139. löggjafarþing — 68. fundur
 1. feb. 2011.
Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála, 1. umræða.
stjfrv., 385. mál (heildarlög). — Þskj. 542.

[15:50]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót samgöngustofnun undir heitinu Farsýslan sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála. Stofnun hennar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslustofnun og hins vegar framkvæmdastofnun undir heitinu Vegagerðin, sem sinnir framkvæmdum á sviði samgöngumála.

Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Vegagerðina.

Endurskipulagning samgöngustofnana á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá því í júní 2008, „Samgönguframkvæmdir. Stjórnsýsluúttekt“, voru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála þar sem lagt var til að settar yrðu á fót tvær stofnanir, þ.e. stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar- og viðhalds.

Í janúar 2009 var skipuð nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Nefndin skilaði skýrslu sinni „Framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Greining og valkostir“ í lok júní 2009. Þar voru kynntir fimm valkostir um stofnanaskipan, auk tillagna og ábendinga um meiri samhæfingu í samgöngumálum, t.d. um að bæta verklag við undirbúning samgönguáætlunar og efla stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins.

Að vel athuguðu máli og með hliðsjón af tillögum Ríkisendurskoðunar var ákveðið að hefja undirbúning að myndun tveggja stofnana í samræmi við einn valkosta nefndarinnar.

Skipaður var stýrihópur til að vinna nákvæma greiningu á kostum endurskipulagningarinnar og leggja fram tillögur um breytta stofnanaskipan samgöngumála.

Í starfi stýrihópsins var lögð áhersla á samstarf og samráð við stofnanir og að halda vel á starfsmannaþætti breytinganna.

Á vegum stýrihópsins hafa starfað sjö vinnuhópar skipaðir starfsmönnum stofnananna og ráðuneytisins sem unnu að greiningu og útfærslu einstakra þátta. Stýrihópurinn mun áfram vinna að undirbúningi sameiningar. Stefnt er að því að sameina sem fyrst höfuðstöðvar hvorrar stofnunar fyrir sig í húsnæði, enda er slíkt forsenda þess að áform um hagræðingu nái fram að ganga.

Með sameiginlegri samgönguáætlun allra samgöngugreina var mótuð ný framtíðarsýn þar sem litið er á samgöngugreinarnar sem eina heild með sameiginleg markmið. Þar er mörkuð stefna um sameiginlega áætlanagerð og stefnumótun fyrir allar greinar samgangna, samræmda forgangsröðun, hagkvæmari notkun fjármagns og mannafla. Þar er jafnframt horft til þriggja meginviðfangsefna. Í fyrsta lagi samgöngukerfisins, í öðru lagi stjórnsýslu og eftirlits og í þriðja lagi starfsemi sem nýtir samgöngukerfið. Samgönguáætlun hefur náð fram að ganga en samgöngustofnanirnar og skipulag þeirra endurspegla enn fyrra umhverfi. Mikilvægt er að samgöngustofnanir þjóni nýjum markmiðum og nýrri hugsun.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að gera þurfi umtalsverðar umbætur og breytingar á stjórnkerfinu til að nýta takmarkaða fjármuni eins vel og unnt er en jafnframt með það að markmiði að stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera við almenning og atvinnulíf verði eins góð og kostur er. Verulegum hluta af lækkun ríkisútgjalda á næsta ári verður að ná með aukinni hagræðingu í rekstri ríkisins, svo sem með endurskipulagningu stofnanakerfisins og opinberrar þjónustu.

Endurskipulagning samgöngustofnana getur bæði falið í sér faglegan ávinning og rekstrarhagræðingu. Faglegur ávinningur liggur einkum í bættum möguleikum stofnana til að sinna hlutverki sínu í samfélaginu og bregðast við breyttum kröfum til starfsemi þeirra. Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri mætir innlendum og erlendum kröfum um faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og rekstrar mannvirkja og annarra þátta samgöngumála. Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar endurspeglar heildstæða samgönguáætlun og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum. Sérhæfing stofnana gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur t.d. á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.

