139. löggjafarþing — 76. fundur
 22. feb. 2011.
samkeppnislög, 3. umræða.
stjfrv., 131. mál (aukið aðhald og eftirlit). — Þskj. 705, frhnál. 793 og 874.

[15:16]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingar á samkeppnislögum.

Í nefndinni var einkum fjallað um hvort heimild b-liðar 2. gr. frumvarpsins bryti í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Jafnframt var fjallað um skýrleika sömu greinar. Í b-lið 2. gr., samanber breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar, er lagt til að við lögin bætist heimild fyrir Samkeppniseftirlitið til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Í greininni felst heimild fyrir Samkeppniseftirlitið til að skipta fyrirtækjum upp án þess að sýnt hafi verið fram á að hlutaðeigandi fyrirtæki hafi brotið gegn bannreglum samkeppnislaga.

Ástæða heimildarinnar er að samkeppnishömlur geta átt rót sína að rekja til annarra atriða en samruna eða brota fyrirtækja á samkeppnislögum. Samkeppnishömlur geta falist í því að fyrirtæki nýtur slíkrar yfirburðastöðu á markaði að tilvist þess takmarkar eða kemur algerlega í veg fyrir virka samkeppni.

Ljóst er að fyrirtæki og eignarhlutir í þeim njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar en það haggar þó ekki heimildum löggjafans til að setja eignarréttindum almenn takmörk. Löggjafinn getur skert eignarréttindi upp að vissu marki án þess að stofnist til bótaskyldu. Með frumvarpinu eru lagðar til almennar reglur um starfsemi og starfsskilyrði fyrirtækja. Hafa ber í huga að ef eiganda eða eigendum fyrirtækis, sem er í yfirburðastöðu á markaði, er t.d. gert að selja hluta þess þá fær hann eða þeir endurgjald fyrir þær eignir sem hafa verið látnar af hendi.

Samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þarf að uppfylla tvö skilyrði svo að unnt sé að takmarka þau réttindi sem það tryggir. Annars vegar þarf að mæla fyrir um slíkar heimildir í almennum lögum og hins vegar þurfa almannahagsmunir að krefjast slíkrar takmörkunar. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði almenn heimild til að skipta upp fyrirtækjum sem stöðu sinnar vegna koma í veg fyrir eða raska samkeppni. Í þessu lagaákvæði felast almennar takmarkanir á eignarrétti sem ná til eigenda allra fyrirtækja sem eftir atvikum komast í slíka stöðu.

Með hliðsjón af þeirri meginreglu að ákvarðanir stjórnvalds skulu að meginstefnu eiga sér stoð í lögum og að ákvarðanir stjórnvalds mega hvorki ganga gegn lögum né stjórnvaldsfyrirmælum eru gerðar ákveðnar kröfur til Samkeppniseftirlitsins sem er það stjórnvald sem getur beitt valdheimildinni, verði frumvarpið að lögum. Þannig verður Samkeppniseftirlitið í fyrsta lagi að sanna að skipulag eða uppbygging fyrirtækis komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Í öðru lagi verður eftirlitið að sanna að uppskipting fyrirtækis sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu þess á markaði og að vægari aðgerðir en uppskipting geti ekki náð sama árangri. Með hliðsjón af þessu síðarnefnda má benda á breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar þess efnis að úrræði sem Samkeppniseftirlitið kann að beita skuli vera í réttu hlutfalli við það brot sem hefur verið framið eða þær aðstæður eða háttsemi sem um ræðir. Í þessu sambandi minnir nefndin á að ákvæði stjórnsýslulaga gilda í málum af þessu tagi, svo sem rannsóknarregla, ákvæði um upplýsinga- og andmælarétt og meðalhófsreglan. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að við beitingu heimildarinnar sé gætt að meðalhófi.

Hvað varðar þá almannahagsmuni sem vísað er til í 72. gr. stjórnarskrárinnar er venjulega talið að löggjafinn eigi mat á því hvort skilyrði greinarinnar teljist uppfyllt. Löggjafinn hefur um langa hríð talið að í því felist mikilsverðir almannahagsmunir að hér á landi ríki virk samkeppni í viðskiptum og í því skyni þurfi að vera í gildi víðtækar samkeppnisreglur. Landfræðileg einangrun landsins, fámenni og tilhneiging til myndunar fákeppnismarkaða fela í sér sterk rök fyrir því að hér á landi gildi mjög öflug samkeppnislög.

Það liggur í augum uppi að það er mikill kostur að reglur séu byggðar upp á þann veg að innihald þeirra sé fastmótað enda getur framkvæmd matskenndra reglna verið ófyrirsjáanleg. Hins vegar ber á það að líta að ómögulegt er í nútímasamfélagi að sjá fyrir öll þau margbreytilegu tilvik sem geta komið upp og því kann að vera nauðsynlegt að hafa lagaákvæði matskennd.

Virðulegi forseti. Við umfjöllun nefndarinnar var einnig rætt um heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að gera samninga sín á milli um verðfærslu tiltekinna afurða þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Samkvæmt sömu lögum er þeim einnig heimilt að sameinast eða eiga með sér samstarf um verkaskiptingu, án þess að það heyri undir samkeppnislög. Í nefndinni kom til umræðu hvort frumvarpið raskaði þessum heimildum á einhvern hátt. Með hliðsjón af viðteknum lögskýringarreglum telur meiri hlutinn að búvörulög víki áfram til hliðar vissum ákvæðum samkeppnislaga. Frumvarpið mun því engin áhrif hafa á sérheimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Við afgreiðslu málsins var hv. þm. Eygló Harðardóttir fjarverandi.

Undir nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir og Margrét Tryggvadóttir.



[15:24]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls óskuðum við sem myndum minni hluta viðskiptanefndar eftir því að frumvarp það sem við ræðum nú, breytingar á samkeppnislögum, gengi til viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. Ástæðan fyrir þeirri beiðni var sú að minni hluti nefndarinnar taldi nauðsynlegt að nefndin aflaði sér álits sérfræðinga á sviði samkeppnisréttar á þessu umdeilda frumvarpi.

Við meðferð málsins í viðskiptanefnd komu til fundar við nefndina þeir Hörður Felix Harðarson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt í samkeppnisrétti við lagadeild Háskóla Íslands, og Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík, en báðir eiga það sammerkt að kenna fræðigreinina við þá háskóla sem þeir starfa við. Þeir veittu nefndinni munnlega umsögn um frumvarpið en skiluðu síðan skriflegri umsögn til nefndarinnar þann 28. janúar sl., sem fylgir framhaldsnefndaráliti þessu sem fylgiskjal.

Í umsögn þessara tveggja sérfræðinga kemur fram hörð gagnrýni á efni frumvarpsins og þá einkum það matskennda ákvæði frumvarpsins sem felur í sér mestar breytingar á núgildandi samkeppnislögum, þ.e. b-lið 2. gr. frumvarpsins sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki þótt ekki liggi fyrir að nein brot hafi átt sér stað gegn ákvæðum samkeppnislaga heldur aðeins ef aðstæður, að mati Samkeppniseftirlitsins, eru með þeim hætti að ætla megi að samkeppni sé ekki fullkomlega virk. Má því segja að sérfræðingarnir tveir taki undir þá megingagnrýni sem minni hlutinn hefur sett fram um efni frumvarpsins, bæði innan nefndarinnar og í umræðum um það á fyrri stigum.

Virðulegi forseti. Í upphafi þessarar ræðu vil ég geta þess sem fram kemur í umsögn fræðimannanna tveggja að þar er bent á tvö atriði sem þeir telja öðru fremur að gætu orðið til þess að efla samkeppni eða draga úr aðstæðum sem standa samkeppni á Íslandi helst fyrir þrifum. Ég hygg að full ástæða sé til þess fyrir Alþingi Íslendinga að beina sjónum sínum að þessum tveimur athugasemdum frá mönnum sem hvað gerst þekkja til á vettvangi samkeppnisréttarins.

Annars vegar benda hæstaréttarlögmennirnir tveir á að á mörgum mörkuðum hérlendis séu ýmsar hindranir í vegi fyrir því að fyrirtæki geti keppt óhindrað sín á milli um viðskipti við neytendur. Hindranir af þessu tagi, sem sérfræðingarnir nefna aðgangshindranir, séu í flestum eða mörgum tilfellum lykilskýring á því hvernig einstök fyrirtæki geti náð svo sterkri stöðu á markaði að óheppilegt geti talist fyrir framgang samkeppni á honum. Aðgangshindranir af þessu tagi eigi sér mjög oft uppruna í ákvæðum laga eða ákvörðunum stjórnvalda sjálfra. Markvisst afnám slíkra aðgangshindrana af hendi löggjafans og stjórnvalda mundi efla samkeppni mun betur og hraðar en sú aðgerð að fela Samkeppniseftirlitinu þær óljósu heimildir sem í frumvarpinu felast og hér hafa verið nefndar.

Hins vegar benda sérfræðingarnir á að í núgildandi samkeppnislöggjöf séu nokkrar meginreglur hverra skörp og skýr beiting sé úrslitaatriði um hvort samkeppnislögin hafi jákvæð áhrif á samkeppni og þróun markaða eða ekki. Þegar á það reyni hvort fyrirtæki hafi raskað samkeppni með ólögmætu samráði sín á milli eða með misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé afar brýnt að niðurstöður fáist um slík álitaefni bæði skjótt og vel. Fyrirtækjum sé nauðsynlegt að vita án dráttar hvernig talið er rétt að túlka og beita þeim leikreglum sem samkeppnislögin byggjast á gagnvart raunverulegum aðstæðum á markaði, samningum og hvers kyns markaðsfærslu. Staðreyndin sé hins vegar sú að það geti tekið mörg ár að fá niðurstöðu í slík mál hjá Samkeppniseftirlitinu. Fram kom á fundi nefndarinnar að dæmi væru um að það tæki jafnvel tvö til fjögur ár að fá niðurstöðu í málum sem Samkeppniseftirlitið hefði haft til meðferðar. Slík staða sé með ólíkindum og ef samkeppnislögunum er ætlað að gera gagn og ná í alvöru þeim markmiðum sem lögin stefna að, þ.e. að tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með eflingu virkrar samkeppni, neytendum og landsmönnum öllum til hagsbóta, þá sé það langbrýnasta verkefni Alþingis að búa svo um hnútana að Samkeppniseftirlitið geti lokið þeim rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta og tekið í öllum tilvikum ákvarðanir í málum sem varða bannreglur laganna innan fárra mánaða í mesta lagi.

Undir þessi tvö sjónarmið vil ég og félagi minn í minni hluta viðskiptanefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, heils hugar taka og hvetjum og skorum á þingið að grípa til þeirra aðgerða sem það hefur til að vinna að því að fara í lagabreytingar sem koma í veg fyrir að slíkar aðgangshindranir séu til staðar á mörkuðum og til að tryggja hraða málsmeðferð innan Samkeppniseftirlitsins, enda sjá það allir að það gengur ekki að fyrirtæki sem starfa á markaði þurfi að bíða í allt að tvö til fjögur ár eftir niðurstöðu í málum sem eftirlitið hefur til meðferðar.

Virðulegi forseti. Minni hluti viðskiptanefndar hefur helst gagnrýnt það ákvæði frumvarpsins sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skipta fyrirtækjum upp eða fyrirskipa breytingar á skipulagi þeirra án þess að þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum eða yfir höfuð öðrum lögum.

Í umsögn sérfræðinganna tveggja um þetta ákvæði frumvarpsins er það gagnrýnt harðlega og lýsa þeir miklum efasemdum um að þessi breyting á samkeppnislögum muni verða til bóta og færa fyrir þeim efasemdum ýmsar ástæður.

Þar vegur auðvitað þyngst sá alvarlegi fyrirvari fræðimannanna við að uppskiptingarákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands sem verndar eignarrétt, sbr. 72. gr. hennar.

Í umsögn sérfræðinganna segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

,,Hafa verður í huga að fyrirtæki geta náð mikilli markaðshlutdeild eða sterkri markaðsstöðu í huga neytenda með aðgerðum og háttsemi sem er fyllilega lögmæt og eðlileg. Það liggur í eðli samkeppninnar að ekki gengur öllum jafn vel að mæta þörfum viðskiptavina og neytenda og hlutdeild fyrirtækja á markaði breytist eðlilega í samræmi við slíkt. Fyrirhuguð heimild til íhlutunar í aðstæður sem raskað getur samkeppni er ekki takmörkuð á neinn hátt né veitir frumvarpið neina leiðsögn um við hvaða aðstæður nákvæmlega kemur til greina að henni verði beitt, hvaða sjónarmiðum skuli beitt við slíkt mat eða annað. Galopin og matskennd heimild af þessu tagi þar sem ofurtrú er lögð á óskeikulleika stjórnvalds og þar sem útilokað er að gera sér grein fyrir því, með lestri lagatextans, hvenær beitt verður er alls ekki í anda þess réttaröryggis og þeirrar festu sem ríkja þarf um eignarréttindi manna eins og þau eru vernduð í stjórnarskrá. Í öllu falli telja undirritaðir að gera þyrfti rækilega grein fyrir því í greinargerð með frumvarpi þessu hvernig ákvæðin teljast samþýðanleg stjórnarskrá. Þótt heimildir Samkeppniseftirlitsins samkvæmt margnefndu lagaákvæði nái ekki til þess að taka eignir eignarnámi án þess að endurgjald komi fyrir þá verður vart deilt um það að handstýrðar breytingar á atferli eða skipulagi fyrirtækis, svo sem með uppskiptingu þess, eru til þess fallnar að hafa veruleg áhrif á verðmæti þeirra. Í raun verður telja að heimildin ein og sér muni hafa áhrif á verðmæti fyrirtækja sem hugsanlega gætu fallið undir hana. Með lögfestingu heimildarinnar verður til óvissuþáttur sem fjárfestar hljóta að þurfa að horfa til.“

Þá telja sérfræðingarnir í umsögn sinni að uppskiptingarheimild frumvarpsins sé afar opin og feli í sér óljósa og matskennda reglu. Þeir benda á að ákvæði samkeppnislaga séu nú þegar að mörgu leyti afar óljós og matskennd og að erfitt sé fyrir stjórnendur fyrirtækja í mörgum tilvikum að gera sér grein fyrir stöðu þeirra gagnvart ákvæðum laganna og nefna í því sambandi ákvæði 11. gr. samkeppnislaga um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ályktanir um hvort fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu séu byggðar á mjög matskenndum sjónarmiðum um skilgreiningu markaða og mati á efnahagslegum styrk fyrirtækja á þeim sem gífurlega erfitt geti verið fyrir stjórnendur fyrirtækja að glöggva sig á fyrir fram. Sú óvissa sem af þessu skapast um rekstur fyrirtækja sé mjög óheppileg og feli að sjálfsögðu í sér ágalla á því regluverki sem í samkeppnislögunum felast þótt vera kunni að slíkt sé að einhverju marki óhjákvæmilegt þegar lög af þessu tagi eigi í hlut. Engin ástæða sé hins vegar til þess að auka þessa óvissu verulega með lögfestingu þeirrar heimildar sem hér um ræðir. Mjög brýnt væri að útskýra og afmarka mun nánar, bæði í lagatextanum sjálfum og í greinargerð með frumvarpinu, hvaða aðstæður það teldust vera sem réttlætt gætu beitingu heimildarinnar, hvers konar málsmeðferð þyrfti að eiga sér stað áður en að slíku kæmi, hvaða markaðir það væru sem frumvarpshöfundar teldu að kynnu að sæta slíkri athugun yrði frumvarpið samþykkt o.s.frv. Þá benda sérfræðingarnir á að það sé síður en svo augljóst hvort samkeppni sé virk eða skert á mörgum mörkuðum eða hvað valdi því að markaðir og/eða fyrirtæki hegði sér eða virki með þessum hætti eða hinum. Orsakir og afleiðingar leikist oft á með mjög flóknum hætti og oft sé einfaldlega ekki hægt að greina með neinni fullnægjandi vissu hvers vegna markaðir virki eins og þeir virki. Að ætla Samkeppniseftirlitinu að meta þetta og greina og grípa til íþyngjandi íhlutunar gegn fyrirtækjum, og þá um leið eigendum þeirra, án þess að nein lög hafi verið brotin og án neinnar leiðsagnar feli í sér oftrú á getu stjórnvaldsins, hversu vel mannað og skipulagt það teljist annars vera.

