139. löggjafarþing — 91. fundur
 14. mars 2011.
efling kennarastarfsins.
fsp. ÞKG, 520. mál. — Þskj. 851.

[18:09]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Við erum öll sammála um að við viljum góða kennara. Við viljum hafa besta fólkið í skólunum. Þess vegna spyr ég m.a.: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að efla kennarastarf á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi? Að vissu leyti er búið að fara yfir hvernig við byggjum upp námið innan háskólageirans.

Engu að síður er það svo, og gert var svolítið grín að mér á sínum tíma þegar ég sagði það, að við þurfum að nota kreppuna til ákveðinna tækifæra til að byggja upp skólastarfið og til að halda besta fólkinu í skólunum, grunnskólunum, leikskólunum og framhaldsskólunum. Það kemur að því, þótt þessi ríkisstjórn sé lengi að drattast með okkur upp úr hruninu öllu saman og koma okkur til almennilegra bjargálna, að við viljum þegar aukin þensla verður á vinnumarkaði halda í fólk innan skólakerfisins. Það þýðir ekki að hækka bara launin. Við vitum auðvitað að launakjörin skipta miklu máli en í þeim skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar meðal kennara eru ýmsir aðrir þættir sem skipta þá miklu máli í öllu skólaumhverfinu sem slíku.

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé einmitt núna tækifæri til að fá sveitarfélögin og Kennarasambandið undir forustu eða leiðsögn menntamálaráðuneytisins til að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Kjarasamningarnir hafa því miður verið byggðir þannig upp að þeir hafa ekki verið tæki til að koma til móts við pólitískar áherslur. Höfum við stjórnmálamenn ekki gert nóg? Ég er ekki að gagnrýna einn flokk umfram annan. Ég er bara að velta fyrir mér af því að við erum sammála um áherslur í skólamálum, þær eru þverpólitískar, hvort við komum þeim skilaboðum nægilega skýrt á framfæri í kjarasamningum. Þegar sveitarfélög og oft og tíðum ríkið semja við Kennarasambandið hugsum við þá um að kjarasamningarnir endurspegli það sem við erum að reyna að ná fram í gegnum skólalöggjöfina? Ég held að skólalöggjöfin endurspeglist ekkert sérstaklega í kjarasamningum.

Ég vona að menn haldi ekki að ég sé að ráðast á kjarasamningana, Kennarasambandið eða sveitarfélögin. Ég vil að menn hugsi málið kreatíft, ef það má sletta svo, á þessum tímum til að skapa þannig umhverfi að við náum besta fólkinu í skólana. Þarf t.d. að gera það núna vegna lítillar ásóknar í leikskólakennaranám? Hvað getur ráðuneyti menntamála gert? Eigum við að fara í svokallaðar „headhuntings“, svo að maður haldi áfram að sletta, virðulegi forseti, til að fá það fólk sem við sem foreldrar viljum hafa í skólakerfinu? Hvað getum við gert til að allir þeir kennarar sem starfa (Forseti hringir.) innan skólakerfisins, hvort sem er á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, séu stoltir af því og líði vel í starfi bæði út frá umhverfinu en auðvitað líka út frá launaliðnum?



[18:13]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég lít á það sem einn stærsta styrkleika íslenska menntakerfisins hvað þar starfa góðir kennarar með trausta menntun og óbilandi áhuga á starfi sínu og nemendum. Ekki hefur verið skortur á kennaramenntuðu fólki nema þá helst á leikskólunum eins og hér hefur komið fram. En við sjáum hins vegar að kennarar hafa í stórum stíl leitað í önnur störf þar sem þeim bjóðast betri kjör og þægilegri starfsaðstæður en í skólunum. Brottfall ungra kennara til að mynda úr skólum landsins ætti að vera okkur sérstakt umhugsunarefni. Það skiptir því miklu máli að við horfum á það heildstætt hvernig við getum eflt kennarastarf á öllum skólastigum.

Ég vil nefna rannsókn á vegum OECD, sem Íslendingar tóku þátt í, á vinnuumhverfi og högum kennara og skólastjórnenda sem er kölluð TALIS. Fyrsti hluti fór fram vorið 2008. Niðurstöður hennar, sem hefur einhvern tíma borið á góma í þessum sal, veita okkur innsýn í hugmyndir kennara um starf sitt og það sem má betur fara. Þar má auðvitað líka finna samanburð við aðstæður kennara, starfskjör og hugmyndir í 22 öðrum löndum.

Ef við reynum að draga einhvern lærdóm af þessari rannsókn má ýmislegt um hana lesa í skýrslum sem voru unnar hjá Námsmatsstofnun. Íslenskir kennarar eru um margt líkir starfssystkinum sínum á Vesturlöndum. Þar eru þó mikilvæg frávik sem varða menntun íslenskra kennara sem við höfum verið að ræða og starfskjör. Unnið er að því að bæta grunnmenntun kennara með löggjöfinni sem var samþykkt 2008 og var til umræðu áðan og mun það auðvitað fela í sér mikla eflingu kennarastarfsins.

