139. löggjafarþing — 93. fundur
 15. mars 2011.
húsnæðismál, 2. umræða.
stjfrv., 547. mál (niðurfærsla veðkrafna Íbúðalánasjóðs). — Þskj. 921, nál. 998.

[21:27]
Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum. Þetta er nefndarálit meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar og að því standa ásamt undirrituðum hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Þingmennirnir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er lagt til að við lög um húsnæðismál bætist ákvæði til bráðabirgða sem heimili Íbúðalánasjóði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að færa niður fasteignaveðlán einstaklinga til samræmis við 110% af verðmæti íbúðarhúsnæðis. Frumvarpið er til samræmis við samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði sem gert var í desember 2010. Séu veðkröfur Íbúðalánasjóðs aftast í veðröð íbúðalána sem hvíla á fasteign lántaka skal sækja um niðurfærslu til Íbúðalánasjóðs, enda skal lántaki samkvæmt samkomulaginu snúa sér til lánveitanda þess íbúðaláns sem er á aftasta veðrétti.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti eins og kemur fram í álitinu. Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun í meðförum nefndarinnar voru tekjuviðmið lántaka sem óska eftir úrræðinu og fríeignarmark þeirra, skattaleg meðferð niðurfærslu, úrræði fyrir húsnæðissamvinnufélög og aðra lögaðila, afskriftaþörf Íbúðalánasjóðs og eftirlit með sjóðnum.

Í 3. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila er kveðið á um hvernig reikna skuli tekjur lántaka við beitingu úrræðisins. Þar er sett fram sú regla að hafi lántaki ekki haft neinar launatekjur á árinu 2010, t.d. vegna náms, skuli miða við að lágmarkstekjur heimilis séu ekki lægri en sem svarar grunnatvinnuleysisbótum sem eru nú 149.523 kr. á mánuði að viðbættum 8.395 kr. á mánuði fyrir hvert barn á heimilinu sem er yngra en 18 ára. Til að tryggja að ákvæðið sé til samræmis reglunum leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu sem miðar að því að lögfesta þetta viðmið fyrir þá sem ekki hafa haft launatekjur á árinu 2010.

Í 2. gr. samkomulagsins kemur m.a. fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Sambærilega reglu er að finna í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þar sem laun eru ekki aðfararhæf eign hefur þó verið gerð sú undantekning að líta fram hjá innstæðu á launareikningi sem svarar til tveggja útborgaðra mánaðarlauna. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að mikilvægt væri að veita að auki fríeignarmark þegar metið væri hvaða eignir teljast aðfararhæfar eignir og koma til lækkunar niðurfærslu veðskuldar. Var nefndinni m.a. kynnt að aðrir aðilar samkomulagsins teldu rétt að líta fram hjá eignum fyrir neðan einhverja lágmarksfjárhæð eða lágmarksveðrými á bilinu 500 þús. kr. til 3 millj. kr.

Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu sé ætlað að lögfesta Íbúðalánasjóði heimild til niðurfærslu lána í samræmi við samkomulagið. Framangreint fríeignarmark er ekki hluti af því samkomulagi auk þess sem afskriftaþörf sjóðsins hefur verið metin út frá samkomulaginu og fyrirliggjandi frumvarpi. Ljóst er að Íbúðalánasjóður hefur ekki afskriftarými eins og sumir aðrir aðilar samkomulagsins. Meiri hlutinn telur að ekki sé unnt að réttlæta það að setja með þessum hætti fríeignarmark vegna annarra eigna lántaka umfram það sem getur í samkomulaginu og veldur beinum fjárútlátum úr ríkissjóði.

Bent var á í meðförum nefndarinnar að þess er ekki getið sérstaklega í frumvarpinu að niðurfærsla lána samkvæmt frumvarpinu myndi ekki stofn til tekjuskatts. Meiri hlutinn áréttar að með lögum nr. 104/2010 var bætt við tekjuskattslög, nr. 90/2003, tveimur ákvæðum til bráðabirgða er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda. Í ákvæði til bráðabirgða XXXVII við tekjuskattslögin er því kveðið á um að eftirgjöf veðskulda vegna greiðsluerfiðleika sem ákveðin er á árunum 2009–2011 teljist ekki til skattskyldra tekna að hámarki samtals 15 millj. kr. hjá einstaklingi og 30 millj. kr. hjá hjónum og samsköttuðum. Hafi einstaklingur eða hjón þegar fengið niðurfærslu skulda vegna annarra greiðsluvandaúrræða fellur sú niðurfærsla ekki undir framangreindar viðmiðunarfjárhæðir enda segir í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar um breytinguna, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á að frumvarpið sé viðbótarúrræði og rýri í engu þann rétt sem aðilar utan atvinnurekstrar hafa samkvæmt gildandi reglum vegna skattalegrar meðferðar á eftirgjöf skulda.“ (Þskj. 1429, 659. mál, 138. þing.)