Minni hlutinn hefur ítrekað bent á að sé það á annað borð mat löggjafans að aðstæður í atvinnulífinu séu með þeim hætti að nauðsynlegt sé að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækari valdheimildir en finna má í núgildandi samkeppnislögum verði að gera þá lágmarkskröfu að valdheimildin sé skilgreind með skýrum hætti í lögunum þannig að útfært sé nákvæmlega í lagatexta við hvers konar aðstæður heimildin verði virk, svo sem með vísan til markaðshlutdeildar yfir ákveðnum mörkum, tilgreindri samþjöppun á markaði eða öðrum þeim mælikvörðum sem almennt eru lagðir til grundvallar í samkeppnisrétti. Sú skoðun minni hlutans byggist á því sjónarmiði að sníða beri stjórnvöldum skýran lagaramma og að tryggt sé að stjórnvöld misbeiti ekki valdi sínu heldur gæti meðalhófs við beitingu valds. Mikilvægt sé að hafa þessi meginsjónarmið að leiðarljósi jafnvel þó svo að margt hafi aflaga farið í íslensku viðskiptalífi á síðustu missirum og árum og að framferði forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja hafi verið mjög ámælisvert. Sú leið sé hins vegar ekki farin í frumvarpinu heldur er lagt til að lögfest verði matskennd, óljós og óskýr heimild til þess að brjóta upp fyrirtæki sem heimilt er að beita án þess að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum og í raun án allrar leiðsagnar löggjafans um með hvaða hætti henni skuli beitt.

Minni hlutinn bendir á að með því að veita stjórnvaldi svo matskenndar og óskýrar valdheimildir, sem eru verulega íþyngjandi fyrir þá aðila sem þeim þurfa að sæta, megi færa fyrir því sterk rök að löggjafinn sé að framselja Samkeppniseftirlitinu völd til þess að hlutast til um eignarréttindi og atvinnuréttindi, sem varin eru af ákvæðum stjórnarskrár, umfram lagaheimildir. Í því sambandi er full ástæða til að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 15/2000, Stjörnugrís hf. gegn íslenska ríkinu, en í því máli var m.a. tekist á um heimildir löggjafans til að framselja vald til handhafa framkvæmdarvaldsins.

Ég ætla ekki að lesa upp úr þeim dómi en það er alveg ljóst að sú heimild sem þar var fjallað um og það framsal á valdi sem dómurinn taldi ólögmætt og ekki standast lög, sú valdheimild er algjörlega sambærileg þeirri valdheimild sem hér er lagt til að verði lögfest.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, sem hefur í rauninni ekkert verið fjallað um við meðferð málsins innan viðskiptanefndar, hníga sterk rök í þá átt að með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar sé löggjafinn að framselja vald sitt með ólögmætum hætti til Samkeppniseftirlitsins.

Virðulegi forseti. Umsögn Harðar Felix Harðarsonar hrl. og Heimis Arnar Herbertssonar hrl. um frumvarpið fylgir framhaldsnefndaráliti þessu sem fylgiskjal. Í vandaðri og ítarlegri umsögn sinni tefla þessir tveir sérfræðingar fram fjölmörgum öðrum röksemdum í gagnrýni sinni á þetta ákvæði frumvarpsins en þeim sem hér hefur verið getið. Í öllu falli komast þessir sérfræðingar og kennarar í samkeppnisrétti við lagadeildir háskólanna tveggja að þeirri niðurstöðu að afar varhugavert sé að fela samkeppnisyfirvöldum völd til að handstýra einstökum mörkuðum. Heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar samkvæmt núgildandi samkeppnislögunum séu afar víðtækar og að engin þörf sé á að auka þær. Þær breytingar á samkeppnislögum sem frumvarpið mælir fyrir um séu þar fyrir utan ekki til bóta á núverandi löggjöf. Það kom fram á fundi nefndarinnar að sérfræðingarnir teldu það frumvarp sem hér er til umfjöllunar óeðlilegt, óvandað og í rauninni hættulegt.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn hefur, ásamt því að gagnrýna harðlega heimildir Samkeppniseftirlitsins til að brjóta fyrirtæki upp án þess að fyrir liggi nokkurt lögbrot, einnig gagnrýnt það ákvæði frumvarpsins sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Byggist sú gagnrýni á því að með því að veita slíka heimild sé vikið frá þeirri meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að lægra settu stjórnvaldi beri að hlíta ákvörðunum æðra setts stjórnvalds og geti þarf af leiðandi ekki hlutast til um að fá úrskurðum æðra setts stjórnvalds hnekkt fyrir dómstólum.

Undir þessa gagnrýni minni hlutans taka sérfræðingarnir í samkeppnisrétti sem viðskiptanefnd leitaði álits hjá. Í umsögn þeirra segir að þeir ekki sjái ekki neina ástæðu til þess að víkja frá þeirri meginreglu að lægra sett stjórnvald þurfi að hlíta niðurstöðu þess æðra. Þeir vísa til þeirrar óvissu sem er samfara löngum málsmeðferðartíma hjá samkeppnisyfirvöldum, sem vikið hefur verið að hér að framan og ég hef nefnt. Segja þeir að með því að veita Samkeppniseftirlitinu heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar til dómstóla sé enn aukið á óvissuna sem fyrir er. Fyrirtæki þurfi því að sæta því að vera áfram í fullkominni óvissu um starfsemi sína til nokkurra ára, þrátt fyrir að málum þeirra kunni að hafa lokið með hagfelldum hætti með niðurstöðu æðra setts stjórnvalds. Segja fræðimennirnir að fyrir heimild af þessum toga þyrfti að minnsta kosti að færa afar veigamikil rök sem ekki sé að finna í greinargerð með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Minni hluti viðskiptanefndar hefur ítrekað bent á að allar þær breytingar á núgildandi samkeppnislögum sem lagðar eru til í frumvarpinu séu íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Slík stefnumörkun er að okkar mati einkar ámælisverð þar sem flest fyrirtæki landsins búa í kjölfar efnahagshrunsins sem hér varð við miklar þrengingar. Við slíkar aðstæður telur minni hlutinn að stjórnvöldum beri fremur að styðja við bakið á fyrirtækjum landsins en að gera rekstrarumhverfi þeirra enn erfiðara en nú er.

Minni hlutinn lýsir sig andsnúinn ákvæðum frumvarpsins og þá einkum því sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimildir til að brjóta upp fyrirtæki án þess þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum eða öðrum lögum. Uppskiptingarheimildin er til að mynda mun víðtækari en þær heimildir sem framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA geta gripið til. Heimildin gengur allt of langt og er allt of íþyngjandi fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þá er heimildin, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, allt of matskennd, óljós og opin og brýtur svo freklega í bága við almenn sjónarmið íslensks réttar um skýrleika lagaákvæða að á hana er ekki hægt að fallast. Þar við bætist að þeir sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar sem nefndin hefur leitað til hafa með rökstuðningi sett sterka fyrirvara við að ákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands auk þess sem dómafordæmi Hæstaréttar Íslands bendir til þess að með frumvarpinu sé löggjafinn að framselja Samkeppniseftirlitinu völd með ólögmætum hætti.

Í umræðum um samkeppni og samkeppnislög, virðulegi forseti, er afar mikilvægt að hafa það í huga að velgengni í viðskiptum er ekki neikvæð. Það er eðlilegt og leiðir af eðli samkeppninnar að þeir sem bjóða betri vöru, verð og þjónustu en samkeppnisaðilarnir nái sterkri stöðu á þeim markaði sem þeir starfa á. Raunar er það svo að markaðsráðandi staða einstakra fyrirtækja er ekki óheimil samkvæmt núgildandi samkeppnislögum. Misnotkun slíkrar stöðu er það hins vegar. Þó að minni hlutinn telji fákeppni í eðli sínu óheppilega verður engu að síður í því sambandi að hafa í huga þær sérstöku aðstæður sem uppi eru á Íslandi. Vegna smæðar íslenska markaðarins og smæðar íslensku þjóðarinnar er því miður líklega óhjákvæmilegt að á einhverjum mörkuðum ríki fákeppni af einhverju tagi þar sem ekki er rekstrargrundvöllur fyrir mörg fyrirtæki, t.d. á flugmarkaði, svo ég nefni það sem dæmi. Á öðrum mörkuðum hefur átt sér stað samþjöppun vegna stærðarhagkvæmni og vegna þess að fyrirtækjum hefur gengið misjafnlega vel í samkeppninni. Raunar er það svo að slík samþjöppun einskorðast ekki við fámenna markaði heldur er til staðar á mörgum sviðum í öllum stærstu hagkerfum heims. Engu að síður verða stjórnvöld auðvitað að horfast í augu við það að þeim hefur mistekist á umliðnum árum og missirum að koma í veg fyrir að sömu fyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur verði markaðsráðandi á mörgum mörkuðum, þrátt fyrir að hafa fram til þessa haft nægilegar lagaheimildir til að koma í veg fyrir slíkt. En vegna hinna sérstöku aðstæðna sem hinn íslenski markaður og þau fyrirtæki sem á honum starfa búa við verða þau viðkvæmari gagnvart þeim valdheimildum sem í frumvarpinu er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði fengnar í hendur og eru mjög umdeildar, matskenndar og í raun óskiljanlegar. Þá er ekki síður ástæða til að geta þess hversu óeðlilegt og ósanngjarnt það er fyrir eigendur og stjórnendur fyrirtækja, sem náð hafa miklum árangri á markaði og fylgt í einu og öllu þeim lagareglum sem um starfsemi þeirra gildir, að þeir þurfi engu að síður að sæta því að fyrirtæki þeirra sé skipt upp á grundvelli frumvarpsins án þess að hafa gert nokkuð af sér eða brotið nokkur lög við uppbyggingu atvinnurekstrar síns, en út á það gengur þetta frumvarp.

Minni hlutinn bendir á að verði heimildin lögfest séu verulegar líkur á því að hún leiði til þess að framtíðarverðmæti íslenskra fyrirtækja rýrni og dragi úr líkum á því að fyrirtæki gangi kaupum og sölum milli aðila í íslensku viðskiptalífi og muni hafa skaðleg áhrif á endurreisn íslensks efnahagslífs. Verulegar líkur séu á að kaupendur og fjárfestar haldi að sér höndum ef þeir mega eiga von á því að fyrirtæki sem fjárfest er í verði skipt upp eftir að kaupin hafa átt sér stað. Ákvæði frumvarpsins muni jafnframt hafa neikvæð áhrif á fjárfestingar fyrirtækjanna sjálfra og draga úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Þá megi gera ráð fyrir að afleiðingar lögfestingar frumvarpsins verði þær að fjármálastofnanir verði tregari til þess en áður að veita fyrirtækjum og fjárfestum lánafyrirgreiðslur af ótta við að þau veð sem standa að baki lántökunum rýrni. Enn fremur má leiða að því líkur að við slíkar aðstæður muni fjármögnunar- og vaxtakostnaður fyrirtækja sem ráðast í lántökur aukast.

Við lokaafgreiðslu þessa frumvarps, virðulegi forseti, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að Ísland nýtur takmarkaðs trausts nú um stundir. Það vantraust snýr ekki síst að fjármálastofnunum, fyrirtækjum og stjórnvöldum. Minni hlutinn telur að verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd muni þetta vantraust aukast og gera uppbyggingu atvinnulífsins erfiðari. Frumvarpið kunni að leiða til minni fjárfestingar, draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi. Ávinningurinn af samþykkt frumvarpsins sé hins vegar afar óljós og raunar sé það svo að sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar telja að þær breytingar á samkeppnislögunum sem frumvarpið mælir fyrir um séu ekki til bóta.

Ég hlýt að gera kröfu til þess, þegar hv. viðskiptanefnd hefur loksins leitað til færustu sérfræðinga í lögfræði sem starfa á sviði samkeppnisréttar og þeir hafa sagt sína skoðun á frumvarpinu, sem ég hef hér lýst, að á þau sjónarmið verði hlustað. Í ljósi allrar umræðunnar um vönduð og fagleg vinnubrögð og þegar fram koma svo alvarlegar athugasemdir frá fræðimönnum á þessu sviði við efni frumvarpsins sem lúta að meginatriði þess, þ.e. að með því sé verið að framselja vald til Samkeppniseftirlitsins með ólögmætum hætti og með því sé verið að lögfesta óljósa, matskennda valdheimild sem sé ekki til bóta miðað við ákvæði núgildandi samkeppnislaga, og þegar þeir setja sterka fyrirvara við það að ákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands, þá trúi ég ekki miðað við þær miklu heitstrengingar og yfirlýsingar sem hér hafa verið hafðar uppi um vönduð og fagleg vinnubrögð að meiri hlutinn á Alþingi hlusti ekki á slík varnaðarorð sem koma frá okkar bestu mönnum.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef sagt og þeirra sjónarmiða sem fram koma í því framhaldsnefndaráliti sem ég hef gert grein fyrir og í nefndaráliti okkar í minni hlutanum á þskj. 434, auk annarra röksemda sem við höfum fært fram um alla efnisþætti málsins, leggst minni hlutinn gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt.

Undir framhaldsnefndarálitið ritar ásamt mér hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.



[15:51]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilega mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að óttast þetta frumvarp eins og kemur fram í niðurlagi nefndarálits þeirra, að verði þessi heimild lögfest leiði hún til þess að framtíðarverðmæti íslenskra fyrirtækja rýrni, kaupendur og fjárfestar haldi að sér höndum, það dragi úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og fjármálastofnanir verði tregari til að veita fyrirtækjum og fjárfestum lánafyrirgreiðslu ef þetta frumvarp verður að lögum.

Það er því eðlilegt að álykta að það sé mat viðkomandi þingmanna að staða þeirra fyrirtækja sem þeir eru að fjalla um feli í raun í sér alvarlega röskun á samkeppnisstöðu með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur, þ.e. það er þá mat þeirra þingmanna sem undir þetta nefndarálit rita að þessi fyrirtæki séu þá í einokunaraðstöðu á kostnað virkrar samkeppni hér á landi og þar með á kostnað neytenda.

Það ber að árétta hér að staða neytenda liggur ætíð til grundvallar í þessu frumvarpi og Samkeppniseftirlitið verður alltaf að hafa sjónarmið neytenda í fyrirrúmi, þ.e. að það geti ekki skipt upp fyrirtækjunum sé það til hagsbóta fyrir neytendur að fyrirtækin séu stór. Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins sýnir mikilvægi þess í raun að frumvarpið verði að lögum því að nefndarálitið sýnir að sjálfstæðismenn telja að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að haga starfsemi sinni í ljósi þessara laga, þ.e. að þau séu í einokunarstöðu í dag, að sú staða raskar samkeppni því að að öðrum kosti þyrftu þau ekki að óttast þessi lög og um leið séu þau að valda miklum kostnaði fyrir neytendur.