Við mat á hagræðingu verður að taka tillit til þess að oft felur sameining eða endurskipulagning stofnana í sér kostnað, til dæmis vegna sameiningar húsnæðis, flutninga, samræmingar tækjakosts, þjálfunar starfsfólks, starfsloka og ráðgjafar. Líta má á þennan kostnað sem fjárfestingarkostnað til að ná fram hagræðingu. Hafa verður í huga að þegar lagt er í kostnað vegna sameiningar er það ávallt gert með hliðsjón af væntanlegum ávinningi. Við erfiða fjárhagsstöðu verður oft að dreifa þessum kostnaði á lengri tíma en ella. Til lengri tíma getur ónóg fjárfesting í upphafi dregið úr hagkvæmni endurskipulagningar. Einnig tekur nokkurn tíma að fá nýjar stofnanir til að virka sem eina heild. Því má vænta þess að bein hagræðing skili sér ekki að fullu fyrr en á öðru og þriðja ári frá sameiningu.

Þegar meta á hagræði samfélagsins af einfaldara stofnanakerfi er ekki nægilegt að líta eingöngu til beinnar hagræðingar vegna rekstrarlegrar samlegðar, þ.e. vegna fækkunar stjórnenda, endurskipulagningar ýmiss konar stoðþjónustu, samþættingar verkferla, hagkvæmari innkaupa, minni húsnæðiskostnaðar o.s.frv. Þegar vel tekst til getur þekking sem í dag skiptist milli margra stofnana skapað margvísleg tækifæri þegar hún er sameinuð hjá einni stofnun. Fækkun stofnana getur ein og sér skilað hagræði vegna einföldunar á stjórnsýslu, bættrar samhæfingar og markvissari þjónustu við notendur. Loks er ótalið að öflugri stofnanir geta haft jákvæð áhrif á efnahagslífið. Nægir að nefna í þessu sambandi að jafnvel mjög litlar breytingar á virkni samgöngukerfisins geta skilað umtalsverðum þjóðhagslegum ávinningi.

Á þessa þætti leyfi ég mér að einblína þegar um sameiningu eða endurskipulagningu á stjórnsýslunni er að ræða og eitt má aldrei vanmeta sem er mikilvægi þess að hugsa hlutina upp á nýtt. Oft held ég að menn ofmeti fjárhagslegan ávinning af sameiningu stofnana. Ég held að horfa eigi ekki síður til hins að starfsemin getur orðið markvissari eftir að starfsemin er stokkuð upp og menn leggja sig í líma við að hugsa hlutina upp á nýtt.

Hæstv. forseti. Ég mun nú stuttlega gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins.

Í fyrsta lagi eru í 3. gr. felld niður ákvæði gildandi laga um hafnaráð, siglingaráð og flugráð. Í stað hinna lögbundnu ráða er lagt til að ráðherra skipi fagráð eins og þörf krefur hverju sinni auk hins almenna samráðs stofnunarinnar við aðrar stofnanir, hagsmunaaðila og almenning um þau verkefni sem stofnuninni eru falin.

Í öðru lagi er í 4. gr. það nýmæli að fela stofnuninni að setja reglur um gerð og búnað ökutækja, skipa og loftfara og um hæfi stjórnenda þeirra og annast eftirlit með framkvæmd þeirra ásamt því að setja öryggiskröfur til samgöngumannvirkja og kveða á um skipulag umferðar og leiðsögukerfa í lofti, á láði og legi.

Í þriðja lagi er í 5. gr. Farsýslunni falið eftirlit með framfylgd krafna um annars vegar öryggi samgöngumannvirkja og hins vegar öryggisstjórnun við rekstur þeirra. Þá er lagt til að stofnunin annist úttekt á öryggisatriðum samgöngumannvirkja sem framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála hefur byggt.

Í fjórða lagi er það að nefna að þau verkefni sem stofnuninni er falið að sinna og upp eru talin í 7.–11. gr. eru sömu verkefni og þær stofnanir sem felldar verða undir Farsýsluna sinna í dag.

