139. löggjafarþing — 94. fundur
 16. mars 2011.
störf þingsins.

[14:01]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú standa yfir viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamningagerð og í morgun bárust fréttir af því að aðilarnir hefðu farið á fund ríkisstjórnarinnar til að gera grein fyrir helstu áherslum sínum.

Það var þannig líka árið 2009 þegar gerður var stöðugleikasáttmáli að gengið var upp í Stjórnarráð og komist að samkomulagi við ríkisstjórnina um að leggja áherslu á tilteknar aðgerðir til að skapa hagvöxt og laða fram fjárfestingu í atvinnulífinu. Við sjáum það í dag miðað við þann hagvöxt sem við búum við í augnablikinu sem virðist vera enginn og fjárfestingin í algjöru lágmarki að það virðist vanta u.þ.b. 150 milljarða á heildarfjárfestingu í landinu borið saman við það sem að var stefnt árið 2009.

Nú eru þessir aðilar að hefja að nýju kjarasamningagerð þar sem horft er til þriggja ára. Augljóst er að grunnforsenda þess að hægt sé að hækka laun í landinu er sú að hagvöxtur fari af stað, að okkur auðnist að fá fram atvinnuvegafjárfestingu, okkur takist að laða hingað heim frá erlendum aðilum nýja fjárfestingu og eyða óvissu sem ríkt hefur um grunnatvinnugreinarnar. Ég tel líka að það sé bráðnauðsynlegt að draga úr þeirri skattaherferð sem ríkisstjórnin hefur verið í gegn bæði heimilum og atvinnulífi.

Mig langar að bera það upp við hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það skorti algerlega á að ríkisstjórnin hafi gripið til nauðsynlegra (Forseti hringir.) aðgerða til að laða fram þá fjárfestingu sem stefnt var að þegar á árinu 2009 og ekkert bólar enn á.



[14:03]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að ekkert verkefni í íslenskum stjórnmálum er eins brýnt nú um stundir og það að ná upp fjárfestingunni í atvinnuvegunum. Til þess held ég að mikilvægt sé að við þá samningagerð sem nú stendur yfir verði í meira mæli en við samningagerðina sem farið var í árið 2009 horft til þess að við í stjórnmálunum sköpum hin almennu skilyrði til uppbyggingar í atvinnulífi en einblínum ekki á einstakar fjárfestingar, látum atvinnulífinu sjálfu eftir að vinna úr því hvar best sé að fjárfesta. Til að skapa þær aðstæður er gríðarlega mikilvægt að eyða óvissu. Við þurfum að ljúka skuldahreinsun fyrirtækjanna og að því er stefnt að henni megi ljúka á vordögum. Við þurfum að eyða óvissu um afnám gjaldeyrishaftanna og í hvaða vegferð við erum þar og við þurfum að fá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl nk.

Ég er líka sannfærður um að við getum beitt skattkerfinu með virkum hætti með hvetjandi aðgerðum til að auka á fjárfestingu í nýsköpun (JónG: Ertu ekki að grínast? Ha?) og í nýjum störfum. Það höfum við líka verið að gera. Ég held að það að laða fram fjárfestingu í íslensku atvinnulífi sé einfaldlega svo stórt og mikilvægt verkefni fyrir okkur nú að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi eigi að vera tilbúnir til að ræða allt sem mögulegt er til að koma hjólum atvinnulífsins á þann skrið að við náum að vinna á atvinnuleysinu og skapa efnahagslegan vöxt og velsæld á ný.



[14:05]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég held að við getum séð stöðu Íslands í dag í hnotskurn með því að horfa til stöðu Þingeyjarsýslna þar sem á síðustu 10–20 árum hefur verið sífelldur samdráttur, enginn hagvöxtur á svæðinu, lífskjör dragast þar saman ár eftir ár og það virðist vera nokkuð sama með hvaða hætti íbúar þess svæðis bera sig eftir björginni, þeir koma alls staðar að læstum dyrum. Fyrir síðustu alþingiskosningar var þeim bent á að lífsbjörgin gæti legið í því að það væri „eitthvað annað“ en það að nýta auðlindir svæðisins til atvinnusköpunar og þetta annað birtist þeim ágætlega í fjárlögum fyrir árið 2011 sem var niðurskurður á þeim stofnunum sem þeir sem töluðu fyrir „einhverju öðru“ ætluðu að byggja upp.

Ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að á grunni tillögu sem fjölmennur borgarafundur á Húsavík samþykkti í fyrrahaust, grunni ályktunar sem bæjarstjórn Norðurþings hefur samþykkt, bar ég fram tvær þingsályktunartillögur og mælti fyrir þeim í lok nóvember á síðasta ári. Þeim var þá vísað til iðnaðarnefndar. Önnur laut að rannsóknum á olíu og gasi í Skjálfandaflóa og hin að því að hvetja ríkisstjórnina til að ganga til samstarfs við stórfyrirtæki sem vildu byggja upp orkufrekan iðnað á grundvelli orkunnar í Þingeyjarsýslu.

Nú hefur hv. iðnaðarnefnd legið á þessum tveimur tillögum í þrjá mánuði og ég krefst þess að hv. þm. Kristján Möller komi hingað upp og lýsi yfir vilja til að hv. iðnaðarnefnd hafi í það minnsta skoðanir á þessum tveim þingsályktunartillögum, þótt ekki væri meira, og fari að afgreiða þær hingað inn til þingsins. (VigH: Það eru viðræður …)



[14:07]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vildi óska þess að það væri nóg að iðnaðarnefnd tæki þessar tvær þingsályktunartillögur og afgreiddi þær út, þar með gætum við smellt saman fingrum, olíuleit hæfist á Drekasvæðinu og við byrjuðum að nýta orkuna í Þingeyjarsýslu til atvinnuuppbyggingar. Svo er því miður ekki.

Hins vegar er það rétt að mikil vinna er í gangi eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt. Tökum fyrst olíuleitina á Drekasvæðinu. Leitarútboð verður auglýst í ágúst og tilboð um leit opnuð í desember. Í öðru lagi hefur á þeim tíma sem liðinn er frá því að tilboð voru síðast opnuð mikil samvinna átt sér stað með Norðmönnum þar sem verið er að samræma ýmislegt sem við þurfum að vinna að. Þeir hafa fengið upplýsingar frá okkur og við frá þeim þannig að það er í góðum farvegi.

Í þriðja lagi eru tvær lagabreytingar fram undan. Önnur er komin frá hæstv. iðnaðarráðherra til stjórnarflokkanna og verður vonandi lögð fram í dag eða á morgun. Hin er gagnvart skattumhverfinu og er í vinnslu í fjármálaráðuneytinu og kemur líka vonandi innan skamms. Það má segja að allt sé á fljúgandi ferð hvað þetta varðar þrátt fyrir að við höfum ekki tekið þessa tillögu út úr iðnaðarnefnd. Við höfum rætt hana, við hana er víðtækur stuðningur og það getur vel verið að við setjum hana hér fram sem ályktun Alþingis. Tillagan er komin fram og hún hefur sannarlega ýtt við mönnum. Það er unnið á fullu á vegum hæstv. iðnaðarráðherra hvað þetta varðar.

Hvað varðar nýtingu á orkuauðlindum Þingeyjarsýslu þarf ég engu að bæta við það sem ég hef áður sagt. Það er komið umhverfismat á rúmum 500 megavöttum sem má beisla þarna. Þetta er vannýtt auðlind sem við þurfum að virkja og skapa peninga úr og ég hef sagt það, virðulegi forseti, og skal segja það einu sinni enn, það er allt undir í þeim efnum hvað varðar atvinnuuppbyggingu til að nýta þessa orku. (Forseti hringir.) Mér er alveg sama hvort það er álver, netþjónabú, gagnaver, tómataræktun (Forseti hringir.) eða eitthvað annað, það er allt undir. Aðalatriðið er að komast sem fyrst í þetta og sú vinna er í gangi á vegum (Forseti hringir.) Landsvirkjunar og ég bind vonir um að hún fari að bera árangur. (BJJ: Er ríkisstjórnarsamstarfið undir?)