Röksemdir Sjálfstæðisflokksins gegn þessu frumvarpi eru þar með að mínu mati besta röksemdin með frumvarpinu.



[15:53]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og benda honum á að lesa almennilega í gegnum það framhaldsnefndarálit sem ég hef hér gert grein fyrir. Þar koma ekki einungis fram röksemdir þingmanna Sjálfstæðisflokksins — undir þær hafa reyndar þingmenn annarra flokka tekið eins og hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði hér við 1. eða 2. umr. — heldur er hér um að tefla röksemdir sem fræðimenn á sviði samkeppnisréttar, okkar færustu sérfræðingar á þessu sviði, hafa fært fram gegn frumvarpinu. Og ég verð bara að segja að ég tel mikilvægt að Alþingi Íslendinga hlusti á álit okkar færustu sérfræðinga á þessu sviði þegar frumvarp eins og þetta, sem gerbreytir núgildandi samkeppnisrétti, er til umfjöllunar.

Það vill svo til að þó svo að hv. þingmaður dragi sínar ályktanir af því sem fram kemur í þessu nefndaráliti hefur honum ekki tekist frekar en öðrum talsmönnum þessa máls að draga það skýrt fram hver ávinningurinn af frumvarpinu er. Hann getur dregið sínar ályktanir og komið sínum sjónarmiðum á framfæri en það breytir því ekki að þau varnaðarorð sem ég hafði uppi eru ekki sögð að ástæðulausu. Þau byggjast á þeim umsögnum sem nefndin hefur fengið, bæði frá sérfræðingum og hagsmunaaðilum á þessum markaði, og hafa það að markmiði að reyna að tryggja hagsmuni neytenda vegna þess að það er neytendum í hag að hér ríki eðlileg samkeppni (Forseti hringir.) en ekki valdbeiting og valdstjórn eins og hv. þingmaður mælir fyrir.



[15:56]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar hv. þingmanns breytti í raun og veru engu um þá stöðu sem ég lýsti áðan. Ef það er mat viðkomandi, hvort sem er lögmanna úti í bæ eða þingmannsins, að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að óttast þessa löggjöf er viðkomandi um leið að segja: Þau eru í dag í einokunaraðstöðu á kostnað virkrar samkeppni og á kostnað neytenda í landinu. Fram hjá því verður ekki komist. Því er framlagning þessa nefndarálits og þær röksemdafærslur sem koma fram í því vatn á myllu þeirra sem vilja berjast fyrir því að þetta frumvarp nái fram og verði að lögum.



[15:56]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er að forherðast í andstöðu sinni gegn íslensku atvinnulífi og íslenskum neytendum og hann verður að eiga það við sig.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að öll fyrirtæki þessa lands mega óttast ákvæði þessa frumvarps einfaldlega vegna þess að það er ekkert í lagatextanum sjálfum, það eru engar skýringar í lagatextanum sjálfum á því við hvaða aðstæður eða með hvaða hætti Samkeppniseftirlitinu er heimilt að beita þeim valdheimildum sem hv. þingmaður vill færa eftirlitinu. Ég hef sagt að það sé lágmarkskrafa að slík valdbeiting sé útfærð nánar í lagatextanum, a.m.k. nánar en gert er í þessu frumvarpi.

Það eru ekki bara stór fyrirtæki sem eru þarna undir heldur öll fyrirtæki. Ég get t.d. nefnt það við hv. þingmann að mjög margir markaðir á Íslandi hafa verið skilgreindir, eins og t.d. markaður með íblöndunarefni til brauðgerðar. Þar er fyrirtæki sem er í (Forseti hringir.) markaðsráðandi stöðu og ég geri ráð fyrir að það fyrirtæki, sem er nú ekki stórt á alla mælikvarða, megi (Forseti hringir.) jafnvel eiga von á því að Samkeppniseftirlitið banki upp á hjá því og óski eftir að því verði (Forseti hringir.) skipt upp ásamt svo mörgum öðrum.



[15:58]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ein aðferð til að halda verði niðri til hagsbóta fyrir neytendur og það er samkeppni og það er samkeppni og það er samkeppni, af því að það er stundum í tísku að segja hlutina þrisvar. Þess vegna styð ég þetta frumvarp. Við þurfum að hafa sterka og ákveðna samkeppnislöggjöf.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi um að langan tíma tæki að afgreiða mál hjá Samkeppniseftirlitinu. Eðli máls samkvæmt tekur langan tíma að fara í samkeppnismál. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé mér sammála um að við viljum ekki að það sé fljótaskrift á því þegar verið er að athuga fyrirtæki þessa lands. Það þarf því að standa vel að verki. Það er ekki bara á Íslandi sem slík mál taka langan tíma, þau gera það líka annars staðar. Með þeim orðum er ég ekki að segja að fólk geti ekki alltaf gert betur. Ég er alveg klár á því, fólk getur alltaf gert betur. En það er eðli þessara mála að þau taka langan tíma.

Ég vil líka minna á að viðskiptanefnd mælti með því og það var samþykkt í fjárlögum þessa árs að auka fjárheimildir til Samkeppniseftirlitsins þannig að það gæti aukið við sig um tvö til þrjú stöðugildi, sem sagt bætt við mannafla sem því nemur. Það verður þá vonandi til þess að hægt verði að vinna skjótar að málum. Við hljótum að gleðjast yfir því, bæði ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.



[16:00]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum á öllum mörkuðum á Íslandi að stuðla að virkri, heiðarlegri og eðlilegri samkeppni. En þá verðum við líka að tryggja það að löggjöfin sem fyrirtækjunum er ætlað að starfa eftir sé skiljanleg og skýr og að þau viti eftir hvaða leikreglum eigi að fara. Í þessu frumvarpi er verið að gefa Samkeppniseftirlitinu heimild sem gengur út á að það geti án allrar leiðsagnar í lögum brotið upp fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við lög. Þegar lagagrundvöllurinn sem fyrirtækin í landinu þurfa að starfa eftir er slíkur þá eflum við ekki samkeppni, við aukum óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni og hygg að við séum sammála um að æskilegt sé að málshraði slíkra mála sem fara til Samkeppniseftirlitsins eigi að vera sem mestur. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á umliðnum árum, ekki bara í síðustu fjárlögum, hefur verið aukið við fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins. Það var líka gert þegar sá flokkur sem ég tilheyri var í ríkisstjórn, fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins voru þá aukin býsna stórlega. En það breytir því ekki að það er algerlega óásættanlegt að mál sem varða meint brot á samkeppnislögunum þurfi að taka tvö til fjögur í meðferð stjórnvaldsins, að það þurfi að taka tvö til fjögur ár fyrir Samkeppniseftirlitið að komast að niðurstöðu í málum sem varða einstök fyrirtæki. Þetta sjá allir. Hv. þingmaður mundi ekki sætta sig við, ef hún ræki fyrirtæki og væri borin þeirri sök að hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, að þurfa að bíða í tvö til fjögur ár eftir því að fá niðurstöðu um þær ávirðingar. Þessu verður að breyta.

Þegar menn breyta samkeppnislögunum með þeim hætti sem hér er kveðið á um, með uppbrotsheimildinni og (Forseti hringir.) málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins til dómstóla, er því miður verið að lengja þann (Forseti hringir.) tíma sem mál munu vera til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.



[16:03]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í meting við hv. þingmann um hvort einhver einn flokkur stendur frekar að fjárveitingum en annar. Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að Samkeppniseftirlitið þurfi að vera vel mannað. Þar eru núna um 20 manns, rétt rúmlega.

Samkeppniseftirlitið hefur unnið gífurlegt starf. Ég treysti þeim fullkomlega til að fara með þá heimild sem veitt er í frumvarpinu. Þar kemur alveg skýrt fram að Samkeppniseftirlitið verði að undirbúa málatilbúnað ítarlega vilji það nýta þá heimild sem því er gefin. Hún er víðtæk, það er alveg rétt, en hún er nauðsynleg.



[16:04]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann að misskilja mig ekki þannig að ég hafi verið í einhverjum meting við hana um hvort núverandi ríkisstjórn eða þær sem fyrir voru hefðu veitt meira fjármagn til Samkeppniseftirlitsins. Ég var bara að benda á að á umliðnum árum og missirum hafa stjórnvöld veitt aukið fjármagn til Samkeppniseftirlitsins og reynt að styðja við bakið á því í störfum sínum. Engu að síður blasir sú staðreynd við okkur að úrlausn þeirra mála tekur allt að fjórum árum. Verði þetta frumvarp lögfest er viðbúið að óbreyttu að sá tími sem fólk þarf að sæta rannsókn og málsmeðferðartími Samkeppniseftirlitsins í einstökum málum muni lengjast. Það stafar af því að með þessu frumvarpi verða samkeppnislögin gerð óskýrari, óljósari og það verður mjög erfitt (Forseti hringir.) fyrir stjórnendur og eigendur fyrirtækja að átta sig á því hvaða reglur gilda um rekstur þeirra.



[16:05]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann kom víða við og sagði að þetta frumvarp væri dæmi um að ríkisstjórnin væri ekki sérstaklega vinveitt atvinnulífinu. Það má svo sem sjá það í nýlegum breytingum á skattalögum og mörgum öðrum atriðum sem hafa leitt til þess að hér er stöðnun og minnsta fjárfesting sem um getur. Það kemur fram í atvinnuleysi og getur hugsanlega orðið til þess að stöðnunin verði alger.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann einnar einfaldrar spurningar af því að það kom ekki fram. Telur hann að hæstv. ríkisstjórn sé andsnúin íslensku atvinnulífi?



[16:06]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var skýr spurning frá hv. þingmanni. Í mínum huga er svarið við henni já. Sú ríkisstjórn sem er við völd í landinu er ekki vinveitt atvinnulífinu, hún er andstæð því. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur kerfisbundið gripið til aðgerða á öllum sviðum til að íþyngja fyrirtækjum í landinu, ýmist með frumvarpi eins og því sem hér er til umræðu, með skattahækkunum, með hækkunum á tryggingagjaldi og með lögfestingu ýmissa gjalda sem gera fyrirtækjunum í landinu erfiðara fyrir en áður.

Þar fyrir utan hefur hæstv. ríkisstjórn búið svo um hnútana að þeim sem vilja standa að einhverri uppbyggingu og fjárfestingu í landinu er gert það ókleift. Þeir hafa rekið sig á veggi sem t.d. hæstv. umhverfisráðherra hefur reist og hafa ekki komið fyrir nema þegar Hæstiréttur hefur komið til kastanna og dæmt hæstv. umhverfisráðherra fyrir lögbrot í þeirri viðleitni að stöðva eða bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Syndalistinn er langur þannig að svarið er auðvitað já.

Ef hv. þingmaður gæti bent mér á einhver atriði sem bentu til þess að sú ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu sé vinveitt atvinnulífinu þá yrði ég honum ákaflega þakklátur. En það er alveg sama hversu vel ég íhuga það og legg höfuðið í bleyti, ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að sú ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu sé óvinveitt atvinnulífinu. Þetta er ekki bara mín skoðun, þetta er líka skoðun þeirra sem hafa tekið þátt í þeim skoðanakönnunum sem fyrir liggja. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er andsnúin atvinnulífinu.



[16:08]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Lykilástæðan fyrir því að ég hef talað fyrir því að afgreiða þetta mál og styðja það er sú að í ljósi aðstæðna á Íslandi, fámennis og tilhneigingar til að mynda fákeppnismarkað, tel ég okkur þurfa öflug samkeppnislög. Á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á stöðu hinna fjölmörgu markaða hér á landi sjáum við að um mjög mikla fákeppni er að ræða almennt. Þess vegna hefði maður gjarnan viljað að sú löggjöf sem er til staðar hefði dugað til að taka á þessari fákeppni. Eftir að hafa farið vandlega yfir málin hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég tel nauðsynlegt að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækari valdheimildir.

Þó að verið sé að gefa auknar valdheimildir þá er ekki þar með sagt að Samkeppniseftirlitið verði frjálst frá þeim lögum sem gilda um framkvæmd stjórnsýslu á Íslandi heldur gilda áfram, eins og kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans, reglur um rannsóknarskyldu, ákvæði um upplýsinga- og andmælarétt og að gæta þurfi meðalhófs. Í nefndarálitinu er lögð sérstök áhersla á að Samkeppniseftirlitið verði að sinna mjög vel rannsóknarskyldu sinni áður en þessari valdheimild sé beitt. Það þarf sem sagt að færa fram sannanir fyrir því að skipulag eða uppbygging fyrirtækis komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Í öðru lagi verður eftirlitið að sanna að uppskipting fyrirtækis sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu þess á markaði og að vægari aðgerðir en uppskipting geti ekki náð sama árangri til að tryggja meðalhóf.

Varðandi meðhöndlun nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson í máli sínu farið ágætlega í gegnum þau sjónarmið sem komu fram frá gestum nefndarinnar, Herði Felix Harðarsyni og Heimi Erni Herbertssyni sem kenna samkeppnisrétt við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, og þeim rökum er svarað í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar. Jafnframt komu Arnór Snæbjörnsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Elías Blöndal frá Bændasamtökunum á fund nefndarinnar. Ástæðan fyrir því að ég óskaði sérstaklega eftir að þessir gestir kæmu fyrir nefndina á milli 2. og 3. umr. var til að ræða þær áhyggjur sem komu fram við 2. umr. um hvernig Samkeppniseftirlitið hefði beitt sér gagnvart landbúnaðinum og því löglega samstarfi sem er leyft samkvæmt búvörulögum þar sem afurðastöðvum er heimilt að sameinast eða eiga með sér samstarfi um verkaskiptingu án þess að það heyri undir samkeppnislög. Það hefur verið svolítið einkennilegt að fylgjast með því að þrátt fyrir miklar annir hjá Samkeppniseftirlitinu hafi það samt getað gefið sér tíma til að tjá sig um hluti sem varða það ekki og heyra ekki undir samkeppnislög. Við meðferð nefndarinnar kom fram að þetta hefði verið rætt sérstaklega við Samkeppniseftirlitið og þess vegna var ákveðið í framhaldinu að heyra betur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Bændasamtökunum um hvort ákvæðið gæti að einhverju leyti haft áhrif á þessar tilgreindu sérheimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Kom skýrt fram frá bæði Bændasamtökunum og landbúnaðarráðuneytinu að frumvarpið og samþykkt þess mundi ekki hafa nein áhrif á þessar heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

Síðan er önnur umræða hver vilji manna er í raun, t.d. með aðild að Evrópusambandinu, og hvort menn hafi þá í hyggju að leggja niður þau búvörulög sem landbúnaðurinn starfar núna eftir. Það er önnur og viðameiri umræða sem verður kannski komið inn á í öðrum dagskrármálum í dag.

Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að ég get samþykkt þetta frumvarp nokkuð sátt í þeirri von og með þeirri áherslu að Samkeppniseftirlitið geri sér grein fyrir því að verið sé að leggja mikla ábyrgð á herðar stofnunarinnar og að Alþingi muni þá sinna mjög vel eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu til að tryggja að farið verði vel með þessa valdheimild og að Samkeppniseftirlitið hlíti þeim reglum sem því er gert að starfa eftir. En ekkert hefur komið fram við vinnslu nefndarinnar varðandi þetta mál sem gefur til kynna annað en að svo verði.