Í fimmta lagi er í III. kafla laganna fjallað um gjaldtökuheimildir stofnunarinnar og möguleika hennar til að afla sér tekna. Ekki eru gerðar stórvægilegar breytingar á gjaldtökuheimildum stofnunarinnar frá því sem í dag gildir um þær stofnanir sem felldar eru undir Farsýsluna. Hvað það snertir vil ég leiðrétta misskilning sem fram hefur komið í fjölmiðlum í dag, a.m.k. einum vefmiðli, þar sem rætt er um að verið sé að lauma gjaldskrárhækkunum inn í nýtt frumvarp. Þetta er mikill misskilningur. Hér er um að ræða tvenns konar gjöld. Annars vegar umferðaröryggisgjald sem sett var á árið 2006 og var þá 400 kr. en hefur hækkað samkvæmt verðlagsbreytingum upp í 490 kr. á þessu ári. Hins vegar er um að ræða gjald fyrir útgáfu lofthæfisskírteina sem hefur ekki færst í krónum talið í samræmi við verðlagsþróun enda bundið inn í lögin. Hins vegar er eftirlitsgjald með þessum lofthæfisskírteinum. Það hefur tekið verðlagsbreytingum og það eina sem um er að ræða, eina breytingin sem um er að ræða með þessu frumvarpi er að færa gjaldið fyrir útgáfu lofthæfisskírteina í samræmi við verðlagsþróun sem orðið hefur. Það er því ekki er um að ræða að verið sé að innleiða nein gjöld með þessu frumvarpi, það er mikill misskilningur.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri og legg til að frumvarpið verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar Alþingis.



[16:00]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna þar sem hann fór efnislega yfir frumvarpið og hljóp á stærstu þáttunum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði. Það kemur fram í frumvarpinu þar sem gerður er samanburður á hlutfalli stjórnenda og starfsmanna, þ.e. þar sem eru 150 starfsmenn eða fleiri, að hægt sé að lækka yfirstjórnarkostnað með þessari sameiningu um allt að 50% og því vil ég spyrja: Hvers vegna var ekki gert meira af því að lækka yfirstjórnarkostnað hjá þessum stofnunum á árinu 2011? Það kom fram í fjárlaganefnd, og ég gagnrýndi það mjög harðlega, að bæði þær stofnanir sem hér um ræðir eða réttara sagt tvær þeirra, annars vegar Vegagerðin og hins vegar Siglingastofnun, hafi á síðustu tveimur árum skorið niður allar framkvæmdir en ekki hafi verið skorið jafnmikið niður í yfirstjórn stofnananna. Þessi texti í frumvarpinu staðfestir því þær ábendingar sem ég hef komið með á fyrri stigum málsins.

Síðan kemur reyndar líka fram um heildarhagræðinguna, að árangurs af henni sé ekki að vænta fyrr en á öðru eða þriðja ári frá sameiningunni. Þá hlýtur að standa eftir sú spurning: Hvers vegna er það ef hægt er með frumvarpinu að spara um 50% í yfirstjórn þessara stofnana? Hvers vegna var það ekki frekar gert við fjárlög ársins 2011 þar sem búið var að skera niður stóran hluta verkefna hjá þessum stofnunum?

Niðurstaðan er sú að yfirstjórnin t.d. hjá Vegagerðinni, ég hef gögn um það, hef aflað mér þeirra, hefur ekkert minnkað, akkúrat ekki neitt. Þar eru menn með alls konar bitlinga enn þá en það er skorið niður í framkvæmdunum. Ég vil fá viðbrögð (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra við þessu sem kemur fram í frumvarpinu.



[16:02]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda á að á vissum stigum stjórnsýslunnar í efstu lögum hennar segir sig sjálft að hægt er að ná þeirri hagræðingu sem hv. þingmaður vísar til, höfðunum fækkar, ef svo má að orði komast, í yfirstjórninni, fjármálastjórum, forstjórum og öðrum þeim sem hafa með yfirstjórnina að gera. Hins vegar erum við að tala um mun lægra hlutfall þegar litið er til stjórnsýslunnar almennt, þar erum við að tala um 10–15%, allt annað hlutfall.

Hvers vegna var þetta ekki gert áður? Það er nú svo að þessar stofnanir þurfa að sjálfsögðu á sínum stjórnunarstrúktúr að halda, þær þurfa á sinni stjórnsýslu að halda, forstöðumönnum, fjármálastjórum, rekstrarstjórum og þar fram eftir götunum. Það er ekki fyrr en með sameiningunni að þessar breytingar geta átt sér stað. Það er þetta sem við horfum til, ekki aðeins á þessu sviði heldur öðrum sviðum einnig, að reyna að komast hjá því að draga úr framlögum til starfseminnar sjálfrar ef við getum fundið leiðir til að hagræða í stjórnunarkostnaði. Út á það gengur þetta m.a. þótt meginmarkmiðið sé að ná fram faglega öflugri starfsemi.



