139. löggjafarþing — 68. fundur
 1. feb. 2011.
störf þingsins.

[14:03]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það vildi svo til í síðustu viku að einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, seðlabankastjórinn, taldi sig ekki geta skýrt viðskiptanefnd frá atriðum er varða söluna á Sjóvá, einhverjum atriðum eða viðburðum sem urðu til þess að eftir langar samningaviðræður var kauptilboð dregið til baka nokkru fyrir jól.

Í máli seðlabankastjóra kom fram að aðallögfræðingur Seðlabankans hefði ráðgast við aðallögfræðing Alþingis og komist að þeirri niðurstöðu að í þingsköpum væri einungis kveðið á um trúnaðarskyldu í utanríkismálanefnd. Tekið er skýrt fram, virðulegi forseti, að ég dreg ekki í efa að seðlabankastjóri, sem aðrir starfsmenn Seðlabankans, sé bundinn trúnaði um störf sín.

Í þessu tilfelli er til umfjöllunar sala á einu af þeim fyrirtækjum sem komst í ríkiseigu í efnahagshamförunum og liggur í augum uppi að það er erfitt fyrir okkur alþingismenn að fylgja því eftir hvort allt sé eðlilegt í þeim efnum ef embættismennirnir, sem ábyrgir eru, bera fyrir sig trúnaði. Þegar ég segi þetta á ég við að þingnefndin heiti trúnaði um það sem upplýst er enda hef ég hingað til talið það hina eðlilegu meðferð að ef þingmenn heita embættismanni eða öðrum trúnaði um það sem fram kemur á fundi þingnefnda þá gildi það.

Ég tel, virðulegi forseti, að við þurfum að fá úr því skorið hvort það sé virkilega svo að embættismenn ríkisins geti neitað að svara þingnefndum eins og raunin varð í þessu tilfelli. Ef svo er þurfum við að hugsa hvernig ráða megi bót á því.



[14:05]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég rakst á frétt í morgun þar sem sagði eitthvað á þessa leið: „Við gefumst ekki upp.“ — Ég hélt að verið væri að tala um afmælisdag ríkisstjórnarinnar, að á tveggja ára afmæli minnihlutastjórnar ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í: Góður.) væri fólkið í landinu að hugsa með sér: Ja, þrátt fyrir erfiðleikana skulum við ekki gefast upp. Við berum von í brjósti um betri tíð. En fréttin var reyndar frá Egyptalandi og auðvitað hefur maður samúð með því fólki sem þar er. En ég hef jafnframt miklar áhyggjur af íslensku þjóðinni vegna þess að eftir tvö ár undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gengur okkur allt of hægt. Okkur gengur of hægt að koma hagkerfinu í gang, okkur gengur of hægt að skapa störf, við höfum lagt of miklar byrðar á heimilin um leið og illa hefur gengið og allt of seint að greiða úr skuldavanda þeirra. Nýfjárfesting í atvinnulífinu er í algeru frosti og undirstöðuatvinnugreinar, eins og t.d. sjávarútvegurinn, búa við mikla óvissu. Ofan á allt þetta bætist að hugmyndir forsætisráðherrans og stjórnarmeirihlutans um endurskoðun á stjórnarskránni hafa nú verið í smíðum í tvö ár með engum árangri og við erum komin aftur á byrjunarreit.

Í dag verður fundur í forsætisráðuneytinu þar sem fjallað verður um það hvernig bregðast eigi við. Mér heyrist á stjórnarmeirihlutanum að áhugi sé fyrr því að endurtaka kosningar til stjórnlagaþings. Það er óþarfi að gera það. Við eigum að taka það verkefni hingað inn í þingið, setja það á dagskrá og hefja endurskoðun á stjórnarskránni. Við höfum allt sem við þurfum til að hefja það verk. (Gripið fram í.)