Nefndin ræddi vanda lögaðila en margir af þeim lögaðilum sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð eru í greiðsluvanda og þurfa úrlausn á honum. Fyrirliggjandi frumvarp tekur einungis til niðurfærslu yfirveðsettra íbúðalána einstaklinga en Íbúðalánasjóður hefur þó heimildir til frystingar lána lögaðila auk þess sem honum er heimilt að afskrifa af lánum þeirra eftir að hafa borið afskriftina undir velferðarráðherra og Ríkisendurskoðun. Meiri hlutinn telur mikilvægt að slíkar afskriftir séu þó ekki gerðar með almennum hætti heldur sé unnið heildstætt úr greiðsluvanda og litið m.a. til skuldaþols, rekstrarvirðis, nýtingar, reksturs, leigusamninga og hagræðingarmöguleika. Nefndinni hefur verið kynnt að vinna sé hafin við að skoða leiðir til að vinna úr greiðsluvanda fyrirtækja og fyrirhugað er m.a. að skoða vel stöðu þeirra með tilliti til framangreindra þátta. Meiri hlutinn telur því ekki tímabært að skoða lagabreytingar að sinni hvað þennan þátt varðar.

Þá voru einnig kynnt sjónarmið þess efnis að til að gæta jafnræðis væri rétt að færa niður lán húsnæðissamvinnufélaga á sama hátt og lán annarra. Bent var á að félagsmenn í húsnæðissamvinnufélögum ættu í sömu erfiðleikum og einstaklingar á almennum markaði. Meiri hlutinn áréttar að frumvarpið tekur einungis til íbúðalána einstaklinga. Húsnæðissamvinnufélög eru lögaðilar með rekstur og til að jafnræðis sé gætt er rétt að um þá gildi sömu reglur og um aðra lögaðila. Félögin eru eigendur íbúðanna og lántakendur í þessum tilvikum en ekki þeir einstaklingar sem keypt hafa búseturétt. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við úrvinnslu greiðsluvanda lögaðila verði horft heildstætt á málin og fram fari mat hverju sinni. Með vísan til títtnefndrar jafnræðisreglu verður heldur ekki séð að hægt sé að taka húsnæðissamvinnufélög og beita á þau almennum aðgerðum án þess að gera slíkt hið sama fyrir aðra aðila, svo sem leigufélög, verkamannaíbúðir, byggingaraðila og félagslegar íbúðir.

Nefndin ræddi sérstaklega eftirlit með Íbúðalánasjóði. Fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með sjóðnum á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, heldur er kveðið á um það í 27. gr. laga um húsnæðismál.

Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með því að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eftir því sem við á.“

Fjármálaeftirlitið benti nefndinni á að mun víðtækara eftirlit fengist með sjóðnum væri hann skilgreindur sem lánafyrirtæki á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki enda sé grundvöllur þeirra laga að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi. Seðlabanki Íslands kynnti nefndinni sambærileg sjónarmið og ítrekaði þá afstöðu sína að starfsemi Íbúðalánasjóðs ætti að falla undir lög um fjármálafyrirtæki m.a. í ljósi þeirra miklu umsvifa sem Íbúðalánasjóður hefur og margvíslegrar áhættu sem tengist þeim.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að nánara eftirlit verði haft með sjóðnum og beinir þeim tilmælum til velferðarráðuneytisins að leitað verði leiða til að tryggja slíkt eftirlit með því m.a. að skoða það að fella sjóðinn undir lög um fjármálafyrirtæki. Slíkt mundi auka aðhald með starfsemi sjóðsins.