[16:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann fullyrðir að fyrr sé ekki náð þessari hagræðingu en eftir sameiningu stofnananna. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að hagræðingin væri oft ofmetin, þ.e. ábatinn af hagræðingunni, og menn þyrftu að skoða það.

Ég hef því miður séð á stuttum þingferli mínum afskaplega mörg mál unnin þannig að menn gefa sér einhverjar forsendur sem ekkert innihald er fyrir. Oft og tíðum þegar maður les umsagnirnar og markmiðin með frumvörpunum er einhvern veginn fyrir séð að ekki er nógu sterkur grunnur á bak við þau og ég skildi orð hæstv. ráðherra áðan þannig.

Til að rifja það upp af því að við erum að ræða þessar tvær stofnanir af þeim sem hér eru undir, annars vegar Vegagerðina og hins vegar Siglingastofnun, var niðurskurðurinn t.d. í hafnarframkvæmdum, ef ég man rétt, um 67% á milli ára. Ég spurði efnislega þessarar spurningar í fjárlaganefnd: Getur verið — ég geri mér fulla grein fyrir því að sum verkefni sem fylgja þessum framkvæmdum eru unnin fyrir utan stofnunina — að það sé verið að hlífa yfirstjórninni? Það er því miður gert í allt of ríkum mæli að mínu mati. Það er nefnilega ekki eins og hæstv. ráðherra rakti hér varðandi forstjórana og þá sem stýra, yfirtoppana eins og hann kallaði þá, þeir eru nefnilega ekkert skornir niður.

Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann eðlilegt að frá því 2008 hafi verið fækkað um tvö stöðugildi í yfirstjórn Vegagerðarinnar? Ég hef spurt að því líka á fundum nefndarinnar: Er eðlilegt t.d. að reka vegaeftirlitsmanninn, sem búið er að segja upp og er annað þessara stöðugilda, en hafa upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni til að segja landsmönnum að það eigi ekki að framkvæma neitt í vegagerð? (Forseti hringir.) Þannig eru vinnubrögðin og hafa verið hingað til.



[16:06]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að oft hafa menn ofmetið meintan fjárhagslegan ávinning af sameiningu stofnana. Reyndar tók ég það fram í framsögu minni að hér yrði að horfa til langs tíma. Tekið var fram að fjárfestingarkostnaður vegna húsnæðis og annarra þátta yrði mikill á fyrstu missirum og árum, jafnvel fyrstu þremur, fimm árunum, en síðan kæmi til samlegðarávinnings. En ég tek undir með hv. þingmanni að iðulega er þetta ofmetið.

Ég ætla ekki að fara í nákvæma umræðu um stjórnsýsluna í þeim stofnunum sem vikið er að, Vegagerðina t.d. Mín tilfinning er sú, kynni mín af þeirri stofnun og þeim stofnunum sem hér um ræðir eru mjög góð. Ég held að það sé alveg sambærilegt við varnaðarorð hv. þingmanns, um að við eigum að forðast alhæfingar, að það sama eigi við um stjórnsýsluna í þessum opinberu stofnunum. Ég held að þegar við tölum um fækkun stöðugilda — hann nefndi tvö, aðeins tvö — þurfum við að spyrja áður en við hröpum að einhverjum yfirlýsingum af þessu tagi: Hvaða verkum sinnir þetta fólk, er þeim verkum ekki vel sinnt og eru þau verk ekki nauðsynleg?

Mín tilfinning er sú að Vegagerðin, af því að sérstaklega var vísað til hennar, sé mjög vel rekin stofnun.



