139. löggjafarþing — 77. fundur
 23. feb. 2011.
lögreglulög, frh. 3. umræðu.
frv. RM o.fl., 405. mál (afnám launagreiðslna lögreglunema í grunnnámi). — Þskj. 656.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:49]

[14:46]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í gær kvaddi ég mér hljóðs um þetta mál við atkvæðagreiðslu (Gripið fram í.) og mátti skilja á orðum mínum að ég gerði lítið úr gagnrýni sem fram hefði komið á viðleitni þingmanna til að hafa áhrif á málið eða kynna sér það í þaula. Ég vil ekki skilja þannig við málið, enda var það ómaklegt af minni hálfu.

Staðreyndin er sú að þessi lög eru mikilvæg og snerta kjör fjölda manns, lögreglunema sem sækja Lögregluskóla ríkisins. Með frumvarpinu er í reynd verið að rýra kjör þeirra, færa kostnaðinn sem áður hvíldi á Lögregluskólanum yfir á herðar einstaklinganna sem nú þurfa að fjármagna sig með lánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þetta skiptir að sjálfsögðu máli og kallar á umræðu.

Hitt er annað mál að Lögregluskólinn og lögreglan eru því fylgjandi (Forseti hringir.) að færa þetta nám inn í almennan farveg annars náms í landinu og á þeirri forsendu tel ég þetta mál til góðs.



Frv.  samþ. með 39 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BÁ,  BjarnB,  BVG,  EKG,  EyH,  GStein,  JóhS,  JónG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  ÓN,  REÁ,  RR,  SER,  SKK,  SkH,  TÞH,  VBj,  VigH,  ÞSa,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
24 þm. (ÁÞS,  BirgJ,  BJJ,  BjörgvS,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  JBjarn,  JRG,  KJak,  ÓÞ,  PHB,  RM,  SDG,  SII,  SIJ,  SF,  SJS,  SSv,  UBK,  ÞKG,  ÞSveinb) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[14:48]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég styð þetta frumvarp eftir ágæta rannsókn í allsherjarnefnd, einkum á þeim forsendum að Landssamband lögreglumanna mælir með því að frumvarpið verði að lögum og að við höldum svo áfram að bæta Lögregluskólann.

Því ber svo að fagna — eins og venjulega ber að spyrja að leikslokum en ekki vopnaviðskiptum, og að leikslokum erum við öll sammála, nema hláturbrandaraliðið hérna frammi í sal, um að við séum að gera lögreglunni í landinu (Gripið fram í.) gott í bráð og lengd og þar með samfélagi okkar. Ég veit að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er mér sammála um að við verðum að vanda okkur við að búa sem best að þeirri stétt manna sem myndar hornstein samfélagsins, lögreglunni.