139. löggjafarþing — 97. fundur
 22. mars 2011.
umræður utan dagskrár.

framtíð sparisjóðanna.

[14:45]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sparisjóðakerfið fór illa laskað út úr fjármála- og bankakerfinu, kreppunni sem reið hér yfir haustið 2008. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að fjölyrða um. Það er hluti fortíðarinnar sem nú hefur verið ákveðið að rannsaka frekar. Í þessari umræðu skulum við hins vegar hyggja að framtíðinni, hvernig við viljum að sparisjóðakerfi framtíðarinnar líti út. Það er hið mikla verkefni okkar.

Margoft hefur komið fram á Alþingi ríkur vilji til þess að hér verði við lýði um ókomin ár öflugt net sparisjóða sem gegni því mikilvæga hlutverki sem þeir hafa sinnt í gegnum tíðina, oftast með ágætum. Þetta kom strax fram við setningu neyðarlaganna 2008 og samþykkt Alþingis um að leggja til hliðar umtalsvert fé til að stuðla að endurreisn sparisjóðanna. Því miður tafðist sú vinna öll og enginn vafi er á því að sú töf olli miklu tjóni í sparisjóðunum sem við súpum núna seyðið af.

Nú blasir hins vegar við okkur tiltekinn veruleiki sem er þessi: Hér er til staðar sparisjóðakerfi sem er brot þess kerfis sem var áður. Uppbygging sparisjóðanna miðast við aðra starfsemi en nú er. Það er því augljóst að við þurfum að marka stefnu um það hvernig best verður að málum staðið. Það fyrsta sem þarf að liggja fyrir er hvort við viljum að hér verði áfram sparisjóðir sem geta sinnt því hlutverki sem þeir voru stofnaðir til, að verða bakhjarlar í byggðunum úti um landið, eftir atvikum líka á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er spurningin sem við þurfum að svara á hinum pólitíska vettvangi. Við hljótum að hafa á því skoðun hvernig við viljum að megindrættir fjármálakerfisins líti út þótt það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að vera með puttana ofan í beinum rekstrarlegum ákvörðunum. Við eigum ekki að láta þessa stefnumótun embættismönnunum einum eftir, með fullri virðingu fyrir þeim. Úr hinni ósnertanlegu Bankasýslu hafa t.d. komið yfirlýsingar um framtíðarfyrirkomulag sparisjóðakerfisins sem hafa ekki allar verið mjög skynsamlegar eða heppilegar. Það er mun heppilegra að stefnumótun sparisjóðanna fari fram á þeirra eigin vettvangi.

Enginn vafi er á því að hin bitra reynsla bankahrunsins kennir okkur að það er tvímælalaust kostur að hér sé við lýði fjölbreytt bankakerfi og fjármálastarfsemi. Þar skipta sparisjóðirnir miklu máli. Reynslan kennir okkur líka að stóru bankarnir hafa haft takmarkaðan áhuga á fjármálaþjónustu og bankaþjónustu úti um landið, sennilega vegna þess að staðarþekkingin sem er til staðar í sparisjóðunum á landsbyggðinni hefur ekki verið fyrir hendi í bönkunum. Þannig hafa sparisjóðirnir oftlega komið til skjalanna þegar bankarnir hafa ekki haft áhuga á viðskiptum á landsbyggðinni.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri orðaði þetta vel á aðalfundi Sambands sparisjóða 25. nóvember sl., þegar hann sagði um sparisjóðina, með leyfi virðulegs forseta:

„Þeir auka við fjölbreytnina auk þess sem þeir hafa visst forskot í að meta staðbundin tækifæri og áhættu og njóta trausts og velvilja í heimabyggð. En þá er mikilvægt að sparisjóðirnir takmarki starfsemi sína við þá þætti þar sem þeir eru samkeppnisfærir og fari ekki út í áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi.“

Seðlabankastjóri vakti líka athygli á því að þegar öll fjármálafyrirtæki eru eins verði eðli áhættunnar líka það sama hjá þeim öllum og tiltekin áföll því líklegri en ella til að fella kerfið í heild. Þetta, sagði seðlabankastjóri, var eitt meginvandamálið við bankakerfið hér á landi fyrir hrun og undir þessi orð hans má taka afdráttarlaust.