[14:10]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að taka þátt í umræðunni um hagvöxt og atvinnusköpun. Rannsóknir sýna að ójöfnuður, sérstaklega í ráðstöfunartekjum, dregur úr hagvexti til lengri tíma. Á útrásartímabilinu jókst ójöfnuður og það var ekki fyrr en á milli áranna 2009 og 2010 sem ójöfnuður minnkaði hér aðeins, en við stöndum enn langt að baki nágrannaþjóðunum hvað varðar jöfnuð í ráðstöfunartekjum. (TÞH: Hvaða vitleysa er þetta?) Og ég get m.a. bent hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni á nýlega skýrslu sem Hagstofan gaf út um tekjudreifingu sem hann getur fundið á vef Hagstofunnar. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ástæða þess að það gengur mjög hægt að hleypa krafti í atvinnulífið hér á landi er of hraður niðurskurður á útgjöldum ríkisins og tregða kröfuhafa til að afskrifa skuldir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau fyrirtæki skapa flest störf í samfélaginu. Of hraður niðurskurður hefur dregið úr eftirspurn heimila og bankarnir eru núna að herða mjög svo endurheimtur á lánasöfnum sínum sem þeir sjálfir fengu með 40–55% afslætti.

Frú forseti. Ef ekkert verður gert til að tryggja að þessi afsláttur fari til lítilla og meðalstórra fyrirtækja munum við sjá atvinnuleysi hér á landi aukast enn frekar en nú er orðið.



[14:12]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Fyrst um atvinnumálin. Tækifærin eru mýmörg og ég hvet til þess að við horfum til vaxtarbrodda í hugverkaiðnaði, sem eru mjög miklir, og í ferðamennsku og að við notum hina hreinu orku sem við búum yfir til að byggja upp fjölbreytta flóru fyrirtækja, lítilla og meðalstórra. Við gætum þá horfið dálítið frá þeirri atvinnuuppbyggingarstefnu sem hefur verið iðkuð á undanförnum árum.

En ég ætlaði ekki að tala um þetta, ég kom hingað upp til að tala um heimasíðu Alþingis í samhengi við frekar lága tölu um traust til Alþingis og virðingu til Alþingis sem mælist 7% í könnunum. Þetta lýtur þá að spurningunni um það hvernig við á þessum vinnustað getum gengið á undan með góðu fordæmi og reynt að gera þennan vinnustað betri fyrir okkur og aðra. Athygli mín hefur verið vakin á því að heimasíða Alþingis virðist ekki vera vottuð fyrir hreyfihamlaða, sjónskerta eða heyrnarskerta eins og margar aðrar síður og það eru til sérstök vottunarfyrirtæki sem fara í gegnum heimasíður til að gera þær þannig úr garði að allir geti lesið þær.

Mér finnst einkar mikilvægt að við förum í saumana á þessu vegna þess að viðhorfið til Alþingis er, eins og ég segi, ekki endilega það besta og jafnvel þótt það væri betra þyrftum við samt að gera þetta. Ein ástæðan fyrir því að viðhorfið er kannski ekki alveg nógu gott er að við gerum ekki svona hluti, að heimasíðan er ekki vottuð fyrir sjónskerta, heyrnarskertra, hreyfihamlaða og fleiri. Ef við mundum gera þetta, kannski ekki stærsta málið á Íslandi en þó eitthvað sem við gætum gert til að gera heiminn kannski aðeins betri fyrir suma, ættum við síðan að halda áfram að gera Alþingi til fyrirmyndar. Þá vil ég nefna að lokum (Forseti hringir.) umhverfismálin. Við getum gert þennan vinnustað miklu umhverfisvænni.



[14:15]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fréttirnar frá Hagstofunni á dögunum af samdrætti í efnahagskerfinu á síðasta ári þar sem sérstaklega sló í bakseglin í árslok eru hreinasta hörmung og enn ein staðfesting á því sem blasir í rauninni við öllum sem vilja sjá, að ríkisstjórnin er ekki að ná nokkrum einasta árangri. Það munar flestu aftur á bak þrátt fyrir að mjög sé geipað um annað.

