139. löggjafarþing — 91. fundur
 14. mars 2011.
efling iðn- og tæknináms.
fsp. SER, 521. mál. — Þskj. 852.

[18:26]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það standa öll spjót á hæstv. menntamálaráðherra í dag. Það er vel, menntamálin eiga að vera til eilífðarumræðu í þessum sal og reyndar alls staðar á landinu, svo brýn sem þau eru. Það þarf ekki að fara lengi um landið til að heyra áhyggjur manna af því hversu slælega við stöndum okkur í eflingu iðn- og tæknináms. Nú er svo komið, herra forseti, að fréttir blaðanna eru í æ ríkari mæli um þetta málefni. Ég er með Fréttablaðið frá því í dag sem fjallar um yfirvofandi skort á málmiðnaðarmönnum hér á landi sem ekki einasta stefnir í heldur er farinn að gera vart við sig.

Margir hafa talið Íslendinga hafa lagt ofuráherslu, alltént of mikla áherslu, á bóklegu fögin í uppbyggingu framhaldsmenntunar og háskólanáms en síður á þau fög sem tengjast iðnaði og tækni. Sjálfsagt hafa einhverjar rannsóknir verið gerðar á þessu en almennt er talið að við höfum lagt ólíka áherslu á þessa tvo flokka menntunar. Hvað sem því líður þurfum við að horfa í jafnríkum mæli til þessara þátta við uppbyggingu og endurreisn Íslands. Sá skortur sem er á fólki í þessum nefndu greinum, iðn- og tækninámi, gæti haft það í för með sér að við þyrftum að flytja inn kunnáttufólk frá öðrum löndum til að taka við þeim störfum sem eru fram undan við endurreisn landsins ef við eigum að geta sinnt þeim. Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir í Fréttablaðinu í dag, með leyfi forseta, að „ef einhverjar af þeim stóru framkvæmdum sem liggja í kortunum fari af stað á næstunni, verði hér verulegur skortur á málmiðnaðarmönnum“.

Við þurfum að gefa rækilega í í þessum efnum og ég spyr hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort fólkið hennar í því ágæta ráðuneyti sem sinnir þessum málum hafi (Forseti hringir.) skoðað einhverjar raunhæfar leiðir til að efla iðn- og tækninám hér á landi svo sem brýn þörf er á.



[18:29]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Ef við lítum aðeins á þróunina má sjá að nemendafjöldi á framhaldsskólastigi hefur þróast þannig frá 1997 til 2009 að heildarfjöldi nemenda hefur aukist um tæp 28% og á þessu 12 ára tímabili hefur hlutfall milli bóknáms og starfsnáms í raun og veru haldist stöðugt, þ.e. tveir þriðju hlutar nemenda stunda nám á bóknámsbrautum, þriðjungur á starfsnámsbrautum.

Á sama tíma, frá árinu 1998, hafa verið starfandi svokölluð starfsgreinaráð á öllum merginsviðum atvinnulífsins og þau hafa lagt áherslu á að fjölga námstækifærum í starfsnámi á framhaldsskólastigi og þróa nýjar námskrár sem eiga að mæta menntunarþörfum atvinnulífsins. Það má segja að við störfum innan kerfis sem byggt er upp á nánu samstarfi atvinnulífs og skólakerfis, en það er líka ljóst að slíkar aðgerðir einar sér duga ekki til að laða fleira fólk að þessum starfsnámsbrautum framhaldsskóla.

Gildandi framhaldsskólalög sem voru sett 2008 fela í sér ýmsa möguleika til að efla aðsókn í starfsnám. Þar má nefna sveigjanleika í uppbyggingu námsbrauta, áherslu á jafngildi bóknáms og starfsnáms til stúdentsprófs og heimild til viðbótarnáms á framhaldsskólastigi sem finna má í 20. gr. laganna sem gæti orðið, getum við sagt, vísir að sérstöku fagháskólastigi á Íslandi. Við höfum á undanförnum árum fundið vaxandi áherslu hjá nemendum á að eiga greiða leið að starfsnámsbrautum framhaldsskóla til áframhaldandi náms.

Um þessar mundir eru 12 starfsgreinaráð að hefja vinnu við að endurskilgreina hæfnikröfur starfa hvert á sínu sviði. Þær verður að hafa til viðmiðunar við gerð námsbrautalýsinga í starfsnámi og á sama tíma er starfsgreinanefnd að hefja vinnu með ráðuneytinu að undirbúningi, mótun og útfærslu heildstæðrar starfsmenntastefnu. Þetta er í anda þessara nýju laga. Í raun og veru finnst mér merkilegt að maður heyrir til að mynda erlendis að þetta þyki fólki mjög merkileg tenging, þ.e. milli atvinnulífs og skólakerfis, og hefur áhuga á að vita hvað hefur gefist vel í henni og hvað skortir til að hún gangi betur. Mér finnst það nokkuð sem við eigum að hafa hugfast, að þetta er jákvætt og við eigum að byggja á þessu en við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur hvað getur skipt máli til að efla þetta.