[16:14]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi óska þess að ég gæti deilt trausti hv. þingmanns hér áðan á stjórnsýslunni. Það er nýbúið að dæma einn ráðherra af Hæstarétti og það gerðist ekki neitt við þann dóm, ekki nema það að hann ætlaði að endurskoða úrskurðinn o.s.frv. Hv. þingmaður treystir því að stjórnsýslan fari dálítið vel að, ég veit ekki hverju, hún á ekki að fara að lögum því að samkvæmt lögunum getur hún gert hvað sem er.

Segjum að hv. þingmaður stofnaði fyrirtæki á einhverju sviði, alveg sama hvaða, og hann veitti alveg sérdeilis góða þjónustu og alveg sérdeilis ódýra vegna góðrar stjórnunar og góðs skipulags. Honum tækist að ná undir sig markaði, ekki vegna þess að hann langaði til þess heldur vegna þess að það gerðist, vegna þess að hann veitti svo góða þjónustu og hefði svo ódýra vöru. Segjum að hann næði undir sig 70–80% af markaðnum, alveg óvart, hann ætlaði ekki að gera það. Þá allt í einu kæmi Samkeppniseftirlitið og segði: Þessi atvinnurekandi, hv. þm. Eygló Harðardóttir, er kominn með of stóra hlutdeild í markaðnum, ég ætla að skipta fyrirtækinu upp og gera það óarðbært aftur. Hvaða hvati heldur hv. þingmaður að hann hafi til að lækka verðið, til að skipuleggja betur og veita betri þjónustu? Þetta er meginmarkmiðið á bak við þetta. Það að treysta því að Samkeppniseftirlitið fari ekki aðeins að lögum heldur sé sanngjarnt og að Alþingi hafi eftirlit með lögunum af því að þau eru svo illa framkvæmanleg er ekkert annað en framsal á lagaheimildum (Gripið fram í.) og það höfum við alþingismenn ekki leyfi til að gera. Við höfum ekki leyfi til að framselja vald okkar, lagaheimildavald, og treysta því að við gætum haft eftirlit með því eftir á.



[16:17]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á það sem kemur fram í breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar um að við frumvarpið bætist heimild fyrir Samkeppniseftirlitið til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Þarna birtist mjög skýrt ramminn sem Samkeppniseftirlitið á að miða við ef það telur ástæðu til að beita þessu ákvæði. Háttsemin þarf að hafa orðið almenningi til tjóns. Þess vegna er líka þessi áhersla í nefndarálitinu á að það þurfi að færa fram sannanir á því að skipulag eða uppbygging fyrirtækis komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni, út frá því að það sé almenningi til tjóns. Síðan á líka að beita meðalhófsreglunni þannig að það þurfi að sýna fram á og sanna að uppskipting fyrirtækis sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu þess á markaði og að með vægari aðgerðum en uppskiptingu náist ekki sami árangur. Þarna setjum við rammann skýrar en ákvæðið sjálft.

Síðan vil ég líka benda á annað sem kemur fram í áliti minni hluta viðskiptanefndar og er að mínu mati algerlega óháð samþykkt þessa frumvarps. Þetta er bara hluti af því að tryggja samkeppni og koma í veg fyrir fákeppni sem við vitum að er til staðar hérna. Í minni hluta viðskiptanefndar benda þeir á að það er ýmislegt sem við getum gert í viðbót, m.a. að vinna markvisst að afnámi ýmissa aðgangshindrana sem eru á markaði og líka að styrkja enn frekar Samkeppniseftirlitið þannig að það geti lokið rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta innan fárra mánaða í staðinn fyrir kannski tveggja, þriggja, fjögurra ára eins og það tekur núna. Ég treysti á að hv. þm. Pétur Blöndal muni vinna með meiri hluta viðskiptanefndar í að tryggja að við getum gert þetta samhliða því að samþykkja þessar breytingar.



[16:19]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvaða áhrif það hefði á hvata hans sem atvinnurekanda að reka fyrirtækið skipulega og með góðri stjórnun þannig að það gæti lækkað verðið og veitt betri þjónustu. Hann svaraði því ekki hvað gerðist með hvata slíks stjórnanda þegar hann ætti á hættu að fyrirtækinu yrði skipt upp með einhverjum matskenndum aðgerðum Samkeppniseftirlitsins sem kostaði heilmikið vesen og heilmikinn álitshnekki og gerði það að verkum að eignin sem hann væri búinn að byggja upp hryndi í verði.

Hv. þingmaður svaraði þessu ekki. Þetta er veigamikið atriði vegna þess að hvatinn til að gera vel er tekinn í burt. Þeir sem eru með illa rekin fyrirtæki þurfa ekki að óttast þetta ákvæði, ekki fyrir 10 aura, þeir verða aldrei svo stórir. Þeir verða jafnilla reknir og allir hinir. En ef einhver kemur með fyrirtæki sem er vel rekið, getur veitt góða þjónustu og boðið lágt verð og nær undir sig óvart markaðshlutdeild sem var kannski ekkert endilega markmið hjá honum getur hann lent í því að fyrirtækinu verði skipt upp, það tekur einhver ár og eignin hans hrynur í verði á meðan. Allt er í óvissu, hann missir bestu starfsmennina, missir markaðshlutdeild og allt slíkt og ég spyr: Hvaða hvati er hjá þessum atvinnurekanda til að gera yfirleitt nokkurn skapaðan hlut til að bæta reksturinn, lækka verðið og auka þjónustuna?



[16:20]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála því að ég hafi ekki svarað spurningu hv. þm. Péturs Blöndals. Ég tilgreindi nákvæmlega að hérna erum við ekki að tala um að einstaklingar geti ekki rekið fyrirtæki sín vel og náð árangri í rekstri. Við gerum hins vegar þá kröfu að þeir nái ekki árangri á þann máta að það sé almenningi til tjóns, það er lykilatriðið. Ég sé ekki að það sé nokkuð í beitingu þessa ákvæðis hjá Samkeppniseftirlitinu sem ætti að koma í veg fyrir hinn svokallaða innri hvata, eða hvað sem við viljum kalla það, hjá fólki til að stofna fyrirtæki, reka þau vel og leyfa þeim að vaxa og dafna. Þau eiga hins vegar að gera það innan þess ramma að það verði almenningi ekki til tjóns. Ég tel mig hafa svarað spurningu hv. þingmanns fullkomlega.



[16:21]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að bjóða hv. þingmanni að draga til baka þau lokaorð sem hún viðhafði í ræðu sinni þar sem hún fullyrti að við vinnslu þessa máls hefði ekkert komið fram í umræðum í nefndinni um að einhver hætta væri á því að Samkeppniseftirlitið mundi misnota þá valdheimild sem frumvarpið mælir fyrir um eða ganga of langt við beitingu þess. Það er akkúrat þetta atriði sem gagnrýnin á frumvarpið gengur út á, ekki bara frá þeim fræðimönnum sem ég vísaði til, heldur meðal flestra sem sendu inn umsagnir um málið. Það er hætta á því að Samkeppniseftirlitið gangi of langt í því að brjóta upp fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við lög vegna þess að heimildin eins og hún er útfærð í frumvarpinu og verður hugsanlega lögfest sé of matskennd og óskýr og að það séu engar leiðbeiningar í lagatextanum sjálfum um það hvernig eigi að beita henni.

Þetta er eitt meginatriðið sem gagnrýnt var í umfjöllun nefndarinnar og í ljósi þess átta ég mig engan veginn á því að hv. þingmaður telji sig vera í færum til að lýsa því yfir í ræðu sinni að þetta atriði hafi ekki verið gagnrýnt. Það kemur mér mjög á óvart ef sú gagnrýni hefur farið fram hjá hv. þingmanni við vinnslu málsins.



[16:23]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er tiltölulega gjarn á að koma í andsvör við mig og telja að ég eigi að einhverju leyti að leiðrétta það sem ég sagði.

Margvísleg gagnrýni kom fram á frumvarpið í meðferð viðskiptanefndar á málinu. Það sem ég átti hins vegar við í ræðu minni var að ég teldi ekkert hafa komið fram við vinnslu málsins sem gerði það að verkum að ég treysti ekki Samkeppniseftirlitinu til að fara með þessa valdheimild. Þess vegna styð ég málið. Ef ég treysti ekki Samkeppniseftirlitinu til að fara með þessa valdheimild, starfa innan stjórnsýslulaganna og gæta að þeim hagsmunum sem því er falið samkvæmt lögum, mundi ég að sjálfsögðu ekki styðja þetta mál en það geri ég.



[16:24]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá mér að hv. þingmaður styður þetta mál. Stuðningur hennar er jafnvel einlægari en stuðningur fulltrúa stjórnarflokkanna sem hafa mælt með frumvarpinu. Það hefur komið mér töluvert á óvart vegna þess að a.m.k. flokksbræður hennar hafa í umfjöllun um þetta mál haft mjög miklar efasemdir um efni þess.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frumvarp: Velkist hv. þingmaður ekki í neinum vafa um að hún sé á réttri leið í þessu máli þegar fyrir hv. viðskiptanefnd koma færustu sérfræðingar landsins á sviði samkeppnisréttar og lýsa því mjög skýrt, í fyrsta lagi að þeir telji þetta frumvarp ekki til bóta þegar núverandi samkeppnislög eru skoðuð? Það kemur alveg skýrt fram í umsögn þeirra að þeir telja þessa lagabreytingu ekki vera til bóta.

Í öðru lagi lýsa þeir því að þeir geri sterka fyrirvara við það að meginákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrárinnar og í þriðja lagi segja þeir að það sé verulegur vafi á að með frumvarpinu sé vald framselt til Samkeppniseftirlitsins með lögmætum hætti. Telur hv. þingmaður ekki ástæðu til að hafa einhverjar efasemdir um ágæti þessa frumvarps þegar okkar færustu sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar hafa uppi slíkar efasemdir við meðferð málsins? Ég man a.m.k. að þegar ég kom fyrst inn á Alþingi og fræðimenn á sviði lögfræði höfðu uppi sambærilegar efasemdir í sambærilegum málum hafði ég tilhneigingu (Forseti hringir.) til að taka þær alvarlega en ekki ýta þeim bara út af borðinu eins og mér sýnist hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætla að gera hérna.



[16:27]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi einmitt farið í gegnum það í ræðu minni að ég væri svo sannarlega tilbúin til að skoða þær tillögur sem komu fram hjá þeim sérfræðingum sem komu fyrir viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. og þær tillögur sem þeir leggja fram um það hvernig hægt væri að auka samkeppnina og draga úr þeim aðstæðum sem standa samkeppninni helst fyrir þrifum. Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá í þessu minnihlutaáliti einhvers konar tillögur um það hvernig mætti gera það nákvæmlega. Það skal ekki standa á mér ef þess háttar tillögur koma frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um það hvernig við getum dregið úr aðgangshindrunum og búið svo um hnútana að Samkeppniseftirlitið geti lokið þeim rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta innan fárra mánaða. Það er alveg á hreinu að ég vildi gjarnan sjá þær tillögur koma inn í þingið.

Hvað varðar hins vegar þær ábendingar sem komu fram í ræðunni hjá hv. þingmanni um að flokksbræður mínir hefðu sett fram mun meiri efasemdir um ágæti þessa máls en ég í ræðu minni áðan vil ég vísa til þess að ég hef starfað meira innan smásölu, en þeir hafa starfað meira í framleiðslugeiranum sjálfum. Eftir þá reynslu er ég sannfærð um að markaðsvaldið varðandi t.d. landbúnaðinn liggur fyrst og fremst hjá smásalanum. Þar eru samkeppnishömlurnar, smásalinn stjórnar aðganginum að neytandanum, að markaðnum, og þess vegna tel ég það skipta máli þegar við horfum á þetta, sérstaklega í ljósi búvörulaganna. Og ég treysti Samkeppniseftirlitinu til að fara með þetta vald.

Varðandi þá ábendingu að maður ætti að treysta sérfræðingum er það a.m.k. mitt mat, ég veit ekki með hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, (Forseti hringir.) að við séum kosin inn á Alþingi til að vega og meta það sem kemur fram hjá sérfræðingum og taka síðan afstöðu sjálf (Forseti hringir.) út frá því en ekki sitja og standa eins og sérfræðingar úti í bæ vilja.



[16:29]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða um nokkra þætti þessa máls og benda kannski á þá umræðu sem hefur líka verið úti í samfélaginu. Ég vil byrja á því að ég hef oft á tíðum á liðnum árum verið talsvert undrandi á störfum Samkeppniseftirlitsins og hvernig það hefur valið sér verkefni til að tætast í en látið önnur verkefni, sem í augum allflestra Íslendinga hefur kannski legið í augum uppi að Samkeppniseftirlitið ætti að skipta sér af, að því er virðist meira og minna kyrr liggja á grundvelli þess að það hafi ekki haft lagaheimildir til þess. Hér er ég fyrst og fremst að vísa til þess að samþjöppun á smásölumarkaði hefur verið með miklum ólíkindum á matvælamarkaðnum í mjög langan tíma og að Samkeppniseftirlitið hefur ævinlega, þegar að því hefur verið fundið, komið með þau rök og svör að það hafi ekki lagaheimildir til að skipta sér af þessu.

Síðast varð veruleg samþjöppun í grunnframleiðslu á svínakjöti, svínaframleiðendum, þar sem einn aðilinn er kominn í sömu stöðu og samþjöppunin á matvörumarkaðnum í smásölunni var líka, 60–70% jafnvel eða enn stærra, og enn á ný taldi Samkeppniseftirlitið sig ekki hafa lagaheimildir til að gera annað í málinu en fara fram á einhvers konar aðskilnað í rekstri en ekki neitt frekar.

Á sama tíma hefur sama eftirlitsstofnun haldið því fram að ársfundir einyrkja, eins og Bændasamtakanna — það hefði þess vegna getað verið sjálfstætt starfandi pípara — væru samráðsfundir og væru þar af leiðandi ólöglegir, og gerði talsvert í því að tætast í slíkum samtökum, þó svo að ýmislegt er varðar til að mynda búvörulög hefði komið þar fram. Ég ætla því að þakka formanninum, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, fyrir að ítreka það enn og aftur í framsöguræðu við 3. umr. að ákveðin ákvæði samkeppnislaga eiga ekki við á búvörumarkaði, sérstaklega að því er varðar mjólkurvörur og fleiri slíka hluti. Og við sem erum að fjalla um málið hljótum þar með að skilja það þannig að Samkeppniseftirlitið muni þá sinna þeim verkefnum sem því ber að sinna en láta önnur eiga sig, sem það svo sannarlega á ekki að sinna og heyrir ekki undir verksvið þess. Ég vildi að þetta kæmi skýrt fram í ræðustól á þingi en ekki einungis í álitinu sjálfu að ég hef haft nokkrar efasemdir um að það dygði, það þyrfti jafnvel að hafa það í álitinu en bæði hv. þm. Lilja Mósesdóttir og fleiri og eins forsvarsmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og fleiri samtaka og stofnana hafa lýst því yfir að þetta sé nægilegt. Hér erum við sem sagt að fela Samkeppniseftirlitinu að það fái víðtækar heimildir til að fara inn í fyrirtæki og jafnvel án þess að sannast hafi að þau hafi á nokkurn hátt brotið af sér og Samkeppniseftirlitið fær þannig í raun og veru bæði eftirlits- og dómsvald og getur rannsakað, reifað og refsað.

