139. löggjafarþing — 91. fundur
 14. mars 2011.
upplýsingamennt í grunnskólum.
fsp. JRG, 499. mál. — Þskj. 821.

[17:22]
Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. ráðherra um mikilvægi upplýsinga- og gagnamiðstöðva í skólastarfi 21. aldarinnar. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að leik- og grunnskólar eru á forræði sveitarfélaga en við megum ekki gleyma því að Alþingi setur lög um þessi skólastig og mennta- og menningarmálaráðuneytið setur reglugerðir í formi námskráa og sinnir líka eftirliti með framfylgd laganna. Því finnst mér að við eigum að ræða hér í þingsal Alþingis um stefnumarkandi atriði eins og stöðu upplýsinga- og gagnamiðstöðva grunnskólanna.

Ég veit að hæstv. ráðherra er sérstaklega umhugað um læsi í víðasta skilningi þess orðs og deili ég þeim áhuga með henni. Í frumvarpi til laga um fjölmiðla er t.d. talað um mikilvægi þess að efla fjölmiðlalæsi barna og unglinga og þannig enn frekar lögð áhersla á mikilvægi læsis. Þegar spara þarf og hagræða í skólastarfi virðist almennt ríkja sú vinnuregla að skera niður það sem ekki telst til hefðbundins bóknáms. Það virðist auðveldast og einfaldast en mér finnst við verða að spyrja okkur mjög ákveðið þeirrar spurningar hvort það sé örugglega það sem nýtist framtíðarborgurum landsins best.

Staðan er því miður þannig að í mörgum skólasöfnum grunnskóla landsins er til góður bókakostur sem stendur lítt notaður vegna þess að kennsla á söfnunum og kennsla um notkun þeirra, svokölluð skólasafnakennsla, er orðin afar takmörkuð og almennir kennarar telja sig hafa takmarkaða þekkingu og tíma til að setja sig inn í þau mál. Þannig er hjarta skólamenningarinnar sem skólasöfnin geta verið kippt úr sambandi og söfnin gerð að líflausu herbergi með bókum sem enginn starfsmaður sér um að gera aðlaðandi eða gera bækurnar og upplýsingarnar sem þær geyma að eftirsóknarverðum kosti til góðrar og fjölbreyttrar menntunar nemenda og starfsfólks.

Staðan í notkun tölva í skólastarfi virðist því miður vera á svipuðum slóðum. Tölvurnar eru annar lykill að upplýsingasamfélagi 21. aldarinnar en möguleikar þeirra eru ekki fullnýttar í menntuninni ef tölvukennsla minnkar stöðugt. Hið fjölbreytta námsefni sem til er á tölvutæku formi og á netinu er nú minna notað en áður. Það er alvarlegt mál því tölvan opnar fyrir marga nemendur nýjar víddir í námi, önnur færni nýtist en þegar bækur eru notaðar og umhverfi tölvanna er mörgum nemendum vel þekkt og öruggt og því tilvalið að nýta það til að örva þá til dáða í námi. Um leið undirbúum við þá einstaklinga sem við þurfum svo sárlega á að halda núna út í atvinnulífið. Einstaklinga með þekkingu á tækni og þor til að feta nýjar brautir og stuðla þannig að nýsköpun í tæknigeiranum.

Í flestum skólum er allt til staðar til að nýta skólasöfnin og tölvurnar. Menntaðir kennarar á þeim sviðum og góð efnisleg aðstaða. Það er því skelfileg skammsýni að nýta þann mannauð og efnisauð eins illa og niðurskurðarkröfur gera ráð fyrir.

Ég hlakka til að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við hugrenningum mínum og vona svo sannarlega að hún sé sammála mér um að finna þarf virkan samráðsvettvang ríkis, sveitarfélaga og fagfólks þar sem unnið verður að því að móta stefnu í þessum málaflokki þannig að við horfum öll (Forseti hringir.) í sömu átt, markvisst og til framtíðar, og að nemendur sem útskrifast úr grunnskólum landsins næstu árin verði lesandi og leitandi (Forseti hringir.) einstaklingar sem við þurfum svo sárlega á að halda (Forseti hringir.) í upplýsingasamfélagi 21. aldarinnar.