Í fjáraukalögum fyrir árið 2010 var veitt heimild til að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða kr. Framlagið var byggt á mati á fjárþörf sem fundin var út með notkun reiknilíkans sem byggðist á stöðu lánasafnsins 1. janúar 2010 og átti heimildin að ná til afskriftaþarfar sjóðsins árin 2010–2013. Íbúðalánasjóður kynnti nefndinni nýja útreikninga miðað við stöðu lánasafnsins um áramót. Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að lánasafn sjóðsins hefur versnað nokkuð og vanskil bæði einstaklinga og lögaðila aukist á síðasta ári. Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun sjóðsins og kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis gæti afskriftaþörf sjóðsins árin 2011–2013 orðið rúmlega 48 milljarðar kr. Vegur þar þyngst að í fyrri áætlun var gert ráð fyrir 12 milljarða kr. afskriftum vegna niðurfærslu lána samkvæmt 110% leiðinni en ný áætlun hljóðar upp á 21,8 milljarða kr. afskriftir. Þar af er áætluð nettóaukning afskrifta 14,8 milljarðar kr. enda er gert ráð fyrir að hefði úrræðið ekki komið til hefði sjóðurinn þurft að afskrifa um 7 milljarða kr. hjá einstaklingum á næstu þremur árum. Endanlegar tölur um afskriftaþörf vegna þessa frumvarps munu ekki liggja fyrir fyrr en síðar á árinu og meiri hlutinn telur mikilvægt að nefndin fylgi málinu eftir og kalli þá stjórn sjóðsins fyrir og framkvæmdastjóra og velferðarráðuneytið til að fara yfir málið þegar línur taka að skýrast í afkomu sjóðsins með haustinu.

Auk þeirrar breytingar sem gerð hefur verið grein fyrir leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á texta til leiðréttingar auk þess sem lögð er til breyting sem miðar að því að gæta samræmis við önnur ákvæði laganna en rétt þykir að tiltaka sérstaklega að heimildin eigi við um veðkröfur vegna lána sem veitt voru með ábyrgð varasjóðs viðbótarlána.

Virðulegi forseti. Breytingartillögur meiri hlutans koma fram í þessu sama þingskjali. Ég hef þegar farið yfir þær í máli mínu og tel ekki ástæðu til þess að tíunda þær sérstaklega hérna.

Það er rétt að taka fram að í nefndinni komu einnig fram vangaveltur um ítarlegri meðhöndlun sérstaklega lágra tekna. Ég hygg að nefndin muni hittast á fundi á milli umræðna þar sem ítarlegri grein verður gerð fyrir meðferð slíkra tekna og tekin um það endanleg afstaða hvort þörf er á að breyta frumvarpinu með tilliti til þess.



[21:41]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir málið og nefndarálit meiri hlutans. Það er eitt sem ég vildi gera athugasemd við strax, herra forseti. Í nefndaráliti frá nefndum með einu meirihlutaáliti er getið um þingmenn sem eru fjarverandi og þingmenn sem eru á nefndarálitinu en ekki er getið um þá þingmenn sem voru viðstaddir en vildu ekki vera á nefndarálitinu. Ég held að þingið ætti að breyta þessu vinnulagi. Ég bið hv. forseta að koma því á framfæri við forsætisnefnd að þarna hefði gjarnan mátt standa „hv. þingmaður Pétur H. Blöndal var viðstaddur fundinn en skrifaði ekki undir nefndarálitið“. Í því felst ákveðin afstaða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í afskriftaþörfina. Við erum nýbúin að setja 33 milljarða með miklu hraði og lítilli yfirlegu og lítilli hugsun til Íbúðalánasjóðs til að dekka afskriftir næstu þriggja ára. Nú kemur allt í einu í ljós að gífurlega peninga vantar inn í þetta, ég held um 15 milljarða í viðbót. Ég ætla að fá að vita: Er ekki alveg á tæru að 15 milljarða vantar til viðbótar til að halda stöðu sjóðsins óbreyttri miðað við það sem hún átti að vera eftir að við vorum búin að setja 33 milljarða inn? Þetta er hið fyrsta.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann: Margir af hans hv. samflokksmönnum hafa gagnrýnt einkavæðingu bankanna og sagt að hún hafi verið af hinu illa og búið til ógurleg vandræði, kreppu og hrun. Nú ræðum við um ríkisbanka sem starfar samkvæmt mjög stífum og skörpum reglum um útlán, samt er hann líka með mikið tap. Ég minni á Byggðastofnun (Forseti hringir.) í þessu sambandi sem er líka ríkisbanki. Er þá rétt að þetta sé einkavæðingu bankanna að kenna?