Samstaðan í dag á að vera með íslensku þjóðinni sem kallar eftir árangri, kallar eftir uppbyggingu, kallar eftir því að héðan frá þinginu komi aðgerðir sem létta undir með fólki og vekja með því einhverja bjartsýni um framtíðina.



[14:07]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er komin hingað í ræðustól sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins til að skýra þingheimi frá ákvörðun laga- og mannréttindanefndar þess. Nefndin ákvað á fundi sínum í Strassborg í síðustu viku að ekki væri ástæða til þess að svo stöddu að ljúka skýrslugerð vegna frystingar breskra yfirvalda á eigum Landsbanka Íslands í Bretlandi í október 2008.

Forsaga málsins er sú að Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins óskaði eftir því við framkvæmdastjórn þingsins í janúar 2009 að laga- og mannréttindanefndin skoðaði hugsanleg álitamál í tengslum við beitingu hinna svokölluðu hryðjuverkalaga, það er, með leyfi forseta: „Anti-Terrorism, Crime and Security Act 2001“ til að frysta eignir Landsbanka Íslands í Bretlandi.

Frú forseti. Málinu var vísað til nefndarinnar til skýrslugerðar og var finnski þingmaðurinn Kimmo Sasi útnefndur skýrsluhöfundur. Nú hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að gefa ekki út skýrslu um málið að svo stöddu. Fyrir þeirri ákvörðun eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi var ekki talið æskilegt að þingið tæki afstöðu sem hugsanlega yrði nýtt í dómsmálum í tengslum við fall bankans. Í öðru lagi taldi nefndin að gildissvið laganna væri nógu vítt til að beiting þeirra til að frysta eigur Landsbankans félli þar undir. Ábendingar komu fram á Evrópuráðsþinginu um að auðveldara væri fyrir þingið að láta meta efnahagslegu áhrifin af beitingu laganna fyrir Ísland en að gefa álit á því hvort réttlætanlegt hafi verið að beita þessum úrræðum og mun Íslandsdeildin skoða það mál betur.



[14:10]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er kominn til að staðfesta það sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sagði, að á fundinum í laga- og mannréttindanefnd var samþykkt að hætta þessari rannsókn, að láta hana niður falla af þeim ástæðum sem formaðurinn tilgreindi. Raunar skildi ég það svo án þess að rengja hann í neinu — fréttirnar bárust bæði á fund í nefndinni og svo á fund sem við héldum sérstaklega með honum, ég og formaðurinn, — að hann teldi einkum að framhaldsvinnsla í málinu kynni að spilla fyrir samningaviðræðum milli Breta og Íslendinga í þessu efni. (Utanrrh: Komst samt að vondri niðurstöðu.) Staðreyndin er samt sú, forseti, og það er ágætt að þingheimur velti því fyrir sér, að Evrópuráðið, sem er þekkt fyrir mannréttindabaráttu og að styðja lítilmagnann og skirrast hvergi við, eins og var reyndar gert á þessum fundi í sambandi við sögu Kosovo, að ráðið telur ekki að neinn grunnur sé til að halda þessari rannsókn áfram. Líklegt er að við höfum í þessu máli reynt að grípa það hálmstrá í vandræðum okkar að betra sé að veifa röngu tré en öngu hvað sem um ástæður Breta má segja. Ég held að við ættum nú, m.a. í tilefni af þingmáli sem verður rætt í dag, að setjast niður og skoða okkar eigin vanda, vinna í okkar eigin málum eins og sagt er á sumum stöðum í samfélaginu frekar en vera að þenja okkur með belging sem ekki gerir neinum gagn.



[14:12]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég kem upp til að tjá mig um orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur en áður en ég geri það vildi ég árétta þann skilning minn á niðurstöðunni í Evrópuráðinu að hún byggist á því að hryðjuverkalöggjöfin í Bretlandi veiti stjórnvöldum þar mjög víðtækar heimildir. Kannski er ein ályktunin eða einn lærdómur sem draga má af því fyrir lönd í Vestur-Evrópu hversu víðtækar heimildir finnist í svokallaðri hryðjuverkalöggjöf allra landa, m.a. Íslands.

