139. löggjafarþing — 78. fundur
 24. feb. 2011.
virðisaukaskattur, frh. 1. umræðu.
frv. EKG o.fl., 393. mál (endurgreiðsla skatts vegna kaupa á varmatækjum). — Þskj. 601.

[14:31]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Ég er einn flutningsmanna frumvarpsins en 1. flutningsmaður er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og ber að þakka honum það frumkvæði sem hann hefur sýnt um að koma þessu máli á dagskrá.

Einnig vil ég vekja athygli á því að flutningsmenn frumvarpsins eru úr nánast öllum stjórnmálaflokkum og virðist því vera þverpólitísk samstaða um málið. Mikilvægt er líka að menn skoði aðflutningsgjöldin á þessum búnaði og, verði þetta samþykkt, að hæstv. fjármálaráðherra skoði þau sérstaklega samkvæmt reglugerðarheimild og felli þau niður. Mikilvægt er að það gerist.

Ástæðan fyrir því að frumvarpið er lagt fram er augljós. Hún felst í því að þetta er einn af þeim liðum sem gætu dregið úr því misræmi sem er á húshitunarkostnaði á svokölluðum köldum svæðum og svæðum þar sem hitaveita er. Þetta gæti leitt til þess að það yrði fýsilegri kostur fyrir fólk sem býr á köldum svæðum að nota varmadælur en stofnkostnaðurinn við þær hefur verið mjög mikill. Að okkar mati er mjög óeðlilegt að á þeim sé sérstakur virðisaukaskattur upp á 25,5% plús aðflutningsgjöld því það dregur mjög úr hagkvæmninni og dregur úr því að fólk skoði þennan kost alvarlega.

Það er líka mjög mikilvægt að ræða þetta út frá því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og fylgigögnum, að staðan er þannig núna að húshitunarkostnaður á köldum svæðum á landsbyggðinni er mjög sligandi og raskar mjög búsetuskilyrðum. Í greinargerðinni kemur til að mynda fram að það kostar 238 þús. kr. að kynda 180 fermetra hús á landsbyggðinni á sama tíma og það kostar 93 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er enginn smámunur og segir allt sem segja þarf. Það munar tæpum 150 þús. kr. Eftir að vinstri stjórnin tók við stjórn í landinu og hefur hækkað alla skatta og skattpínt … (Utanrrh.: Það eru nú hægri kratar í henni líka.) Hæstv. utanríkisráðherra segir að hægri kratar séu þar líka og kannski ber að þakka þeim að skattpíningin sé ekki enn frekari en hún er nú þegar og færi ég hæstv. utanríkisráðherra þakkir fyrir það. (Gripið fram í.) Ef við tökum þetta þannig — já, það eru fleiri góðir hægri kratar í Samfylkingunni, ég tek undir það með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur.

Í stuttu máli, ef það munar orðið 150 þús. kr. á ári, þýðir það 300 þús. kr. í tekjur, ekkert meira eða minna, bara þessi liður. Síðast en ekki síst hefur flutningskostnaður hækkað mjög mikið að undanförnu. Þessi svæði úti á landsbyggðinni eru að verða undir, hvort sem um er að ræða heimili eða fyrirtæki. Hér er eingöngu fjallað um heimilin en þetta gæti auðvitað nýst fyrirtækjum líka. Þar er kostnaðurinn ugglaust enn meiri vegna þess að það kostar mjög mikið að kynda stór fyrirtæki á landsbyggðinni með rafmagni. Og þá er bara eitt sem þau geta gert. Það kom mjög vel í ljós í kjördæmavikunni fyrir tveimur vikum að fólk hefur orðið mjög mikið vart við allar þessar hækkanir og hefur verulegar áhyggjur af því hvernig samkeppnisstaða fyrirtækja á landsbyggðinni hefur skekkst, bæði út af flutningskostnaði og raforkukostnaði. Þetta gerir það að verkum að fyrirtæki á landsbyggðinni sem keppa hugsanlega við fyrirtæki á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem búa við önnur skilyrði verða einfaldlega að greiða fólki sínu lægri laun, annað er ekki í boði, hvort sem það eru fyrirtæki í iðnaði eða öðru. Mjög mikilvægt er því að þetta verði skoðað.

Síðan er mikilvægt að menn átti sig á því, eins og kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu, að raforkuverð á köldum svæðum, sérstaklega í dreifbýli þar sem færri en 200 manns búa, hefur hækkað um 72% á átta árum að raunvirði. En ef við tökum raforkuverð á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjavík til að mynda var það árið 2000 um 100 þús. kr. miðað við núvirði en er núna 93.400 kr. Það hefur því lækkað miðað við núvirði um 7% á sama tíma og það hefur hækkað um 72% í dreifbýli á köldum svæðum. Munurinn er orðinn í kringum 80%. Það segir sig alveg sjálft að þetta er ótrúlegt. Við munum eftir allri umræðunni á síðasta ári þegar Orkuveita Reykjavíkur varð að hækka gjöldin um 28% til þess að mæta kostnaði en þetta er samt niðurstaðan. Eftir þá hækkun og eftir þennan árafjölda sem ég rakti munar um 80%. Það munar um 150 þús. kr. á ári hvort kynt er á köldum svæðum eða á Reykjavíkursvæðinu. Á sama tíma hefur það gerst að þótt kílóvattstundirnar hafi hækkað og taxtarnir þá hafa niðurgreiðslur til húshitunar lækkað þannig að það leggst allt á eitt. Þetta er orðið mjög bagalegt.

Ég þekki dæmi um það úr heimabyggð minni að fullorðið fólk sem býr þar, og á kannski húsnæði sem er erfitt að selja eftir hrunið og allt er í óvissu eins og allir vita, fasteignamarkaðurinn er ekki mjög líflegur, er að lenda í fátæktargildrum bara vegna þess hvað þessi hlutir hafa hækkað mikið. Þetta eru staðreyndir sem blasa við. Ég hef séð reikninga hjá þessu fólki og þetta eru engar smáupphæðir, sérstaklega fyrir eldri borgara sem hafa úr litlu að moða, sérstaklega eftir að hæstv. ríkisstjórn ákvað á árinu 2009 að skerða kjör ellilífeyrisþega og öryrkja um 7 milljarða en reyndin varð hins vegar 11 milljarðar á árinu 2010. Í fjáraukalögum fyrir árið 2010 voru 4 milljarðar færðir til viðbótar inn á þessa liði vegna þess að skerðingarnar voru mun frekari en gert var ráð fyrir, auk allra þeirra tekjutenginga sem komnar eru þar inn. Það þyrfti sérstaka umræðu um þetta og ætti kannski ekki að blanda því hér inn. En það er hreint með eindæmum hvernig ríkisstjórnin hefur gengið gegn eldri borgurum og öryrkjum á þessum svæðum.

Síðast en ekki síst vil ég enda á því, virðulegi forseti, að segja að nú eru miklar umræður um auðlindagjöld. Menn segja að sjávarútvegurinn eigi að borga hærra auðlindagjald. Hann borgar nú þegar 3 milljarða í auðlindagjald. Sumum finnst það of lítið og að borga þurfi meira en þá spyr ég á móti: Eigum við ekki að taka auðlindaumræðuna á annað stig, eiga þá ekki allir að borga auðlindagjald sem hafa yfir auðlindum að ráða? Heita vatnið er klárlega gríðarlega mikil auðlind og mér finnst ekkert réttlæti í því að þeir sem búa í sjávarbyggðunum á köldum svæðum og kynda þar með rafmagni, borgi auðlindagjald fyrir að fara að vinna úti á sjó á sama tíma og þeir sem búa í Reykjavík og nota heita vatnið þurfa ekki að borga neitt til baka. Það er ekki sanngjarnt. Maður hefur stundum orðað þetta svo að það sé ekkert sem segi að fólkið sem býr á svæðum með heitu vatni eigi frekar að fá auðlindagjald hjá þeim sem búa í sjávarbyggðunum. Það hefur auðlindanýtinguna á heita vatninu sem gerir að verkum að miklu hagkvæmara er fyrir það að kynda hús sín og kostar miklu minna.

