139. löggjafarþing — 84. fundur
 2. mars 2011.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 544. mál (almenn þjónusta). — Þskj. 914.

[15:10]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010, um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn um almenna þjónustu og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB.

Málið felur í sér ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðnum. Í umræddri ákvörðun eru settar reglur um notkun rafrænna undirskrifta í tengslum við þjónustutilskipunina svokölluðu. Með rafrænum undirskriftum er átt við gögn í rafrænu formi sem fylgja eða tengjast rökrænt öðrum rafrænum gögnum og eru notuð til að sannprófa frá hverjum þau gögn stafa.

Samkvæmt þessari ákvörðun er þeim sem veitir leyfi heimilt að krefjast þess í ákveðnum tilvikum að sá sem veitir þjónustu noti rafræna undirskrift til að auðkenna sig þegar hann sækir um leyfi til að veita þessa tilteknu þjónustu í gegnum upplýsinga- og þjónustuveiturnar sem kveðið er á um í þjónustutilskipuninni.

Þá er jafnframt kveðið á um að aðildarríkin skuli setja upp, viðhalda og birta svokallaða traustlista þar sem fram eiga að koma upplýsingar um vottunaraðilana sem gefa út þessar rafrænu undirskriftir.

Þessi innleiðing á þeirri ákvörðun sem ég hef reifað kallar á breytingu á lögum nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir, sem felst í því að umgjörð um fyrrgreinda traustlista verður lögfest. Gert er ráð fyrir því að Neytendastofa annist uppsetningu og viðhald listans. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mun svo í fyllingu tímans leggja fram frumvarp til breytinga á þessum lögum, nr. 28/2001, og hann fyrirhugar að gera það á yfirstandandi þingi.

Þessi ákvörðun EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Þess vegna var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara, og eins og hv. þingmenn vita hefur þingið sett ákveðnar reglur sem fela það í sér að óskað er samþykkis Alþingis til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara með sérstakri þingsályktunartillögu þótt hægt sé að gera það í viðkomandi lögum. Þess vegna flyt ég, í samræmi við þær reglur sem þingið hefur sett, þessa þingsályktunartillögu þannig að hægt sé að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu slotar verði tillagan send til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd.



[15:13]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa framsögu. Ég vil spyrja hann nokkurra spurninga en geri mér grein fyrir því að fagráðherrann ber síðan að mestu ábyrgð á innihaldi, framkvæmd og eftirfylgni þessarar tilskipunar.

Fyrst að stærri spurningunni, um þá umræðu sem hefur verið hér í nokkur missiri og var m.a. farið yfir af hálfu þingsins, hvort þingið eigi ekki að einbeita sér að því að koma athugasemdum á framfæri á fyrri stigum mála varðandi tilskipanir á vegum EES. Margir telja þar borð fyrir báru og að við Íslendingar getum komið á framfæri athugasemdum um hin og þessi mál. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort á einhverju stigi varðandi þetta tiltekna mál hafi legið fyrir að við hefðum þurft að koma með athugasemdir. Ég efast um að svo sé en aðalspurningin er þá: Hversu margar athugasemdir hafa verið gerðar við tilskipanir EES á fyrri stigum í þeim málum sem hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt fyrir þessu þingi? Höfum við á síðustu árum komið markvisst á framfæri athugasemdum við tilskipanir EES?

Varðandi þetta tiltekna mál langar mig til að fara aðeins inn í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og spyrja hæstv. ráðherra: Hverjir eru þessir vottunaraðilar? Gæti hæstv. ráðherra tekið dæmi um það fyrir okkar land? Til hvaða vottunaraðila er verið að skírskota? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að Neytendastofa á að annast uppsetningu á þessum traustlista. Traustlistinn inniheldur vottunaraðila. Hverjir eru þessir vottunaraðilar og hversu margir geta þeir verið? Þessa spurningu legg ég m.a. fram í því augnamiði að átta mig á öryggi þeirra sem leitast núna eftir því í ríkari mæli að nota og beita rafrænum undirskriftum.



