139. löggjafarþing — 77. fundur
 23. feb. 2011.
prestur á Þingvöllum, fyrri umræða.
þáltill. ÁJ o.fl., 282. mál. — Þskj. 325.

[16:52]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um prest á Þingvöllum. Nú er það svo, virðulegi forseti, að prestur sinnir Þingvöllum að hluta en þessi tillaga ályktar að lengra sé gengið. Hún ályktar að fela dóms- og mannréttindaráðherra, hæstv. innanríkisráðherra, að semja við þjóðkirkjuna um fasta þjónustu prests tengda Þingvöllum og Þingvallakirkju þannig að guðsþjónustur megi vera þar allar helgar ársins. Þetta er hugsað í virðingarskyni við Þingvelli, virðulegi forseti, virðingarskyni við kirkjuna og sögu okkar þar sem kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000.

Til skamms tíma var fast prestsembætti á Þingvöllum en með aflagningu þess setti þjóðkirkjan og eins íslenska þjóðin ofan. Þær hugmyndir sem liggja að baki þessari tillögu eru að gera Þingvallakirkju að föstum lið, föstum möguleika fólks í landinu til að heimsækja á helgum dögum og auðvitað hlyti slíkt að vera opið fyrir aðra kristna söfnuði. Á Þingvöllum slær Íslandsklukkan í sál Íslendinga og gamla kirkjan sem þar stendur er tákn um auðmýkt, lítillæti og þakklæti íslensku þjóðarinnar fyrir kristnina, þann sið sem tekinn var upp á Alþingi á Þingvöllum árið 1000 og gerði Íslendinga að einni þjóð. Oft var þörf en nú er nauðsyn að þétta raðirnar hjá íslenskri þjóð. Þetta getur verið liður í því, virðulegi forseti, að hnykkja á og festa í sessi það starf sem mögulegt er að starfrækja í þessari litlu, íslensku, gamaldags kirkju.

Á rótum trúar, hefðar og siðar hefur íslenska þjóðin komist í gegnum þykkt og þunnt með ótrúlegu æðruleysi þótt á móti hafi blásið oft og tíðum. Það er engin spurning um það að samkomur þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga í Þingvallakirkju yrðu uppbót og styrkur fyrir íslensku þjóðina og það er ekkert sem bendir til annars en að margir mundu kunna að meta þá þjónustu að messað væri í Þingvallakirkju um hverja helgi ársins. Til að mynda gæti það verið auðveld lausn á þessari ósk að fela prestum landsins að skiptast á að messa í Þingvallakirkju. Þá yrðu prestarnir kannski annað hvert ár í þessari litlu kirkju og það yrði fastur atburður tengdur mannlífi, þjóðlífi og trú að bjóða upp á slíka þjónustu í Þingvallakirkju. Slíkt ætti að vera auðvelt fyrir okkar skeleggu prestastétt og segja má að þarna sé komið svolítið inn á það starfssvið sem kirkjan sjálf skipuleggur og hrindir fram. Við flutningsmenn teljum það svo mikilvægt að styrkja stöðu Þingvalla og þeirra þátta sem ég gat um í upphafi tengda kirkjunni, að menn eigi að leggjast á eitt um að ganga fram eins metnaðarfullt og mögulegt er.

Við teljum að skipulegar samkomur í Þingvallakirkju sem fastur liður mundu stækka helgi Íslands og ekki síst helgi Þingvalla. Fyrir litla þjóð veiðimannasamfélags, sem því miður margir Íslendingar gera sér ekki grein fyrir að er grundvöllur alls okkar starfs á Íslandi, er mjög mikilvægt að ankerin séu á sínum stað hverju svo sem fram vindur að öðru leyti. Þess vegna er tillaga sett fram, virðulegi forseti, um að styrkja stöðu Þingvalla og þess starfs sem þar getur verið tengt þjóðinni um aldir alda og ætti að geta gert þjóðinni gott með litlum tilkostnaði.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til allsherjarnefndar.