[16:08]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra um að hann teldi Vegagerðina vel rekna, ég deili ekki um það við hæstv. ráðherra. Ég er ekki að setja út á það hvernig Vegagerðin er rekin, ég hef engar athugasemdir við það, og ekki heldur Siglingastofnun og þær stofnanir sem hér er um að ræða. Ég er hins vegar að benda á að þegar menn taka ákvarðanir eins og hér er gert er reyndin sú, því miður, að það er skorið miklu minna niður í efstu lögunum. Það er staðreynd málsins, því miður. Þetta þurfum við að bæta. Það hefur ekkert með einstaklinga að gera eða þá sem reka þessar stofnanir. Þetta er fínt fólk, ég hef góða reynslu af því, ég er ekki að setja út á það, ekki má skilja orð mín þannig svo það fari ekki á milli mála.

Við verðum hins vegar að setja hlutina í stóra samhengið af því að við eigum líka eftir hugsanlega að draga frekar úr ríkisútgjöldum, ég held að það liggi fyrir þó að varla sé hægt að skattpína þjóðina meira, og meira að segja þegar vinstri menn eru farnir að tala um að komið sé að þolmörkum er það nú vísbending um að komið sé yfir þolmörkin. Það þarf að hagræða og ef við náum ekki hagvextinum í gang, sem því miður bendir ekki til að verði með þeim hætti sem þarf, þá eigum við eftir að skera niður. Hæstv. ráðherra sagði líka að starfsmennirnir væru að vinna góð störf og mikilvæg, ég geri ekki lítið úr því, en ég er hins vegar að draga það inn í samhengið, stóra samhengið sem er það að við erum líka að reka fólk út af spítölunum og segja því upp. Við þurfum bara, eins og hæstv. ráðherra hefur oft haldið fram og ég er alveg sammála honum, að ræða hlutina efnislega.

Ég er hins vegar ekkert að mynda mér neina skoðun, ég sit í hv. samgöngunefnd og ég fjalla bara um málið þar, ég ætla ekki að segja að þetta sé ekki hið besta mál eða neitt þar fram eftir götunum, en mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að menn átti sig á tilgangi þess sem á að fara í. Þegar ég fer yfir þetta efnislega — ég náði ekki að spyrja að því í andsvari við hæstv. ráðherra áðan hvernig þetta hefði verið unnið, ég þekki ekki feril málsins og hvernig þetta hefur verið unnið í samvinnu við stofnanirnar og þá sem vinna þar, það getur vel verið að það hafi allt verið unnið eðlilega og gert með þeim hætti sem á að gera — þá koma vangaveltur upp í hugann þegar maður les þetta svona hrátt í fyrsta sinn án þess að hafa fengið kynningu á efninu í hv. samgöngunefnd.

Ég ætla ekki að gera neitt stórmál úr því en ég man að þegar við ræddum hér annað mál fyrir áramót var einmitt talað um að æskilegt væri að ráðuneytið, innanríkisráðuneytið, kynnti mál fyrir hv. samgöngunefnd áður en þau væru lögð fram, af því að eðlilega vakna oft margar spurningar. Það er kannski ekki stóra málið en af því að þetta er á dagskrá fundarins á morgun hefði verið æskilegra að slík kynning af hálfu ráðuneytisins hefði farið fram sem hefði ugglaust getað sparað mikinn tíma og svarað fleiri spurningum en við gerum í þessari umræðu.

Það kemur fram í frumvarpinu að reiknað er með 170 millj. kr. hagræðingu sem verði til við sameiningu þessara tveggja stofnana. Það er samt ekki búið að skipta því á milli stofnana þannig að það er dálítið á reiki. Ég held að við hæstv. ráðherra séum sammála um að menn þurfi og eigi að læra af reynslunni og skoða málin betur áður en lagt er af stað og reynslan segir okkur það líka. Gerð hefur verið skýrsla og úttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar þar sem fram kemur að mjög sjaldan, ég held að það sé í 15% tilfella, ég held að ég muni töluna rétt, þar sem markmið sameiningar nást, þau markmið sem sett eru fram þegar farið er í sameiningu á stofnunum.

