139. löggjafarþing — 65. fundur
 26. janúar 2011.
tekjuskattur, 1. umræða.
frv. ÁJ o.fl., 275. mál (skilyrði sjómannaafsláttar). — Þskj. 318.

[16:19]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Þetta frumvarp fjallar um það sem löngum hefur verið kallað sjómannaafsláttur sem er afsláttur af tekjuskatti sjómanna vegna vinnu fjarri heimilis. Það er með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn Íslands skuli hafa ákveðið að fella niður þann sjómannaafslátt sem hefur verið í gildi um árabil á Íslandi, ekki síst með tilliti til þess að það voru slíkar upphæðir að til skammar var fyrir þátttöku ríkissjóðs í þeim efnum. Allar stéttir á Íslandi njóta afsláttar, frádráttar frá tekjuskatti, vegna vinnu fjarri heimilis. Það er með ólíkindum að upp skuli komin sú staða að eina stétt landsins sem ekki á að njóta sjómannaafsláttar er sú stétt sem vinnur svo sannarlega fjarri heimili sínu langdvölum við einhverjar erfiðustu aðstæður sem um getur í atvinnu á Íslandi, við sjómennsku. Þetta er til háborinnar skammar og þessi aðför hæstv. ríkisstjórnar að sjómönnum landsins, sjávarplássum og eðlilegri virðingu fyrir samsetningu samfélagsins er þess eðlis að ekki verður við unað.

Það eru u.þ.b. 9 þúsund færslur á Íslandi hjá atvinnurekendum og öðrum vegna afsláttar frá skatti, dagpeninga og hvað það nú heitir, sjómannaafsláttur og aðrir þættir sem fjalla um þetta. Af þessum 9 þús. aðilum sem véla um þetta, þar sem geta verið mismargir aðilar sem njóta þessa réttar, er aðeins 1 þús. sem tengist sjómannastéttinni. Landkrabbarnir, embættismennirnir, starfsmenn fyrirtækja stórra og smárra um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, eiga að njóta þessa réttar en sjómenn eiga að fara út í kuldann. Hvílík skömm fyrir íslenskt þjóðfélag.

Það er sjávarútvegurinn, veiðar, vinnsla og markaðssetning, sem tryggir það og veldur því að íslenska þjóðin er á floti í dag. 60% af þjóðartekjunum koma úr þessum atvinnuvegi og vegna þess að vel hefur gengið í honum þrátt fyrir allt og menn hafa getað hagað seglum eftir vindi hefur þetta verið þess eðlis að það hefur bjargað íslenskri þjóð þrátt fyrir að öllum þessum útvegi sé haldið í heljargreipum vegna óstjórnar, ómarkvísi, geðþóttaákvarðana og innanborðsrifrildis hjá ríkisstjórnarflokkunum þar sem eiginlega er deilt um hvort slátra eigi íslenskum sjávarútvegi í einu vetfangi, slátra mjólkurkúnni eða njóta mjólkurinnar lengur. Svo vitlaus er þessi umræða. Það er með ólíkindum að fjölmargir hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga í dag vita ekkert um sjávarútveg og vilja ekkert vita um hann. Þá kannski rennir í grun að það sé slorlykt af honum og þá er það ekki nógu fínt. Það er óskemmtilegt að þurfa að segja þetta en þetta er staðreynd og það er mergurinn málsins, virðulegi forseti.

Í því frumvarpi sem við leggjum hér fram, auk mín hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson, er fjallað um að rétt til sjómannaafsláttar eigi að hafa þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku og eru lögskráðir í skipsrúm að því tilskildu að laun þeirra fyrir sjómennsku nemi 30% af tekjuskattsstofni þeirra hið minnsta. Þetta þýðir að það er tekið á þessu föstum tökum.

Og hver er viðmiðunin, virðulegi forseti?

Allar fiskveiðiþjóðir í Evrópu hafa sjómannaafslátt. Íslendingar eru ein af fiskveiðiþjóðunum í Evrópu. Samt eru til hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga sem drulla yfir sjómenn, drulla yfir þá og eru fastir í einhverju eiginhagsmunapoti, einhverjum geðþóttaákvörðunum og tryllingslegri hugsun. Þeir eru til í öllum flokkum, því miður, en mismunandi mikið eftir flokkum. Ef íslenskir þingmenn geta ekki sýnt sjómönnum virðingu eru þeir ekki þingmenn Íslands, að mínu mati. Þá eru þeir þingmenn einhverra kerfa, einhverra hagfræðikenninga, einhverrar samsuðu og þjóðfélaga sem við eigum ekkert erindi með á Íslandi. Þeir skulu koma og reyna að bera sig vel. Guð hjálpi þeim.

Þau kerfi sem eru notuð á Norðurlöndum og í Evrópu og varða slíkan rétt sjómanna sem vinna fjarri heimilum eru mjög mismunandi. Það eru t.d. mjög háar tölur sem lúta undir það sem er tekjufrádráttur hjá sjómönnum í flestum löndum Evrópu. Hann er mestur þar sem farmenn eru flestir og sá þáttur í Noregi sem lýtur að farmönnum felur í sér mjög háar tölur, tugi þúsunda á mánuði. Þar er líka sú sérstaða að þar búa farmenn, sjómenn, nánast árið um kring hingað og þangað um hnöttinn, minnst á heimaslóðum sínum í Noregi.

Það frádráttarkerfi sem er miðað við í þessu frumvarpi miðast í rauninni við það sem gildir fyrir fiskimenn, bæði í Færeyjum og Noregi. Það er í lægri kantinum yfir þessa línu alla en þó er það boðlegt, a.m.k. til að byrja með og til að koma þessu á koppinn, þessu margumdeilda máli, koma því í heila höfn og sýna þannig íslenskri sjómannastétt virðingu, stéttinni sem skilar okkur áfram fyrst og fremst. Hún keppir ekki á stórmótum í nokkrar vikur annað og þriðja hvert ár, hún keppir á hverjum einasta degi á hafinu í kringum Ísland, erfiðasta hafsvæði til veiða á jörðinni. Þaðan fáum við björg í bú og við verðum að gera okkur grein fyrir því og verðum að átta okkur á því að þetta verður að geta gengið til þess að við getum haldið úti á Íslandi menntakerfi, heilbrigðiskerfi, félagskerfi, þjónustu velferðarkerfis sem við viljum að fólkið á Íslandi njóti.

Sá frádráttur sem miðað er við í þessum lögum miðast við 14% af ákveðnu tekjuhlutfalli. Hann getur að hámarki orðið yfir árið um 1.450 þús. Það þarf ótrúlega há laun til að ná því. Ef þau nást nokkurn tímann er það fyrst og fremst á þeim grunni að örfáir einstaklingar gætu notið þess. Að öllu jöfnu yrðu þetta einhverjir tugir þúsunda á mánuði.

Það er sagt í dag að sjómenn hafi góð laun og þurfi engan afslátt. Ætli það geti verið viðmiðunin? Ætli íslensku ráðherrarnir og embættismennirnir í kerfinu hafi ekki ágætislaun? Af hverju þurfa þeir dagpeninga og frádrátt frá skatti? Hvaða bull er þetta? Þetta er það sem við búum við og þetta er það sem við verðum að horfast í augu við.

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli að jafnræði sé í þessum efnum. Sjómannaafsláttur, tekjufrádrátturinn sem hér er rætt um, er ígildi þess sem gengur og gerist í samfélaginu en í lægri kantinum.

Síðustu tvö árin hafa verið ágætistekjur hjá sjómönnum almennt þótt þær séu mjög misjafnar eftir svæðum, eftir bátagerðum og öðru. Sjómennskan er happdrætti. Þannig er veiðimannasamfélagið þó að lögð sé áhersla á það í íslenska kerfinu að gleyma því að við séum veiðimannasamfélag. Við tökum til að mynda peningana þaðan sem þarf til að veita örugga heilbrigðisþjónustu í landinu. Það kemur ekkert beint af himnum ofan, það kemur úr sjónum. Það þarf hörkumannskap til að vinna það, sækja það og skila því.