Annað atriði sem vekur athygli mína í svörum kennara í TALIS-rannsókninni varðar símenntun. Íslenskir kennarar, a.m.k. í grunnskólum, virðast hafa minna val á símenntun en kennarar í öðrum löndum. Þeir taka minni þátt í símenntun og viðfangsefni þeirra eru einsleitari.

Ég setti á laggirnar nefnd í kjölfar þessarar skýrslu og fól henni að fjalla um mögulega endurskipulagningu endurmenntunar kennara í ljósi þessarar TALIS-könnunar en líka í ljósi nýrra laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla, laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda og væntanlegra breytinga á skipulagi kennaramenntunar. Nefndinni var falið að huga að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru, nánari tengingu endurmenntunartilboða við almenna kennaramenntun og möguleikum kennara á að sækja endurmenntun á fagsviði. Síðan var óskað tillagna um heildstæða útfærslu á endurmenntun sem nýtist kennurum á öllum skólastigum. Þar sátu saman fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa frá kennarasamtökum og háskólum sem mennta kennara.

Nefndin aflaði margvíslegra gagna og reyndi að kortleggja það fjármagn sem nú er varið til símenntunar kennara og streymir eftir ólíkum leiðum í óþarflega flóknu kerfi. Niðurstöður nefndarinnar eru settar fram sem markmið, leiðir og tillögur um næsta skref. Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, háskólarnir og kennarasamtök gefi annars vegar út viljayfirlýsingu um samvinnu og þróun samstarfsvettvangs sem kortleggi þá símenntun sem núna er í gangi, leggi línur um stefnumótun til framtíðar og hins vegar að gerð verði viljayfirlýsing um samvinnu um símenntun kennara og þróun sameiginlegrar upplýsingagjafar á vefsvæði þvert á skólastig þannig að ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og háskólar landsins vinni að því að auðvelda kennurum að sækja símenntun, ekki síst til háskólanna.

Við vinnum nú að því með menntavísindasviði Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands, Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að auka framboð símenntunar í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og bæta við í tengslum við innleiðingu laganna útgáfu aðalnámskrár og endurskipulagningu kennaramenntunar.

Þegar stefnan er klár held ég að við verðum að horfa til þess að hugsanlega þurfi aukið fjármagn. Ég hef ekki enn tæpt á öðrum þáttum sem varða starfsumhverfi en niðurstaðan úr þessari TALIS-rannsókn var sláandi. Annað sem því tengist eru kjör kennara. Við sjáum það í þessum alþjóðlega samanburði að þrátt fyrir umtalsverðan kostnað hér á landi við grunnskólastigið skilar hann sér ekki í háum launum. Það er nokkuð sem mér finnst full ástæða að ræða, eins og hv. málshefjandi gerði. Hvernig viljum við sjá samninga þróast? Hver er okkar pólitíski vilji í þeim málum? Hvernig getum við bætt kjör kennara? Ég held að í raun sé þverpólitískur vilji til þess. Þessar stéttir eru þær mikilvægustu sem við eigum og það skiptir máli að þær njóti góðra kjara og það er áhyggjuefni að íslenskir kennarar njóti verri kjara en starfssystkini þeirra í nágrannalöndunum. En við erum sem sagt að vinna út frá þessum línum. Hvernig getum við sett nýrri og samhæfðari stefnu um símenntun og endurmenntun kennara? (Forseti hringir.) Við erum að horfa til lengingar kennaramenntunar og síðan þarf auðvitað að taka kjörin fyrir en þá er alltaf spurning um fjármagn að einhverju leyti.



[18:18]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Efling kennarastarfsins er í mínum huga tvennt, að kennarar hafi ætíð tækifæri til endurmenntunar og símenntunar og síðan nýir og breyttir kjarasamningar sem skipta meginmáli að mínu mati. Kennarar verða að fara að líta á sig sem sérfræðinga og ekki láta meta menntun sína til mínútna og sekúndna. Það mun líka skipta meginmáli þegar kemur að því að hefja þessa stétt í hærri launastiga eins og hún á að vera en það að breyta kjarasamningum úr því sem þeir eru í dag, í að hætta að meta menntun okkar kennara í mínútum og sekúndum, mun kosta og þá kemur í ljós hvort Alþingi og sveitarfélögin eru tilbúin til að efla kennaramenntun, tilbúin til þess (Forseti hringir.) sem við erum að tala um, að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og bæta enn frekar í skólastarf.



[18:19]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við tölum um eflingu kennarastarfsins og þá erum við vonandi ekki í neinum 17. júní-ræðum því að það er ekki spurning að það þýðir ekki að vera með neinar umbúðir. Til að efla kennarastarfið þarf sjálfsvirðing kennara að aukast verulega og stór hluti af því er að sjálfsögðu stórbætt laun og stórbætt launakjör. Auðvitað skiptir menntun máli, starfsumhverfi skiptir máli en við horfumst í augu við það að nú erum við komin á þann stað að það að verða kennari er fimm ára háskólanám og það verður að meta það til launa. Auðvitað eru kennarar langflestir í vinnu sinni vegna hugsjóna, vegna þess að þeir hafa einstaklega gaman af því að vera með börnum og vilja gjarnan vinna með þeim, en það þýðir ekki að vera með einhverjar umbúðir. Það verður að stórbæta laun kennara en ég get alveg verið sammála ýmsum sem hér hafa (Forseti hringir.) tekið til máls, það má gjarnan taka kjarasamninga kennara verulega upp.