Það breytir því ekki að sparisjóðirnir standa núna frammi fyrir nýjum veruleika. Þeir þurfa að laga starfsemi sína að honum. Það er t.d. ljóst að sparisjóðirnir njóta ekki lengur sparisjóðabanka sem bakhjarls. Þangað sóttu þeir erlenda lánsfjármögnun og bankinn tók oftlega þátt í því með hinum staðbundnu sjóðum að annast fjármögnun stærri verkefna, svo sem á sjávarútvegssviðinu sem kröfðust meira fjármagns. Sparisjóðirnir ráku líka margháttaða aðra sameiginlega starfsemi sem nú er bara svipur hjá sjón. Nú þarf að finna nýjar lausnir til að sparisjóðirnir geti sinnt atvinnustarfsemi í byggðunum þótt það verði í eitthvað breyttum mæli, ella blasir við fullkomið tómarúm sem við getum ekki treyst á að hinir hefðbundnu viðskiptabankar fylli upp í.

Það má vel hugsa sér að sjóðirnir verði í vaxandi mæli svæðisbundnari en þeir hafa verið, starfssvæði þeirra verði stærri en tíðkaðist forðum. Það er hins vegar ástæða til að vara við hugmyndum um að sameina sparisjóðina í einn sjóð. Þar með mundu þeir tapa sérstöðu sinni sem seðlabankastjóri rakti og ég gerði að umtalsefni. Þess utan geta stjórnvöld alls ekki mælt fyrir um neitt slíkt. Gleymum því ekki að þrír sparisjóðir með sterkan efnahag eru starfandi og hafa ekki notið neinnar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera. Það væri því útilokað að stjórnvöld eða stofnanir á þeirra vegum gætu ráðskast með hag þessara sjóða þótt ríkið hafi sem stendur yfirburðastöðu í mörgum öðrum sparisjóðum.

Nú er líka eðlilegt að farið verði að huga að því að móta stefnu sem felur í sér að ríkið losi um eignarhald sitt í sjóðunum sem allra fyrst. Það getur auðvitað ekki gengið til lengdar að ríkið sé ráðandi stofnfjáreigandi í stórum hluta sparisjóðakerfisins. Það er í sjálfu sér í mótsögn við þá hugmynd sem sparisjóðirnir eru stofnaðir í kringum.



[14:50]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að hefja þessa umræðu um stöðu sparisjóðakerfisins. Það er vissulega rétt að sú nálægð sem sparisjóðirnir hafa haft við nærumhverfi sitt hefur skapað þeim ákveðin tækifæri. Það er líka mikilvægt að horfast í augu við það á hvaða rekstrargrundvelli og starfsgrundvelli þeir hafa að öðru leyti starfað.

Umræða um sparisjóðina fær oft á sig ákveðinn helgiblæ. Menn tala um sparisjóðakerfið eins og það sé allt annað kerfi en bankakerfið að öðru leyti. Það er mikilvægt til að horfa rétt á hlutina og grunnforsendurnar að minnast þess að á 9. áratugnum fengu sparisjóðirnir nánast sömu starfsheimildir og viðskiptabankarnir. Þeir hafa því í grundvallaratriðum starfað sem fjármálafyrirtæki sambærileg við viðskiptabanka í aldarfjórðung.