[21:43]
Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni að vissulega færi vel á því að geta þess í lokaafgreiðslu út úr nefndum eða við afgreiðslu nefndarálita hverjir voru viðstaddir, hvort sem þeir ætluðu að vera með á álitinu eða ekki. Það er ágætis ábending.

Varðandi afskriftaþörfina verð ég að segja, eins og kom fram í máli mínu áðan og kemur fram í nefndarálitinu, að hvort fjárþörfin er 15 milljarðar umfram það sem við höfum þegar ákvarðað, vitum við það í rauninni ekki almennilega fyrr en líður á árið, þ.e. þegar við sjáum hversu mikið af lánum Íbúðalánasjóðs fara að standa sig betur en þau gera í dag og hvort greiðendur verði í betri færum til að standa í skilum af lánum sínum þegar afskriftir annarra fjármálafyrirtækja m.a. á lánum á fasteignum þeirra gera tekjustreymi til Íbúðalánasjóðs eitthvað betra. Það hefur verið rætt aðeins í hversu miklum mæli þetta yrði en í rauninni er ómögulegt að segja það á þessari stundu en það gæti skipt verulegu máli.

Ég skildi ekki alveg seinni spurningu hv. þingmanns um einkavæðingu bankanna, hvort hún væri orsökin fyrir afskriftaþörfinni. Ég þori ekki að segja til um það að óathuguðu máli og legg til að ég og hv. þingmaður ræðum það frekar í góðu tómi þegar ég hef haft tækifæri til að fara yfir gögn sem snúa að því máli sérstaklega.



[21:45]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf kannski að skerpa á síðari spurningunni. Hún gengur út á að flokksmenn hv. þingmanns, hv. þingmenn Vinstri grænna, hafa oft sagt að einkavæðing bankanna og það að þeir voru einkabankar, væri orsökin að hruninu. Nú erum við að fjalla um ríkisbanka sem starfar eftir mjög ströngum skilyrðum og er með ríkisábyrgð á öllum útlánum sínum en lendir nú í miklum vandræðum. Hann færi beint á hausinn ef við mundum ekki bæta við 48 milljörðum. Spurning mín til hv. þingmanns er: Er þá röksemdin ekki farin fyrir því að rekstrarformið hafi valdið hruninu?

Svo langaði mig til að spyrja hv. þingmann út í afskriftirnar sem við fengum upplýsingar um og eiga að stafa af vandræðum vegna verðbólgunnar. Ég get ekki séð að verðbólga sé orsökin að vandanum, afskriftaþörfinni, vegna þess að þau dæmi sem við höfum fengið sýna ekki að vandinn sé út af verðbólgunni eða verðtryggingunni heldur er eitthvað allt annað á seyði. Enda kemur í ljós að 70% af afskriftaþörfinni er vegna eigna á landsbyggðinni. Það kemur fram í yfirliti frá Íbúðalánasjóði.

Það er eitthvað skrýtið með klukkuna, herra forseti, mér sýnist að hún tikki upp þannig að ég hef endalausan tíma. Það gleður mig.

(Forseti (KLM): Forseti vissi að klukkan var biluð en þingmaðurinn átti eftir smátíma. Klukkan taldi upp að þessu sinni.)



[21:47]
Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að það fari eins með klukkuna hjá mér og hjá hv. þm. Pétri Blöndal.

Varðandi orsökina fyrir hruninu og hvernig Íbúðalánasjóður lendir í því. Vissulega lendir Íbúðalánasjóður í nákvæmlega sama vanda og önnur fjármálafyrirtæki vegna hrunsins, þ.e. bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn með erlendu lánin sem virtust að sumu leyti vera hagstæð. Fólk tók þessi lán í stórum stíl eða tók önnur 90% eða jafnvel 100% lán hjá bönkum eða viðbótarlán hjá bönkum til að setja á fasteignir sínar. Fyrir vikið verða erfiðleikar almennt í samfélaginu við að greiða af fjárskuldbindingum miklu meiri. Auðvitað smitar þetta yfir á Íbúðalánasjóð eins og aðra. Ég held að þarna sé rekstrarformi Íbúðalánasjóðs að minnsta kosti ekki um að kenna. Hins vegar má vel færa fyrir því rök að gegndarlaus útlánastarfsemi í viðskiptabönkunum í aðdraganda hrunsins hafi að þessu leyti valdið vandræðum Íbúðalánasjóðs og sett stóran hóp lántakenda í þau vandræði að hann gat ekki greitt af lánum sínum. Íbúðalánasjóður finnur fyrir því eins og önnur fyrirtæki.