Hvað þýða þessar tölur um samdráttinn sem Hagstofan birti okkur á dögunum? Ég skal taka nokkur dæmi. Í fyrsta lagi: Atvinnuleysi 14 þúsund manna er ekki á undanhaldi. Í öðru lagi: Langtímaatvinnuleysi er orðinn hinn kaldi veruleiki. Þeim mun fjölga á næstunni sem munu búa við langtímaatvinnuleysi. Núna er meira en helmingur þeirra sem eru atvinnulausir búinn að vera atvinnulaus í meira en hálft ár. Þriðjungur þeirra sem eru atvinnulausir hefur verið atvinnulaus í meira en eitt ár, þ.e. nærri 5 þúsund manns, og tæplega 2 þúsund manns hafa verið atvinnulausir í meira en tvö ár. Þúsundir manna hafa verið að flýja land og þeir eru ekki á heimleið, því miður, það mun bara fjölga í þeim hópi.

Við þurfum að skapa 2–3 þúsund störf á ári bara til að taka á móti nýjum árgöngum sem koma út úr skólum og ætla að reyna að hasla sér völl í atvinnulífinu. Það verður ekki raunin. Þetta er ekki glæsileg framtíðarsýn fyrir ungt fólk. Lífskjörin hafa verið að versna í kjölfar hrunsins og miðað við þessar tölur erum við föst í þessu fari.

Ríkissjóður og sveitarfélögin verða áfram í vanda vegna þess að umsvifin eru ekki að aukast. Tekjur hins opinbera munu minnka og útgjöldin verða óumflýjanlega meiri vegna félagslegra aðgerða. Þá munu verða að áhrínsorðum hin fleygu orð hæstv. fjármálaráðherra „You ain´t seen nothing yet“. (Gripið fram í.)

Þetta er ókræsileg mynd en þetta er bara lýsing á því sem tölur Hagstofunnar um hagvöxtinn segja okkur. Ríkisstjórnin hefur engin ráð og dýpkar bara kreppuna með stefnu sinni og aðgerðaleysi. Þetta er ekki bölsýni heldur lýsing á ástandinu. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin þarf að láta af blekkingaleik sínum því að eitt er að reyna að blekkja sjálfan sig en það er óþverrabragð að reyna að blekkja þjóðina líka.



[14:17]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kominn tími til að almenningur allur, fyrirtækin og stjórnvöld fari að átta sig á hversu alvarleg staða er komin upp í efnahagsmálum þjóðarinnar og hversu slæmar framtíðarhorfurnar eru verði ekkert að gert og gripið til drastískra aðgerða.

Við urðum vitni að því hér í umræðum í gær að hæstv. forsætisráðherra er greinilega algjörlega úti á túni þegar kemur að stöðu hagkerfisins og efnahagslífsins. Hún notaði tækifærið til þess að skamma stjórnarandstöðuna fyrir að benda á hið augljósa, að hagvöxtur er í núlli, fjárfestingar í frosti og það vantar 150 milljarða í fjárfestingar sem taldar voru nauðsynlegar á árinu 2009.

Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar um að ekkert verkefni er eins brýnt í íslenskum stjórnmálum og að ná fram fjárfestingu, efla hagvöxt og koma atvinnulífinu í gang. Til að það sé hægt þarf að skipta um ríkisstjórn. Hv. þingmaður talar um að það þurfi að eyða óvissu. Það er alveg rétt að það þarf að gera það en þessi ríkisstjórn eykur óvissuna.

Hér situr hæstv. umhverfisráðherra sem berst með kjafti og klóm gegn atvinnuuppbyggingu í landinu, (Gripið fram í.) hæstv. sjávarútvegsráðherra sem reynir að kollvarpa stærstu og mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og hæstv. forsætisráðherra sem talar um að fara í upptöku á eignum fyrirtækja ef henni líka ekki þær fjárfestingar sem þau fara í.

Það er líka alveg rétt hjá hv. þingmanni að afnema þarf gjaldeyrishöftin og koma fram með einhverja stefnu um það, það átti að gera árið 2009 en hefur ekki verið gert.

Það verða allir að vera reiðubúnir til að ræða alla möguleika á því að efla hérna fjárfestingu (Forseti hringir.) en það verður ríkisstjórnin líka að vera. Við sjálfstæðismenn höfum verið reiðubúnir til að skoða alla möguleika en það hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki viljað gera og það veit hv. þm. Helgi Hjörvar alveg jafn vel og ég.



