139. löggjafarþing — 87. fundur
 14. mars 2011.
staða rannsóknar embættis sérstaks saksóknara.
fsp. SER, 503. mál. — Þskj. 825.

[16:23]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Hálft þriðja ár er liðið frá því að Ísland og Íslendingar urðu fyrir efnahagshruni og hafa menn rakið ástæður þess í ræðu og riti á undanliðnum missirum og þarf ekki að fjölyrða um þær orsakir, hvað þá afleiðingarnar.

Fyrir þá þingmenn sem fara mikið um landið er ekki annað að heyra á þjóðinni en að mikillar gremju gæti í garð hinna svokölluðu útrásarvíkinga, þeirra manna sem léku íslenskt bankakerfi hvað verst. Eru þær sögur sem enn eru að tínast á blað með hreinum ólíkindum. Verður ekki frekar fjölyrt um það enda hafa fjölmiðlar fjallað um það mál með mjög ítarlegum og vandvirkum hætti að því er mér hefur sýnst.

Það er hins vegar mikilvægt fyrir almenning að vita það á hverjum tíma hvernig rannsókn á hugsanlegum glæpum sem tengjast efnahagshruninu miðar. Hér ber að hafa í huga að þótt almenningur og jafnvel líka sá sem hér stendur sé mjög óþolinmóður og vilji fá þá, sem léku íslensk heimili og íslenskan efnahag og íslensk fyrirtæki hvað verst, á bak við lás og slá sannist klárlega á þá lögbrot, þá ber að fara fram í þessu máli með vandvirkni. Því er kannski betra að verja lengri tíma til þessarar rannsóknar en styttri ef það verður til þess að lyktir þessa máls verði með sómasamlegum hætti. Það getur líka verið hættulegt að flýta sér um of við rannsóknina og ber að hafa í huga og er ágætt fyrir almenning að vita af því að mörg stór dómsmál á síðustu árum hafa tapast vegna þess að menn hafa kannski verið að flýta sér um of.

Frú forseti. Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra sem fer með þann mikilvæga málaflokk nokkurra spurninga af þessu tilefni:

1. Hver er staðan á rannsókn embættis sérstaks saksóknara á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið? Hve margir hafa nú stöðu grunaðra? Hve margir hafa verið yfirheyrðir?

2. Er hætt við að mál einhverra manna sem tengjast rannsóknir fyrnist áður en rannsókn lýkur? Hvenær er þess að vænta að rannsókninni ljúki?

Þær spurningar legg ég nú fram fyrir hæstv. innanríkisráðherra og segi það jafnframt að ég tel mjög mikilvægt að ráðherra upplýsi almenning og friði hann e.t.v. að einhverju leyti með þeim upplýsingum sem liggja fyrir og geta verið opinberar á þessu stigi.



[16:26]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Innanríkisráðuneytið leitaði umsagnar hjá embætti sérstaks saksóknara vegna fyrirspurnarinnar og eru svör mín byggð á upplýsingum frá embættinu.

Fyrst er spurt: Hver er staðan á rannsókn embættis sérstaks saksóknara á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið?

Embætti sérstaks saksóknara tók til starfa 1. febrúar 2009 og hefur nú starfa í rúmlega tvö ár. Í upphafi voru starfsmenn fjórir ásamt lögfræðilegum ráðgjafa í hlutastarfi og fjölgaði starfsmönnum embættisins smám saman í samræmi við aukinn fjölda mála, auk þess sem leitað var til innlendra og erlendra sérfræðinga. Að meðtöldum sérstökum saksóknara starfa alls fjórir saksóknarar við embættið en aðrir starfsmenn verða um næstu mánaðamót alls 72 talsins auk sex sérfræðinga sem starfa í tilteknum verkefnum. Heildarfjöldi starfsmanna og sérfræðinga verður því 78 manns um næstu mánaðamót. Lögð hefur verið áhersla á að vanda til verka við val á starfsmönnum til starfa hjá embættinu. Verkefni embættisins eru í fyrsta lagi mál skráð í málaskrá lögreglu, LÖKE, þ.e. lögreglurannsóknir á sakamálum og lögregluverkefni og þar með talið aðstoð við erlenda löggæsluaðila.