[15:15]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú spurning sem hv. þingmaður beinir til mín varðar meginefni þess frumvarps sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mun flytja síðar á þessu þingi. Það er um breytingar á lögum nr. 28/2001 þar sem sett verða fram skilgreiningar og skilyrði fyrir því að geta orðið vottunaraðili. Það er það sem felst m.a. í þessum svokallaða traustlista. Nöfn þeirra aðila sem þá verða valdir og uppfylla þau skilyrði verða birt þar. Ég get ekki svarað hv. þingmanni gerr á þessu stigi um það efni.

Varðandi síðan hinar tvær fyrri spurningar hv. þingmanns spyr hún í fyrsta lagi hvort Íslendingar hafi komið á framfæri athugasemdum við margar tilskipanir. Svo er. Íslenskir fulltrúar taka þátt í gríðarlega mörgum fundum í mjög mörgum nefndum. Við eigum kost á því að sitja í nefndum sem ég held að telji hátt á fjórða hundrað. Við komumst auðvitað ekki yfir það allt en erum í góðu samstarfi við aðrar þjóðir til að fylgja þeim nefndum eftir. Á þeim stigum geta menn komið fram með athugasemdir og það hefur verið gert. Ég get ekki sagt henni hversu margar, þær koma fram með mismunandi hætti á mismunandi mótunarstigum þeirra.

Hin spurningin varðar það hvort þingið ætti með einhverjum hætti að koma fyrr að tilskipunum og því að koma fram með afstöðu sína. Mín afstaða liggur fyrir í því. Ég hef um margra ára skeið verið þeirrar skoðunar að þingið eigi að hafa fulltrúa í Brussel, við Evrópuþingið sem er orðið miklu meira ráðandi núna um jafnvel lykilákvarðanir. Ég tel að það væri mjög þarft, m.a. vegna þess að ef upp koma mál sem varða hagsmuni Íslands er líklegt að allir þingflokkarnir séu sammála um þá hagsmuni, og þeir hafa allir aðgang að þingflokkum sínum þar úti, í flokkahópum. Ég tel að slíkt fyrirkomulag gæti varið hagsmuni Íslands.

Að mínu viti eru þess dæmi að það hefði verið (Forseti hringir.) miklu farsælla að koma miklu fyrr að ýmsum tilskipunum sem (Forseti hringir.) hefðu getað sparað Íslandi mjög háar upphæðir.



[15:18]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst miður að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki getað nefnt vottunaraðila, en þetta er tæknilegt atriði og ég geri mér fyllilega grein fyrir því. Ég mun bara bíða hin rólegasta þar til þetta mál kemur til efnislegrar meðferðar í þinginu undir forustu efnahags- og viðskiptaráðherra.

Hins vegar tek ég eindregið undir með því sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan varðandi fulltrúa þingsins í Brussel. Ég held að það sé í algjöru samhengi og samræmi við þann málflutning sem hefur verið hér á þingi, að mínu mati þvert á flokka, að það þurfi að efla þingið. Það verður m.a. gert með því að treysta sambönd þingsins við ört vaxandi vald Evrópuþingsins, m.a. í kjölfar samþykktar Lissabon-sáttmálans. Ég tek því undir með hæstv. utanríkisráðherra hvað þetta varðar og vona um leið að hæstv. forseti fylgi þessu eftir og athugi þá sérstaklega hvað hefur staðið í vegi fyrir því að þingið efli og treysti bönd sín í Brussel til þess einmitt að verja hagsmuni Íslendinga sem birtast í hinum ýmsu tilskipunum sem hingað koma, stórum sem smáum. Þess vegna ber okkur að fara í þetta sem, ég segi það enn og aftur, allir flokkar hafa verið að tala um, að efla og auka vægi þingsins.