[16:58]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af tillögu til þingsályktunar um prest á Þingvöllum á þskj. 325. Þingsályktunartillagan leggur áherslu á góða þjónustu við Þingvallakirkju. Það er mikilvægt og þakkarvert og sem formaður Þingvallanefndar vil ég endilega nýta þessa tillögu til að tryggja enn betur þau gildi sem fram koma í tillögunni en um leið láta koma fram að það bendir í reynd fátt til þess að illa sé staðið að málum við Þingvallakirkju. Tillagan sýnir góðan hug og stuðning við söfnuðinn, þessa fámennu byggð, sumarhúsaeigendur og aðra dvalargesti í þjóðgarðinum, ferðamenn bæði innlenda og erlenda og tekur mið af óskum þeirra sem koma til Þingvalla vegna trúar sinnar og þeirra tilfinninga sem menn bera til staðarins og leggur áherslu á að veita góða þjónustu því fólki sem þangað kemur til að gifta sig, til skírnar o.s.frv. fyrir utan almennar guðsþjónustur. Það er mjög mikilvægt að góð þjónusta sé við Þingvallakirkju. Það er mikilvægur þáttur í starfsemi þjóðgarðsins, bæði með hliðsjón af sögu staðarins og því fjölþætta hlutverki sem hann sinnir nú.

Ég get ekki látið þess ógetið að kirkjan sjálf er þjóðargersemi. Hún er friðuð og hluti af tilvist hennar er að þar sé lifandi trúarstarf. Kirkjan er hluti af bæjarmynd Þingvalla þar sem Þingvallabærinn stendur og kirkjan og bærinn eru staðareinkenni Þingvalla frá fornu fari.

Tillagan og greinargerðin gefa til kynna að ekki sé föst þjónusta við kirkjuna á Þingvöllum. Því er nú sem betur fer ekki þannig farið og Þingvallaprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur greint frá fjölda messudaga og sérstakri þjónustu vegna annarra athafna. Ég verð að segja að mér sýnist sú þjónusta vera mikil. Söfnuðurinn hefur lagt mikla áherslu á að halda sókn sinni til Þingvallakirkju og hefur þannig látið til sín taka. Á fundi nær allra sóknarbarna var á sínum tíma samþykkt að sóknin, þ.e. Þingvallasókn, yrði ekki felld undir Mosfellsprestakall og ekki er vitað annað en ánægja sé með fjölda messudaga og þjónustuna við Þingvallakirkju að öðru leyti.

Til upplýsingar er rétt að geta þess að messað er í Þingvallakirkju hvern helgan dag frá því seint í maí til septemberbyrjunar, sem er háannatíminn. Messað er á öðrum tímum árs til jafnaðar einu sinni í mánuði og svo á stórhátíðum þar fyrir utan. Kvöldbænir eru í Þingvallakirkju öll fimmtudagskvöld í júní og júlí í framhaldi af fræðslugöngu þjóðgarðsins, tónleikar fjögur þriðjudagskvöld í júní og júlí í samvinnu við Minningarsjóð Guðbjargar Einarsdóttur frá Kárastöðum.

Frú forseti. Að mínu mati er heppilegast að leita til safnaðarins og kanna vilja hans hvað messudaga varðar og eins að Þingvallanefnd meti fyrir sitt leyti hvort þjónustan uppfylli þær þarfir sem eðlilegt er að telja sem hluta af starfsemi þjóðgarðsins. Ef þjónustan er ekki næg þarf að leita leiða til að auka hana en ég tel í reynd ekki tilefni mikilla breytinga á fyrirkomulagi þjónustunnar.

Núverandi sóknarprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur að aðalstarfi verkefnisstjórn á sviði helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu og er umsjónarmaður þjálfunar prestsefna og var reyndar einnig kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands í hlutastarfi þegar hann hóf starf við Þingvallakirkju. Eins og ég gat um áðan er messað hvern helgan dag á sumrin og að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann sem þýðir að á árinu 2009 voru messur og guðsþjónustur á Þingvöllum 24 og þar af fjórar í umsjón gestapresta en það er liður í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Þar er fermt, þar eru skírnir, hjónavígslur og bænastundir við kistulagningu. Það var fermt í júní árið 2009 og eins og ég sagði áðan voru gestaprestar fjórir og á árinu 2009 var einnig útimessa í Skógarkoti.