Mikilvægasta hlutverk sparisjóðanna hefur verið þjónusta við almenning og smærri fyrirtæki í dreifðum byggðum, ýmist einir eða í samkeppni við stærri fjármálafyrirtæki. Þar hafa þeir vissulega haft samkeppnisforskot, og stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag er: Dugar það samkeppnisforskot til að tryggja starfsemi þeirra og starfsgrundvöll til lengri tíma litið? Sporin hræða í því efni. Kjarnastarfsemi flestra sparisjóðanna var rekin með tapi um margra ára skeið fyrir bankahrun. Rekstrinum var haldið uppi með þóknanatekjum og stöðutöku á fjármálamarkaði. Þannig var starfsemi flestra sparisjóðanna í raun meira í líkingu við starfsemi vogunarsjóða en innlánsstofnana. Kostnaðarhlutfall sparisjóðanna var mun hærra en sambærilegar stærðir hjá viðskiptabönkunum fyrir hrun. Sem dæmi má nefna að í ákveðnu tilviki dugði afkoma kjarnastarfsemi ekki fyrir stjórnarlaunum. Í mörgum tilvikum var kostnaðarhlutfallið yfir 100%.

Allar þessar staðreyndir þarf að hafa í huga þegar við horfum til framtíðarrekstrargrundvallar fyrir sparisjóði í dag. Það er mikilvægt að tryggja nauðsynlegt aðgengi að heilbrigðri fjármálaþjónustu fyrir heimili og fyrirtæki, jafnt í þéttbýli sem í dreifðum byggðum landsins, en það er í sjálfu sér ekkert sérstakt sparisjóðaverkefni heldur spurning um þjónustustig í landinu og hvaða viðhorf við höfum til uppbyggingar fjármálakerfisins eftir hrun. Við viljum almennt að fjármálakerfið eftir hrun sé byggt upp með þeim hætti að það sé í samræmi við þarfir atvinnulífs og almennings en ekki byggt upp þannig að það þjóni sjálfu sér fyrst og fremst.

Í endurmati á umgjörð fjármálakerfisins horfum við núna til þess hvernig við getum hvatað þessa þróun þannig að við stöndum eftir með fjármálakerfi sem verði í samræmi að stærð, umfangi og gerð við þarfir atvinnulífsins og heimilanna. Það er ólíklegt að endurreisn margra sparisjóða sé hagkvæmasta leiðin að þessu markmiði. Við verðum að horfa til þeirra efnislegu staðreynda sem ég nefndi áðan um veikari rekstrarforsendur margra sparisjóða fyrir hrun og við verðum líka að horfast í augu við það að breytingar núna í kjölfar hruns hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir rekstur fjármálafyrirtækja og erfitt rekstrarumhverfi fyrir smá fjármálafyrirtæki. Á þetta þurfum við allt að horfa með opin augu.

Bankasýslan vinnur nú að úttekt á rekstrarforsendum sparisjóðakerfisins. Sú athugun sem búist er við að verði kynnt í aprílmánuði mun leiða í ljós hverjar slíkar forsendur eru. Fyrir mér er það grundvallaratriði að ríkið þurfi ekki að leggja sparisjóðunum til meira fé og að ríkið geti losað um eignarhluti sína í sparisjóðunum þegar fram í sækir. Það er mikilvægt að við höfum fjármálakerfi sem er hagkvæmt og hæfilega stórt og eigi sér heilbrigðar rekstrarforsendur til lengri tíma litið. Sérstaðan sem sparisjóðirnir byggja á er engin sérstaða ef hún dugar ekki til að tryggja sparisjóðunum traustan og sjálfbæran rekstrargrundvöll til lengri tíma litið. Þá er verr af stað farið en heima setið.



[14:55]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á stundum mætti halda að eitt helsta vandamál íslensks fjármálakerfis sé og hafi lengi verið of margir litlir og illa reknir sparisjóðir. Það getur því bara dregið úr kerfisáhættu að renna eins og einu sparisjóðakerfi inn í stóru bankana þrjá. Þetta þýðir að mínu mati þann skort á stefnumörkun, greiningu og sýn á uppbyggingu fjármálakerfisins sem hefur einkennt starf stjórnvalda við endurreisn bankanna. Það sýnir einnig mikla skammsýni og skilningsleysi á mikilvægi sparisjóðanna og annarra fjármálastofnana sem byggja á hugmyndafræði, samvinnu og sjálfbærni.