Í ljósi þess sem ýmsir hafa farið yfir, og ég vitna til ræðu hv. þm. Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar sem hann hélt við 2. umr. í desember, er rétt að reifa það í ræðustól að ef Samkeppniseftirlitið nýtir ekki þær heimildir skynsamlega og fer með þetta vald á grundvelli stjórnsýslureglna og rannsakar vel mál og gætir að andmælarétti en gætir ekki síst vel að meðalhófi í aðgerðum sínum er auðvitað alveg ljóst að við þingmenn hljótum að fylgjast mjög náið með því með hvaða hætti Samkeppniseftirlitið fer með þá heimildaraukning sem við ætlum að veita því og hvernig það fer með það vald. Ég held að við verðum að hafa sérstakan vara á og lýsa því yfir að í ljósi þess hvernig Samkeppniseftirlitið hefur því miður ekki alltaf aukið traust meðal þjóðarinnar í því sem það hefur tekið sér fyrir hendur þá hljótum við að fylgjast með störfum þess með sérstakri athygli í kjölfar þess að það fær þessar auknu heimildir. Ég tel til að mynda að þau sjónarmið sem ég er að reifa í ræðustól í dag séu þess eðlis að það megi skilja sem svo að mitt samþykki við því að ganga svona langt að fela Samkeppniseftirlitinu þessar víðtæku heimildir sé skilyrt því að menn fari mjög varlega með það vald og af mikilli skynsemi og að við munum taka málið til umfjöllunar aftur í þinginu eins fljótt og auðið er ef við teljum að Samkeppniseftirlitið fari ekki nægilega varlega með það vald.

Hins vegar er ljóst að í landi eins og okkar þar sem ríkir fákeppni þurfum við að hafa mjög skilvirk samkeppnislög og það þýðir auðvitað að til að geta framfylgt slíkum lögum þarf eftirlitið að hafa þær heimildir sem duga til að ná fram því markmiði sem við erum að setja, að við viljum hafa eðlilega samkeppni á sem flestum mörkuðum eins og eðlilegt er.

Hins vegar vil ég enda mál mitt á og ítreka það sem kemur fram í síðustu efnismálsgreininni í meirihlutaálitinu þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar var einnig rætt um heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að gera samninga sín á milli um verðfærslu tiltekinna afurða þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga, sbr. ákvæði búvörulaga, nr. 99/1993, sbr. lög nr. 85/2004, um breytingu á þeim. Samkvæmt sömu lögum er þeim einnig heimilt að sameinast eða eiga með sér samstarf um verkaskiptingu, án þess að það heyri undir samkeppnislög. Í nefndinni kom til umræðu hvort frumvarpið raskaði þessum heimildum á einhvern hátt. Með hliðsjón af viðteknum lögskýringarreglum telur meiri hlutinn að búvörulög víki áfram til hliðar vissum ákvæðum samkeppnislaga. Frumvarpið mun því engin áhrif hafa á greindar sérheimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði.“

Ég ætla að vona að það sé rétt sem hér kemur fram og vil halda því fram að það sé þá líka skilningur minn að þetta dugi til að Samkeppniseftirlitið virði þetta ákvæði og sinni störfum sínum af trúmennsku og kostgæfni en átti sig á að því er fært hér mikið vald sem fara þarf með af skynsemi og meðalhófi.



[16:38]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmönnum um að það er nauðsynlegt að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í beitingu þeirra heimilda sem því verða nú veittar. Það er alveg ljóst hvað sagt er í síðustu málsgrein meirihlutaálits viðskiptanefndar og það stendur. Það þýðir ekki að við séum öll sammála um að það eigi að vera svona, og það þarf þá að breyta þeim lögum en það er allt annað mál. Meðan þau lög eru eins og þau eru á þessi málsgrein auðvitað fyllilega við.

Mér fannst hins vegar, og það er aðalástæðan fyrir því að ég stend hérna, virðulegi forseti, hv. þingmaður ýja að því að með ýmsum ákvörðunum sínum hefði Samkeppniseftirlitið ekki öðlast traust meðal þjóðarinnar. Ég held að hann hafi tekið þannig til orða. Ég vildi gjarnan fá að vita hvaða ákvarðanir það eru. Ég held að það eigi kannski misjafnlega við um okkur, fólk er eins misjafnt og það er margt, og ég verð að segja að Samkeppniseftirlitið er eitt af fáum opinberum stofnunum og stjórnvöldum sem ég hef dáðst að í gegnum tíðina.



[16:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur andsvarið. Ég skal reyna að dýpka aðeins það sem ég átti við. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni að ég var að tala fyrir munn mjög margra sem telja að í mörgum málum sem Samkeppniseftirlitið hefur átt aðild að hafi framganga þess verið með þeim hætti að menn bera kannski ekki fullkomið traust til þess að eftirlitið vinni eins og við hefðum flest, og nú fullyrði ég það, hefðum flest viljað.

Ég nefndi í ræðu minni að til að mynda samþjöppun á matvælamarkaðnum, smásölumarkaðnum, hefði verið slíkt og aðgerðaleysi Samkeppniseftirlitsins með þeim hætti að menn töldu að þar væri einn af kannski fjölmörgum eftirlitsaðilum sem við upplifðum á síðustu árum að væru of linir, hefðu ekki gætt hagsmuna almennings og ekki beitt sér sem skyldi. Á sama tíma hefði Samkeppniseftirlitið til að mynda ráðist með talsverðu offorsi á Bændasamtök Íslands og búnaðarþing og talið að fundur þeirra jaðraði við samkeppnisbrot, að þar færi fram óeðlilegt samráð þar sem menn kæmu saman. Og eins og ég nefndi, ef ársfundir einyrkja í starfi teljast vera ólöglegir fundir og þar megi ekkert ræða nema um veðrið eða eitthvað slíkt þá er orðið mjög undarlegt ástand í samfélaginu, ef það er forgangsröðunin, ef valið stendur um annars vegar þau stórfyrirtæki sem stjórna matvörumarkaðnum og hins vegar um þessa fáu einyrkja og Samkeppniseftirlitið velur sér að ráðast á þá en skilur fyrirtækin eftir. Það var það sem ég átti við þegar ég talaði um traust.



[16:41]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég veit rétt hefur Samkeppniseftirlitið skrifað álit um matvælamarkaðinn og haft ýmsar athugasemdir og síðan var gerð sátt við fyrirtæki á þeim markaði upp á 217 millj. núna rétt fyrir jólin. Og ég held að það hafi verið árið 2009 sem það birti mjög mikla skýrslu, t.d. um kjötvörumarkaðinn. Ég kann þetta ekki allt utan að en ég held að Samkeppniseftirlitið hafi verið virt fyrir þetta þó að ég ætli ekki að standa hér sem sérstakur málsvari Samkeppniseftirlitsins þannig lagað séð, eins og krakkarnir segja.

Mér finnst hins vegar alveg mega velta vöngum yfir því hvort samtök eins og Bændasamtökin eða ýmis samtök, ég biðst afsökunar á að mér koma engin önnur í hug akkúrat núna, (SIJ: Lögfræðingar, tannlæknar.) já, lögfræðingar, tannlæknar, einmitt, ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að hjálpa mér út úr þessu. Það er þekkt í fræðunum að einmitt einhver svona fræðafélög og bændafélög eða einhver slík eru einmitt að hluta til í samráði sem er ekki gott fyrir samkeppni í landinu. Þetta er bara þekkt í hagfræðinni sem er það fag sem ég las lengst.



[16:43]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvort hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir var sammála mér í því að eðlilegra væri að Samkeppniseftirlitið hefði sett það í forgang að hamast sem mest það gæti, jafnvel út fyrir þær heimildir sem það taldi sig hafa, á risum á markaði sem hefðu gríðarleg áhrif á samkeppnisstöðu og hagsmuni einstaklinga í landinu en að nýta tíma sinn í að djöflast á — afsakið orðbragðið, frú forseti — einyrkjum sem kæmu saman á ársfundi. Ég áttaði mig ekki alveg á hvort það kom fram í ræðu hv. þingmanns.

Ég tel alveg klárt að eðlilegt hefði verið að forgangsraða með þeim hætti að sækja þangað sem hagsmunirnir voru ríkastir og mestir fyrir íslenska þjóð og þar sem var augljóst að samkeppnisstaðan var hvað verst. Fjölmargir í þessum geira kvörtuðu yfir þessari yfirburðastöðu risanna á markaðnum. En þar fyrir utan held ég líka að Samkeppniseftirlitið — en það er kannski svolítið andinn í þessari löggjöf okkar og kannski vísir að andanum í samfélaginu, við erum full af tortryggni og reiði og heift — ætti kannski sem stofnun að koma fram sem aðili sem leiðbeindi og væri ráðgefandi en ekki fyrst og fremst sem einhver wrefsiglaður vöndur stjórnsýslunnar. Það er kannski sjónarmið sem við hefðum átt að ræða. Ég veit dæmi þess að menn hafi leitað ráða og leiðbeininga hjá Samkeppniseftirlitinu en fengið yfir sig refsivönd og allt að því hálfgerðar ofsóknir, vilja sumir alla vega meina.



[16:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Eygló Harðardóttur rétt áðan. Gefum okkur að hann reki fyrirtæki og reki það afskaplega vel. Með góðu skipulagi og góðri stjórnun getur hann lækkað verð til neytenda og bætt þjónustuna og með samböndum sem hann hefur erlendis getur hann auk þess lækkað verðið enn frekar. Nú stækkar fyrirtæki hans og stefnir í að ná yfir meira en helming af markaðnum sem getur verið mjög þröngur og lítill. Hvað telur hv. þingmaður að hann mundi gera? Mundi hann ekki hækka verðið og auka hagnaðinn hjá sér? Annars þarf hann að óttast það að Samkeppniseftirlitið líti á stærð hans sem ógnun við samkeppni á markaðnum, því það þarf ekki vera um neina sök að ræða eða að lög hafi verið brotin. Eftirlitið getur því sagt að fyrirtæki hans ógni neytendum og það ætli að skipta því upp. Það gerir að verkum að hann tapar heilmiklum peningum. Mundi hann ekki reyna að stöðva vöxtinn með því að hækka verðið?

Síðan er þessi hugsun um búvörulög og samkeppnislög sem kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans. Er það ekki dálítið varasöm lögskýring að búvörulög, sem ekki eru um samkeppni, ég hef ekki litið svo á að þau séu um samkeppni, gangi sem sérlög inn í samkeppnislög, inn í lög sem sett eru seinna? Er ekki eðlilegra að álykta sem svo að seinni lög taki fram fyrir óskyld lög sem eru búvörulög? Hefði ekki verið eðlilegra að setja ákvæði hreinlega inn í textann ef þetta á að gilda? Um þetta eru greinilega mjög skiptar skoðanir þeirra sem skrifa undir framhaldsnefndarálit meiri hlutans. Er þetta ekki dálítið varasamt og er þetta ekki akkúrat leið til að búa til ágreining og dómsmál?



[16:48]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið og þessar tvær spurningar. Varðandi þá seinni hvort þetta sé varasamt og hvort skynsamlegra væri að setja ákvæðið inn í lagatextann þá hefði ég haldið það. Ég kom þess vegna upp til að ítreka þá skoðun mína. Ég veit að í viðskiptanefnd hefur meiri hlutinn verið fullvissaður um að þetta sé nægileg vörn og komið hefur fram skilningur meiri hlutans á því hvað menn ætluðu sér með þessu ákvæði. Ég hefði talið eðlilegra að ákvæðið væri sett inn í lögin en sætti mig við þessa framkvæmd en taldi líka nauðsynlegt að ræða þetta í þingsal til öryggis.

Varðandi þá fræðilegu spurningu um það ef ég ræki fyrirtæki með góðum hætti, sem ég vonast til að væri rétt hjá hv. þingmanni, og gæti þar af leiðandi lækkað verð á vörunni og fyrirtækið mundi síðan sífellt vaxa og færi yfir 50% mörkin, þá má benda á að með þeim heimildum sem Samkeppniseftirlitið hefur haft hingað til hefur það ekki skipt sér af því þó að fyrirtæki hafi jafnvel farið yfir 60–70% mörkin. Menn hafa getað farið í kringum það á allan hátt. Ég held að við verðum að treysta því að siðferði okkar sé þannig að við séum ekki að velta slíku fyrir okkur. Ef við rekum fyrirtæki á markaði þá rekum við fyrirtækið eins vel og við getum og skilum eðlilegum hagnaði, við veltum því ekki fyrir okkur hvort við séum komin inn á eitthvert svið hjá Samkeppniseftirlitinu eður ei. Ég held að enginn úti á markaðnum velti því fyrir sér hvort þeir séu hugsanlega að valda því með athöfnum sínum að allt í einu komi Samkeppniseftirlitið (Forseti hringir.) í heimsókn, ég trúi því ekki. Ég held að menn séu bara fyrst og fremst að hugsa um eigin bisness meðan á því stendur.



[16:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er iðulega þannig að menn spá í anda laganna og mikil er trú hv. þingmanns að þetta verði ekki svona af því að það sé óeðlilegt. En það er einmitt það sem gerist. Hryðjuverkalög voru sett í Bretlandi og beitt á íslenska banka. Hverjum datt það í hug þegar lögin voru sett?

Það sem við erum að gera hér er að framselja vald til opinberra starfsmanna. Ef þeir telja að fyrirtækið sem hv. þingmaður rekur í góðri trú á sínu litla, þrönga sviði á markaðnum skaði markaðinn þá geta þeir komið einn góðan veðurdag og skipt fyrirtækinu upp. Á þetta mun einmitt endurskoðandi fyrirtækisins benda honum og segja: Hvað gerum við þá? Fyrirtækið er að stækka of mikið, það er hætta á því að okkur verði skipt upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir starfsmenn og eignarhaldið. Er ekki betra að hækka verðið? Er ekki bara betra að reka fyrirtækið ekki alveg svona vel, eyða pínulítið meira í kostnað, sérstaklega í lífeyrisgreiðslur til stjórnenda og annað slíkt? Er ekki betra að nota hagnaðinn þannig í stað þess að búa til almennilega samkeppni á markaðnum?



[16:51]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni tel ég að við séum að veita Samkeppniseftirlitinu mjög víðtækar heimildir. Ég tel að um leið og við gerum það verðum við að kveikja á vaktaranum hjá okkur sjálfum og þinginu og fylgjast vel með hvernig Samkeppniseftirlitið fer fram með þessar heimildir. Því hefur verið lýst að auðvitað gilda um þetta stjórnsýslureglur og við verðum að treysta því að Samkeppniseftirlitið fari þar að reglunni um meðalhóf. Við verðum auðvitað að gera það. Við megum ekki alltaf búast við því að það sé ætlan manna að brjóta lög, brjóta siðferði og brjóta allar reglur. Við verðum fyrst og fremst að ætlast til þess að menn séu tilbúnir að fara að lögum, fara að reglum og sinna verkum sínum af bæði skynsemi og meðalhófi.

Ef við erum að feta nýjar brautir sem við erum sannarlega að gera, við erum að auka heimildir til Samkeppniseftirlitsins, þá hlýtur það um leið að leggja þær kvaðir á okkur í þinginu að við séum tilbúin til að fylgjast mjög gaumgæfilega með því hvernig Samkeppniseftirlitið fer fram með þessar heimildir og hvernig það vinnur með þær. Ég vil í það minnsta trúa því — þrátt fyrir þann vafa sem ég hef verið að planta hér og þær efasemdir um hvernig Samkeppniseftirlitið hafi unnið hingað til — að sú stofnun sem og aðrar í samfélagi okkar geti bætt sig og það sé nauðsynlegt að þær geri það. Ég vil því gefa þeim það tækifæri að þær sinni þessu því að það er mikilvægt að hér sé eðlileg samkeppni, ég tek undir það með hv. þingmanni, því að hún mun væntanlega skila okkur hvað mestu þegar fram í sækir.