Að lokum, virðulegi forseti, segi ég þetta: Ég vænti þess að efnahags- og skattanefnd afgreiði þetta fljótt og vel og við getum þá sýnt eitthvað í verki. Búið er að tala nóg um þetta misræmi á milli íbúa sem búa á köldu svæðunum og þeirra sem búa á svæðum með heitu vatni, það eru nú ekki nema 10% af þjóðinni sem þurfa að búa við þessa ofurskattlagningu eða þennan ofurkostnað á hitun. Nú er kominn tími til að fara að framkvæma. Búið er að tala nóg. Ég vænti þess að hv. efnahags- og skattanefnd afgreiði málið fljótt og vel svo við getum komið því í verk að gera þetta að lögum.



[14:40]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er yfirleitt svo jákvæður að manni bregður í brún þegar hann heldur ræður þar sem hann sér ekkert nema sorta og dökkva fyrir augum sér. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin hefur hækkað skatta en staðreyndin er samt sem áður sú að skattar á Íslandi eru ekkert hærri en gengur og gerist í Evrópu. Ef hv. þingmaður mundi t.d. skoða skatta á fyrirtæki, fyrirtækjarekstur og fjármagn eru þeir heldur í lægri kantinum og skattahækkanirnar hér hafa ekki verið meiri en hjá íhaldsstjórninni í Bretlandi, guð blessi hana, nýlega.

Því kem ég hingað, frú forseti, til að segja að auðvitað er rétt að þeir á landsbyggðinni búa oft við talsvert önnur og verri skilyrði en við, í fyrsta lagi vegna kostnaðarins hjá þeim sem búa á köldu svæðunum og í öðru lagi vegna flutningskostnaðarins sem leggst á íbúa landsbyggðarinnar. Það vill svo til að þannig viðsjár eru uppi í heiminum núna að líklegt er að hann aukist og ríkisstjórnin getur lítið gert við því. Látum það vera.

Ég kem þó aðallega upp til að segja að á landsbyggðinni er líka margt sem gerir að verkum að þrátt fyrir þetta er eftirsóknarvert að búa þar. Eitt t.d. sem við í þéttbýlinu búum því miður við núna, umfram það sem áður var og umfram það sem íbúar landsbyggðarinnar þurfa við að búa, er atvinnuleysið. Atvinnuleysi mælist því miður miklu hærra á suðvesturhorninu en á landsbyggðinni og það skiptir máli. Ég dreg þess vegna mjög í efa að þessi mikla skattpíningarstefna ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þingmaður kallaði það, þrýsti fólki af landsbyggðinni til þéttbýlisins. Ég held að það sé ekki að gerast núna. En hv. þingmaður getur (Forseti hringir.) kannski sannfært mig um annað.



[14:43]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra andsvarið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hann mun að sjálfsögðu styðja þetta frumvarp, miðað við hvernig hann talaði áðan, enda er hann sérstakur fulltrúi Árneshrepps á þingi. Ég geng að því vísu að hæstv. ráðherra muni styðja frumvarpið.

Hæstv. ráðherra talaði um skattpíninguna sem ég benti á. Ég held að hún dyljist engum. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra að fara út á landsbyggðina og tala við fólkið þar og líka á Stór-Reykjavíkursvæðinu, allir kvarta að sjálfsögðu undan þessari miklu skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Menn geta sagt að skattar séu hugsanlega ekkert meiri hér en einhvers staðar annars staðar en þá verða menn líka að ræða hvað er í raun og veru innifalið í sköttunum í öðrum löndum. Það er mjög mikilvægt að menn taki þá umræðu.

Ég er hins vegar sammála því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði að það er auðvitað tvennt sem gerir búsetuskilyrðin ójöfn, annars vegar raforkukostnaðurinn og hins vegar flutningskostnaðurinn. Það er mikilvægt vegna þess að við höfum tækifæri til að breyta því í þinginu.

Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á að menn þyrftu að búa við aukið atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu nú miðað við landsbyggðina. Allt það fólk sem er atvinnulaust á alla mína samúð, hvar sem það býr á landinu. Ég vil bara minna hæstv. utanríkisráðherra á að þegar atvinnuleysi var úti á landsbyggðinni var lenskan sú að flytja það í raun og veru til Reykjavíkur. Þá var uppgangur á Stór-Reykjavíkursvæðinu og undirstöðuatvinnuvegirnir, eins og t.d. sjávarútvegur, þurftu að blæða fyrir það með of sterku gengi. Fólk fluttist þá mjög af landsbyggðinni, eins og hæstv. utanríkisráðherra er fullkunnugt um, inn í þensluna sem ríkti á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er það ekki svo gott, virðulegi forseti, að höfuðborgarbúarnir geti flutt út á landsbyggðina því það vantar að sjálfsögðu að koma atvinnulífinu miklu betur í gang til að það sé hægt. En við höfum fullt af tækifærum til þess sem við höfum ekki nýtt. Það er mjög bagalegt að við skulum ekki hafa nýtt tækifærin til að byggja upp atvinnu (Forseti hringir.) og minnka atvinnuleysi.



[14:45]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá þingmanninum að mikill ljóður hefur verið á ráði okkar ágætu þjóðar að menn hafa hnappast saman á suðvesturhornið. Ákveðin lögmál hafa valdið því, hv. þingmaður var í reynd að lýsa þeim.

Þó eru frávik frá því. Ég held að hv. þingmaður eigi a.m.k. að rifja upp þá ljósu bletti sem við getum þó bent á í þessum sorta. Ég ætla að benda honum á að hans ágæti flokkur sat í ríkisstjórn þegar það gerðist í fyrsta skipti á 25 árum að fjölgaði á landsbyggðinni umfram þéttbýlið. Það gerðist 2008. (Gripið fram í: Hver var byggðaráðherra?) Það er ágætt að hv. þingmaður rifji það upp. Þá var nefnilega byggðaráðherra þingmaður sem kom úr 101, sá sem hér stendur og talar því af nokkurri reynslu. Það var einmitt hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og fleiri sem stóðu saman að þremur verkefnum í tíð tveggja ríkisstjórna (Gripið fram í.) sem ég tel að hafi valdið því að þessari þróun var um stund snúið til baka.

Ég nefni þetta hér, ekki bara vegna þess að Framsóknarflokkurinn kom hvergi við sögu, (Gripið fram í.) heldur vegna þess að þetta er hægt. Og það verð ég að segja hv. þingmanni, sem er flutningsmaður tillögunnar sem við ræðum nú um niðurfellingu virðisaukaskatts á varmadælum, að þar rennur hann eftir slóð fyrrverandi byggðaráðherra sem tók upp málefni þeirra sem vildu berjast fyrir því að innleiða varmadælur með mjög öflugum hætti. Ég minni á að það var ein þeirra mótvægisaðgerða sem gripið var til, að greiða götu tilraunaverkefnis á því svæði. Reyndar í kjördæmi hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þó að ég minnist þess nú ekki að hann hafi staðið hér og fagnað mjög gríðarlega fyrir hönd umbjóðenda sinna en það voru einmitt menn úr kjördæmi hans sem höfðu frumkvæði að því.

Punkturinn hjá mér er þessi: Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir um þá sem búa á köldu svæðunum, það er erfitt fyrir þá. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til (Forseti hringir.) að jafna þann hlut. Ég hvet nefndina til að skoða mjög rækilega þessa góðu tillögu sem hér liggur fyrir og gæti verið eitt skref í þá átt.



[14:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir margt sem hæstv. ráðherra sagði. Hann vakti athygli mína á því að það fjölgaði einungis á landsbyggðinni 2008 þegar hæstv. utanríkisráðherra var starfandi byggðamálaráðherra. (Gripið fram í: Það hrundi nú annað með því.) Já, annað hrundi með en hvað um það.