Síðast en ekki síst, af því að hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að á netmiðli hefði verið talað um að hann væri að lauma inn nýjum gjaldtökum, þá er það alveg á tæru og það er nú eitt til viðbótar í skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar — það er alveg sama hvað það er, það verður að hækka allt — að það er alveg klárlega gert ráð fyrir heimildum hér til að hækka gjöld. Svo geta menn fært rök fyrir því að þau hafi ekki verið hækkuð síðan 2006 eða 2007 og þetta sé verðlagsbreyting. En eigi að síður er það hinn blákaldi veruleiki að í þessu frumvarpi er heimild til að hækka þau gjöld sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Það liggur alveg fyrir hvort heldur það er eftirlit með skoðun á ökutækjum, starfsleyfi skoðunarstöðva eða umferðaröryggisgjaldið sem hér er lagt til líka eða útgáfa lofthæfisskírteina. Og við vitum vel hvert þessi gjöld fara, þau fara að sjálfsögðu út í verðlagið hjá viðkomandi stofnunum. Það liggur alveg ljóst fyrir, það þarf ekki að deila mikið um það. Það liggur fyrir að það á að fara að hækka gjöldin og auka tekjur ríkissjóðs sem því nemur, enda er heildarniðurstaðan sú að það á að hækka gjöld um 37 millj. og spara um 170 sem eru þá 207 millj.

Ég er síðan líka með ákveðnar spurningar þar sem hér kemur fram ákveðin þversögn eða alla vega eitthvað sem menn þurfa að hugsa. Það kemur fram í frumvarpinu að það sé ákveðinn stofnkostnaður við að sameina stofnanir, og það skiljum við öll, sem felist í því að gera þurfi ákveðna hluti og það er rakið í frumvarpinu, ég sé enga ástæðu til að fara yfir það sérstaklega, en síðan segir líka að hagræðingin muni skila sér — þetta sé svona stofnkostnaður fyrir framtíðina — eftir tvö til þrjú ár. Samt koma fullyrðingar um 170 millj. kr. hagræðingu, sem er ekki nógu vel útfært að mínu mati, og til viðbótar er sagt að áætlunin sé sú að í þessari nýju stofnun þar sem 468 manns eiga að vinna muni árlega láta af störfum 14 manns vegna aldurs og sagt er að það þurfi hugsanlega ekki að ráða í öll störf sem losna.

Ég er dálítið hugsi yfir því miðað við það sem stendur á undan í frumvarpinu, að menn geri sér grein fyrir því þegar farið er af stað með nýtt verkefni að það taki ákveðinn tíma að ná fram hagræðingu, en samt kemur þessi fullyrðing hér og ekki nógu vel rökstudd. Ég ætlast hins vegar ekki til þess að hæstv. ráðherra svari því hér efnislega. Ég veit að við munum að sjálfsögðu fara vel yfir þetta mál í samgöngunefnd til þess einmitt að sú áætlun sem lagt er upp með, að ná fram þessari hagræðingu, gangi eftir. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni ráðuneytisins og hv. samgöngunefndar að tryggja að svo verði og að sníða ágalla af þessu frumvarpi ef þeir eru fyrir hendi.



[16:15]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur atriði vegna þessarar ræðu. Það er alveg rétt að þær tölur sem nefndar eru um hagræðingu og sparnað eru blanda af líkindareikningi og ásetningi vegna þess að við erum að tala um fyrirsjáanlegan niðurskurð hjá hinu opinbera hjá þessari stofnun sem og öðrum. Þetta er spurning um að mæta slíkum kröfum. Þá er spurningin: Hvort er betra stór stofnun eða smá?

Ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér og tel að menn hafi oft gert of mikið úr ávinningi af sameiningu stofnana. Ég hreifst mjög af ágætum samlíkingum sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson setti einhvers staðar fram af þessu tilefni, sagði að það væru til búðir sem sérhæfðu sig í því einu að framleiða pitsur og svo væru aðrar sem seldu allt milli himins og jarðar; sinnep, klemmur, pitsur, slátur, mjólk o.s.frv. og báðar gengju ágætlega upp, spurning væri samhengið og tilgangurinn. Þannig held ég að oft hafi verið um þessa stofnanaumræðu, hún hefur gengið svolítið í tískubylgjum. En hitt hef ég sannfærst um að að mörgu leyti er betra og ávinningur af því að hafa stórt svið undir sama þaki. Það er vegna þess að stofnanir eiga iðulega erfitt með að laga sig að breyttum kröfum í samfélaginu. Þær eiga erfitt með að lognast út af ef þess þarf og erfitt með að skreppa saman eða stækka eftir atvikum, hver sem krafan er um þjónustu. Innan stofnunar undir stóru þaki eru hins vegar miklu meiri möguleikar á að skreppa saman og þenjast út án þess að stofnunin sé öll undir. Þannig er fólginn í því ákveðinn ávinningur að setja þessa starfsemi undir sama þak.