[15:19]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að bíða róleg eftir því að frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra komi hingað inn til þess að geta fengið gleggri mynd af þessu. Í nefndinni sem hún situr í, utanríkismálanefnd, getur hún við rannsókn málsins fengið — (Gripið fram í.) Jæja, það er miður. Hún getur þá í öllu falli svalað forvitni sinni með því að fela fulltrúum síns flokks að fá dæmi um hvers konar apparöt það eru sem gætu hugsanlega uppfyllt skilyrði sem munu koma fram í lögunum og þar af leiðandi fengið a.m.k. — ef hæstv. forseti leyfir mér að sletta dönsku — „anelse“ um það hvers eðlis slíkar stofnanir eru. (Gripið fram í.)

Varðandi hitt hef ég löngum stundum verið þeirrar skoðunar að þingið eigi að hafa miklu meiri og ræktarbetri tengsl við Evrópuþingið. Þegar EES-samningurinn var settur á stofn á sínum tíma var framkvæmdastjórnin frumkvæðishafinn að öllum málum, hún hóf öll mál. Við höfum samkvæmt samningnum aðild að nefndum sem voru mjög nálægt uppsprettu málanna hjá framkvæmdastjórninni. Núna er þetta bara með allt öðrum hætti.

Til að svara gagnrýni á lýðræðishallann innan sambandsins hefur Evrópuþingið eðlilega fengið stöðugt meiri völd, og frá lýðræðislegum sjónarhóli innan Evrópusambandsins er það jákvætt. Frá sjónarhóli lýðræðishalla þeirra sem eru EFTA-þjóðir og tengjast þannig EES-samningnum er það neikvætt, þ.e. okkar ítök hafa að sama marki rýrnað. Það er hægt að nefna dæmi um stórkostleg hagsmunamál sem í reynd eru núna að verulegu leyti á valdi þingsins og við höfum mjög litla formlega möguleika til að hafa áhrif, en við gætum það hins vegar með óformlegum hætti í gegnum tengsl þingflokka (Forseti hringir.) íslenska þingsins við samsvarandi flokkahópa á Evrópuþinginu.



[15:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðuna og lýsingu á þessari tillögu til þingsályktunar. Ég held að hv. Alþingi þurfi að taka svona tillögur frá Evrópusambandinu miklu alvarlegar og vinna þær miklu nánar en gert hefur verið hingað til.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi þingsályktunartillaga sé að einhverju leyti afleiðing af hruninu sem varð ekki bara á Íslandi, þó að hér hafi orðið verulega mikið hrun, heldur um alla Evrópu, af því að þetta er sett á laggirnar 2009. Er þetta að einhverju leyti afleiðing af því?

Þessi þingsályktunartillaga og staðfesting ákvörðunar EES-nefndarinnar byggir á því að búa til eins konar rafrænt vegabréf fyrir fyrirtæki sem gæti að sjálfsögðu líka verið útvíkkað yfir á einstaklinga sem getur haft mjög mikil áhrif ef vel er staðið að því, t.d. á netinu þar sem nafnleysið hefur vaðið yfir allt, sem og ábyrgðarleysið. Þar gætu menn unnið og verslað með svona rafrænu vegabréfi og eins með rafrænum kosningum, það hefur ekki verið talað um að þær gætu komið inn í líka, menn gætu þá kosið rafrænt ef þeir hefðu rafrænt vegabréf. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði.

Hins vegar gagnrýni ég það sem hér hefur komið fram, að löggjafinn og framkvæmdarvaldið séu með ákall til framkvæmdarvaldsins um að semja lög. Ég held að viðskiptanefnd ætti sjálf að drífa í að semja það lagafrumvarp sem þarf en ekki alltaf vera með ákall til efnahags- og viðskiptaráðherra sem hefur alveg nóg að gera.



[15:23]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um, held ég, öll þau þrjú atriði sem voru kjarni hans máls. Ég er algjörlega sammála honum um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi mjög mikið að gera. Það hafa flestir ráðherrar, flestir framkvæmdarvaldshafar.