Á næstu dögum er fyrirhugað hjá mér að skipa nefnd sem á að gera tillögur að efni frumvarps til laga um vinnustaðanámssjóð en vinnustaðanám er mjög mikilvægur þáttur í starfsemi á nánast öllum starfsnámsbrautum framhaldsskóla. Það er löngu ljóst að það þarf að efla þann þátt námsins. Það þarf að skilgreina betur kröfur til fyrirtækja sem sinna vinnustaðakennslu, finna leið til að jafna kostnað milli þeirra og hinna sem ekki bera ábyrgð á slíkri kennslu. Þetta er enn brýnna í núverandi árferði en ella þar sem nemendum í sumum greinum reynist mjög erfitt að komast á samning eða fá tækifæri til að ljúka námstíma sínum sökum erfiðrar stöðu margra fyrirtækja. Þarna eru ákveðin vandamál í kerfinu sem við þurfum að bæta. Það hefur líka verið bent á að það þurfi kannski að endurskilgreina vinnustaðanám þannig að starfsnámið fylgi betur tímunum. Við sjáum að í sumum hefðbundnum fögum sem miðast við það að nemendur fari út á tiltekna vinnustaði hafa orðið miklar tækniframfarir þannig að það er jafnvel hægt að færa vinnustaðina mun meira inn í skólana. Það er jafnvel hægt að veita nemendum fjölbreyttari reynslu af því að vera „á vinnustað“ í skólunum af því að til að mynda tæknin er orðið stafræn að einhverju leyti. Ég nefni sem dæmi ljósmyndanámið sem er löggilt iðngrein þar sem nemendur hafa farið út á ljósmyndastofur, en þetta hefur auðvitað færst að stóru leyti inn í tölvur. Það eru mikil tækifæri í að nýta þessa nýju tækni til að breyta skipulaginu.

Því miður ná allt of margir nemendur núna ekki að klára vegna þess að þeir fá ekki tækifæri til að klára þennan hluta námsins, starfstengda hlutann. Þessir nemendur mælast sem brottfall í tölum hins opinbera. Þeir eru sem sagt búnir með allt sem hægt er að klára innan skólakerfisins.

Út frá umræðunni sem hefur verið núna langar mig að nefna að um þessar mundir er að störfum samstarfshópur fjölmargra aðila, m.a. frá Vinnumálastofnun, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Samtökum iðnaðarins og úr þinginu, til að vinna að því að finna leiðir til að hvetja langtímaatvinnulausa til náms. Þar er sérstök áhersla á verk- og tækninám, tölvu- og upplýsingamennt, listnám, stuttar hagnýtar námsbrautir innan uppeldis- og umönnunargeirans; nám sem ungt fólk kallar eftir.

Ég gæti haldið áfram og aðeins rætt um framhaldsfræðsluna og þróun raunfærnimatsins. Ég ætla að fá að koma inn á það í seinna svarinu en fyrst og fremst held ég að það sé mjög mikilvægt að halda áfram þeirri þróun sem þegar er hafin við að móta þau viðmið um þekkingu í leikni og hæfni í þrepaskiptum viðmiðunarramma um íslenska menntun sem auðvitað virkar saman við menntakerfi annarra landa og skilgreinist út frá sambærilegum viðmiðum, (Forseti hringir.) óháð því hvort um er að ræða bóknám eða starfsnám og óháð því hvar námið er staðsett.



[18:34]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það vilja allir efla iðn- og starfsnám og ég held að ráðherra hafi farið einmitt ágætlega yfir hvernig að því hefur verið unnið á undanförnum árum. Alltaf má gera gott betur, alla vega er grunnurinn kominn sem við getum öll unnið eftir. Hlutfallið hefur í rauninni ekki breyst í áranna rás og það er kannski svolítið ankannalegt miðað við orðræðuna sem er í gangi.

Ég vil hins vegar velta vöngum yfir starfsgreinaráðunum, af því að þau eru beintenging við atvinnulífið og atvinnulífið á með þeim að hafa tengingu inn í skólakerfið. Hafa þau hafi komið að skólakerfinu í þeim mæli sem menn óskuðu eftir? Ég vil beina spurningu til hæstv. ráðherra um tilraunafyrirkomulagið varðandi Tækniskólann, þ.e. sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans. Þar er ákveðin tilraun í gangi, til fimm ára að mig minnir, þar sem atvinnulífið kemur beint að rekstri skólans og á þar af leiðandi að geta haft puttann á púlsinum varðandi það hvernig þarfir atvinnulífsins eru (Forseti hringir.) uppfylltar innan skólans. Hvernig hefur það fyrirkomulag gengið eftir?



[18:35]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nefna þrennt. Atvinnulífið í náinni framtíð mun kalla á tæknimenntað fólk. Það þýðir að þegar við eflum kennaramenntunina þurfum við að skoða þann þátt í þeirri endurskoðun.