Hvort verðtryggingin sé ein af orsökunum fyrir vandanum — ég er nokkuð viss um að verðtryggingin hefur haft mikið að segja og jafnmikið hjá Íbúðalánasjóði eins og öðrum. Verðtryggingin hefur hækkað fjárskuldbindingar allra lántakenda, hvort sem þeir eru með lán hjá Íbúðalánasjóði eða verðtryggð lán hjá öðrum fjármálastofnunum. Auðvitað veldur þetta (Forseti hringir.) sama vanda þar og annars staðar.



[21:50]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, frá hv. meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.

Mig langaði að byrja að ræða um fjárhagsmálin. Við horfum eiginlega upp á skelfilega niðurstöðu. Við erum nýbúin að setja 33 milljarða inn í sjóðinn sem átti að vera mjög tryggur, yfirleitt með 1. veðrétt og að hámarki 80% lánshlutfall, greiðslumat og ég ætla ekki að telja upp allt sem hann átti að gera til að tryggja að hvorki hann né lántakendur lentu í vandræðum. Engu að síður lendir hann nú í vandræðum. Veðhlutfall lána átti að miðast við 80% yfirleitt, það fór reyndar í stuttan tíma upp í 90% og það voru fá lán sem miðuðust við brunabótamat sem var oft lægra en fasteignamatið. Sjóðurinn átti því að vera mjög tryggur að öllu leyti. En nú kemur í ljós að hann var það ekki.

Eftir að við erum nýbúin að setja í hann 33 milljarða sem fór umræðulítið eða umræðulaust í gegnum Alþingi eins og mjög margt af því sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn, allt fer með svoddan gassagangi hér í gegn að það næst varla að ræða nokkurn skapaðan hlut, er núna tveimur mánuðum seinna komið með nýjar kröfur, nýjar afskriftir. Nú er verið að tala um 48 milljarða fyrir sama tímabil, ef ég skil þetta rétt, þ.e. afskriftaþörf sjóðsins hefur hækkað um 15 milljarða, 50%, frá því við ræddum síðast um hana. Við bætum 15 milljörðum við styrkinn til sjóðsins frá ríkinu, frá skattgreiðendum, sem er umtalsvert. Ég vil minna á að milljarður er stór tala þótt kannski sé farið að slá dálítið í skilning manna á slíkum tölum. Allt er þetta borgað af skattgreiðendum og þarf að ná því inn með hækkandi tekjum, skatttekjum eða niðurskurði eða einhverju slíku. Það sýnir hve ábyrgðin er mikil á þeim aðilum sem reka sjóði eins og Íbúðalánasjóð og Byggðasjóð sem er líka í gífurlegum vandræðum. En í því tilviki er það skiljanlegt vegna þess að þar voru ekki gerðar miklar kröfur til lánveitinga og lítil skilyrði um arðsemi. Það eina sem gerð var krafa um var að framkvæmdin væri ekki á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Þetta lagafrumvarp byggir á samkomulagi sem gert var hjá fjármálastofnunum um aðstoð við lánveitendur til að laga stöðu þeirra sem voru orðnir yfirveðsettir, þ.e. að skuldirnar voru hærri en nam verðmæti eignanna. Miðað var við að lækka ætti skuldir sem væru umfram 110% af virði eignanna. Nú hefur þetta svo sem alltaf þekkst úti á landi, ég veit að herra forseta er það kunnugt. Tökum sem dæmi mann sem byggði sér nýtt einbýlishús á Siglufirði og átti á sínum tíma 5 milljónir í eigið fé og fékk 15 milljónir lánaðar til að byggja hús sem kostaði 20 milljónir. Eftir að hann flutti inn átti hann 10 milljónir í húsinu, það var ekki meira virði. Þá skuldaði hann 15 milljónir og átti 10, þ.e. eiginfjárstaðan fór úr því að vera 5 milljónir niður í mínus 5 milljónir. Enginn hafði nú miklar áhyggjur af þessu, herra forseti, í gegnum tíðina. Ég hef reyndar minnst á þetta einstaka sinnum en þetta þykir allt í lagi. En þegar þetta er komið á mölina í Reykjavík verður það allt í einu mikið vandamál.