Löngum höfum við Íslendingar talað um að fiskveiðar væru bara veiðar og vinnsla. En líklega er þriðji þátturinn farinn að skipta hvað mestu máli, markaðssetningin, markaðsvinnan um allan heim sem byggir á því að við getum á réttum tíma hverju sinni skilað afurðum inn á markaðina þannig að við fáum hæsta verð. Aðeins í skjóli þessa öryggis getum við tryggt hæsta verð fyrir hvert einasta kíló af fiski sem við vinnum.

Ef þetta á að vera í einhverjum lausagangi, eins og stjórn landsins er til að mynda í dag, skilar það engu. Þá fer það bara allt í tóma vitleysu. Þess vegna skiptir miklu máli að við tryggjum þetta.

Hinn svokallaði sjómannaafsláttur kom inn í samfélagið á sjöunda áratugnum. (PHB: Sjötta.) Nei, á sjöunda áratugnum, líklega 1963 eða 1964. (Gripið fram í.) Þá kemur þetta inn sem lausn stjórnvalda í ákveðnum kjarasamningum og kerfisbreytingum og hefur verið við lýði síðan, þó með sílækkandi hlutfalli og ómyndarskap. En nú tekur hæstv. ríkisstjórn af skarið, strikar sjómenn út af kortinu og segir þeim að hypja sig frá borði í eðlilegum samanburði við aðra þegna þjóðfélagsins. Þetta er það sem málið snýst um, virðulegi forseti, að við tryggjum til að mynda samræmi við það fyrirkomulag sem er hjá þeim fiskveiðiþjóðum í Evrópu sem við stöndum næst í ferli og samsetningu og sýnum samstöðu í þeim efnum. Verjum þennan rétt sjómanna og tryggjum að þeir verði ekki skildir eftir einir á báti, áralausir úti í ballarhafi, varðandi rétt sem landkrabbarnir hafa tryggt sér fyrir margt löngu og hafa notið ómælt án þess að nokkur hikstaði, án þess að nokkrum dytti í hug að fara að taka hann af þeim. Þannig sitja sjómenn ekki við sama borð og það er okkar, sem erum talsmenn sjómanna og viljum verja rétt þeirra og stöðu, að fylgja því eftir að þeir verði ekki skildir eftir í þessum efnum.

Það mætti tína upp ýmsar tölur í þessum efnum. Til að mynda í Svíþjóð er afslátturinn tvískiptur, 35 þús. sænskar kr. í „närfart“, það er á strandveiðum, og 36 þús. kr. sænskar í „fjärfart“, það er á slóðum flutningaskipa á alþjóðlegum siglingaleiðum. Þetta er svolítið flókið dæmi miðað við lönd, en þeim mun mikilvægara er að þetta sé í góðu lagi hjá þeim löndum þar sem sjómenn skipta verulegu máli. Það er ein sérstaða Íslands að hvergi nokkurs staðar, a.m.k. ekki í Evrópu, skipta sjómenn eins miklu máli og hér á Íslandi. Sjómenn eru burðarásinn í aflgjöf samfélagsins, vaxtarmöguleikum, þreki og þoli, með vinnu sem er utan við hversdagsleika landkrabbans, utan við eðlilegt daglegt aðgengi að menntakerfi, heilbrigðiskerfi, félagskerfi, almennri menningu o.s.frv.

Það hefur stundum verið sagt að sjómannaafslátturinn hafi í rauninni verið greiðsla fyrir það að standa ölduna. Það er ágætismyndlíking því að þeir sem þurfa að standa ölduna og vinna jafnharðan hafa ekki möguleika á að sinna neinu öðru á meðan, hvað þá hugsa um eitthvað annað. Þess vegna skiptir miklu máli að við afgreiðum þetta með sóma.

Á árinu 2008 fengu 6 þúsund sjómenn sjómannaafslátt. Sjómannaafslátturinn nam um 1 milljarði vegna ársins 2008. Til samanburðar fengu 3.875 aðilar greidda dagpeninga, 8,7 milljarða. Þetta sýnir í hnotskurn að sjómenn eru ekki til vandræða í þessu kerfi tölulega fyrir aðeins brot af því sem landkrabbarnir hafa í sinn hlut. Af þeim aðilum sem greiddu dagpeningana á árinu 2008 voru 138 opinberir aðilar sem greiddu samtals 1,5 milljarða. Það er sjálft ríkiskerfið. Það er sjálf jatan. Ég ætla ekkert að fjalla um það hvort í mörgum tilvikum mætti breyta þar um kerfi, taka upp nútímatækni til að sinna samskiptum og fjarskiptum með símafundum, sjónvarpsfundum og öðru. Það er annað mál, en þetta eru tölurnar. Samkvæmt þessu njóta opinberir starfsmenn mikilla fríðinda umfram aðrar starfsstéttir. Að minnsta kosti 18% allra greiddra dagpeninga fara til opinberrar stjórnsýslu, nær 20%.

Svo á að henda sjómönnum fyrir borð. Hvað er að þessu liði? Það er eitthvað mikið að. Það ætti kannski að byrja á því að fara í áfallahjálp og svo einhverja fræðslu um það um hvað málið snýst. Hvað er sjómennska? Við hvaða aðstæður er hún stunduð? Hvað gefur hún? Hvað skiptir hún miklu máli? Þeir virðast ekki hafa áhyggjur af því sem koma heim í kvöldmat á réttum tíma hvern dag, sitja yfir sjónvarpinu hvert kvöld, þegar önnur stétt í landinu, sjómenn, býr í einangruðu umhverfi úti á sjó þar sem er sem betur fer oft góður andi og góð stemning af því að sjómenn gera gott úr hlutunum. Þeir búa samt við þröngan kost á hinu almenna áhugamálasviði sem er síflæði í á Íslandi sem öðrum Evrópulöndum þessi árin.

Það er því einfaldlega sanngjörn krafa að sjómenn njóti áfram þeirra kjara sem þeir hafa haft í áratugi. Annað fæli í sér ójafnræði við aðrar starfsstéttir sem geta nýtt sér dagpeningagreiðslur í formi skattafsláttar.

Sjómenn á Norðurlöndum njóta sjómannaafsláttar. Hið sama á við í öðrum fiskveiðiríkjum eins og Kanada og Nýja-Sjálandi þar sem sjómenn eiga rétt á sérstökum skattafslætti. Fiskveiðiþjóð eins og sú íslenska á að tryggja sjómönnum sínum kjör sambærileg við þau sem tíðkast hjá þeim fiskveiðiþjóðum sem við berum okkur saman við þannig að við skulum taka saman höndum um það og koma þessu í gott lag.

Fiskibátur skilar ekki árangri nema hann sé vel búinn tækjum, öryggi og öllum þáttum sem þarf að horfa til. Starfsstétt sem er lítillækkuð miðað við aðrar stéttir landsins býr hvorki við öryggi né eðlilegt umhverfi eins og hún á skilið. Það er því mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta komist í farveg þar sem við klárum þetta og komum þessu í boðlegt ástand þannig að sjómenn megi vel við una.

Að mínu mati eiga íslenskir landkrabbar hvar í stétt sem þeir standa að vera sérstakir baráttumenn og talsmenn íslenskra sjómanna vegna þess að þar sem sjómenn eru svo fjarri hvunndagsþáttum á Íslandi hafa þeir í rauninni enga aðstöðu til að berjast eða svara fyrir sig. Þá eigum við sem erum í landi að hafa manndóm til þess að taka upp málstað þeirra og fylgja honum eftir þannig að þeir sitji við sama borð og aðrar stéttir í landinu og aðrar sambærilegar stéttir í nálægum löndum og þeim löndum sem sérstaklega leggja rækt við fiskveiðar.

Að lokinni umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þetta frumvarp fari til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og fái þar snaggaralega og góða umfjöllun.



[16:45]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ágæta ræðu en samt tapaði hún dálitlu á reiðiköstum og stóryrtum fullyrðingum. Hún tapaði á því. (ÁJ: Hvað áttu við með því?) Ég er í andsvari. (Forseti hringir.) (ÁJ: Tala þú fyrir þig.)

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann að gefa ræðumanni hljóð.)

Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta það að fyrstu lögin um sjómannaafslátt, nr. 41/1954, voru sett um hlífðarfataafslátt. Ég þekki þetta mjög vel. Ég hef mörgum sinnum flutt tillögu um að afnema sjómannaafsláttinn og það er ekki af einhverjum illvilja við sjómenn, alls ekki. Það er til að allir séu jafnir fyrir skattalögum, jafnt forsetinn — sem ég lagði einu sinni til að skattfrelsi yrði afnumið hjá og maka hans; það var samþykkt — sem sjómenn. Ég er alltaf í jafnmiklum vandræðum með opinbera sendimenn erlendra ríkja. Þeir njóta skattfrelsis á grundvelli Vínarsáttmálans frá 1812 og ég kemst ekki gegn honum.

Ef hv. þingmaður hefði unnið heimavinnuna sína og talað við þingflokk sinn og ágæta menn þar, t.d. mig, um lausnir á þessum vanda hefði hann getað fundið mjög einfalda lausn. Hún felst í því að í næstu kjarasamningum sjómanna og útgerðarmanna samþykki sjómenn og útgerðarmenn að sjómenn borgi fyrir húsnæði um borð. Launin verði hækkuð sem nemur því, segjum um 10 þús. kall á dag, ég held að það kosti ekki minna, og þeir fái dagpeninga eins og aðrir sem eru við störf fjarri heimilum sínum. Það gæfi þeim miklu meira og þá eru allir jafnir fyrir lögunum.

Það mætti líka láta þá borga fæði því að það er engin stétt í landinu sem borðar eins dýrt fæði vegna þess að kokkurinn er á einum og hálfum (Forseti hringir.) hlut.



[16:47]
Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta eitt, ég óskaði eftir því að málið færi til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það á auðvitað að fara til efnahags- og skattanefndar og leiðréttist hér með.

Ég ætla ekki að svara hv. síðasta ræðumanni. Ég nenni ekki að fjalla um hálft mál í hverju tilviki, bendi bara á að meðal meðflutningsmanna — af því að hv. þm. Pétur Blöndal vitnaði í þingflokk Sjálfstæðisflokksins — eru reyndustu menn þingflokksins á þessu sviði, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og Kristján Þór Júlíusson.



[16:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þó að hv. þingmaður hafi í engu svarað því sem ég lagði til og ekki einu sinni gælt við hugsunina — því að ég er náttúrlega að hugsa út fyrir boxið — vil ég benda á að plássið, káetan, á sjónum er ekki ódýrt. Það mætti örugglega verðleggja það á minnst 10 þús. kr. á dag og svo eru alls konar hlutir eins og fjarskipti. Sjómenn þurfa að borga fyrir að hringja í land. Það mætti láta útgerðina borga símtölin, nákvæmlega eins og opinberir starfsmenn fá greiddan síma. Síðan mætti, eins og ég gat um áðan, láta sjómennina borga hlut í launum kokksins og þá erum við farnir að tala um mjög stóran kostnað, einmitt við fæðið. Hvað ef maður borgar það með dagpeningum? Fá menn ekki borgað fæðið þegar þeir borða á hótelum úti í heimi? Ég veit ekki betur og ég er bara viss um að sjómenn væru miklu betur settir. Ég er nefnilega vinur sjómanna. Það vill svo til. Ég hugsa í lausnum fyrir sjómenn þannig að þeir geti fengið jafnt og allir aðrir en akkúrat jafnt og allir aðrir. Ég vil ekki mismuna fólki eftir stéttum gagnvart skattalögum.



[16:49]
Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að geta hugsað í lausnum verða menn að þekkja aðstæður, ekki vera með einhverjar Pollýönnu-hugmyndir og spádóma í þeim efnum. Það kemur berlega fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að hann lifir í einhverjum rómantískum draumaheimi varðandi sjómenn. Hann er bara ekki raunveruleikinn. Það þýðir ekki að sleppa pusinu, það þýðir ekki að sleppa því sem skiptir máli og það er að menn sitji við sama borð.

Það er verið að tala um dagpeninga hingað og þangað. Þetta er bara ekki þannig mál og ég ætla ekki að blanda mér í þessa gömlu draumaheima hv. þingmanns þar sem hann kemur með tillögur og hugmyndir sem eru því miður óbrúklegar og ekki hægt að gera annað við en spúla þeim út af dekkinu vegna þess að það er engin innstæða fyrir þeim. Það er engin reynsla og það er ekkert verksvit á bak við það og þetta snýst um það.



[16:51]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að blanda mér ekki mikið í umræður félaga minna hv. þm. Árna Johnsens sem er 1. flutningsmaður að þessu frumvarpi og hv. þm. Péturs Blöndals. Ég ætla hins vegar að leiðrétta eitt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði, kokkurinn er ekki með einn og hálfan hlut, hann er með einn og kvart hlut. Ég þykist vita að það verði gerðar athugasemdir við mig þegar ég kem í mína heimahaga hafi ég ekki leiðrétt þetta.

Það sem við erum að ræða hér er breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Eins og hv. flutningsmaður Árni Johnsen fór yfir eru þetta breytingar sem falla að því að taka aftur upp svokallaðan sjómannaafslátt eins og hann hefur verið kallaður í áratugi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að það verði notast við sambærilegt kerfi og er í Færeyjum, að færeyskri fyrirmynd getum við orðað það, þannig að þeir sjómenn sem starfa á Íslandi muni þá fá sambærileg kjör og þeir sjómenn sem starfa í Færeyjum. Við getum síðan hugsað og deilt um hvort þetta sé með þessum hætti eða öðrum, en einhverra hluta vegna er það þannig í mörgum öðrum löndum að þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku fá skattaívilnun sem felst í sjómannaafslætti. Þau rök eiga að gilda alveg eins hér á landi og alls staðar annars staðar. Það er ekki bara af því bara.

Ég hef starfað nokkuð mörg ár á sjó. Þar starfa menn, og konur að sjálfsögðu, oft við mjög erfið skilyrði. Við skulum líka rifja það upp að meðal sjómanna er mun hærri slysatíðni, hvort sem það eru lítil eða alvarleg slys, en annarra samfélagshópa. Það er kannski þess vegna sem menn eru líka að hugsa þetta svona.

Við skulum heldur ekki gleyma því að sjómenn eru oft og tíðum vikum og jafnvel mánuðum saman burtu frá heimilum sínum. Þegar opinber starfsmaður bregður sér í nokkra klukkutíma út fyrir bæjarmörkin er allt í lagi að hann fái dagpeninga. Við eigum ekki að þrefa um það hvort menn kalli þetta dagpeninga og fari síðan að gera einhverja aðra hluti. Ég er hins vegar mjög ánægður ef menn hugsa út fyrir boxið og koma með hugmyndir. Mér finnst hins vegar alveg með eindæmum að þessi hæstv. ríkisstjórn sem kennir sig alltaf við einhverja norræna velferðarstjórn skuli gera þessa hluti þar sem þetta er alls staðar gert á Norðurlöndunum, menn njóta þar sjómannaafsláttar. Þetta er algjörlega til háborinnar skammar. Svo koma hv. þingmenn og segja: Ja, sjómenn eiga hugsanlega að fara inn í þetta dagpeningaform vegna þess að þeir eru þá allir jafnréttir.

Mig langar að rifja eitt upp, það að sjómenn eru að verða 2. flokks þegnar í þessu landi. Það er bara staðreynd, bæði hvað varðar það að taka af þeim sjómannaafsláttinn og ekki síst skulum við ekki gleyma því að staða öryggismála sjómanna er í dag þannig að því miður er mjög marga daga á ári ekki hægt að bjarga lífum sjómanna. Það er staðreynd mála. Það er ekki hægt að bjarga sjómönnum lendi þeir í slysum fyrir utan 20 mílur þegar vaktaskipan er þannig hjá Landhelgisgæslunni. Hvað kalla menn það? Í gegnum fjárlögin þekkjum við þá umræðu og þær arfavitlausu hugmyndir, sem var hent þar fyrir borð, gagnvart heilbrigðisstofnunum landsins þar sem ráðist var að grunnstoðunum og ætlast til þess að íbúar á landsbyggðinni lytu þeim afarkostum að geta ekki fengið eðlilega heilbrigðisþjónustu. Þá gleymist nefnilega þetta gagnvart sjómönnunum. Það er búið þannig um hnútana núna með fækkun á þyrlum og niðurskurði hjá Landhelgisgæslunni að þjónustan er skert. Þeir einstaklingar sem starfa hjá Landhelgisgæslunni eru að sjálfsögðu allir af vilja gerðir, gera allt sem í þeirra valdi stendur og leggja oft líf sitt að veði til að reyna að bjarga sjómönnum, en sjómenn búa ekki við sama öryggi og fólk í landi. Það er staðreynd málsins, því miður.