[14:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að á Íslandi eru fjölmörg tækifæri, tækifæri til að byggja upp atvinnu, tækifæri til að horfa til framtíðar, en því miður erum við ekki að nýta þau tækifæri.

Þannig er, frú forseti, að í ræðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan kom kannski fram kjarninn í því sem við erum að glíma við. Við glímum við atvinnuleysi og við glímum við það að fyrirtækjunum og heimilunum er ekki hjálpað til þess að geta farið að fjárfesta. Fyrirtækin þurfa að geta fjárfest og þurfa að geta fjölgað starfsfólki og það þarf að bregðast við þeim vanda sem enn er hjá langflestum heimilum á Íslandi sem hefur ekki verið hjálpað hingað til.

Þessu tengt, frú forseti, þá kom í hádeginu enn ein merkileg yfirlýsingin og snilldarfréttin frá seðlabankastjóra Íslands. Það er með ólíkindum hvað sá ágæti maður ætlar að leggjast á sveif með þeim sem vilja tala niður Ísland, það er hreinlega með ólíkindum, og ég bið þingheim að taka eftir orðum mínum. Ég er margbúinn að lýsa því yfir að ég hef hvatt forsætisráðherra til þess að víkja seðlabankastjóra eða leggja til að hann víki, því að ég tel hann vera að vinna gegn hagsmunum landsins. (Gripið fram í.)

Nú kemur háttvirtur seðlabankastjóri og segir að ef sagt verður nei við Icesave-samningnum muni gjaldeyrishöftin verða lengri og lengri og lengri. Hins vegar hafa hér þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og álitsgjafar úti í bæ sagt að verði Icesave samþykkt muni gjaldeyrishöftin lengjast, þá muni þau verða viðloðandi nema til komi breytt efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar. Hvorugt er að gerast.

Frú forseti. Við erum að sjá fram á það að gjaldeyrishöftin eru komin til að vera (Forseti hringir.) samkvæmt orðum seðlabankastjóra.



[14:22]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það kom fram í gær í umræðu um atvinnumál að hæstv. forsætisráðherra lýsti efnahagsástandinu í landinu og sagði að okkur miðaði vel áfram um leið og hún lagði fram tölur um hreina stöðnun í efnahagslífinu, þar sem hún lýsti í raun og veru efnahagskerfi sem er í frosti en sagði engu að síður að okkur miðaði vel áfram og þeir sem hefðu aðra skoðun væru einungis svartsýnir bölsýnismenn.

Mér þótti því betra að heyra hljóðið núna í hv. þm. Helga Hjörvar, formanni efnahags- og skattanefndar, en hann virðist öllu næmari fyrir ástandinu í þjóðfélaginu en hæstv. forsætisráðherra sem er frammámaður framkvæmdarvaldsins í landinu og hefur auðvitað með það að gera að leggja fram stefnu um að koma okkur út úr þessum vandræðum.

Það er því miður svo að hagvöxtur í landinu er enginn og það er að rætast sem svartsýnustu menn spáðu, að ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í því að skapa eðlilega umgjörð fyrir fyrirtækin í landinu, stór og smá. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að auðvitað skiptir öllu máli að hafa heilbrigða umgjörð fyrir atvinnulífið, heilbrigt skattumhverfi, en ríkisstjórnin er því miður að gera þveröfugt.

Svo kom einnig fram í máli hæstv. forsætisráðherra í gær í lok umræðunnar að hún telur að eina leiðin til að létta álögur á fyrirtækjum í formi tryggingagjalds sé þá, eða nefndi það sem dæmi, að leggja svokallaða ofurskatta á svokölluð ofurlaun. Þar liggur stefna ríkisstjórnarinnar eða frammámanns hennar í skattamálum.

Ég hvet þingmenn stjórnarmeirihlutans sem þó hafa einhverja næmni fyrir því hvernig efnahagslífið í landinu stendur að beita sér fyrir því að hér verði breyting á stefnu. Það er alveg ljóst að sú mesta ógn, efnahagsleg ógn sem nú steðjar að íslenskri þjóð er efnahagsstefna (Forseti hringir.) ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.