Ég skipti mér ekki af því með hvaða hætti þingið vinnur eins og ég hef margoft sagt. Þingið ræður því sjálft hvað það gerir og ef þingið vill leggja fram frumvörp til að svara innleiðingum er það mér fullkomlega að sársaukalausu.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þingið ætti að láta sig meiru varða ýmsar þær gerðir og tilskipanir sem við erum að taka upp. Þingið getur komið að þeim lögum sem það að lokum samþykkir, og þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram, til að uppfylla ákveðin skilyrði sem þarf að gera til að fullgilding verði og full innleiðing. Hins vegar eru margar tilskipanir og gerðir innleiddar í íslenskan rétt í gegnum reglugerðir. Og þó að þingið hafi í orði kveðnu rétt og eigi í reynd að fara yfir innihald slíkra reglugerða gerist það samt ekki, gerðist a.m.k. ekki á þeim dögum sem ég var óbreyttur þingmaður.

Þessi skoðun mín er ekki ný, ég hef m.a.s. verið aðili að skýrslum þar sem á þetta er bent og eftir því óskað að þingið láti meira til sín taka. Á sínum tíma ræddu menn um að setja hér upp sérstaka Evrópunefnd í aðdraganda aðildar að EES, eins og ég held að aðrar EFTA- og EES-þjóðir hafi gert, a.m.k. ein, til að standa undir þessu rannsóknarhlutverki og gæta þar með hagsmuna Íslands.

Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, ég tel að a.m.k. fyrr á dögum, um miðbik þarsíðasta áratugar, upp úr aðild okkar að EES, hefði mátt koma í veg fyrir það sem ég kalla nú (Forseti hringir.) óheppilegar innleiðingar.



[15:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, það er mjög mikilvægt að þingið fari vandlega í gegnum þær tilskipanir sem Evrópusambandið dælir yfir okkur. Menn hafa yfirleitt haft þá trú að Evrópusambandið sé óskeikult og viti nefi sínu framar en nú hefur komið í ljós um t.d. innlánstryggingartilskipunina að hún er meingölluð og hefur kostað okkur Icesave sem við þekkjum. Hún hefur heldur ekki tekið á vandanum um eignarhald á hlutafélögum og gagnsæi og raðeignarhaldi og krosseignarhaldi sem ég tel persónulega að hafi átt stóran hlut í hruninu á Íslandi. Hún skipaði Alþingi að leyfa einkahlutafélögum og hlutafélögum að lána starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum, m.a.s. tengdum aðilum sem varð til þess að fyrirtæki, sérstaklega bankarnir á síðustu dögunum, notuðu það til að auka eigið fé sitt og plata matsfyrirtækin. Það er ekki allt gott sem kemur frá Evrópusambandinu og þarf virkilega að skoða nákvæmlega hvað það er að gera. Ég held að við ættum að vera miklu duglegri í því að finna veilur í þeim tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu og benda því góðfúslega á að laga þær því að þær geta skaðað, ekki bara Íslendinga heldur líka viðkomandi ríki.



[15:27]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Engin mannanna verk eru fullkomin. Það er enginn, hvorki stofnun né einstaklingur, með fullkomna dómgreind. Evrópusambandið fellur óhjákvæmilega, hvað sem sumum kann að finnast, undir skilgreininguna „mannanna verk“. Það er ekki fullkomið, því verða á mistök eins og öllum öðrum samtökum.

Þau dæmi sem hv. þingmaður rakti áðan eru að sönnu rétt. Sum þeirra fela í sér galla á tilskipunum Evrópusambandsins, í öðrum tilvikum má segja að þau dæmi sem hv. þingmaður rakti falli undir það að Evrópusambandið hafi einfaldlega ekki séð fyrir ákveðna þörf til að reisa skorður eða gera kröfur sem gætu t.d. hafa komið í veg fyrir þau djúpu krosseignatengsl sem hér áttu þátt í hruninu.