Síðan geta menn sett í alls konar samhengi hvernig menn vilja sjá hlutina. Það dapurlegasta í þessum hlutum er að sjómenn skuli ekki geta notið þeirrar öryggisþjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið. Þeir hafa haldið þessari þjóð á floti alla tíð, skaffað tekjur og haldið lífi í þjóðinni. Ég er ansi hræddur um að fólk kynni því illa ef ekki væri hægt að verða við beiðni fólks sem veikist og þarf að fá sjúkrabíl til að keyra sig á sjúkrahús af því að leiðin væri umfram 40 kílómetra. Við þetta þurfa sjómenn að búa. Þá er ég ansi hræddur um að hér færi allt á annan endann. Svo getur fólk reynt að setja sig í spor fjölskyldna sjómanna sem hafa af þessu að sjálfsögðu miklar áhyggjur. Ég er ansi hræddur um — hef sagt það áður í þessum sal og skal gera það eina ferðina enn — þó að ég voni að svo fari ekki að menn vakni ekki upp af þessum blundi fyrr en það hefur kostað einhver mannslíf. Það hefur nefnilega áður þurft að fórna mannslífum til að stjórnvöld vakni upp við þann aðbúnað og það öryggi sem íslenskum sjómönnum er búið. Það er bara blákaldur veruleikinn, því miður. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þeir hafi brugðist við fullyrðingum mínum í utandagskrárumræðunni í fyrra. Þá töldu ýmsir mig vera með nánast eintómt lýðskrum. Ég vona að sjálfsögðu að þetta muni ekki ganga eftir en ætli þeir verði ekki aumir ef það gerist og þegar þeir vakna upp af þessum svefni sem þeir eru í, að það þurfi að fórna mannslífum til að rétta af þennan hlut. Þannig hefur það verið og þannig er það, því miður.

Ég ítreka að ég er ansi hræddur um að ef hinn almenni borgari mundi lenda í svipuðum aðstæðum færi þjóðfélagið á annan endann. Hér er ekki verið að biðja um nein forréttindi fyrir sjómenn. Hér er eingöngu verið að biðja um það fyrir sjómenn sem þeir eiga sannarlega skilið og það kemur fram í þessu frumvarpi hvernig því er háttað. Á árinu 2008 voru sjómenn með rúman milljarð í skattafslátt út af störfum sínum en opinberir starfsmenn, þingmenn og fleiri, ég og aðrir, fengu á árinu 2008 1,5 milljarða, þ.e. 50% meira en íslenskir sjómenn. Svo geta menn deilt um hvað er rétt og hvað rangt í því, menn sem sitja í þægilegu upphituðu húsi í djúpum og þægilegum stólum. Það er allt réttlætið og það er að mínu viti til háborinnar skammar af hæstv. ríkisstjórn að ráðast svona fram gagnvart sjómönnum.

Síðan hafa margir haft orð á því að sumir sjómenn, sumir, ekki allir, hafi um þessar mundir há laun vegna falls krónunnar. Þá skulu menn líka muna að á góðæristímanum á Stór-Reykjavíkursvæðinu þegar þenslan var í botni og gengi krónunnar mjög lágt fengu sjómenn ekki góð laun og þurftu að greiða fyrir það þegar gengi krónunnar var sterkt. Það gleymist nefnilega alltaf, menn hugsa alltaf í núinu. Það kemur fram í þessu frumvarpi og hefur margoft komið fram, m.a. í ábendingum forustumanna sjómannafélaganna og sjómanna á Íslandi, hvað sjómenn búa við skertar aðstæður. Þeir hafa allt öðruvísi aðgang að öllu opinbera kerfinu, til að mynda heilsugæslu, eins og ég rakti áðan. Það er svoleiðis búið um hnútana að það er ekki einu sinni hægt að bjarga sjómönnum við vissar aðstæður sem eru fyrir utan 20 mílur, hjá fiskimannaþjóð. Sjávarútvegurinn er grunnurinn að íslensku samfélagi. Samt er svona búið um hnútana. Það er dapurlegt, virðulegi forseti, að menn skuli gera þetta. En þessu laumuðu þessir vinstri menn, kommúnistar, inn í allan skattahækkanapakkann sinn þannig að því miður varð ekki mjög mikil umræða um þetta mál í öllu óðagotinu í lok árs 2009 þegar menn rumpuðu í gegn á örfáum dögum öllum þessum skattahækkunum í kjölfar afgreiðslu fjárlaga. Þetta týndist því miður of mikið í umræðunni þó að að sjálfsögðu hafi verið vakin athygli á því. Þeir hinir sömu og samþykktu að fella niður sjómannaafsláttinn hjá sjómönnunum blikna hins vegar ekkert við það að þiggja dagpeninga þegar þeir skreppa aðeins út fyrir bæjarmörkin eða fara til útlanda eða hvað sem það er á vegum hins opinbera. Þeir blikna ekki við það og þeir búa ekki við það slæma öryggi að verði þeir fyrir meiðslum eða verða veikir, hvort sem það er lítið eða alvarlegt, jafnvel að líf liggi við, sé ekki hægt að bjarga þeim.

Eins og kemur kannski fram í máli mínu, ég þykist vera nokkur skýrmæltur, er mér mikið niðri fyrir þegar ég fjalla um þessi mál. Ég þekki nefnilega af eigin raun hvernig það er að starfa til sjós. Ég hef því miður lent í því að horfa á sjómenn berjast fyrir lífi sínu og verið þá í landi og ekkert getað gert, ekki frekar en aðrir. Það hefur komið fyrir mig, ekki einu sinni heldur tvisvar, að þurfa að horfa á sjómenn berjast fyrir lífi sínu og það var ekkert hægt að gera nema bíða eftir þyrlunni, ekki neitt þó að allir vildu gera það sem þeir gætu. Samt er svo búið um hnútana núna að það er ekki hægt að verða við því.

Ég vænti þess og hef þá trú í brjósti að menn muni sjá að sér. Ég viðurkenni það, virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. efnahags- og skattanefnd fari mjög vel yfir þetta mál og beri saman við þau kjör sem aðrar starfsstéttir í landinu hafa. Komi menn með einhverjar hugmyndir um það, eins og þeir kalla það að hugsa út fyrir boxið, þannig að menn njóti þá sömu kjararéttinda er það gott og blessað. Ég ætla ekki að slá neitt á það. En gleymum því ekki þegar við fjöllum um það, eins og ég kom inn á, að sjómenn búa ekki við sömu aðstæður og fólk í landi, hvorki varðandi öryggismál, heilsugæslu né svo margt annað. Sjómenn eru vikum og jafnvel mánuðum saman í burtu frá fjölskyldum sínum. Komi eitthvað alvarlegt upp í fjölskyldunni geta sjómenn ekki brugðið sér heim ef þeir eru kannski í túr á frystitogara. Það er bara ekki þannig. Það er þá eitthvað alveg mjög alvarlegt sem gerist ef menn eru settir í land, þ.e. ef slysavarnabátarnir hugsanlega ná í þá ef það eru þá skilyrði og aðstæður til að gera það. Í einu blaðanna sem ég sá í morgun, ég man ekki hvaða blað það var, var einmitt verið að rifja upp að á þessum degi fyrir nokkrum áratugum fórust þrjár áhafnir á togurum. Það er dapurlegt, virðulegi forseti, að við skulum þurfa að ræða á hinu háa Alþingi þann sjálfsagða rétt sjómanna að vera þegnar en ekki 2. flokks þegnar.

Virðulegi forseti. Ég bind miklar vonir við að hv. efnahags- og skattanefnd fari yfir þetta frumvarp með það fyrir augum að ekki verði litið á sjómenn sem 2. flokks þegna. Þeir hv. þingmenn sem samþykktu að afnema sjómannaafsláttinn á sínum tíma gerðu það án þess að blikna en þegar þeir bregða sér sjálfir aðeins af bæ þiggja þeir dagpeninga og aðrar greiðslur sem þeir vilja taka af öðrum sem eiga sannarlega frekar skilið en þeir að fá greiðslurnar.