Það var ekki það sem ég ætlaði að ræða um hér heldur orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um trúnað í þingnefndum. Ég hygg að nú sé tækifæri, við endurskoðun þingskapalaga og vegna nýs frumvarps sem væntanlega lítur dagsins ljós á næstu dögum eða vikum, til að taka þetta í gegn. Ég held við verðum að hafa skýrar línur í því. Ég tek vissulega undir það með þingmanninum að að sjálfsögðu er það þingnefndin sem ákveður um trúnað og trúnaðarskyldur en ekki gestir hennar. En spurningin er hins vegar líka: Er ekki rétt að gera skýran greinarmun á lokuðum og opnum fundum og hafa t.d. alla fundi sem gestir mæta á, hverjir sem þeir eru, opna og aðra lokaða? Þetta er bara ein hugmynd sem mig langaði til að varpa fram í þessari umræðu til að reyna að koma því á framfæri. Af þessu tilefni vona ég að hv. þingmenn og við öll getum staðið saman um að breyta þingskapalögunum og bæta þau, það er full þörf á þeim umbótum. Ég minni í því sambandi á samþykkt okkar 63:0 frá því í haust.



[14:14]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að ræða það sem snýr að Evrópuráðinu betur á þessum vettvangi. Ég vona að ég hafi misskilið hv. þm. Mörð Árnason í þessari stuttu ræðu sem hann hélt. Ég vona að enginn sé að tala gegn því að við gætum hagsmuna Íslendinga. Við höfum svo sannarlega lært það í þessum deilum okkar og viðskiptastríði að stóru þjóðirnar skirrast ekki við að gæta hagsmuna sinna. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að vel má vera að þeim sé heimilt að beita hryðjuverkalögum gegn saklausri þjóð. Það kennir okkur að þegar menn leggja af stað með löggjöf, og þarf ekki að vera hryðjuverkalöggjöf, þá er hægt að beita henni öðruvísi en ætlað er í upphafi. Ég held að menn ættu að hafa það í huga að í þessum sal.

Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þegar hún talaði um trúnað í nefndum og ég held að við þurfum ekki að breyta neinu. Ég held að það snúist um það hvernig við stýrum málum okkar á Alþingi Íslendinga. Ég hef aldrei heyrt þessar röksemdir áður og hef verið í mörgum þingnefndum. Ég hef aldrei heyrt þessa túlkun sem kom frá embættismanni í Seðlabankanum sem sagði okkur hreint og beint að hann gæti ekki sagt okkur neitt um það hvað væri í gangi. Við gætum sem sé ekki sinnt eftirlitshlutverki okkar vegna þess að lögfræðingur í Seðlabankanum hefði farið yfir málin og niðurstaða hans væri sú að það væri bara trúnaður í hv. utanríkismálanefnd.

Virðulegi forseti. Er það túlkun þingmanna að þeir geti ekki gætt trúnaðar í annarri nefnd en í hv. utanríkismálanefnd? Við þekkjum það í hinum ýmsu nefndum, t.d. í hv. allsherjarnefnd þegar menn ræða mjög viðkvæm málefni, að þá gæta menn að sjálfsögðu trúnaðar ef svo ber undir. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta því ef við gerum það þá erum við að segja að við getum ekki (Forseti hringir.) sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki okkar. Það er svo sannarlega þörf á því í því máli sem um ræðir (Forseti hringir.) sem er söluferli Sjóvár. Og það á við um mörg fleiri mál.