Menn eiga auðvitað að njóta sanngirni og mér er fullkunnugt um þetta því að þá var ég sveitarstjórnarmaður — (Gripið fram í.) Það var nú þannig, svo að ég klári nú að hæla hæstv. utanríkisráðherra, að hann stóð fyrir mörgum góðum verkefnum um að draga einmitt úr húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að halda líka því til haga sem vel er gert því að nóg er af slæmum verkum sem hæstv. utanríkisráðherra þarf að verja þessa dagana. Það er því mjög mikilvægt að halda góðu verkefnunum frá fyrri árum í öðru ríkisstjórnarsamstarfi til haga. Ég er algjörlega sammála því. (Gripið fram í: … að hafa góða menn með sér.) Það er ekki verra að hafa góða menn með sér í hvaða verkum sem er.

Ég tek líka undir með hæstv. utanríkisráðherra um að þetta er auðvitað bara eitt lítið skref í þá átt að reyna að jafna aðstöðumuninn. Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur hvernig stendur á því að svo mikill munur skuli vera hjá einungis 10% þjóðarinnar. Í því er hrópandi ósamræmi að við kyndum annars vegar með köldu vatni, sem er jú gríðarlega mikil auðlind, og síðan heitu vatni. Allur þessi flutningskostnaður er síðan alveg sérstakt umræðuefni út af fyrir sig og öll sú orka sem tapast. Í þessu er margt óréttlætið sem þyrfti að leiðrétta gagnvart íbúunum á köldu svæðunum. Það er rosalega sláandi að á sama tíma og rafmagnsverð hefur hækkað og kostnaðurinn við að kynda hús úti á köldum svæðum hefur hækkað um 73% hefur kostnaðurinn í raun og veru lækkað um 7% á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir 28% hækkun sl. haust. Þetta er í raun og veru allt sem segja þarf um þetta mál.

Það er gríðarlega mikilvægt að við hættum nú að tala um þetta og förum að gera eitthvað.



[14:50]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það var ansi athyglisverð umræða sem átti sér stað áðan þegar hæstv. utanríkisráðherra kom hér upp og var að guma af afrekum ríkisstjórnar þeirrar sem hann sat í árið 2008 (Utanrrh.: Og sínum eigin.) — og sínum eigin. En hæstv. ráðherra gleymdi að nefna það smáatriði að í tíð þeirrar ríkisstjórnar árið 2008 hrundi heilt efnahagskerfi. (Utanrrh.: Bjargaðist samt á landsbyggðinni.) Þrír bankar fóru yfir um með tilheyrandi afleiðingum. Ég held að hæstv. ráðherra ætti (Gripið fram í.) svo sem að rifja upp ýmislegt sem Samfylkingin stóð fyrir í þeirri ríkisstjórn. Við höfum kannski sérstaka umræðu um þá sorgarsögu alla, við erum svo sem ekki búin að bíta úr nálinni í þeim efnum.

Mig langar að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að leggja frumvarpið fram sem og fjölmörgum öðrum þingmönnum sem eru á þessu máli. Ég sé að hér eru þrír framsóknarmenn, hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson. Sjálfur hefði ég gjarnan viljað vera með á þessu máli, mér hefur láðst að láta hv. þingmann fá símanúmerið mitt, með einni hringingu hefði ég sagt já, já, já við að vera á svo góðu máli sem hér um ræðir, vegna þess að þetta er réttlætismál.

Það er réttlætismál að jafna lífskjörin í landinu og eins og ágætlega er farið yfir í frumvarpinu kemur í ljós að hækkun frá árinu 2002 á svæði Rariks vegna húshitunarkostnaðar er hvorki meira né minna en 72%. Það hefði nú einhvers staðar eitthvað heyrst frá þjóðfélagshópum eða hagsmunaaðilum ef svo hrikalega væri vegið að lífskjörum viðkomandi hópa. Við höfum reyndar hér á vettvangi þingsins reynt að vekja athygli á þessum málum. Ég hef spurt hæstv. iðnaðarráðherra ítrekað út í þetta, hvað þeirri vinnu líði að jafna lífskjörin að þessu leyti vegna þess að fólk á köldum svæðum borgar margfalt hærri raforkureikninga en fólk á suðvesturhorni landsins. Þetta er einfaldlega eitthvað sem gengur ekki.

Erum við að tala um einhvern smáhóp í þessu samhengi. Við erum að tala um 34–35 þúsund manns, 10–12 þúsund heimili. Það verður einfaldlega ekki við það unað að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að lækka niðurgreiðslur til þessara svæða með þeim hætti sem fjárlagafrumvarpið fyrir árið í ár kveður upp úr um. Síðan horfum við upp á hæstv. ráðherra koma hingað upp og guma sig af miklum afrekum á sviði byggðamála. Við erum að tala hér um stórt byggðamál og við erum að tala um réttlætismál. Það þýðir ekki fyrir forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna að guma sig af miklum afrekum í þessum efnum þegar við horfum upp á að raforkuverðsreikningar íbúa á landsbyggðinni á köldum svæðum hafa hækkað um 72% frá árinu 2002.

Það er ánægjulegt að sjá hv. þm. Kristján L. Möller hér í salnum, sem er næstur á mælendaskrá. Hann hefur talað fyrir málum sem þessum í gegnum tíðina, hann var í ríkisstjórn og nú er hann í meiri hluta hér á vettvangi þingsins en samt horfum við upp á þá þróun að niðurskurður er á fjárframlögum til að jafna húshitunarkostnað í hinum dreifðu byggðum á köldum svæðum. Ég vona að eftir þessa umræðu muni hv. stjórnarliðar, hvort sem þeir eru hæstv. ráðherrar eða þingmenn, beita sér, ef þeir meina eitthvað með orðum sínum, í að jafna þennan mun. Það er forkastanlegt að horfa upp á þessa þróun. Það er ekki sæmandi nokkurri þjóð að mismuna þegnum sínum með þeim hætti sem hér um ræðir.

Við horfum líka á það, og við þekkjum þá raunasögu alla, hvernig flutningskostnaðurinn hefur vaxið og vaxið þá sérstaklega gagnvart þeim byggðarlögum sem við ræðum hér. Við horfum líka á það að í frumvarpi til fjárlaga, sem var samþykkt fyrir síðustu áramót, voru álögur á eldsneyti hækkaðar enn meira enn eina ferðina. Og hverjir eru það sem þurfa að greiða hlutfallslega mest fyrir afnot af bifreiðum sínum? Það er fólkið á þessum svæðum. Fólk hefur ekki almenningssamgöngur á Vopnafirði, það gengur enginn strætó um þann bæ. Fólk verður einfaldlega að eiga bifreið og allar þessar kostnaðarhækkanir, ofan á það sem við erum að tala um hér, leiða til þess að kaupmáttur fólks á þessu svæði skerðist og þar af leiðandi möguleikar fólks, jafnvel til þess að senda börnin sín til mennta. Það eru ekki framhaldsskólar á öllum þessum svæðum.

Það er einfaldlega ekki líðandi að við horfum upp á þessa þróun og mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra eigi að gera hreint fyrir sínum dyrum, koma hingað upp og biðjast afsökunar á því hvernig þessi þróun hefur verið. Það man enginn eftir því hvað hæstv. ráðherra gerði árið 2008. Fólk spyr í dag: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera árið 2011? Hvað á að gera á þessu ári til að jafna þennan aðstöðumun? Hann er í stjórnmálaflokki sem kennir sig við jöfnuð, Jafnaðarmannaflokkur Íslands er sagt á tyllidögum. Hvar er jöfnuðurinn í þessu og hver hefur þróunin verið? Jú, gapið er alltaf að stækka á milli þeirra sem þurfa að greiða hvað hæsta verð fyrir orkureikninga sína og þeirra sem borga minnst. Það er enginn jöfnuður í þessu, frú forseti.

Ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina til að leggja þessu frumvarpi lið, tala ekki einungis fallega í ræðustóli þingsins, um hversu glæsilegt frumvarp þetta sé, heldur láta verkin tala. Það var nú einn stjórnmálaflokkur fyrir nokkrum árum sem hafði göfugt slagorð, mig minnir að við höfum lofað einum 15 þúsund störfum á sínum tíma og við létum verkin tala. Ef þessi ríkisstjórn léti sín verk tala til þess að minnka atvinnuleysið hér væri það þjóðþrifaverk vegna þess að 14 þúsund Íslendingar eru án atvinnu. Það eina sem hæstv. utanríkisráðherra sér og ríkisstjórnin er að hækka álögur á atvinnulífið þannig að erfiðara verði að fjölga störfum í landinu og hverjar eru afleiðingar þess? Fleiri og fleiri missa atvinnuna. Og hverjar eru afleiðingar þess? Við þurfum að borga milljarðatugi í atvinnuleysisbætur. Ríkisstjórnin hefur með efnahagsstjórn sinni leitt það yfir þjóðina að við erum í mjög hröðum spíral niður á við, því miður. Þessi ríkisstjórn sér ekkert nema skattahækkanir, það er eina lausnin.

Hér er aftur á móti lögð til skattalækkun til handa fólki sem hefur verið skattpínt og ekki síst með gjöldum, raforkugjöldum, á undangengnum árum. Hér er kveðið á um að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Sú aðgerð mundi leiða það af sér að til lengri tíma litið mundi ríkissjóður hagnast verulega því að kostnaður ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði mundi lækka. Maður hlýtur að kalla eftir framtíðarsýn hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að máli eins og þessu. Og maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju er ekki fyrir lifandis löngu búið að gera þetta?

Ég vil minna Samfylkinguna á að hún hefur verið í ríkisstjórn í fjögur ár, hún er ekkert kornabarn í þessum efnum. En ég man eftir því, hafandi setið þá hér á þessum tíma, að þingmenn Samfylkingarinnar hafa komið hingað upp trekk í trekk og talað mjög fallega um að nú eigi að gera hitt og þetta til jöfnunar og til að bæta hag þeirra sem hvað verst standa í samfélaginu. En efndirnar verða eiginlega engar, því miður.

Ég veit að hæstv. ráðherra mun koma hingað upp á eftir og væntanlega mun hann guma af afrekum Samfylkingarinnar á þessu sviði á undangengnum árum. En eins og ég hef rakið hér hefur þvert á móti sigið á ógæfuhliðina. Rekstrarkostnaður fjölskyldna á köldum svæðum til að hita upp húsið sitt — hugsið ykkur — hefur vaxið um 72% frá árinu 2002. Ég veit því ekki hvernig hæstv. ráðherra ætlar að fara að guma sig af glæsilegum árangri hafandi verið í ríkisstjórn í fjögur ár í þessum málaflokki. Árangurinn er enginn og þó teldist það nokkuð gott að hann væri enginn vegna þess að hann er minni en enginn. Fólk borgar miklu hærri gjöld vegna húshitunar og það er óásættanlegt í því árferði sem hér ríkir.

Ég vil, frú forseti, að lokinni þessari ræðu lýsa því yfir að við framsóknarmenn styðjum það heils hugar að skattafsláttur verði veittur vegna kaupa á varmadælum. Ég vil líka minna á að í tíð Framsóknarflokksins voru niðurgreiðslur til kaldra svæða auknar stórlega. En á síðustu árum hafa þær lækkað jafnt og þétt sem hefur leitt það af sér að raforkureikningar fólks á köldum svæðum hafa hækkað um 72%. Frú forseti, þvílíkur árangur.



[15:00]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vildi að ég bæði hann afsökunar og ég ætla að biðja hann (BJJ: Þjóðina.) afsökunar, (BJJ: Þjóðina.) en þó ekki fyrr en undir lok míns máls.

Hv. þingmaður var mjög vanstilltur hér í ræðustól og ég skil það vel. Ferill Framsóknarflokksins í byggðamálum er svo svartur að það þurfti ráðherra úr Reykjavík 101 til að bæta fyrir hann. Eftir að Framsókn hafði í 10 ár reynt að bæta hlut landsbyggðarinnar þurfti krata úr Reykjavík til að bæta fyrir syndir hennar. Þannig er staðan. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það kostar mikið að kynda, sérstaklega þar sem menn þurfa að beita olíum. Það vill svo til að olían nánast tvöfaldaðist í verði yfir eina nótt. Það var þegar gengið hrundi. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Af hverju hrundi gengið? Ég þarf ekki að spyrja hv. þingmann um það, ég leita bara í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur í ljós að það eru þrír þættir sem ráða þar mestu. Það var húsnæðislánastefna Framsóknarflokksins og það stendur þar skýrum stöfum. Númer 2 var það óðagotið og flanið við stórframkvæmdir. Það stendur í rannsóknarskýrslu Alþingis, það er nú ekkert flóknara en það. Það sem ég ætla að biðja hv. þingmann afsökunar á er að ég skuli hafa hlíft honum hér áðan. Sú staða sem hv. þingmaður er að tala um núna, sem ríkisstjórnin neyðist til að reyna að ráðast gegn með því að hækka skatta, er að verulegu leyti, staðfest af rannsóknarnefnd Alþingis, fortíð Framsóknar að kenna. Þar segir að ekkert hafi verið hægt að gera eftir árið 2006 til að bjarga því. Hverjir voru í ríkisstjórn þá? Forverar hv. þingmanns.

Hv. þingmaður ætti því að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar á því sem hans eigin flokkur gerði. En ég veit að hann er (Forseti hringir.) ungur að árum og hefur ekki reynslu og þroska til að biðjast afsökunar eins og ég var að gera hér.



[15:02]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit nú ekki hvernig er hægt að bera vanstillingu upp á mig hér í ræðustól því að hæstv. utanríkisráðherra fór nokkuð mikinn og hafði ekki alltaf sannleikann að leiðarljósi þegar kom að túlkun á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vil nefna að í þeirri skýrslu kom fram mjög hörð gagnrýni á þáverandi ríkisstjórn þar sem beinlínis var sagt að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hefðu flotið sofandi að feigðarósi. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi verið í þeirri stjórn. (Gripið fram í.) Hann vill varla ræða það.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra vék í engu að umræðuefninu í andsvari sínu sem er að raforkuverð til húshitunar á köldum svæðum hefur hækkað um 72% frá árinu 2002. Það er sú staðreynd sem blasir við. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að einhverju leyti að reyna að bæta úr. Hæstv. ráðherra nefndi það áðan að ég hefði talað með mjög ákveðnum hætti um þetta. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi komið til Vopnafjarðar, Þórshafnar eða á hin köldu svæði þar sem reikningarnir hafa verið að hækka frá einum mánuði til annars og kostnaður margra íbúa orðinn slíkur að það er farið að hafa veruleg áhrif á hvernig fólk hagar lífi sínu. Ég bið hæstv. ráðherra um að jarðtengjast þjóðinni með því að ræða það mál sem ég hef verið að ýja að hér. Það er algjört hneyksli hvernig raforkuverð í hinum dreifðu byggðum, á hinum köldu svæðum, hefur stórhækkað á undanförnum árum.



[15:05]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt tilefni fyrstu ræðu minnar, sem hv. þingmaður hlustaði kannski ekki á, að ræða það hve staða íbúa hinna köldu svæða er erfið og hve nauðsynlegt er að taka á því. Eins og ég sagði hefur hún líka versnað.