[14:24]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér hnykkti nokkuð við þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sá prúði drengur, talaði um óþverrabragð og hélt því fram að við lifðum hér í blekkingu og afneitun. Það vill svo til að við hv. þingmaður sátum saman í ríkisstjórn haustið 2008 og þekkjum nokkuð til blekkinga og afneitunar en látum það liggja á milli hluta í dag.

Ég er ekki viss um að sú umræða sem hér fer fram sé endilega til þess fallin að blása fólki anda í brjóst eða efla traust fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, (Gripið fram í.) á stöðunni i samfélaginu. Ég mundi mjög gjarnan vilja, frú forseti, ef ég mætti, fá þá þingmenn sem hingað hafa komið upp til að leggja sín góðu höfuð saman og … (TÞH: Syngja gleði, gleði alla tíð.) Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson má gera það ef hann vill, hann má gera það ef hann vill. Við vitum öll sem hér erum að íslenska krónan þýðir höft, hún þýðir gjaldeyrishöft, og að íslenska krónan er ekki gjaldmiðill sem mun nýtast okkur næstu ár og áratugi. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hvernig ætlum við sem ábyrgir stjórnmálamenn að koma hér upp og tala um nauðsyn uppbyggingar í atvinnulífinu og nauðsyn fjárfestingar, innlendrar og erlendrar, ef við ætlum ekki segja kjósendum okkar hvernig nákvæmlega við losum þessi höft og hvað nákvæmlega tekur við til langs tíma og hvernig við ætlum að byggja upp gjaldmiðil sem er nothæfur? Hvernig ætla þessir sömu hv. þingmenn og hingað koma upp til að geipa um stöðuna eða ekki að svara kjósendum (Forseti hringir.) sínum þessari spurningu?



[14:26]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Menn hafa verið að ræða hér atvinnumál og formaður Sjálfstæðisflokksins reið á vaðið sem fyrstur á mælendaskrá. Menn hafa hátt um atvinnumál og heimta erlenda fjárfestingu.

Ég vil leyfa mér að benda á að ég sat sem áheyrnarfulltrúi á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun þar sem var verið að ræða frumvarp Hreyfingarinnar um löndun afla á innlenda fiskmarkaði í stað þess að flytja hann út óunninn í gámum. Það var sjónarmið okkar á sínum tíma að þetta mundi skapa 400–600 störf innan lands. Samtök fiskútflytjenda héldu því fram í morgun að þetta mundi skapa a.m.k. 1.200 störf fyrir utan afleiddu störfin. Ef við förum milliveginn í þessu máli erum við að tala um kannski 800 störf. Þetta er meira en starfsfólk í einu heilu álveri. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Þetta frumvarp hefur legið i sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd síðan í október, í fimm mánuði. Það hefur enginn hreyft við því. Ég fékk það tekið á dagskrá eftir mikla eftirgangsmuni og mér heyrðist á formanni nefndarinnar og varaformanni að það væri kannski gert meira af greiðasemi við mig og Hreyfinguna en af áhuga á málinu. Þetta er áhuginn sem menn hafa á atvinnumálum. Þeir hafa miklu meiri áhuga á því að það heyrist hátt í þeim um erlenda fjárfestingu en að menn snúi sér að því sem kunna að gera á Íslandi og er mjög nærtækt. Hægt er að skapa þessi störf á innan við þremur mánuðum með mjög litlum tilkostnaði en það hefur enginn áhuga á því af því að það hljómar ekki nægilega vel. Er það kannski málið?

Hvers vegna snúa menn sér ekki að því að landa íslenskum fiski á íslenska uppboðsmarkaði og vinna fiskinn á Íslandi? Við erum fyllilega samkeppnisfær við öll nágrannalöndin í launum. Þetta væri hægt að gera á örfáum mánuðum. Ég skora á þá sem (Forseti hringir.) sitja hér og styðja þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkana að koma þessu máli í gegn hið fyrsta.



[14:28]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því alveg sérstaklega að við erum öll sem eitt, sem höfum tekið til máls undir þessum lið í dag, að ræða um það sem skiptir mestu máli í samfélagi okkar í dag og það eru atvinnumálin.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um að ójöfnuður í samfélaginu ykist með of miklu launabili. Ég vil segja það við hv. þingmann að ójöfnuður eykst með atvinnuleysi og verkefni okkar á að vera að útrýma því.