[14:17]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að fara yfir afstöðu Evrópuráðsins til spurningar okkar um beitingu hryðjuverkalaganna. Það vill svo til að á eftir stendur til að ræða þingsályktunartillögu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um það að Íslendingar höfði skaðabótamál vegna beitingar þessara laga. Hvet ég sem flesta til að taka þátt í þeirri umræðu.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir er oft ófeimin við að benda á hluti sem öðrum kann að þykja óþægilegt að viðurkenna. Hún hefur t.d. stigið fram og viðurkennt að hún hefði viljað halda öðruvísi á málum í umræðu um stjórnlagaþingið á sínum tíma. Í því fólst ekki að hv. þingmaður væri á móti stjórnlagaþingi, heldur snerist þetta um að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð. Ég held að við eigum að læra af stjórnlagaþinginu í víðari skilningi, læra að vanda sem best til verka.

Strax að lokinni þessari umræðu hefst utandagskrárumræða um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þar eru einmitt fjölmörg dæmi um hvernig lög hafa verið sett án þess að menn hafi í raun vandað til verka í samræmi við tilefnið. Hvað eftir annað hafa verið keyrðar hér í gegn skattalagabreytingar, jafnvel rétt fyrir jól og áramót, sem síðan hefur komið í ljós að standast enga skoðun, jafnvel gert ráð fyrir reiknireglum sem standast ekki stærðfræðilega.

Svo er það Icesave-málið sem kemur til umræðu á morgun. Þar eru líka fjölmörg dæmi um að menn hafi ekki tekið afstöðu til hlutanna út frá rökum og staðreyndum heldur einhverju allt öðru. Við á þinginu eigum í öllum þessum málum og öðrum að temja okkur að forðast það fúsk sem hefur verið allt of ríkjandi í lagasetningu.



[14:19]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér hefur verið talað um fúsk í lagasetningu og um eftirlitshlutverk þingsins. Ég er einmitt hingað komin til að ræða eftirlitshlutverk þingsins. Í dag lauk formlega störfum verkefnishópur vegna sameiningar St. Jósefsspítala og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það kemur fram sem ég óttaðist og hef margrætt hér, að um yfirtöku LSH á St. Jósefsspítala verður að ræða. Ég marglýsti því yfir, m.a. við fjárlagagerðina, að ekki væri hægt að standa gegn þessari sameiningu ef starfsöryggi fólks yrði tryggt, sömuleiðis sú gríðarlega mikla þekking sem St. Jósefsspítali hefur unnið sér inn síðustu árin og þjónustustigið líka.

Nú hefur komið í ljós að allt þetta er í töluverðu uppnámi, að mínu mati. Það er verið að færa starfsemi skurð- og svæfingadeildarinnar nú þegar til LSH, til Reykjavíkur. Meltingarsjúkdómarnir færast síðar á árinu, væntanlega verður eftir almenn legudeild, ekki með neina stoðþjónustu, þ.e. rannsóknir og röntgen. Allt sem við vöruðum við er að rætast núna.

Við skulum rifja upp að fyrir tveimur árum urðu mjög mikil mótmæli í Hafnarfirði vegna áætlunar þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þá var sest niður og málið sett í ákveðinn farveg. Íbúarnir vissu hvað menn voru að fara varðandi þjónustuna á heilbrigðissviði. Ég veit til þess að áhugahópur um St. Jósefsspítala hefur núna lengi reynt að ná samtali við heilbrigðisráðherra en ekki fengið fund. Það sem er að gerast núna er það sem við Hafnfirðingar óttuðumst, í rauninni er um fjandsamlega yfirtöku að ræða. Það er ekki búið að tryggja þjónustuna og t.d. þekkinguna í grindarbotnsteyminu. Það skiptir miklu máli að skurðdeildin og meltingardeildin vinni saman. Það mál er allt upp í loft þannig að ég óttast það sem við vöruðum við, að við náum ekki fram hagræðingu, (Forseti hringir.) að við varðveitum ekki þekkinguna (Forseti hringir.) og heldur ekki þjónustuna með þessu brölti.