Hv. þingmaður spurði mig hvort ég hefði komið á hin köldu svæði. Ég lenti í Reykjavík fyrir klukkutíma og hafði þá meðal annars verið á köldum svæðum í kjördæmi hv. þingmanns. Hv. þingmaður verður að skilja (Gripið fram í.) að hann getur ekki komið hingað og kastað skít með þeim hætti sem hann gerði án þess að búast við því að bent sé á það hvaðan sá aur er upprunninn. Hann er að verulegu leyti, eins og staðfest er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, upprunninn í flór og fjóshaug Framsóknarflokksins, þó við í þessum sal séum nú endranær ekkert að núa flokknum því um nasir vegna þess að menn vilja heldur vera í málefnalegri umræðu. Ef (Gripið fram í.) þingmaðurinn færir þetta niður á það plan sem hann gerði verður hann að búast við því að hann verði hirtur með nákvæmlega sömu aðferðum og hann reynir að beita á aðra. Ef hv. þingmaður vill fara í það að rifja upp hvað það var sem leiddi til ófarnaðar í íslensku þjóðarinnar árið 2008 er því bara nákvæmlega vel lýst.

Ég skal fyllilega gangast við því að hafa verið í ríkisstjórninni sem tók við 2007 og gangast við því líka að sú ríkisstjórn hefði mátt standa sig betur, það er alveg hárrétt. Það breytir ekki hinu að rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að eftir mitt ár 2006 hefði ekkert verið hægt að gera, (Gripið fram í: Jú, jú.) það segir hún. Hverjir voru þá í ríkisstjórn? Jú, það var Framsóknarflokkurinn meðal annars og forustumenn hans. Það kemur skýrt fram í rannsóknarskýrslunni að það var stefna Framsóknarflokksins umfram annað sem olli þessu og ekki síst stefnan varðandi húsnæðislánin sem hleypti hér öllu í bál og brand. Hvaðan kom það? Beint úr smiðju Framsóknarflokksins. Hv. þingmaður verður bara að vera maður til að horfast í augu við það fyrst hann á annað borð kýs að taka þetta (Forseti hringir.) til umræðu hér.



[15:07]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að rétt sé að hafa sérstaka umræðu um hvernig sagan er og hvernig hæstv. utanríkisráðherra reynir að endurskrifa söguna. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þegar lög um húsnæðismál voru afgreidd á sínum tíma hér á vettvangi þingsins vildi Samfylkingin ganga lengra í húsnæðislánum, rýmka heimildir og fleira. Hver var þar í broddi fylkingar? Hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Þannig að ef Samfylkingin hefði verið þá við völd hefði hún gengið lengra í þeim efnum. Ég hafna því algjörlega þeim áburði sem hv. þingmaður er að reyna að varpa á Íbúðalánasjóð og þá húsnæðisstefnu sem hér hefur verið uppi.

Í annan stað vil ég rifja það upp, af því hæstv. ráðherra er kominn í þessa sögulegu upprifjun, að það var á vakt Samfylkingarinnar í ríkisstjórn að Icesave-reikningarnir voru opnaðir í Hollandi. Það var á (Gripið fram í.) vakt Samfylkingarinnar sem Icesave-samningarnir í Bretlandi tútnuðu út og það var á vakt Samfylkingar sem þáverandi hæstv. ríkisstjórn vildi borga 500–600 milljarða kr. út af Icesave-klúðri Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Það þurfti nú aldeilis að taka sig á til þess að koma í veg fyrir að Samfylkingin beinlínis, með því að samþykkja þann samning, setti ríkissjóð á hausinn.

Við erum að tala um það hér að 1 milljarður, eða 900 milljónir, fer til þessara köldu svæða á ári. Hvað er það í samhengi við 500 milljarða kr. klúður Samfylkingarinnar í Icesave-málinu? Það eru ekki nokkrar einustu upphæðir.

Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra hafi kjark til þess að koma hér upp, eftir að hafa verið fjögur ár í ríkisstjórn sem hefur klúðrað ótrúlega mörgum málum, berja sér á brjóst og segja að allt hafi verið öðrum að kenna.



[15:09]Útbýting:

[15:10]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem snýr að því að heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Þetta er hið besta mál sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er flutningsmaður að og ýmsir fleiri og ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég hefði svo sannarlega getað skrifað upp á þessa tillögu líka, hún er mjög góð. Ég trúi því og treysti á meðan ég ræði þessa tillögu hér að hún fái góða meðferð í efnahags- og skattanefnd. Ég er viss um að undir forsæti hv. þm. Helga Hjörvars í þeirri nefnd fær tillagan slíka meðferð. Jafnframt vil ég lýsa því yfir fyrir hönd iðnaðarnefndar að við erum tilbúin að koma að því líka og veita umsögn um þetta lagafrumvarp. Ég vitna þá til góðrar samvinnu þessara tveggja nefnda, þ.e. efnahags- og skattanefndar og iðnaðarnefndar, fyrir jól þegar okkur tókst í sameiningu að gera þær betrumbætur sem þurfti að gera á skattkerfinu gagnvart netþjónabúum og rekstri þeirra á Íslandi. Á elleftu stundu tókst okkur að búa til skattkerfi sem er sambærilegt við það sem er í Evrópu þannig að við þurftum ekki að sjá á eftir netþjónabúunum og að þau hættu við. Því segi ég að frumvarpið sem er til umræðu er stórt atriði í því samhengi sem hér er verið að tala um, þ.e. húshitunarkostnað, sérstaklega úti á landi og alveg sérstaklega í dreifbýli.

Það er auðvitað ekki hægt, virðulegi forseti, að búa við það öllu lengur og hefur reyndar aldrei verið hægt að búa við það að sá húshitunarkostnaður sem leggst á íbúa úti á landi sé svona hár eins og þarna er gert ráð fyrir og hann hefur verið að hækka mikið undanfarið. Hér er sagt að það kosti í kringum 238 þús. kr. á ári eða um 20 þús. kr. á mánuði að hita 180 fermetra einbýlishús í dreifbýli meðan það kostar 93 þús. kr. ári eða 8 þús. kr. á mánuði á svæði Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er mismunur upp á 12 þús. kr. á mánuði, virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim atriðum sem landsbyggðarbúar þurfa að búa við og það ójafnrétti sem þeir búa við.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ekki er hægt að reisa hitaveitu í hverju byggðarlagi eða hverju þorpi, sums staðar er einfaldlega ekki heitt vatn að fá, og í seinni tíð hefur auðvitað verið mjög dýrt að bora eftir vatni og opna hitaveitur þannig að kostnaður hefur ekki lækkað. Þess vegna verður samfélagið að koma til móts við íbúa þessara svæða með niðurgreiðslum þar sem fært er til með aðstoð skattkerfisins til að jafna þennan mun. Þegar ég segi að jafna þennan mun, virðulegi forseti, hef ég alltaf sagt að ef menn vilja jafna atkvæðavægi á Íslandi og gera landið að einu kjördæmi þá sé ég alveg til í það ef allt annað verður jafnað í leiðinni.

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við það frumvarp sem hér er lagt fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) og eins þá þingsályktunartillögu sem hér hefur verið lögð fram um að skipa nefnd til að móta tillögur að lækkun húshitunarkostnaðar sem ég er flutningsmaður að ásamt hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, sem er 1. flutningsmaður, og mörgum öðrum. Sú tillaga mun koma til iðnaðarnefndar og ég mun taka hana fljótt og vel til afgreiðslu þar og skoðunar en vil jafnframt segja að unnin hefur verið ákveðin forvinna hvað það varðar vegna þess að það er nefnd í gangi varðandi garðyrkjuna og þann aðstöðumun sem er milli garðyrkjubænda og þess kostnaðar sem þar er ef garðyrkjubændur starfa í dreifbýli sem oft er. Þar er himinhár munur á milli sem hefur m.a. gert það að verkum, virðulegi forseti, vegna hás raforkukostnaðar, að þessi framleiðsla hefur minnkað í landinu sem hefur það í för með sér að við þurfum að flytja meira inn af grænmeti í staðinn. Það er náttúrlega ótækt á þeim tíma þegar land og þjóð þarf að gera hvað mest af því að safna gjaldeyri í landinu og passa upp á þann gjaldeyri sem við fáum fyrir útflutningsvörur okkar að við eyðum honum í grænmeti sem jafnvel er flogið með frá Suður-Afríku og ég veit ekki hvaðan til Íslands með ærnum tilkostnaði. Sú tillaga sem hér er lögð fram er góð, ég vil trúa því, en því miður gafst okkur ekki tækifæri til þess núna vegna þess að við vorum með opið raforkulagafrumvarp, og höfum verið með það opið út af öðru, en það var skoðað af mér og öðrum í nefndinni hvort við gætum beðið með það gagnvart húshitunarkostnaði og raforkukostnaði í dreifbýli. Við töldum okkur ekki geta það vegna þess hve lá á aðalatriðunum sem voru í því frumvarpi, en frumvarpið var afgreitt við 2. umr. í morgun og bíður 3. umr. og lokaafgreiðslu.