Ég rifja upp annað dæmi sem er enn eldra. Það var þegar við samþykktum hér svokallaða fráveitutilskipun, ég held einhvern tímann í kringum 1995. Ég taldi síðar, eftir að hafa þurft að fylgja henni sem umhverfisráðherra, að ef við hefðum komið að því máli á fyrri stigum og beitt okkur hefði verið hægt að gjörbreyta skilgreiningum varðandi íslenskt samfélag með þeim hætti að við hefðum getað innleitt hana með miklu minni tilkostnaði en raunin varð.



[15:29]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Umræður um þetta mál hafa verið frekar flatlendislegar. Það er ekki venja að heyra hæstv. utanríkisráðherra sigla svo lágt sem raun bar vitni. Honum fer nú betur, hæstv. ráðherra, að fara á flug en að fara með söndum.

Ýmislegt sem komið hefur fram í þessari umræðu veldur áhyggjum. Hér hefur verið fjallað um þætti sem vega að ýmsu í okkar stjórnkerfi, viðmiði okkar við aðrar þjóðir og skyldum okkar við þær og þeirra við okkur.

Þessi umræða finnst mér hafa verið með tiltölulega miklum undirlægjuhætti gagnvart ríkjasambandi, Evrópusambandinu, sem hefur hamast við það á undanförnum missirum, virðulegi forseti, að hamra á Íslendingum eins og hamrað er með sleggju á hertum steinbít. Það molnar þótt ekki rífist á roðum.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað um að það kynni að vera skynsamlegt og árangursríkt að Íslendingar ættu fulltrúa við Evrópuþingið, að við gætum með því móti haft meiri áhrif á ríkjasambandið í Evrópusambandinu. Þetta eru gyllivonir og óraunhæfar framsetningar, virðulegi forseti, vegna þess að okkur stendur ekkert slíkt til boða, hvorki úti né inni. Það hefur sýnt sig hvernig Evrópuherrarnir hafa látið höggin dynja á þjóð okkar sem aldrei fyrr. Það hefur sýnt sig á undanförnum missirum að ekkert hefur breyst í röð sögunnar, hvort sem maður fjallar um ensku öldina á sínum tíma, áhrifatengsl Hollendinga, Spánverja, Frakka og ýmissa annarra Evrópuþjóða, áhrif til að reyna að styrkja stöðu sína á Íslandsmiðum og Íslandi. Þetta er hlutur sem við getum ekki lokað augunum fyrir, virðulegi forseti, þegar rætt er um það málefni sem hér liggur fyrir.

Þegar talað er um að eiga fulltrúa á Evrópuþingi hafa íslenskir embættismenn því miður verið kaþólskari en páfinn í túlkun á ýmsum reglum vegna Evrópska efnahagssvæðisins, verið miklu harðskeyttari fyrir hönd Evrópska efnahagssvæðisins en embættismenn annarra þjóða, til að mynda Spánar og Portúgals, fyrir hönd umbjóðenda sinna. Við búum ekki við sömu reglur. Við sitjum ekki við sama borð.

Eitt smádæmi sem tengist öllum þessum ruglpakka, því að því miður rekst hvað á annars horn í ferli þessara mála, er að fyrir ári kostaði um 200 þús. kr. að hámarki að skoða litla flugvél sem tekur ekki langan tíma. Vegna inngripa Evrópuherranna kostar það núna 2 milljónir. Það á sem sagt að ganga af því dauðu. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að rækta og styrkja, hvort sem það er flug á stórum eða litlum vélum við Ísland og út frá Íslandi, hvort sem það er það eða sjósókn og aðrir atvinnuskapandi þættir.