Hvað hagkvæmni varðar er núverandi fyrirkomulag væntanlega hvað best, þ.e. að prestur sinni öðrum störfum og komi til kirkjunnar þegar á að þjónusta, því að samgöngur eru nú orðnar þannig að ekki er lengra til Þingvalla en almennt gerist víða um land. Ef horft er til þjónustunnar eins og hún er nú og til núverandi prests á Þingvöllum verð ég að segja að hann hefur lagt gríðarlega mikið til starfsins. Ég hef orðið vör við mikla ánægju með þjónustu hans og honum hefur fylgt stór hópur söngvara og annarra tónlistarmanna í fremstu röð.

Ég hvet til þess að hv. allsherjarnefnd kanni viðhorf sóknarbarna og Þingvallanefndar til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir sem og auðvitað kirkjuyfirvalda og prestsins. En eins og ég sagði í upphafi sýnir tillagan góðan hug og stuðning við söfnuðinn en ég tel að það sé kannski ekki nægilegt tillit til þess tekið hversu góð sú fasta þjónusta er sem nú er við kirkjuna á Þingvöllum.



[17:04]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það er allt gott og rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um þetta mál, en það er stigsmunur á áhersluatriðum. Það er engin spurning að Þingvallaprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur unnið mjög gott verk en þessi hugmynd byggir á því að gera hlut Þingvallakirkju mun stærri en hann hefur verið. Það er verið að tala um að fjölga samkomudögum í Þingvallakirkju um 70% árið um kring vegna þess að víst væri spennandi að heimsækja Þingvelli að vetrarlagi ef það væri vís aðgangur að guðsþjónustu í þessari rómuðu litlu íslensku kirkju, það væri hvatning frekar en hitt. Það er hugmyndin á bak við það að auka þennan þátt.

Ég er ekkert í efa um að söfnuðurinn fagnar því að kirkjan verði notuð sem mest og það er ágætt að leita álits hjá Þingvallanefnd þó að það eigi ekki að ráða neinum úrslitum um það hvernig Þingvallakirkja er notuð. Þingvallakirkja hefur sérstakan sess í hjarta þjóðarinnar og þessi hugmynd um aukninguna, þessa styrkingu á stöðu kirkjunnar á Þingvöllum, þessarar litlu kirkju, nær miklu lengra.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að Þingvallaprestur messi 52 sinnum á ári, t.d. miðað við starfssvið hans í dag. Það eru auðvitað hlutir í þessu sem þarf að skoða líka, það hefur verið reynt að reka þá starfsemi sem hefur verið í kirkjunni á mjög hagkvæman hátt með hjálp fólks, listamanna, söngvara og tónlistarmanna, því að ef það ætti að greiða fyrir hverja athöfn væri þar um að ræða tugi þúsunda í hvert skipti.

Tökum dæmi um að söfnuðurinn í Hrísey eða á Húsavík tæki að sér eina messu á ári í Þingvallakirkju og það yrði efnt til áhugamannaferðar til þess að, eins og maður segir, styrkja gott málefni og upplifa vissa hluti á Þingvöllum. Það eru margir möguleikar til að útfæra svona án þess að um kostnað verði að ræða.

Það er heldur enginn efi um að vel verður staðið að umhverfi og aðstöðu í þessari litlu kirkju — en þó má alltaf bæta. Það er til að mynda ljóst miðað við síðustu missiri að það þarf að setja einhverjar öryggismyndavélar, jafnvel á Þingvallakirkju sjálfa eða við hana. Það hefur sýnt sig að það er ástæða til þess. Það er að mörgu að hyggja, en þetta eru þó allt smáatriði miðað við það að nýta þann helgidóm sem ég hygg að mestur þorri landsmanna líti sérstaklega á í búskap kirkna í landinu beinlínis vegna sögunnar, vegna staðarins og allrar ímyndarinnar sem tengist Þingvallakirkju. Þetta er fyrst og fremst gert til að stækka hlut kirkjunnar, gera aðgengið auðveldara og meira spennandi allan ársins hring þó að vissulega komi dagar að vetrarlagi þar sem væntanlega yrði messufall, a.m.k. utan sóknar, vegna færðar. Það er þá eins og gengur í okkar landi en markmiðið væri eins háleitt og hægt er, að gera meira úr Þingvallakirkju en gert hefur verið undanfarin missiri þó að það hafi verið gert mjög vel sem gert hefur verið.