[16:53]Útbýting:

[16:53]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður tekið til máls við umfjöllun um þetta mál í 2. umr. en mig langar aðeins við 3. umr. málsins að árétta nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að komi fram í þingsal.

Í frumvarpi til breytinga á þessum samkeppnislögum er m.a. lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði heimilt að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum ef það getur sýnt fram á það með fullnægjandi rökum að staða þeirra á markaðnum feli í sér alvarlega röskun á samkeppni. Þetta er helsta álitamálið sem um er fjallað og ég ítreka að Samkeppniseftirlitinu er einungis heimilt að grípa til þessara aðgerða séu fullnægjandi rök til þess að staða viðkomandi fyrirtækja á markaðnum feli í sér alvarlega röskun á samkeppni.

Þegar fyrirtæki sem er í einokunar- eða yfirburðastöðu á markaði er skyldað til að selja hluta af fyrirtæki eða stofna ný fyrirtæki í samkeppni fær það fyrirtæki eða hluthafar þess hagnaðinn af sölunni eða eignarhlut í hinu nýja fyrirtæki. Fyrirtæki í einokunarstöðu fær þar af leiðandi endurgjald fyrir þær eignir sem afhentar eru hinum nýja samkeppnisaðila. Aftur á móti glatar fyrirtækið því verðmæti sem felst í einokunarstöðu sem samanstendur af þeim hluta fyrirtækisins, þ.e. eigninni sem látin er af hendi og þeim hluta fyrirtækisins sem eftir stendur. Að því leyti sem ákvörðun um uppskiptingu fyrirtækis skapar skilyrði fyrir virka samkeppni kynni hagnaðurinn af einokunarstöðu fyrirtækisins í heild, þ.e. samanlagðra eigna þeirra sem seldar eru og ekki seldar, að minnka úr því sem leiðir af einokunarstöðu niður í þann hagnað sem leiðir af virkri samkeppni. Það er mat þess sem hér stendur að það sé ekki ósanngjarnt að neita fyrirtæki um þann rétt sem hlýst af einokunarstöðunni og það er m.a. markmiðið með þessu frumvarpi.

Það skiptir máli í þessu sambandi að samkvæmt frumvarpinu verður heimild gefin til Samkeppniseftirlitsins að skipta upp fyrirtækjum en einungis ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Samkeppniseftirlitið verður að sanna að skipulag eða uppbygging fyrirtækisins komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Þannig er staða almennings eða neytenda ætíð lögð til grundvallar og ég árétta að Samkeppniseftirlitið verður að sýna fram á það að neytendur hafi hag af því að viðkomandi fyrirtæki sé skipt upp því að við þekkjum það að oft getur komið til þess að hagkvæmara er fyrir neytandann ef fyrirtækin eru stór vegna þess að þá geta þau t.d. stöðu sinnar vegna keypt inn á hagkvæmari hátt og það getur leitt til betri stöðu neytenda. Ef það skilyrði er hins vegar ekki uppfyllt, og önnur skilyrði, er Samkeppniseftirlitinu heimilt að skipta upp fyrirtækinu. Um leið þarf Samkeppniseftirlitið að sanna að uppskipting fyrirtækisins sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu fyrirtækisins á markaðnum og að vægari aðgerðir en uppskipting geti ekki náð sama árangri. Það er þessi ríka krafa um meðalhóf sem verður ætíð lögð til grundvallar.

Þess ber að geta í þessu sambandi að í frumvarpi sem varð að lögum árið 2002, samkeppnislögum, er rakið að sérstaklega sé brýnt að verja eða efla samkeppni í efnahagskreppum þar sem slíkt stuðlar að hraðari endurreisn atvinnulífsins almenningi til hagsbóta. Þá segir að líta beri til þess að landfræðileg einangrun landsins, fámenni og tilhneiging til myndunar fákeppnismarkaða feli í sér sterk rök fyrir því að hér á landi gildi mjög öflug samkeppnislög. Sökum þessa er það mat þess sem hér stendur að brýnt sé að styrkja samkeppnislögin og gera Samkeppniseftirlitinu enn frekar kleift að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem geta stafað m.a. af óhæfilegri samþjöppun á markaði og skaðlegri fákeppni. Þá getur það farið svo að markaðsstyrkur fyrirtækis og staða á markaði geti verið með þeim hætti að hún raski alvarlega samkeppni til tjóns fyrir neytendur og efnahagslífið í heild og uppskipting slíks fyrirtækis getur því verið ein leið af mörgum til að stuðla að því að almenningur njóti kosta virkrar samkeppni á mikilvægum markaði.

Að þessu sögðu vil ég, frú forseti, árétta að það er mat undirritaðs, þess sem hér stendur, að mikilvægt sé að frumvarp þetta verði að lögum. Það virðist vera mat minni hluta viðskiptanefndar að frumvarpið sé stórhættulegt fyrir atvinnulífið í landinu og setur fram rök því samfara í niðurlagi minnihlutaálits. Ég svaraði því að einhverju leyti í andsvörum fyrr í dag. Ég vil árétta að ef það er mat viðkomandi þingmanna að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að óttast þessa löggjöf þá eru viðkomandi þingmenn um leið að segja að þau hin sömu fyrirtæki séu í þannig stöðu, þ.e. í einokunarstöðu á kostnað virkrar samkeppni, á kostnað neytenda. Ég tel því að þau rök sem þar eru fram færð séu sterkustu rökin fyrir því að þetta frumvarp verði að lögum.



[16:59]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að gera athugasemdir við þrjú atriði í stuttri en skýrri ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, fyrst um það síðasta sem hann sagði. Þegar löggjafinn setur matskenndar reglur eins og þessa inn í löggjöf felst auðvitað alltaf í því hætta á því að reglunni kunni að verða beitt með öðrum hætti en til var ætlast í upphafi. Þegar reglur eru settar sem fela í sér að opinberir aðilar, t.d. eftirlitsaðilar, fá mikið vald eru oft settar mjög skýrar reglur um það hvenær og hvernig þeir geta beitt slíku valdi.

Í fyrri umræðu um þetta mál hef ég einmitt vakið athygli á því að í þessu tilviki væri ekki um að ræða slíkar skýrar reglur um það hvenær nota ætti heimild af þessu tagi og hvenær ekki. Þess vegna er hið matskennda svigrúm stjórnvaldsins enn þá meira en algengt er, og algengast, þegar um er að ræða reglur um opinbert eftirlit eða opinber afskipti af einhverju tagi. Nægir að vísa til skattalaga og ýmissa annarra mikilvægra lagabálka þar sem mjög ítarlegar reglur eru um það hvenær hið opinbera stjórnvald getur beitt bæði íþyngjandi aðgerðum og þvingunaraðgerðum gagnvart þeim sem í hlut eiga.

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann hefði ekki talið neina ástæðu til að taka mark á þeim ágætu sérfræðingum á sviði samkeppnisréttar sem komu fyrir nefndina. Vísa ég þar einkum (Forseti hringir.) til kennaranna í samkeppnisrétti í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands.



[17:01]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið látið að því liggja í málflutningi um þetta frumvarp í dag og við fyrri stig þessa máls að hér sé um að ræða matskennda heimild sem Samkeppniseftirlitið geti beitt án þess að um fullnægjandi rökstuðning sé að ræða. Í minnisblaði sem barst viðskiptanefnd í fyrravor þegar þetta mál var til umfjöllunar í nefndinni fyrst — eins og sjá má á dagsetningunni hefur það verið ansi lengi á borði viðskiptanefndar — gerir Samkeppniseftirlitið skriflega grein fyrir meginþáttum við rannsókn máls eins og þessa. Í fyrsta lagi þarf Samkeppniseftirlitið að skilgreina mjög ítarlega málið og markaði sem því tengjast landfræðilega, hvers konar markaði sé um að ræða o.s.frv., og í framhaldi af skilgreiningu markaða að afla ítarlegra upplýsinga um aðstæður á viðkomandi mörkuðum. Að því loknu tekur Samkeppniseftirlitið saman greinargerð sem nefnist andmælaskjal þar sem helstu atvikum málsins er lýst og greint er frá því hvaða tilteknu aðstæður eða háttsemi kunni að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga eða kunni að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Andmælaskjalið er svo sent málsaðilum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að gera skriflegar athugasemdir og koma að skýringum eða gögnum.

Að fram komnum öllum sjónarmiðum í málinu tekur Samkeppniseftirlitið formlega ákvörðun og sé það niðurstaða eftirlitsins að beita íhlutun, svo sem uppskiptingu fyrirtækis, verður eftirlitið að leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að ræða. Jafnframt verður að ganga úr skugga um að ekki sé fyrir hendi annað jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi. Þegar Samkeppniseftirlitið hefur tekin ákvörðun geta svo viðkomandi fyrirtæki skotið henni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála eða eftir atvikum dómstóla í framhaldinu.

Sé um uppskiptingu fyrirtækis að ræða gildir sú undantekningarregla til hagsbóta fyrir viðkomandi fyrirtæki að málskot til dómstóla frestar réttaráhrifum úrskurðar og tryggir það réttaröryggi viðkomandi fyrirtækja. Af þessu má sjá að mjög ítarleg vinna þarf að vera á öllum stigum málsins áður en til íhlutunar (Forseti hringir.) Samkeppniseftirlits kemur.



[17:03]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vísaði til málsmeðferðarreglna Samkeppniseftirlits, sem er gott og blessað. Lagaákvæðið sem við erum að fjalla um hér er hins vegar óhjákvæmilega mjög opið og matskennt, um það verður ekki deilt. Það er vísað til mjög matskenndra þátta eins og aðstæðna á markaði, almannahagsmuna og hagsmuna neytenda sem auðvitað eru ekki afdráttarlaus stærð. Það er ekki til nein reikniformúla sem getur leitt okkur til ótvíræðrar niðurstöðu um þessa þætti, þeir eru matskenndir.

Þess vegna segi ég að þegar stjórnvöldum er að lögum falið eftirlit og íhlutunarvald sem getur verið íþyngjandi fyrir þá sem eftirlitið beinist að er lágmarkskrafa að lagareglan sé býsna skýr og það er sú löggjafarhefð sem er fyrir hendi varðandi önnur svið opinbers eftirlits. Ég nefndi áðan skattaréttinn. Í skattarétti er enginn í vafa um að það eru settar mjög stífar hömlur á það hvernig skattyfirvöld eiga að fara með vald sitt. Lögin eru mjög skýr um það efni. Hið sama á við um fjöldamörg önnur svið samfélagsins sem eru líka mjög mikilvæg.

Nú má ekki túlka orð mín svo að í þeim felist eitthvert vantraust gagnvart þeim einstaklingum sem starfa í samkeppnismálum á Íslandi, ekki frekar en það er vantraust gagnvart þeim einstaklingum sem vinna að skattamálum, að löggjafinn telji þörf á að hafa skýrar reglur en ekki opnar og matskenndar um það hvernig fara eigi með valdið í skattamálum. Þegar við felum opinberum aðilum mikið vald (Forseti hringir.) er eðlilegt að því valdi séu settar skýrar skorður í lögum.



[17:06]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum sammála um það, við hv. þm. Birgir Ármannsson, að samkeppni sé mikilvæg og af hinu góða. Ég vil leita allra leiða til þess að efla virka samkeppni í þessu landi og ég tel að þetta frumvarp sé mikilvægt skref í þá átt.

Um leið er mikilvægt að hér í landi séu öflugar eftirlitsstofnanir sem geti tryggt að markaðurinn virki á réttan hátt. Við höfum lært það á undangengnum árum að það er ekki gott að hafa eftirlitsstofnanir sem eru ekki öflugar og hafa ekki ríkar heimildir og af því erum við að reyna að læra. Útgangspunkturinn í þessu frumvarpi er ætíð sá, og ég vil ítreka það hér, að hagsmunir neytenda liggi ætíð til grundvallar við alla ákvörðunartöku og við flókið ferli ákvörðunartöku innan Samkeppniseftirlitsins eins og ég rakti áðan. Ef hagsmunir neytenda eru þeir að ekki beri að skipta upp fyrirtækjunum verður fyrirtækjunum ekki skipt upp. Sé það hagsmunum neytenda fyrir bestu að fyrirtækjunum sé skipt upp vegna þess að þau séu í einokunarstöðu og innheimti einokunarhagnað, eins og ég rakti í ræðu minni, ber að skipta þeim upp.

Staða neytenda liggur ætíð til grundvallar. Ef við óttumst um stöðu íslensks atvinnulífs út frá þessari lagasetningu viðurkennum við um leið að stór hluti íslenskra fyrirtækja sé í einokunarstöðu og innheimti hagnað á kostnað neytenda en búi ekki í virkri samkeppni og ekki í umhverfi þar sem neytendur hér á Íslandi, sem búa t.d. við hátt verð á mörgum vörum, njóti samkeppni á fjölbreyttum mörkuðum þannig að fyrirtækin keppi á grundvelli samkeppninnar en ekki á grundvelli viðkomandi stöðu í krafti fákeppni.



[17:08]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferð mikilvægt frumvarp sem miðar að því að efla virka samkeppni í atvinnulífi okkar neytendum í landinu til hagsbóta. Með nokkurri einföldun má halda því fram að eitt helsta sérkenni íslensks viðskiptalífs sé fámennið sem leiðir af sér að samkeppni á víða undir högg að sækja. Ísland er að stórum hluta fákeppnismarkaður og leiðin til virkrar samkeppni því oft og tíðum torsótt.

Á undanförnum árum hafa komið upp mál sem tengjast fákeppni og samþjöppun á mikilvægum mörkuðum, svo sem matvöru-, mjólkurvöru-, fjarskipta-, lyfja- og fjölmiðlamarkaði svo nokkur dæmi séu nefnd. Við aðstæður þar sem einn eða fáir aðilar ráða lögum og lofum á tilteknum mörkuðum er hætta á að hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir. Það er mikilvægt að við látum ekki fámennissjónarmið draga úr viðleitni okkar til að stíga skref sem færa okkur nær takmarkinu um heilbrigða viðskiptahætti á virkum samkeppnismarkaði.

Mikilvægasta ákvæði þessa frumvarps kemur fram í 2. gr. þar sem Samkeppniseftirlitinu eru færðar nýjar heimildir til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að efla samkeppni. Þessa aðgerðir geta verið af ýmsu tagi. Þær geta í alvarlegustu tilvikum falið í sér að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum ef rannsóknir eftirlitsins gefa til kynna að aðgerðir séu nauðsynlegar til að vernda mikilvæga almannahagsmuni. Kveikjan þarf að vera aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns.

Nýmæli er að Samkeppniseftirlitið þarf ekki að sýna fram á að viðkomandi fyrirtæki hafi brotið gegn bannreglum samkeppnislaga. Eins og kemur fram í frumvarpinu er hins vegar skýrt að Samkeppniseftirlitið þarf að uppfylla tiltekin skilyrði svo grípa megi til þessara valdheimilda.

Þetta kemur vel fram í athugasemdum við frumvarpið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verður Samkeppniseftirlitið í því samhengi að skilgreina viðkomandi markað og leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að tefla. […] Ljóst er hins vegar að aðeins verður gripið til slíkra aðgerða í undantekningartilvikum og uppfylla verður ákvæði 3. málsl. 2. mgr. um að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi.“

Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi kemur þarna fram að á Samkeppniseftirlitinu hvílir rík rannsóknarskylda, sönnunarbyrði og krafa um skýran rökstuðning fyrir aðgerðum. Í öðru lagi er lögð áhersla á það með breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í sínum aðgerðum á markaði. Í þriðja lagi er skýrt að hér er um að ræða eins konar neyðarhemil sem eingöngu skal gripið til í undantekningartilvikum þegar ríkir almannahagsmunir krefja. Loks er rétt að árétta að viðkomandi fyrirtæki geta skotið ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum til dómstóla.