[17:06]
Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aldrei ofmælt þegar fjallað er um öryggisþáttinn sem tengist sjómönnum. Eitt lítið dæmi um stórt mál.

Á síðustu öld fórust við Vestmannaeyjar 500 sjómenn, á 100 árum fórust 500 sjómenn. Þetta skiptir miklu máli og snertir alla þætti sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fjallaði um áðan. Þingmenn sem hafa leyft sér að tala niður til sjómanna og sýna engan skilning á að þeir njóti jafnræðis við aðra þegna þjóðfélagsins, aðra sjómenn í Evrópu, þeir hafa excel-skjal í höfðinu. Lífið er ekki excel-skjal. Maður vorkennir þeim fyrir þröngsýni og fordóma sem búa yfir þessu excel-skjali.

Það segir sína sögu um lítilsvirðingu hæstv. ríkisstjórnar í þessari umræðu sem varðar mikið hagsmunamál sjómanna að hér er enginn hæstv. ráðherra viðstaddur. Hér er formaður sjávarútvegsnefndar ekki viðstaddur og varaformaður sjávarútvegsnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, ekki heldur af því að þeim er andskotans sama um þetta. Virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þetta er vægt til orða tekið.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Þetta er vægt til orða tekið og maður verður að tala mannamál hér þannig að það sé kallað (Forseti hringir.) réttum nöfnum (Forseti hringir.) það sem sagt er og talað er um.

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður er beðinn um að gæta orða sinna. Það er hægt að tala mannamál þótt ekki sé bölvað og blótað í ræðustól.)

Það er nú bara íslenskt tungutak. Það skiptir miklu máli að forgangsraða (Forseti hringir.) öryggi og ekki síður tekjum og tryggja þann rétt sem …



[17:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á í vandræðum með að svara, það voru ekki margar spurningar sem komu fram í máli hv. þingmanns heldur nefndi hann þá sem voru ekki í salnum. Til að árétta það þá er hv. þm. Atli Gíslason formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, svo það fari ekki á milli mála.

Ég staldra hérna við, gerði það í ræðu minni áðan og í utandagskrárumræðu. Ég sit í hv. samgöngunefnd. Mér eru öryggismál sjómanna kær. Ég hef miklar áhyggjur af þeim og mikinn áhuga á þeim.

Við kölluðum til að mynda í fyrra forsvarsmenn Landhelgisgæslu Íslands á fund samgöngunefndar til að fara yfir stöðuna eins og hún er. Staðan er þannig að okkur vantar klárlega eina þyrlu í viðbót. Okkur vantar líka vaktir til viðbótar til að geta verið með þann mannafla og þyrluflota sem við þurfum til að tryggja öryggi sjómanna.

Nú er það þannig að ákveðna daga í mánuði er ekki hægt að bjarga lífi sjómanna hvort sem þeir eru veikir eða eitthvað annað hefur komið upp á ef það er fyrir utan 20 mílur. Það segir allt sem segja þarf fyrir menn sem hafa einhvern tíma verið til sjós. Við skulum rifja það upp að stærri togararnir mega í mörgum tilfellum ekki vera nær landhelginni en 12 mílur. Við skulum átta okkur á þeirri grafalvarlegu stöðu. Ég tel að við þurfum að bregðast við henni. Ég hef sett fram ákveðnar hugmyndir um hvað hægt er að gera en ekki hefur verið vel tekið í það. Þetta er grafalvarlegur hlutur sem við þurfum að ræða enn frekar.



[17:10]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á tekjuskatti sem lýtur að starfskjörum einnar stéttar í landinu. Hér hefur farið fram umræða af hálfu hv. þingmanna, tveggja af átta flutningsmönnum frumvarpsins, ásamt andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það hefur stundum hvesst eins og gengur og það er ósköp eðlilegt þó að við reynum að sjálfsögðu að gæta hófs í orðavali.

Það (PHB: Ekki hvessti hjá mér.) hefði mátt hvessa meira hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það gerir það örugglega oftar en við þetta mál sem betur fer. Það sem slær mig hins vegar við þetta mál, og er ástæða þess að ég er meðflutningsmaður að því, er að í grunninn er verið að ráðast að starfskjörum einnar stéttar í landinu, sjómanna, og fjölskyldum þeirra því að sérstaða starfsins umfram önnur hér á landi er allveruleg. Þeir eru bundnir mikilli fjarveru frá heimili. Eins og þetta liggur fyrir, og kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan, þá var þessu laumað inn í skattbreytingar sem unnar voru fyrir síðustu áramót. Það er raunar háðulegt fyrir vinstri stjórnina í landinu, sem maður hefði ætlað að væri málsvari vinnandi stétta, að hún af öllum ríkisstjórnum skuli knýja málið fram með þeim hætti sem raun bar vitni í dag. Það segir mikið til um vinstri menn á Íslandi í dag. Þetta eru oft og tíðum opinberar blækur í hrönnum sem gefa lítið fyrir uppruna sinn og hreyfingarinnar sem þeir starfa fyrir, þ.e. vinstrimennskuna sem þeir hafa hingað til álitið málsvara verkalýðsstéttanna á landinu. Það er sem betur fer að renna upp fyrir mönnum að svo er ekki.

Besti málsvari vinnandi stétta á sviði stjórnmálanna eru flokkar og stjórnmálastefnur sem vinna að því að framgangur atvinnulífsins í landinu verði með eðlilegum hætti. Síðustu missiri hafa fært okkur heim sanninn um það hvaða stjórnmálastefnur bera það merki á lofti. Að þessu leyti harma ég að ráðist sé að starfskjörum þessarar stéttar á þennan hátt. Þetta snýr ekki eingöngu að persónuafslættinum sem hér er lagður af, sem er skattafsláttur eins og hefur komið fram í umræðunni, heldur ekki síður að breytingum sem gerðar voru á persónuafslættinum í skattinnheimtu ríkissjóðs á síðasta ári. Þar var lögum um persónuafsláttinn breytt á þann veg að hann væri ekki lengur færanlegur á milli hjóna.

Hvaða starfsstétt snertir breytingin verst? Jú, sjómannsfjölskyldur. Af eðli starfsins leiðir að svo er. Þrátt fyrir kjaraskerðinguna sem þessi starfsstétt varð fyrir þá ganga menn lengra. Ég get tekið undir þau sjónarmið, svo maður láti alla njóta sannmælis í því efni, hv. þm. Péturs H. Blöndals að það er sjálfsagt mál að ræða breytingar í þessum efnum. En ég mótmæli því harðlega að ein stétt manna sé tekin út fyrir sviga með þeim hætti sem hér er gert. Það er ekki nokkur heiðarleiki við þá gjörð. Af sjálfu leiðir að menn munu mótmæla því hástöfum.

Það er ekkert sjálfgefið hverjir stunda sjóinn. Það er heldur ekki sjálfgefið þó að fólk sæki sjó og kjósi sér það að lífsstarfi að það henti öllum. Því síður er samasem-merki á milli kjara sjómanna alls staðar, alltaf og alla tíð. Það eru ekki allir milljónamenn á sjó, það er langur vegur frá því. Sjómenn detta oft og tíðum niður í það að vera með lögboðna tryggingu. Þeir þurfa með sama hætti að hafa jafnmikið fyrir starfi sínu. Umræðan er hins vegar öll um það, eins og t.d. kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan, að menn séu með einhvern lúxuskokk um borð. Ég hef verið á fleiri en einu skipi þar sem kokkurinn gekk til allra starfa um borð og honum var spýtt út við verk eins og öllum öðrum áhafnarmeðlimum. Hér var dregin upp sú mynd að þessi starfsmaður sæti bara um borð í sínum stól og eldaði lúxusrétti á fullu kaupi. Sem betur fer hefur hann þóknun fyrir sitt starf. (Gripið fram í.) Hann þarf að fæða marga svanga menn sem gera miklar kröfur um orkuríkt fæði. Stundum hefði mátt vera minna feitmeti í því en það er önnur saga.