[18:21]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Tónninn er sá sami. Hann er sá að við viljum standa vörð um kennarastarfið og við viljum efla það. Við erum samt öll pínulítið að tipla á tánum í kringum það sem er heit kartafla, er það alltaf, kjarasamninga kennara.

Við vitum að til að hafa gott fólk í skólakerfinu þarf að borga fyrir það. En þá þurfa líka málsaðilar, hvort sem það eru sveitarfélögin eða Kennarasambandið, að þora að stokka upp kjarasamninga sem að mínu mati njörva niður og ramma inn kennarastarfið og skólastarfið í öðrum anda en þeim sem skólalöggjöfin segir. Við verðum að þora að fara í erfið mál og viðkvæm. Við erum ekkert endilega sammála um það, t.d. eigum við að fara í að ræða um frammistöðumat kennara. Ég held að það sé ekki tilviljun að ungir kennarar hrökklast fyrr úr starfi en aðrir. Ég held að við verðum að viðurkenna að þessi jafnlaunastefna sem ríkir í skólakerfi landsins skilar ekki árangri, hún skilar ekki því að við höldum inni unga fólkinu okkar í kennslu. Það er alveg hárrétt, og ég fagna því sem flestir hafa nefnt hér, að endurmenntun og símat kennara skiptir mjög miklu máli. Við verðum að spyrja, vonandi án þess að við förum í einhverja pólitískar skotgrafir: Birtist alls staðar fókusinn á nemandann, sem við erum búin að koma inn í skólalöggjöfina, hvort sem er í kjarasamningum eða starfinu í skólunum og þar með talið að halda utan um kennarastarfið sem slíkt? Með því að fókusera á nemandann fókuserum við sjálfkrafa á góðan kennara því að við foreldrar sem eigum börn í skólum landsins og dásömum guð á hverju kvöldi fyrir það hversu frábæra kennara þau hafa á hverjum degi, þar sem þeir auka lífsgæði barnanna okkar, (Forseti hringir.) viljum gera allt til að þetta fólk haldist í kennarastarfinu. Við viljum gera allt sem foreldrar til að stokka upp kerfið (Forseti hringir.) þó að það kosti einhverja slagi hér og þar.



[18:23]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef við gætum tekið þá umræðu sem er í þessum sal og rætt um auknar fjárveitingar til kerfisins held ég að við gætum verið sammála. Ég held að það skipti máli að horfa á þá samninga sem hafa verið gerðir í þeim tilraunaskólum sem nú eru starfandi og eru dálítið að fara út úr því kerfi sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi, kerfi sem snýst um mínútur og klukkustundir, prófadaga, kennsludaga og annað slíkt þannig að ég held að þar sé mjög margt að læra. Ég tek fram að ég sat í fræðsluráði Reykjavíkur þegar gerð var sérstök bókun um Norðlingaskóla og sérstakur samningur var gerður sem heimilaði nýtt fyrirkomulag í kjarasamningum og kennslu þar. Það var síðan því miður ekki tekið upp næst þegar nýr skóli var settur á laggirnar. Ég held að það skipti miklu máli að fara í slíka tilraunastarfsemi og losa um þessa hluti.

Það liggur þó fyrir að það er áhyggjuefni hvað við erum aftarlega á merinni þegar kemur að launum og kjörum kennara. Það er hægt að fara út í mjög mikil smáatriði og ræða tíma í kennsluskyldu og annað slíkt sem við leysum ekki í þessari pontu en ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það, kannski fyrst og fremst þau grundvallaratriði hvernig við náum þessum bættu kjörum ef það er þverpólitískur vilji til þess. Hvaða skilaboð viljum við senda kennurum þessa lands? Ég get tekið undir með öllum þeim sem hér hafa talað, kennarar skipta máli og hafa kannski ekki fengið greitt í samræmi við sitt mikilvæga vinnuframlag.

Síðan eru starfsaðstæður, menntunin og símenntunin. Ég held að menntunin skipti líka máli. Það sem við sjáum í TALIS-könnuninni eru ekki bara launin heldur líka sjálfsmynd kennara sem ræðst ekki aðeins af launum heldur líka af þeirri staðreynd að kennarar upplifa sig ekki sem metna fyrir störf sín. Það er ákveðið samfélagsmál sem við ættum líka að velta fyrir okkur. Hvernig sýnum við mat okkar á þessum störfum í verki? Við gerum það bæði í gegnum krónur og aura, við gerum það líka í umtali um skólana, í forgangsröðun í pólitíkinni. Hvenær eru til að mynda menntamálin á dagskrá (Forseti hringir.) hér í þessum sal og hvernig getum við sett þau ofar á dagskrána?