Varðandi staðhæfingar um að hið opinbera þurfi að skreppa saman þá er ég ekki alveg sannfærður um að það sé endilega hagræði í því fyrir samfélagið vegna þess að velferðarþjónustan byggir á því að skapa hagkvæmar lausnir fyrir fjölskyldur og efnahagslíf. Við greiðum ekki laun í samræmi við að fólk sé að koma sér upp húsnæði alla ævina eða innan heimilisins sé einhver veikur alla ævina heldur mætum við þessum sveiflum með velferðarkerfi sem tekur á móti fólki sem veikist, sem aðstoðar þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og þar fram eftir götunum. Öflugt velferðarkerfi kemur í stað rándýrra einkalausna og þjónar þannig fjölskyldum og atvinnulífi. Það er því vanhugsað að horfa til þess að augljós ávinningur sé af því að skera niður útgjöld til hins opinbera.

Að lokum eru það gjaldskrárhækkanirnar. Ekki er um að ræða heimildir til gjaldskrárhækkana heldur lögbundin gjöld sem koma ekki aftan að neinum og ég gat um áðan, þ.e. lofthæfisskírteinin. Við erum að tala um eftirlitsgjöld sem hækka samkvæmt verðlagsþróun.

Ég þakka fyrir ágæta umræðu. Þetta er nefnilega mjög stórt mál sem skiptir marga miklu máli og ég vona að umræðan skili okkur sem samfélagi ávinningi inn í framtíðina.



[16:20]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af gjaldheimtunni, sem hæstv. ráðherra fór að tala um, þá stendur orðrétt í frumvarpinu og ég veit ekki hvernig ég á að skilja það öðruvísi, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Farsýslunni verði heimilt að innheimta ný gjöld vegna eftirlits með skoðun ökutækja og starfsleyfum skoðunarstöðva. Áætlað er að tekjur stofnunarinnar af þessum gjöldum verði um 5 millj. kr. og að þær komi fram á tekjuhlið ríkissjóðs. Einnig er lögð til hækkun á umferðaröryggisgjaldi úr 400 kr. í 500 kr. en það gæti aukið tekjur um nálægt 28 millj. kr. Að lokum er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrá vegna útgáfu lofthæfisskírteina …“

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi heimild til að innheimta ný gjöld og því til viðbótar eru hækkanir á gjaldskrá tilgreindar í þeim liðum. Ég þykist enn þá vera læs en ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að hér sé hvort tveggja verið að leggja á ný gjöld og hækka önnur sem voru fyrir. Svo geta menn rætt endalaust hvort þeir vilji vísa til þess að þeir hafi ekki hækkað gjöldin síðan 2006 eða síðan hvenær og það sé eðlileg gjaldskrárhækkun, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni áðan, að 400 kr. sem voru 2006 séu komnar upp í 490 kr. núna ef tekið er tillit til hækkunar vísitölu og þess vegna sé gjaldið hækkað. Þetta liggur alveg klárt og kvitt fyrir. Ég hefði talið að ekki þyrfti að deila eða hafa sterk skoðanaskipti um þann texta sem klárlega stendur í frumvarpinu. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi. Ég held að menn verði að ræða hlutina eins og þeir eru nákvæmlega en fara ekki eftir einhverjum öðrum leiðum sem þeim þóknast hugsanlega hverju sinni.



[16:22]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila um skilgreiningaratriði. Að uppistöðu til erum við að tala um sömu gjaldheimtu sem er ný í þeim skilningi að stofnunin er ný og innheimt er fyrir þau verkefni sem sú nýja stofnun sinnir. Aðeins varðandi þann þátt er um tvo kosti að tefla: Á að fjármagna starfsemina með gjaldheimtu notendagjalda eða á að gera það í gegnum skatta sem mér virðist hv. þingmaður vera efasemdarfullur um? Að uppistöðu til er þetta fyrirkomulagið. Ég held að ég hafi réttan skilning á því en ætla ekki að fullyrða meira en ég veit, en að uppistöðu til tel ég þetta vera svona.