Sparisjóðir eru náskyldir samvinnufélögum, gagnkvæmum tryggingafélögum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Hugsjónir samvinnunnar eru að fólk nái meira árangri með því að vinna saman en hvert í sínu horni, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, að vinnubrögð séu lýðræðisleg og að hvatt sé til reksturs félaga sem hafi hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi fremur en bara að hámarka hagnað. Hins vegar villtust samvinnumenn einhvers staðar af leið og töpuðu sér í græðgi hins íslenska samfélags. Víða var unnið markvisst að því að eyða sparisjóðum og samvinnufélögum. Fé án hirðis varð að skammaryrði þegar eignir og sjóður sem stóðu að baki rekstrinum skiluðu ekki beinum hagnaði í vasa eigendanna.

Við þurfum að snúa af þessari braut. Við þurfum að byggja upp mátulega stórt bankakerfi þar sem við getum leyft fjármálafyrirtækjum okkar að fara í gjaldþrot ef sú staða kemur upp. Hluti af því er öflugt sparisjóðakerfi. Við þurfum samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði í stað fákeppni. Hluti af því er svo sannarlega öflugt sparisjóðakerfi. Við þurfum fjölbreytt eignarhald og rekstrarform sem skiptist á milli ríkisins, einkaaðila og samfélagslegs eignarhalds. Hluti af því er öflugt sparisjóðakerfi. Við þurfum fjármálafyrirtæki sem þjóna bæði dreif- og þéttbýli, landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Þar tel ég að nýir, endurreistir og sjálfbærir sparisjóðir og lánasamvinnufélög geti leikið lykilhlutverk.



[14:57]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Endalok SpKef höfðu mikil áhrif á allt sparisjóðakerfið sem minnkaði um helming þegar sparisjóðurinn sameinaðist Landsbankanum. Að mati Bankasýslunnar sem fer með eignarhald ríkisins í sparisjóðunum eru minnstu sparisjóðirnir af þeim 10 sem eftir eru margir hverjir of litlir og því stefnir greinilega í sameiningu á þeim vettvangi, jafnvel í tvo og sumir hafa sagt einn. Það er hins vegar Seðlabankinn sem hefur haft með höndum fjárhagslega endurskipulagningu þeirra sparisjóða sem voru að hluta endurfjármagnaðir með kröfum sem breytt var í stofnfé og við sjáum nú vonandi fyrir endann á þeirri endurskipulagningu.

Í neyðarlögunum var því lofað að innstæður í sparisjóðum væru tryggðar ekki síður en í öðrum fjármálastofnunum og einnig að sparisjóðunum yrði komið til aðstoðar ekki síður en bönkunum. Við það eru menn að standa. Í neyðarlögunum voru ætlaðir 20 milljarðar kr. til þessa verkefnis en þeir fimm sparisjóðir sem þegar hafa fengið aðstoð samkvæmt þeim lögum hafa aðeins þurft lítinn hluta af þeirri fjárhæð. Hitt er svo annað mál að ef ríkið hefði átt að yfirtaka allar skuldbindingar sjóðanna sem og að lagfæra eiginfjárhlutfall þeirra sem nú er gerð miklu ríkari krafa til hefði reikningurinn verið nær 50 eða jafnvel 60 milljörðum kr. Aðeins SpKef hefði þurft 20–30 milljarða kr. sem kunnugt er þannig að einnig hér, ekki bara í bankakerfinu, kemur ríkið betur út úr þessari erfiðu endurskipulagningu á fjármálakerfinu en á horfðist.