Ég vil trúa því að okkur takist að setja þessa vinnu í gang en sú vinna á ekki að verða til þess að skila enn einni skýrslunni. Sú vinna á að fara í það að skoða hvernig hægt er að lækka þennan kostnað og kannski alveg sérstaklega hvort við eigum að breyta viðmiðinu um 200 íbúa í dreifbýli sem virðist skipta öllu í þessum málum.

Þá kem ég að því, virðulegi forseti, sem mér fannst vera svona hið ómálefnalega í þessari umræðu sem gerðist áðan þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, fór að tala um hækkun húshitunarkostnaðar sem ég hef líka gert að umtalsefni hér. Virðulegi forseti. Það hefur aldrei þótt góður siður að kasta steinum úr glerhúsi búandi í glerhúsi. Það er nefnilega þannig að þegar verið er að tala um þessa miklu hækkun húshitunarkostnaðar þá á slíkt við frá árinu 2000. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að frá árinu 2000 til ársins 2007 var það verkefni Framsóknarflokksins í iðnaðarráðuneytinu, algjörlega einn og óvaldaður og þurfti enga aðstoð við að klúðra þeim málum sem þar var klúðrað hvað þetta varðar.

Raforkutilskipunin, sem er sennilega upphafið að allri þessari vitleysu og við þurftum ekki að taka upp hér eftir á að hyggja, var verkefni Framsóknarflokksins. (BJJ: … undir lokin?) Samþykkt af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og ýmsum fleirum sem þar komu með vegna þess að þáverandi iðnaðarráðherra taldi það ekki vera hægt. Eftir það hefur komið í ljós að það var enginn vandi að fá undanþágu frá raforkutilskipuninni ef aðeins undirbúningsvinnan hefði verið unnin. Það var ekki gert.

Þannig er það, virðulegi forseti, að þetta er að stórum hluta verkefni Framsóknarflokksins. Ég sat í iðnaðarnefnd þegar þetta var gert. Ég man eftir því þegar sendiboðar komu úr iðnaðarráðuneytinu og flögguðu einhverjum 200 milljónum sem átti að setja þá fyrst inn sem síðan áttu að vaxa og vaxa til þess að niðurgreiða hækkandi húshitunarkostnað í dreifbýli.

Virðulegi forseti. Sú upphæð var aldrei hækkuð í tíð (BJJ: Ha?) Framsóknarflokksins. Þær rúmlega 200 milljónir sem settar voru til niðurgreiðslu húshitunar í dreifbýli hafa ekki verið hækkaðar, þær hafa lækkað ef eitthvað er. Þær hækkuðu ekki í tíð Framsóknarflokksins svo það sé bara haft á hreinu.

Hv. þingmaður gerði hér fleira að umtalsefni og skammaði núverandi stjórnvöld sem eru í raun og veru ekkert annað en skilastjórn fyrir hið gjaldþrota Ísland sem Framsóknarflokkurinn skildi eftir sig. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra hefur gert þátt Framsóknarflokksins í því ágætlega skil og væri hægt að bæta einhverju við ef út í það færi.

Og vegna þess að ég sagði áðan að hv. þingmaður ætti ekki að kasta steinum úr glerhúsi þá talaði hann hér um flutningskostnað sem er sannarlega allt of hár og er alltaf að hækka vegna hækkandi olíuverðs (Gripið fram í.) og annars.

Virðulegi forseti. Ég kom í ríkisstjórn sumarið 2007 og við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sátum þar þegar tillögur voru lagðar fyrir okkur um að ákveðið hefði verið af þeirri ríkisstjórn sem þá var að fara frá, og vona ég að menn taki nú vel eftir — að sú ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem þá féll, sem betur fer, væri búin að ákveða að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn voru búnir að ákveða það. (Gripið fram í.) Við sátum á ríkisstjórnarfundi, virðulegi forseti, og spurðum: Bíddu, hvenær var tekin ákvörðun um að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð? (Gripið fram í.) Svarið var einfaldlega þetta: Það var ákveðið í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem var að fara frá að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Það var Framsóknarflokkurinn sem ætlaði að leggja það niður. En það vorum við, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, og kannski sérstaklega fyrir baráttu okkar samfylkingarmanna í þeirri ríkisstjórn með hæstv. iðnaðarráðherra og ráðherra byggðamála þar með, sem komum í veg fyrir að flutningsjöfnunarsjóður olíuvara yrði lagður niður, að það verk sem Framsóknarflokkurinn var búinn að undirbúa gengi eftir. Þá var skipuð nefnd, virðulegi forseti, af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, undir forustu Kristjáns Þórs Júlíussonar sem átti að útfæra aðferðir við flutningsjöfnuð og niðurgreiðslu. Það verk var komið vel á veg en því miður voru engar reglur til um hvernig ætti að framkvæma það. En síðan riðu ósköpin yfir og síðan hefur lítið annað verið gert en að vinna úr fullu borði af vondum kostum niðurskurðar og skattahækkana vegna þess efnahags- og bankahruns sem við höfum oft rætt hér.

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram og tek undir með hæstv. utanríkisráðherra þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, vildi endilega taka þetta til umræðu hér, að það sé alveg sjálfsagt að gera það. En það verður ekki þannig að viðkomandi hv. þingmaður geti sett skítadreifarann á fullt og ausið hér svívirðingum yfir þá sem eru núna að moka flórinn án þess að tekið sé til varna og ýmislegt rifjað upp í ferilskrá Framsóknarflokksins eins og hér hefur verið gert um ýmislegt fleira.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi ýmis mál. Það má líka nefna mál eins og afnám bindiskyldu í bönkum. Ég minnist þess að Halldór Ásgrímsson, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, taldi það hina mestu vitleysu og bara dónaskap að menn væru að efast eitthvað um að það hefði ekki verið rétt ákvörðun að afnema hana. Og þá fór nú fyrst að flæða út úr bönkunum.

Virðulegi forseti. Mér er illa við að þurfa að takast á við það sem ég hef verið að gera hér að umtalsefni, að bera þetta saman. Ég held við ættum að leyfa okkur að fara frá því, það er ekki það sem beðið er eftir í landinu, það er beðið eftir aðgerðum til að byggja upp landið og við eigum að snúa okkur að því. Þess vegna segi ég að þessi tillaga er ein lítil tillaga í átt til þess að gefa möguleika á lækkun húshitunarkostnaðar í dreifbýli sem er mikilvægasta byggðamálið um þessar mundir, mjög mikilvægt atriði sem við þurfum að einhenda okkur í og finna út úr.

Ég bið hv. þm. Birki Jón Jónsson um að athuga aðeins ferilskrá Framsóknarflokksins áður en er byrjað er á því að ausa yfir okkur sem stöndum vaktina í dag og erum að ausa hið hripleka fley sem við tókum við.