[17:26]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Ég vil þó nefna í upphafi að talsvert hefur verið unnið að stefnumótun í þessum málum og það byrjaði auðvitað fyrir mína tíð í ráðuneytinu. Ég nefni að í aðalnámskrá grunnskóla, greinahluta um upplýsinga- og tæknimennt frá árinu 2007, var þá þegar lögð aukin áhersla á upplýsingalæsi m.a. til að koma til móts við síbreytilegan heim tækni, upplýsinga og samskipta. Þar er miðað við þá þekkingu og hæfni sem þarf til að afla upplýsinga, flokka úr, vinna úr og miðla upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt.

Upplýsingalæsi má kalla kjarna upplýsingamenntar. Skólum ber auðvitað að leggja áherslu á að nemendur öðlist hæfni í að afla upplýsinga á sjálfstæðan hátt, læri að afla upplýsinga úr bókum, tölvum, myndefni, hljóðrituðu efni og öðrum þeim miðlum sem til greina koma og fjölgar alltaf. Samhliða því eiga nemendur kost á að læra að meta upplýsingar, vinna úr þeim skipulega og setja fram niðurstöður.

Í aðalnámskrá grunnskóla, almenna hlutanum frá 2007, segir í viðmiðunarstundaskrá að upplýsinga- og tæknimennt skuli kennd í a.m.k. 160 mínútur á viku í 1.–4. bekk, 120 mínútur í 5.–7. bekk og 40 mínútur í 8.–10. bekk. Jafnframt er gert ráð fyrir að hún sé samþætt öðrum námsgreinum.

Í drögum að nýrri aðalnámskrá, sem er núna í mótun, er gert ráð fyrir að tímum í upplýsinga- og tæknimennt verði fjölgað en þeir ekki skertir. Það skýrist m.a. af áherslu á læsi í nýrri menntastefnu með sérstakri áherslu á miðlamennt og gagnrýna nálgun á upplýsingar. Ég held að þetta sé í raun og veru undirstaða fyrir mjög margt annað og við höfum því lagt áherslu á að það skili sér bæði í námskránni og í kennsluháttum.

Eðli þessa fags er þverfaglegt að vissu leyti. Það snýst um að kenna og leiðbeina nemendum um aðferðir og tækni við öflun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga í tengslum við annað nám. Það getur auðvitað stundum skapað úrlausnarefni, þ.e. kennarar í upplýsingamennt þurfa að geta unnið með öðrum kennurum að gerð kennsluáætlana og aðferðafræði upplýsingamenntar nýtist í öðrum greinum og fer kannski út fyrir mörk kennslustofunnar og inn á söfnin sem hv. þingmaður nefndi, tölvuverin eða upplýsingaverin.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar er ekki að sjá að dregið hafi verið almennt úr kennslu í upplýsingamennt á tveimur síðustu skólaárum. Ráðuneytið hefur þó ekki upplýsingar vegna yfirstandandi skólaárs og þær munu ekki liggja fyrir fyrr en í haust. Samkvæmt fyrirliggjandi tölum vegna skólaáranna 2008–2009 og 2009–2010 fækkaði kennslustundum í upplýsinga- og tæknimennt í 1.–5. bekk í 37 skólum af 175 en fjölgaði í 27 skólum og stóð í stað í 111 skólum. Þegar komið er upp í 5.–7. bekk fækkar tímum í 23 skólum en fjölgar í 33 skólum. Við sjáum því að það er í raun og veru fjölgun fremur en fækkun en fjöldi tíma stendur í stað í 119 skólum. Í 8.–10. bekk er þetta nánast jafnt, þ.e. tímum fækkar í 43 skólum en fjölgar í 46 og standa í stað í 86 skólum. Við fylgjumst því auðvitað með og fáum upplýsingar bæði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofunni og við sjáum ekki enn nein hættumerki þegar kemur að fjölda tíma.

