139. löggjafarþing — 78. fundur
 24. feb. 2011.
staða heimilanna.

[10:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er orðið allt of langt vil síðan við höfum rætt um stöðu heimilanna í þessum sal, hvernig heimilin á Íslandi standa og hver framtíð þeirra er. Ég fór að velta fyrir mér hvers vegna það væri og ég held að það sé hollt fyrir okkur þingmenn að velta því aðeins fyrir okkur hvort svo almenn ánægja og sátt ríki um stöðu íslenskra heimila þannig að við þurfum ekki að ræða það mál í þessum sal. Ég held reyndar ekki að svo sé og vona ég að þessi stutta fyrirspurn verði tilefni til að við höldum áfram að ræða það í þingsal.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í stöðu heimilanna vegna þess að hæstv. ráðherra tók í rauninni af skarið með því að setja á fót einhvers konar samráðshóp sem fjallaði um heimilin og stöðu þeirra og beitti sér fyrir miklum og fjölmennum fundum. Við getum svo deilt um og haft skoðanir á því hvort það skilaði einhverju og hvort raunverulegur árangur hafi náðst.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhvers konar eftirfylgni sé í gangi á vegum ráðuneytisins varðandi stöðu heimilanna, hvort verið sé að vinna nýja úttekt á þeim málum, hvernig þróunin hefur verið og þá hvort hæstv. forsætisráðherra ætli að beita sér fyrir því að hafa áfram frumkvæðið í þeirri vinnu sem hún tók svo sannarlega upp á sína arma með því að hafa forgöngu um samráð.

Það er mjög mikilvægt að við fáum reglulega upplýsingar um stöðuna. Við þingmenn fáum tölvupósta og símtöl frá einstaklingum, frá fjölskyldufólki sem ber sig ekkert sérstaklega vel þrátt fyrir þessar aðgerðir sem sagt er að gripið hafi verið til.

Hitt er nokkuð sem við þekkjum öll, að því miður flytur fólk áfram úr landi vegna áfalla.



[10:52]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg eðlilegt að hv. þingmaður taki upp þetta mál. Það tókst ágæt samvinna með öllum flokkum um skuldavanda heimilanna og farið var af stað með aðgerðir sem er verið að koma í gang þessa dagana og hafa ráðuneytin sem að þessu máli koma fylgst vel með framvindu mála. Þar mæðir mjög á Íbúðalánasjóði, umboðsmanni skuldara og bönkunum. Ég tel að gengið hafi ágætlega að koma þessum málum af stað í bönkunum.

Upp komu hnökrar að því er varðar Íbúðalánasjóðinn en verið er að vinda bráðan bug að því. Ég á von á því að frumvarp komi fram í þinginu í dag eða eftir helgi sem vonandi verður hægt að ganga fljótt frá en lagaheimild þarf til að fara 110% leiðina að því er varðar Íbúðalánasjóð og að því hefur verið unnið. Unnið hefur verið mjög hratt og vel hjá umboðsmanni skuldara. Ég held að ég muni það rétt að um 2000 umsóknir hafi borist og frá því að átakið byrjaði hafa verið afgreiddar um 500 umsóknir og málshraði hefur aukist verulega hjá embættinu. Markmið embættisins er að koma því þannig fyrir að 300–400 mál verði afgreidd í hverjum mánuði, sem er veruleg breyting frá því sem var. Ég hygg að þær aðgerðir sem flokkarnir á Alþingi fóru í hafi greitt verulega þar fyrir auk þess sem sett hefur verið verulegt fjármagn til þessa embættis til að hægt sé að vinna þar hraðar að málum en áður. Ég á von á því að þær áætlanir sem við settum fram um að greiðsluaðlögun gangi hratt fyrir sig og við mundum sjá fyrir endann á henni (Forseti hringir.) núna um mitt ár, standist þó að einhverjir hnökrar séu á málum að því er varðar Íbúðalánasjóð. Þörf er á lagabreytingu sem liggur væntanlega fyrir Alþingi.



[10:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að enn og aftur hafa orðið mistök varðandi lagasetningu þegar í ljós kom að Íbúðalánasjóður hafði ekki þá heimild sem til þurfti. Er það að sjálfsögðu áhyggjuefni að í svo veigamiklum málum séu þessir hlutir ekki allir skoðaðir ofan í kjölinn.

Ég held að það sé mjög hollt fyrir okkur að fá reglulegt og gott yfirlit frá hæstv. forsætisráðherra yfir stöðu heimilanna. Ég vil því nota tækifærið og hvetja hæstv. forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að því að flytja þinginu skýrslu mjög fljótlega um hver þróunin á málefnum heimilanna hefur verið varðandi skuldsetningu þeirra, úrlausnir og annað þannig að við getum haft það til umfjöllunar á Alþingi og brugðist við ef þörf er á. En að sjálfsögðu er framkvæmdin hjá framkvæmdarvaldinu og því er ekki óeðlilegt að skora á hæstv. ráðherra að hafa frumkvæði að því að flytja þinginu slíka skýrslu.



[10:55]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek ágætlega undir þá hugmynd sem hv. þingmaður setti fram að þinginu verði með reglubundnum hætti gerð grein fyrir framvindu mála að því er varðar stöðu mála og mun ég beita mér fyrir því í samráði við þingflokkana að kanna hvernig standa eigi að því og hve reglulega það skuli gert. Ég tel alveg sjálfsagt að verða við því enda er það áhugamál allra sem hér sitja að vel og farsællega verði staðið að framkvæmd þeirra tillagna sem orðið hefur sátt um. Ekki síst þurfum við að fylgja því vel eftir að greiðsluaðlögunin gangi vel fyrir sig. Hún hefur bjargað mjög mörgum, komið mjög mörgum í skjól sem ella hefðu lent með íbúðir sínar á uppboði þannig að ég tel sjálfsagt að verða við þessari ósk og mun þá í samráði við formenn þingflokkanna ræða hvernig því verður háttað með reglubundnum hætti.