[14:21]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast aðeins við orðum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um sameiningu St. Jósefsspítala og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við vitum að sameiningar eru alltaf erfiðar. Um það þýðir ekkert að deila þó að við vitum að við þurfum oft að sameina. Hér er fyrst og fremst verið að tala um sameiningu yfirstjórna með tilheyrandi hagræðingu sem felst í færri stjórnendum. Ég bý að þeirri reynslu að hafa búið á Austurlandi þegar öll heilbrigðisþjónusta frá Vopnafirði til Álftafjarðar var sameinuð undir eina stjórn. Þá voru að sjálfsögðu mikil mótmæli. Smám saman náðist sátt um að viðeigandi stofnanir hefðu sína sérhæfingu og ég veit ekki annað en að fólk sé almennt þokkalega sátt þar, a.m.k. miðað við að hægt var að bjarga því slysi sem vofði yfir í sambandi við niðurskurðaráform. Þar er t.d. einungis hægt að fæða börn á einum stað, í Neskaupstað, og ég vona sannarlega að menn taki höndum saman og varðveiti þá þekkingu sem til er í St. Jósefsspítala. Við verðum að líta svo á að höfuðborgarsvæðið sé eitt samgöngusvæði og þó að einhver þjónusta færist yfir til Reykjavíkur frá Hafnarfirði get ég ekki séð að það sé stórkostlegt slys, svo framarlega sem hún varðveitist þar.

Mér þykir sannarlega vænt um St. Jósefsspítala enda fædd og uppalin í Hafnarfirði og ég vona svo sannarlega að þar verði áfram góð þjónusta við Hafnfirðinga. Svona samvinna verður að fá að þróast og smám saman finna menn vonandi út hvernig best er að haga þessari verkaskiptingu. Leyfum þessu samstarfi að þróast og vonum að Hafnfirðingar fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið og St. Jósefsspítali (Forseti hringir.) fái að halda reisn sinni.



[14:23]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir hér vita er verkefni Alþingis og þingnefnda að veita framkvæmdarvaldinu og undirstofnunum þess aðhald. Það er óskaplega erfitt fyrir okkur þingmenn að veita slíkt aðhald þegar við fáum engar upplýsingar. Embættismenn ríkisins mæta fyrir þingnefndir og bera fyrir sig þagnarskyldu þegar þeir eru spurðir út í mikilvæg atriði, eins og t.d. einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Nú er verið að einkavæða tryggingafélagið Sjóvá. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi hélt viðskiptanefnd fund um það mál á föstudaginn. Þangað mætti seðlabankastjórinn Már Guðmundsson og kaus að veita nefndinni svo gott sem engar upplýsingar um það söluferli. Hann veitti ekki upplýsingar um það hvers vegna kaupin á félaginu hefðu farið út um þúfur fyrir skemmstu, hvers vegna þeir aðilar sem buðu 80% hærra verð í félagið en aðrir buðu hefðu hætt við kaupin. Hann bar fyrir sig þagnarskyldu og þagnarskylduákvæðum seðlabankalaganna þrátt fyrir að vitað sé að eignaumsýslufélag Seðlabankans, sem er einkahlutafélag sem ekkert er minnst á í seðlabankalögunum, fari með þessa sölu.

Ég tel að málið hafi fyrst orðið grafalvarlegt þegar seðlabankastjóri og lögfræðingur Seðlabankans vísuðu þingnefndinni til dómstóla til þess að fá þær upplýsingar sem hún þarf að fá til að geta sinnt skyldum sínum í svona mikilvægu máli sem varðar mjög mikla hagsmuni.

Nú liggur fyrir að aðrir aðilar en þeir upphaflegu hafa áhuga á að kaupa félagið í gegnum þessa einkavæðingu, (Forseti hringir.) fagfjárfestasjóður sem er að vísu kominn með kennitölu. Hann er reyndar ófjármagnaður og enn sem komið er fáum við sem sitjum í nefndinni engar upplýsingar um það hverjir það eru sem vilja (Forseti hringir.) standa að kaupunum eða hvað þeir ætla að greiða fyrir félagið. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það verður að gera einhverja bragarbót á þessum vinnubrögðum.