Hv. þingmaður nefndi skólasöfnin og rétt er að þar hefur verið skorið niður. Ég vil nefna að fyrirhugað er á þessu vorþingi að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um grunnskóla. Meðal þess sem þar verður lagt til er að setja inn ákvæði að nýju um skólasöfn í grunnskólum í lagagrein um skólahúsnæði. Það er ákvæði sem verður aftur sett inn og snýr að því að í öllum grunnskólum sé gert ráð fyrir skólasafni eða aðgangur nemenda að þjónustu slíks safns sé tryggður með öðrum hætti. Þetta er gert til samræmis við lagabreytingar á framhaldsskólalögum frá 2010 sem nutu stuðnings hv. þingmanna þvert á flokka. Hugsunin er sú að með þessu séu skólasöfn styrkt í sessi í samræmi við þá stefnu að læsi sé einn af grunnþáttum menntunar.

Við áttum okkur að sjálfsögðu á því að á tímum hagræðingar og sparnaðar er enn mikilvægara en ella að eftirlit ráðuneytisins sé virkt svo réttur nemenda til náms og kennslu sé tryggður. Hv. þingmaður spurði um stefnumótun. Ég lít svo á að stefnan hafi verið mörkuð í nýju námskránum. Mestu skiptir núna að henni verði fylgt eftir og kennsla í læsi og upplýsingalæsi verði tryggð. Hlutverk skólastofnana skiptir þar verulegu máli en líka ýmsir aðrir þættir. Ég held því að miklu skipti að við stöndum áfram vaktina í þessum efnum.



[17:31]
Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæð og góð viðbrögð við þessum hugrenningum mínum og spurningum og fagna því sérstaklega að skólasöfn verði styrkt í sessi með lagasetningu. Ég held að það skipti verulega miklu máli. Ég veit að gert er ráð fyrir því í nýrri aðalnámskrá að tímum í upplýsingamennt verði fjölgað. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að eðli upplýsingamenntar er þannig að hún verður ekki kennd afmarkað og sér í stundaskrá í tímum sem heita endilega upplýsingamennt. En ég held að það skipti mjög miklu máli, í því þverfaglega starfi sem þarf að eiga sér stað í upplýsingamenntinni, að það séu samt ákveðnir verkstjórar sem hafa sérmenntun á þessu sviði, sem hafa sérstaka þekkingu á því hvernig skólasöfnin verði nýtt sem best og hvernig tölvurnar verði nýttar sem best sem í raun og veru stjórna þessu þverfaglega samþætta starfi.

Ég held að við þurfum að gæta vel að okkur. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir þá er ýmist fækkun eða fjölgun á tímum í þessum mikilvægu greinum. Það er erfitt vegna þess að það sýnir okkur að þá er ákveðin mismunun eftir skólum og það er ekki þannig kerfi sem við viljum hafa. Við viljum gjarnan að allir nemendur okkar sitji við sama borð.

Eins og ég sagði áðan er ég bjartsýn af því að ég heyri að hæstv. ráðherra er á þeirri línu að það sé afar mikilvæg starfsemi sem fram fer í þessum upplýsinga- og gagnaveitum, hvort sem það eru skólasöfn eða tölvuverin. Ég legg áherslu á að við eigum að nýta þá sérfræðiþekkingu sem til er til verkstjórnar í þessu mikilvæga efni.



[17:33]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Ég held líka að við sjáum að það skiptir verulegu máli að skólinn taki að sér ákveðið leiðsagnarhlutverk fyrir nemendur í nútímasamfélagi sem eyða æ meiri tíma í tölvunni, á netinu. Það er ekki síst til að virkja þessa nemendur og gera þá öflugri í að takast á við áskoranir og áreiti í nútímasamfélagi sem þessi námsgrein skiptir máli, ekki bara fyrir aðrar námsgreinar heldur líka að átta sig á hinum ýmsu stigum sem finna má í sýndarveruleika netheima. Ég held að að því leyti skipti þessi námsgrein sérdeilis miklu máli því að æ fleiri hliðar mannlegs lífs fara fram á netinu í gegnum tölvuna. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta skiptir gríðarlegu máli.