Það er ríkur vilji til þess á Alþingi og hjá stjórnvöldum að viðhalda sparisjóðakerfinu í landinu og þar með fjölbreytni í fjármálaþjónustunni. Sparisjóðirnir hafa í áranna rás gegnt mikilvægu hlutverki í byggðum landsins en ef það á að takast að byggja upp á ný þurfa menn að horfa til þess að byggja upp sparisjóði til að þjóna fólki en ekki fjármagni, sparisjóði sem eru stoð og stytta byggðarlaga og menningarlífs en ekki fjármagnseigenda.



[14:59]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Í síðustu viku kom ráðherra á fund viðskiptanefndar um endurreisn bankakerfisins og þar kom fram, að því er mér fannst, stefnuleysi um endurreisn bankakerfisins. Mér fannst eins og að núna, tveimur og hálfu ári eftir hrun, væri endurreisn bankakerfisins eiginlega á einhverju hugmyndastigi og menn ekki búnir að ákveða hvernig þeir ætluðu að hafa þetta.

Hvers vegna ættum við að vilja hafa sparisjóði? Sparisjóðirnir hafa oft verið nefndir hornsteinn í héraði. Þeir eru valkostur í viðskiptum, þeir þjóna frekar hinum dreifðari byggðum landsins og þeir eru innlánsstofnanir en ekki fjárfestingarbankar. Þannig var það. Þá er spurningin hvort það sparisjóðakerfi sem við búum þó enn við hafi þessi atriði að leiðarljósi. Það er spurning sem mér finnst að við verðum að svara áður en lengra er haldið. Er það stefna þeirra að hafa þessa sérstöðu áfram og vilja þeir starfa þannig? Mér finnst að fæstir þeirra hafi viljað það fyrir hrun og kannski var það þess vegna sem fór sem fór.

Þegar við erum að tala um endurreisn fjármálafyrirtækja finnst mér ekki hægt annað en að minna á þann fjáraustur sem hefur farið fram úr sjóðum ríkisins í fjármálafyrirtæki sem hafa þurft aukið fé. Þetta hefur verið gert í krafti neyðarlaganna. Ég vil minna á að í þeim var endurskoðunarákvæði, þau átti að endurskoða en það hefur ekki verið gert og fresturinn til þess er löngu liðinn.



[15:01]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sparisjóðirnir hafa löngum verið besti spegillinn í fjármálum hversdagslífsins í landinu. Stóru bankarnir hafa löngum litið á landsbyggðina sem afgangsstærð. Þetta eru staðreyndir. Hin auknu umsvif stóru bankanna á síðustu tíu árum, frá 2000, hafa verið gríðarleg á sama tíma og fjöldi og umsvif sparisjóðanna hafa verið nánast óbreytt. Arion banki einn hefur fjölgað starfsmönnum úr 600–700 í 1.300, var á miklu blússi síðasta árið og samt eru bankarnir of stórir. Stjórnvöld hugsa ekki neitt um að keyra þetta niður, hafa aðhald og aga í þessu efni.

Sparisjóðirnir eiga að styrkja nærumhverfið á landinu öllu. Þannig hafa þeir verið reknir. Sparisjóðurinn í Keflavík tapaðist, það var stórslys og ríkisstjórnin átti að hafa miklu meiri metnað í afgreiðslu þess máls en að gefa þann banka til höfuðborgarsvæðisins.

Fram undan er harðvítug sjálfstæðisbarátta, að því er virðist, og kannski er hún af því góða. Við vorum orðnir útlendingar, það var það eina sem var fínt, sperrtumst um allan heim á flugvélum og færiböndum með glitblöðrur út og suður og klappstýran var sjálfur forseti Íslands. Hefjum aftur gömlu gildin, virðum grunntón sparisjóðanna og fylgjum því eftir og byggjum það upp þannig að menn láti sér ekki detta í hug að Íslendingar geti bjargað heiminum. Við þurfum ekki útlendu sósurnar, Evrópusambandið og fylgifiskana sem hafa glefsað í Ísland öldum saman til að kokgleypa landið. (Gripið fram í.) Við þurfum íslenskan tón og íslenskan takt, (Forseti hringir.) það skiptir mestu máli og þar eru sparisjóðirnir verðugir til að byggja upp og stuðla mest (Forseti hringir.) að sjálfstæði lítilla sparisjóða en þó metnaðarfullra.



