139. löggjafarþing — 94. fundur
 16. mars 2011.
norræna hollustumerkið Skráargatið, fyrri umræða.
þáltill. SF o.fl., 508. mál. — Þskj. 831.

[18:33]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um norræna hollustumerkið Skráargatið. Sú er hér stendur er fyrsti flutningsmaður en aðrir flutningsmenn eru hv. þm. Þuríður Backman, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Mörður Árnason, þannig að það eru þingmenn úr öllum flokkum á málinu.

Málið felst í því að Alþingi álykti að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir því að unnt verði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur sem framleiddar eru hérlendis. Eins og heiti tillögunnar gefur til kynna er hér um neytendamál eða lýðheilsumál að ræða og gengur út á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komi því þannig fyrir að við getum tekið upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur á Íslandi sem framleiddar eru hér en það hafa flestöll önnur norræn ríki þegar gert. Svíar tóku upp þetta hollustumerki, Skráargatið, árið 1989 og Danir og Norðmenn ákváðu að gera það líka fyrir nokkrum árum þannig að það er komin talsverð reynsla á merkið.

Til að fá Skráargatið þarf matvara að uppfylla ákveðnar kröfur um magns salts, sykurs, fitu, mettaðrar fitu og trefja. Það er einungis hollasta varan í hverjum vöruflokki sem fær merkið, þ.e. sú vara sem er betri en viðmiðin gefa til kynna í viðkomandi vöruflokki.

Sælgæti, gos eða aðrar matvörur sem eru óhollar geta ekki fengið Skráargatið. Merkið er ætlað til þess að gefa neytendum færi á að velja hollan mat hratt og örugglega og án mikillar fyrirhafnar þannig að þeir sem kaupa í matinn geta fundið fljótt þær vörur sem merktar eru Skráargatinu. Ef þeir vilja velja hollar vörur með litlu salti, litlum sykri o.s.frv. er það auðveldara af því að þeir þekkja þá merkið.

Danir byrjuðu að nota merkið fyrir nokkrum árum og nú þekkja um 80% neytenda í Danmörku það þannig að það er mjög auðvelt að auglýsa merkið ef menn taka það upp. Við Íslendingar höfum hins vegar ekki tekið merkið upp, ekki Finnar heldur en þeir eru með annað merki sem heitir Hjartamerkið og velta því nú fyrir sér að samræma það við Skráargatið.

Neytendasamtökin hafa frá árinu 2008 ítrekað skorað á stjórnvöld að taka upp Skráargatsmerkinguna. Lýðheilsustöð, manneldisráð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa líka hvatt til þess að Íslendingar taki merkið upp. Í skýrslu forsætisráðherra um matvæli frá 2005 er jafnframt mælt með upptöku slíks merkis og er þar bent á mjög jákvæða reynslu Svía af Skráargatinu. Norðurlandabúar eru eins og allir vita að verða feitir og pattaralegir, því miður. Þetta hefur ekkert með það að gera að hér gengur í salinn hæstv. utanríkisráðherra (Utanrrh.: … og hann er orðinn.) sem er bara grannur og spengilegur. En því miður eru Íslendingar í fjórða sæti yfir feitustu þjóðir Evrópu og það er alvarlegt mál. Þess vegna tel ég að það séu margs konar rök fyrir því að taka upp Skráargatið. Við erum nýbúin að gefa út reglugerð um transfitusýrur. Það er mál af sama meiði sem sú er hér stendur flutti á sínum tíma og hefur flutt fjórum sinnum í þinginu. Það er líka neytenda- og lýðheilsumál og útilokar mikið magn transfitusýra í matvælum, sem eru stórhættulegar sýrur. Skráargatið er af svipuðum toga, þ.e. það gefur neytendum kost á að velja hollari vöru en þeir geta í dag, það gefur neytendum kost á upplýstu vali.

Neytendasamtökin sendu nýlega fjórðu áskorun sína til yfirvalda. Þau telja mjög brýnt að íslenskir framleiðendur noti Skráargatið á vörur sínar og að farið verði í herferð við að kynna það þegar búið verður að taka það upp. Upptaka merkisins hér á landi ætti að vera mjög einföld og er líklegast að Matvælastofnun mundi leyfa notkun merkisins. Merkið yrði valkvætt þannig að framleiðendur gætu sótt um að fá merkið á matvöru ef hún uppfyllir þau skilyrði sem sett eru. Það yrði þeim að kostnaðarlausu.

Ég veit að nú þegar er talsverður áhugi á þessu máli á markaðnum. Ég nefni t.d. að fyrirtækið Myllan hefur sýnt því áhuga og mun líklega taka upp Skráargatið á einhver af brauðum sínum ef við samþykkjum málið. Ég hef líka séð í viðtölum við fulltrúa frá Mjólkursamsölunni að verði Skráargatið tekið upp muni þeir líklega breyta vöruúrvali sínu að einhverju leyti en mér skilst að í dag standist þrjár vörur frá MS skilyrði um Skráargatið. Það eru undanrenna, fjörmjólk og hreint skyr. Það er því miður talsvert mikið af sykri í mjólkurvörum á Íslandi og ég tel að MS mundi bregðast við hratt og örugglega ef við tækjum upp Skráargatið þannig að fleiri vöruflokkar hjá þeim fengju skráargatsmerkinguna.