Kannski númer eitt, tvö og þrjú þarf viðhorfsbreytingu samfélagsins til náms. Enn er talað um menntun þegar um er að ræða þá sem fara í langskólanám eða háskólanám en vart er litið á iðnmenntun; að rafvirkjar, múrarar, málarameistarar o.s.frv. hafi menntun. Viðhorf samfélagsins þarf því að breytast til náms og hvetja þarf unga nemendur, hvort heldur það eru stelpur eða strákar, til að horfa til þessara þátta í námi sem eru ekki síður mikilvægir í atvinnulífi okkar en þeirra sem fara í háskólanám og koma síðan út á vinnumarkaðinn. (Forseti hringir.) Skurðlæknir gæti ekkert unnið án rafvirkja.



[18:37]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það ber að fagna þessari líflegu umræðu um iðn- og tækninám og ég er sérlega ánægður með svar hæstv. menntamálaráðherra sem er greinilega vel að sér í þessum málum og hefur kynnt sér þau í þaula og ætlar að leggja áherslu á þau. Ég hvet ráðherra mjög til dáða í þessum efnum því skýrslur benda til að það verði ekki síst í þessum geira sem skortur á vel menntuðu fólki verður mikill á komandi árum. Við þurfum því að grípa til þeirra ráðstafana sem hæstv. ráðherra taldi upp áðan.

Það er í sjálfu sér afskaplega leiðinlegt að horfa til þeirrar stöðu sem er uppi í samfélaginu í dag þar sem allt of margir Íslendingar eru á atvinnuleysisbótum sakir þess að litla vinnu er að hafa en á sama tíma gæti þetta fólk verið að svara kalli iðn- og tæknigeira varðandi aukna menntunarþörf í greininni. Hér þarf að samræma hluti og greiða þessu fólki leið til menntunar. Það eru ekki síst ungir karlmenn sem hafa misst vinnu eða hafa fallið frá námi eins og tölur vitna um. Ég held að við eigum að hugsa til þessa hóps ungra karlmanna sem að hlutfallstölu eru hvað minnst menntaðir hér á Íslandi og gætu sótt í þetta nám ef vegurinn að því yrði gerður þeim auðveldari. Hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í (Forseti hringir.) þessum efnum því að skorturinn verður ella viðvarandi og þá verður endurreisnin ekki jafnhröð og góð og við viljum.



[18:39]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði hv. fyrirspyrjanda og þeim hv. þingmönnum sem hér tjáðu sig.

Ég vil nefna framhaldsfræðsluna og lög um hana sem voru samþykkt í fyrra. Þar er eitt af lykilatriðum þróun raunfærnimatsins sem skiptir miklu máli fyrir iðn- og tæknimenntun. Þar hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins á undanförnum árum haft forgöngu um að þróa viðmið og aðferðir til að meta þá þekkingu, leikni og hæfni sem fólk hefur aflað sér í því sem við getum kallað „óformlegt nám“, þeirra sem hafa unnið á vettvangi og fengið það metið. Fjöldi fólks hefur þegar fengið slíkt mat og margir lokið sveinsprófi eða öðru skilgreindu starfsnámi en það er mjög brýnt að útvega fjármagn til að unnt sé að gefa öllum þeim sem þess óska kost á að ljúka skilgreindu iðn- og starfsnámi í framhaldi af raunfærnimati. Ég held að þetta skipti máli, sérstaklega til að gefa þeim sem núna hafa jafnvel fallið brott úr námi, af því að þeir luku ekki vinnustaðasamningi en hafa verið að vinna við fagið, tækifæri á að ljúka náminu með skilgreindum hætti. Það er brýnt.

Ég vil nefna, vegna þess sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi með Tækniskólann, að ekki liggur fyrir úttekt á fyrirkomulaginu sem þar var tekið upp. Væntanlega ætti hún að liggja fyrir á næsta ári, mig minnir að verkefnið standi til 2013. Þar kemur auðvitað atvinnulífið í mjög ríkum mæli að rekstri skólans en eigi að síður erum við að fást við sömu vandkvæði þar og annars staðar sem er að nemendur komast ekki á samning og annað slíkt.

Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það skiptir máli að við lítum til þessa og viðhorfin skipta auðvitað líka máli, hvernig um þetta er talað. Það er áhyggjuefni að nemendur velja sér iðulega ekki iðnnám sem fyrsta kost. Það er ákveðið bóknámsrek í kerfinu, það virðist enn vera viðurkenndari leið (Forseti hringir.) ef marka má almenn viðhorf samfélagsins. Það skiptir máli að við vinnum í því. Ég veit ekki hvort við gerum það með því að tala hér, stjórnmálamennirnir, (Forseti hringir.) sem erum sammála um þetta mál, en það skiptir máli til að mynda í kynningum fyrir nemendur sem eru að fara að hefja nám í framhaldsskólum.