Ég get líka tekið undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að við eigum ekki að einblína á einhverja eina atvinnutegund. Okkur sjálfstæðismönnum er alltaf legið á hálsi fyrir að kunna ekki neitt nema tala um álver og stóriðju. Ég mótmæli því hér eftir sem hingað til vegna þess að hvað höfum við, og nú er nærtækt fyrir mig að taka dæmi um það svæði sem ég kem frá, Suðurnesin, hvað höfum við Suðurnesjamenn einmitt verið að gera? Við höfum verið að tala um endalaus verkefni í öllum mögulegum geirum. Við höfum talað um gagnaver, við höfum talað um heilsutengda ferðaþjónustu, við höfum talað um flugstarfsemi. Allt þetta hefur mætt andstöðu frá þessari ríkisstjórn sem gerir ekkert annað en að tefja fyrir og þvælast fyrir þrátt fyrir að einstaka og stundum hjáróma rödd einhvers sem ber í borðið segi að þetta gangi ekki lengur svona.

Nú hefur hv. þm. Helgi Hjörvar bæst í þennan hóp og ég vil taka undir áskoranir þeirra sem hér hafa talað til þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn en styðja það að við breytum hér um stefnu í atvinnumálum, að gera nú eitthvað í því annað en bara að tala. Það var móðgun við hv. þingheim í gær að heyra hæstv. forsætisráðherra tala um atvinnusköpun, 2.200 störf. Þetta er svo endurnýtt að Sorpa ætti að fara að fá þetta til sín. Við höfum heyrt þessar tölur hér (Forseti hringir.) endalaust, fyrst rétt eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, þá var talað um að skapa ætti 6.000 störf. (Forseti hringir.) Þau hafa ekki enn verið sköpuð. Það hefur ekkert gerst nema kannski göngustígaverkefnið Græni trefillinn, sem góðra gjalda vert, (Forseti hringir.) en hugsum aðeins stærra.



[14:31]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góð orð en svartsýni og heimsendaspár eiga ekki eftir að koma okkur neitt áfram í þessum verkefnum. (ÞKG: … koma okkur áfram.) Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði áðan að það væri kominn tími til að fólk áttaði sig á efnahagsástandinu og skelfilegri stöðu þess. (Gripið fram í.) Auðvitað er langt síðan íslenska þjóðin áttaði sig á því, það var í október 2008. (JónG: Ekki ríkisstjórnin.) Og frá því í október 2008 hefur hún sem betur fer tekið framförum jafnt og þétt. Það er rétt og það er raunsætt að vöxtur er ekki hafinn en samdrátturinn hefur verið stöðvaður og hann fór minnkandi frá ári til árs. Allir spáaðilar spá nú vexti í efnahagsstarfseminni á þessu ári, frá 0,7% upp í svona 2%, og auðvitað vildum við að atvinnuuppbyggingin og verðmætasköpunin væru hraðari og öflugri. En tækifæri okkar eru mýmörg, ferðaþjónustan getur sótt fram þegar á þessu ári. Við eigum sannarlega tækifæri þar. Þekkingariðnaðurinn hefur verið að eflast, meira að segja í gegnum þessar þrengingar. Sjávarútvegurinn hefur skilað gríðarlega góðri afkomu og verð á áli á heimsmarkaði hefur skilað stóriðjunni býsna miklum árangri.

Það eru þess vegna allar forsendur til þess, ekki bara að stöðva samdráttinn eins og ríkisstjórninni hefur þegar tekist, heldur að hefja vöxt og sókn til bættra lífskjara og vinna á atvinnuleysinu. Við Íslendingar höfum sem betur fer sýnt sögulega fram á að við erum fær um að rífa okkur út úr kreppum á ótrúlega stuttum tíma. En við höfum ekki gert það með því að karpa hér í stólnum hvert við annað, heldur með því að þessi 0,3 milljóna manna þjóð tekur höndum saman sem einn maður, atvinnulíf, launafólk og stjórnmálalíf, og vinnur saman að því verkefni að (Forseti hringir.) minnka atvinnuleysi til muna og gera lífskjörin í landinu viðunandi á ný.