139. löggjafarþing — 78. fundur
 24. feb. 2011.
Icesave og hótanir um afsögn.

[11:04]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn sunnudag synjaði forseti Íslands Icesave-lögum ríkisstjórnarinnar staðfestingar, eins og kunnugt er, og vísaði frumvarpinu til þjóðarinnar. Í ljósi þess sem fram hefur komið í opinberri umræðu í kjölfarið og í aðdragandanum reyndar líka langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi hótað forseta Íslands afsögn sinni eða því að ríkisstjórnin færi frá, synjaði hann lögunum staðfestingar og vísaði þeim til þjóðaratkvæðis.



[11:05]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Svarið er nei.



[11:05]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að (Gripið fram í: … fá skýrt svar.) hæstv. forsætisráðherra skýri þinginu rétt frá og svarið var skýrt, það má hæstv. forsætisráðherra eiga. En forseti Íslands sagði á dögunum í viðtali í Silfri Egils, með leyfi forseta:

„Þetta er ekki létt byrði að bera að láta öll spjót standa á sér, láta ráðherra hóta sér að segja af sér eða ríkisstjórnin fari frá o.s.frv.“

Ég leyfi mér að halda því fram að forseti lýðveldisins láti ekki slíkt frá sér fara að tilefnislausu og við þurfum að fá útskýringar á því frá hæstv. forsætisráðherra hver hafði í slíkum hótunum. (Gripið fram í: Rannsókn.) Hafi þær komið fram geri ég ráð fyrir að þær hafi komið fram frá forustumönnum þessarar ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Ég dreg í efa að slíkar yfirlýsingar hafi komið fram að tilefnislausu frá forseta Íslands þannig að ég óska (Forseti hringir.) upplýsinga frá hæstv. forsætisráðherra á því hvernig þær eru til komnar.



[11:06]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að fara rakleiðis til Bessastaða og spyrja um það því að ég hef engar frekari upplýsingar fram að færa við hv. þingmann eða þingmenn um það hvernig forsetinn komst að þessari niðurstöðu. Ég á af og til samtal við forsetann á Bessastöðum en það atriði sem hv. þingmaður nefnir, hótanir við forseta … (SKK: Forsetinn nefnir það sjálfur.) Það er af og frá að það sé rétt. (Gripið fram í.)