[15:04]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það væri kannski ágætt að gera þá kröfu til hv. þingmanna að þeir gleymdu ekki hvaða ríkisstjórn þeir hafa stutt í gegnum tíðina þegar þeir labba upp í ræðustólinn.

Hvað um það, sparisjóðir gegndu mikilvægu hlutverki þegar þeir voru erindi sínu trúir og ræktu skyldur sínar við heimabyggð. Á liðnum áratug urðu þeir, eins og hæstv. ráðherra tók fram, með lagabreytingu sem átti sér stað á 9. áratug síðustu aldar, eins og fleiri fjármálastofnanir, því miður, græðginni að bráð með ömurlegum afleiðingum fyrir viðskiptavini og stofnfjáreigendur. Það er því tómt mál að tala um að endurreisa það sem var, endurreisa þessar föllnu bankastofnanir eins og ekkert hafi í skorist. Verkefnið er að takmarka skaðann af falli þeirra eins og annarra fjármálastofnana og koma því þannig fyrir að kostnaður almennings af því verði sem minnstur.

Það er svo annað mál, frú forseti, hvort stofna þurfi fjármálastofnanir af þessari tegund sem gegni þessu hlutverki og sinni því með sóma. Þá held ég að það verði að vera nýjar fjármálastofnanir sem byggi þá í raun og veru á þeirri hugsjón sem sparisjóðakerfið átti að byggja á. Í því get ég tekið undir með flestum þeim sem talað hafa í þessari umræðu. Þar hlýtur fjölbreytnin að vera lykilatriði, það er alveg rétt, það verður að vera fjölbreytt og það verður líka að vera hagkvæmt og arðbært. Við hljótum öll að gera þær kröfur.

En það veit ég, frú forseti, að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, í hverjum ég fékk mína fyrstu bankabók árið 1966, á fyrsta ári, var ekki sama stofnunin og fór á höfuðið og ég var viðskiptavinur hjá árið 2009 og endaði í svokölluðum Arion banka. Það höfðu orðið grundvallarbreytingar á þeim litla sparisjóði.



[15:06]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði og að hluta til orð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um ástæðuna fyrir því að svona sé komið fyrir sparisjóðunum. Við verðum að horfast í augu við það að hlutirnir eru ekki bara svona af því bara, heldur vegna þess að við á Alþingi mótum laga-, rekstrar- og skattumhverfi þeirra fjármálafyrirtækja sem starfa á Íslandi, alveg eins og með öll önnur fyrirtæki. Við getum breytt hlutunum til batnaðar eða til hins verra eins og gerðist með sparisjóðina. Í dag höfum við möguleika á því að breyta enn á ný, búa til umhverfi sem hvetur til þeirra þátta sem við teljum skipta máli og er okkur mikilvægt í starfsemi sparisjóðanna. Núna um helgina var rifjuð upp með mér saga af Þorsteini Víglundssyni sem var einn helsti stofnandi og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja. Sagan segir að hann og konan hans hafi ekki einu sinni átt reiknivél heldur fengið hana lánaða og svo eyddu þau kvöldunum í að snúa við rúllunum þegar þau reiknuðu saman innlánin og þau viðskipti sem þau áttu í. Svona var ráðdeildin, svona var hugmyndafræðin á bak við sparisjóðina, menn voru að fara með fé nágranna sinna og vildu gera það vel.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði, þegar við horfum á endurreisn sparisjóðanna, hvert við viljum stefna með þá, verðum við að taka tillit til þess að þetta eru ekki bara ríkissparisjóðir heldur er fjölbreytt eignarhaldið á bak við þá og það er ekki hægt að þvinga þá til að fara út í eitthvað sem þeir vilja ekki. Ég mótmæli því hins vegar harkalega að sparisjóðirnir sem heild hafi orðið að einhvers konar vogunarsjóðum, sérstaklega hvað varðar Sparisjóð Strandamanna og Sparisjóð Suður-Þingeyinga, og tek undir þær hugmyndir sem hafa komið hér fram um (Forseti hringir.) að hægt væri að byggja upp einhvers konar landshlutasparisjóði sem mundu veita öfluga og góða þjónustu á sínu starfssvæði.