[15:22]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það þykir góður siður að hafa það uppi sem sannara reynist. Ég man að þegar Samfylkingin kynnti sitt fyrsta fjárlagafrumvarp árið 2007 — hún kom þá í ríkisstjórn og ég minni á að það eru fjögur ár síðan — var í því fjárlagafrumvarpi lagt til að flutningssjóður olíuvara yrði lagður niður. Það var frumvarp sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lagði fram. Og að kenna Framsóknarflokknum um það er dálítið langt gengið. Ég man að ég spurði þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hvernig á þessu stæði og þetta var leiðrétt í framhaldinu. Ég held að hv. þm. Kristján L. Möller ætti nú að kannast við það að sú ríkisstjórn sem hann átti aðild að lagði til að flutningssjóður olíuvara yrði lagður niður en eftir að við framsóknarmenn mótmæltum því hástöfum í þinginu var það dregið til baka.

Í annan stað hef ég ekki orðið var við að flutningskostnaður hafi lækkað í miklum mæli á þeim fjórum árum sem hv. þingmaður hefur átt aðild að ríkisstjórn þrátt fyrir að hann hafi í mörgum góðum ræðum, ágætum ræðum, flutt ágætt mál um nauðsyn þess að lækka flutningskostnað. Þvert á móti hefur flutningskostnaður til hinna dreifðu byggða stórhækkað. Það hefur líka komið í ljós að álögur á eldsneyti, bensín og olíu, í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem Samfylkingin á nú aðild að, hefur líka stórhækkað. Nú er það orðið þannig að lítrinn af bensíni og dísilolíu kostar hvað, 225–230 kr. Það stendur varla neitt heimili undir þessu. Þrátt fyrir það koma hv. þingmenn Samfylkingarinnar hér upp og rifja upp einhver fimm eða tíu ár aftur í tímann en hafa greinilega ekki hugmynd um hver raunveruleg staða almennings er í dag og vilja ekkert kannast við eigið aðgerðaleysi í þessum brýnu málum.



[15:24]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, karpið heldur áfram og það verður þá að taka á því vegna þess að ekki er hægt að láta varaformann Framsóknarflokksins enda á því að fara með svo rangt mál eins og hann gerði.

Ég skal rifja það upp og segja það einu sinni enn. Þegar við komum í ríkisstjórn sumarið 2007 eftir kosningar var búið að vinna fjárlög og svo gott sem klára þau og átti ekkert eftir nema að stimpla þau og ganga frá. (Gripið fram í.) Þar var það sem við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson rákum augun í að leggja átti niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Við gerðum strax athugasemdir við það (Gripið fram í.) og spurðum hvar ákvörðunin hefði verið tekin. (BJJ: Það var lagt fram …) Það var sagt skýrt og skilmerkilega af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, að sú ákvörðun hefði verið tekin við undirbúning fjárlaga hjá þeirri ríkisstjórn sem var að fara frá. Síðan er það rétt að frumvarpið kom fram. (Gripið fram í: Já.) En hver var það sem hætti við að leggja fram frumvarpið og dró það til baka? Hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, með stuðningi allra samfylkingarmanna sem þar voru inni. Það var hætt við að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara sem Framsóknarflokkurinn ætlaði sér að leggja niður. Þetta eru staðreyndir. (Gripið fram í.)

Varðandi olíugjaldið þá er það í fyrsta skipti í tíð þessarar ríkisstjórnar sem olíugjald vegna flutningabíla og annarra hefur ekki hækkað eins og allt annað í þeim vörum. Það var stigið skref í því á síðasta ári í tíð núverandi ríkisstjórnar. Og síðan er kannski það merkilegasta sem hefur gerst og kannski það eina í lækkun flutningskostnaðar. Við getum tekið sem dæmi um lækkun flutningskostnaðar vestur á firði ákveðnar samgöngubætur sem er þverun Mjóafjarðar og Arnkötludalsleiðin. Í framhaldi af því lækkuðu flutningsgjöld til Vestfjarða um 15–20%. Það væri kannski markverðast að gera, að stytta vegalengdir og bæta vegi meðan við erum í þeirri krísu sem við erum í í dag þegar við höfum ekki peninga í ríkissjóði til að leggja í hefðbundna niðurgreiðslu (Forseti hringir.) sem væri auðvitað sanngjarnast.



[15:26]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hafði verið áhugamál innan fjármálaráðuneytisins í allmörg ár að leggja niður flutningssjóð olíuvara. Fram komu tillögur þess efnis sem lagðar voru fyrir þingflokk Framsóknarflokksins sem mótmælti því skipti eftir skipti, enda fór það svo að þess vegna kom það ekki fram í frumvarpi þáverandi ríkisstjórnar til fjárlaga. Nú segir hv. þingmaður að Samfylkingin hafi í raun og veru ætlað að samþykkja óbreytt frumvarp sem fyrri ríkisstjórn hafi verið búin að leggja fram. Ég velti því fyrir mér: Hvernig stendur á því að frumvarpið var lagt fram með þeim hætti að flutningssjóður olíuvara skyldi lagður niður? Það var 1. umr. um málið hjá nýrri ríkisstjórn. Og að ætla það að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði nokkurn tímann samþykkt það eða hleypt því í gegn þannig að mælt yrði fyrir því í frumvarpi til fjárlaga sem Framsóknarflokkurinn ætti aðild að er einfaldlega ekki sannleikanum samkvæmt, enda höfðum við hafnað því í mörg ár.

Mér þykir leitt að hv. þingmaður skuli vera svona reiður yfir þessari söguskýringu minni en hún er einfaldlega rétt. Það var ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem lagði það fram í frumvarpi til fjárlaga að flutningssjóður olíuvara yrði lagður niður. Ég get sýnt hv. þingmanni það frumvarp og auðvitað ber þingflokkur Samfylkingarinnar ábyrgð á því. Þess vegna er alveg fáránlegt að heyra hvernig hv. þingmaður leggur það hér upp að það sé Framsóknarflokknum að kenna að þingflokkar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafi lagt þetta til í fjárlagafrumvarpi. Þetta er einfaldlega ekki boðleg umræða. Við börðumst hatrammlega gegn því á haustþingi árið 2007 að þetta yrði gert og við náðum því fram sem betur fer og þingmenn flestallra flokka voru á því. En mér þykir leiðinlegt hve hæstv. ráðherra er fastur í fortíðinni, hann leitar jafnvel 10, 15 ár aftur í tímann til (Forseti hringir.) að reyna að verja slæma málefnastöðu núverandi ríkisstjórnar.



[15:28]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur það komið fram eins og hv. þingmaður segir að það var áhugamál fjármálaráðuneytisins alla tíð að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. (BJJ: Eins og ég þekkti það.) Já, þá kemur það hjá framsóknarmönnum að það voru sem sagt sjálfstæðismenn í fjármálaráðuneytinu sem voru áhugamenn um það.

Það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem lagði grunn að fjárlögunum sem lögð voru fram. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var ekki mynduð fyrr en 24. maí 2007 og tók þá við og þá var fjárlagaferlið komið það langt, það er rétt, auðvitað liggur það þá frammi í því frumvarpi sem var lagt fram vegna þess að það voru ekki gerðar neinar stórkostlegar breytingar við framlagningu þess í byrjun október. (BJJ: Nú?) En hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra neitaði að fylgja því eftir með frumvarpi að leggja niður sjóðinn (BJJ: Gott …) vegna þess að við samfylkingarmenn sögðum, nei, takk, kemur ekki til mála. En þetta voru verk Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) sem lagði þetta til. Ég bið hv. þingmann að ræða við þann sem stýrði Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi og sat lengi í iðnaðarráðuneytinu og lagði þetta til. Er ekki best að hv. þingmaður fái upplýsingarnar beint þaðan? Það getur vel verið að við getum fundið einhver gögn um hvenær þetta var ákveðið í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en, virðulegi forseti, það stendur eftir frá hv. þingmanni, varaformanni Framsóknarflokksins, að þetta var áhugamál fjármálaráðuneytisins, það er rétt, og að þáverandi ríkisstjórn ætlaði að leggja þetta fram gegn mótmælum okkar. Það kom strax fram að því yrði mótmælt og eins og ég sagði fylgdi hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra því eftir með því að leggja sjóðinn ekki niður.