[14:26]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.



[14:26]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla að halda mig á svipuðum slóðum og síðasti ræðumaður. Ég sat þennan nefndarfund sem þingmaðurinn Valgerður Bjarnadóttir sagði frá og aðrir hafa lýst líka. Ég get sagt að það var afar einkennilegt að upplifa að okkur þingmönnum var meinað að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki okkar. Þetta svokallaða gegnsæja og opna ferli líkist frekar dimmum göngum í kolniðamyrkri þar sem e.t.v. er eitthvert ljós við endann. Ég get tekið undir allt sem hér hefur komið fram.

Mig langaði hins vegar aðeins að ræða á almennum nótum um trúnað í nefndum. Mér finnst að nefndir og nefndastörf eigi að vera eins opin og gegnsæ og frekast er kostur og ég held að við ættum að nota okkur beinar útsendingar í meira mæli. Ég er t.d. alveg viss um að almenningi hefði þótt gaman að fá að hlusta á þennan fund. Það væri þá ágætt að reyna að opna störf nefndarinnar frekar og beinar hljóðútsendingar á netinu held ég að væru vel til þess fallnar eins og tíðkast víða í sveitarfélögunum.

Ástæða þess að ég er að tala um þetta nú er að það stendur til að breyta þingskapalögunum og í þeim drögum sem lögð hafa verið fram er kveðið á um að í lok hvers fundar verði tekin ákvörðun um hvort trúnaður eigi að ríkja um fundinn. Ég er alfarið á móti því. Mér finnst að meginreglan eigi að vera að allir fundir séu opnir. Ef beðið er um trúnað verður að meta það í hvert sinn og þingmenn verða að vita fyrir fram hvort trúnaður eigi að ríkja um þær upplýsingar sem þeir eiga von á. Þá verður bara hver og einn að svara já eða nei hvort hann vill veita slíkan trúnað. (BirgJ: Heyr, heyr.)



[14:28]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér hefur komið fram, eins og oft áður, að sjálfstæðismenn tala stjórnlagaþingið massíft niður. Þeir segjast vilja breyta stjórnarskránni og setja m.a. í hana að auðlindirnar eigi að vera í eigu þjóðarinnar.

Þá er eðlilegt að rifja upp forsöguna í þessu máli. Þegar Framsóknarflokkurinn fór á sínum tíma í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum var þetta eitt af atriðunum í stjórnarsáttmála. Sjálfstæðismenn sögðust ætla í samvinnu við okkur framsóknarmenn um að setja auðlindirnar í eigu þjóðarinnar í stjórnarskrá. Varð það niðurstaðan? Nei, það varð ekki niðurstaðan, (Gripið fram í.) því miður, og mitt mat er að við höfum verið dregin í þessu starfi — ég vil ekki segja á hvaða eyrum en við vorum dregin allt of lengi (Gripið fram í.) í þessu samstarfi. Niðurstaðan varð ekki góð að mínu mati, okkur tókst ekki í tíma að gera þær breytingar sem þurfti að gera og ég vil skrifa það mest á reikning sjálfstæðismanna.

Núna segjast sjálfstæðismenn aftur vilja breyta stjórnarskránni og setja auðlindirnar í eigu þjóðarinnar. Sporin hræða í þessu, virðulegur forseti. Þess vegna vildu framsóknarmenn stjórnlagaþing. Þeir vildu taka þetta vald af þinginu og setja það í hendurnar á stjórnlagaþingi og þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu, bindandi stjórnlagaþing. Það vildu sjálfstæðismenn ekki. Að lokum varð samkomulag um ráðgefandi stjórnlagaþing af því að sjálfstæðismenn beittu hér málþófi í aðdraganda kosninga. Við hin gátum ekki annað en gefist upp, því miður, (Gripið fram í.) þannig að samkomulag varð um ráðgefandi þing.