Það er að vísu mín skoðun, virðulegi forseti, að það eigi að vera fastur prestur í Þingvallasókn með fullt stöðugildi, en það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að það yrði gert nema í sérstöku samstarfi ríkissjóðs og kirkjunnar. Þetta er ekki útfært á neinn hátt í þessari tillögu, heldur lagt til að unnið verði að því að stækka þennan hlut, útfæra hann og reyna að tengja landsbyggðina meira við Þingvelli en gengur og gerist því að landsbyggðarfólk er ekki á hverjum degi á Þingvöllum, a.m.k. ekki í eins miklum mæli og þeir sem búa á suðvesturhorni landsins.



[17:10]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil tryggja eins vel og ég mögulega get að það misskiljist ekki sem ég sagði áðan. Ég lagðist að sjálfsögðu ekki gegn því að sú þjónusta sem nú er á Þingvöllum yrði aukin því að alltaf má bæta hana. Og það má alltaf fjölga messudögum. Svo sannarlega held ég að flestir mundu þiggja að það yrði mokað þarna í hverri viku yfir vetrartímann. Þar fyrir utan þarf væntanlega bara að semja við prestinn og tryggja organistanum laun til að hægt sé að halda þarna úti bættri þjónustu. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga geti orðið til þess.

Mitt erindi í ræðustól var aðeins að vekja athygli á þeirri góðu og föstu þjónustu sem fyrir er á staðnum. Hvað varðar Þingvallakirkju er eðlilegt að geta þess að í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar 2009 ákvað kirkjuráð að leggja kirkjunni til 9 millj. kr. til að hægt væri að lagfæra aðkomuna að kirkjunni. Kirkjugarðasjóður veitti einnig fjármagn til að hlaða upp kirkjugarðsveggi og fjárframlag frá þjóðgarðinum fyrir tilstyrk Þingvallanefndar varð svo til þess að hægt var að ljúka útivinnunni og setja upp nýja lýsingu.

Það er enn mikið verk óunnið við kirkjuna sjálfa til að ljúka viðgerðinni. Til að hún megi vera jafnfögur og kostur er þarf vissulega sérstakt átak. Þjóðgarðsvörður, Þingvallaprestur og forstöðumaður húsafriðunarnefndar hafa átt fundi til þess að fylgja eftir fyrri samþykktum um skipulag og endurbætur á kirkjunni og undirbúa umsókn þar um til húsafriðunarsjóðs.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði um gæslu kirkjunnar vil ég að það komi fram að Þingvallaprestur hefur komið á fót 13 manna hópi sjálfboðaliða sem skiptir með sér störfum þannig að það eru aldrei færri en tveir slíkir meðhjálparar að störfum hverju sinni og að lágmarki á sunnudögum frá kl. 11 til 16 alla þrjá sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst. Þetta er gert til að létta undir með landvörðum sem hafa mikið á sinni könnu.

Ég tel að það verði vandalítið að fjölga messum í Þingvallakirkju telji menn þess þörf og legg aftur áherslu á að það má alltaf gera betur en þó er gert.



[17:13]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir orð hennar í þessu máli. Þetta er auðvitað spurning um að auka þessa starfsemi, það snýst um það. Ef það ætti til að mynda að brúa bilið sem hinn ágæti Þingvallaprestur vor, séra Kristján Valur Ingólfsson, sinnir gæti verið mjög skemmtilegt að reyna að virkja sóknir á landsbyggðinni.

Þorri höfuðborgarbúa er fólk sem kemur af landsbyggðinni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef prestar frá sóknum, hvort sem eru vestan, norðan, sunnan eða austan lands, koma í Þingvallakirkju einhvern ákveðinn dag mundu mæta kirkjugestir af höfuðborgarsvæðinu sem tengjast þessum byggðum. Það er bara partur af því að nýta aðstöðuna og stemninguna, nýta það sem getur gefið okkur gott og gert fólki gott. Þetta eru ekki afskipti af stjórn kirkjunnar varðandi Þingvallakirkju heldur einfaldlega vinsamleg ábending og ósk um að leggja meira í en hægt hefur verið.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.