Það hefur komið fram í umfjöllun viðskiptanefndar að fyrirmyndir að slíkum almennum valdheimildum er að finna í löggjöf nágrannaþjóða okkar austan hafs og vestan. Í fyrsta lagi má benda á fordæmi úr norsku samkeppnislöggjöfinni þar sem í 14. gr. kemur fram að unnt sé að grípa til almennra stjórnvaldsaðgerða gegn skilmálum, samningum eða aðgerðum sem takmarka eða eru líklegar til að takmarka samkeppni. Þessu ákvæði má beita jafnvel þó að fyrirtæki hafi ekki brotið gegn bannákvæðum norskra samkeppnislaga.

Í greinargerð með norsku lögunum segir að bannákvæði norskra laga, sem eru sambærileg bannákvæðum íslensku samkeppnislaganna og lúta að ólöglegu samráði og misnotkun markaðsráðandi stöðu, eigi að taka til flestra tilfella sem varða aðstæður sem hamla eða skaða samkeppni. Hins vegar sé ekki hægt að útiloka að upp kunni að koma aðstæður þar sem bannákvæðin veiti ekki nægilega vernd og eru nefndir sem dæmi söluskilmálar sem hamla því að nýir aðilar komist inn á markaði.

Í öðru lagi má vísa til samkeppnisréttar í Bretlandi þar sem einnig er að finna víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða gegn hömlum á samkeppni þar sem sömuleiðis er ekki gert að skilyrði að um brot a bannreglum breskra samkeppnislaga sé að ræða.

Í þriðja lagi má vísa til samkeppnislaga vestan hafs, í Bandaríkjunum, en á grundvelli þeirra hafa bandarísk samkeppnisyfirvöld heimild til að banna eða breyta háttsemi fyrirtækja jafnvel þó að ekki sé brotið gegn bannreglum bandarískra samkeppnislaga.

Ég vil geta þess að ég tel að sú breyting á frumvarpinu sem samþykkt var eftir 2. umr. málsins þar sem kveðið er sterkar að orði um skilyrði fyrir inngripi Samkeppniseftirlitsins sé afar mikilvæg, en þar er kveðið á um að forsenda aðgerða eftirlitsins sé aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Þetta felur í sér ríka rannsóknarskyldu og sönnunarbyrði á hendur eftirlitinu sem er mikilvæg forsenda þess að ákvæðinu sé ekki beitt með ómálefnalegum hætti. Sérstaklega árétta ég að breytingartillagan tekur mið af 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn sem kveður á um að almannaþörf sé forsenda inngrips í eignarréttinn. Þessi breytingartillaga er í samræmi við tillögur Félags atvinnurekenda sem fram kom í umsögn þess félags. Það félag og Neytendasamtökin hafa lýst yfir miklum stuðningi við frumvarpið og telja að með því sé stigið mikilvægt skref í átt að bættri samkeppnislöggjöf hér á landi.

Virðulegi forseti. Hrun fjármálamarkaðarins hefur opnað augu okkar allra fyrir miklum brotalömum í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi þar sem ljóst er að skortur á virku eftirliti og veikir lagarammar hafa valdið íslenskum almenningi miklum skaða. Í kreppuástandi er enn mikilvægara en ella að huga að vel að samkeppnissjónarmiðum því að freistingin til að líta fram hjá skaðlegum áhrifum fákeppni kann að vera óvenjusterk við þær aðstæður. Lokatakmarkið með allri samkeppni er hins vegar bætt þjónusta og lægra vöruverð til almennings í landinu og það er ekki síst á þeim forsendum sem þetta frumvarp er reist.

Ég tel það skyldu okkar, þingmanna á Alþingi, að stíga skref sem efla og styrkja samkeppni í atvinnulífinu því að fátt þjónar betur langtímahagsmunum íslensks almennings.



[17:14]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé kominn út á mjög hálan ís þegar hann fer að lýsa norsku og bresku samkeppnislögunum og uppbrotsheimildum þar sem einhverju fordæmi eða sambærilegu ákvæði við það sem hér er til umfjöllunar. Það er fyrir löngu búið að blása á það í meðförum nefndarinnar og í meðförum málsins að ákvæði norskra og breskra samkeppnislaga séu sambærileg því ákvæði sem lagt er til að lögfest verði hér, en allt um það.

Í ljósi þess að okkar færustu sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar hafa haft uppi efasemdir um að ákvæði frumvarpsins brjóti í fyrsta lagi í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, í öðru lagi að það sé óskýrt og matskennt, í þriðja lagi að það feli í sér ólögmætt framsal á valdi til Samkeppniseftirlitsins og í fjórða lagi að það sé ekki til bóta gagnvart þeirri löggjöf sem nú gildir á sviði samkeppnismála, þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki, svo notað sé orðalag forseta Íslands frá því um helgina, manndóm, getu og burði til að viðurkenna að það hljóta að renna á hann tvær grímur, þegar fram koma svo alvarlegar athugasemdir frá okkar færustu sérfræðingum á þessu réttarsviði, hvort hann sé enn jafnsannfærður um ágæti málsins. Ég hefði haldið í ljósi þeirrar umfjöllunar sem átt hefur sér stað í þinginu, vandaða og faglega meðferð mála, að hv. þingmaður ætti kannski að hugsa sig um áður en hann samþykkir frumvarp eins og þetta þegar fram hafa komið svo alvarlegar athugasemdir.



[17:16]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir spurninguna. Hann bendir á að athugasemdir hafi komið fram við þau fordæmi sem ég nefndi úr norsku, bresku og bandarísku samkeppnislöggöfinni. Það er hárrétt að það var gagnrýnt og dregið fram í umfjöllun nefndarinnar. Ég er hins vegar ósammála því að þetta séu ekki fyrirmyndir sem við getum litið til þegar við horfum til þess hvort eðlilegt sé að veita Samkeppniseftirlitinu heimildir af þessum toga. Ég tel að samkeppnisumhverfi okkar sé þannig að okkur sé akkur í því að Samkeppniseftirlitið hafi fleiri tæki til að beita úrræðum sem verja og endurheimta almannahagsmuni en það hefur í dag, sérstaklega þegar við lítum til þeirrar ríku rannsóknarskyldu sem sett er á herðar Samkeppniseftirlitinu í málinu. Það er ekki eins og eftirlitið geti beitt þessu tæki sínu upp á hvern dag, í hverri viku eða hverjum mánuði með ómálefnalegum hætti heldur þarf aðgerðum að fylgja ítarlegur rökstuðningur og gæta meðalhófs að auki þannig að úrræði eftirlitsins séu í réttu samhengi við meint brot eða meinta háttsemi viðkomandi fyrirtækja.

Það er rétt í gagnrýni sérfræðinganna að úrræðið er matskennt og rétt er að viðurkenna það. Það á að hvetja þingheim til að vera vel á vaktinni gagnvart þessari beitingu ákvæðisins svo að Samkeppniseftirlitið ræki með vönduðum og eðlilegum hætti þessa rannsóknarskyldu og sönnunarbyrði sem ég hef þegar nefnt. En ég tel að það miklir hagsmunir séu undir, ríkir almannahagsmunir sem geri það að verkum að við yrðum í betri stöðu með samþykkt þessa frumvarps heldur en við erum í í dag.



[17:19]
Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki svara fyrir hv. þingmann en ef fram kæmu athugasemdir frá færustu sérfræðingum þjóðarinnar á sviði samkeppnisréttar og ég væri flutningsmaður að þessu frumvarpi og athugasemdirnar lytu að því að verulegur vafi væri á því að efni frumvarpsins stæðist ákvæði stjórnarskrár, að um væri að ræða ólögmætt framsal valds til Samkeppniseftirlitsins, að frumvarpið bætti ekki núgildandi samkeppnislög og að ákvæði sem það mælir fyrir um væri svo óskýrt og matskennt að ekki væri hægt að búa við það, þá mundu renna á mig tvær grímur. Ég tala ekki um í ljósi allrar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í þingsalnum um fagleg, vönduð og góð vinnubrögð við lagasetningu.

Ég hlýt að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns, hvort hann taki ekkert mark á þessum athugasemdum og efasemdum okkar færustu sérfræðinga, hvort hann ætli bara að ýta þeim út af borðinu eins og þær hefðu ekki komið fram. Mér væri alla vega frekar órótt ef slíkur dómur yrði felldur um frumvarp sem ég væri að mæla fyrir.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Samkeppniseftirlitið fer eftir alls kyns verklagi í málsmeðferð einstakra mála og allt gott um það og ýmsir stuðningsmenn frumvarpsins hafa fjallað um það í ræðum sínum. En megingagnrýni þeirra sem gagnrýnt hafa þetta ákvæði, þar á meðal fræðimennirnir, hafa sagt að þau væru góðra gjalda verð, þ.e. þær málsmeðferðarreglur (Forseti hringir.) sem hér hefur verið lýst, ef þau væri að finna í lagatextanum sjálfum. Meðan svo er ekki verður ákvæðið eftir sem áður óljóst, (Forseti hringir.) matskennt og í rauninni óskiljanlegt. Það er neytendum ekki til góðs frekar en fyrirtækjunum.



[17:21]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég bý að því ágæta taugakerfi að ég fer ekki af hjörunum þó að fram komi gagnrýni frá aðilum í samfélaginu á þetta frumvarp eða önnur. Maður tekur að sjálfsögðu mark á þeim gagnrýnisröddum sem fram koma, en að sjálfsögðu erum við alltaf í þeirri stöðu að þurfa að vega og meta þá hagsmuni sem við erum með í höndunum og hvort þeir hlutir sem við erum að leggja til í þingmálum séu líklegir til að færa okkur betri stöðu en við erum í í dag. Ég hef fyrir því góða tilfinningu að við séum á rétti leið með þetta mál þegar ég hef í huga þær ríku skyldur sem eru settar á herðar Samkeppniseftirlitinu að færa ítarleg rök fyrir máli sínu og skilgreina vel þá markaði sem um ræðir í hverju tilviki og gæta síðan meðalhófs í niðurstöðum sínum og úrskurðum. Ég tel að þar séu nægilegar girðingar sem koma í veg fyrir að þessu ákvæði sem skiptir að mínu mati máli, að bæta inn í tækjakost Samkeppniseftirlitsins, verði beitt með skynsamlegum hætti í framtíðinni.



[17:22]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í umræðunni nokkrum sinnum vakið athygli á því að hér væri um að ræða afar matskennda heimild til handa samkeppnisyfirvöldum. Hv. þm. Skúli Helgason og raunar fleiri hafa vísað til þess að verklagsreglur samkeppnisyfirvalda og aðrar meginreglur hjálpi til við að túlka þau almennu sjónarmið sem þarna koma fram.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Skúla Helgason hvort það hafi verið skoðað alvarlega í viðskiptanefnd, ég á ekki sæti í þeirri nefnd, að setja skýrari ákvæði í þessu efni en frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég vísa til þess eins og ég hef gert áður að í fjölmörgum öðrum lagabálkum þar sem opinberum aðilum er falið mikið vald til að gæta almannahagsmuna eru engu að síður settar skýrar reglur um hvernig þau eigi að fara með vald sitt og hvenær vald, íþyngjandi ákvarðanir og aðrar slíkar ákvarðanir af þeirra hálfu eigi við. Þetta er gert vegna þess að stjórnsýslan í landinu á að vera lögbundin og mikilvægustu reglur um hvernig fara ber með opinbert vald eiga að vera lögfestar en ekki eingöngu í einhverjum verklagsreglum einstakra stjórnvalda.



[17:25]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir spurninguna. Hún er mikilvæg. Ég rakti það í minni stuttu ræðu áðan og vitnaði beint í greinargerð með frumvarpinu, sem er lögskýringargagn og litið verður til á komandi árum, að fyrir því sé séð í þessu máli að Samkeppniseftirlitið þurfi að líta til vandaðra vinnubragða, skilgreina viðkomandi markaði, leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að ræða og tryggja að eingöngu verði gripið til aðgerða sem eru í samræmi við þá háttsemi að brot hafi átt sér stað. Ég tel því að nefndin hafi litið til þess að hér væri um að ræða úrræði sem væru fullnægjandi í þeirri stöðu sem við erum. Þær ríku rannsóknarskyldur sem lagðar eru á Samkeppniseftirlitið eru algert lykilatriði í framkvæmd þeirra úrræða sem hér er verið að leggja til.



[17:26]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Guð láti gott á vita í þessum efnum og verði frumvarpið að lögum vona ég að þær áhyggjur sem ég hef hér orðað reynist ekki á rökum reistar. Við berum almennt það traust til þeirra sem fara með opinbert vald að þeir fari vel með það. En engu að síður er það þannig í löggjöf bæði hér á landi og erlendis. Ef við horfum á löggjöfina hér á landi þar sem opinberum aðilum er falið mikið vald þá eru jafnan settar skýrar reglur um það í lögunum sjálfum hvernig eigi að fara með það vald. Stór hluti af skattalögunum er einmitt þess eðlis. Í stórum hluta af lögum um fjármálamarkaði, bæði eldri löggjöf á því sviði og nýrri, að verið er að gefa Fjármálaeftirliti og öðrum eftirlitsaðilum ákveðnar heimildir en það eru jafnframt skýr fyrirmæli um það hvernig þau eiga að fara með það vald, hvernig þau eiga að beita því o.s.frv. (PHB: Umhverfislög.) Og umhverfislög, segir hv. þm. Pétur Blöndal réttilega.

Það er almennt viðhorf í lagasetningu að þegar opinberum aðilum er fengið mikið vald er talið rétt, eða hefur verið fram til þessa, að setja líka skýrar reglur um hvenær þessu valdi má og á að beita og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Þetta viðhorf virðist hins vegar mjög lítið komast að hjá meiri hluta viðskiptanefndar í meðferð þessa máls og alltaf vitnað til þeirra göfugu markmiða sem eru með frumvarpinu, sem ég get tekið undir, að ég vil auðvitað eins og frumvarpsflytjendur og stuðningsmenn þess efla samkeppni í landinu, en ég held að rétt sé að gera það með þeim hætti sem virkar og stenst og sem er ekki, eins og þetta frumvarp, líklegt til að leiða fjölda ágreiningsmála fram á komandi árum vegna þess að ákvæðið er svo matskennt.



[17:28]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi gert ágæta grein fyrir því í ræðu minni að það skiptir einmitt mjög miklu máli hvernig Samkeppniseftirlitið fer með þetta vald og það kom fram í lögskýringargögnum, þ.e. athugasemdum við frumvarpið, með nákvæmum hætti enda vitnaði ég beint í frumvarpið þegar ég dró það fram að Samkeppniseftirlitið þarf að skilgreina viðkomandi markað, leiða skýrt í ljós þær samkeppnishömlur sem um væri að ræða. Sömuleiðis er þar slegið í gadda að þessu ákvæði verði eingöngu beitt í undantekningartilvikum og loks að þess sé gætt að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi, meðalhófsreglan, sem áður hefur komið fram í umræðunni. Ég tel því að vel sé fyrir þessu séð og það er einmitt ástæðan fyrir því að ég vildi gera þetta sérstaklega að umtalsefni.