[15:09]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að standa í þeim sporum að ræða um örlög sparisjóðanna og þá útreið sem þeir hafa fengið á undanförnum árum í kjölfar efnahagshrunsins. Þeir eru aðeins brot af því sem áður var eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson rakti í upphafsræðu sinni. En þannig er það í dag. Hlutverk sparisjóðanna hefur alla tíð verið annað en annarra bankastofnana, þeir hafa átt að vera samfélagslegar stofnanir fyrst og síðast í þeim tilgangi að skila nærsamfélagi sínu hagnaði, en ekki hagnaði til einstakra tiltekinna eigenda eins og hér hefur komið fram. Það var ekki í þeim anda sem sparisjóðirnir voru stofnaðir á sínum tíma. Hugmyndafræðin þegar þeir voru reknir inn á þann vettvang íslenskrar fjármálastarfsemi sem að lokum leiddi þá flesta hverja til falls í kjölfar bankahrunsins var ekki sú sem upphaflega var stofnað til. Það má því segja að fall íslenska fjármálakerfisins hafi ekki leitt til falls þeirrar hugmyndafræði eða hugsjóna sem sparisjóðirnir byggðu á. Sú hugmyndafræði stendur enn fyrir sínu.

Sparisjóðirnir hafa alltaf notið mikils trausts heima í héraði og almennt meðal landsmanna og ef ég man rétt er núna sjöunda árið í röð sem þeir mælast sem sú fjármálastofnun sem viðskiptavinir telja að þeir fái hvað mest út úr og sem nýtur hvað mests trausts í íslensku fjármálalífi.

Eins og fram hefur komið stendur yfir vinna við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins á vegum stjórnvalda, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis með þátttöku sparisjóðanna sjálfra, þeirra sem eftir standa. Það er verið að leita leiða til að endurreisa þá, ef má nota það orð aftur, koma í veg fyrir að þeir falli þá endanlega. Vonandi heyrir þá þetta sparisjóðakerfi ekki sögunni til og vonandi tekst að gera úr því hráefni sem eftir er einhverja mynd af sparisjóðakerfi að nýju. Það er svo sannarlega (Forseti hringir.) vilji til þess meðal almennings í landinu og það er pólitískur vilji til þess sömuleiðis.



[15:11]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er gagnlegt að hyggja að fortíðinni en við megum ekki festa okkur of mikið í henni. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvers vegna sparisjóðirnir féllu. Ég ætla að fullyrða eitt, það eru margháttaðar ástæður fyrir falli þeirra og það eina og sama á alls ekki við um þá alla. Við skulum gæta að því.

Það er heldur ekki nýtt að bankarnir í landinu telji sparisjóðina óþarfa. Þannig hefur það verið í gegnum tíðina. Bankarnir hafa hvað eftir annað lagt til atrennu við sparisjóðina og þannig verður það í framtíðinni. Það sem þarf að koma út úr þessari umræðu er mjög skýr og afdráttarlaus afstaða okkar í þinginu um að við viljum að hér sé við lýði öflugt sparisjóðakerfi sem starfi sem víðast um landið. Það yrði skrumskæling á sparisjóðaforminu ef niðurstaðan yrði sú að settur yrði á laggirnar einn sparisjóður yfir landið allt. Það er ekki viðunandi niðurstaða að mínu mati.