Eitt nefndi ég ekki varðandi spurningar hv. þingmanns um samráð. Það hefur verið mikið og mun meira en oft í slíku sameiningarferli. Skipaður var hópur forstöðumanna viðkomandi stofnana og sinnti starfsmaður verkefninu sérstaklega. Þeir héldu formlega 25 fundi, heimsóttu stofnanirnar og lýstu vilja til að svara öllum spurningum sem fram voru reiddar sem voru margar. Eftir því sem mér er tjáð var staðið mjög vel og faglega að þeirri vinnu. Ég held að almenn ánægja sé með þetta. Það eru ekki allir ánægðir, það verður aldrei. Á heildina litið er bærileg samstaða um málið.

Að lokum: Þær breytingar sem við erum að ráðast í núna eru ekki til eilífðarnóns. Við hljótum að meta reynsluna (Forseti hringir.) og framhaldið með tilliti til hennar.



[16:25]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir, að vinnubrögðin hafi verið vönduð við sameiningu þessara stofnana og undirbúningurinn.

Ég verð að viðurkenna að mér fannst hæstv. ráðherra vera dálítið villtur eða týndur í umræðunni um skattlagninguna eða nýju gjöldin. Hæstv. ráðherra segir: Hér er verið að búa til nýjar stofnanir. Eigum við að reka þær með því að hækka skatta eða nota notendagjöld?

Mér finnst vera ákveðin þversögn í máli hæstv. ráðherra vegna þess að það er, ef ég skil málið rétt, ekki verið að taka einhver gjöld sem eru nú þegar rukkuð inn í stofnununum heldur er verið að gefa heimild til að leggja á ný gjöld. Það fer ekki á milli mála. Ef þessi gjöld væru núna rukkuð í stofnunum þá skilaði sú gjaldtaka, annars vegar nýju gjöldin og hins vegar hækkun á gjaldskránni, ekki þessum auknu tekjum inn í ríkissjóð. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hæstv. ráðherra fara eins og köttur í kringum heitan graut með þetta, eins og ég skil það.

Þetta er ekki flókið, finnst mér a.m.k. Heimildin í frumvarpinu er sú að leggja á ný gjöld og hækka gjaldskrá. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að þetta megi túlka með þeim hætti að það megi hugsanlega hækka skatta. En þeir eru hluti af þessum 37 millj. kr. sem skila sér til hagræðingar inn í ríkissjóð í heildina á þessum 207 millj. kr., 170 millj. kr. hagræðing og 37 millj. kr. í nýja gjaldtöku og hækkun gjaldskrár.

Skil ég þetta ekki alveg örugglega rétt? Ég spyr. Svona stendur þetta í frumvarpinu. Ég vona að ég sé ekki að misskilja þetta en það færi betur ef svo væri.



[16:27]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að einhverjum þyki ég vera köttur, (ÁsbÓ: Nei.) en í kringum heitan graut fer ég ekki. Að uppistöðu til er minn skilningur sá að verið sé að færa gjöld sem eru til staðar inn í nýja stofnun. Það er heildarmyndin.

Eins og ég gat um áðan eru sum þessara gjalda bundin í lög og það þarf lagabreytingu til að breyta þeim. Ég gat um hvaða gjöld það voru. Það voru lofthæfisskírteini, síðan eru eftirlitsgjöld með þeim sem hafa tekið verðlagsbreytingum. Ég vísaði einnig til annarra gjalda sem hefðu gert slíkt hið sama. En þegar á heildina er litið er verið að setja upp það fyrirkomulag fyrir alla stofnunina að hún sé fjármögnuð með þessum hætti.

Ég ætla að fara varlega í að fullyrða í þessum efnum. Ég held ég sé ekkert villtur í málinu, alls ekki. Þetta er meginhugsunin í fjármögnun stofnunarinnar og sú meginbreytingin sem verður. Við erum að færa gjöld frá stofnunum sem verið er að leggja niður inn í nýja stofnun og færa sem sagt fjármögnunina til allrar starfseminnar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.