Nú er búið að dæma það ógilt þannig að það er gríðarlega mikilvægt að Alþingi Íslendinga taki af skarið og velji leið, hver sem verður valin, annaðhvort að skipa þessa 25 manna nefnd til að hjálpa okkur eða kjósa upp á nýtt. Til þessa þurfum við að taka afstöðu. Við verðum að velja leið út úr ógöngunum þannig að hingað inn komi góð tillaga frá (Forseti hringir.) einhvers konar þjóðkjörinni samkomu sem við getum tekið til okkar. Við eigum ekki að taka þetta mál inn í þingið aftur (Forseti hringir.) á hefðbundinn hátt. Það skilar ekki árangri, það sýnir sagan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:30]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef ég skil hv. þm. Siv Friðleifsdóttur rétt er vera okkar, 16 þingmanna Sjálfstæðisflokksins, á þingi nægileg til að breytingar á stjórnarskránni eigi ekki að koma hingað inn. (Gripið fram í.) Er það þannig sem við eigum að skilja — [Kliður í þingsal.] Er það þannig sem við eigum að skilja málið, hæstv. utanríkisráðherra? [Kliður í þingsal.] Ef hæstv. utanríkisráðherra vildi gæti hann komið í ræðustól Alþingis og greint frá öðrum þeim ágreiningsefnum sem komu í veg fyrir að stjórnarskrárnefnd 2007 kæmist að niðurstöðu og gæti skilað tillögum. (Gripið fram í: Hún komst að niðurstöðu.) Hún komst að niðurstöðu um ýmsa hluti, (Gripið fram í: Um auðlindamál? …) m.a. um auðlindir (Gripið fram í.) og hæstv. utanríkisráðherra gæti rakið þá sögu alla ef hann vildi. Ég óttast þá umræðu (Forseti hringir.) ekki.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að þagga niður í hæstv. utanríkisráðherra [Hlátur í þingsal.] sem hefur greinilega mikla þörf fyrir að koma hingað upp.

Hins vegar er rétt að árétta að við erum á þjóðkjörinni samkomu. Við höfum stjórnarskrárbundna skyldu til að fjalla um stjórnarskrármálið. Þar sem það bar á góma hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að við sjálfstæðismenn værum að tala stjórnlagaþingið niður (Gripið fram í: Sem er rétt.) höfum við lítið gert annað en að benda á staðreyndir, t.d. á þá staðreynd hve mikill áhugi, eða lítill, hefði verið hjá almenningi í landinu á því að kjósa í þessari kosningu. (Gripið fram í: 80 þús.) (Gripið fram í: Hún var líka uppi í Hæstarétti.) Einn þriðji hluti kjósenda mætti á kjörstað, fordæmalaus kjörsókn. Þjóðin hafði bara ekki þann áhuga sem sumir í þessum sal og einhverjir í fjölmiðlunum hafa. Það kom skýrt í ljós. [Kliður í þingsal.]

Við höfum líka vakið athygli á kostnaði, við höfum vakið athygli á því dæmalausa klúðri í sambandi við frágang málsins sem varð til þess að Hæstiréttur (Forseti hringir.) taldi sig knúinn til að ógilda kosningu sem er líka einsdæmi (Forseti hringir.) þannig að þeir sem bera ábyrgð á þessu klúðri sem tengist stjórnlagaþinginu öllu ættu að fara gætilega í þessari umræðu [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) og það stendur upp á þá, þessa áhugamenn um stjórnlagaþingið, að koma með einhverja lausn (Forseti hringir.) úr því öngstræti sem allt þetta mál (Forseti hringir.) er komið í vegna þeirra eigin vinnubragða.



[14:33]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Ræðutími hv. þingmanns er löngu liðinn og sömuleiðis tími fyrir umræður um störf þingsins.