarp sem ég er hér að flytja ásamt öðrum þingmönnum. Ég hafði um það forgöngu á sínum tíma í hinu gamla Vestfjarðakjördæmi að við þáverandi þingmenn þess kjördæmis fluttum þingsályktunartillögu sem fól í sér að heimila veiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Það mál fékk mjög blendnar viðtökur og þær voru svona: Heimamenn allir voru þeirrar skoðunar að þá þingsályktunartillögu ætti að samþykkja. Sérfræðingaveldið hér fyrir sunnan eins og það lagði sig, eftir því sem ég best man, lagðist algjörlega þvert á málið og vitaskuld þurfti þá ekki að spyrja að leikslokum, sérfræðingaveldið vann, heimamennirnir töpuðu, flóknara var það ekki. Eitt af því sem sérfræðingarnir bentu á að væri veila í tillögunni sem við fluttum á þeim tíma var að í greinargerðinni sem fylgdi tillögunni stóð eitthvað á þá leið að nú væri svo komið á mörgum svæðum norður á Ströndum að söngur mófuglanna hefði hljóðnað eftir að veiðar á ref og mink voru aflagðar á því svæði. Þá bentu þessir mætu vísindamenn á að þetta væri ósannað mál því að flutningsmenn hefðu ekki haft fyrir því að mæla söng mófuglanna áður en veiðarnar á ref og mink voru stöðvaðar á sínum tíma. Og þar sem þetta væri gjörsamlega ósannað mál væri náttúrlega ekki nokkur lífsins leið eða nokkur vegur að leggja fram svona óvandað þingmál sem ekki hefði betri vísindalegan grundvöll en raun bar vitni um. Fyrir þessu féll þingið á sínum tíma og taldi að það væri náttúrlega alveg útilokað annað en að halda áfram að friða ref og mink á Hornströndum sem m.a. veldur því, að mati t.d. grenjaskyttna og bænda sem búa þarna næst svæðunum, að refur og minkur, ekki síst minkur, eru að flæða yfir svæðin og það veldur síðan miklum vanda.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi. Vegna eðlis málsins, eins og hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Ásbjörn Óttarsson hafa rakið hérna, er þetta samfélagslegt verkefni. Þetta getur þess vegna ekki verið einkamál lítilla, fámennra landmikilla sveitarfélaga þar sem aðstæðurnar eru þannig að kostnaðurinn verður hlutfallslega mikill. Það er þessum sveitarfélögum einfaldlega ofviða. Þess vegna er það eðlilegt að við lítum á þetta og skilgreinum það sem samfélagslegt verkefni. Frumvarp þetta er örlítil viðleitni í þá átt vegna þess að hér er ekki verið að leggja til að ríkið taki algjörlega að sér þennan kostnað heldur eingöngu að virðisaukaskattur sé endurgreiddur eins og hér hefur verið rakið.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna eingöngu þessum góðu viðtökum og ætla að leyfa mér að vona að niðurstaðan geti orðið sú að frumvarpið verði samþykkt að lokum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sjútv.- og landbn. [Frumvarpið átti að ganga til efh.- og skattn.; sjá leiðréttingu á næsta fundi.]