[15:30]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem að sjálfsögðu fyrst og fremst hingað upp til að ræða um frumvarpið sem ég er einn flutningsmanna að, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Það hefur verið hér til umræðu og hefur verið farið um víðan völl eins og oft vill gerast þegar rætt er um mál sem hafa ýmsa fleti.

Rétt í upphafi, út af orðaskiptum hv. þingmanna um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara, spurði hv. þm. Birkir Jón Jónsson mig, sem fór með málaflokkinn í ríkisstjórn, hvort til stæði að leggja sjóðinn niður líkt og kæmi fram í fjárlagafrumvarpi sem var nýútkomið þá, þetta var í október 2007. Ég svaraði því til að sjóðurinn yrði ekki lagður niður og við mundum leita leiða til að fara heildstætt yfir þessi mál o.s.frv. Því fagnaði hv. þingmaður mjög og margir aðrir þannig að þar með lauk hinni „blóðugu“ baráttu sem nefnd var áðan og náði aldrei lengra. Í þessum eina fyrirspurnatíma tilkynnti ég það sem við höfðum rætt vikum saman, ég og hv. þm. Kristján Möller og margir aðrir, að svo mætti aldrei verða. Við vorum á móti því að sjóðurinn yrði lagður niður og tilkynntum það í þessum fyrirspurnatíma án þess að ræða það sérstaklega annars staðar og urðu heilmikil átök um málið. Eftir stóð ákvörðun okkar. Hvað sem öðrum fyrirætlunum leið var það okkar ákvörðun og það var góð ákvörðun að hætta við að leggja sjóðinn niður. Þótt hann hefði í sjálfu sér ekki haft mikil áhrif á þéttbýlli staði úti á landi hafði það t.d. áhrif á Langanesi og nokkrum svæðum lengst frá höfuðborgarsvæðinu að greiða niður eldsneytisverð.

En aðeins um málið sjálft. Það má vel vera að við hefðum átt að ganga lengra og fastar fram á síðustu 10–15 árum í því að lækka húshitunarkostnað og raforkuverð til garðyrkjunnar sem nefnd var áðan og hefur stundum verið nefnd gjaldeyrissparandi hollustugrein og má til sanns vegar færa. Það er blóðugt þegar farið er að flytja inn vörurnar út af því að raforkuverð er að sliga greinina og draga úr framleiðslumætti hennar sem er mjög mikill.

Þetta höfum við líka rætt í þingsölum árum saman og mikið undanfarin 10 ár. Vonandi bera menn gæfu til að stíga stærri skref í því að lækka verð á raforku til garðyrkjunnar. Sjálfur hef ég oft lýst því yfir í ræðustól Alþingis að besti samjöfnuðurinn við stöðu garðyrkjunnar sé stóriðjan í landinu, það væri langsanngjarnast að selja garðyrkjunni rafmagn sem stórnotanda líkt og álverum og hefðbundinni stóriðju. Það mundi líklega þýða að raforkuverð til garðyrkjubænda lækkaði um meira en helming, allt að 2/3 , ef garðyrkjan yrði skilgreind sem stórnotandi og samið við hana um eitt verð sem hún síðan kæmi til bænda og félagsmanna sinna. Þetta er eitt málið.

Hitt málið snýr að jarðhitaleitinni og þróun orkukostnaðar á köldum svæðum á landsbyggðinni. Eins og kemur mjög vel fram í fylgiskjali með frumvarpinu — sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafði alla forustu af að flytja og bauð okkur að vera með sem við og gerðum, nokkrir félagar úr Samfylkingunni, t.d. hv. þm. Róbert Marshall, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson og menn úr öðrum flokkum utan Vinstri grænna sýnist mér og Hreyfingar — þá hefur þróunin verið óhagstæð. Sé miðað við síðastliðin 9–10 ár hefur þróunin verið erfið fyrir þessi svæði þó að einhver árangur hafi náðst. Við þurfum svo sem ekkert að fara í djúpar umræður um að staða íbúa þessara dreifbýlli köldu svæða hefur verið og er erfið að mörgu leyti, sérstaklega ef við tökum tillit til vöruverðs, flutningskostnaðar, eldsneytisverðs o.fl. Hún verður það sjálfsagt alltaf að einhverju leyti samanborið við aðstöðuna á höfuðborgarsvæðinu. Á móti má segja að fólk búi við mun lægra verð á fasteignum og ýmislegt annað. Þetta er bara eins og það er, þegar maður velur sér búsetu úti á landsbyggðinni eru búsetukostir aðrir en í þéttbýlinu á suðvesturhorninu.

Eftir stendur það réttlætismál, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi áðan, að leita sanngjarnra og vitlegra leiða til að lækka húshitunarkostnað sem er náttúrlega algjört grundvallaratriði fyrir fólk vegna kostnaðar við fjölskylduhald, þ.e. húshitunarkostnaðar, leigu eða húsnæðiskostnaðar og afborgana af bíl o.fl. Eins og kemur ágætlega fram er þess ekki að vænta að jarðhitaleit verði haldið áfram að neinu marki þó að það hafi komið fram í heimsókn sveitarstjórnarmanna, sem fara fyrir sérstöku félagi sveitarfélaga á köldu svæðunum, til okkar í fjárlaganefnd í haust að jarðhitaleitinni verði að einhverju leyti haldið áfram og þó að ekki sé verulegum fjármunum varið til þess núna sé samt sem áður verið að leita. Þetta eru þau svæði þar sem ekki hefur enn þá fundist orka í jörðinni til að hita upp húsin. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því verkefni að leita leiða til að lækka húshitunarkostnaðinn.

Þetta virðisaukaskattsfrumvarp er gott innlegg. Það er mjög heppileg leið að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar til að stíga skref til lækkunar húshitunarkostnaðar á köldum svæðum.

Sjálfsagt má gera margt fleira og vonandi höfum við borð fyrir báru á næstu missirum til að auka aftur niðurgreiðslu á raforku og húshitunarkostnaði til þeirra köldu svæða sem búa ekki við þá sérstöðu Íslands að geta þó hitað 85%–90% af öllum húsum landsins með ódýrri jarðorku. Það er náttúrlega alveg einstakt. En við þurfum að gæta þess að búsetuskilyrði á þessum svæðum séu jöfnuð að því marki sem hægt er.

Við höfum rætt um leið til að jafna flutningskostnað til að gera vöruverð sambærilegt við það sem er á suðvesturhorninu. Á Suðurlandi og Vesturlandi halda stórverslanir úti verslunum sem gera það að verkum að vöruverð þar er á svipuðum nótum og á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar alla nauðsynjavöru.

Það er verulega íþyngjandi að íbúar á köldu svæðunum hafi þurft að verja hærra hlutfalli tekna sinna til að greiða niður kostnað af upphitun húsa sinna. Það er ekki viðunandi. Þess vegna nær hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þeirri breiðu samstöðu um þetta frumvarp. Um er að ræða innlegg til að ná niður kostnaði og kannski nokkuð verulega. Í greinargerð með frumvarpinu er lýst hvað varmadælurnar eru og með hvaða hætti þær skila árangri. Þær eru mjög umhverfisvænt fyrirkomulag. Þær hita vatnið upp og orkuhagkvæmni dælnanna ræðst af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá orkunni sem þarf til að knýja hana. Það er því mikilvægt að gera fólki kleift að kaupa varmadælur, þ.e. lækka stofnkostnaðinn með því að endurgreiða virðisaukaskattinn, til að ná niður húshitunarkostnaði eins og efni standa til út frá þeim breytingum sem hér eru.

Ég styð þetta mál og fagna því mjög að það sé komið fram og vona að það geti gengið hratt í gegnum þingnefnd og orðið að lögum í vor þannig að íbúar á köldu svæðunum geti nýtt sumarmánuðina til þess að koma þessum búnaði upp fyrir næsta vetur.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.