Um allan heim hefur orðið verðlækkun á fasteignum. Þó lán séu ekki verðtryggð í þeim löndum hefur samt komið í ljós að fjöldi heimila í Danmörku, Spáni og víðar og eflaust í Grikklandi líka, eru nú með neikvæða eiginfjárstöðu. Mér er ekki kunnugt um að ríkisstjórnir þessara landa séu að reyna að laga þá stöðu enda er það óheyrilega dýrt eins og hér kemur í ljós. Þetta er óheyrilega dýrt og ekki endilega þörf á því vegna þess að fólkið ræður við greiðslurnar á lánunum. En neikvæði fylgifiskurinn við þetta er það sem fólk úti á landi hefur kynnst — það getur ekki selt. Það hefur bundist átthagafjötrum við íbúðina sína, hefur eiginlega fest rætur í gegnum íbúðina á staðnum.

Þar sem ég hef ekki enn fengið svar við því, herra forseti, væri gaman að fá svar frá framsögumanni um samkrull Íbúðalánasjóðs og ýmissa lánastofnana, svo sem eins og SPRON. Það eru svokölluð „hattalán“, ég held að þau hafi verið kölluð það. Þessir aðilar voru í samstarfi við Íbúðalánasjóð og meira að segja á heimasíðu Íbúðalánasjóðs var vísað í að þessi og hinn bankinn gæti lánað til viðbótar. Menn tóku fyrst lán hjá Íbúðalánasjóði samkvæmt reglum um 18 milljóna hámark og svo fóru þeir í SPRON eða eitthvert annað og fengu ótakmarkað lán til viðbótar. Hvað gerðist með þessi lán, herra forseti? Hvaðan komu peningarnir? Hvernig var þetta fjármagnað? Það var fjármagnað þannig að Íbúðalánasjóður keypti lánin af bönkunum vegna þess að hann sat uppi með gífurlega mikla fjármuni eftir að vextir lækkuðu hjá bönkunum. Kaupþing byrjaði með 4,15% ávöxtunarkröfu á lán árið 2004 og undirbauð í rauninni Íbúðalánasjóð. Þá sáu margir lántakendur sér leik á borði, borgarinn er yfirleitt skynsamur, og greiddu upp lánin hjá Íbúðalánasjóði með 6% vöxtum og tóku lán hjá Kaupþingi og öðrum bönkum með u.þ.b. 4,15% vöxtum. Þeir fengu heilmikið í milli, voru með sömu greiðslubyrði eftir sem áður, og gátu jafnvel keypt sér fallegan og stóran jeppa fyrir mismuninn. Þetta gerðu nokkrir, því miður. Í staðinn fyrir að lækka lánin og reyna að skulda minna héldu menn greiðslubyrðinni og keyptu sér jeppa fyrir mismuninn eða eitthvað annað, fóru í ferðalög eða hvað það nú var.

Lítið hefur verið fjallað um þetta. Hvernig stóð á því að stjórn Íbúðalánasjóðs notaði fé með ríkisábyrgð til að lána út á bifreiðar, bifreiðakaup eða alls konar kaup, ótakmarkað, ekki með þeim takmörkunum sem Íbúðalánasjóður starfar eftir, og fór í rauninni í samkeppni við Íbúðalánasjóð? Síðan keypti Íbúðalánasjóður þessi skuldabréf með ríkistryggðum pappírum. Um þetta hefur ekki verið nægilega upplýst, herra forseti. Það væri ágætt að fá upplýsingar um það. Kannski þarf ég að setja fram fyrirspurn um það.