Það vil ég segja í umræðunni um persónuafslátt sjómanna að hún hefur oft verið broguð mjög og slitin úr samhengi, oftast nær tengd því að sjómenn væru hálaunastétt sem væri gerður greiði umfram aðrar vinnandi stéttir í landinu, væru á sérkjörum. Hér hefur verið farið ágætlega yfir það hver þau eru en ég vil ekki síður halda því fram að Ísland þurfi á góðri sjómannastétt að halda. Það eru gríðarleg verðmæti sem þessi störf skapa fyrir íslenskt þjóðarbú og við erum í samkeppni við önnur lönd um vinnuafl á þessu sviði ekki síður en öðrum. Árás með þessum hætti að starfskjörum einnar stéttar veikir stöðu landsins í samkeppni um hæft fólk til þessara starfa.

Menn koma máli sínu misjafnlega fram. Ég vil leyfa mér að vitna í ályktun sem Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi gerði á aðalfundi sínum undir lok árs sem svo undarlega vill til að hefur ekki ratað víða í fjölmiðla. Af hvaða ástæðum skyldi það svo sem vera? Jú, einfaldlega vegna þess að menn gefa sér að málið eigi að þegja í hel. Þeir mótmæla harðlega afnámi sjómannaafsláttarins, 5% útflutningsálagi og vanvirðingu í garð atvinnusjómanna og atvinnuútgerðarmanna. Ég leyfi mér að vitna í þessa ályktun sem mér finnst fyllilega þess virði að efnahags- og skattanefnd taki til umræðu þegar málið kemur þar til umfjöllunar.

Aðalfundur þessa stéttarfélags spyr hvort íslensk þjóð viti að íslenskir sjómenn þurfa að vinna einum til tveimur mánuðum lengur á sjó fjarri fjölskyldum sínum til að vinna upp sjómannaafsláttinn. Gera menn sér grein fyrir því? Það þýðir starfskjaraskerðingu sem nemur einum til tveimur mánaðarlaunum. Veit íslensk þjóð að sjómaður í Vestmannaeyjum tapar 500–900 þús. kr. á ári vegna kvótaálagsins? Veit íslensk þjóð að sjávarútvegur er eina auðlindin sem er sérsköttuð? Veit íslensk þjóð að vinna er tekin af atvinnusjómönnum fyrir hina svokölluðu strandveiðisjómenn? Veit íslensk þjóð að sjómenn borga skatta af sínum matarpeningum? Veit íslensk þjóð að sjómannaafsláttur í Noregi er 3,2 millj. kr.? Veit íslensk þjóð að sjómannaafsláttur á Íslandi var 360 þús. kr. árið 2010? Veit íslensk þjóð að sjómenn hafa ekki sama aðgang að heilsugæslu og aðrir landsmenn? Raunar hefur sá þáttur málsins verðið gerður að umræðuefni hér og ég tel enga ástæðu til að bæta við það en það eru fjöldamargir aðrir þættir í íslensku samfélagi sem þessi starfsstétt nýtur ekki sem skyldi einfaldlega út frá eðlis starfsins.

Með því að vera meðflutningsmaður á þessu máli mælist ég til að tekið verði tillit til sjónarmiða sem ríkja í garð sjómannastéttarinnar. Við höfum fulla þörf fyrir það sem íslensk þjóð að hafa öflugt fólk við vinnu í þessum geira atvinnulífsins.



[17:21]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér fer fram ágæt umræða um sjómannaafslátt og er ekki seinna vænna þar sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að afnema það fyrirbæri. Þetta hefði gjarnan mátt ræða meira þegar það var ákveðið en þá var svo margt undir í einu eins og oft áður og umræðan datt niður. Þetta er nefnilega mjög mikilvæg umræða. Því miður er hún ótrúlega vanstillt og ég er alveg hissa á því hvað menn eru vanstilltir, talandi fyrir hönd sjómanna, því að þeir sjómenn sem ég þekki eru sko ekkert vanstilltir. Þeir eru yfirleitt mjög rólegir í tíðinni og kunna að bregðast við af æðruleysi, líka í umræðum.

Þetta er skattamál og fer til efnahags- og skattanefndar og í henni sit ég. Þar mun ég planta þeim hugmyndum sem ég hef reifað sem eru út úr boxinu að mínu mati en menn virðast hugsa dálítið mikið í boxinu. Hv. þm. Árni Johnsen hefur núið mér um nasir reynsluleysi og skort á verkviti. Svo vill til að á námsárunum vann ég mikið í síldarverksmiðjum en ég átti aldrei möguleika á því að fara um borð í skip að vinna, sem ég gjarnan hefði viljað vegna þess að ég hafði mikinn áhuga á því og launin voru betri. En ég þekkti engan útgerðarmann og þeir hefðu aldrei hleypt mér um borð. Ég gat því ekki aflað mér þeirrar reynslu sem hv. þingmaður var að væna mig um skort á. Ég fór þó einn túr með Heimaey, það má geta þess, frú forseti. Það var afskaplega ánægjuleg reynsla. Við lentum reyndar í brælu og tíu, tólf vindstigum held ég og það þótti mér afskaplega skemmtilegt. Ég kunni vel við mig um borð og í brælunni sem ég gat um vildi svo til að allir lögðust í koju nema ég og kokkurinn. Hann eldaði og ég borðaði. Það var afskaplega ánægjulegt. Ég stýrði líka skipinu vegna þess að vanhöld voru mikil á fólki. Aðra reynslu en þessa ferð hef ég ekki en ég á lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyinga í minningu hennar. Svo ég get ekki sagt að ég hafi mikla reynslu af sjómennsku, langt í frá.

Sjómannaafsláttinn má líta á sem styrk til útgerðar, hann er það. Útgerðin gæti alveg hækkað laun sjómanna um það sem nemur sjómannaafslættinum og þau stæðu eins eftir. Á Íslandi hefur mönnum orðið mjög tíðrætt um hin góðu laun sjómanna. Vissulega eru góð laun sjómanna til og þau ber alltaf mjög hátt. En menn tala síður um gæftaleysi, menn tala síður um það þegar menn berja báruna í endalausu gæftaleysi og ekkert gefur og enga pöddu neins staðar að finna og menn fá bara tryggingu, menn tala ekki um það. Og vinnan er ekkert minni, hún er oft á tíðum miklu meiri, það er alltaf verið að kasta og alltaf verið að hífa og ekki padda í sjó. Það má því ekki tala um sjómenn sem alla eins, þeir eru það langt í frá.

Svo segir það sig náttúrlega sjálft að sjómenn eru ekki jafnsettir öðrum borgurum landsins. Þeir skreppa ekki í bíó þegar góð mynd er í bíó. Þeir skreppa ekki til vina sinna í kaffi. Þeir skreppa heldur ekki á krá eða út að ganga eða hlaupa. Þeir færu nú ekki mikið að æfa tíu kílómetra hlaup nema þá á bretti sem er ekkert sérstaklega skemmtilegt og hvað þá í veltingi. Þetta er yfirleitt erfið vinna, aðgerð er mjög erfið, sérstaklega á þorski minnir mig, ég á óljósar minningar um það. Það var mikill munur á þorski og ufsa, ég man nú ekki hvort var, ufsinn steinlá alltaf en þorskurinn ekki, hann djöflaðist, sérstaklega stórþorskur. Svo er náttúrlega heilmikið átak að stíga veltinginn.

Það er því ekki hægt að segja að þessi stétt manna sé eins og aðrar stéttir. En þannig er það í þjóðfélaginu, til eru stéttir eins og læknar og aðrir sem lenda í alls konar aðstæðum. Læknar þurfa að mæta hlutum sem við viljum kannski ekki mæta, kannski ekki oft en það kemur fyrir, o.s.frv. Stéttir eru allar mismunandi.