Ég tefldi því fram áðan að það kynni að vera skynsamlegt fyrir okkur í ljósi þeirrar uppstokkunar sem er fram undan hjá sparisjóðakerfinu að sparisjóðirnir væru á einhvern hátt svæðisbundnir og næðu yfir stærri starfssvæði en þeir gera í dag. Það er nokkuð sem mér finnst sannarlega koma til álita að við skoðum sérstaklega. Ég spyr hæstv. ráðherra sérstaklega um þetta mál vegna þess að ég saknaði þess að ekki kæmi nægilega skýrt fram frá hæstv. ráðherra hvort hann teldi yfir höfuð að honum bæri að vinna að því að hér yrði til staðar öflugt, endurreist sparisjóðakerfi.

Sparisjóðirnir gegna gríðarlega miklu hlutverki. Þeir hafa mikið forskot vegna staðarkunnáttunnar innan þessara einstöku sparisjóða og það er gífurlega mikilvægt, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir, að sparisjóðakerfið sé til staðar. Þá þarf hins vegar að mynda einhvern bakhjarl fyrir sjóðina. Sá bakhjarl er ekki til staðar í dag. Sparisjóðirnir gerðu það á sínum tíma með stofnun Sparisjóðabankans en í ljósi þess að þeir eru veikir í dag er mjög líklegt að til þurfi að koma einhver atbeini (Forseti hringir.) hins opinbera. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að slíkur bakhjarl verði myndaður fyrir (Forseti hringir.) sparisjóðakerfið til að geta tekist á við stærri og veigameiri viðfangsefni í byggðunum í landinu.



[15:13]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Fyrst um fortíðina, vegna þess að hv. þm. Árni Johnsen nefndi áðan það stórslys að Sparisjóður Keflavíkur hefði ekki verið endurreistur og vildi meina að í því fælist metnaðarleysi af hálfu ríkisins, þá var það einfaldlega ekki í mannlegu valdi að endurreisa hann enda hefði þurft að eyða til þess meiru en tveimur þriðju af því sem líklegt er að við þurfum að borga vegna Icesave. Slíkt var það stórslys sem þeir óvönduðu menn skildu eftir sig sem höfðu farið ránshendi um þann sparisjóð og deilt út lánum án trygginga til vildarvina og félaga. (REÁ: Búinn að dæma bara?) Það er með ólíkindum en það gjaldþrot virðist vera á góðri leið með að eignast sess í heimssögunni vegna þess að svo lítið fæst upp í kröfur við gjaldþrot Sparisjóðs Keflavíkur að hann sker sig algerlega úr þegar horft er á fjármálastofnanir sem lent hafa í þrotameðferð. (SKK: Hvað …?)

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið talað um framtíðarrekstrarformið. Vegna þess að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr skýrt hvort pólitískur vilji sé til þess að byggja upp sterkt sparisjóðakerfi sem starfi vítt og breitt um landsbyggðina held ég að ég hafi sagt hér að rekstrarforsendurnar eru lykilatriði. Óskhyggjan gjörir þar enga stoð. Ef sérstaða sparisjóðanna, hin margumrædda, er ekki meiri en svo að hún stendur ekki undir rekstrargrunni þeirra, er hún ekki þess virði að þeir séu endurreistir. Það er ekki vilji til þess af minni hálfu að leggja byrðar á ríkissjóð til að halda uppi mörgum smáum sparisjóðum ef það felur í sér viðbótarbyrðar fyrir ríkissjóð. Fjármálakerfið okkar er allt of stórt og það er ekki forsvaranleg meðferð á almannafé að reyna að halda því enn stærra ef ekki eru rekstrarforsendur fyrir þeim einingum og þær geta ekki sjálfar komið sér upp burðugu samkeppnisforskoti sem réttlætt geti tilveru þeirra til lengri tíma litið.