139. löggjafarþing — 85. fundur
 3. mars 2011.
nýtt mat skilanefndar Landsbankans.

[10:53]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við sáum annaðhvort í gær eða fyrradag sérstaka sýningu, sem ég vil kalla svo, í fjármálaráðuneytinu þegar samninganefndin í Icesave-samningunum tók að sér að kynna nýtt mat á eignasafni Landsbankans. Ég man ekki til þess að sá er hér stendur hafi veitt samninganefndinni eitthvert umboð til að vera um leið PR-nefnd eða kynningarnefnd fyrir ríkisstjórnina eða þá sem vilja styðja þetta samkomulag. Þetta var mjög athyglisvert.

Á þessum kynningarfundi kom fram hjá samninganefndinni, eða þessari nýju auglýsinganefnd ríkisstjórnarinnar, að mat á eignasafninu hefði batnað mjög mikið. Nú má vissulega færa fyrir því rök að það hafi batnað, en þannig er að í mars 2010 var þetta eignasafn metið á 1.172 milljarða kr. Í desember 2010 var matið komið niður í 1.132 milljarða kr. Það lækkaði sem sagt í millitíðinni. Síðan kemur núna nýtt mat, sem við hljótum að sjálfsögðu að fagna, upp á 1.175 milljarða eða svo. Hækkunin á matinu frá því í mars 2010 og til þessa nýja mats er ekki mjög mikil þegar að er gáð.

En hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að sveiflurnar í þessu máli og óvissan eru alveg gríðarlegar, (Gripið fram í: Það segir okkur …) sýnir okkur ekkert annað en að enn er gríðarleg óvissa til staðar í þessu máli. Í þetta fyrra skipti sem ég hef tækifæri til að ræða við hæstv. ráðherra langar mig að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif sú frestun sem síðan var tilkynnt á útgreiðslum úr þessu eignasafni hefur á vaxtagreiðslu ríkissjóðs. Hversu mikið hækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs við það að fresta þessum (Forseti hringir.) greiðslum um tvo mánuði? Það hlýtur að hafa verið reiknað.



[10:55]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni kynningu samninganefndarinnar á tölum um betri endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans. Ég held að það hljóti að skipta máli fyrir þjóðina að fá að heyra fréttir um raunsætt mat á því hvað fáist upp í þessar kröfur. Ég held að það hafi efnisleg áhrif á afstöðu fólks til þess samnings sem nú liggur fyrir að þjóðin mun greiða atkvæði um. Mér finnst ekkert óeðlilegt við að samninganefndin kynni útreikninga sína, enda lágu útreikningar samninganefndarinnar til grundvallar í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu inn í þingið. Samninganefndin hafði forræði á útreikningunum sem lagðir voru fram í þinginu og því mjög eðlilegt að samninganefndin endurmeti núna horfurnar í ljósi nýrra upplýsinga um endurheimtur.

Auðvitað eru endurheimturnar alltaf einhverri óvissu undirorpnar. Það fer eftir mati á eignaverði. Blessunarlega eru núna bjartari horfur fram undan og góður líkur á að kostnaður þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna verði hverfandi. Í grunninn stöndum við alltaf frammi fyrir því mati hvort við viljum ljúka þessu máli nú með samningum eða taka áhættu af frekari dómsmálum, tefja úrlausn málsins með ærnum tilkostnaði fyrir íslenskt þjóðlíf. Það eru vogarskálarnar sem við verðum öll að meta þetta mál á.

Varðandi spurningar um bein áhrif frestunarinnar á greiðsluferilinn eru það atriði (Forseti hringir.) sem hafa verið reiknuð í fjármálaráðuneytinu og ég hef því miður ekki haldbærar upplýsingar um.



[10:57]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fá ráðgjöf hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, enda eru þeir nátengdir í þessu máli. Hins vegar svaraði hæstv. ráðherra ekki þeirri spurningu sem ég spurði hann en til að upplýsa hann hef ég þær upplýsingar að það geti verið 3–3,5 milljarðar sem vaxtakostnaðurinn mun aukast, þ.e. vextirnir munu hækka.

Í ljósi þess að hæstv. ráðherra sagði að kynningarfundurinn hefði m.a. verið mikilvægur til að fólk gæti myndað sér skoðanir á málinu, það styður sem sagt að hugmyndin með fundinum var væntanlega að reyna að koma að ákveðnum skoðunum hjá fólki, og þá spyr ég: Er ráðherrann tilbúinn til að styðja þingsályktunartillögu sem ég mun vonandi mæla fyrir á næstu dögum, er í vinnslu í þinginu, um að fram fari sjálfstætt mat á eignasafni (Forseti hringir.) Landsbankans af til þess bærum sérfróðum aðilum fyrir þingið og framkvæmdarvaldið?



[10:59]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að staðhæfa það að óvissa um endurheimtur úr eignasafninu hefur farið minnkandi með tímanum. Bilið milli skuldbindinganna og þess sem líklegt er að fáist upp í þær hefur minnkað. Þetta vitum við. Menn geta haft áhyggjur af vaxtareikningi af einstökum afborgunum vegna þessa en það eru þó ekki rök fyrir því að fresta úrlausn málsins frekar og hætta á vaxtagreiðslur á síðari stigum ef dómur gengur okkur í óhag.

Í grunninn snýst þetta mál um það hvort við viljum meta hagsmunina með þeim hætti að það skipti okkur máli að komast úr þeirri kyrrstöðu sem hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins, lýsti áðan (Gripið fram í.) og sagði að einkenndi atvinnulífið í landinu, mikið til vegna þess (Gripið fram í.) að okkur vantar tækifærin til að brjótast út úr kyrrstöðunni og skapa nýja von, ný tækifæri (Forseti hringir.) og að hjálpa fyrirtækjum til að skapa ný störf. Það er mikilvægasta (Forseti hringir.) verkefnið okkar núna og það eru skilaboðin sem við getum sent út í samfélagið með því að taka þá ákvörðun að kjósa frekar (Forseti hringir.) að ljúka þessu máli núna en að fresta því og fresta og fresta, okkur sjálfum fyrst og fremst til tjóns. (Gripið fram í: Þú hlýtur að vera að grínast.)