Það sem ég hef lagt til í gegnum tíðina er að afnema sjómannaafsláttinn vegna jafnræðis stétta. Hér er nefnilega, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði áðan, ein stétt manna tekin út fyrir. Það er akkúrat málið. Í skattalögum er ein stétt manna tekin út fyrir, ein stétt sem nýtur sérkjara. Hún er ekki jafnsett öðrum stéttum í landinu. Forsetinn var skattfrjáls áður en búið er afnema sérkjör hans og maka hans, að mínu frumkvæði, og eftir sitja eins og ég gat um áðan í andsvari sendimenn alþjóðlegra stofnana og ríkja, annarra ríkja sem njóta skattfríðinda. Þeir njóta hins vegar að sjálfsögðu velferðarkerfisins og fá heilbrigðisþjónustu, þeir keyra líka eftir vegunum o.s.frv. en þeir borga ekki fyrir það. Það er nokkuð sem ég vildi gjarnan að menn reyndu að breyta.

Ég hef bent á að til að laga þetta eigum við að sjálfsögðu að taka upp jafnræði og afnema sjómannaafsláttinn, eins og ríkisstjórnin hefur lagt til, en taka upp dagpeninga til sjómanna með nákvæmlega sömu rökum og aðrir fá dagpeninga. Til þess þurfa sjómenn að borga kostnað og um borð er kostnaður fyrir hendi. Það er t.d. kostnaður við húsnæði, menn búa um borð þá daga sem þeir eru á sjó, nákvæmlega eins og þegar þingmenn skreppa til útlanda og búa á hótelum. Sjómenn búa í káetum sínum og þær kosta. Mér finnst að útgerðin geti hækkað laun sjómanna, þeir borgi sjálfir þennan kostnað og fái síðan dagpeninga á móti.

Ég nefndi matinn áðan og þá var sagt að ég hefði verið að tala um lúxusmat og eitthvað svoleiðis. Ég talaði ekkert um það. Ég sagði að þetta væri dýr matur vegna þess að kokkurinn er á hlut, á flestum fiskiskipum að minnsta kosti. Á því eina skipi sem ég fór á var kokkurinn afskaplega röskur í aðgerð. Um leið og hann var búinn að vaska upp var hann mættur. Þannig held ég að það sé yfirleitt, menn eru mjög duglegir og samhentir um borð. En engu að síður, maturinn kostar sitt og kokkurinn kostar sitt fyrir útgerðina. Útgerðin borgar nefnilega kokkinn. Mér finnst að fæðiskostnað eigi bara að setja í reikning til sjómanna og sjómennirnir geti dregið hann frá með dagpeningum. Þeir eiga að fá dagpeninga fyrir fæðiskostnaði rétt eins og opinberir starfsmenn eða aðrir starfsmenn fyrirtækja sem fara til útlanda og borða á veitingastöðum, sem er ekki ódýr matur heldur, og fá dagpeninga á móti.

Ég sé ekki annað en þetta sé bara komið og það þarf ekki einu sinni að breyta lögum, frú forseti. Ég ætla að kanna það í efnahags- og skattanefnd hvort breyta þurfi lögum til að sjómenn geti fengið dagpeninga. Þá verð ég afskaplega sáttur vegna þess að þá eru sjómenn eins settir og allir hinir skattborgararnir. Það er það sem ég vil. Ég hef ekkert á móti sjómönnum, langt í frá, ég met þá mikils. Eini ókosturinn við sjómennsku er að allt of fáar konur eru á sjó, þær ættu að vera miklu fleiri. Ég skil ekki af hverju helmingur sjómanna er ekki konur. Þær eru ekki síður fisknar, það hefur sýnt sig í sportveiðinni, sumar eru lúsfisknar. Þær ættu ekki síður að geta aflað fisks en karlmenn.

Hér hefur dálítið verið talað um öryggismál. Það er sjálfgefið að sjómennskan er hættuleg og það sýnir kannski vanstillinguna í umræðunni að blanda öryggismálum í málið. Allir, hver einasti maður, útgerðarmenn sem sjómenn, vilja bæta öryggismál sjómanna. Ég man þegar ég var um borð að þetta var ekki beint hættulaust, þarna voru vírar syngjandi þvers og kruss í rigningunni og næturmyrkrinu og maður stóð beint fyrir framan skutrennuna og gat flogið fyrir borð eins og ekkert væri. Mikið var um slys um borð í skipum, allt of mikið. Ég skil ekkert í því að menn haldi ekki upp á árið 2008. Af hverju ættum við Íslendingar að halda upp á árið 2008? Það er fyrsta árið í Íslandssögunni sem enginn maður fórst á sjó, enginn einasti sjómaður fórst. Hér áður fyrr fóru heilu þorpin, allur rjóminn af karlmönnum fórst á sjó í aftakaveðrum sem fengu nafn eftir þeim sjómönnum eða bátum sem fórust. Í fyrsta skipti í Íslandssögunni árið 2008 fórst enginn sjómaður. Þessa finnst mér að við eigum að minnast, allir Íslendingar. Þetta var mjög gleðilegt. Því miður hefur ekki orðið framhald á því og við þurfum að vinna hart að því að þannig ár komi aftur og aftur og enginn farist á sjó. Stöðugt þarf að vinna að öryggismálum. Ég veit ekki um einn einasta mann, hvorki útgerðarmann né sjómann, sem ekki vill fá alla sína menn aftur heim. Það hef ég aldrei vitað. Það er dálítið undarlegt að blanda því inn í þessa umræðu af því að þar er markmiðið svo augljóst.

Mér sýnist á öllu að þetta frumvarp geti orðið kveikjan að ágætri umræðu í efnahags- og skattanefnd. Þar mun ég gauka þessari hugmynd að útgerðarmönnum, ef við fáum þá sem gesti, að þeir semji um að menn borgi fyrir káetuna sína og matinn svo sem eins og 10, 15 eða 20 þúsund á dag og fái launahækkun sem því nemur. Launin eru hækkuð, menn látnir borga og svo kemur skatturinn og samþykkir dagpeninga skattfrítt. Ég hef ekki reiknað það út en þá eru sjómenn sennilega töluvert mikið betur settir.



[17:32]
Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var komin svo rífandi stemning í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals að maður beið bara eftir því að hann drægi upp sjóhattinn og setti á kollinn. (Gripið fram í.) Stemningin sneri að því þegar hann vann í síldarbræðslunni og sá til hafs.

Það er eitt atriði sem hv. þingmaður sagði sem ekki var skynsamlegt. Hann sagði: Útgerðin getur vel borgað sjómannaafslátt. Í fyrsta lagi eru sjómenn upp á hlut. Menn tala ekki svona ef þeir eru vanir og hafa reynslu og þekkingu. Ef útgerðin ætti eitthvað aflögu væri ugglaust tekin meiri áhætta í að gera við skip og lagfæra en það er doði í öllu. Það er doði í öllum vélsmiðjum landsins og allri landvinnu vegna sinnuleysis og stjórnleysis hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki á það bætandi þegar hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni leggja þessu lið með skattahækkunartillögum á útgerðarmenn.

Þetta verðum við að vanda og skoða ofan í kjölinn. Það er engin ein leið rétt. En við hljótum að þurfa, hv. þingmenn, að miða kjör sjómanna á Íslandi við aðstæður og kjör sjómanna í Evrópuríkjum. Það er eðlilegt og ekkert að flagga því hvort það heiti dagpeningar eða tekjuafsláttur. (Forseti hringir.) Þetta þarf að vera kerfi sem gildir og er samsvörun í.



[17:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Afskaplega leiðist mér þegar menn tala svona niður til mín. Það getur vel verið að ég sé reynslulaus og vitlaus en menn þurfa ekki að segja það. (Gripið fram í.) Mér finnst ómerkilegt að tala niður til manna. Það vill nefnilega til að ég veit dálítið um hlutaskipti á sjó sem hafa verið frá fornu fari á Íslandi. En þeim hefur verið breytt, það er nefnilega hægt að breyta því.

Einu sinni var tekið upp olíugjald þar sem útgerðin fékk fyrir olíuna sérstaklega utan hlutaskipta. Það er búið að setja ýmislegt utan hlutaskipta í kjarasamningum. Hv. þingmanni hlýtur að vera kunnugt um það eða hvað? Nú ætla ég ekki að tala niður til hans en honum hlýtur að vera kunnugt um það. Og þá geta menn að sjálfsögðu sett þessa hluti utan hlutaskipta. Þetta er spurningin um að menn beiti hugkvæmni, hugsi út úr boxinu og reyni að finna lausn sem passar inn í kerfið sem heitir dagpeningar, þá komum við því kerfi á. Ef báðir aðilar hagnast á því að ríkisskattstjóri greiði dagpeninga eða leyfi þá skattfrjálsa þá er þetta besta mál og allir jafnsettir. Þá þarf sjómaðurinn ekkert að afsaka það í fermingarveislunni við vin sinn sem er verkfræðingur og fær aldrei dagpeninga, hann er í landi en samt fjarri heimilis sínu af því að hann keyrir upp í virkjanir. Hann er líka fjarri heimili sínu og fær ekki dagpeninga, ekki sjómannaafslátt og ekki verkfræðingaafslátt.