Alls hafa verið til meðferðar 111 slík mál hjá embættinu. Mál embættisins skráð í LÖKE eru 98 talsins en auk þess hafa embættinu verið send 13 mál sem upphaflega eru skráð hjá öðrum embættum, flest frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Af þeim hefur verið ákært í tveimur málum, samtals fjórir einstaklingar ákærðir, rannsókn verið hætt eða kæru vísað frá í 28 málum, eitt mál hefur verið sent til meðferðar hjá öðru embætti og 80 mál eru nú til meðferðar hjá embættinu.

Í öðru lagi er um að ræða stjórnsýsluverkefni sem hýst eru í sérstökum gagnagrunni, GoPro, sem heldur utan um skráningu þeirra og feril. Stjórnsýsluverkefni skráð í GoPro eru nú orðin alls 1.340 talsins. Málafjöldi embættisins skiptist þannig að 58 eru skráð á árinu 2009, 29 á árinu 2010 og 11 það sem af er árinu 2011, eða alls 98 mál, eins og áður sagði. Flest aðsendu málin frá öðrum embættum bárust seinni hluta ársins 2010. Þau mál sem eru í rannsókn eru á misjöfnu stigi, sum lengra komin á meðan önnur eru komin skammt á veg.

Rannsóknir flestra mála embættisins eru tímafrekar, útheimta verulega gagnaöflun, auk þess sem ráðast þarf í viðamiklar rannsóknaraðgerðir vegna þeirra. Rafræn gögn eru stór hluti þeirra gagna sem fara þarf yfir, þar með talin tölvupóstsgögn, en auk þess er verulegt gagnamagn á pappírsformi. Skýrslutökur þarf að undirbúa af kostgæfni og m.a. þarf að draga fram þau rannsóknargögn sem bera á undir skýrslugjafa.

Í öðru lagi er spurt: Hve margir hafi nú stöðu grunaðra?

Svarið er á þessa leið: 216 einstaklingar hafa réttarstöðu sakbornings.

Í þriðja lagi er spurt: Hve margir hafa verið yfirheyrðir?

Svarið er á þessa leið: Heildarfjöldi einstaklinga, sakborningar og vitni í öllum málum, er 471. Það skal tekið fram að einstaklingar koma stundum oftar en einu sinni til yfirheyrslu og er heildarfjöldi yfirheyrslna í öllum málum 600.



[16:31]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin til þessa, veit sem er að hann á eftir að svara einni spurningu sem hann gerir ef til vill í seinni innkomu sinni. Ég þakka honum fyrir svörin sem voru vel undirbúin og til fyrirmyndar.

Ég vil nota tækifærið í þessu samtali mínu við hæstv. innanríkisráðherra til að ljúka lofsyrði mínu á verk og alla framkomu sérstaks saksóknara, Ólafs Þórs Haukssonar, sem að mati þess sem hér stendur hefur farið fram með mjög ábyrgum og viðeigandi hætti í öllu þessu máli, jafnt í samskiptum við fjölmiðla og aðra, þannig að því sé til haga haldið.

Það vantar seinni hluta spurningar minnar: Er hætt við að mál einhverra manna sem tengjast rannsókninni fyrnist áður en rannsókn lýkur? Og hvenær er þess að vænta að rannsókninni ljúki?

Eins og heyra mátti á svari hæstv. ráðherra er málið óhemju viðamikið og þær tölur sem hæstv. ráðherra nefndi bera þess vitni, 1.340 mál, 216 sakborningar, 600 yfirheyrslur, þar að hefur 471 komið þannig að nokkrir hafa komið oftar en einu sinni eins og ráðherra gat um. Sú fyrirspurn sem hér er fram sett er ekki til þess að þrýsta á hæstv. ráðherra að ljúka þessu máli, enda er það í verkahring viðkomandi saksóknara að meta þann tíma sem þarf að fara í verkið, heldur snýst hún miklu fremur um að almenningur geti fylgst með framþróun eins mikilvægasta dómsmáls sem íslenskt réttarríki hefur ráðist í á undanförnum áratugum.



[16:33]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau ágætu orð sem hann lét falla. Varðandi spurningu um fyrningu og síðan hvenær rannsókn ljúki standa vonir okkar að sjálfsögðu til að mál fyrnist ekki. Kappkostað er að vinna þannig að rannsókninni. Hvenær henni lýkur er spurning sem ég treysti mér ekki til að svara á þessari stundu.