Það er líka stórhættulegt að mínu mati, virðulegi forseti, að fjalla um þetta án þess að benda á hætturnar og gallana, m.a. að það eru ekki hreinar línur hvaða leikreglur eru hafðar í heiðri, hvernig menn eru að vinna, ekki einu sinni hjá hæstv. ríkisstjórn sem kemur sér ekki saman um það hvort hún er að vinna í ferli að inngöngu í Evrópusambandið eða án þess að vera í ferli. Þegar eitt ráðherrabúntið stillir málum þannig upp að það sé eðlilegt að þiggja ýmsa peninga til að styrkja málstað Evrópusambandsins gagnvart Íslandi er annar hópur sem gerir það ekki. Þetta eru engin vinnubrögð, þetta er fúsk. Þetta er fúsk, dónaskapur og óvirðing við íslenska þjóð.

Ég skil ekki þegar hæstv. utanríkisráðherra klifar á því í ræðu sinni að það sé hagstætt fyrir Íslendinga að vera í tengslum við samsvarandi flokkahópa á Evrópuþinginu. Það er alveg klárt mál að til að mynda Sjálfstæðisflokkurinn á engin tengsl við neinn hóp þar. Það má kannski til sanns vegar færa með aðra flokka á Íslandi sem hafa í upphafi farar sinnar á pólitískum vettvangi sótt efnivið, fyrirmyndir og leikreglur til annarra landa. Það er alveg sama hvort við ræðum þar um Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna, sem náttúrlega hefur verið í bögglauppboðsleit um alla Evrópu að stefnumiðum, eða Vinstri græna þar sem gamall kjarni kemur beint úr kenningum og kerfi kommúnismans.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur alla tíð og gerir enn byggt allt sitt á íslenskum grunni, íslenskri viðmiðun, íslenskum metnaði og íslenskri reynslu, íslenskum vonum og óskum. Þannig er það án þess að hægt sé að hnekkja því einu einasta orði.

Þess vegna vara ég við því sem hér er ámálgað, því að hnýta saman tengslin við svokallaða samsvarandi flokka. Við erum íslenskur flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, og viljum fyrst og fremst miða við það en ekki hnýta okkur saman við flokka sem við eigum enga samleið með, hvorki í heild né hlutum í rauninni þótt sjálfsagt sé að ræða við menn um alla þætti, bera saman bækur og reyna að ná árangri í ljósi þess.

Mergurinn málsins er að menn skyldu ganga hægt um gleðinnar dyr, virðulegi forseti.



[15:38]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég sakna þess að hv. formaður utanríkismálanefndar er ekki við umræðuna vegna þess að ég ætlaði að koma skilaboðum til hans. Hann mun taka við þessu máli, þurfa að ræða það og fara í gegnum það. Ég ætla að koma þeirri hugmynd til hv. formanns nefndarinnar eða einhvers nefndarmanns að tillagan verði send til viðskiptanefndar til skoðunar og jafnframt að rætt verði um það að hv. viðskiptanefnd skoði það að flytja frumvarp á grundvelli þessarar tillögu sem við hér ræðum og þeirra hugmynda sem koma fram um rafræn skilríki fyrirtækja og einstaklinga.

Þetta er það sem ég ætlaði að koma að, frú forseti. Ég ætla ekkert að lengja þetta meira þótt hv. formaður nefndarinnar sé ekki viðstaddur.



[15:40]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal gjarnan koma þessum skilaboðum til formanns utanríkismálanefndar. Ég tel að málið sé í vinnslu í viðskiptaráðuneytinu. Það er þá sjálfsagt að viðskiptanefnd hafi samband þangað ef það væri skilvirkara að nefndin tæki málið að sér en að það yrði unnið áfram í ráðuneytinu.



[15:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi gæti þess að það hefur löggjafarvaldið í landinu og það ætti, að mínu mati, að semja öll þau frumvörp sem hér eru afgreidd. Við eigum ekki að fela einhverju fólki úti í bæ að semja fyrir sig frumvörp, til þess erum við kjörin hingað.