Þá þarf sjómaðurinn ekki að afsaka að hann fái ölmusu frá ríkinu sem heiti sjómannaafsláttur og rífast um það. Hann er jafnsettur og allir aðrir. Hann fær dagpeninga eins og verkfræðingurinn þegar hann fer út á land eða fer burtu frá heimili sínu. Þá eru allir ánægðir og jafnsettir. Því vil ég stefna að.



[17:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Maður er eins og illa gerður hlutur í þessari umræðu sjálfstæðismanna. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni en hún er engu að síður skemmtileg og ljóst að ýmsir hafa talað sem hafa meiri þekkingu á málefnum sjómanna en sá er hér stendur, svo það sé tekið fram áður en menn fara í andsvör út af kunnáttuleysi.

Ég vil segja í upphafi að við eigum að skoða þetta mál, sem ég er meðflutningsmaður á, vandlega. Ég treysti því að efnahags- og skattanefnd fari vandlega yfir öll rök með og á móti því að þessi leið verði farin, að sjómenn njóti sérstakra kjara. Það geta verið málefnaleg rök, vísindaleg rök og réttlætisrök fyrir því.

Þegar ég stend á bryggjunni og fylgist með sjómönnum, karlmönnum aðallega en það hefur sem betur fer aðeins breyst, koma upp úr bátum sínum og skipum þá dáist ég að þessu fólki sem leggur líf sitt og limi í hættu til þess að draga björg í bú fyrir þjóðina, skapa gjaldeyri fyrir mig og aðra landkrabba sem varla þorum um borð í Herjólf hvað þá annað. En það kann að vera að maður herði sig upp í að fara einhvern tíma í alvörutúr.

Ég dáist alltaf að þessu fólki. Ég þekki marga sjómenn, það hafa verið sjómenn í fjölskyldunni, og ég velti því fyrir mér að það hlýtur að þurfa sérstaka karaktera til að stunda þessa vinnu fjarri heimilum, fjarri ástvinum og leggja jafnvel líf sitt í hættu. Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki rétt að þessar hetjur njóti ávaxtanna og fái vel greitt fyrir vinnuna sem þeir leggja fram fyrir þjóðina? Er það ekki eðlilegt?

Laun sjómanna sveiflast til og frá, jafnvel meira en laun annarra á Íslandi svo við tökum dæmi um það sem stendur okkur næst. Er þá nokkuð óeðlilegt þegar sveiflurnar eru jafnmiklar og þær geta verið hjá þessari stétt að hún njóti sérkjara sem tekur tillit til starfsins að draga fisk úr sjó og færa á land? Veittur hefur verið afsláttur í gegnum tíðina vegna þess að menn vildu viðurkenna þessar staðreyndir sem ég hef þulið upp, viðurkenna að þetta væri ólíkt öðrum störfum. Ég held að við alþingismenn eigum ekki að draga úr viðurkenningunni þegar fólk þarf einna mest á henni að halda. Sjómenn og þeir sem vinna í fiski hafa nóg að gera. Sjómenn draga fisk úr sjó, við seljum hann og fáum gjaldeyristekjur. Það er nú einu sinni þannig að sjávarútvegurinn skapar meiri hlutann af gjaldeyristekjum okkar. Er ekki allt í lagi að verðlauna fyrir það? Ég bara spyr.

Það er hægt að telja upp ýmis mál. Ég get þó ekki, frú forseti, annað en nefnt eitt atriði sem tengist þessu óbeint. Ég get ekki sleppt tækifærinu að furða mig á því hvernig Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess sem tilheyra sjómannastéttinni halda á málum núna þegar kjarasamningar eru lausir. Hverjir gæta hagsmuna sjómanna og fiskverkafólks? Hvernig stendur á því að miðstjórn Alþýðusambands Íslands sendir frá sér digurbarkalegar yfirlýsingar og gagnrýnir viðsemjendur fyrir að halda sjávarútveginum á lofti og lætur þannig líta út að það sé gert til þess að þjónkast kálfum innan LÍÚ? Afsakið orðbragðið, frú forseti.

Það er ekki þannig. Alþýðusamband Íslands hlýtur að þurfa að standa í lappirnar fyrir sjómenn, fyrir fiskverkafólk, fyrir rafvirkja, fyrir smiði, fyrir verslunarfólk, fyrir tölvunarfræðinga og aðila sem hafa atvinnu af sjávarútvegi. Það getur ekki verið að Alþýðusamband Íslands og miðstjórn ASÍ, sem í eiga sæti fulltrúar sjómanna meðal annarra, séu dottin í þann fúla pytt að verða hluti og handbendi ríkisstjórnarinnar sem mér sýnist ASÍ vera orðið. Ég trúi því ekki.

Ég þekki ágæta menn innan félagsskaparins sem ég talaði um og ég trúi því ekki fyrr en ég sé að þeir hafi tekið þátt í að lýsa því yfir að verið sé að fórna hagsmunum sjávarútvegs- og launafólks í ASÍ með því að vilja ekki gefa eftir þá kröfu að sátt náist um sjávarútveginn. Alþýðusamband Íslands á að standa alveg brjálað og fara út um víðan völl og segja: Það verður að ná sátt í sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Það er rétt, hv. þingmaður, það er búið að ná sátt. Gerð hefur verið tilraun til að skapa sátt. Það er búið að leggja hana til. Hvers vegna fer Alþýðusambandið, sem átti fulltrúa í sáttanefndinni, ekki fram og segir: Þetta verður að vera svona? Við verðum að leysa verkefnið um málefni sjávarútvegsins því það eru hagsmunir okkar fólks. Það eru meiri hagsmunir Alþýðusambandsins og þeirra sem þeir vinna fyrir en manna innan LÍÚ að sátt náist um sjávarútveginn. Það eru fyrst og fremst þeirra hagsmunir.

Ég trúi að fáir þingmenn ef nokkur hafi stórar áhyggjur af hinum hræðilegu LÍÚ-mönnum sem ég veita varla hverjir eru. Af hverju er umræðunni snúið svona upp? Þetta snýst um miklu stærri mál en það. Það er vegna þess að pólitísk forusta ríkisstjórnarinnar og pólitísk forusta Alþýðusambandsins, sem er reyndar náskyld pólitískri forustu ríkisstjórnarinnar, vilja hafa þetta svona. Þeir vilja hafa sjávarútveginn í óvissu og þess vegna er málið dregið fram með þessum hætti.

Frú forseti. Þetta er algjörlega ólíðandi og óþolandi. Maður veltir fyrir sér hvort þeir sem eru í forsvari fyrir Alþýðusamband Íslands þurfi ekki að hvetja almenna launagreiðendur og félagsmenn ASÍ til að standa upp og tala við þetta fólk. Ég veit um útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem veitir 250 manns atvinnu. Það þýðir að a.m.k. 250 aðrir hafa atvinnu af þessu fyrirtæki, ef við gefum okkur að eitt starf í sjávarútvegi leiði af sér annað starf. Það getur verið hærra, það getur verið aðeins minna. Hvað haldið þið að margir starfsmenn fyrirtækisins og þeir sem hafa óbeina atvinnu heyri undir starfsemi Alþýðusambands Íslands? Hvað haldið þið að þeir séu margir? Ég mundi spá því, án þess að hafa hugmynd um það, að þeir væru 80–90%. Ég leyfi mér að segja það. Það er með ólíkindum að forusta Alþýðusambandsins skuli taka þennan pól í hæðina.

Frú forseti. Það ekki síst þess vegna sem við alþingismenn viljum halda fast í sjómannaafsláttinn, það er enginn að gæta hagsmuna sjómanna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.