Ég ætla ekki að tala lengi enn. Ég tel að málið skýri sig sjálft. Það er að mínu mati mjög jákvætt lýðheilsu- og neytendamál, hjálpar neytendum við að kaupa hollan mat hratt og örugglega. Merkingin hefur reynst vel á Norðurlöndunum og ég vil draga það sérstaklega fram að þetta er fyrsta matvæla- eða hollustumerkið sem stjórnvöld fleiri en eins ríkis standa að. Það finnst mér vera saga til næsta bæjar. Ég skora á þingið að taka málið til frekar hraðrar afgreiðslu. Það væri mjög gott að geta afgreitt það fyrir vorið þannig að við gætum farið að sjá hollar vörur merktar Skráargatinu síðla sumars eða snemma í haust.



[18:40]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja það fyrir hönd okkar sem sitjum hér og hlustum á hinn ágæta málflutning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að við höfum sennilega ekkert á móti því að fólk sé töluvert þykkt og pattaralegt því að því fylgir oft skemmtileg lífsgleði, eins og ég og hv. þm. Jón Gunnarsson, sem fyrr á tíð féllum undir þessa skilgreiningu, vitum mætavel.

Ég kem einungis hingað til að taka undir með hv. þingmanni. Mér finnst þetta frábær hugmynd. Ég held að það yrði mjög til að aðstoða neytendur við að velja sér holl matvæli. Sömuleiðis er það líka partur af því að halda áfram að vera í forustu eins og Norðurlöndin hafa gert. Ef Íslendingar tækju merkið upp, eins og Finnar eru komnir langleiðina með, yrði þetta eins konar samnorrænt heilsuátak, samnorrænt vörumerki fyrir heilsusamleg matvæli. Ég tel að það sé mjög gott og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur áður sýnt að hún er mikill leiðtogi fyrir heilsusamlegar þingsályktanir frá hinu háa Alþingi. Hv. þingmaður tók vel á þegar hún kom í gegnum þingið vörnum gegn transfitusýrum og lyfti því í reynd inn í íslenska umræðu. Það var mér algerlega framandi þangað til hv. þingmaður tók það mál upp. Í kjölfar þess, eftir að hafa kynnt mér það mál, komst ég að raun um að hún hafði algerlega lög að mæla í því efni. Ég er sannfærður um það eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns að þetta er mjög jákvætt mál og ég styð það.



[18:42]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi jákvæðu viðbrögð. Varðandi transfitusýrurnar tóku Danir upp bann við miklum transfitusýrum í mat fyrir nokkrum árum. Ísland er önnur þjóðin í heiminum sem tekur það upp og nú berast þær fréttir að búið er að flytja málið í Svíþjóð líka, í sænska þinginu, þannig að vonandi taka sem flest ríki upp transfitusýrubann eins og við og Danir höfum gert.

Varðandi Skráargatið er það að ýmsu leyti líkt umhverfismerkinu Svaninum. Það er líka samnorrænt umhverfismerki sem vörur geta ekki fengið nema að uppfylla ákveðin skilyrði. Það er alveg eins hugsað, maður þarf þar að uppfylla ákveðin skilyrði. Hér þarf að uppfylla skilyrði um magn sykurs og salts og fleira sem ekki má fara yfir ákveðna prósentu.

Það er ljóst að því miður er offita að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá OECD þjáist fimmtungur landsmanna af alvarlegustu tegund ofþyngdar og eins og ég sagði áðan erum við fjórða feitasta þjóð í Evrópu. Öll Norðurlöndin standa frammi fyrir áskorunum varðandi lífsstíl og mataræði. Það er nokkuð flókið að eiga við það þannig að það er gríðarlega brýnt að gera neytendum kleift að kaupa í matinn svo þeir geti verið fljótir að kaupa í matinn og keypt um leið hollan mat í staðinn fyrir að vera að rýna alltaf í innihaldslýsingarnar.

Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, þetta er neytendamál. Ég hef reynt að beita mér í þeim málum og hef mjög mikinn áhuga á slíku. Ég vil nefna eitt í viðbót, bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum sem er líka gríðarlega mikilvægt í þessu máli. Sú er hér stendur mun flytja fleiri mál af þessum toga. En ég tel að það sé þverpólitísk samstaða um að ljúka málinu og kalla eftir samstöðu m.a. úr þingflokki Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) það er samfylkingarmaður á málinu, hv. þm. Mörður Árnason. Það er mjög brýnt að allir sem vettlingi geta valdið ýti á eftir því að málið verði samþykkt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til sjútv.- og landbn.