Þetta frumvarp byggir á ákveðnu samkomulagi sem bankarnir gerðu sín á milli. Ég rak augun í ákveðna rökleysu í því. Maður hefði nú talið að að samkomulaginu hefði komið fólk með rökfræðina í sæmilegu lagi. Í því stendur:

„Hafi lántaki ekki haft neinar launatekjur á árinu 2010, t.d. vegna náms, skal miða við að lágmarkstekjur heimilis séu ekki lægri en sem svarar grunnatvinnuleysisbótum sem eru nú 149.523 kr. á mánuði að viðbættum 8.395 kr. á mánuði fyrir hvert barn á heimilinu yngra en 18 ára.“

Þetta er rökleysa, herra forseti. Hafi maðurinn ekki haft neinar tekjur skal miða við tekjur sem eru u.þ.b. 150 þús. kr. á mánuði. Ef hann hefur haft einhverjar tekjur, þó ekki sé nema 10 þús. kall á ári, skal miða við það. Þetta er náttúrlega rökleysa og dálítið undarlegt að allir þessir lögfræðingar og spekingar hafi komið með svona reglu. Þetta átti að sjálfsögðu að vera þannig að hafi menn lægri tekjur en þetta viðmið, grunnatvinnuleysisbætur, eigi að miða við það. Auk þess er talað um að lágmarkstekjur heimilis séu atvinnuleysisbætur eins manns. Það geta verið tveir í heimili og báðir geta verið í námi. Mér finnst þetta því hroðvirknislega unnið, þetta samkomulag sem gert var hérna með miklum látum.

Síðan óskuðum við eftir því hjá Íbúðalánasjóði að fá töflu yfir nokkur eðlileg lán. Þá kom fram að afskriftir eru að meðaltali 2,5 milljónir á íbúð. Um 70% af afskriftaþörfinni er vegna eigna á landsbyggðinni. Það er dálítið athyglisvert. Það segir mér að ekki er verið að leysa vanda vegna verðtryggingar. Verið er að leysa þann vanda sem ég ræddi áðan við forseta, t.d. á Siglufirði og annars staðar þar sem menn höfðu byggt t.d. einbýlishús. Sá vandi er að leysast loksins núna og kostar 21 milljarð sem allir skattgreiðendur í landinu greiða. Það finnst mér líka mjög athyglisvert. Það verður athyglisvert að sjá niðurstöður bankanna um afskriftir þeirra og bera saman hvað mikið af þeim er vegna fasteigna úti á landi og hvað mikið vegna verðtryggingar.

Mér sýnist, vegna þess að Íbúðalánasjóður lánar bara upp að 80% og miðað er við 110% af fasteignamati og verðbólgan hefur ekki verið svo mikil frá því fasteignaverð var í hámarki, að ef allt væri eðlilegt ættu ekkert voðalega margir að falla undir þessar reglur. Afskriftaþörfin ætti ekki að vera neitt voðalega dýr. En eitthvað annað er í gangi sem ég ekki skil og veldur því að veðhlutfallið í dag er allt upp í 250%. Hér er eitt lán með 295% veðhlutfall og afskriftaþörfin er 9.680 þúsund. Það er lán með athugasemd 1, þ.e. lán í frystingu, þar hefur hlaðist upp skuld. Þannig að þeir sem voru í frystingu njóta þess núna að fá meiri afskriftir.

Ég viðurkenni og fellst á að lán sem eru orðin svona og fasteignir orðnar svona mikið veðsettar, þau lán eru kannski ekki mikils virði. Þetta er kannski ágætis aðferð til að gera skuldirnar viðráðanlegri þannig að Íbúðalánasjóður þurfi ekki að afskrifa til viðbótar. Það hefði þurft að skoða miklu fleiri dæmi um hvernig þetta kemur út af öllum þessum ástæðum og skoða sérstaklega hversu mikið afskriftaþörfin og styrktarþörf Íbúðalánasjóðs vex.

Nú þurfum við hv. þingmenn væntanlega að samþykkja 15 milljarða til viðbótar í fjáraukalögum. Eiginlega ætti að fylgja frumvarpinu um fjáraukalög 15 milljarða styrkur til Íbúðalánasjóðs. Hægt er að gera mörg fjáraukalög á ári, í hverjum mánuði þess vegna. Það ætti að liggja fyrir nú þegar. En svo er sagt að jafnvel þessar tölur séu ekki endanlegar. Það eigi eftir að reyna á hvað þetta verði mikið. Kannski horfum við upp á að ekki þurfi eins mikið og menn telja og ég vona að það verði ekki meira.