Hins vegar er víða í löggjöf okkar um að ræða ákvæði sem eru að einhverju leyti matskennd og það helgast af eðli viðkomandi mála. Stundum erum við með aðstæður sem eru þess eðlis að ekki er hægt að sjá fyrir öll þau tilvik fyrir fram sem geta komið upp og geta kallað á heimildir af þessu tagi. En þegar allir hlutir eru dregnir saman, mikilvægi þess að Samkeppniseftirlitið hafi sterkari stöðu gagnvart málum sem tengjast fákeppni og markaðsráðandi stöðu einstakra fyrirtækja sem eru almenningi til tjóns — ég ítreka að það er lykilatriði í málinu — þá tel ég að frumvarp þetta sé til bóta og það eigi að ná fram að ganga en ég ítreka sömuleiðis að sjónarmið minni hlutans eru réttmæt og kalla á það að Alþingi ræki eftirlitshlutverk sitt mjög nákvæmlega á komandi missirum.



[17:30]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að þetta mál hefur ekki breyst frá 2. umr. um frumvarpið, meiri hluti viðskiptanefndar leggur til að það verði samþykkt óbreytt frá fyrri umræðu, verða mörg af þeim sjónarmiðum sem ég kem inn á í þessari ræðu við 3. umr. í sama dúr og ég hef áður látið koma fram í þessum sal þegar þetta mál hefur borið á góma. Ég ætla þó að nefna eitt sem ég hygg að ég hafi ekki nefnt áður sem skiptir máli. Það er vísað til þess í almennum athugasemdum og raunar ræðum ýmissa hv. þingmanna að aðstæður í kjölfar efnahagshrunsins og aðstæður í kreppu leiði til þess að það sé rétt að efla samkeppnisyfirvöld og má taka undir það. Það eru ákveðnar samkeppnislegar hættur í því ástandi sem hér hefur skapast í kjölfar efnahagsófaranna haustið 2008.

Þær hættur sé ég m.a. birtast í eignarhaldi fjármálastofnana á fyrirtækjum í fullum rekstri og fullri samkeppni við önnur fyrirtæki eða eignarhaldi hins opinbera, beinu eða óbeinu, á fyrirtækjum sem eru í fullri samkeppni. Ég held að í mjög mörgum tilvikum geti þetta beina og óbeina eignarhald, tökum sem dæmi fjármálafyrirtækjanna sem ráða beint og óbeint mjög stórum hluta fyrirtækja á íslenskum markaði í dag, leitt til mjög ójafnrar samkeppnisstöðu. Að minnsta kosti eru verulegar hættur í því. Það eru verulegar hættur í því að þeir sem ekki eru í fangi bankanna með sama hætti beri skarðan hlut frá borði í þeirri samkeppni sem þeir þurfa að eiga við aðila sem hafa til þess að gera öfluga bakhjarla eins og fjármálastofnanir, opinberar eða hálfopinberar, eða þá bara ríkið sjálft. Ég held að þetta sé atriði sem samkeppnisyfirvöld og raunar við á Alþingi ættum að horfa dálítið betur og meira á á þessari stundu en við höfum gert. Ég er raunar þeirrar skoðunar að það frumvarp sem hér liggur fyrir feli ekki á neinn hátt í sér svör við þeim vandamálum sem þarna eru uppi, alls ekki. Ég held að það snerti ekki það svið, a.m.k. ekki neitt áþreifanlega. Ég held að það væri eðlilegra og heppilegra ef við á þingi sameinuðumst um að styðja samkeppnisyfirvöld í því að beita sér á þessu sviði þar sem fyrirtæki, einkafyrirtæki í mörgum tilvikum, eiga í mjög ójafnri samkeppni við fyrirtæki sem eru í fangi einhverra fjármálafyrirtækja. Ég held að við ættum að skoða þá þætti miklu frekar og hvetja samkeppnisyfirvöld til að beita sér á þeim vígstöðvum. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir okkur því að þar held ég að fjöldamörg vandamál séu uppi og ástæða til að taka til hendinni.

Að sama skapi er ég þeirrar skoðunar að það sé rétt fyrir okkur í þinginu að styðja og efla viðleitni samkeppnisyfirvalda til að sinna þeim verkefnum sem því eru nú þegar falin í lögum, svo sem eftirliti og viðbrögðum gagnvart misnotkun á markaðsráðandi stöðu og brotum á samkeppnislögunum eins og þau eru í dag. Ég held að það væri gott ef við gætum eflt samkeppnisyfirvöld þannig að þau gætu betur rækt það hlutverk sitt að fylgjast með brotum á samkeppnislögunum, brotum sem geta birst í ólögmætu samráði, í misnotkun á markaðsráðandi stöðu o.s.frv. Ég held að það væri gott ef við gætum eflt samkeppnisyfirvöld þannig að þau gætu aukið málshraða sinn í þeim efnum þannig að úrræðin yrðu skilvirkari. Ég held að það væri jákvætt. Þetta frumvarp snýst ekki um það, það snýst um eitthvað annað.

Ég tel að það væri líka æskilegt að við á þinginu gætum staðið við bakið á samkeppnisyfirvöldum um að efla málsmeðferð í sambandi við samruna fyrirtækja og slíka þætti, að við gætum eflt samkeppnisyfirvöld þannig að þau gætu með skjótvirkari hætti tekið á samrunamálum eins og þau hafa heimildir til að gera í dag en málsmeðferð hefur því miður stundum tekið langan tíma, öllum aðilum til skaða, bæði almenningi og þeim aðilum sem standa að samrunanum. Ég held að öllum væri til hagsbóta að efla málsvara á því sviði. Þetta frumvarp snýst ekki um það, það snýst um aðra hluti. Það eru mjög mikilvægir þættir sem fela í sér eflingu á störfum samkeppnisyfirvalda sem þetta frumvarp breytir engu um, hjálpar ekkert til.

Lykilatriðið í sambandi við þann ágreining sem hefur komið fram um þetta frumvarp snýst um nýja heimild samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða sem geta verið íþyngjandi, jafnvel afar íþyngjandi í tilvikum þar sem fyrirtæki hafa ekki brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Það hefur ekkert brot átt sér stað, en engu að síður gerir frumvarpið ráð fyrir því að samkeppnisyfirvöldum verði heimilað að beita íþyngjandi aðgerðum, nánast viðurlögum. Við getum kallað það íþyngjandi aðgerð því að ekki er um eiginleg viðurlög að ræða, heldur aðgerðir sem geta verið íþyngjandi og jafnvel meira íþyngjandi en mörg af þeim viðurlögum sem samkeppnislögin fela í sér í dag. Heimildin snýst sem sagt um að heimilt verði að grípa til íþyngjandi aðgerða án þess að nokkur brot séu fyrir hendi. Það er mikilvægt að hafa í huga.

Ég endurtek það sem ég hef sagt áður við þessa umræðu, ég hef enga samúð með þeim sem misbeita markaðsráðandi stöðu sinni, þeim sem eru sekir um ólögmætt samráð eða önnur slík brot á reglum samkeppnislaga, ég hef enga samúð með þeim. Ég hef hins vegar tilhneigingu til að hafa nokkra samúð með þeim sem reka fyrirtæki og geta lent í því að fá fyrirmæli frá opinberum stofnunum um að þeir eigi að skipta upp fyrirtæki sínu jafnvel þótt þeir hafi ekkert gert af sér. Ég tel að við verðum að fara afar varlega út á þá braut.

Hér hafa verið reifuð ákveðin sjónarmið í því sambandi. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í áliti minni hluta viðskiptanefndar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég tek eindregið undir þau sjónarmið sem þeir leggja áherslu á í sínu máli þar sem þeir vara við þessari heimild. Ég undirstrika sérstaklega að ef það er ætlun löggjafans, eins og nú virðist allt stefna í, að setja ákvæði af þessu tagi inn, ákvæði sem felur í sér að jafnvel verði hægt að brjóta upp fyrirtæki án þess að um nokkurt brot á samkeppnisreglum sé að ræða, er lágmarkskrafa að slíkt ákvæði sé vel formað, vel skilgreint og vel skýrt. Því miður er það ekki staðan núna við 3. umr. þessa máls. Ákvæðið er enn þá allt of matskennt, allt of óljóst og sker sig mjög úr, eins og ég hef bent á í andsvörum, þegar horft er til þess hvaða lagasetningarleið hefur verið farin þegar öðrum opinberum stjórnvöldum eru falin mikil völd og miklar heimildir til að grípa til íþyngjandi aðgerða. Þar er jafnan um það að ræða að þessum völdum hinna opinberu aðila eru settar talsverðar skorður og jafnvel sett ítarlega fram í lagatextanum sjálfum hvenær kemur til greina að beita heimildinni og hvernig það skuli gera.

Það er rétt sem fram kemur, m.a. í áliti meiri hluta viðskiptanefndar, að á þessu sviði gilda margvíslegar reglur hins almenna stjórnsýsluréttar, stjórnsýslulaganna, svo sem rannsóknarregla, andmælaregla og meðalhófsregla. Það er alveg rétt að árétta það, og kannski gott að meiri hlutinn skuli árétta það í nefndaráliti sínu. Það breytir hins vegar ekki því að í annarri löggjöf sem felur í sér völd til opinbers eftirlits eða opinberra stofnana hefur engu að síður verið talið mikilvægt að setja sérstakar málsmeðferðarreglur um það hvaða sjónarmið eigi að hafa í huga til þess m.a. að gæta meðalhófs. Þar hefur verið talið nauðsynlegt að lagaramminn sé skýr þannig að borgararnir viti nokkurn veginn að hverju þeir ganga, hvenær þeir mega eiga von á íhlutun eða íþyngjandi aðgerðum o.s.frv. þannig að þeir viti nokkurn veginn fyrir fram hvernig þeir eiga að haga ákvörðunum sínum til að stíga ekki yfir það strik sem hið opinbera stjórnvald kann að vilja setja í sandinn. Það má segja að strikið í sandinum sé ósýnilegt, svo óljóst er þetta ákvæði eins og það er fram sett.

Ég endurtek að það er gott að það er viðurkennt af hálfu meiri hluta viðskiptanefndar að gæta verði meðalhófs og að öðrum reglum stjórnsýsluréttarins, en breytir engu um þá skoðun mína að það hefði verið réttara, fyrst á annað borð er farið út í það að setja inn þessa íþyngjandi heimild eða valdbeitingarheimild, að setja með skýrari hætti fram í lagatextanum sjálfum við hvaða aðstæður kæmi til greina að beita heimildinni og hvaða sjónarmið hið opinbera stjórnvald, í þessu tilviki Samkeppniseftirlitið, ætti að hafa í huga þegar það grípur til aðgerða á þeim grundvelli. Að mínu mati er ekkert óskaplega mikil frekja af mér eða þeim sem gagnrýnt hafa þetta ákvæði frumvarpsins að gera þá kröfu að það sé sett skýrt fram. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, í þessum orðum mínum felast engar aðdróttanir um það að þeir sem stýra málum hjá samkeppnisyfirvöldum séu líklegir til að fara út í einhverja misbeitingu valds eða beita ofríki á ómálefnalegum forsendum eða eitthvað þess háttar.

Þegar við setjum skýrar reglur um það hvernig t.d. skattyfirvöld fara með sitt vald og hvenær þau beita íþyngjandi aðgerðum erum við ekkert að ýja að því að skattyfirvöld séu eitthvað ómálefnaleg eða sérstaklega líkleg til að misnota vald sitt. Við erum heldur ekkert að ýja að því í lögum um umhverfismál, vinnuverndarmál eða á hverju því sviði þar sem opinbert eftirlit er sett á fót og því faldar heimildir til að beita íþyngjandi aðgerðum þegar við setjum skýrar reglur um meðferð valds. Við látum ekki nægja í skattamálunum að gefa skattyfirvöldum opnar heimildir til að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem gætu orðið til að bæta almannahag. Við mundum, held ég, flest hlæja ef við sæjum slíkt ákvæði í skattalögunum. Samt erum við að setja ákvæði í samkeppnislög sem eru ekkert mjög frábrugðin því. Svo koma þingmenn upp hver á fætur öðrum og segja: Það má ekki gagnrýna þetta því að við treystum því auðvitað að samkeppnisyfirvöld muni bara stýrast af almannahag og hagsmunum neytenda. Þess vegna á engin gagnrýni rétt á sér. Það er auðvitað mjög sérstakt og auðvitað ekki til þess fallið að fá fram málefnalega umræðu um málið. Ég er eiginlega orðinn úrkula vonar um það þegar líður að lokum þessarar 3. umr. að við fáum yfir höfuð málefnalega umræðu um þá þætti sem við höfum gagnrýnt. Það er alltaf svarað með frösum um að menn leggi svo mikið upp úr hagsmunum neytenda, menn vilji gera hvað sem er til að efla samkeppnisyfirvöld og fela þeim ríkari heimildir en það er enginn tilbúinn til að fara ofan í málið og velta því fyrir sér hvernig lagasetningin á að vera þannig að hún nái markmiðum sínum, virki, og um leið að þeim stjórnvöldum sem falið er opinbert vald séu settar ákveðnar (Forseti hringir.) hömlur um það hvernig þau fara með það vald.



[17:46]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um hlutina en það setti að mér ákveðinn ugg við umræðuna. Hingað upp komu nokkrir hv. þingmenn og sögðu að þetta væri matskennt; jú, jú, þeir treystu því að þetta yrði ekki misnotað; jú, jú, þingið yrði að vera vakandi í þessu máli og fylgjast vel með ákvörðunum og framkvæmdum framkvæmdarvaldsins. Hvað voru menn að segja, frú forseti? Menn voru í rauninni að segja að þeir væru að framselja löggjafarvald og að auka ætti eftirlitið af hendi Alþingis. Alþingi á sem sagt að fara að hafa eftirlit með eftirlitsstofnuninni Samkeppnisstofnun. Ég verð að segja eins og er að það setur að mér ákveðinn ugg þegar umræðan snýst um það að menn viti að lögin séu svo opin að þau kunni að verða misnotuð.

Ég spurði tvo hv. þingmenn að því áðan hvort þetta hefði ekki áhrif á hegðun manna sem eru að reka fyrirtæki sín vel. Það er alveg greinilegt af svörunum, sem voru reyndar ekki mjög ítarleg, að menn vita ekki hvað rekstur er. Ég held það væri kannski ágætt að menn kynntu sér atvinnulífið dálítið betur og áttuðu sig á því hvað það þýðir að reka fyrirtæki. Hvað þýðir það t.d. fyrir fyrirtæki þegar það vofir yfir að því verði skipt í tvennt? Hvað gerist þá innan fyrirtækisins? Það væri gaman ef menn reyndu að kynna sér það, sálarlíf stjórnenda og starfsmanna. Þegar kvisast út að Fjármálaeftirlitið ætli að fara að skipta fyrirtæki upp vegna þess að það sé orðið of stórt — ekki vegna þess að það hafi gert neitt af sér — segja náttúrlega bestu starfsmennirnir upp af því þeir óttast óvissuna sem hugsanlega getur varað í nokkur ár og þeir óttast líka hvað gerist með fyrirtækið. Hætta eigendurnir rekstri eða hvað gerist? Sama sagan er með eigendurna, þeir geta líka fyllst óhug og hræðslu við svona ómálefnalega ákvörðun sem þó er málefnaleg að því leyti að verið er að fara eftir lögum sem segja: Jú, fyrirtækið er orðið of stórt. Það er það eina sem það hefur gert af sér.

Mér finnst mjög slæmt hvað menn virðast rökþrota gegn þessu og segja hver á fætur öðrum að þeir treysti á að Alþingi muni vaka yfir framkvæmd þessara laga. Ég tel að hér sé verið að framselja löggjafarvald sem Alþingi ekki má. Ég er mjög andsnúinn þessari þróun og er dálítið uggandi yfir umræðunni.