[15:41]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnst lítið leggjast fyrir kappann, hv. þm. Árna Johnsen, að koma hér og hleypa úr fallstykkjum sínum báðum en vera svo af hólmi hopaður þegar ég loksins fæ tækifæri til að ræða við hann þau mál sem hann bar upp. Hv. þingmaður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem ekki væri í neinum alþjóðlegum tengslum og byggi bara að sínu. Ég vildi að satt væri. Það er þó sá flokkur sem á sínum tíma flutti hingað inn útlenska hugmyndafræði sem hét frjálshyggja, og allir vita til hvers hún leiddi á Íslandi. Það hefði ég gjarnan viljað ræða við hv. þingmann ef hann væri staddur í salnum. Ég vil svo gera sögulegar athugasemdir við það sem hv. þingmaður sagði.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði m.a. að við hefðum alltaf átt illt atlæti af hálfu þeirra sem að utan kæmu og nefndi sérstaklega Englendinga. Hann tók í því sambandi sérstaklega upp ensku öldina sem var á milli 1400 og 1500. Um þá öld hafa verið skrifaðar merkar bækur. Það vill svo til að Íslendingar nutu á þeim tíma atfylgis Englendinga sem hingað sóttu á skútum sínum til að brjóta á bak aftur verslunareinokun Dana. Á þeim tíma voru Englendingar eins og löngum síðar aufúsugestir hér við Ísland. Á ensku öldinni sköpuðust mikil sambönd millum Englands og Íslands. Mjög margir Íslendingar fóru á skútunum til Englands og árið 1487 voru þannig skrásettir á annað hundrað manns í Bristol. Það var einmitt upp úr því sem Shakespeare skrifaði í frægu leikriti um hinn íslenska hund og hans hringaða skott. Ég tel að þetta undirstriki það að við áttum ákaflega jákvæð samskipti við útlönd, til að mynda Englendinga, á þeim tímum. Má geta þess að þegar Sir Joseph Banks kom hingað til Íslands ungur maður áður en hann lagði upp í sinn mikla heimsleiðangur gisti hann að landshöfðingjanum í Viðey, Magnúsi Stephensen. Íslenskur fræðimaður hefur síðan leitt fram gögn sem sýna að á þeim tíma var yfirstéttin á Íslandi að bræða með sér hvort hún ætti að reyna að brjótast undan danskri stjórn með því að koma á formlegum tengslum við England. Í reynd ræddu menn þá að það væri betra að vera undir þeirra stjórn en Dana.

Þetta átti einungis að vera framlag í þá sagnfræðilegu umræðu sem hv. þm. Árni Johnsen hóf hér áðan. Hv. þingmaður sagði sömuleiðis að Íslendingar væru undirlægjur gagnvart útlöndum og átti þar við afstöðu okkar til EES-samningsins. Það er hægt að færa mörg rök fyrir því að hv. þingmaður sé ekki svo víðs fjarri sannleikanum. Staðreyndin er sú að við Íslendingar keyptum á sínum tíma ákveðið viðskiptafrelsi gagnvart mörkuðum í Evrópu með því að gangast undir það jarðarmen að taka hér upp óbreyttar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins. Það er rétt hjá honum að því marki að við höfum mjög takmarkaða möguleika á því að breyta einhverju sem þaðan kemur í krafti EES-samningsins. Það eru ein af gildustu rökunum fyrir því að söðla um og hætta með EES-samninginn, taka skrefið til fulls og verða aðilar að Evrópusambandinu.

Innan Evrópusambandsins höfum við rödd. Innan Evrópusambandsins höfum við neitunarvald. Innan Evrópusambandsins höfum við möguleika til að tengjast öðrum smáþjóðum, en reynslan sýnir að þeim tekst giska vel upp í að verja saman þá hagsmuni sem þær hafa.

Þetta vildi ég sagt hafa við hv. þm. Árna Johnsen og raunar mátti margt fleira finna að máli hans. Að lokum, hv. þingmaður gerði athugasemd við það að utanríkisráðherra drægi ekki arnsúg á flugnum. Ég vil svara því til að sá texti sem yfirleitt kemur frá þessu góða sambandi er ekki þess eðlis að hann gefi beinlínis ástæðu og tilefni til að fara á mikið bókmenntalegt flug.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.